Fréttum er hagrætt

Í aðdraganda Icesave kosninga gat verið erfitt fyrir kjósendur að finna hlutlausar fréttir og upplýsingar til að byggja atkvæði sitt á. Fréttablaðið og Morgunblaðið voru augljóslega á öndverðum meiði og það skilaði sér í fréttaflutningi þeirra af málinu. Jafnvel RÚV, sem á samkvæmt lögum að gæta fyllstu hlutlægni, tókst ekki að uppfylla skyldu sína að því leiti.

Það getur verið erfitt að koma auga á það hvenær fréttamiðill hagræðir fréttum og hvenær ekki. Sé það gert á augljósan hátt missir fréttin trúverðugleika og þar með áhrifamátt sinn. Þess vegna þurfa fréttamiðlar að fara fínt í allt slíkt. Aðferðirnar eru nokkuð vel þekktar. Hér eru nokkur dæmi um aðferðir sem hérlendir fréttamiðlar hafa beitt til að “hagræða” fréttum í því skyni að fá fram “rétta” niðurstöðu í Icesave og ESB málum:

1) Velja til birtingar fréttir sem styðja “réttan” málstað

Það er aldrei hægt að gera öllum fréttum jafn hátt undir höfði, velja þarf úr og það val getur verið pólitískt.

2) Velja viðmælanda með “rétta” afstöðu

Oft er leitað til álitsgjafa og sérfræðinga til að varpa ljósi á atburði. Í Icesave málinu leituðu Fréttablaðið og RÚV áberandi oft til álitsgjafa sem töldu farsælla að samþykkja Icesave samningana. Skoðanir Þórólfs Matthíassonar virðist hafa átt mikinn hljómgrunn hjá stjórnendum fréttaskýringaþáttarins Spegilsins á RÚV. Óskað var álits hans 25 sinnum á árunum 2009/2010 (heimild: Svar ráðherra við spurningu þingmanns um efnið.)

3) Skammta “réttu” sjónarmiði meiri tíma / pláss

Til að ljá umfjöllun hlutlaust yfirbragð er vinsælt að gefa fulltrúum beggja sjónarmiða orðið en skammta svo ójafnan tíma. Í prentmiðli er hægt að velja úr tilvitnunum þannig að annað sjónarmiðið fái meira rými. Í sjónvarpi og útvarpi er hægt að klippa til viðtöl í sama tilgangi. Sé um beina útsendingu að ræða, er ekki hægt að klippa hlutina til. En þá er sú leið farin að bjóða fleiri gestum með “rétta” skoðun í þáttinn.

4) Traustari viðmælendur

Tunguliprir sérfræðingar er yfirleitt taldir meira sannfærandi en almúginn á götunni. Þannig mætti sem dæmi spyrja Evrópusérfræðing um kosti aðildar en spyrja síðan leikmann um ókostina.

5) Lævísleg hugtakanotkun

Þegar vissir fjölmiðlar fjölluðu um Icesave kröfuna þá notuðu þeir iðulega “Icesave skuldina”. Evrópusambandið glímir nú við gríðarlega erfiðleika, sumir fjölmiðlar kjósa hins vegar að kenna erfiðleikana ávallt við “Evrópu” en ekki “Evrópusambandið”.

Ber fréttamiðlum að gæta hlutlægni?

Í lögum um RÚV segir að hlutverk almannafjölmiðilsins sé

“að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.”

Fróðlegt væri að gera faglega úttekt á því hvernig RÚV hefur tekist að uppfylla skyldur sínar að þessu leyti í Icesave og ESB málinu. Hve oft skyldi RÚV hafa freistast til þess að beita brellum eins og þeim sem voru tíundaðar hér að ofan?

Öðrum fréttamiðlum en RÚV er ekki skylt að gæta hlutlægni. Blaðamönnum er ekki heldur skylt að gæta hlutlægni í sínum störfum, ef ég skil siðareglur Blaðamannafélagsins rétt.

Verum raunsæ

Það er vissara að reikna með því að allir fréttamiðlar nýti það svigrúm sem þeir hafa til að hafa áhrif á okkur, ekki síst í aðdraganda þjóðaratkvæðis um mikilvæg málefni. Allir fréttamiðlar er hlutdrægir að vissu marki og allir þjóna þeir einhverjum hagsmunum.

Spyrjum því spurninga: Hvaða frétt var ekki birt? Hvers vegna er rætt við þessa viðmælendur en ekki aðra? Er þessi sérfræðingur hlutlaus? Hvað segja hinir fréttamiðlarnir um málið?

Það er skynsamlegt að neyta frétta á gagnrýnin hátt, treysta ekki á einn fréttamiðil, gera samanburð. Það er líka miklu skemmtilegra en að láta mata sig hugsunarlaust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Samkvæmt nýju fjölmiðlalögunum, sem gilda vel að merkja líka um RÚV, er fjölmiðlaveitu skylt að gæta hlutlægni, fara rétt með staðreyndir, og gæta þess að láta öll sjónarmið um tiltekin mál koma fram.

Þessar meginreglur eru ekki frávíkjanlegar nema miðillinn sé yfirlýst málgagn fyrir einhverjum tilteknum málstað, eins og t.d. flokksblað stjórnmálaflokks.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.9.2011 kl. 19:59

2 Smámynd: Valan

Frábær grein. Takk fyrir mig.

Valan, 20.9.2011 kl. 20:04

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Auðvitað á ruv bara að leyfa öfamönnum og almennum rugludöllum að vaða uppi með sína hefðbundu kjánaþvælu. Nema hvað. Það er bara sjálfsagt.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 20.9.2011 kl. 21:26

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Mjög góð samantekt, skýr og vel fram sett. Bestu þakkir.

Haraldur Hansson, 20.9.2011 kl. 23:18

5 identicon

Þú tekur á þjóðarböli. Svona hefur þetta verið svo lengi sem elstu menn muna. Í gamla daga voru allir flokkar með dagblöð. Lesendur urðu æfðir í að samræma fréttir milli blaðanna og ná út sennilegri heildarmynd af pólitiskum hitamálum. Þessi blaðamennska kallaði á ríkisútvarp undir pólitiskri stjórn þeirra flokka sem áttu fulltrúa á þingi. Við hefðum líklega þurft slíkt útvarp á allra síðustu árum.

Maður sem vann á TASS fréttastofunni um tíma var spurður um ritskoðunina í kommúnistaríkjunum. Hann sagðist aldrei hafa orðið var við ritskoðun, en fréttamatið var öðru vísi en á vesturlöndum. Til dæmis var lestarslys ekki frétt. Það að velta sér upp úr óheppni annarra var kapitalisk álitin úrkynjun.

Guðni Stefánsson (IP-tala skráð) 21.9.2011 kl. 00:32

6 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Góð samantekt Frosti,ég hef nefnt að Egill Helgason gætti þess jafnan að viðmælendur,sem voru á móti Icesave,fengju knappan tíma,hann greyp þannig,(oft) fram í fyrir þeim,að hann fór að spyrja um annað,meðan þeir voru að tala. Man vel eftir þér í Ruv.sjónvarpi,þar sem þér tókst að koma öllu til skila,hertir á í lokin. Gaman væri að sjá þessa þætti aftur.

Helga Kristjánsdóttir, 21.9.2011 kl. 02:44

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Skilmerkileg samantekt hjá þer Frosti, en því miður er þetta mein enn að grassera á fréttastofu RUV.

Nú loks er sú fréttastofa farin að flytja fréttir af fjármálakrísu evruríkjanna og hverjir eru dregnir í viðtöl? Gylfi Magnússon og Þórólfur Matthíasson!!

Gylfi átti bágt, honum leið greinilega illa, en reyndi þó að gera lítið úr vandanum.

Viðtalið við Þórólf var þó öllu verra. Að vísu var það í útvarpi, svo maður sá ekki svipbrigði hans, en greinilegt var að hann var ösku fúll og þvældi fram og til baka, þverstæðurnur runnu af vörum hans og fréttamaðurinn sagði ekki orð, annaðhvort af undrun, hræðslu eða aðdáun!

Þau vandamál sem herja á evruríkjum hafa verið ríkjandi í erlendu fjölmiðlum um langann tíma, en RUV hefur lítið sagt frá því. Hefur beitt 1. dæminu hjá þér miskunarlaust.

Nú er ástandið orðið með þeim hætti að það úrræði virkar ekki lengur og þá eru þær aðferðir sem þú nefnir í dæmum 2,3,4 og 5 dregin upp. Sérstaklega dæmi 5, þar sem, eins og þú segir, er talað um vanda Evrópu, þegar sá vandi er fyrst og fremst bundin við 17 ríki hennar, reyndar mun sá vandi smita alla heimsbyggðina, en það er annað mál.

Það eru til lög um RUV og hvernig það skuli starfa. Í þeim lögum er hins vegar ekkert um hvað skuli gera ef þau eru brotin. Slík lög er gagnslaus, eins og dæmið sannar.

Gunnar Heiðarsson, 21.9.2011 kl. 08:35

8 Smámynd: Ómar Gíslason

Góð og skilmerkileg samantekt Frosti.

Við getum séð það síðustu tvær vikur um fjármálakrísuna, hvernig þeir hagræða hlutunum og tala við þá sem hentar „þeim"

Sem dæmi hefur lítið farið fyrir því hjá okkur að Bretar eru að kæra Seðlabanka Evrópu vegna nýrra laga sem hann setti. Lögin eru: ef eitthvert fjármálafyrirtæki eða banki á meira en ákveðið % í evrum þá verður höfuðstöðvarnar að vera í því löndum sem eru með evruna.

Ómar Gíslason, 21.9.2011 kl. 11:47

9 Smámynd: Haraldur Baldursson

Flott grein og þörf.

Það er með hryllingi að maður hugsar til þess að ekki hefði verið til blogg síður, eða facebook. Hinn "almenni" borgari hefði verið færður að niðurstöðunni eins og búfénaður til slátrunar.

Ég er sannfærður um að meiri jákvæðar breytingar bíði okkar. Ég held að frelsisþorstinn reki lygamerðina í skjól. Afar gott dæmi er barátta Ron Paul fyrir útnefningu forsetakandídats Repúblikanaflokksins í USA. Fjölmiðlar þarlendir hafa lagt á sig gríðarlega hundsun og þöggun. Núna síðast þegar þeir hafa þaggað niður árangur hans í Straw Poll í Kaliforníufylki. Grasrótin er að velja mann sem boðar frelsi og minnkandi ríkisafskipti...og aldrei þessu vant er maður á ferð sem iðkar það sem hann boðar.

Internetið er okkar björgun og þakka ég þér kærlega fyrir þessa góðu samantekt sem því miður er sönn.

Haraldur Baldursson, 21.9.2011 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband