Inngrip: Seðlabankinn spreðar varasjóðnum

Icesave í höfn og gengið styrkist. Húrra! Voru þetta viðbrögð markaðarins við aukinni skuldsetningu um 700-1000 milljarða? Nei, styrkingin er öll tilkomin vegna inngripa Seðlabankans. Hann er að kaupa krónur á hærra gengi og notar til þess gjaldeyrisforðann.

mbl.is Gengi krónunnar styrkist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Takið eftir niðurlagi fréttarinnar:

"Ekki verður hins vegar séð að viðskipti hafi átt sér stað í kerfi Reuters frá því krónan fór að styrkjast að nýju hér á landi í gærmorgun og hefur munur innlends gengis og aflandsgengis aukist að nýju miðað við það"

Aflandsgengi krónunnar hefur ekkert styrkst við Icesave samninginn.

Það sem ég óttast núna allra mest er að Seðlabankinn styrki krónuna með inngripum sem munu kosta þjóðina milljarða, fengna að láni hjá AGS. Fjárfestar munu nota tækifærið og flytja fé sitt úr landi vitandi að Seðlabankinn mun ekki geta haldið genginu uppi til frambúðar.

Hver einasti milljarður sem Seðlabankinn brennir á þessu báli sýndarmennskunar mun leggjast á Íslendinga.

Seðlabankinn má alls ekki vera með inngrip til að styrkja krónuna.

Frosti Sigurjónsson, 28.8.2009 kl. 13:24

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Gengi sem er undir áhrifum inngripa frá seðlabanka er ekki flotgengi.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.8.2009 kl. 13:26

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er kominn nýr kapteinn í brú SÍ, gamall aðalhagfræðingur sem keyrði upp stýrivextina fyrir nokkrum árum enda vaxahækunar söngurinn byrjaður þar á bæ.  Nei það er ekki von á góðu.

Magnús Sigurðsson, 28.8.2009 kl. 13:55

4 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

"Handstýrt flotgengi" er það ástand peninga-kerfisins sem við höfum búið við frá 2001, þegar nýju lögin um Seðlabankann voru sett. Eins og Guðmundur bendir réttilega á, þá er það ekki flotgengi.

"Handstýrt flotgengi" er í aðalatriðum ekkert frábrugðið "handstýrðu fastgengi". Hvort tveggja er afbrigði af sömu peningastefnu, það er að segja "torgreindri peningastefnu" (discretionary monetary policy).

Við höfum reynt þetta peningakerfi í um 100 ár og með hörmulegum afleiðingum. Því miður er ekkert annað framundan en sama sukkið, "sýndar peningur" (fiat money) og "hókus-pókus" æfingar Seðlabankans. Verðbólgan mun halda áfram að geysa, eignabruninn mun ekki hægja á sér og áfram verður haldið að arðræna almenning með skipulegum hætti.

Loftur Altice Þorsteinsson, 28.8.2009 kl. 15:36

5 Smámynd: Einar Guðjónsson

Við erum í Norður- Kóreu og Steingrímur il Sung var að klára samþykkt á flokksþinginu og boðar þýðu í samskiptum við Hollendinga og Breta og Már il Jong er kominn í SÍ. Skil ekki hvar þú heldur að við séum Frosti ??

Einar Guðjónsson, 28.8.2009 kl. 17:14

6 identicon

Tja ... eitt af hlutverkunum er að halda genginu stöðugu og sennilega þarf það með inngripum. Nú ef það er "sig" á kerfinu þá virðist bankinn "leiðrétta" gengið út frá áður ákveðnum gengiskrossi.

En, Frosti, fyrst þú ert svo á móti þessu, til hvaða ráða á að grípa til að styrkja gengi krónunnar? Ef það er gert rétt, er það að mínu mati lang besta hagsbótin sem landið getur fengið. Það er algjörlega út úr kortinu að þetta gengi sé rétt, sem og að við sem þjóð getum lifað við það til langs tíma litið.

Árni (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 18:26

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Frosti er spenntur fyrir því að keyra EUR í 400 kall eða svo, með því að hafna Icesave, hætta samstarfi við AGS, hafa engan gjaldeyrisforða, heldur treysta bara á Guð og lukkuna.  Þá fyrst verður almennt fjöldagjaldþrot, óðaverðbólga, og alger flótti út úr krónunni, sem verður verðlaus gjaldmiðill.  Þetta rústar jafnframt bönkunum og lífeyrissjóðunum, og íslenska hagkerfið líður undir lok.  Frábær framtíðarsýn fyrir unga fólkið sem getur alveg eins fengið sér góða vinnu og stöðuga framtíð í evrulandi.

Það er engin tilviljun að öll helstu samtök atvinnulífsins (nema LÍÚ) hafa stefnu sem er 180 gráður á þetta óraunsæis-rugl.  Og reyndar ASÍ líka.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.8.2009 kl. 18:50

8 Smámynd: Þór Jóhannesson

Nákvæmlega Vilhjálmur en það er orðið bannað að tala af skynsemi í dag, nú er bara leyfilegt að vera í Framsóknarupphrópunarpopúlisma á blogginu - annars er maður víst réttdræpt fífl.

Þór Jóhannesson, 28.8.2009 kl. 21:14

9 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ef Seðlabankinn er að ganga á IMF lánið sem landslýð var sagt að myndi liggja óhreyft þrátt fyrir 2% óhagstæðan vaxtamun, þá er landsfriðurinn úti. 

HVAR er þessi Steingrímur J sem steytti hnefa á Alþingi í vetur og afneitaði afskiptum IMF? 

Kolbrún Hilmars, 28.8.2009 kl. 23:43

10 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Kolbrún, lánið frá AGS er einmitt og akkúrat tekið til þess að styðja við krónuna.  Þegar það er gert, eignast Seðlabankinn krónur sem hann getur svo selt síðar fyrir gjaldeyri - og hagnast á því ef krónan hefur styrkst í millitíðinni.  AGS lánið á hins vegar ekki að nota í almennan rekstur eða fjárfestingar ríkisins.

Ef Seðlabankinn hefur engan gjaldeyrisforða, vita spákaupmenn og aðrir að það er engin fyrirstaða fyrir krónuna að veikjast, og geta spilað inn á ýktar gengissveiflur.  Hlutverk gjaldeyrisforða er að hluta leikjafræðilegt og sálfræðilegt, þannig að ef hann er nógu stór og öflugur, og markaðurinn hefur trú á því að honum yrði beitt ef þörf krefði, þá þarf ekki að nota hann.  Ef hann er aftur á móti lítill eða enginn, eða það er prinsipp að nota hann ekki, spilar markaðurinn á þá staðreynd og flöktið eykst, verður jafnvel fullkomlega öfgakennt.

Þeir sem vilja kynna sér þetta geta skoðað greinar t.d. á Wikipediu um leikafræði (Game Theory), sérstaklega fangaþversögnina (Prisoner's Dilemma).

Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.8.2009 kl. 00:31

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

NB: Íslenskt hagkerfi er á þeim stað akkúrat núna að þola litlar sem engar sveiflur til viðbótar, þ.e. viðbótar veikingu krónunnar - sem myndi orsaka enn frekari verðbólgu og gjaldþrot þeirra sem skulda verðtryggt eða gengistryggt.  Allt sem gert er til að minnka hættu á slíku er gott mál og almenningi til hagsbóta.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.8.2009 kl. 00:35

12 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Vilhjálmur skrifar:

Frosti er spenntur fyrir því að keyra EUR í 400 kall eða svo, með því að hafna Icesave, hætta samstarfi við AGS, hafa engan gjaldeyrisforða, heldur treysta bara á Guð og lukkuna.  Þá fyrst verður almennt fjöldagjaldþrot, óðaverðbólga, og alger flótti út úr krónunni, sem verður verðlaus gjaldmiðill.  Þetta rústar jafnframt bönkunum og lífeyrissjóðunum, og íslenska hagkerfið líður undir lok.

Það má vera að okkur greini á um hvaða leið sé farsælust til að styrkja gengi krónunnar og byggja upp eftir hrunið en það er alveg óþarfi að væna mig um að vilja "keyra EUR í 400 kall eða svo" - ég hefði gjarnan viljað sjá málefnalegra innlegg frá vini mínum.

Vandi Íslands er sá að við skuldum útlendingum of mikið en lausnin á þeim vanda er alls ekki fólgin í því að taka frekari lán hjá AGS og skella ICESAVE skuldinni á okkur að auki. 

Gjaldeyrisforði okkar er líklega einhver og hann verður áfram til staðar ef Seðlabankinn lætur það vera að brenna honum í að styrkja gengið með "inngripum" af því tagi sem fréttin fjallaði um. Vilhjálmur segir ennfremur:

lánið frá AGS er einmitt og akkúrat tekið til þess að styðja við krónuna.  Þegar það er gert, eignast Seðlabankinn krónur sem hann getur svo selt síðar fyrir gjaldeyri - og hagnast á því ef krónan hefur styrkst í millitíðinni.

Það er þetta ef sem veldur mér áhyggjum. Því ef krónan hefur veikst í millitíðinni þá höfum við tapað peningunum sem við fengum hjá AGS að láni. Varasjóðurinn rýrnar en við skuldum jafn mikið eftir sem áður. Eigum við þá að taka meira lán? Vilhjálmur kemur með annan punkt:

Hlutverk gjaldeyrisforða er að hluta leikjafræðilegt og sálfræðilegt, þannig að ef hann er nógu stór og öflugur, og markaðurinn hefur trú á því að honum yrði beitt ef þörf krefði, þá þarf ekki að nota hann.  Ef hann er aftur á móti lítill eða enginn, eða það er prinsipp að nota hann ekki, spilar markaðurinn á þá staðreynd og flöktið eykst, verður jafnvel fullkomlega öfgakennt.

Það hefur líka verið bent á að gjaldeyrisforði sem fenginn er að láni getur ekki orðið trúverðugur hversu stór eða öflugur sem hann er. Ísland er stórskuldugt og því ekki í trúverðugri stöðu til spila leikinn. Það sjá allir í gegnum slíkt. Því miður. Að lokum bætir Vilhjálmur við:

NB: Íslenskt hagkerfi er á þeim stað akkúrat núna að þola litlar sem engar sveiflur til viðbótar, þ.e. viðbótar veikingu krónunnar - sem myndi orsaka enn frekari verðbólgu og gjaldþrot þeirra sem skulda verðtryggt eða gengistryggt.  Allt sem gert er til að minnka hættu á slíku er gott mál og almenningi til hagsbóta.

Þessu er ég alveg sammála en tel samt áfram að inngrip stórskuldugs seðlabanka ótrúverðug og ekki til þess fallin að styrkja krónuna í raun.  

Frosti Sigurjónsson, 29.8.2009 kl. 01:53

13 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta er náttúrulega snilldar hagfræði sem Vilhjálmur bendir á, auðvitað segir það sig sjálft að í lokuðu hagkerfi gjaldeyrishafta má stunda sápukúlu hagfræði eftir eyranu.  Það þarf bara að treysta á heiðarleika viðskiptabankanna svo ekkert leki úr kúlunni.  því er sjálfsagt engin hætta á að sagan frá í október endurtaki sig þegar Seðlabankinn kláraði gjaldeirsforðann á hálftíma og fór á hausinn.

En veruleiki fólks er misjafn, ekki get ég tekið undir sápukúluhagfræði Seðlabankans jafnvel þó ASÍ, stjórnmálamenn og öll kúlulána elítan taki undir í einum kór. 

Magnús Sigurðsson, 29.8.2009 kl. 09:12

14 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Báðar leiðirnar ( leiðir Frosta og Vilhjálms ) eru ágætlega færar, Leið Frosta að eiga engan eða lítinn gjaldeyrisforða og leifa krónunni að hrynja til skamms tíma og leið Vilhjálms að verja Krónuna með lánuðum gjaldeyrisforða. Báðar leiða til sömu niðurstöðu það er, jafnvægisgeni á ISK eftir nokkur misseri en með því að verja ISK falli með lánum verður höggið minna og tíminn sem leiðréttingin tekur sem því nemur lengri.

Það er hinsvegar stór áhættumunur í þessu tvennu. Því með því að verja ISK falli með lánum er verður til tap hjá seðlabankanum í gjaldeyri sem ekki leiðréttist nema krónan styrkist aftur.

Ég hef persónulega miklar áhuggjur af þessu.

Guðmundur Jónsson, 29.8.2009 kl. 09:35

15 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Frosti, talið um 400 kallinn er tilkomið vegna þess að ég hef lesið eftir þig og skoðanabræður þína texta þar sem menn tala nokkuð kæruleysislega um að leyfa krónunni að veikjast þar til að hún finni botn.  Það sé gott fyrir útflutningsgreinar og viðskiptajöfnuð að hún veikist hressilega og að þessi "möguleiki" sé ein meginástæða til að hafa krónuna á annað borð.

En hagfræðin í þessu er bara sú akkúrat núna að krónan má ekki veikjast svo neinu nemur til viðbótar.  Það er vegna þess að 10% veiking kemur fram sem sirka 5% verðlags- og vísitöluhækkun og hækkar verðtryggðar og gengistryggðar skuldir fólks og fyrirtækja, sem geta ekki meir í stöðunni.  Krónuna verður því að verja með kjafti og klóm úr því sem komið er og það verður ekki gert með því að hætta samstarfi við AGS, setja Ísland í viðskiptastríð við Evrópu og taka vopn úr hendi Seðlabankans.

Flestir telja að krónan sé nú veikari en hún ætti að vera til langframa og þá getur vel verið mjög skynsamlegt fyrir Seðlabankann (og þjóðarbúið) að kaupa krónur fyrir gjaldeyri. Hann þolir alveg að sitja á krónunum í einhvern tíma uns hægt er að selja þær aftur.  Svo má ekki gleyma því að hann fær betri vexti á krónurnar en gjaldeyrinn ;-)

En það er líka aðalatriði að Seðlabankinn sýni tennurnar í leikjafræðinni, geri markaðnum ljóst að honum sé alvara og ná með því að hafa áhrif á sálfræði markaðarins (en markaðir snúast fyrir rest einkum um sálfræði).

Svo minni ég á að þessi peningastefnuvandamál hverfa eins og dögg fyrir sólu um leið og við tökum upp evru, sem má gjarnan gerast á tiltölulega veiku krónugengi, enda verða þá skuldir viðráðanlegri í evru en ella.

Ég skil ekki orð í athugasemd Magnúsar og treysti mér því ekki til að svara henni.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.8.2009 kl. 09:54

16 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er ekki nema von að þú skiljir hana ekki Vilhjálmur minn, enda svífum við ekki í sömu sápukúlunni.

Magnús Sigurðsson, 29.8.2009 kl. 10:42

17 Smámynd: Guðmundur Jónsson

“En hagfræðin í þessu er bara sú akkúrat núna að krónan má ekki veikjast svo neinu nemur til viðbótar. Það er vegna þess að 10% veiking kemur fram sem sirka 5% verðlags- og vísitöluhækkun og hækkar verðtryggðar og gengistryggðar skuldir fólks og fyrirtækja, sem geta ekki meir í stöðunni.”

 

Krónan má veikjast því seðlabankinn og ríkistjónin geta lækkað vexti og leiðrétt vísitöluna eftir því sem þörf er á. Þau fyrirtæki og einstaklingar sem voru í gengisbraski án þess að hafa tekjur í gjaldeyri verða að taka á sig tjónið af eigin heimsku. Að ætla að fara að bjarga öllum fávitunum er það vitlausasta sem hægt er að gera. Illa rekin fyrirtæki og einstaklingar sem kunna ekki með aur að fara verða einfaldlega að fá að fara í gjaldþrot annars versnar ástandi bara og sömu óvitarnir halda þá bara áfram sömu vitleysunni. 

 

“ Krónuna verður því að verja með kjafti og klóm úr því sem komið er og það verður ekki gert með því að hætta samstarfi við AGS, setja Ísland í viðskiptastríð við Evrópu og taka vopn úr hendi Seðlabankans.”

 

Krónuna þarf tæknilega ekki að verja hún ver sig sjálf ef hún fær að falla Það er bar sárt fyrir marga þá sem voru að braska með hanna. Ef Íslendingar halda áfram að nota Krónuna þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af henni.

 

“Flestir telja að krónan sé nú veikari en hún ætti að vera til langframa og þá getur vel verið mjög skynsamlegt fyrir Seðlabankann (og þjóðarbúið) að kaupa krónur fyrir gjaldeyri. Hann þolir alveg að sitja á krónunum í einhvern tíma uns hægt er að selja þær aftur. Svo má ekki gleyma því að hann fær betri vexti á krónurnar en gjaldeyrinn ;-)”

 

Áhættan liggur í þessu, hvað ef þessir flestir hafa rangt fyrir sér.

 “En það er líka aðalatriði að Seðlabankinn sýni tennurnar í leikjafræðinni, geri markaðnum ljóst að honum sé alvara og ná með því að hafa áhrif á sálfræði markaðarins (en markaðir snúast fyrir rest einkum um sálfræði.” Blankur seðlabanki getur ekki sýnt neinum tennurnar því hann er tannlaus og upp á náð og miskunn lándrottna sinna. Það er því IMF sem þarf að sýna tennurnar. “Svo minni ég á að þessi peningastefnuvandamál hverfa eins og dögg fyrir sólu um leið og við tökum upp evru, sem má gjarnan gerast á tiltölulega veiku krónugengi, enda verða þá skuldir viðráðanlegri í evru en ella.” Þessi vandamál hverfa ekki, þau færast bara úr seðlabanka ísland yfir í seðlabanka evrópu þar sem við ráðum engu um þau mál.

Guðmundur Jónsson, 29.8.2009 kl. 10:44

18 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Seðlabankinn er ekki stórskuldugri en svo að hann á eign á móti skuldinni.  Ef hann fær lánaða 100 milljón dollara og kaupir krónur fyrir 30 milljónir af þeim, á hann ennþá 70 milljón dollara inni á reikningi og svo krónur fyrir afganginn.  AGS lánapakkinn er til nokkurra ára og er ætlað að vera sveiflujafnandi og mynda bakland fyrir krónuna.  Vissulega er hætta á að ef krónuvörnin mistekst gjörsamlega og allir missa trú á henni (t.d. ef við neitum að standa við skuldbindingar okkar og verðum brennimerktir sem farísear á hinum alþjóðlega fjármálamarkaði), þá tapi Seðlabankinn þegar upp er staðið.  En líklegra er að annað af tvennu gerist, þ.e. að krónan færi sig nær eðlilegu jafnvægisgengi til langs tíma, eða (sem mér finnst líklegra og betra) að við förum inn í ERM II og svo evru með stuðningi ECB.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.8.2009 kl. 12:00

19 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Frosti kemur að kjarna málsins, þegar hann segir:

Það hefur líka verið bent á að gjaldeyrisforði sem fenginn er að láni getur ekki orðið trúverðugur hversu stór eða öflugur sem hann er.

Það er kjánaskapur að halda, að lánsfé auki trúverðugleika gjaldmiðils. Trúverðugleiki gjaldmiðils er ekki sálfræðbrella, eins og sumir virðast trúa. Þeir sem versla á gjaldmiðla-markaði, leggja mat á framtíðarhorfur. Þeir kynna sér allt sem skiptir máli um gjaldmiðilinn og þar á meðal skuldastöðu viðkomandi hagkerfis.

Bezta leið til að varðveita stöðugleika gjaldmiðils er að hann sé "alvöru peningur" (real money), en ekki "sýndar peningur" (fiat money). Þetta er gert með því að baktryggja gjaldmiðilinn með varasjóði. Þessi varasjóður verður ávallt að vera skiptanlegur fyrir gjaldmiðilinn, svo að trúverðugleikinn haldist.

Svo nefnt "hluta-sjóðs-kerfi" (fractional reserve system) er aðferð til að búa til peninga úr engu. Gefnir eru út peningar sem engin trygging er fyrir að hægt sé að innleysa með verðmætum. Höfum í huga, að útgefnir peningar eru ávísun á verðmæti, sem útgefandinn á að hafa til reiðu. Gjaldeyrisforði Seðlabankans er því í raun tekinn að láni hjá handhöfum þess gjaldmiðils sem Seðlabankinn hefur gefið út.

Loftur Altice Þorsteinsson, 29.8.2009 kl. 13:42

20 Smámynd: Haraldur Baldursson

Hagfræði er ekki raunvísindi, það er engin "akkúrat" rétt leið í hagfræði.

Vilhjálmur skrifar :
"Þá fyrst verður almennt fjöldagjaldþrot, óðaverðbólga, og alger flótti út úr krónunni, sem verður verðlaus gjaldmiðill.  Þetta rústar jafnframt bönkunum og lífeyrissjóðunum, og íslenska hagkerfið líður undir lok.  Frábær framtíðarsýn fyrir unga fólkið sem getur alveg eins fengið sér góða vinnu og stöðuga framtíð í evrulandi."
Hvað verður um fyrirtæki sem fer á hausinn ? Fólkið sem þar vinnur stendur án vinnu, húsnæðið stendur autt, lagerinn fer í þrotabú, vörurnar eru boðnar upp... Það sem þó stendur eftir er þekking fólkins, viðskiptalegir tenglar erlendis eru oft (ekki alltaf) enn til staðar. Sé varan (hvort sem um innflutning, eða útflutning er að ræða) enn eftirsótt, verður hægt að koma viðskiðtum í gang að nýju. Forstjórar fyrirtækja ræða oft og einatt um mannauðinn. Merkingin er reyndar stundum breygluð hjá þeim og þeir einblína á seinni hluta orðsins..."auðinn" sér til handa. Burt séð frá því þá stendur mannauðurinn samt eftir og fer ekki inn í þrotabúið. Ofurskuldsett fyrirtæki fara á hausinn og eiga að fá frið til þess. Sé eitthvað í vöruna varið, munu ný fyrirtæki rísa upp og taka þann slaka.
Um verðleysi krónunar er það að segja að útflutingurinn mun reisa hana við að nýju. Pappírstígrar sem vilja lifa eins og Bonzai-tré á erlendum lánum pakka þá bara niður í töskur og fara.
Unga fólkið mun fara segir Vilhjálmur....þar er ekkert sem Vilhjálmur getur lagt til sem hindrar það, því miður. Það verður mikill missir í því fólki sem er á leiðinni út, mjög mikill missir. Það er hins vegar ekkert hægt að gera á næstunni sem hindrar þennan flótta.
Hagkerfið mun fara í gegnum mikinn hreinsunareld og þessu betur komum við út úr honum, eftir því sem við tökum minni erlend lán til að viðhalda einhverju sem ekki verður viðhaldið... hættum að hugsa eins og alki í leit að nýjum sopa... nýjum yfirdrætti og sýnum smá dug. Ég hvet athafnamenn eins og þig Vilhjálmur til að rísa undir loforðum um getu og framfarir og hætta að leita að spena með gervimjólk... takið slaginn eins og menn.

Haraldur Baldursson, 30.8.2009 kl. 11:46

21 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ekki stendur á mér að leggja hönd á plóg, Haraldur, og það geri ég ef nokkur kostur er á.  En það er hægt að gera viðskiptaskilyrði svo óhagstæð að það sé eins og að reyna að hlaupa í sírópi að reka fyrirtæki.  Til dæmis með því að hætta samstarfi við AGS, hafna Icesave, taka upp viðskiptalega hafta- og einangrunarstefnu, halda í krónuna út yfir gröf og dauða, leyfa Indriða H. Þorlákssyni að ráða skattastefnu ríkisins, og nautheimska nafnleysingjahernum á bloggi Egils Helgasonar að stýra tíðarandanum.  Það er vísasta leiðin til að slökkva þá neista sem hér fyrirfinnast ennþá, þrátt fyrir allt.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.8.2009 kl. 12:50

22 Smámynd: Haraldur Baldursson

Kæri Vilhjálmur, ég biðst forláts á sóðalegum um-væningum mínum um að þú settir ekki fullan þunga á bak við plóginn. Þú hefur unnið þér inn annað og betra en pirraða framsetningu sem þessa frá mér. Ég harma hana.
Það sem vissulega er og verður, um all nokkra hríð, erfitt er að reka fyrirtæki í þessu umhverfi. En hvor vandinn er stærri, erfitt vaxtaumhverfi, eða skuldsetningar fyrirtækja. Ég hygg að rekstur ansi margra fyrirtækja beri sig vel ef ekki kæmi til yfirskuldsett staða þeirra.

En svo er það hagfræðin. Hagfræðingar eru eins og áramótasprengjur...þeir þeytast í allar áttir í skoðunum sínum. Það er ekkert til sem er rétt. Stundum er hreinlega ekki verið að spyrja réttra spurninga, ekki verið að stilla upp nema takmörkuðum úrlausnum út frá takmörkuðum fjölda mögulegra aðstæðna.
Hvað gerist ef :

  • hagkerfi heimsins tekur við sér eftir 1/2 ár
  • hagkerfi heimsins heldur áfram að hrynja
  • hagkerfi heimsins minnkar svo mikið að útflutningsmarkaðir okkar skreppa saman um 10% til viðbótar
  • hagkerfi heimsins minnkar svo mikið að útflutningsmarkaðir okkar skreppa saman um 40% til viðbótar

Hvers vegna eru okkur ekki birtar niðurstöður umfram þess sem nú er gert ? Miðað við óvissuna myndi maður vilja ætla að vinna þyrfti með fleiri en eitt módel og að vega þyrfti hvert þeirra út frá áhættu. Framsetning upplýsinga til okkar er hins vegar mjög einsleit og tekur ekki til víðrar úttektar.
Eru til módel sem segja að við séum að leika réttann leik með því að skuldsetja okkur meira ? ...örugglega, en eru þau rétt ?
Landflóttinn
Ég er nýkomin frá Þýskalandi og átti þess kost að hitta vel menntað fólk í atvinnulífinu og annað við það að stíga þangað inn. Óvissan um atvinnuástandið er gríðarlega mikil og fá störf í boði. Alþjóðavæðing fyrirtækja eins og t.d. Nokia gefur Evrópu ekki góðar framtíðarhorfur. Verið er að færa störf frá Evrópu í stórum stíl. Atvinnuleysi er að aukast. Nýútskrifað fólk hleypur ekki í störf sem bíða eftir þeim. Þó ekki vilji ég mála Grýlur á vegginn, spyr ég samt hvert á ungt fólk frá Íslandi að leita þegar það yfirgefur okkar land ?

Haraldur Baldursson, 30.8.2009 kl. 13:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband