Færsluflokkur: Umhverfismál

Er Grænland í hættu?

greenland-port
Í júní árið 2009 fékk grænlenska þjóðin lögsögu yfir náttúruauðlindum sínum en þær höfðu fram til þess dags tilheyrt Danaveldi.  Náttúruauðlindir Grænlands eru gríðarlegar. Landið er meira en 2 milljónir ferkílómetrar. Núna eru 81% lands undir íshellu en því er spáð að hún muni hörfa hratt á næstu áratugum. Undan ströndum Grænlands má finna auðug fiskimið og mikla olíu en auk þess er landið auðugt af góðmálmum og jafnvel eðalsteinum. Nóg er af hreinu vatni og virkjanleg vatnsorka hlýtur að vera umtalsverð.

Þessar stórkostlegu náttúruauðlindir eru núna í eigu 58 þúsund Grænlendinga. Grænlendingar eiga því möguleika á að verða ein ríkasta þjóð í heimi, en ef illa tekst til gætu þeir hæglega orðið ein af skuldugustu þjóðum heims. 
 
Nýlendustefna fyrri alda var möguleg vegna þess að herveldin gátu beitt yfirburðum sínum til að komast yfir auðlindir þeirra þjóða sem minna máttu sín og það þótti ekkert að því. Íbúarnir voru jafnvel hnepptir í þrældóm og gerðir að verslunarvöru. Arðrán nýlendna var mjög ábatasöm iðja og lagði grundvöllinn að ríkidæmi margra Evrópuþjóða.
 
Sem betur fer hefur þrælahald löngu lagst af og ekki er lengur talið ásættanlegt að ein þjóð undiroki aðra þjóð.
 
En hvað með Grænlendinga - getur sú fámenna þjóð með gríðarlegar auðlindir leyft sér að vera áhyggjulaus?
 
Auðvitað ekki. Nú eru það alþjóðleg stórfyrirtæki sem vilja byggja virkjanir, reisa álver, grafa eftir gulli og fleira í þeim dúr. Stórfyrirtækin munu að sjálfsögðu ganga eins langt og þeim verður leyft í því að láta arðinn af auðlindunum falla sér í skaut, en ekki Grænlendingum. 
 
Erlendir fjárfestar og sjóðir munu bjóða þjóðinni lán svo hún geti átt hluta í virkjunum og verksmiðjum, en hér verður hættan sú að vextirnir muni éta upp allan arðinn af auðlindunum. 
 
Eflaust eiga Grænlendingar ágæta leiðtoga sem vilja gæta hagsmuna þjóðarinnar, en freistingar munu verða á hverju strái. Dæmin sanna að alþjóðleg stórfyrirtæki virðast telja það ómissandi hluta af samningagerð að reyna að múta samningamönnum og jafnvel stjórnmálamönnum ef þess þarf.
 
Í júní 2009, þegar drottning Dana færði Grænlendingum yfirráð yfir auðlindum sínum, gat ég ekki varist þeirri hugsun að nú hefði þrengt svo að gamaldags nýlendustefnu að hún væri einfaldlega orðin óarðbær. Fram væri komin mun skilvirkari aðferð við að koma arði af auðlindum smáþjóða í "réttar" hendur.
 
Nýlenduveldin eru hætt að ræna nýlendur og hneppa íbúa þeirra í ánuð. Í þeirra stað eru komin alþjóðleg stórfyrirtæki og fjárfestingasjóðir sem boða mikil tækifæri sem því miður geta snúist upp í skuldaþrælkun.
 
Vonum að Grænlendingar gangi hægt inn um gleðinnar dyr.


Spara mætti 100 milljarða með því að hraða rafbílavæðingu

chevrolet_volt_210Árlega er flutt inn eldsneyti fyrir 10 milljarða til að knýja einkabíla landsmanna. Nú eru loksins að koma rafmagnsbílar á markað sem komast meira en 150 km á einni hleðslu og útskipting bílaflotans getur hafist.

Það eru 200 þúsund einkabílar í landinu og það gæti tekið allt að 30 ár að skipta þeim flota út fyrir rafbíla. Þá er miðað við að 30% af nýjum innfluttum bílum séu rafbílar.

Á þessum 30 árum munum við samt flytja inn eldsneyti fyrir 150 milljarða þar sem aðeins helmingur bílaflotans verður rafknúinn að meðaltali á tímabilinu. Það væri því til mikils að vinna fyrir þjóðina ef hægt væri að flýta útskiptingunni með einhverjum hætti.

Til að byrja með mætti hækka aðflutningsgjöld á bíla sem ekki eru rafknúnir en lágmarka hinsvegar aðflutningsgjöld á rafbíla. Rafbílar yrðu þá ódýrari en sambærilegir bílar, bæði í innkaupum og rekstri.

Setja mætti í lög að opinberar stofnanir keyptu aðeins rafbíla. Nýjir leigubílar skuli vera rafknúnir.

Selja þyrfti um 100 þúsund notaða bíla úr landi til að búa til rými fyrir rafbíla og afla gjaldeyris. Liðka þarf fyrir þeim útflutningi eins og kostur er t.d. með endurgreiðslu á innflutningsgjöldum.

Hugsanlega mætti ná magnsamningum við einhverja bílaframleiðendur, lækka innkaupsverð og fá aðstoð við að losna við notaða bíla úr landi.

Fáar þjóðir hafa jafn mikinn ávinning af rafbílavæðingu og Ísland. Við eigum nóg af hreinni og ódýrri raforku og dreifikerfið ræður auðveldlega við að hlaða allan rafbílaflotann á nóttinni. 

Allir helstu bílaframleiðendur heims undirbúa nú markaðssetningu á rafbílum. Öld rafbílsins er loksins runnin upp þótt hún hefði mátt gera það 100 árum fyrr.

Það er gríðarlega hagkvæm fjárfesting að flýta rafbílavæðingunni eins og hægt er, svo ekki sé minnst á þá lífsgæðaaukningu sem hlýst af minni mengun.

Setjum okkur það markmið að 90% bílaflotans verði rafknúinn innan 10 ára.

Ef þetta markmið næst getur þjóðin reiknað sér sparnað upp á 100 milljarða í eldneytiskaupum á næstu 30 árum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband