Er Grænland í hættu?

greenland-port
Í júní árið 2009 fékk grænlenska þjóðin lögsögu yfir náttúruauðlindum sínum en þær höfðu fram til þess dags tilheyrt Danaveldi.  Náttúruauðlindir Grænlands eru gríðarlegar. Landið er meira en 2 milljónir ferkílómetrar. Núna eru 81% lands undir íshellu en því er spáð að hún muni hörfa hratt á næstu áratugum. Undan ströndum Grænlands má finna auðug fiskimið og mikla olíu en auk þess er landið auðugt af góðmálmum og jafnvel eðalsteinum. Nóg er af hreinu vatni og virkjanleg vatnsorka hlýtur að vera umtalsverð.

Þessar stórkostlegu náttúruauðlindir eru núna í eigu 58 þúsund Grænlendinga. Grænlendingar eiga því möguleika á að verða ein ríkasta þjóð í heimi, en ef illa tekst til gætu þeir hæglega orðið ein af skuldugustu þjóðum heims. 
 
Nýlendustefna fyrri alda var möguleg vegna þess að herveldin gátu beitt yfirburðum sínum til að komast yfir auðlindir þeirra þjóða sem minna máttu sín og það þótti ekkert að því. Íbúarnir voru jafnvel hnepptir í þrældóm og gerðir að verslunarvöru. Arðrán nýlendna var mjög ábatasöm iðja og lagði grundvöllinn að ríkidæmi margra Evrópuþjóða.
 
Sem betur fer hefur þrælahald löngu lagst af og ekki er lengur talið ásættanlegt að ein þjóð undiroki aðra þjóð.
 
En hvað með Grænlendinga - getur sú fámenna þjóð með gríðarlegar auðlindir leyft sér að vera áhyggjulaus?
 
Auðvitað ekki. Nú eru það alþjóðleg stórfyrirtæki sem vilja byggja virkjanir, reisa álver, grafa eftir gulli og fleira í þeim dúr. Stórfyrirtækin munu að sjálfsögðu ganga eins langt og þeim verður leyft í því að láta arðinn af auðlindunum falla sér í skaut, en ekki Grænlendingum. 
 
Erlendir fjárfestar og sjóðir munu bjóða þjóðinni lán svo hún geti átt hluta í virkjunum og verksmiðjum, en hér verður hættan sú að vextirnir muni éta upp allan arðinn af auðlindunum. 
 
Eflaust eiga Grænlendingar ágæta leiðtoga sem vilja gæta hagsmuna þjóðarinnar, en freistingar munu verða á hverju strái. Dæmin sanna að alþjóðleg stórfyrirtæki virðast telja það ómissandi hluta af samningagerð að reyna að múta samningamönnum og jafnvel stjórnmálamönnum ef þess þarf.
 
Í júní 2009, þegar drottning Dana færði Grænlendingum yfirráð yfir auðlindum sínum, gat ég ekki varist þeirri hugsun að nú hefði þrengt svo að gamaldags nýlendustefnu að hún væri einfaldlega orðin óarðbær. Fram væri komin mun skilvirkari aðferð við að koma arði af auðlindum smáþjóða í "réttar" hendur.
 
Nýlenduveldin eru hætt að ræna nýlendur og hneppa íbúa þeirra í ánuð. Í þeirra stað eru komin alþjóðleg stórfyrirtæki og fjárfestingasjóðir sem boða mikil tækifæri sem því miður geta snúist upp í skuldaþrælkun.
 
Vonum að Grænlendingar gangi hægt inn um gleðinnar dyr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef til vill eru Grænlendingar heppnir á sama hátt og Íslendingar, að eiga miklar náttúruauðlindir.

En þó er líklegt að þeir séu í viðkvæmri stöðu með allt sitt ríkidæmi sem fólksfleiri þjóðir eða ríkjasamsteypur munu líta til með löngunaraugum.

Í því ljósi er ástæða til að hrósa Dönum, fyrir að hafa látið Grænland af hendi nokkurn veginn möglunarlaust, svo hinir fámennu "eyjarskeggjar" geti setið einir að sínu landi.

Mér finnst það alla vega íhugunarvirði og reyndar aðdáunarvert af fyrrverandi Víkingum, eins og Danir voru til forna.

Sigurður Herlufsen (IP-tala skráð) 26.12.2010 kl. 00:14

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég myndi ekki hafa áhyggjur af Grænlendingum en þeirra eðli/hugsun er að safna til mögru áranna. Okkar eðlið er að skuldsetja komandi ár og er mikill munur þar á en það hefir alltaf verið svo hér. Það var viðtal við höfuðsmann þeirra í sjónvarpinu í vetur um einmitt þetta að svaraði hann að þeir myndu setja auð sem kæmi vegna auðlinda í sjóði til mögru áranna eins og Normenn gera. Við slendingarnir gerum ekkert annað en að opna land fyrir ómögum á kostnað okkar sem kallaðir eru flóttamenn af ýmsu tagi ásamt glæpagengi í stórum grúppum sem lifa á styrkjum eins og slendingarnir gerðu í Danmörk og gere enn. Þjóðarstolt laus þjóð. Það mun ekki vera neitt svona hjá Grænlendingum. 

Valdimar Samúelsson, 26.12.2010 kl. 15:12

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

Eðli stórfyrirtækjanna hlýtur að reka þau á Grænlandsstrendur í von (eða vissu) um gróða.

Sjálfur teldi ég farsælt að Ísland, Grænland og Færeyjar mynduðu ríkjabandalag byggt á jafnréttisgrunni.....ég er bara ekki viss um að ég treysti íslenskum stjórnmálamönnum í það verkefni.

Haraldur Baldursson, 26.12.2010 kl. 21:57

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég tæki undir sameiningu þessara þriggja ríkja enda geta þau styrkt hvort annað. Við höfum góða verkfræðinga og mikið fram að bera annað en pólitíkina.

Valdimar Samúelsson, 27.12.2010 kl. 00:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband