Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
11.2.2011 | 11:43
Evrópusambandið er ólýðræðislegt bákn
22.12.2010 | 18:00
Undarlegt Sérrit Seðlabanka um Peningastefnu eftir höft
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.11.2010 | 22:48
Frosti 5614 : Áherslur
25.11.2010 | 00:44
Hvað heldur aftur af rafrænum kosningum?
14.11.2010 | 16:56
Er Íslendingum treystandi fyrir beinu lýðræði?
Stundum heyrast þau sjónarmið að það sé mjög varasamt að fela íslenskum kjósendum málskots- og frumkvæðisrétt. Þeir myndi þá bara hafna lögum um aukna skatta og heimta á sama tíma lög um aukna þjónustu og vera almennt óábyrgir í ákvörðunum. Ríkið færi fjótlega á hausinn.
Þessu til stuðnigs er vísað til Kaliforníu sem býr við einhverskonar beint lýðræði og rambar á barmi gjaldþrots. Ef vísað er til góðrar reynslu Svisslendinga af beinu lýðræði þá er hún skýrð í burtu með því að sú þjóð hafi meiri lýðræðisþroska en aðrar þjóðir. Íslendingar séu hinsvegar mjög vanþroska og vísir til að klúðra þessu eins og öllu öðru.
Rökin gegn þessari afstöðu eru tvenns konar. Í fyrsta lagi eru leikreglur beins lýðræðis ekki þær sömu í Kaliforníu og Sviss. Í öðru lagi hefur reynslan sýnt að kjósendur verða ábyrgari og sýna meiri skynsemi í ákvörðunum ef þeir fá meiri áhrif.
Stigsmunur á Kaliforníu og Sviss
Í Sviss er mikil áhersla lögð á að ná samkomulagi milli þings og þeirra kjósenda sem vilja þjóðaratkvæði um tiltekið mál. Þetta millistig virðist einmitt vanta í Kaliforníu og kannski liggur vandinn í því.
Þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslunni hafa kjósendur í Sviss yfirleitt val um upprunalega tillögu þingsins og málamiðlunartillögu sem tekur þá mið af sjónarmiðum þeirra sem vildu stöðva lögin. Þjóðin getur hafnað báðum tillögum eða samþykkt aðra hvora. Oft er málamiðlunin valin og útkoman er þá sú að eitthvað tillit er tekið til sjónarmiða þings, minnihlutahópa og meirihluta kjósenda.
Hvernig varð þessi ólgandi suðupottur vagga nútímalýðræðis?
Áður en beint lýðræði var tekið upp í Sviss var landið ólgandi suðupottur ólíkra þjóðarbrota, tungumála og trúarbragða. Beint lýðræði var tekið upp í kjölfar borgarastríðs og síðan hefur Sviss verið til fyrirmyndar sem friðelskandi og farsæl þjóð. Í borgarastríðinu fyrir rúmum 130 árum hefðu fáir trúað því að æstur almúginn í Sviss hefði þroska hvað þá vilja til að taka ákvarðanir sem höfðu hag heildarinnar að leiðarljósi.
Lýðræðisþroski og farsæld er bein afleiðing af beinu lýðræði
Í fyrstu gæti virst óábyrgt að fela kjósendum úrslitavald yfir störfum þingsins. En reynslan hefur sýnt hið gagnstæða, að kjósendur eru í eðli sínu varkárir, jafnvel varkárari en þingið.
Það að kjósendur geti skotið öllum nýjum lögum til þjóðaratkvæðis setur jákvæða pressu á þingið að vanda sig og sú freisting að skara eld að köku sérhagsmunaafla hverfur. Enda myndi þjóðin stöðva slíka löggjöf.
Reynslan í Sviss hefur sýnt að kjósendur eru íhaldssamari í útgjöldum og ríkisrekstri en þingið. Einnig hefur komið í ljós að þeir kjósendur sem hafa vald til að hafna fjárlögum í sínu umdæmi eru 30% ólíklegri til að svíkja undan skatti en hinir. Kjósendur sem hafa raunveruleg áhrif axla sína ábyrgð frekar en aðrir.
Áhrifalausir kjósendur hafa hins vegar lítinn hvata til að setja sig inn í einstök mál á starfstíma þingsins. Valdið til að kjósa út þingmenn er ómarkvisst og gefur kjósendum falskt öryggi. Rödd kjósenda heyrist sjaldan nema þegar áföll dynja á landinu og jafnvel þá taka stjórnvöld lítið mark á kjósendum.
En hafi kjósendur rétt til að skjóta málum til þjóðaratkvæðis, svo ekki sé minnst á frumkvæði að nýjum lögum, þá er vilji þjóðarinnar og ábyrgð alltaf til staðar.
Sagan sýnir að aukin áhrif kjósenda leiða til meiri áhuga þeirra á málefnum og ákvörðunum ríkisvaldsins. Með því dregur úr valdi og áhrifum stjórnmálaflokka. Íbúarnir verða vakandi og upplýstir um eigin málefni og taka virkari þátt í að móta framtíð landsins.
Ekkert bendir til þess að Svisslendingar séu svo sérstakir að þeim einum sé treystandi til að ná árangri með beinu lýðræði. Það er orðið löngu tímabært að næsta þjóð taki það skref sem Sviss tók fyrir 130 árum: að treysta kjósendum.
1.11.2010 | 00:09
Samstaða, ágreiningur og lokaorðið
17.10.2010 | 19:03
Aukið lýðræði - Svissneska leiðin
Það er óumdeilt að Sviss býr við meira og beinna lýðræði en flest önnur ríki og þannig hefur það verið í meira en 130 ár. Á þeim tíma hafa þeir haldið áfram að þróa lýðræðisleg vinnubrögð og útkoman er sáttir íbúar og hagkerfi sem gengur eins og klukka. Svo virðist sem Svisslendingum hafi tekist að ná fram kostum fulltrúalýðræðis og beins lýðræðis án teljandi vandkvæða. Um þetta má fræðast í bókinni Guidebook to Direct Democracy (útg. 2010) sem lýsir beinu lýðræði í Sviss og tekur all mörg dæmi um mál og hvernig þeim reiddi af. Ég mæli með þessari bók fyrir alla þá sem hafa áhuga á nútímalýðræði. Eftirfarandi eru nokkrir punktar sem mér fannst áhugaverðir.
Í Sviss einkenndist tímabilið frá 1798 til 1848 af óreiðu og uppþotum sem þó leiddi að lokum til stofnunar þjóðríkis með beinu lýðræði sem bundið var í stjórnarskrá. Beint lýðræði var ekki hugmynd stjórnvalda heldur borgarana sjálfra sem komu saman í þúsunda tali og kröfðust þess að stjórnvöld tækju fullt tillit til vilja kjósenda í öllum málum.
Vandinn við fulltrúalýðræði er að þar fá stjórnmálamenn einkarétt á fjölda valdsviða og þeir ráða því hvað löggjafinn tekur á dagskrá. Þetta er rótin að ójafnvægi milli stjórnmálamanna og kjósenda. Kjósendur kjósa en stjórnmálamenn taka allar ákvarðanir.
Beint lýðræði felur í sér að kjósendur geta tekið ákvarðanir og þeir hafa úrslitavaldið. Í Sviss starfar þingið með álíkum hætti og við þekkjum en kjósendur taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um lagasetningu ef eitt af þessu þrennu ber að:
1) Þingið leggur til breytingu á stjórnarskrá.
2) Fleiri en 50.000 kjósendur (1%) óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu innan 100 daga frá því ný lög eru samþykkt af þinginu.
3) Fleiri en 100.000 (2%) kjósendur óska eftir því að leggja fram frumvarp að lögum ber þinginu að taka við málinu og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það kemur á óvart hversu lágt hlutfall kjósenda þarf til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu, aðeins 1%. Kosturinn við að hafa hlutfallið svona lágt er að þannig er fámennum hópum kjósenda gefin uppbyggileg leið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ef stjórnvöld fallast ekki á sjónarmiðin þá er málinu vísað til þjóðarinnar sem hefur lokaorðið.
Það kemur líka á óvart hversu sjaldan hefur reynt á þetta. Frá því þetta fyrirkomulag var tekið upp árið 1848 hafa verið sett 2200 lög í Sviss og í aðeins 7% tilfella verið óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu áður en þau tóku gildi.Undanfarinn áratug hafa kjósendur fylgt stjórnvöldum að málum í 75% tilfella. Þeir sem tapa málum geta þó huggað sig við að hafa fengið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Í öðrum lýðræðisríkjum er þessi farvegur ekki jafn greiður og afleiðingin er að óleyst mál leiða fremur til uppþota.
Óttinn við að treysta kjósendum til að taka skynsamlegar ákvarðanir virðist mjög útbreiddur í öðrum lýðræðisríkjum en Sviss. Sumir stjórnmálamenn virðast jafnvel efast um að venjulegt fólk hafi nægilegan skilning á framförum og hvaða fórnir þurfi að færa til að ná þeim fram. Kjósendur muni t.d. alltaf leggjast gegn skattahækkunum. Menn hafa bent á Kaliforníufylki sem víti til varnaðar, en þar hafa tilraunir stjórnvalda til að hækka skatta verið felldar í atkvæðagreiðslum.Að einhverju leiti getur þessi munur á útkomu skýrst af mismunandi aðferðum, í Sviss sem dæmi lögð mikil áhersla á að sætta sjónarmið áður en gengið er til atkvæðis.
Í Sviss hefur komið í ljós að sé kjósendum treyst þá verða þeir ábyrgari. Í þeim Kantónum þar sem fjárlög eru skilyrðislaust borin undir íbúana eru undanskot frá skatti 30% minni en í kantónum sem gera það ekki.
Íbúar Sviss virðast vera hæstánægðir með núverandi fyrirkomulag. Þeir sjá ekki eftir þeim tíma sem fer í að setja sig inní mál og kjósa. Í venjulegu ári er kosið fjórum sinnum og flest tengjast málin fylkinu (kantónunni). Gögn eru send til kjósenda fjórum vikum fyrir kjördag. Kjósendur geta sent atkvæði sitt inn með pósti. Prófanir á rafrænni útfærslu eru hafnar.
Aðeins kjósendur geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss, en ekki stjórnvöld. Þetta er býsna veigamikið atriði því þannig er komið í veg fyrir að stjórnmálamenn freistist til að beita þjóðaratkvæði sem vopni í pólitískum átökum.
Hið nútímalega lýðræði Svisslendinga hefur skilað þeim góðum árangri og er vissulega fyrirmynd sem við ættum að skoða mjög vandlega. Þetta kerfi nýtir kosti fulltrúalýðræðis en þó þannig að kjósendur geta stöðvað ný lög og einnig haft frumkvæði að nýjum lögum. Kjósendur hafa lokaorðið ef þeir vilja.
Þarna er kerfi sem er þrautreynt og virkar. Það er mjög freistandi að innleiða svipað fyrirkomulag hér á landi.
12.10.2010 | 19:52
Þróun stjórnarskrárinnar
Þróun stjórnarskrárinnar er afar forvitnileg en um hana má lesa í skýrslu sérfræðinefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar sem kom út árið 2005: "Ágrip af þróun stjórnarskrárinnar". Skýrslan er 30 blaðsíður en hér eru nokkrir punktar úr henni:
Ísland hefur þrisvar fengið stjórnarskrá. Sú fyrsta tók gildi árið 1874 og veitti Alþingi löggjafarvald. Önnur tók gildi árið 1920 í kjölfar fullveldisins árið 1918. Sú þriðja kom með stofnun lýðveldisins árið 1944.
Allar tóku þessar stjórnarskrár mið af þeirri dönsku. Í gegnum tíðina hafa komið fram fjöldi tillagna um breytingar á þessum stjórnarskrám en fæstar verið samþykktar. Allar tilraunir til heildarendurskoðunar á stjórnarskránni frá 1944 hafa mistekist en allmargar breytingar hafa náð í gegn.
Stjórnarskrá um sértæk málefni Íslands 1874
Í kjölfar stöðulaganna var Íslandi gefin stjórnarskrá um sérmálefni sín á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar, árið 1874. Með henni fékk Alþingi löggjafarvald í sérmálum Íslands, takmarkað af neitunarvaldi konungs (sem ráðherra fór með). Framkvæmdavaldið var hluti dönsku stjórnsýslunnar og yfir það settur Íslandsráðherra (dómsmálaráðherra Dana). Mikilvægar umbætur í dómsmálum sem komið höfðu inn í dönsku stjórnarskrána árið 1849 náðu ekki inn í þá Íslensku. Hæstiréttur Dana var æðsti dómstóll Íslands.
Árið 1903 voru gerðar nokkrar breytingar, þingmönnum fjölgað, kosningaréttur karla rýmkaður og sett inn ákvæði um ráðherra.
Árið 1915 komu meðal annars inn ákvæði um landsdóm og lagður niður réttur embættismanna til eftirlauna við brottvikningu eða flutning. Konungskjör þingmanna var afnumið, konur fengu kosningarétt og ákvæði um að enginn skyldi gjalda til annarar guðsdýrkunar en hann sjálfur aðhylltist.
Ný stjórnarskrá 1920
Ísland fékk fullveldi árið 1918 og árið 1919 lagði Jón Magnússon fram frumvarp að stjórnarskrá konungsríkisins Íslands sem innifól þær breytingar sem leiddi af fullveldi. Frumvarpið fór í gegn með minniháttar breytingum og stjórnarskráin var staðfest árið 1920. Eitt af því sem kom inn var réttur embættismanna til eftirlauna sem hafði verið felldur niður árið 1915.
Á árunum 1923 - 1942 komu fram margar tillögur að breytingum sem meðal annars lutu að fækkun ráðherra, fækkun þingmanna, þinghald annað hvert ár, landið eitt kjördæmi, þing ein málstofa, lækkun kosningaaldurs, ofl.
Árið 1934 var kjördæmaskipting fest í stjórnarskrá, þingmönnum fjölgað, landskjör afnumið og kosningaréttur lækkaður í 21 ár. Fjárlög skyldu lögð fyrir sameinað þing.
Árið 1942 var kosningafyrirkomulagi breytt og samþykkt frávik sem gerði landsmönnum kleyft að samþykkja breytingar á stjórnarskrá vegna sambandsslita við Dani í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Stjórnarskrá lýðveldisins 1944
Í upphafi árs 1940 var skipuð nefnd til að semja frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið sem menn sáu færast nær. Nefndin lauk frumvarpinu um mitt árið en það var ekki lagt fram á Alþingi. Kannski vegna þess að Ísland var hernumið af bretum í maí 1940.
Í maí 1942 samþykkti Alþingi að kjósa fimm manna milliþinganefnd til að gera tillögur að breytingum á stjórnskipunarlögum í samræmi við vilja Alþingis um stofnun lýðveldis. Nefndinni vannst vel og nún skilaði uppkasti að nýrri stjórnarskrá í júlí sama ár. Í september 1942 var fjölgað í nefndinni um þrjá svo allir flokkar ættu fulltrúa hún skilaði áliti sínu í apríl 1943 en lagði til að gildistaka yrði miðuð við 17. júní 1944.
Nýja stjórnarskráin var að mestu óbreytt frá þeirri fyrri, nema að felld voru út ákvæði um konung og sett inn ákvæði um forseta. Enda má lesa úr áliti nefndarinnar að hún hafi gert ráð fyrir því að öllu víðtækari endurskoðun á stjórnarskránni myndi bíða betri tíma.
Árið 1945 ákvað Alþingi að skipa tólf manna stjórnarskrárnefnd til að vinna að heildurendurskoðun stjórnarskrárinnar en hún lognaðist út af. Árið 1947 var nefndin sett af stað aftur með sjö mönnum en árið 1955 hafði lítið miðað og lítið fundað þótt nefndin væri formlega til. Árið 1972 var kosin sjö manna nefnd til að vinna að heildarendurskoðun sem skilaði af sér 1983 en ekki náðist sátt um niðurstöðu.
Heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar frá 1944 hefur því aldrei verið lokið. Fjölmargar tillögur hafa komið fram um breytingar en fæstar náð í gegn. Allnokkrar breytingar hafa þó verið gerðar. Stjórnarskránni hefur verið breytt í sex skipti og alls 45 greinum verið breytt en 34 greinar eru ennþá óbreyttar.
Það verður fróðlegt að skoða öll þau frumvörp sem komið hafa fram um tillögur að endurbótum á stjórnarskránni. Meira um það síðar.
Heimild:
Ágrip af þróun stjórnarskrárinnar - sérfræðinefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar - Unnið að beiðni nefndar um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands - Desember 2005.
http://www.stjornarskra.is/media/stjr_itarefni/ST-N_(2005)_agrip_af_troun_stjskr.doc
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.10.2010 | 18:21
Framboð til stjórnlagaþings
Þá er það ákveðið, ég er kominn í framboð til stjórnlagaþings.
Nái ég kjöri mun ég fyrst og fremst beita mér fyrir beinna lýðræði og skýrari hömlum og eftirliti með valdastofnunum ríkisins. Á komandi dögum mun ég skrifa nokkra pistla um þetta málefni til að kynna áherslur mínar og hugmyndir nánar.
Allar ábendingar og hugmyndir um þetta efni velkomnar. Hvað finnst þér mikilvægast að hafa í nýrri stjórnarskrá?
Skoða Facebook síðu framboðsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.9.2010 | 10:49
Hvenær fáum við skoða reglur ESB klúbbsins á íslensku?
Segja má að Lissabon sáttmálinn innihaldi leikreglur ESB klúbbsins. Hann er nýjasti sáttmáli Evrópusambandsins og byggir á stjórnarskrá þess sem tók reyndar aldrei gildi enda var henni hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi.
Þótt Lissabon sáttmálinn sé nánast samhljóða hinni óvinsælu stjórnarskrá ESB þá var ákveðið að bera hann ekki undir þjóðaratkvæði í aðildarríkjunum. Ekki er víst að íbúar aðildarríkjanna hefðu samþykkt sáttmálann og framkvæmdastjórn ESB taldi greinilega vissara að láta ekki á það reyna.
Þjóðþing aðildarríkjanna samþykktu flest sáttmálann nema í Írlandi en írsk lög kröfðust þjóðaratkvæðis. Svo fór að írska þjóðin hafnaði sáttmálanum. ESB breytti þá sáttmálanum lítillega, efldi kynningarstarfið verulega og ári síðar var kosið aftur. Þá sögðu Írar já og Lissabon sáttmálinn varð staðreynd.
Þess má reyndar geta að þjóðþing aðildarlandana fengu aldrei að sjá Lissabon sáttmálann í heild sinni áður en þau samþykktu hann. Þess í stað var sáttmálinn lagður fram sem 3000 breytingatillögur við óteljandi eldri lagagreinar. Því verður vart trúað að margir hafi lesið eða skilið efnið og kannski var það einmitt ætlun forystumanna ESB að sem fæstir gætu kynnt sér það.
Nú er hægt er að finna Lissabon sáttmálann á netinu á erlendum málum en Utanríkisráðuneytið hefur af einhverjum ástæðum ekki séð ástæðu til að þýða þessan mikilvæga sáttmála sambandsins á Íslensku eða kynna hann þjóðinni. Öll töf á þýðingu sáttmálans á Íslensku styttir að sjálfsögðu þann tíma sem Íslendingar hafa til að kynna sér og skiptast á skoðunum um grundvallarleikreglur ESB klúbbsins. Er það kannski meiningin?
Utanríkisráðuneytið hefur ekki enn getað upplýst hvenær Lissabon sáttmálinn verður aðgengilegur á Íslensku.
Í lokin er rétt að velta því fyrir sér hversu margir af þeim þingmönnum sem studdu aðildarumsókn Íslands í ESB höfðu áður lesið og skilið Lissabon sáttmálann?