Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Evrópusambandið er ólýðræðislegt bákn

euvote
Í Evrópusambandinu er lagasetning í höndum framkvæmdastjórnarinnar, sem er skipuð 27 fulltrúum sem eru ekki kosnir, heldur tilnefndir af aðildarríkjum. Framkvæmdastjórnin ein hefur vald til að leggja fram lagafrumvörp og hún hefur auk þess allt framkvæmdavald. Þrískipting valdsins er því ekki fyrir hendi.

Evrópuþingið hefur ekki vald til að leggja fram lagafrumvörp. Þingið hefur aðeins eftirlit með framkvæmdastjórninni og samþykkir lagafrumvörp hennar. Þingið getur ekki gert breytingar á lagafrumvörpum, og þarf hreinan meirihluta þingmanna til að stöðva frumvarp. Til að lýsa vantrausti á framkvæmdastjórnina þarf ⅔ þingsins.

Lýðræðishalli
Í Evrópusambandinu er sérstakt orð yfir þann áhrifamissi sem kjósendur mega þola þegar ákvarðanataka flyst frá þjóðþingum aðildarríkja Evrópusambandsins til Brussel. Orðið er lýðræðishalli. 

Í Brussel eru flestar ákvarðanir teknar ef embættismönnum, en ekki af lýðræðislega kjörnum fulltrúum. Þróunin hefur frá upphafi verið sú að ákvarðanataka í sífellt fleiri málaflokkum færist frá lýðræðislega kjörnum þjóðþingum til embættismanna í Brussel. Lýðræðishallinn fer því vaxandi.

Niðurstöður könnunar meðal íbúa Evrópusambandsins (*1) virðast styðja þetta. Þannig töldu 56% svarenda rödd sína skipta máli í landsmálum, en hinsvegar töldu aðeins 34% rödd sína skipta máli í Evrópumálum.

Fjarlægð eykst milli kjósenda og fulltrúa
Þegar ákvarðanir flytjast frá þjóðþingum til Brussel, þá eykst um leið fjarlægð milli kjósenda og þeirra sem véla um ákvarðanir og löggjöf. Það verður því mun erfiðara fyrir kjósendur að ná sambandi við kjörna fulltrúa sína, eða safnast saman og mótmæla. 
Einnig verður erfiðara fyrir fulltrúa sem lifir og hrærist í Brussel að setja sig í spor fjarlægra kjósenda.

Lýðræðið virðast vera til trafala
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur rekið sig á það að íbúum aðildarríkjanna er ekki fyllilega treystandi til að kjósa yfir sig meiri samruna og samþjöppun valds í Brussel.  Það olli töfum á samrunanum, þegar ný stjórnarskrá Evrópusambandsins var felld í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi.
Í stað þess að taka mark á vilja kjósenda, lagði framkvæmdastjórnin fram nýjan sáttmála (Lissabon) sem fól í sér nánast sömu breytingar og stjórnarskráin sem kjósendur höfðu hafnað. 
Lissabon sáttmálinn var hins vegar ekki settur í þjóðaratkvæði, heldur var hann samþykktur af þjóðþingum aðildarríkjanna. Aðeins Írland lagði hann í dóm kjósenda sem sögðu “nei”. Þar sem það var rangt svar, var “fræðslan” stórefld og Írar látnir kjósa aftur.

Minnkandi þátttaka í kosningum til Evrópuþings
Þátttaka í kosningum til Evrópuþingsins hefur farið minnkandi frá upphafi og er nú komin niður í 43%. Áhugaleysi kjósenda skýrist kannski af því hve Evrópuþingið er áhrifalaust. Það er í raun framkvæmdastjórnin sem hefur löggjafarvaldið og kjósendur geta ekki kosið fulltrúa í hana.

Frumkvæðisréttur fólksins er til málamynda
Í Lissabon sáttmálanum kom inn ákvæði (*2) um að ein milljón íbúa Evrópusambandsins geti  skorað á framkvæmdastjórnina að leggja fram frumvarp að lögum um tiltekið málefni. 
Þess er krafist að undirskriftir safnist frá 0.5% kjósenda, sem koma frá að minnsta kosti þriðjungi aðildarríkja.
Vandinn er sá að það krefst mikilla fjármuna að safna milljón undirskriftum frá svo mörgum ríkjum og engir styrkir eru í boði til þess.
Jafnvel þótt takist að safna undirskriftum þá er samt erfiðasti hjallin eftir, því framkvæmdastjórnin hefur algert sjálfdæmi um hvort hún tekur málið á dagskrá eða ekki. 
Þannig söfnuðust meira en 1,2 milljón undirskriftir til stuðnings þeirri tillögu að Evrópuþingið hætti sínu kostnaðarsama flakki milli Brussel og Strasburg. Forsetar Evrópuþingsins létu sér fátt um finnast og höfnuðu því að tillagan yrði rædd í þinginu.

Vaxandi gjá á milli leiðtoga og íbúa
Skoðanakannanir á vegum Evrópusambandsins (*1) sýna vaxandi andstöðu almennings við flutning ákvarðana frá aðildarríkjum til Brussel. Á sama tíma vinna leiðtogarnir að sífellt nánari samruna og miðstýringu. Þetta veit ekki á gott.  
Kannanir staðfesta einnig að þeim fer fækkandi sem finnst sambandið “standa fyrir lýðræði”, hlutfallið lækkaði úr 26% í 19% milli árana 2009 og 2010. Aðeins 50% íbúa telja “skilvirkni lýðræðis viðunandi” í Evrópusambandinu, en það er lækkun úr 54% frá því ári áður. (*1)

Niðurstaða
Evrópusambandið er ekki lýðræðislegt, allavega ekki í þeim skilningi að þar sé farið að vilja íbúanna eða fylgt góðri venju um aðskilnað framkvæmda- og löggjafarvalds.

Þrátt fyrir fögur fyrirheit er staðreyndin sú að Evrópusambandið er ólýðræðislegt bákn sem þróast hröðum skrefum til meiri miðstýringar, þvert gegn vilja íbúanna.

Heimildir:

(*1) Könnun Eurobarometer frá því í Maí 2010, var birt í Nóv 2010
http://ec.europa.eu/public_opinion/archives/eb/eb73/eb73_vol1_fr.pdf

(*2) Frumkvæðisréttur:
http://ec.europa.eu/dgs/secretariat_general/citizens_initiative/index_en.htm

Undarlegt Sérrit Seðlabanka um Peningastefnu eftir höft

Screen shot 2010-12-22 at 17.40.26
Þrátt fyrir titil Sérritsins sé "Peningastefna eftir höft" þá fer býsna drjúgur hluti í að verja þá ógæfulegu peningastefnu sem Seðlabankinn kaus að fylgja frá því krónunni var fleytt árið 2001 og kennd er við verðbólgumarkmið, þar sem eina stýritækið er vextir.
 
Niðurstaða skýrsluhöfunda, sem vart geta talist hlutlausir, er sú að Seðlabankinn hafi byggt peningastefnu sína á “hugmyndum hagfræðinnar um besta fyrirkomulag peningamála”. Það  sem úrskeiðis fór er svo að mestu skrifað á gerð íslensks þjóðarbúskapar, óvenjulegar aðstæður, alþjóðavæðingu innlends fjármálakerfis og ofvöxt þess og fleira í þeim dúr.  Yfirsóp af þessu tagi vekur mann óneitanlega til umhugsunar um hvort núverandi stjórnendur Seðlabankans séu á réttri leið.
 
Þótt í Sérriti Seðlabankans sé vitnað í sæg af heimildum, þá hlýtur að teljast dularfullt að geta ekki skýrslu sem nóbelsverðlaunahafinn og hagfræðingurinn Joseph Stiglitz skrifaði fyrir Seðlabankann árið 2001 “Monetary and exchange rate policy in small open economies: The case of Iceland”. Hún fjallar nákvæmlega um sama efni og Sérritið.
 
Stiglitz, sem er sérfræðingur í fjármálakreppum, taldi Ísland árið 2000 hafa mörg einkenni sem leitt gætu til kreppu. Hann hvatti því stjórnvöld og Seðlabanka til að grípa þegar til margvíslegra aðgerða til að afstýra hugsanlegri fjármálakreppu. Því var ekki sinnt.
 
Engu er líkara en að Seðlabankinn hafi stungið skýrslu Stiglitz ofan í skúffu. Kannski var hún á skjön við þá stefnu sem Seðlabankinn taldi “besta fyrirkomulag peningamála”. Enda varaði Stiglitz beinlínis við því að einblínt væri á verðbólgumarkmið og líka því að treysta á vaxtatækið eitt og sér.  Maður spyr sig hverjir báru ábyrgð á því að þessum viðvörunum hans var ekki sinnt? Eru þeir sömu kannski enn í lykilstörfum innan Seðlabankans?
 
Í síðari hluta Sérrits Seðlabankans er vikið að hugsanlegum úrræðum til að auka stöðugleika eftir að höftum sleppir. Þar eru reyndar talin upp mörg af þeim meðulum sem Stiglitz mælti með þótt höfundar Sérritsins kjósi fremur að vitna í aðrar heimildir.  
 
Seðlabankinn leggur til að þegar höftum lýkur verði tekin upp stefna sem hann vill kalla “verðbólgumarkmið-plús” þar sem plúsinn stendur fyrir að þeim tækjum verði beitt sem lýst er í kafla 6 í Sérritinu, í stað þess að treysta eingöngu á stýrivexti. Það hljómar í sjálfu sér ágætlega, en þó má aldrei gleyma því að markmið peningastefnu er ekki stöðugleikinn í sjálfu sér, heldur hlýtur markmiðið ávallt að vera aukin hagsæld almennings í landinu.
 
Þá víkur að þeim hluta Sérritsins sem vekur allra mesta furðu. En það er sá kafli sem fjallar um að gengi krónunnar hafi rýrnað um 99,95% á 90 ára tímabili í samanburði við dönsku krónuna. Ekki er minnst á þá staðreynd að á sama tíma tókst að koma landinu úr hópi fátækustu þjóða Evrópu í hóp ríkustu þjóða í heimi. Hér óx hagsæld margfalt hraðar en í Danaveldi á þessu tímabili.
 
Verðrýrnun krónunnar er í Sérritinu talin vísbending um getuleysi Íslendinga til að halda úti eigin gjaldmiðli. Á blaðsíðu 13 kemur reyndar fram að hér hefur atvinnustig að jafnaði verið hærra en í löndum sem notið hafi lægri verðbólgu. Menn geta svo auðvitað haft skoðun á því hvort sé verra þjóðarböl viðvarandi atvinnuleysi eða viðvarandi verðbólga, en um það stendur valið að nokkru leiti.
 
Höfundar Sérritsins skoða einnig kosti og galla þess að taka hér upp aðra mynt og telja “Veigamikil rök hníga að því” að festa gengið við evru, frekar en dollar eða aðrar myntir og vísa þar til neðanmálsgreinar sem segir einmitt “veigamikil rök hníga að því að tengja við stærri gjaldmiðil eins og evru eða Bandaríkjadollar”.  En hver eru þá þessi veigamiklu rök? Því er ekki svarað í Sérritinu enda eru þau vandfundin. Kannski veit Ríkisstjórnin svarið og þá væri auðvitað heiðarlegast að vitna í þá heimild.
 
Reyndar er minnst á það í sérritinu að íslenska hagkerfið hefur afar litla fylgni við hagkerfi evrulands og í raun er fylgnin öfug á framboðshliðinni.  Í Sérritinu er lítið gert úr þessu þótt ljóst megi vera að afleiðingarnar af inngöngu í slíkt myntbandalag gæti haft skelfilegar afleiðingar fyrir Ísland. Þess í stað er rætt um ætlaða kosti stórra myntsvæða og hér sé því best að taka upp evru og þá ganga í Evrópusambandið til að fá stuðning Seðlabanka Evrópu.
 
Hvergi er minnst á þá staðreynd að sífellt fleiri málsmetandi hagfræðingar telja framtíð evrunnar vægast sagt þyrnum stráða og ekki séð fyrir endann á þeirri skuldakreppu sem nú geisar í evrulandi.
 
Rétt er að benda á það sem vel er gert í Sérritinu og í því má finna margvíslegan fróðleik. Ágætlega er fjallað um þær hættur sem felast í því að taka einhliða upp evru eða aðrar myntir, hvort sem það er gert með myntráði eða öðrum hætti.
 
Höfundar Sérritsins fá líka plús fyrir að halda því til haga á bls. 44 að fjöldi rannsókna og reynsla annara ríkja sýnir að aðhaldsaðgerðir á útgjaldahlið eru vænlegri leið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs en sú leið að auka skattaálögur á fyrirtæki og heimili. Fjármálaráðherra mun eflaust fagna þessum fréttum.
 
Fyrir þá sem vilja kynna sér hvað gæti tekið við er höftum sleppir mæli ég með kafla 5. “Umbætur á umgjörð efnahagsstefnunnar” og kafla 6. “Breytingar á útfærslu verðbólgumarkmiðsins”.
 
Einnig mæli ég eindregið með því að allir lesi skýrslu Stiglitz frá 2001.
 
Að lokum þetta. Sérrit Seðlabankans um Peningastefnu eftir höft hefði gjarnan mátt sleppa því að sópa yfir þau afdrifaríku  mistök sem hávaxtastefnan var í reynd. Sérritið bætir svo gráu á svart með því að gera lítið úr þeirri vá sem þjóðinni er búin með fasttengingu við evru. Einnig er dapurlegt að hvergi sé getið skýrslu Stiglitz sem varaði við og benti á úrræði árið 2001. Ef menn eru á annað borð að verja tíma í að greina hvað fór úrskeiðis í peningastefnunni þá þarf um leið að svara því hvers vegna menn hlustuðu ekki á aðvaranir sem bárust í tæka tíð.
 
Sérritið: http://www.sedlabanki.is/?PageID=13&NewsID=2678
Stiglitz: http://www.sedlabanki.is/uploads/files/WP-15.pdf

Frosti 5614 : Áherslur

frostinr
Stjórnlagaþing er tækifæri til að koma á nútíma legu og lýðræðislegu stjórnarfari á Íslandi og ég hef mikinn áhuga á að leggja mitt af mörkum í því verkefni. Eftirfarandi eru nokkur atriði sem ég tel vert að hafa í huga við gerð nýrrar stjórnarskrár.
 
Aukin áhrif kjósenda
Það er mikilvægt að tryggja kjósendum aukin áhrif á störf þingsins. Hér getum við lært af 130 ára reynslu Svisslendinga en þar getur hluti kjósenda skotið nýjum lögum til þjóðaratkvæðis eða haft frumkvæði að nýjum lögum.
 
Fullveldið
Aðeins þjóðin sjálf geti tekið ákvarðanir sem skerða fullveldið. Gera ætti kröfu um aukinn meirihluta, enda þarf að vera  breið samstaða um ákvarðanir af þessu tagi.
 
Eftirlit og gegnsæi
Kjósendur eiga að hafa aðgang að öllum opin berum gögnum og geta lagt spurningar fyrir þingið.  Umboðsmaður alþingis á að hafa eftirlit með því að ný lög standist stjórnarskrá.
 
Forsetinn
Margir hafa viðrað efasemdir um tilgang forseta embættisins. Ég tel það ótvírætt kost fyrir smáþjóð að eiga forseta sem hefur aðgang að þjóðhöfðing jum annarra ríkja og stórvelda.
 
Ráðherrar
Þingið kjósi forsætisráðherra en hún/hann velji aðra ráðherra. Þingið þarf þó að hafa trú á því vali. Takmarka ætti þann tíma sem ráðherrar sitja að völdum. Þeir geti ekki verið þingmenn á sama tíma.
 
Kjördæmin
Ég vil skoða kosti þess að kjósa helming þingmanna úr þrímenningskjördæmum en hinn helminginn á landsvísu.  Skoða mætti persónukjör í bland við lista flokkana.
 
Þjóðkirkja
Ég tel ekki mjög brýnt að stjórnlagaþing taki afstöðu til þjóðkirkju. Þetta er mál sem mætti fremur leggja fyrir þjóðaratkvæði.
 
Vöndum til verks
Nýja stjórnarskráin þarf að kveða skýrt á um grund vallar atriði eins og þrískiptingu valds, hlutverk forseta, meðferð dómsvalds, aukið gegnsæi og eftirlit með stjórnvöldum og ýmislegt annað sem of lengi hefur verið of óljóst eða hreinlega vantað.
 
Ég er bjartsýnn á að stjórnlagaþingi takist að semja nýja og mun haldbetri stjórnar skrá en þá sem við höfum í dag.  
 
Kosningarnar verða á laugardaginn og ég vona að þú setjir auðkennistöluna mína 5614 mjög ofarlega á kjörseðilinn og hvetjið sem flesta til þess að gera það sama. 

Hvað heldur aftur af rafrænum kosningum?

Kostnaður við þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave samninginn var áætlaður 230 milljónir, eða álíka og kostnaðurinn við alþingiskosningar vorið 2009. 
 
Kostnaður við kosningu til stjórnlagaþings gæti verið um 100 milljónir og svo verða drög að stjórnarskrá lögð fyrir þjóðina sem kostar 200 milljónir. 
 
Mjög stór hluti kjósenda hefur aðgang að tölvu og gæti því kosið heima hjá sér. Þeir fáu sem ekki treysta sér til að nota tölvu, gætu mætt á kjörstað eða kosið utankjörfundar eða sent atkvæði í pósti. 
 
Það virðist augljóst að tölvuvæðing kosninga myndi spara stóran hluta þess kostnaðar sem fellur til í kosningum og í talningu atkvæða. En hvers vegna hefur þetta ferli ekki verið tölvuvætt? 
 
Í 5. gr. stjórnarskrá er ákvæði um að forseti skuli kjörinn í <span>leynilegri</span> kosningu og í 31. gr. er ákvæði um að þingmenn skulu kosnir í <span>leynilegri</span> kosningu. 
 
Kjósandinn á því að geta kosið án þess að hægt sé að sanna hvað hann kaus. Leyndin er réttur kjósandans. En leyndin virðist líka talin veita vörn gegn því að kjósandinn verði beittur þvingunum eða honum mútað til að kjósa með öðrum hætti en hann ætlaði sér. 
 
Í aðdraganda Icesave kosninganna bauðst DeCode til að útvega kerfi (Íslendingaval) sem gæti tryggt kjósendum nafnleynd í rafrænum kosningum og sparað mikinn kostnað. Ekki var dregið í efa að það kerfi dygði en stjórnvöld afþökkuðu boðið.
 
Í kosningu til stjórnlagaþings er kjósendum ráðlagt að undirbúa sig heima en kjósa á kjörstað. Kosningin fer þannig fram að kjósendur skrifa tölur í reiti á kjörseðlum sem síðan verða skannaðir inn í tölvu. Notaðir verða þrír hraðvirkir skannar sem leigðir voru til landsins í þessu skyni.
 
Enginn efast um að það hefði verið þægilegra fyrir alla að fylla út kjörseðla á netinu heima hjá sér og það hefði dregið mjög úr hættum á villum. Það hefði líka verið miklu ódýrara í framkvæmd og það hefði mátt tryggja nafnleynd kjósenda með t.d. tækni DeCode. 
 
Það er ráðgáta hvers vegna kjörstjórn nýtir ekki tölvutæknina öllum til hagsbóta. Eina skýringin sem ég sé er ótti við að ef kjósendur kjósa ekki einir í kjörklefa þá opnist möguleiki á að þeir verði beittir þvingunum eða mútum til að kjósa með tilteknum hætti.
 
En það má vel minnka líkur á því með öðrum hætti.
 
Leyfa mætti kjósanda að kjósa eins oft og hann vill, skipta um skoðun, þar til kosningu lýkur. Þá getur sá sem vill kaupa eða þvinga kjósandann ekki verið viss um að kjósandinn standi við gefin fyrirheit.
 
Þvingarinn gæti séð við þessu með því að sitja yfir kjósandanum og láta hann kjósa rétt fyrir lokun kosningar. Hver þvingari getur ekki haft auga með mörgum kjósendum á lokamínútum kosninga nema grípa til stórtækra aðgerða. 
 
Til að gera þvingurum enn erfiðara fyrir mætti hafa kjörstaði opna 1-2 í daga eftir að rafrænni kosningu lýkur. Þá getur kjósandinn farið á kjörstað og kosið í kjörklefa. 
 
Til að þvingunaraðgerðir skili tilsettum árangri þarf að þvinga mjög marga kjósendur hugsanlega þúsundir. Ef viðurlög við kosningasvindli eru höfð þung þá verður bæði erfitt að og afar dýrt að finna nógu marga þvingara og kjósendur til að hafa áhrif á úrslit kosninga.  
 
Hætta á þvingun og mútum virðist í raun vera sáralítil og óhætt þess vegna að tölvuvæða kosningaferlið og spara hundruði milljóna með því. 
 
Það er líklegt að kosningaþátttaka muni aukast umtalsvert ef kjósendur þurfa ekki að fara á kjörstað. 
 
Ef það er eitthvað allt annað sem heldur aftur af tölvuvæðingu kosningaferlisins myndi ég gjarnan vilja heyra af því.  Ég vona bara að raunverulega ástæðan sé ekki sú, að stjórnvöld vilji sem sjaldnast hafa kosningar. Þau vilji því hafa þær sem dýrastar og óþægilegastar svo fólk sé ekki að rella um að hafa þær of oft. 

Er Íslendingum treystandi fyrir beinu lýðræði?

 

Stundum heyrast þau sjónarmið að það sé mjög varasamt að fela íslenskum kjósendum málskots- og frumkvæðisrétt. Þeir myndi þá bara hafna lögum um aukna skatta og heimta á sama tíma lög um aukna þjónustu og vera almennt óábyrgir í ákvörðunum. Ríkið færi fjótlega á hausinn.

 

Þessu til stuðnigs er vísað til Kaliforníu sem býr við einhverskonar beint lýðræði og rambar á barmi gjaldþrots. Ef vísað er til góðrar reynslu Svisslendinga af beinu lýðræði þá er hún skýrð í burtu með því að sú þjóð hafi meiri lýðræðisþroska en aðrar þjóðir. Íslendingar séu hinsvegar mjög vanþroska og vísir til að klúðra þessu eins og öllu öðru.

 

Rökin gegn þessari afstöðu eru tvenns konar. Í fyrsta lagi eru leikreglur beins lýðræðis ekki þær sömu í Kaliforníu og Sviss. Í öðru lagi hefur reynslan sýnt að kjósendur verða ábyrgari og sýna meiri skynsemi í ákvörðunum ef þeir fá meiri áhrif.

 

Stigsmunur á Kaliforníu og Sviss

Í Sviss er mikil áhersla lögð á að ná samkomulagi milli þings og þeirra kjósenda sem vilja þjóðaratkvæði um tiltekið mál. Þetta millistig virðist einmitt vanta í Kaliforníu og kannski liggur vandinn í því. 

Þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslunni hafa kjósendur í Sviss yfirleitt val um upprunalega tillögu þingsins og málamiðlunartillögu sem tekur þá mið af sjónarmiðum þeirra sem vildu stöðva lögin. Þjóðin getur hafnað báðum tillögum eða samþykkt aðra hvora. Oft er málamiðlunin valin og útkoman er þá sú að eitthvað tillit er tekið til sjónarmiða þings, minnihlutahópa og meirihluta kjósenda.

 

Hvernig varð þessi ólgandi suðupottur vagga nútímalýðræðis?

Áður en beint lýðræði var tekið upp í Sviss var landið ólgandi suðupottur ólíkra þjóðarbrota, tungumála og trúarbragða. Beint lýðræði var tekið upp í kjölfar borgarastríðs og síðan hefur Sviss verið til fyrirmyndar sem friðelskandi og farsæl þjóð. Í borgarastríðinu fyrir rúmum 130 árum hefðu fáir trúað því að æstur almúginn í Sviss hefði þroska hvað þá vilja til að taka ákvarðanir sem höfðu hag heildarinnar að leiðarljósi. 

 

Lýðræðisþroski og farsæld er bein afleiðing af beinu lýðræði

Í fyrstu gæti virst óábyrgt að fela kjósendum úrslitavald yfir störfum þingsins. En reynslan hefur sýnt hið gagnstæða, að kjósendur eru í eðli sínu varkárir, jafnvel varkárari en þingið. 

 

Það að kjósendur geti skotið öllum nýjum lögum til þjóðaratkvæðis setur jákvæða pressu á þingið að vanda sig og sú freisting að skara eld að köku sérhagsmunaafla hverfur. Enda myndi þjóðin stöðva slíka löggjöf.

 

Reynslan í Sviss hefur sýnt að kjósendur eru íhaldssamari í útgjöldum og ríkisrekstri en þingið. Einnig hefur komið í ljós að þeir kjósendur sem hafa vald til að hafna fjárlögum í sínu umdæmi eru 30% ólíklegri til að svíkja undan skatti en hinir. Kjósendur sem hafa raunveruleg áhrif axla sína ábyrgð frekar en aðrir.

 

Áhrifalausir kjósendur hafa hins vegar lítinn hvata til að setja sig inn í einstök mál á starfstíma þingsins. Valdið til að kjósa út þingmenn er ómarkvisst og gefur kjósendum falskt öryggi. Rödd kjósenda heyrist sjaldan nema þegar áföll dynja á landinu og jafnvel þá taka stjórnvöld lítið mark á kjósendum. 

 

En hafi kjósendur rétt til að skjóta málum til þjóðaratkvæðis, svo ekki sé minnst á frumkvæði að nýjum lögum, þá er vilji þjóðarinnar og ábyrgð alltaf til staðar. 

 

Sagan sýnir að aukin áhrif kjósenda leiða til meiri áhuga þeirra á málefnum og ákvörðunum ríkisvaldsins. Með því dregur úr valdi og áhrifum stjórnmálaflokka. Íbúarnir verða vakandi og upplýstir um eigin málefni og taka virkari þátt í að móta framtíð landsins.

 

Ekkert bendir til þess að Svisslendingar séu svo sérstakir að þeim einum sé treystandi til að ná árangri með beinu lýðræði. Það er orðið löngu tímabært að næsta þjóð taki það skref sem Sviss tók fyrir 130 árum: að treysta kjósendum.


 


Samstaða, ágreiningur og lokaorðið

Samstaða um sumt
Nú er áherslur all margra frambjóðenda orðnar aðgengilegar á netinu. Af lestri þeirra að dæma virðist  stefna í breiða samstöðu um verulegar úrbætur á stjórnskipan landsins. Margir frambjóðendur vilja skerpa þrígreiningu valdsins, skýra hlutverk forseta, auka áhrif kjósenda í kosningum, draga úr valdi flokka, styrkja þingið sem löggjafa, velja ráðherra á faglegum grunni, auka gagnsæi og eftirlit með stjórnvöldum, tryggja að farið verði eftir stjórnarskránni og fleiri atriði sem varða bætta stjórnarhætti. Hvað varðar ákvæði um mannréttindi virðast margir frambjóðendur hafa keimlíkar áherslur. Það er því ástæða til bjartsýni um að stjórnlagaþingið geti náð góðri niðurstöðu hvað varðar mannréttindi og bætt stjórnskipulag.
 
Ágreiningur um annað
Um sum atriði virðast skoðanir frambjóðenda vera skiptari. Menn eru ekki á einu máli um hvort fella eigi niður ákvæði um þjóðkirkju, hvort landið skuli vera eitt kjördæmi, hvort setja eigi skorður við framsali fullveldis og fleira. Þótt flestir séu fúsir til að  taka rökum og miðla málum þá gæti samt farið svo að stjórnlagaþing nái ekki samstöðu um sum þessara atriða.
 
Þjóðin hafi lokaorðið
En þá er spurning hvað skal gera? Ein leið væri sú að stjórnlagaþing geri ekki breytingar frá núverandi fyrirkomulagi nema um þær ríki góð samstaða. Önnur leið væri að leggja ágreiningsefnin undir þjóðaratkvæði um leið og stjórnarskrána sjálfa. Sem dæmi þá gætu kjósendur hakað við hvort þeir vilja hafa ákvæði um þjóðkirku í stjórnarskrá. Eflaust væri þetta örlítil flóknara í framkvæmd en kosturinn væri sá að það væri þá þjóðin sjálf sem réði úrslitum.

Aukið lýðræði - Svissneska leiðin

Það er óumdeilt að Sviss býr við meira og beinna lýðræði en flest önnur ríki og þannig hefur það verið í meira en 130 ár. Á þeim tíma hafa þeir haldið áfram að þróa lýðræðisleg vinnubrögð og útkoman er sáttir íbúar og hagkerfi sem gengur eins og klukka. Svo virðist sem Svisslendingum hafi tekist að ná fram kostum fulltrúalýðræðis og beins lýðræðis án teljandi vandkvæða. Um þetta má fræðast í bókinni Guidebook to Direct Democracy (útg. 2010) sem lýsir beinu lýðræði í Sviss og tekur all mörg dæmi um mál og hvernig þeim reiddi af. Ég mæli með þessari bók fyrir alla þá sem hafa áhuga á nútímalýðræði. Eftirfarandi eru nokkrir punktar sem mér fannst áhugaverðir.

Í Sviss einkenndist tímabilið frá 1798 til 1848 af óreiðu og uppþotum sem þó leiddi að lokum til stofnunar þjóðríkis með beinu lýðræði sem bundið var í stjórnarskrá. Beint lýðræði var ekki hugmynd stjórnvalda heldur borgarana sjálfra sem komu saman í þúsunda tali og kröfðust þess að stjórnvöld tækju fullt tillit til vilja kjósenda í öllum málum.

Vandinn við fulltrúalýðræði er að þar fá stjórnmálamenn einkarétt á fjölda valdsviða og þeir ráða því hvað löggjafinn tekur á dagskrá. Þetta er rótin að ójafnvægi milli stjórnmálamanna og kjósenda. Kjósendur kjósa en stjórnmálamenn taka allar ákvarðanir.

Beint lýðræði felur í sér að kjósendur geta tekið ákvarðanir og þeir hafa úrslitavaldið. Í Sviss starfar þingið með álíkum hætti og við þekkjum en kjósendur taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um lagasetningu ef eitt af þessu þrennu ber að:

  1) Þingið leggur til breytingu á stjórnarskrá.

  2) Fleiri en 50.000 kjósendur (1%) óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu innan 100 daga frá því ný lög eru samþykkt af þinginu.

  3) Fleiri en 100.000 (2%) kjósendur óska eftir því að leggja fram frumvarp að lögum ber þinginu að taka við málinu og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það kemur á óvart hversu lágt hlutfall kjósenda þarf til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu, aðeins 1%. Kosturinn við að hafa hlutfallið svona lágt er að þannig er fámennum hópum kjósenda gefin uppbyggileg leið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ef stjórnvöld fallast ekki á sjónarmiðin þá er málinu vísað til þjóðarinnar sem hefur lokaorðið.

Það kemur líka á óvart hversu sjaldan hefur reynt á þetta. Frá því þetta fyrirkomulag var tekið upp árið 1848 hafa verið sett 2200 lög í Sviss og í aðeins 7% tilfella verið óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu áður en þau tóku gildi.Undanfarinn áratug hafa kjósendur fylgt stjórnvöldum að málum í 75% tilfella. Þeir sem tapa málum geta þó huggað sig við að hafa fengið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Í öðrum lýðræðisríkjum er þessi farvegur ekki jafn greiður og afleiðingin er að óleyst mál leiða fremur til uppþota.

Óttinn við að treysta kjósendum til að taka skynsamlegar ákvarðanir virðist mjög útbreiddur í öðrum lýðræðisríkjum en Sviss. Sumir stjórnmálamenn virðast jafnvel efast um að venjulegt fólk hafi nægilegan skilning á framförum og hvaða fórnir þurfi að færa til að ná þeim fram. Kjósendur muni t.d. alltaf leggjast gegn skattahækkunum. Menn hafa bent á Kaliforníufylki sem víti til varnaðar, en þar hafa tilraunir stjórnvalda til að hækka skatta verið felldar í atkvæðagreiðslum.Að einhverju leiti getur þessi munur á útkomu skýrst af mismunandi aðferðum, í Sviss sem dæmi lögð mikil áhersla á að sætta sjónarmið áður en gengið er til atkvæðis.

Í Sviss hefur komið í ljós að sé kjósendum treyst þá verða þeir ábyrgari. Í þeim Kantónum þar sem fjárlög eru skilyrðislaust borin undir íbúana eru undanskot frá skatti 30% minni en í kantónum sem gera það ekki.  

Íbúar Sviss virðast vera hæstánægðir með núverandi fyrirkomulag. Þeir sjá ekki eftir þeim tíma sem fer í að setja sig inní mál og kjósa. Í venjulegu ári er kosið fjórum sinnum og flest tengjast málin fylkinu (kantónunni). Gögn eru send til kjósenda fjórum vikum fyrir kjördag. Kjósendur geta sent atkvæði sitt inn með pósti. Prófanir á rafrænni útfærslu eru hafnar.

Aðeins kjósendur geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss, en ekki stjórnvöld. Þetta er býsna veigamikið atriði því þannig er komið í veg fyrir að stjórnmálamenn freistist til að beita þjóðaratkvæði sem vopni í pólitískum átökum.

Hið nútímalega lýðræði Svisslendinga hefur skilað þeim góðum árangri og er vissulega fyrirmynd sem við ættum að skoða mjög vandlega. Þetta kerfi nýtir kosti fulltrúalýðræðis en þó þannig að kjósendur geta stöðvað ný lög og einnig haft frumkvæði að nýjum lögum. Kjósendur hafa lokaorðið ef þeir vilja.

Þarna er kerfi sem er þrautreynt og virkar. Það er mjög freistandi að innleiða svipað fyrirkomulag hér á landi.&#xFEFF;


Þróun stjórnarskrárinnar

Þróun stjórnarskrárinnar er afar forvitnileg en um hana má lesa í skýrslu sérfræðinefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar sem kom út árið 2005: "Ágrip af þróun stjórnarskrárinnar".  Skýrslan er 30 blaðsíður en hér eru nokkrir punktar úr henni:

Ísland hefur þrisvar fengið stjórnarskrá. Sú fyrsta tók gildi árið 1874 og veitti Alþingi löggjafarvald. Önnur tók gildi árið 1920 í kjölfar fullveldisins árið 1918. Sú þriðja kom með stofnun lýðveldisins árið 1944.

Allar tóku þessar stjórnarskrár mið af þeirri dönsku.  Í gegnum tíðina hafa komið fram fjöldi tillagna um breytingar á þessum stjórnarskrám en fæstar verið samþykktar. Allar tilraunir til heildarendurskoðunar á stjórnarskránni frá 1944 hafa mistekist en allmargar breytingar hafa náð í gegn.

Stjórnarskrá um sértæk málefni Íslands 1874

Í kjölfar stöðulaganna var Íslandi gefin stjórnarskrá um sérmálefni sín á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar, árið 1874. Með henni fékk Alþingi löggjafarvald í sérmálum Íslands, takmarkað af neitunarvaldi konungs (sem ráðherra fór með). Framkvæmdavaldið var hluti dönsku stjórnsýslunnar og yfir það settur Íslandsráðherra (dómsmálaráðherra Dana). Mikilvægar umbætur í dómsmálum sem komið höfðu inn í dönsku stjórnarskrána árið 1849 náðu ekki inn í þá Íslensku. Hæstiréttur Dana var æðsti dómstóll Íslands.

Árið 1903 voru gerðar nokkrar breytingar, þingmönnum fjölgað, kosningaréttur karla rýmkaður og sett inn ákvæði um ráðherra.

Árið 1915 komu meðal annars inn ákvæði um landsdóm og lagður niður réttur embættismanna til eftirlauna við brottvikningu eða flutning. Konungskjör þingmanna var afnumið, konur fengu kosningarétt og ákvæði um að enginn skyldi gjalda til annarar guðsdýrkunar en hann sjálfur aðhylltist.

Ný stjórnarskrá 1920

Ísland fékk fullveldi árið 1918 og árið 1919 lagði Jón Magnússon fram frumvarp að stjórnarskrá konungsríkisins Íslands sem innifól þær breytingar sem leiddi af fullveldi. Frumvarpið fór í gegn með minniháttar breytingum og stjórnarskráin var staðfest árið 1920. Eitt af því sem kom inn var réttur embættismanna til eftirlauna sem hafði verið felldur niður árið 1915.

Á árunum 1923 - 1942 komu fram margar tillögur að breytingum sem meðal annars lutu að fækkun ráðherra, fækkun þingmanna, þinghald annað hvert ár, landið eitt kjördæmi, þing ein málstofa, lækkun kosningaaldurs, ofl. 

Árið 1934 var kjördæmaskipting fest í stjórnarskrá, þingmönnum fjölgað, landskjör afnumið og kosningaréttur lækkaður í 21 ár. Fjárlög skyldu lögð fyrir sameinað þing.

Árið 1942 var kosningafyrirkomulagi breytt og samþykkt frávik sem gerði landsmönnum kleyft að samþykkja breytingar á stjórnarskrá vegna sambandsslita við Dani í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Stjórnarskrá lýðveldisins 1944

Í upphafi árs 1940 var skipuð nefnd til að semja frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið sem menn sáu færast nær. Nefndin lauk frumvarpinu um mitt árið en það var ekki lagt fram á Alþingi. Kannski vegna þess að Ísland var hernumið af bretum í maí 1940.

Í maí 1942 samþykkti Alþingi að kjósa fimm manna milliþinganefnd til að gera tillögur að breytingum á stjórnskipunarlögum í samræmi við vilja Alþingis um stofnun lýðveldis. Nefndinni vannst vel og nún skilaði uppkasti að nýrri stjórnarskrá í júlí sama ár. Í september 1942 var fjölgað í nefndinni um þrjá svo allir flokkar ættu fulltrúa hún skilaði áliti sínu í apríl 1943 en lagði til að gildistaka yrði miðuð við 17. júní 1944.

Nýja stjórnarskráin var að mestu óbreytt frá þeirri fyrri, nema að felld voru út ákvæði um konung og sett inn ákvæði um forseta. Enda má lesa úr áliti nefndarinnar að hún hafi gert ráð fyrir því að öllu víðtækari endurskoðun á stjórnarskránni myndi bíða betri tíma.

Árið 1945 ákvað Alþingi að skipa tólf manna stjórnarskrárnefnd til að vinna að heildurendurskoðun stjórnarskrárinnar en hún lognaðist út af. Árið 1947 var nefndin sett af stað aftur með sjö mönnum en árið 1955 hafði lítið miðað og lítið fundað þótt nefndin væri formlega til. Árið 1972 var kosin sjö manna nefnd til að vinna að heildarendurskoðun sem skilaði af sér 1983 en ekki náðist sátt um niðurstöðu.

Heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar frá 1944 hefur því aldrei verið lokið. Fjölmargar tillögur hafa komið fram um breytingar en fæstar náð í gegn. Allnokkrar breytingar hafa þó verið gerðar. Stjórnarskránni hefur verið breytt í sex skipti og alls 45 greinum verið breytt en 34 greinar eru ennþá óbreyttar.

Það verður fróðlegt að skoða öll þau frumvörp sem komið hafa fram um tillögur að endurbótum á stjórnarskránni. Meira um það síðar.

Heimild:

Ágrip af þróun stjórnarskrárinnar - sérfræðinefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar - Unnið að beiðni nefndar um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands - Desember 2005.

http://www.stjornarskra.is/media/stjr_itarefni/ST-N_(2005)_agrip_af_troun_stjskr.doc


Framboð til stjórnlagaþings

Þá er það ákveðið, ég er kominn í framboð til stjórnlagaþings.

Nái ég kjöri mun ég fyrst og fremst beita mér fyrir beinna lýðræði og skýrari hömlum og eftirliti með valdastofnunum ríkisins. Á komandi dögum mun ég skrifa nokkra pistla um þetta málefni til að kynna áherslur mínar og hugmyndir nánar.

Allar ábendingar og hugmyndir um þetta efni velkomnar. Hvað finnst þér mikilvægast að hafa í nýrri stjórnarskrá?

Skoða Facebook síðu framboðsins. 


Hvenær fáum við skoða reglur ESB klúbbsins á íslensku?

picture_39.png
Nú er rúmt ár síðan Össur afhenti stækkunarstjóra ESB umsókn (Samfylkingarinnar) í Evrópusambandið. Hvað sem samningum og undanþágum líður þá snýst þetta mál fyrst og fremst um aðild Íslands að ESB.  Ef við eigum að móta okkur upplýsta afstöðu til aðildar þá þurfum við að skilja reglurnar eins og þær eru - en hvenær fáum við að sjá þær?

Segja má að Lissabon sáttmálinn innihaldi leikreglur ESB klúbbsins. Hann er nýjasti sáttmáli Evrópusambandsins og byggir á stjórnarskrá þess sem tók reyndar aldrei gildi enda var henni hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi.

Þótt Lissabon sáttmálinn sé nánast samhljóða hinni óvinsælu stjórnarskrá ESB þá var ákveðið að bera hann ekki undir þjóðaratkvæði í aðildarríkjunum. Ekki er víst að íbúar aðildarríkjanna hefðu samþykkt sáttmálann og framkvæmdastjórn ESB taldi greinilega vissara að láta ekki á það reyna.

Þjóðþing aðildarríkjanna samþykktu flest sáttmálann nema í Írlandi en írsk lög kröfðust þjóðaratkvæðis. Svo fór að írska þjóðin hafnaði sáttmálanum.  ESB breytti þá sáttmálanum lítillega, efldi kynningarstarfið verulega og ári síðar var kosið aftur. Þá sögðu Írar já og Lissabon sáttmálinn varð staðreynd.

Þess má reyndar geta að þjóðþing aðildarlandana fengu aldrei að sjá Lissabon sáttmálann í heild sinni áður en þau samþykktu hann. Þess í stað var sáttmálinn lagður fram sem 3000 breytingatillögur við óteljandi eldri lagagreinar. Því verður vart trúað að margir hafi lesið eða skilið efnið og kannski var það einmitt ætlun forystumanna ESB að sem fæstir gætu kynnt sér það.

Nú er hægt er að finna Lissabon sáttmálann á netinu á erlendum málum en Utanríkisráðuneytið hefur af einhverjum ástæðum ekki séð ástæðu til að þýða þessan mikilvæga sáttmála sambandsins á Íslensku eða kynna hann þjóðinni. Öll töf á þýðingu sáttmálans á Íslensku styttir að sjálfsögðu þann tíma sem Íslendingar hafa til að kynna sér og skiptast á skoðunum um grundvallarleikreglur ESB klúbbsins. Er það kannski meiningin?

Utanríkisráðuneytið hefur ekki enn getað upplýst hvenær Lissabon sáttmálinn verður aðgengilegur á Íslensku.

Í lokin er rétt að velta því fyrir sér hversu margir af þeim þingmönnum sem studdu aðildarumsókn Íslands í ESB höfðu áður lesið og skilið Lissabon sáttmálann?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband