Færsluflokkur: Bloggar

Umsögn: Peningavaldið og stjórnarskráin

Umsögn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar 12. 12 2012: 

Peningavaldið - Umsögn um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þingskjal 510 - Mál nr. 415.


Með peningavaldi er átt við valdið til að búa til peninga, eða ígildi peninga, og setja í umferð.

Ógætileg meðferð peningavaldsins er vafalítið ein af höfuðástæðum hrunsins og má færa rök fyrir því að ný stjórnarskrá fjalli um peningavaldið og hvernig skuli koma í veg fyrir að því verði misbeitt.

Stjórnarskrá þarf einnig að gera greinarmun á valdi til útgáfu og úthlutunar nýrra peninga en þessi tvö valdsvið mega ekki vera á sömu hendi.

Það hlýtur að teljast alvarlegur galli á stjórnarskrárfrumvarpinu að í því sé ekki gerð tilraun til að koma böndum á peningavaldið.

GREINARGERÐ

Taumlaus peningamyndun er meginorsök hrunsins
Við einkavæðingu viðskiptabankanna árið 2002 færðist peningavaldið að mestu leiti frá ríkinu til eigenda bankanna. Á næstu fimm árum ríflega fimmfölduðu einkabankarnir peningamagn í umferð. Sú aukning var gersamlega úr samhengi við vöxt þjóðartekna og afleiðingin var hrun gjaldmiðilsins.

Enn hefur ekkert verið gert til að koma peningavaldinu í skjól fyrir sérhagsmunum. Enn hafa einkabankarnir aðstöðu til að búa til peninga og ákveða hver skuli fá nýja peninga. Verði þessu ekki breytt, mun það halda áfram að bitna á landsmönnum með verðbólgu, vaxtabyrði, óstöðugleika og skuldsetningu.

Viðskiptabankar búa til ígildi peninga með útlánum
Viðskiptabankar eru í aðstöðu til að skapa ígildi peninga með útlánum. Viðskiptabanki skapar ígildi peninga með því að veita lán og afhenda lántakanda innstæðu í stað seðla. Innstæðuna býr bankinn til úr engu. Innstæðan er í raun loforð bankans um að afhenda seðla hvenær sem óskað er. Innstæðan er handhægari en seðlar og lántaki og allir aðrir líta á innstæðu í banka sem ígildi peninga, enda er hægt að nota þær til að greiða skuldir og jafnvel skatta.

Peningamyndun er skattheimta
Bankinn hagnast mjög á því að búa til ígildi peninga, því hann greiðir litla sem enga vexti á innstæðuna en innheimtir hins vegar markaðsvexti á útlánið. Íslenskir bankar hafa búið til 1.000 milljarða með þessum hætti og nema tekjur banka af vaxtamun inn- og útlána tugum milljarða árlega.

Banki sem eykur eigið fé sitt um 2 milljarða getur búið til 25 milljarða af nýjum innstæðum og lánað þær út (miðað við 8% eiginfjárkröfu). Þegar veitt eru ný lán myndast innlán sem eru nýir peningar og rýra verðgildi þeirra peninga sem fyrir eru. Innstæður í bönkum eru í minna mæli óverðtryggðar en útlán og bankar græða því á rýrnun þeirra.

Fái bankar að beita peningavaldinu í eigin þágu, er ekki við öðru að búast en þeir leggi sig alla fram um að auka gróða sinn af vaxtamun og verðbólgu, þótt það verði á kostnað alls almennings.

Alþjóðlegt vandamál
Sama fyrirkomulag peningamála er við lýði í nær öllum löndum. Peningavaldið er víðast hvar komið í hendur einkaaðila. Afleiðingin er nánast taumlaus peningaprentun. Vaxtabyrði þjóða af því að hafa gjaldmiðil sinn að láni frá einkabönkum þyngir í sífellu skuldabyrði þeirra. Svo er komið að alvarleg skuldakreppa ríkir í heiminum og á torgum stórborga safnast almenningur saman til að mótmæla ráðaleysi stjórnvalda.

Peningavaldið tilheyrir þjóðinni
Taka þarf peningavaldið frá viðskiptabönkunum og skipta því upp milli seðlabanka og ríkisstjórnar landsins.

En það nægir ekki að koma peningavaldinu til ríkisins, einnig þarf að tryggja tvískiptingu valdsins til að draga úr freistnivanda.

Seðlabanki fari með útgáfuvald peninga
Seðlabankinn gefur í dag út seðla og mynt, en þessir miðlar eru sáralítið notaðir í viðskiptum. Bankainnstæður (rafrænir peningar) búnar til af einkabönkum eru uppistaðan í peningamagni landsins. Bankar skapa peninga með útlánum og nær allt fé í landinu er myndað með þessum hætti og ber vexti sem greiðast bönkum. Þessu þarf að breyta.

Aðeins Seðlabanki ætti að hafa leyfi til að búa til peninga fyrir  fyrir hagkerfið og hann getur gert það án skuldsetningar.

Seðlabanki á að meta og stýra því hve mikið peningamagn er í hagkerfinu á hverjum tíma, út frá þjóðhagslegum markmiðum eins og verðbólgu, sjálfbærum hagvexti, atvinnuleysi og fleiri þáttum.

Ríkisstjórn fari með úthlutunarvald peninga
Í dag ákveða bankar hverjum skuli afhenda nýtt fé og til hvers það skal notað. Hagsmunir bankans ráða þar för, þótt nýir peningar rýri alla peninga sem fyrir eru í kerfinu.

Þar sem nýir peningar valda kostnaði hjá öllum almenningi, er eðlileg krafa að nýjum peningum sé ráðstafað með lýðræðislegum hætti. Ríkisstjórn er best til þess fallin og getur gert það með fjárlögum.

Nánari upplýsingar um peningavald og skiptingu þess má finna á www.betrapeningakerfi.is

Virðingarfyllst


Frosti Sigurjónsson
rekstrarhagfræðingur

Dollarinn rýrnaði um 88% á aðeins 40 árum

Árið 1970 voru 360 yen í Dollar en núna eru c.a. 80 yen í dollar. Þetta er 88% rýrnun á USD miðað við JPY á fjörtíu árum.

Af þessu má sjá að Bandaríkjamenn hafa farið enn verr að ráði sínu en Íslendingar í  gjaldmiðilsmálum og ættu að ganga í evrópusambandið sem allra fyrst. Helst áður en myntbandalag Evrópusambandsins fer sömu leið og öll önnur myntbandalög 


mbl.is Rýrnun krónunnar 99,95%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB, þar sem lýðræðið telst til trafala

Lýðræði
Í Evrópusambandinu er lagasetning í höndum framkvæmdastjórnarinnar, sem er skipuð 27 fulltrúum sem eru ekki kosnir, heldur tilnefndir af aðildarríkjum. Framkvæmdastjórnin ein hefur vald til að leggja fram lagafrumvörp og hún hefur auk þess allt framkvæmdavald. Þrískipting valdsins er því ekki fyrir hendi í ESB.

Evrópuþingið hefur ekki vald til að leggja fram lagafrumvörp. Þingið hefur aðeins eftirlit með framkvæmdastjórninni og samþykkir lagafrumvörp hennar. Þingið getur ekki gert breytingar á lagafrumvörpum, og þarf hreinan meirihluta þingmanna til að stöðva frumvarp. Til að lýsa vantrausti á framkvæmdastjórnina þarf ⅔ þingsins.

Lýðræðishalli
Í Evrópusambandinu er sérstakt orð yfir þann áhrifamissi sem kjósendur mega þola þegar ákvarðanataka flyst frá þjóðþingum aðildarríkja Evrópusambandsins til Brussel. Orðið er lýðræðishalli. 

Í Brussel eru flestar ákvarðanir teknar ef embættismönnum, en ekki af lýðræðislega kjörnum fulltrúum. Þróunin hefur frá upphafi verið sú að ákvarðanataka í sífellt fleiri málaflokkum færist frá lýðræðislega kjörnum þjóðþingum til embættismanna í Brussel. Lýðræðishallinn fer því vaxandi.

Niðurstöður könnunar meðal íbúa Evrópusambandsins (*1) virðast styðja þetta. Þannig töldu 56% svarenda rödd sína skipta máli í landsmálum, en hinsvegar töldu aðeins 34% rödd sína skipta máli í Evrópumálum.

Fjarlægð eykst milli kjósenda og fulltrúa
Þegar ákvarðanir flytjast frá þjóðþingum til Brussel, þá eykst um leið fjarlægð milli kjósenda og þeirra sem véla um ákvarðanir og löggjöf. Það verður því mun erfiðara fyrir kjósendur að ná sambandi við kjörna fulltrúa sína, eða safnast saman og mótmæla. 
Einnig verður erfiðara fyrir fulltrúa sem lifir og hrærist í Brussel að setja sig í spor fjarlægra kjósenda.

Lýðræðið virðast vera til trafala
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur rekið sig á það að íbúum aðildarríkjanna er ekki fyllilega treystandi til að kjósa yfir sig meiri samruna og samþjöppun valds í Brussel.  Það olli töfum á samrunanum, þegar ný stjórnarskrá Evrópusambandsins var felld í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi.
Í stað þess að taka mark á vilja kjósenda, lagði framkvæmdastjórnin fram nýjan sáttmála (Lissabon) sem fól í sér nánast sömu breytingar og stjórnarskráin sem kjósendur höfðu hafnað. 
Lissabon sáttmálinn var hins vegar ekki settur í þjóðaratkvæði, heldur var hann samþykktur af þjóðþingum aðildarríkjanna. Aðeins Írland lagði hann í dóm kjósenda sem sögðu “nei”. Þar sem það var rangt svar, var “fræðslan” stórefld og Írar látnir kjósa aftur.

Minnkandi þátttaka í kosningum til Evrópuþings.
Þátttaka í kosningum til Evrópuþingsins hefur farið minnkandi frá upphafi og er nú komin niður í 43%. Áhugaleysi kjósenda skýrist kannski af því hve Evrópuþingið er áhrifalaust. Það er í raun framkvæmdastjórnin sem hefur löggjafarvaldið og kjósendur geta ekki kosið fulltrúa í hana.

Frumkvæðisréttur fólksins er til málamynda
Í Lissabon sáttmálanum kom inn ákvæði (*2) um að ein milljón íbúa Evrópusambandsins geti  skorað á framkvæmdastjórnina að leggja fram frumvarp að lögum um tiltekið málefni. 
Þess er krafist að undirskriftir safnist frá 0.5% kjósenda, sem koma frá að minnsta kosti þriðjungi aðildarríkja.
Vandinn er sá að það krefst mikilla fjármuna að safna milljón undirskriftum frá svo mörgum ríkjum og engir styrkir eru í boði til þess.
Jafnvel þótt takist að safna undirskriftum þá er samt erfiðasti hjallin eftir, því framkvæmdastjórnin hefur algert sjálfdæmi um hvort hún tekur málið á dagskrá eða ekki. 
Þannig söfnuðust meira en 1,2 milljón undirskriftir til stuðnings þeirri tillögu að Evrópuþingið hætti sínu kostnaðarsama flakki milli Brussel og Strasburg. Forsetar Evrópuþingsins létu sér fátt um finnast og höfnuðu því að tillagan yrði rædd í þinginu.

Vaxandi gjá á milli leiðtoga og íbúa
Skoðanakannanir á vegum Evrópusambandsins (*1) sýna vaxandi andstöðu almennings við flutning ákvarðana frá aðildarríkjum til Brussel. Á sama tíma vinna leiðtogarnir að sífellt nánari samruna og miðstýringu. Þetta veit ekki á gott.  
Kannanir staðfesta einnig að þeim fer fækkandi sem finnst sambandið “standa fyrir lýðræði”, hlutfallið lækkaði úr 26% í 19% milli árana 2009 og 2010. Aðeins 50% íbúa telja “skilvirkni lýðræðis viðunandi” í Evrópusambandinu, en það er lækkun úr 54% frá því ári áður. (*1)

Niðurstaða
Evrópusambandið er ekki lýðræðislegt, allavega ekki í þeim skilningi að þar sé farið að vilja íbúanna eða fylgt góðri venju um aðskilnað framkvæmda- og löggjafarvalds.

Þrátt fyrir fögur fyrirheit er staðreyndin sú að Evrópusambandið er ólýðræðislegt bákn sem þróast hröðum skrefum til meiri miðstýringar, þvert gegn vilja íbúanna.

Heimildir:

(*1) Könnun Eurobarometer frá því í Maí 2010, var birt í Nóv 2010
http://ec.europa.eu/public_opinion/archives/eb/eb73/eb73_vol1_fr.pdf

(*2) Frumkvæðisréttur:
http://ec.europa.eu/dgs/secretariat_general/citizens_initiative/index_en.htm

Er hægt að ganga úr Evrópusambandinu?

senso
Aðildarsinnar virðast ekki hafa sérlega miklar áhyggjur af því hvort það sé yfirleitt hægt að ganga úr Evrópusambandinu. Flestir telja útgöngu vel mögulega og vísa í úrsagnarákvæði Lissabon sáttmálans og telja málið þar með afgreitt.
 
Úrsagnarákvæðið
Lissabon sáttmálinn er ótímabundinn, en í 50. grein sáttmálans er úrsagnarákvæði. Samkvæmt ákvæðinu getur aðildarríki tilkynnt úrsögn einhliða og tekur úrsögnin þá gildi innan tveggja ára, nema um annað semjist.

Samkvæmt 50. grein skal semja við útgönguríkið um úrlausnarefni í tengslum við útgönguna og gera framtíðarsamning við ríkið. Greinin segir ekkert um réttindi útgönguríkisins en vísar þess í stað til greinar 218 (3) sem fjallar almennum orðum um milliríkjasamninga sambandsins við önnur ríki. Því má segja að það ríki alger óvissa um þau kjör sem útgönguríkinu myndu bjóðast.

Þótt 50. gr. segi fátt, og ekkert sem tryggir hag útgönguríkisins, þá er ákvæði um að vilji útgönguríki síðar ganga aftur inn, þurfi það að sækja um og semja um aðild eins og hvert annað ríki sem óskar eftir aðild.

Andstætt hagsmunum Evrópusambandsins
Það gætu vaknað óþægilegar spurningar um sjálfan tilverurétt Evrópusambandsins, ef ríki sem gengi út myndi upp frá því taka að blómstra sem aldrei fyrr. Það væri því andstætt hagsmunum Evrópusambandsins að dekra við útgönguríki með hagstæðum útgönguskilyrðum eða góðum viðskiptakjörum til frambúðar.

Engir milliríkjasamningar
Ísland hefur gert viðskiptasamninga við fjölda ríkja og er aðili að evrópska efnahagssvæðinu (EES). Við inngöngu í Evrópusambandið falla þessir milliríkjasamningar Íslands úr gildi. Við útgöngu úr Evrópusambandinu myndi Ísland því þurfa að semja á nýjan leik við fjölda ríkja til að komast aftur í sömu stöðu. Það gæti tekið áratugi. Hvað varðar EES samninginn er algerlega óvíst að Ísland gæti fengið aðild að honum aftur.

Afleiðingar aðildar verða ekki aftur teknar
Innganga í ESB mun hafa mjög víðtækar afleiðingar, ekki síst í sjávarútvegi og landbúnaði. Forsendur margra atvinnugreina munu breytast og þær munu laga sig að styrkjakerfi sambandsins og viðskiptaumhverfi. Ekki er hægt að útiloka að með tímanum yrði slakað á núgildandi hömlum á eignarhaldi erlendra aðila í sjávarútvegi eða á auðlindum.
Við útgöngu úr ESB þyrfti atvinnulífið aftur að aðlagast breyttum aðstæðum og leggja á sig kostnaðarsama aðlögun. Einkum er erfitt að sjá fyrir sér hvernig væri hægt að vinda ofan af eignarhaldi erlendra aðila á innlendum auðlindum, ef til þess kæmi.

Upptaka evru lokar útgönguleiðum
Hafi útgönguríki lagt niður eigin gjaldmiðil og tekið upp evru, þarf það við útgönguna að leita samninga við Evrópusambandið um áframhaldandi aðild að myntsamstarfinu. Það er hins vegar erfitt að sjá hvaða hag Evrópusambandið hefði af því að leyfa slíka aukaaðild.

Útgönguríki gæti varla tekið upp sjálfstæða mynt á nýjan leik, nema hagkerfi þess væri það sterkt að markaðir hefðu meiri trú á nýju myntinni en evrunni. Að öðrum kosti væri fyrirsjáanlegt að nýja myntin myndi veikjast gagnvart evru. Allir sem vettlingi gætu valdið myndu þá senda evrur sínar úr landi áður en þeim yrði skipt í nýja mynt. Hætt er við að fjármagnsflótti myndi bresta á strax við úrsögn úr sambandinu.

Niðurstaða
Því verður ekki neitað að úrsögn úr Evrópusambandinu er tæknilega fær en hún er einfaldlega svo erfið að hún getur vart talist raunhæfur valkostur. Hafi aðildarríki innleitt evru eru yfirgnæfandi líkur á að úrsögn myndi leiða til meiriháttar efnahagsáfalls.

Af þessu leiðir að aðildarríki Evrópusambandsins munu láta ýmislegt yfir sig ganga fremur en að freista útgöngu. Nýlega samþykktu smærri aðildarríkin að láta af hendi 60% af atkvæðarétti sínum í ráðherraráðinu og misstu einnig neitunarvald í 68 málaflokkum. Óskiljanlegt er hvernig þau gátu fallist á slíka breytingu þegjandi og hljóðalaust.

Það ætti öllum að vera ljóst að gangi Ísland í Evrópusambandið verður ekki aftur snúið. Hvort sem sambandið þróast til betri eða verri vegar í framtíðinni, þurfa komandi kynslóðir að sætta sig við aðild sem orðinn hlut.

Tíminn til að efast um aðild er því núna, en ekki eftir inngögu, ef til hennar kemur.


Ekki ein niðurstaða um þjóðkirkju

Í samantekt stjórnlaganefndar um niðurstöður þjóðfundar kemur meðal annars þetta fram: 

"Efla skal ímynd Íslands, stuðla að fjölmenningu og aðskilnaði ríkis og trúfélaga."

Hugsanlega hefur þessi samantekt verið gerð í einhverjum flýti því þegar gögnin sjálf eru skoðuð þá kemur einmitt fram að skoðanir hafi verið nokkuð skiptar um hvort gera eigi breytingu á stöðu þjóðkirkjunnar.

Um ýmis önnur mál er hins vegar mikill einhugur t.d. að ráðherra skuli ekki skipa dómara í hæstarétt. Þar er áþreifanleg niðurstaða á ferð.

Hér má nálgast niðurstöður þjóðfundarins á margs konar formi. 

http://www.thjodfundur2010.is/nidurstodur/

 


mbl.is Stjórnarskrá fyrir fólkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gerum kavíar úr laxahrognum

Laxalúxus

Það er mikil sóun að henda hrognum úr nýveiddum laxi en það gera samt flestir sem ég þekki. Það er eins og menn átti sig ekki á því hvaða verðmæti þeir hafa í höndunum. Kavíar úr villtum laxi er alger lúxus og selst á 7.500 kr. kílóið. 

Þegar líður á seinni hluta veiðitímabilsins eru hrognin farin að stækka og þá er um að gera að nýta þau í kavíar.

Það er einfalt og fljótlegt að gera kavíarinn hér er aðferðin:

Þú þarft:

 

  • 1 Stórt sigti
  • 2 Stórar skálar úr gleri eða stáli
  • 1.5 lítrar volgu vatni (38 c)
  • 200 gr salt 

 

Skrefin: 

Fyrst er að laga saltpækilinn: Blanda saman 2 lítrum af volgu vatni og 200 gr af salti í stóra glerskál.

Síðan er að hreinsa hrognasekkina að utan undir kalda krananum.

Hrognasekkir í pækli

Svo er að setja hrognsekkina í saltpækilinn og láta þá liggja í honum í c.a. 30 mínútur. Þetta á að losa um sekki og himnur. Gott að opna sekkina varlega svo pækillinn komist að hrognum og himnum.

Eftir að hálftíminn er liðinn er pækillinn sigtaður frá hrognunum og geymdur. 

Nú þarf að aðskilja hrognin frá himnunum. Þau eru nudduð varlega undir volgu rennandi kranavatni yfir sigti. Volga vatnið og nuddið losar hrognin úr himnunum. Mikilvægt að fjarlægja allar himnur. Ágætt að dýfa sigtinu í skál með volgu svo himnur fljóti upp, en hrogn eru þyngri en vatn og sökkva.

Þegar öll hrognin eru orðin laus og hrein eru þau sett í saltpækilinn og látin standa þar í einhverja stund til að saltast: 10 mínútur ættu að duga.

Að lokum eru hrognin síuð frá pæklinum og sett í krukkur. Þau eru nú tilbúin til neyslu en ættu líka að geymast ágætlega í ísskáp - trúlega í nokkrar vikur.  

Laxakavíar er frábær með blinis, sýrðum rjóma og smátt söxuðum lauk og einum dropa af sítrónusafa. Líka fínn á ristað franskbrauð með smjöri eða kex með kotasælu.

Ekki sakar að skola þessu niður með freyðivíni eða vodka.


Lýðræði er tækifæri

Sagt er að öll vandamál feli í sér tækifæri
Þau vandamál sem þjóðin glímir við um þessar mundir eru ekki bara í stærra laginu, þau eru risavaxin. En þeim fylgja líka margvísleg tækifæri. Við þurfum bara að vera með augun opin til sjá þau og hafa kjark til að grípa þau. 

Þótt fæstir hafi séð hrunið fyrir, virðast flestir skilja svona eftirá séð hvað fór úrskeiðis, hver mistökin voru og hvernig hefði mátt afstýra því öllu: Bankarnir fengu að vaxa allt of mikið, eftirliti með fjármálafyrirtækjum var ábótavant, regluverkið gallað og svo framvegis og svo framvegis.

Allt er þetta rétt, en þessi miklu mistök eigi sér samt rót sem liggur mun dýpra. Þar til við ráðum bót á þeim undirliggjandi vanda þá megum við búast við áframhaldandi ógöngum af öllum stærðum og gerðum. 

Hrunið hefur nú opnað augu mín (og trúlega annara líka) fyrir afar stóru vandamáli - ehem... ég meina auðvitað mjög stóru tækifæri - sem einskorðast alls ekki við Ísland - því það er útbreitt um heiminn.

En hvað er ég að tala um? Er heimurinn eitthvað í ólagi? Já hann er í ólagi.

Heimur rangra ákvarðana
Hvers vegna tekur mannkynið svona rangar ákvarðanir? Hvers vegna erum við að kaffæra hnöttinn okkar í mengun? Hvers vegna fara þjóðir í stríð? Hvernig getur nokkur ríkisstjórn fallist á að verða skattlenda annarra ríkja? Hvernig dettur nokkurri fullvalda þjóð í hug að selja annari þjóð réttinn til að setja sér lög? 

Þetta er allt mjög öfugsnúið því sé hinn almenni borgari er spurður, þá vill hann alls ekki kaffæra heiminn í mengun, hann vill alls ekki fara í stríð, og hann vill alls ekki borga skatta til erlendra ríkja. Hinn almenni borgari vill ekki færa völd yfir sínu lífi til annara ríkja, þvert á móti, hann vill meira lýðræði og geta haft meiri áhrif á eigin hagsmuni. Hvers vegna er svona mikill munur á vilja borgaranna og gerðum ríkjanna?

Skýringin er sú að borgarar hafa engin áhrif. Skortur á lýðræði er hið stóra vandamál, ekki bara í einræðisríkjum, heldur í nær öllum ríkjum sem kenna sig við lýðræði - ekki síst á Íslandi.

Staðnað lýðræði og úrelt stjórnarskrá
Í stað þess að þróast áfram með aukinni menntun, læsi og upplýsingatækni hefur lýðræðið nánast staðið í stað.

Enn þann dag í dag eru kjósendur meðhöndlaðir eins og þeir séu hvorki læsir né skrifandi. Hlutverk kjósenda í lýðræði nútímans takmarkast við það eitt að pára táknið X við einhvern framboðslista á fjögurra ára fresti.

Með því að krota þetta X, gefa kjósendur stjórnvöldum hins vegar ótakmarkað umboð til að setja lög og gera samninga fyrir sína hönd - stjórnvöld geta jafnvel sagt öðrum þjóðum stríð á hendur án þess að spyrja kjósendur.

Umboðið geta kjósendur ekki afturkallað hversu illa sem stjórnvöld fara með það. Að kosningum loknum geta hinir kjörnu leiðtogar í raun gert allt þveröfugt við það sem þeir lofuðu að gera - umboðið heldur.

Spillingaröflin eiga því miður greiða leið að kjörnum leiðtogunum og þau ganga skipulega til verks. Það verður alltaf hagkvæmara fyrir spillingaröflin að hafa áhrif á fáeina valdhafa en allan almenning.

Hér á landi var það Sambandið sem hafði öll völd, síðan var það Kolkrabbinn svo kvótakóngarnir og loks útrásarvíkingarnir. Það var almenningur sem tapaði á valdabrölti þessara aðila.

Núna eru það kröfuhafarnir með Hollendinga, Breta og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í fararbroddi sem vilja mjólka íslenskan almenning og notar til þess vinstri stjórn - sem er óneitanlega snilldarbragð. Ísland hefur breyst í vaxtanýlendu og ríkisstjórnin er þarfasti þjónn kröfuhafanna. 

Hvernig gat þetta gerst? Jú við búum við úrelta stjórnarskrá sem færir ríkisstjórninni óheft vald til að gera hvað sem hún vill í fjögur ár án þess að spyrja kjósendur álits. Þar með er voðinn vís.

Þróum lýðræðið áfram
Það er bráðnauðsynlegt að Ísland fái nýja og betri stjórnarskrá sem kemur á opnu og skilvirku lýðræði þar sem almenningur hefur fullan aðgang að öllum upplýsingum og tekur virkan þátt í mótun valkosta og ákvarðanatöku. 

Íslenska þjóðin hefur ýmislegt til að bera sem auðveldar okkur að taka frumkvæði í því að þróa lýðræðið áfram. Smæðin kom ekki í veg fyrir Íslendingar kæmu á fót einu fyrsta löggjafarþingi í heimi. Í raun auðveldar smæðin okkur að gera breytingar. Þjóðin er öll læs, menntastig hátt og almenn færni í notkun upplýsingatækni með því besta sem gerist í heiminum. Lýðræði gæti þróast hraðar hér en í flestum öðrum ríkjum.

Íslensk stjórnvöld eru hins vegar alveg jafn ólíkleg og stjórnvöld í öðrum löndum til að hafa frumkvæði að því að færa aukið vald til kjósenda.

Ef hin nýja stjórnarskrá á að leiða til verulegra lýðræðisumbóta þarf þjóðin sjálf að semja hana - en ekki valdhafarnir. 

Við þurfum að hefjast handa strax og aðferðin gæti verið einhvern vegin svona: Við stofnum samtök sem hafa það eina hlutverk að semja nýja og lýðræðislegri stjórnarskrá fyrir Ísland. Þetta yrði unnið yrir opnum tjöldum með þátttöku innlendra og erlendra sérfræðinga og þeirra áhugamanna sem vilja leggja hönd á plóg. Notum Internetið. Notum þjóðfundi.

Það tæki varla nema tæpt ár að semja drög að nýrri stjórnarskrá sem taka myndu gömlu stjórnarskránni fram í öllum meginatriðum. 

Hin nýju stjórnarskrárdrög yrðu kynnt rækilega fyrir þjóðinni og samhliða því safnað undirskriftum þeirra sem vilja bera hana undir þjóðaratkvæði. 

Það gæti gerst að Alþingi og forsetinn myndu styðja framtakið á endanum en það væri ekki nauðsynlegt.

Um leið og 20 þúsund Íslendingar hafa óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu verður hún auglýst og framkvæmd.

Heyrst hefur að Decode og Íslendingabók búi yfir tækni sem gerir þjóðaratkvæðagreiðslur fljótlegar, öruggar og ódýrar í framkvæmd.

Ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verður jákvæð þá tekur ný stjórnarskrá gildi á tilgreindum degi. 

Allar líkur eru á því að ný stjórnarskrá myndi leiða til verulegra lýðræðisumbóta og þar með væri búið að draga mjög úr hættu á spillingu valdsins og ógæfulegum ákvörðunum í framtíðinni. Almenningur væri bæði upplýstur og með úrslitavaldið í málefnum landsins. Undirrót vandans væri þar með úr sögunni.

Með þessu væri Ísland líka að taka ákveðið frumkvæði og ef aðrar þjóðir myndu fylgja fordæmi okkar myndi það leiða til jákvæðrar þróunar lýðræðis í heiminum. 

Það væri gott!

Ríkisstjórnin er gagnslaus og á að víkja núna

Ríkisstjórn Íslands hefur klúðrað þessu Icesave máli fullkomlega og á að víkja. Ef hún þráast við að horfast í augu við þann kost er það skylda hvers þingmanns að fella tillögurnar. 

Það þarf nýja ríkisstjórn til að leysa úr deilunni við Breta og Hollendinga. Það ætti að vera hægt enda eru engin lög sem segja að Íslendingar eigi einir að bæta tjón af falli einkabanka sem starfar samkvæmt Evrópskum lögum.  Ríkisstjórn Jóhönnu lét aldrei reyna á rétt okkar af ótta við að spilla fyrir umsókn Íslands í ESB. 

Ríkisstjórnin hefur gert sig seka um mörg alvarleg mistök og hér eru örfá dæmi sem tengjast Icesave:

 

  • Fórnaði samningstöðu Íslands í Icesave fyrir ESB aðild
  • Sendi trúnaðarvini í samninganefndina í stað sérfræðinga
  • Samþykkti ótrúlega lélegan samning
  • Lét af hendi réttinn til að sækja Breta til saka fyrir það tjón sem þeir bökuðu Íslandi
  • Skrifaði undir samninginn í skjóli nætur og án þess að bera hann undir þingið
  • Sagði þinginu ítrekað ósatt um framvindu samninga og ætlaði að leyna samningnum og skjölum fyrir þinginu
  • Barðist gegn því að eðilegir fyrirvarar yrðu settir við ríkisábyrgð
  • Spann hræðsluáróður um afleiðingar þess að hafna Icesave
  • Láðist að kynna umheiminum okkar hlið á Icesave málinu
  • Lét AGS komast upp með að tefja afgreiðslu sig út af ótengdu máli
  • Bað Norðmenn aldrei um lánalínu ótengda AGS en það hefði losað þumalskrúfur AGS
  • Mistókst að sannfæra Breta og Hollendinga um að fyrirvararnir væru endanlegir
  • Er nú búin að semja við Breta og Hollendinga um að fella niður verðmætustu fyrirvarana 

 

Þessi gagnslausa ríkisstjórn þarf að víkja áður en hún gerir enn fleiri axarsköft og bakar þjóðinni enn meira tjón en orðið er.


mbl.is Icesave-fyrirvörum breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfum við virkilega meiri steinsteypu núna?

surgery_468x399Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu er nú í fullum gangi. Lokanir á skurðstofum og uppsagnir eru daglegt brauð. Fall krónunnar bætir gráu ofan a  svart, því laun starfsfólks í heilbrigðisstéttum á Íslandi eru nú orðin ósamkeppnisfær við það sem býðst á norðurlöndunum. Hættan á landflótta í heilbrigðisstétt magnast. Hvað er til ráða?

Einhvern veginn datt mér ekki í hug að lausnin væri sú að byggja fleiri sjúkrahús. Þess vegna brá mér í brún þegar ég sá þessa frétt á RÚV:

Bygging nýs sjúkrahúss er gríðarlega stórt verkefni og var minnst sérstaklega á það í stöðugleikasáttmálanum sem gerður var í sumar. Viðræður ríkisvaldsins og lífeyrissjóðanna um fjármögnun þessa verkefnis hafa tafist að undanförnu ekki síst vegna Icesave-samningsins. Þær eru nú að komast á skrið aftur og er fundur um verkefnið í viðræðunefnd í dag.[Heimild RÚV]

Það er mikilvægt að halda í störf í byggingariðnaði en það er virðist þó vera enn mikilvægara að halda í störf í heilbrigðiskerfinu. Sé það ekki gert kemur óhjákvæmilega að því að biðraðir munu lengjast eftir þjónustu, einnig eftir lífsnauðsynlegri þjónustu eins og skurðaðgerðum, krabbameinslækningum og bráðamóttöku. Biðraðir voru samt nógu langar áður en niðurskurðurinn hófst:

Sjúklingar hér heima þurfa yfirleitt að bíða sárþjáðir í 327 daga eftir mjaðmaaðgerð, svo að dæmi sé tekið: þetta mun vera Evrópumet. Gamalt fólk þarf jafnan að bíða í 18 mánuði eftir plássi á dvalarheimilum og þannig áfram. [Vísbending 2004, Þorvaldur Gylfason]

Eftir því sem heilbrigðisþjónusta okkar verður lakari og ósamkeppnishæfari við það sem býðst í nágrannalöndum þá magnast hættan á landflótta. Eins og venjulega, þá fara þeir fyrstir sem hafa mesta menntun og mesta möguleika til að skapa verðmæti í kringum sig og eftir sitja hinir til að takast á við vandann.

Er óhætt að skera frekar niður í heilbrigðiskerfinu þegar lækkun krónunnar er nú þegar búin að lækka laun í heilbrigðisstétt um helming?

Þessi sjúkrahúsbygging verður að bíða betri tíðar.  Fjármagnið ætti frekar að nota til að halda heilbrigðiskerfinu í fullum gangi og draga úr landflótta hjá heilbrigðisstéttum. Það er arðbær fjárfesting.


Inngrip: Seðlabankinn spreðar varasjóðnum

Icesave í höfn og gengið styrkist. Húrra! Voru þetta viðbrögð markaðarins við aukinni skuldsetningu um 700-1000 milljarða? Nei, styrkingin er öll tilkomin vegna inngripa Seðlabankans. Hann er að kaupa krónur á hærra gengi og notar til þess gjaldeyrisforðann.

mbl.is Gengi krónunnar styrkist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband