Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
5.1.2013 | 17:29
Ráðumst að rót verðbólgunnar
Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. janúar 2013
Verðbólga er alvarlegt vandamál sem stjórnvöldum hefur ekki tekist að ráða við. Í stað þess að koma böndum á sjálfa verðbólguna hefur vandanum verið sópað undir teppi verðtryggingar. Sú leið felur í sér að fjárfestar njóta tryggingar gegn verðbólgu en því miður er sú trygging á kostnað allra annarra í samfélaginu.
Um þá leið verður seint sátt og enn síður ef verðtrygging er einnig túlkuð sem altrygging gegn efnahagsáföllum. Með því að velta þannig verðbólgu og efnahagsáföllum alfarið á lántakendur munu tugþúsundir heimila og þúsundir fyrirtækja burðast með stökkbreytt lán árum saman. Sá skuldaklafi tefur mjög endurbata í hagkerfinu og á því tapa allir, einnig fjárfestar.
Trygging gegn hruni?
Það sætir furðu að hrein vinstristjórn skuli standa að því óréttlæti að velta hruninu alfarið á lántakendur. Næsta ríkisstjórn verður að hafa kjark til að gera almenna skuldaleiðréttingu. Allt umfram venjulegar verðhækkanir er efnahagshrun sem fjárfestar og lántakendur eiga að bera í sameiningu. Hvar stendur í lánasamningum að lántaki tryggi lánveitanda gegn efnahagsáföllum og setji að veði aleigu sína og framtíðartekjur?
Rót vandans
En hver er raunveruleg rót vandans? Hvernig mætti draga úr verðbólgu og fyrirbyggja annað efnahagshrun? Hér sem annars staðar hafa bankar fengið að auka peningamagn mun hraðar en hagkerfið vex. Afleiðingin er sú að sífellt fleiri krónur eltast við sömu framleiðsluna, sem leiðir til verðhækkana og verðbólgu. Fái peningamagn að fimmfaldast á fimm árum, eins og hér gerðist á árunum 2003-2008 þá leiðir það óhjákvæmilega til hruns.
Taumlaus peningamyndun
Peningaþensla er afleiðing þess að viðskiptabönkum er leyft að auka peningamagn að vild. Ekkert hefur verið gert til að koma böndum á peningamyndun banka eða fyrirbyggja annað hrun af þeirra völdum í framtíðinni. Viðskiptabankar græða enn á verðbólgu og fá vexti af þeim peningum sem þeir skapa. Þetta fyrirkomulag er beinlínis hættulegt.
Örugg lausn
Lausnin er að setja lög sem koma í veg fyrir að bankar geti aukið peningamagn. Hlutverk banka verði að miðla sparnaði til lántakenda, en ekki að búa til nýja peninga eins og nú er. Peningamyndun verði alfarið í höndum Seðlabanka með þarfir hagkerfisins og verðstöðugleika að leiðarljósi. Ágóði af nýmyndun peninga rennur þá óskiptur til almannahagsmuna en ekki til eigenda bankanna.
Þessi breyting myndi draga úr peningaþenslu og verðbólgu af hennar völdum. Auk þess myndi vaxtabyrði í samfélaginu og skuldir fara minnkandi eins og lýst er nánar á þessari vefsíðu www.betrapeningakerfi.is
Höfundur er rekstrarhagfræðingur og skipar 1. sæti Framsóknarflokksins í Reykjavík norður.
10.12.2012 | 21:04
Umsögn um 67. grein frumvarps um stjórnarskrá
Eftirfarandi umsögn hefur verið mótttekin af stjórnlaga- og eftirlitsnefnd Alþingis:
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndNefndasvið Alþingis
nefndasvid@althingi.is
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík 9. desember 2012
Umsögn um 67. grein frumvarps til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þingskjal 510 - Mál nr. 415.
Í 67. grein eru settar afar víðtækar takmarkanir við því hvaða málum kjósendur geti vísað til þjóðaratkvæðis. Þessar takmarkanir sem eru bæði matskenndar og ólýðræðislegar, munu fyrirsjáanlega leiða til vandamála.
Svo virðist sem Stjórnlagaráði hafi verið þessi hætta ljós, enda er í greininni tekið fram að ágreiningi um túlkunaratriði skuli vísað til dómstóla. Ekki þarf að fjölyrða um hvaða óvissa, tafir og kostnaður bíður kjósenda sem þurfa að fara dómstólaleiðina til að fá skorið úr um slíkan ágreining.
Ákvæðið um að túlkun dómstóla skuli ráða hvort kjósendur fái að tjá sig um einstök mál í þjóðaratkvæðagreiðslu, virðist opna á þann möguleika að dómstólar fái óbeint löggjafarvald. Dómstólar geta endað í þeirri aðstöðu að þurfa að skera úr um hvort kjósendur megi beita málskoti eða frumkvæði um lagasetningu sem hafa myndi áhrif á dómstólana sjálfa beint eða óbeint. Slíkt fyrirkomulag gengur gegn þrískiptingu valdsins.
Þrátt fyrir að 67. gr. beri yfirskriftina Framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæða- greiðslu þá segir greinin ekkert sem máli skiptir um framkvæmdina en vísar í staðinn þeim atriðum til löggjafans án fyrirvara eða leiðsagnar.
Að fenginni reynslu í Icesave þjóðaratkvæðagreiðslunni (sjá viðauka) er einmitt full ástæða til að stjórnarskrá gefi stjórnvöldum og löggjafanum sem minnst svigrúm til að draga úr málskotsvaldi kjósenda með óheppilegri lagasetningu.
Það, að undanskilja ákveðna málaflokka málskots- og frumkvæðisrétti er takmörkun á beinu lýðræði og í raun lítt dulbúin mógðun við skynsemi almennra kjósenda. Það er lítil bót í því að forsetavaldið sé ekki háð sömu takmörkunum.
Það getur ekki verið ásættanlegt að þjóðin þurfi til framtíðar að reiða sig á afstöðu og kjark eins manns þegar hún telur nauðsynlegt að ganga gegn vilja Alþingis og vísa mikilvægum málum til þjóðaratkvæðis.
Virðingarfyllst,
Frosti Sigurjónsson, rekstrahagfræðingur
félagi í Advice hópnum
(Umsögnin ásamt viðauka er hér)
11.3.2012 | 11:57
Erindi til Innanríkisráðuneytis vegna kynningarátaks ESB á Íslandi
Eftirfarandi erindi var sent Innanríkisráðuneytinu 4. mars sl. Ráðuneytið hefur staðfest viðtöku og ráðherran sagt í fjölmiðlum að erindið sé komið í vinnslu.
-------------
Hr. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra
Sölvhólsgötu 7
150 Reykjavík
Erindi: Er kynningarstarf Evrópusambandsins á Íslandi lögbrot?
Evrópusambandið fjármagnar Evrópustofu sem tók til starfa 21. janúar á þessu ári og hefur það markmið að stuðla að aukinni umræðu, þekkingu og skilningi á eðli og starfsemi ESB. Evrópusambandið leggur Evrópustofu til 1,4 milljónir evra á tveim árum. Evrópustofa gefur út kynningarefni í bæklingum og öðru formi til dreifingar. Evrópustofa hefur staðið að fjölda kynningarfunda víða um landið. Meðal framsögumanna er sendiherra ESB, (t.d. á opnun fundi um ESB á Akureyri 29. febrúar sl.)
Ofangreindar upplýsingar má finna á vefsíðu Evrópustofu: www.evropustofa.is
Spurt er hvort fyrirlestrar og fundir sendiherra ESB víða um land stangist á við eftirfarandi lög:
Úr 1. tl. 41. gr laga nr. 16/1971 Lög um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband: Það er skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi. Á þeim hvílir einnig sú skylda að skipta sér ekki af innanlandsmálum þess ríkis.
Spurt er hvort útgáfustarf Evrópustofu, sem fjármögnuð er af erlendu ríkisvaldi, varði við eftirfarandi grein:
Úr 1. gr. laga nr. 62/1978 Lög um bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka og blaðaútgáfu erlendra sendiráða á Íslandi: Þá er erlendum sendiráðum á Íslandi óheimilt að kosta eða styrkja blaðaútgáfu í landinu.
Spurt er hvort Evrópustofa geti í nokkru tilliti talist hlutlaus aðili þegar kemur að kynningu á Evrópusambandinu. Má meta til fjár kynningu Evrópustofu á kostum aðildar, en það er eitt helsta baráttumáli Samfylkingar. Fellur kynningarstarf Evrópustofu ekki undir skilgreiningu eftirfarandi laga um framlög og þar með brot á eftirfarandi lögum:
Úr 6. gr laga nr. 162/2006 Lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra: Óheimilt er [stjórnmálasamtökum] að veita viðtöku framlögum frá erlendum ríkisborgurum, fyrirtækjum eða öðrum aðilum sem skráðir eru í öðrum löndum.
Að lokum er þeirri spurningu beint til Innanríkisráðuneytisins hvort starfsemi Evrópustofu eða sendiráðs ESB kunni að stangast á við einhver önnur lagaákvæði en hér voru talin upp.
Stjórnvöld stefna að því að ljúka aðildarsamningi við ESB og leggja hann fyrir þjóðaratkvæði. Lýðræðisleg umræða um kosti og galla aðildar er í gangi meðal kjósenda. Slík umræða þarf að geta átt sér stað á grundvelli jafnréttis og án inngripa erlendra hagsmunaaðila.
Það er ljóst að óheft inngrip fjársterkra hagsmunaaðila skekkja sjálfan jafnréttisgrundvöll hins beina lýðræðis. Ef gildandi lög í landinu girða ekki nú þegar fyrir slík inngrip þarf að bregðast tafarlaust við, vegna þess að erlent stjórnvald með ótakmörkuð fjárráð og beina hagsmuni hefur nú þegar hafið mikið og skipulagt átak til að móta afstöðu íslenskra kjósenda sér í hag.
Virðingarfyllst,
Frosti Sigurjónsson
30.1.2012 | 15:12
Hver greiddi ferðina til Sardiníu?
Á 19. öld ákvað ónafngreindur breskur lávarður að heimsækja hina fögru miðjarðarhafseyju Sardiníu, ásamt fjölskyldu sinni og þjónustufólki. Ferðalagið gekk eins og í sögu. Lávarðurinn og fylgdarlið hans gisti aðeins á bestu hótelum og snæddi aðeins á bestu matstöðunum - ekkert var sparað.
Eyjaskeggjar tóku að sjálfsögðu vel á móti þessum forríku ferðamönnum. Lávarðurinn ákvað líka að framlengja dvölina um tvo mánuði. Kostnaðurinn var að sjálfsögðu verulegur. Alls staðar greiddi lávarðurinn með ávísunum í pundum á viðurkenndan breskan banka. Ávísunum lávarðsins var vel tekið, enda voru þær í pundum og á þessum árum var gjaldmiðill eyjaskeggja ekki upp á marga fiska.
Það eina sem skyggði á heimferðina voru vaxandi áhyggjur lávarðarins af því hve óskaplega margar ávísanirnar urðu og hversu stóra spildu af ættaróðalinu hann þyrfti nú að selja til að standa í skilum við bankann.
En svo fór að mörgum mánuðum eftir heimkomuna bólaði ekkert á ávísunum frá Sardiníu. Lávarðurinn var undrandi og feginn. Árin líðu og aldrei bárust ávísanirnar frá Sardiníu og lávarðurinn þurfti aldrei að greiða sumarfríið góða á Sardiníu.
Ávísanirnar voru aldrei innleystar. Þeir sem höfðu fengið greitt með ávísunum notuðu þær einfaldlega til að greiða fyrir eitthvað annað. Þær nutu meira trausts en mynt eyjaskeggja löngu eftir að lávarðurinn var allur. Þær urðu gjaldmiðill.
Spurningin er hinsvegar þessi: Hver borgaði fyrir ferðalag lávarðsins?
25.9.2011 | 01:28
Lissabon sáttmálinn fegraður í þýðingu
Lissabon sáttmálinn hefur verið þýddur á Íslensku. Sáttmálinn lýsir réttindum og skyldum aðildarríkja í smáatriðum. Þess vegna er mikilvægt að þýðingin sé vönduð og nákvæm en því miður virðist það markmið ekki hafa náðst. Hér eru nokkur dæmi:
2. KAFLI, SÉRTÆK ÁKVÆÐI UM SAMEIGINLEGA STEFNU Í UTANRÍKIS- OG ÖRYGGISMÁLUM, 1. ÞÁTTUR ALMENN ÁKVÆÐI, 24. gr :
Þau skulu forðast að gera nokkuð það sem vinnur gegn hagsmunum Sambandsins eða kynni að skaða áhrif þess sem afls í þágu samheldni í alþjóðasamskiptum.
"They shall refrain from any action which is contrary to the interests of the Union or likely to impair its effectiveness as a cohesive force in international relations."
Þetta er rangt þýtt því "Cohesive force in international relations" þýðir samheldið afl í alþjóðasamskiptum, en alls ekki afl í þágu samheldni í alþjóðasamskiptum.
XXI. BÁLKUR ORKUMÁL 194. gr.
1. Með tilliti til stofnunar og starfsemi innri markaðarins og með skírskotun til þarfarinnar á að varðveita og bæta umhverfið skal stefna Sambandsins í orkumálum miða að því, í anda samstöðu meðal aðildarríkjanna, að:
a) tryggja starfsemi orkumarkaðarins,
b) tryggja öryggi í orkuafhendingu í Sambandinu,
"(b) ensure security of energy supply in the Union; "
Þetta telst röng þýðing því supply þýðir framboð en ekki afhending Lið b) ætti því frekar þýða þannig "tryggja öryggi orkuframboðs í Sambandinu." Aðildarríki eru hér að samþykkja að Brussel taki ákvarðanir um öruggt orkuframboð (auðlindina) en ekki bara örugga afhendingu orku.
I. BÁLKUR FLOKKAR OG SVIÐ VALDHEIMILDA SAMBANDSINS 3. gr.
1. Eftirtalin svið skulu falla undir fullar valdheimildir Sambandsins: a) tollabandalag, b) setning nauðsynlegra samkeppnisreglna vegna starfsemi innri markaðarins, c) peningamálastefna fyrir þau aðildarríki sem hafa evru sem gjaldmiðil, d) verndun lífrænna auðlinda hafsins innan sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar, e) sameiginleg viðskiptastefna.
"1. The Union shall have exclusive competence in the following areas: "
Exclusive þýðir að sambandið sé alfarið einrátt um þessa málaflokka. Sem mætti þýða "Sambandið skal hafa óskiptar valdheimildir á eftirfarandi sviðum". Þetta skiptir máli því aðildarríkin eru hér að samþykkja að lúta einhliða ákvörðunum ESB í þessum flokkum.
C. YFIRLÝSINGAR AÐILDARRÍKJANNA
... og Evrópudagurinn 9. maí verða áfram í þessum löndum tákn samfélags borgara í Evrópusambandinu og tengsla þeirra við það.
"... and Europe day May 9th will for them continue as symbols to express the sense of community of the people in the European Union and their allegiance to it."
Orðið allegiance" getur þýtt: obligation, commitment, devotion, faith og loyalty. Þarna er á ferð yfirlýsing um hollustu við Evrópusambandið en ekki bara "tengsl" við það.
Finnst einhverjum fleirum en mér að þessar þýðingavillur séu best til þess fallnar að láta þennan grundvallarsáttmála Evrópusambandsins líta út fyrir að vera eitthvað ásættanlegri en hann er í raun og veru?
Íslensk þýðing: http://www.utanrikisraduneyti.is/media/esb/lissabon-sattmali/Lissabon-heildarskjal.pdf
Enska útgáfan: http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:C:2010:083:FULL:EN:PDF
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (46)
20.9.2011 | 18:44
Fréttum er hagrætt
Í aðdraganda Icesave kosninga gat verið erfitt fyrir kjósendur að finna hlutlausar fréttir og upplýsingar til að byggja atkvæði sitt á. Fréttablaðið og Morgunblaðið voru augljóslega á öndverðum meiði og það skilaði sér í fréttaflutningi þeirra af málinu. Jafnvel RÚV, sem á samkvæmt lögum að gæta fyllstu hlutlægni, tókst ekki að uppfylla skyldu sína að því leiti.
Það getur verið erfitt að koma auga á það hvenær fréttamiðill hagræðir fréttum og hvenær ekki. Sé það gert á augljósan hátt missir fréttin trúverðugleika og þar með áhrifamátt sinn. Þess vegna þurfa fréttamiðlar að fara fínt í allt slíkt. Aðferðirnar eru nokkuð vel þekktar. Hér eru nokkur dæmi um aðferðir sem hérlendir fréttamiðlar hafa beitt til að hagræða fréttum í því skyni að fá fram rétta niðurstöðu í Icesave og ESB málum:
1) Velja til birtingar fréttir sem styðja réttan málstað
Það er aldrei hægt að gera öllum fréttum jafn hátt undir höfði, velja þarf úr og það val getur verið pólitískt.
2) Velja viðmælanda með rétta afstöðu
Oft er leitað til álitsgjafa og sérfræðinga til að varpa ljósi á atburði. Í Icesave málinu leituðu Fréttablaðið og RÚV áberandi oft til álitsgjafa sem töldu farsælla að samþykkja Icesave samningana. Skoðanir Þórólfs Matthíassonar virðist hafa átt mikinn hljómgrunn hjá stjórnendum fréttaskýringaþáttarins Spegilsins á RÚV. Óskað var álits hans 25 sinnum á árunum 2009/2010 (heimild: Svar ráðherra við spurningu þingmanns um efnið.)
3) Skammta réttu sjónarmiði meiri tíma / pláss
Til að ljá umfjöllun hlutlaust yfirbragð er vinsælt að gefa fulltrúum beggja sjónarmiða orðið en skammta svo ójafnan tíma. Í prentmiðli er hægt að velja úr tilvitnunum þannig að annað sjónarmiðið fái meira rými. Í sjónvarpi og útvarpi er hægt að klippa til viðtöl í sama tilgangi. Sé um beina útsendingu að ræða, er ekki hægt að klippa hlutina til. En þá er sú leið farin að bjóða fleiri gestum með rétta skoðun í þáttinn.
4) Traustari viðmælendur
Tunguliprir sérfræðingar er yfirleitt taldir meira sannfærandi en almúginn á götunni. Þannig mætti sem dæmi spyrja Evrópusérfræðing um kosti aðildar en spyrja síðan leikmann um ókostina.
5) Lævísleg hugtakanotkun
Þegar vissir fjölmiðlar fjölluðu um Icesave kröfuna þá notuðu þeir iðulega Icesave skuldina. Evrópusambandið glímir nú við gríðarlega erfiðleika, sumir fjölmiðlar kjósa hins vegar að kenna erfiðleikana ávallt við Evrópu en ekki Evrópusambandið.
Ber fréttamiðlum að gæta hlutlægni?
Í lögum um RÚV segir að hlutverk almannafjölmiðilsins sé
að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.
Fróðlegt væri að gera faglega úttekt á því hvernig RÚV hefur tekist að uppfylla skyldur sínar að þessu leyti í Icesave og ESB málinu. Hve oft skyldi RÚV hafa freistast til þess að beita brellum eins og þeim sem voru tíundaðar hér að ofan?
Öðrum fréttamiðlum en RÚV er ekki skylt að gæta hlutlægni. Blaðamönnum er ekki heldur skylt að gæta hlutlægni í sínum störfum, ef ég skil siðareglur Blaðamannafélagsins rétt.
Verum raunsæ
Það er vissara að reikna með því að allir fréttamiðlar nýti það svigrúm sem þeir hafa til að hafa áhrif á okkur, ekki síst í aðdraganda þjóðaratkvæðis um mikilvæg málefni. Allir fréttamiðlar er hlutdrægir að vissu marki og allir þjóna þeir einhverjum hagsmunum.
Spyrjum því spurninga: Hvaða frétt var ekki birt? Hvers vegna er rætt við þessa viðmælendur en ekki aðra? Er þessi sérfræðingur hlutlaus? Hvað segja hinir fréttamiðlarnir um málið?
Það er skynsamlegt að neyta frétta á gagnrýnin hátt, treysta ekki á einn fréttamiðil, gera samanburð. Það er líka miklu skemmtilegra en að láta mata sig hugsunarlaust.
22.4.2011 | 17:38
Icesave III kosningabaráttan og lærdómur af henni
Sunnudaginn 20. febrúar árið 2011 kynnti Forsetinn þá ákvörðun sína að þjóðin fengi sjálf að ákveða hvort lögin um Icesave III samningana myndu halda gildi. Þar með hófst kosningabarátta milli ríkisstjórnarinnar og þeirra sem vildu að lögunum yrði hafnað.
Samstaða þjóðar gegn Icesave, samtökin sem staðið höfðu að undirskriftasöfnun gegn Icesave III hófust strax handa en það var á brattann að sækja. Skoðanakönnun Capacent sem birt var 2. mars, sýndi að 65% hyggðust kjósa með samningunum.
Ríkisstjórnin lagði í öflugt kynningarátak. Rökin voru þau að Icesave III samningarnir væru skárri en fyrri samningar og höfnun þeirra gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar: Lánshæfi myndi versna, gjaldeyrishöft festast í sessi, endurreisn tefjast, fjármálamarkaðir lokast, Íslandi yrði stefnt fyrir dómstólum og að öllum líkindum tapa málinu og þá yrði að borga allt í topp með hærri vöxtum.Samninganefndarmenn, þar á meðal Bucheit og Blöndal sem áður höfðu gagnrýnt fyrri samninga, mæltu nú eindregið með Icesave III. Nefndarmenn voru óþreytandi við að koma þessari afstöðu á framfæri í fjölmiðlum og á kynningarfundum víða um land. Óhætt er að segja að kynning Icesave málsins hafi verið mjög einhliða.
Advice hópurinn steig fram til að tala fyrir því að hafna bæri samningunum. Advice boðaði til blaðamannafundar 14. mars til að kynna átakið og meginrök gegn Icesave III, en enginn fjölmiðill sá ástæðu til að senda fréttamann á þann fund.
Advice hóf kynningarátak, sett var upp vefsíða með upplýsingum og greinum eftir mikinn fjölda sérfræðinga. Talsmenn Advice komu fram í fjölmiðlum og héldu erindi á fundum.
Umræðan var mjög virk meðal almennings og mikill fjöldi greina birtist í prentmiðlum, bæði með og á móti. Lögfræðingar og hagfræðingar létu ekki sitt eftir liggja í greinaskrifum.
Þegar á leið bentu skoðanakannanir til þess að forskot Já-manna færi minnkandi.Þann 24. mars steig Áfram hópurinn fram á sviðið til að styðja baráttu ríkisstjórnarinnar fyrir því að fá lögin samþykkt. Viku síðar bentu skoðanakannanir til þess að sveiflan yfir á Nei hliðina hefði hægt mikið á sér.
Þegar tvær vikur voru til kosninga hófu fjölmiðlar að fjalla um samningana og dómstólaleiðina. Þrátt fyrir verulegt flækjustig virtust kjósendur staðráðnir í að komast til botns í málinu. Heimsóknir á vef Advice.is hlupu á þúsundum dag hvern og vinsælustu greinarnar voru lesnar af meira en tíu þúsund manns. Vel yfir tíu þúsund manns horfðu á myndskeið þar sem Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður útskýrir dómstólaleiðina.
Þegar tæp vika var til kosninga, bentu skoðanakannanir til þess að fólk væri aftur að færast yfir á Nei vænginn, munurinn var orðinn það lítill að allt gat gerst í kosningunum.
Bæklingur frá stjórnvöldum með hlutlausu kynningarefni um Icesave lögin var borinn í hús 4. apríl.Kosið var 9. apríl.
Fyrstu tölur komu klukkan 23 og bentu til þess að þjóðin hefði hafnað lögunum. Lokatölur reyndust afgerandi: lögin voru felld með 60% atkvæða og kosningaþátttaka var 75%.
Þegar niðurstaðan lá fyrir, reið á að koma réttum skilaboðum til fjölmiðla svo niðurstaðan yrði ekki rangtúlkuð. Ríkisstjórnin flaskaði á þessu. Viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra við úrslitunum endurómuðu í heimspressuni:
- "We must do all we can to prevent political and economic chaos as a result of this outcome - Guardian
- "The worst option was chosen and has split the country in two - BBC
- I fear a court case very much - Reuters
Nú eru liðnir tíu dagar frá því að lögunum var hafnað. Dómsdagsspár ríkisstjórnarinnar hafa ekki gengið eftir. Moodys hefur tilkynnt að lánshæfismat Íslands sé óbreytt. Krónan hefur styrkst og skuldatryggingaálag lækkað. Dómsdagsspár stórnvalda rættust ekki og nú keppast ráðherrar við að eigna sér heiðurinn af því. Nær væri að þeir bæðu þjóðina afsökunar á hræðsluáróðrinum.
En hvað má læra af þessu - hverju þarf að breyta?
1. Kynningarefni til kjósenda innihaldi rökin með og móti
Í aðdraganda þjóðaratkvæðis ber innanríkisráðuneyti að dreifa bæklingi með lögunum á öll heimili. Í þetta sinn ákvað Alþingi að ganga lengra og fól ráðuneytinu að útvega einnig í bæklinginn hlutlaust kynningarefni um málið.Advice hópurinn lagði til að báðum fylkingum yrði boðið tiltekið rými í bæklingnum svo kjósendur gætu kynnt sér með- og mótrök, eins og hefð er fyrir í Sviss. Því var hafnað.Advice lagði einnig til að báðar fylkingar fengju að rýna drög að kynningarefni til að ganga úr skugga um hlutleysi þess. Því var einnig hafnað.Það virðist nauðsynlegt að setja reglur um þessi atriði til að jafna aðstöðu beggja fylkinga til að kynna sinn málstað fyrir kjósendum og tryggja að kynningarefni sem kynnt er sem hlutlaust hafi verið rýnt með hliðsjón af því.
2. Tryggja þjóðinni frest til að mynda sér skoðun
Þjóðin á sinn rétt á því að kynna sér málavöxtu, skoða rökin með og móti og mynda sér upplýsta skoðun. Þetta tekur tíma og hér reyndust 48 dagar varla duga. Upplýsingabæklingur stjórnvalda kom ekki í hús fyrr en fimm dögum fyrir kosningar.Tveir mánuðir ættu að vera lágmarksfrestur og engin vanþörf á því að binda þann frest í lög til að halda ríkisstjórnum í skefjum. Athygli vekur að skv. 4. gr. laga nr. 91/2010 um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, skal halda þjóðaratkvæðagreiðslu innan 2 mánaða hafi Forseti beitt málskotsrétti. En hafi þingið sjálft vísað lögum til þjóðarinnar skal halda atkvæðagreiðsluna innan 3 til 12 mánaða. Hvers vegna er kjósendum ekki tryggður neinn lágmarks-umhugsunartími þegar Forsetinn vísar til hennar málum? Þetta er hneisa og þarf augljóslega að breyta. Þjóðin á alltaf að fá sinn tíma til að mynda sér upplýsta skoðun, ekki bara í þeim málum sem þinginu þóknast að leggja fyrir hana.
3. Gera þarf einhverja lágmarkskröfur til fjölmiðla um jafnvægi í miðlun
Fjölmiðlar léku stórt hlutverk í því að upplýsa kjósendur um Icesave III málið. Flestir miðlarnir tóku afstöðu með- eða á móti og hygluðu sínum málstað í hvívetna. Þrátt fyrir það, sáu þeir samt sóma sinn í því að loka ekki alveg á efni frá andstæðingum.En hvað ef miðlarnir hefðu lokað algerlega á andstæð sjónarmið? Hvað ef þeir hefðu allir haft sömu afstöðu til málsins? Hefðu kjósendur þá getað tekið upplýsta ákvörðun?Í nýjum og umdeildum fjölmiðlalögum stendur í 26. gr.: Fjölmiðlaveitu sem hefur þá yfirlýstu stefnu að beita sér fyrir tilteknum málstað skal vera óskylt að miðla efni sem gengur í berhögg við stefnu miðilsins. Ekki verður séð að þetta ákvæði stuðli að jafnvægi í miðlun.Vald fjölmiðla er mikið og það er sjálfsagt að því valdi fylgi lágmarkskrafa um jafnvægi í miðlun svo lýðræðið verði síður hneppt í fjötra þeirra valdablokka sem stjórna fjölmiðlum.
4. Auglýsingar - eiga þeir ríku bara að vinna þann slag?
Pólitískar auglýsingar virka misvel á fólk en á heildina litið þá geta þær samt skipt töluverðu máli. Í þetta sinn virtust báðar fylkingar hafa nægan aðgang að fjármagni til að auglýsa. En það má vel sjá fyrir sér kosningar þar sem aðgangur fylkinga að fjármagni væri mjög ójafn.Það hlýtur að vera æskilegt að úrslit kosninga ráðist fremur af eðli máls og skoðun kjósenda en því hversu vel fylkingar geta höfðað til fjármagnsins. Auglýsingabann er ekki góður kostur, en það mætti setja eitthvað þak á auglýsingamagnið til að jafna leikinn.Uppruni fjármagns getur skipt máli. Eðlilegt er einstaklingar njóti nafnleyndar, en spyrja má hvort fyrirtæki og samtök sem leggja fram fé eigi líka að njóta nafnleyndar. Setja mætti reglu um að enginn einn aðili útvegi meira en 10% af heildarfjármögnun. Eða að þeir aðilar sem greiða meira en 20% njóti ekki nafnleyndar. Viljum við að erlendir aðilar eins og t.d. ESB eða Kína geti tekið beinan þátt í kosningabaráttu eða fjármögnun fylkinga hér á landi í aðdraganda kosninga?
5. Það þarf eftirlit með hlutleysi RÚV
Í lögum nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið stendur Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð. Í lögin vantar hins vegar ákvæði um hvernig eftirliti með óhlutdrægni skuli vera háttað og það eru engin viðurlög við misnotkun á RÚV hvað þetta varðar. Starfsfólki RÚV er því í raun gefið algert sjálfdæmi um það hvort það uppfylli kröfur um óhlutdrægni í sínum störfum. Þetta fyrirkomulag býður hættunni heim.Margir hafa bent á að umfjöllun RÚV hafi verið hlutdræg í Icesave málinu. Meðal þess sem bent hefur verið á er að: starfsmenn RÚV notuðu iðulega orðið skuld Íslands þegar kröfur Breta og Hollendinga bar á góma. Þegar fræðilegir álitsgjafar voru fengnir til viðtals gleymdist að fá einn frá hvorri fylkingu, og það gleymdist líka að geta þess að álitsgjafarnir voru hlutdrægir, voru jafnvel á kaupi við að halda fram sjónarmiðum stjórnvalda eða höfðu beina fjárhagslega hagsmuni af því að samningar tækjust. Þess var ekki heldur gætt að gefa talsmönnum beggja sjónarmiða jafn langan tíma. Það er augljóst að RÚV þarf aðhald og það þarf að setja lög um slíkt aðhald sem fyrst.
Enginn vill hafa reglur um alla skapaða hluti. En þegar kemur að lýðræðinu í landinu þá er nauðsynlegt að setja ríkisvaldinu, fjármagninu og fjölmiðlum skýrar reglur. Reynslan af Icesave III sýnir okkur að hér þarf að laga til og það er ekki eftir neinu að bíða. Skorum á Alþingi að gera úrbætur sem fyrst.
19.4.2011 | 18:40
Icesave III undirskriftasöfnun og hvað má af henni læra
18.4.2011 | 16:22
Rafrænar kosningar í Eistlandi
Samkvæmt öllum mælikvörðum eru Íslendingar í röð fremstu þjóða hvað tölvuvæðingu og almennt tölvulæsi varðar. Íslendingar státa líka af lengri lýðræðishefð en flestar þjóðir Evrópu. Í ljósi þess hefði alveg mátt búast við því að Ísland tæki forystu í því að innleiða rafrænar kosningar. En af einhverjum ástæðum erum við ennþá yddandi blýanta, troðandi kjörseðlum í innsiglaða trékassa og teljandi upp úr þeim sólarhringunum saman. Kostnaðurinn við þetta úrelta fyrirkomulag hleypur á hundruðum milljóna í hvert sinn.
Eistar kusu rafrænt til þings í mars sl. en tóku fyrst upp rafrænar kosningar árið 2005 og hefur reynslan verið svo góð að aðrar þjóðir líta nú til þeirra fordæmis.
Árið 2002 voru rafræn skilríki lögleidd í Eistlandi. Allir íbúar Eistlands hafa slík skilríki og rafrænar undirskriftir gerðar með þessum skilríkjum hafa sama lagagildi og venjulegar undirskriftir. Nota þarf sérstaka kortalesara svo tölvur geti lesið skilríkin, en þeir kosta lítið. Einnig mun vera hægt að sækja auðkenni í farsíma og nota það í stað rafræns skilríkis.
Í Eistlandi fer rafræn kosning þannig fram að kjósandinn fer á vefsíðu kjörstjórnar og sækir þangað kosningaforrit. Forritið keyrir á tölvu kjósandans, les rafræn skilríki hans og birtir kjörseðil á skjánum. Kjósandinn greiðir atkvæði og það er sent yfir netið. Staðfesting um að kosning hafi tekist er birt á skjánum.
Áður en atkvæðið er sent, er það dulkóðað með lykli en auðkenni notandans er dulkóðað með öðrum lykli. Með þessu móti er kjósandanum tryggð nafnleynd og einnig er tryggt að hann geti kjósi aðeins einu sinni.
Rafræn kosning hefst 10 dögum fyrir kjördag og lýkur 4 dögum fyrir kjördag. Þetta fyrirkomulag er til að koma í veg fyrir nauðung eða viðskipti með atkvæði. Kjósandi getur kosið eins oft og hann vill rafrænt, en það er síðasta val hans sem gildir. Kjósandi getur líka farið á kjörstað og þá gildir atkvæðið sem hann greiðir þar. Með þessu móti er nánast útilokað að kjósandi verði neyddur eða keyptur til að kjósa eitthvað annað en hann vill. Kosningin er því leynileg í reynd. Innan við 2% kjósenda hafa nýtt þennan möguleika til að skipta um skoðun.
Eistar hafa nú kosið fimm sinnum með rafrænum hætti. Árið 2005 í sveitarstjórnarkosningum, árið 2007 í kosningum til þings, árið 2009 til evrópuþings, árið 2009 í sveitarstjórnarkosningum og í mars á þessu ári í þingkosningum. Hlutfall kjósenda sem kjósa rafrænt hefur farið stöðugt vaxandi, nú síðast var fjórðungur allra atkvæða greiddur með þeim hætti.
Ítarlegar rannsóknir á kerfinu og reynslunni eru fyrirliggjandi og engin vandamál gert vart við sig. Kjósendur eru almennt ánægðir með þennan valkost enda nokkuð hagræði í því að þurfa ekki að fara á kjörstað. Kerfið hefur líka margborgað sig fjárhagslega.
Það er löngu tímabært að taka upp rafrænar kosningar á Íslandi.
Heimildir:
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.4.2011 | 19:43
Ættu stjórnendur að nota aðstöðu sína í pólitískum tilgangi?
Flestir hafa skoðanir á pólitík og auðvitað eru stjórnendur fyrirtækja þar engin undantekning. Það kemur stundum fyrir að stjórnendur beiti vörumerki og áhrifum fyrirtækisins til að vinna sínum pólitísku skoðunum fylgi í samfélaginu. Hér er því haldið fram að slíkt sé í misnotkun á aðstöðu og geti leitt til tjóns bæði fyrir eigendur og samfélagið.
Stórfyrirtæki eru iðulega í eigu fjölmargra hluthafa. Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að allir eigendur hafi sömu skoðun í pólitík, hvað þá að meirihluti hluthafa sé sammála pólitískum skoðunum stjórnandans. Tillitsemi við ólíkar skoðanir hluthafa er því gild ástæða fyrir því að stjórnendur gæti hlutleysis í störfum sínum.
En tillitsemi er þó ekki eina ástæðan. Flest fyrirtæki hafa hagsmuni af því að höfða til sem flestra viðskiptavina, en ef fyrirtækið tekur afgerandi pólitíska afstöðu getur slíkt virkað fráhrindandi fyrir tiltekinn hluta viðskiptavina með tilheyrandi tapi fyrir fyrirtækið.
Dæmi eru um að stjórnendur stórfyrirtækja beiti stjórnvöld þrýstingi og hóti jafnvel að fara með fyrirtækin úr landi. Þar er illa farið með áhrifastöðu og traust eigenda.Það væri líka óheppilegt fyrir lýðræðið í landinu ef fyrirtækjum væri almennt beitt með þessum hætti. Eftir því sem fyrirtæki beita sér meira, því minni verða áhrif kjósenda.
Farsælast er að stjórnendur sneiði hjá því að blanda fyrirtækjum í pólitísk álitamál. Þeir geta að sjálfsögðu tjáð sig opinberlega um pólitík, en þá er réttast að taka fram að um persónulegar skoðanir sé að ræða, en ekki afstöðu fyrirtækisins.