Rafrænar kosningar í Eistlandi

Samkvæmt öllum mælikvörðum eru Íslendingar í röð fremstu þjóða hvað tölvuvæðingu og almennt tölvulæsi varðar. Íslendingar státa líka af lengri lýðræðishefð en flestar þjóðir Evrópu. Í ljósi þess hefði alveg mátt búast við því að Ísland tæki forystu í því að innleiða rafrænar kosningar.  En af einhverjum ástæðum erum við ennþá yddandi blýanta, troðandi kjörseðlum í innsiglaða trékassa og teljandi upp úr þeim sólarhringunum saman. Kostnaðurinn við þetta úrelta fyrirkomulag hleypur á hundruðum milljóna í hvert sinn.

Eistar kusu rafrænt til þings í mars sl. en tóku fyrst upp rafrænar kosningar árið 2005 og hefur reynslan verið svo góð að aðrar þjóðir líta nú til þeirra fordæmis.

Árið 2002 voru rafræn skilríki lögleidd í Eistlandi. Allir íbúar Eistlands hafa slík skilríki og rafrænar undirskriftir gerðar með þessum skilríkjum hafa sama lagagildi og venjulegar undirskriftir. Nota þarf sérstaka kortalesara svo tölvur geti lesið skilríkin, en þeir kosta lítið. Einnig mun vera hægt að sækja auðkenni í farsíma og nota það í stað rafræns skilríkis.

Í Eistlandi fer rafræn kosning þannig fram að kjósandinn fer á vefsíðu kjörstjórnar og sækir þangað kosningaforrit. Forritið keyrir á tölvu kjósandans, les rafræn skilríki hans og birtir kjörseðil á skjánum. Kjósandinn greiðir atkvæði og það er sent yfir netið. Staðfesting um að kosning hafi tekist er birt á skjánum.

Áður en atkvæðið er sent, er það dulkóðað með lykli en auðkenni notandans er dulkóðað með öðrum lykli. Með þessu móti er kjósandanum tryggð nafnleynd og einnig er tryggt að hann geti kjósi aðeins einu sinni.

Rafræn kosning hefst 10 dögum fyrir kjördag og lýkur 4 dögum fyrir kjördag. Þetta fyrirkomulag er til að koma í veg fyrir nauðung eða viðskipti með atkvæði. Kjósandi getur kosið eins oft og hann vill rafrænt, en það er síðasta val hans sem gildir. Kjósandi getur líka farið á kjörstað og þá gildir atkvæðið sem hann greiðir þar. Með þessu móti er nánast útilokað að kjósandi verði neyddur eða keyptur til að kjósa eitthvað annað en hann vill. Kosningin er því leynileg í reynd. Innan við 2% kjósenda hafa nýtt þennan möguleika til að skipta um skoðun.

Eistar hafa nú kosið fimm sinnum með rafrænum hætti. Árið 2005 í sveitarstjórnarkosningum, árið 2007 í kosningum til þings, árið 2009 til evrópuþings, árið 2009 í sveitarstjórnarkosningum og í mars á þessu ári í þingkosningum. Hlutfall kjósenda sem kjósa rafrænt hefur farið stöðugt vaxandi, nú síðast var fjórðungur allra atkvæða greiddur með þeim hætti.

Ítarlegar rannsóknir á kerfinu og reynslunni eru fyrirliggjandi og engin vandamál gert vart við sig. Kjósendur eru almennt ánægðir með þennan valkost enda nokkuð hagræði í því að þurfa ekki að fara á kjörstað. Kerfið hefur líka margborgað sig fjárhagslega.

Það er löngu tímabært að taka upp rafrænar kosningar á Íslandi.

Heimildir:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Önnur færslan sem ég skrifaði var um Rafrænar kosningar í Eistlandi.  Þetta var 1.3.2007.  Raunar hafa verið haldnar rafrænar kosningar hér á landi, þ.e. prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmum fyrir alþingiskosningarnar 2007.  Eins og kemur fram í greininni, þá skoðaði ég kosningarkerfið þeirra út frá virkni og öryggissjónarmiðum.  Samgönguráðuneytið var að vinna að þessum málum fyrir nokkrum árum, en því var frestað vegna peningaleysis!  Það kostar pening að spara pening.

Marinó G. Njálsson, 18.4.2011 kl. 18:23

2 Smámynd: Sigurður Antonsson

Nú þegar stjórnlagaþing situr að störfum er tímabært að ræða rafrænar. Þá yrðum við líklega næst bestir í heimi hvernig sem það hljómar. Gætum auðveldlega farið fram úr Eistum hvað varðar þátttöku og fækkað kjörstöðum um helming. Þannig væri hægt að ná kostnaði inn fljótlega. Er það ekki alþingismanna að sýna fordæmi og koma með frumvörp um rafrænar kosningar, ef ekki ætti stjórnlagaþingið að geta ályktað um þær.

Sigurður Antonsson, 18.4.2011 kl. 21:25

3 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Mjög áhugavert.

Hægt væri að nota slíkt kerfi  við allar kosningar hér á landi. Tæknin er fyrir hendi. Þekking fólks á tölvum er næg.

Er eftir nokkru að bíða með þetta.

Þakka þér fyrir að vekja máls á efninu, nú er bara að koma því í gagnið.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 19.4.2011 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband