5.1.2013 | 17:29
Ráðumst að rót verðbólgunnar
Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. janúar 2013
Verðbólga er alvarlegt vandamál sem stjórnvöldum hefur ekki tekist að ráða við. Í stað þess að koma böndum á sjálfa verðbólguna hefur vandanum verið sópað undir teppi verðtryggingar. Sú leið felur í sér að fjárfestar njóta tryggingar gegn verðbólgu en því miður er sú trygging á kostnað allra annarra í samfélaginu.
Um þá leið verður seint sátt og enn síður ef verðtrygging er einnig túlkuð sem altrygging gegn efnahagsáföllum. Með því að velta þannig verðbólgu og efnahagsáföllum alfarið á lántakendur munu tugþúsundir heimila og þúsundir fyrirtækja burðast með stökkbreytt lán árum saman. Sá skuldaklafi tefur mjög endurbata í hagkerfinu og á því tapa allir, einnig fjárfestar.
Trygging gegn hruni?
Það sætir furðu að hrein vinstristjórn skuli standa að því óréttlæti að velta hruninu alfarið á lántakendur. Næsta ríkisstjórn verður að hafa kjark til að gera almenna skuldaleiðréttingu. Allt umfram venjulegar verðhækkanir er efnahagshrun sem fjárfestar og lántakendur eiga að bera í sameiningu. Hvar stendur í lánasamningum að lántaki tryggi lánveitanda gegn efnahagsáföllum og setji að veði aleigu sína og framtíðartekjur?
Rót vandans
En hver er raunveruleg rót vandans? Hvernig mætti draga úr verðbólgu og fyrirbyggja annað efnahagshrun? Hér sem annars staðar hafa bankar fengið að auka peningamagn mun hraðar en hagkerfið vex. Afleiðingin er sú að sífellt fleiri krónur eltast við sömu framleiðsluna, sem leiðir til verðhækkana og verðbólgu. Fái peningamagn að fimmfaldast á fimm árum, eins og hér gerðist á árunum 2003-2008 þá leiðir það óhjákvæmilega til hruns.
Taumlaus peningamyndun
Peningaþensla er afleiðing þess að viðskiptabönkum er leyft að auka peningamagn að vild. Ekkert hefur verið gert til að koma böndum á peningamyndun banka eða fyrirbyggja annað hrun af þeirra völdum í framtíðinni. Viðskiptabankar græða enn á verðbólgu og fá vexti af þeim peningum sem þeir skapa. Þetta fyrirkomulag er beinlínis hættulegt.
Örugg lausn
Lausnin er að setja lög sem koma í veg fyrir að bankar geti aukið peningamagn. Hlutverk banka verði að miðla sparnaði til lántakenda, en ekki að búa til nýja peninga eins og nú er. Peningamyndun verði alfarið í höndum Seðlabanka með þarfir hagkerfisins og verðstöðugleika að leiðarljósi. Ágóði af nýmyndun peninga rennur þá óskiptur til almannahagsmuna en ekki til eigenda bankanna.
Þessi breyting myndi draga úr peningaþenslu og verðbólgu af hennar völdum. Auk þess myndi vaxtabyrði í samfélaginu og skuldir fara minnkandi eins og lýst er nánar á þessari vefsíðu www.betrapeningakerfi.is
Höfundur er rekstrarhagfræðingur og skipar 1. sæti Framsóknarflokksins í Reykjavík norður.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mæltu manna heilastur Frosti, gott að sjá að einhver reynir að koma þessu mikilvæga máli á koppinn. Svör Seðlabanka við tillögu um að draga úr möguleika bankana á að framleiða peninga voru allfurðuleg þ.e.
" Með því að gera þá grundvallarbreytingu á fjármálakerfinu að afnema heimildir innlánsstofnana til útlána umfram lausar bankainnstæður er hætt við því að margt glatist af þeim efnahagslegum tækifærum sem nú eru í boði fyrir tilstilli fjármálastofnanna. "
Það er ískyggilegt að lesa þetta svar í ljósi þess vanda sem þú bendir á að fylgi þessu lausbeislaða bankakerfi og raunar í ljósi þeirra hörmunga sem það hefur valdið Íslendingum.
Bjarn Gunnlaugur (IP-tala skráð) 5.1.2013 kl. 19:18
Maður hefði haldið að við þennan pistil hefðu getað upphafist frjóar og gagnlegar umræður um þetta helsta grundvallarþjóðarmein, verðbólguna og verðtrygginguna,vaxtaokrið og óhugnanlega skuldastöðu þjóðarbúsins. Hvar grundvallar meinið liggur og hvað sé til ráða.
Nei takk, ekki orð! En menn stara eins og dáleiddar hænur á hvert orð sem frá Birni Val kemur, um það eru menn tilbúnir að tjá sig út í það óendanlega. (sbr. moggablogg í dag)
Alveg furðulegt, alveg stórfurðulegt. Ég held að Íslendingum sé ekki viðbjargandi. Fljóta sofandi að feigðarósi, naggast og þrasa um hrein smáatriði á meðan allt stefnir til andskotans. Þras um stjórnarskrá, þras um ESB umsókn,þras um kirkjuna,þras um virkjanir (gjörsamlega ótímabært vegna skuldastöðunnar) þras um taubleyjur og síðast en ekki "síst" þras um hvað Björn Valur (af öllum mönnum) sagði. Kanski er lokaspurningin aðeins sú hvort Íslendingar taki ekki nógu mikið af geðlyfjum eða hitt hvort þeir taki of mikið af þeim, eitthvað er a.m.k. rotið í (þessu fyrrum) ríki dana!
Ég held Frosti að þú ættir ekki að vera eyða orku í þetta lið, láttu prumphænsnunum eftir prikin sín á þinginu. Þar geta þau eins og kjósendurnir,þrasað um allt og ekki neitt til dómsdags.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 6.1.2013 kl. 13:07
Ég veit það svo sem ekki Bjarni Gunnlaugur. Ég er búinn að lesa greinina bæði í dag og í gær og hef ekkert við hana að athuga. Las hana meira að segja upphátt fyrir frúnna í gærkvöldi.
Og það finnast væntanlega ekki margir sem eru ósammála þessum orðum Frosta. Þetta er eins satt og rétt og að sólin rísi í austri og setjist í vestri.
Seiken (IP-tala skráð) 6.1.2013 kl. 14:06
Seiken @14:06
Kanski að svo sé að tómlætið sem greininni er sýnt stafi af því að menn séu sammála og sjái þar með engan flöt sem vert sé að nefna. Gott ef satt væri. En hvers vegna heyrist þá ekki múkk í mönnum yfir ástandinu, fullkomnu tómlæti seðlabankans yfir hlutverki sínu (sbr tilvitnuð ummæli hér að ofan) og meira að segja hrifningu hans af einmitt þessu grundvallar vandamáli að bankarnir búa til peninga því það skapi "efnahagsleg tækifæri"?
Hvar eru hagspekingarnir, fyrir utan örfáa þá virðist þetta vandamál með peningaprentunina vera stóri bleiki fíllinn í stofunni. Ekki nefnt, ekki einu sinni látið svo lítið að reyna að hveða hugmyndina í kútinn. Skammast þeir sín kanski fyrir að hafa ekki séð hið augljósa? Í því efni má nefna stórgott viðtal Ævars Kjartanssonar við Svan Kristjánsson í morgunn. http://www.ruv.is/sarpurinn/sunnudagsspjall-um-hugmyndir-gamlar-og-nyjar/06012013-0
Þar bendir Svanur á þöggun fræðasamfélagsins gagnvart því hvernig stjórnarskráin kom til 1944 og hvernig menn hugsuðu sér að þjóðin kæmist að ákvarðanatöku um mikilvæg mál í gegnum annarsvegar forseta og hinnsvegar þing og að málskotsrétturinn væri virkur. Einnig benti hann á hvernig sömu menn og börðust fyrir þessum rétti þjóðarinnar fóru strax að vinna að því að grafa undan honum. Á sama hátt voru seinni tíma fræðimenn blindir á 26. grein stjórnarskrárinnar þar með talinn Ólafur Ragnar sem árum seinna varð þó til að virkja hann aftur.
Af hverju þessi blinda að mati Svans. Jú, að einhverju leiti eru fræðimennirnir valdatengdir en svo bendir hann líka á að íslenska fræðasamfélagið standist ekki erlendar kröfur nema með örfáum undantekningum. Af 39 vísindatímaritum standist ekki nema 5 þeirra alþjóðlegar kröfur. Á sviði landbúnaðar,jarðfræði,læknavísinda,hugvísinda og sagnfræði. Lögfræðin,viðskiftafræðin,hagfræðin, þessar fræðigreinar eru semsagt fúsk á alþjóðlega vísu. Getur verið að það sé tilviljun að það eru þessar greinar sem hafa hvað mestan snertiflöt við okkar arfavitlausa peningakerfi?
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 6.1.2013 kl. 15:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.