Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
16.9.2010 | 19:22
Lissabon sáttmálinn: Stórminnkuð áhrif smáríkja
Neitunarvald fellt niður á fjölmörgum sviðum
Neitunarvald er eitt sterkasta tækið sem smáþjóð getur beitt til að fá sitt fram eða standa gegn ákvörðunum sem varða hagsmuni þess. Tilvist neitunarvalds knýr aðila til að komast að samkomulagi. Með gildistöku Lissabon sáttmálans féll neitunarvald niður á 68 sviðum. Í stað þess að allir þurfi að vera samþykkir mun meirihluti duga til ákvörðunar og þar ræðst atkvæðamagn af fjölda íbúa. Þegar neitunarvald er fellt niður bitnar það fyrst og fremst á áhrifum fámennra aðildarríkja ESB.
Atkvæðamagn í ráðherraráðinu skal framvegis miðast við mannfjölda
Með Lissabon breytist atkvæðavægi við ákvarðanatöku stórveldum í hag. Sem dæmi: áður hafði Írland 7 atkvæði í ráðherraráðinu (2,0%) en Þýskaland 29 atkvæði (8,4%). Frá og með 1. nóvember 2014 verður atkvæðamagn hins vegar miðað við mannfjölda og þá fær Írland 0,89% atkvæða en Þýskaland 16,41% atkvæða - Þetta þýðir að áhrif Þýskalands tvöfaldast en áhrif Írlands minnka um 60%. Malta hafði áður 0,9% atkvæða en missir rúm 90% þeirra og fer í 0.08%
Hvernig gátu smáríkin fallist á Lissabon sáttmálann?
Niðurfelling neitunarvalds og breytt atkvæðamagn felur í sér stórkostlega rýrnun á áhrifum smáríkja innan ESB. Það er með algerum ólíkindum að smáríkin skyldu samþykkja sáttmála sem skerti áhrif þeirra svona gríðarlega. Hvað voru þau eiginlega að hugsa? Hvers vegna fór Lissabon sáttmálinn ekki í þjóðaratkvæði neins staðar nema á Írlandi fyrst hann breytti svona miklu?
Frekari skerðing í kortunum
Því miður er full ástæða til að óttast að áhrif smáríkja skerðist enn frekar í framtíðinni án þess að til þjóðaratkvæðagreiðslna komi. Ennþá hafa smáríkin 1 fulltrúa í framkvæmdastjórn ESB, eins og stóru ríkin. Það stóð reyndar til að fækka fulltrúum úr 27 í 20 með Lissabon sáttmálanum en Írar felldu hann í þjóðaratkvæði og þá var hætt við að fækka fulltrúum. Hins vegar varð sú breyting að í stað þess að hvert land geti tilnefnt einn fulltrúa í framkvæmdastjórnina munu þau aðeins gert tillögu að fulltrúa en framkvæmdastjórnin sjálf mun eiga lokaorðið um hverjir veljast í hana. Þannig er nú það.
Ísland yrði áhrifaminnsta aðildarríkið
Hvað sem minnkandi vægi smáríkja líður þá yrði Ísland lang-áhrifaminnsta aðildarríkið. Íbúafjöldi gefur Íslandi aðeins 0.062% atkvæðamagns í ESB. Íbúar ESB eru líka 1.607 sinnum fleiri en Íslendingar og einnig má nefna að meðalríki í ESB er 60 sinnum fjölmennari en Ísland. Ísland yrði sannkallað dverg-aðildarríki og með áhrif í samræmi við það.
Evrópusambandið hefur verið í sífelldri þróun frá upphafi og líklegast er að hún haldi áfram. Eitt af meginmarkmiðum ESB er sífellt nánari samruni aðildarríkja. Lissabon sáttmálinn fól í sér nánari samruna á fleiri sviðum en líka stórfellda rýrnun á áhrifum smærri aðildarríkja . Það er vissara að reikna með að næstu sáttmálar gangi lengra í sömu átt.
Niðurstaðan er sú að sem aðili að ESB myndi Ísland ekki hafa nein teljandi áhrif og erfitt að ímynda sér að afstaða Íslands myndi skipta úrslitum í nokkru máli. Önnur aðildarríki munu því varla sjá sér mikinn ávinning í því að tryggja sér stuðning okkar og við getum því ekki vænst sérstaks stuðnings frá þeim. Hagsmunir hinna stóru munu ráða för.
Ef við göngum í ESB verðum við að trúa því að okkar hagsmunir muni alltaf fara saman við hagsmuni hinna stóru því innan ESB munum við ekki hafa áhrif, hvorki til að stöðva ákvarðanir sem eru okkur í óhag né koma í gegn ákvörðunum sem verja hagsmuni Íslands sérstaklega. Er það óhætt?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
9.9.2010 | 22:45
Verður lýðræði í pakkanum?
Þrátt fyrir að ESB sé samband lýðræðisríkja má sambandið þola vaxandi gagnrýni fyrir að vera sjálft ekki nógu lýðræðislegt. Talað er um að sambandið þjáist af verulegum lýðræðishalla og almennir kjósendur hafi sáralítil áhrif á stefnu þess.
Kjarni lýðræðisins er sá að kjósendur hafi síðasta orðið um stjórnun og lög ríkisins. Kjósendur taki þátt í kosningum, kjósi nýjan meirihluta sem myndar nýja ríkisstjórn og semur ný lög. Þennan kjarna lýðræðisins virðist vanta í stjórnun og lagasetningu Evrópusambandsins.
Þótt Evrópubúar kjósi til Evrópuþings á fimm ára fresti, þá er það ekki þingið sem setur lögin. Það er framkvæmdastjórn ESB sem hefur frumkvæðisrétt að lagasetningu og semur öll lög sambandsins en sú framkvæmdastjórn er ekki lýðræðislega kjörin. Evrópuþingið sem er kosið í almennum kosningum hefur ekki vald til að semja lög þótt það geti gert athugasemdir við löggjöf framkvæmdastjórnarinnar eða neitað að samþykkja þau.
Framkvæmdastjórnin hefur í raun öll tögl og haldir í rekstri og mótun Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórnin er skipuð 27 fulltrúum og tilnefnir hvert aðildarríki einn þeirra. Fulltrúarnir skipta með sér málaflokkum líkt og ráðherrar í ríkisstjórn. Forseti framkvæmdastjórnar er síðan valinn af leiðtogaráðinu en í því sitja forsætisráðherrar aðildarríkjanna. Forseti framkvæmdastjórnarinnar er í raun leiðtogi Evrópusambandsins. Núverandi forseti framkvæmdastjórnarinnar er José Barroso en hann tók fyrst við því hlutverki árið 2004.
Það er ljóst að almennir kjósendur hafa ekki neitt um það að segja hverjir eru valdir í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Kjósendur geta því ekki veitt framkvæmdastjórninni það aðhald sem þykir sjálfsagt í lýðræðisríkjum. Kannski er þessi staðreynd ástæðan fyrir síminnkandi þátttöku almennings í kosningum til Evrópuþingsins. Í fyrstu kosningunum árið 1979 tóku 63% þátt en árið 2009 var þátttaka komin niður í 43%.
Þar sem lýðræðislegt aðhald skortir er talsverð hætta á að framkvæmdavaldið fari sínar eigin leiðir og missi jarðsamband við kjósendur. Þetta gæti verið að gerast í Evrópusambandinu. Skoðanakannanir benda til þess að almenningur í aðildarríkjum vilji ekki færa frekari völd til Brussel. Á sama tíma vinnur ESB að sífellt meiri samruna og miðstýringu. Gjá milli fólksins og leiðtoganna?
Tilburðir ESB til að innleiða nýja stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið geta vart talist lýðræðislegir. Stjórnarskránni var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi og Hollandi árið 2005 og var þá dregin til baka. Tveimur árum síðar var Lissabon sáttmálinn tilbúinn en hann fól í sér 95% af efni stjórnarskrárinnar. Í þetta sinn ákvað ESB að hafa ekki þjóðaratkvæðagreiðslur og þess í stað myndu þjóðþingin fjalla um hann. Á sama tíma sýndu skoðanakannanir að kjósendur vildu fá sáttmálann í þjóðaratkvæði.
Aðeins á Írlandi var Lissabon sáttmálinn settur í þjóðaratkvæði og var honum hafnað. ESB lét það ekki á sig fá og boðaði til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu rúmu ári síðar um lítið breyttan sáttmála. Þá var Írska þjóðin í áfalli eftir efnahagshrun og var ekki í aðstöðu til að standa gegn vilja ESB.
Nú hefur Ísland sótt um aðild að ESB og margir bíða spenntir eftir því að kíkja í pakkann og sjá hvaða undanþágur Ísland fái frá reglum sambandsins. Það má vel vera að Ísland fái allar þær undanþágur sem talsmenn aðildar hafa gert sér vonir um.
En eitt mun pakkinn ekki innihalda og það er lýðræðislegt Evrópusamband.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.9.2010 kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.9.2009 | 17:16
Er lýðræði á Íslandi?
Ef það kallast lýðræði að setja á svið gjörning þar sem kjósendur setja stafinn X við framboðslista á fjögurra ára fresti en hafa samt ekki minnstu áhrif á afdrif mála, þá er lýðræði á Íslandi. En það er langt frá því að vera fullkomið.
Sigurvegarar kosninga fá umboð til að stýra landinu. Þeir virðast geta notað umboðið til að þverbrjóta gefin kosningaloforð og í raun farið beint gegn vilja kjósenda. Stjórnvöld fá frítt spil í allt að fjögur ár nema gerð sé bylting í millitíðinni.
Kjósendur hafa fá úrræði önnur en byltingu sem er mikið vesen. Þeir láta því frekar óstjórnina yfir sig ganga.
Þetta form lýðræðis hefur eflaust þótt mikið framfaraskref á sínum tíma. En það er óralangt síðan og við búum nú að allt öðrum möguleikum tæknilega. Hvers vegna hefur þá lýðræðið staðið í stað allan þennan tíma?
Þeir sem bíða eftir því að stjórnmálamenn hafi frumkvæði að því að gera lýðræðið eitthvað virkara geta búið sig undir að bíða mjög lengi. Stjórnmálamenn vilja meiri áhrif, ekki minni. Enda hafa ekki verið gerðar neinar umbætur til að gera fyrirkomulagið lýðræðislegra, ef eitthvað er, þá hefur valdið færst fjær kjósendum.
Þetta gamaldags lýðræði hefur ekki reynst þjóðinni sérlega vel. Stjórnvöld hafa alla tíð legið undir ámæli fyrir hagsmunapot, samkrull við valdaklíkur og sérhagsmunaöfl sem vilja skammta sér sérstöðu og auðæfi sem auðvitað koma frá þjóðinni sjálfri. Nægir að nefna sambandið, kolkrabbann og síðast en ekki síst bankana.
Núna eru stjórnvöld að stokka spilin og gefa upp á nýtt. Milljarðaskuldir fyrirtækja eru skrifaðar niður, reglurnar eru óljósar og upplýsingar um hverjir fá hvað afskrifað eru algert trúnaðarmál. Hér er mikil hætta á ferðum. Þjóðin þarf að vita hvað er að gerast.
En ríkisstjórnin hefur öll völd og hún notar þau óspart. ESB og Icesave voru bókstaflega keyrð í geng þvert á vilja þings og þjóðar. Stjórnin þverneitaði að leyfa þjóðinni að ákveða hvort sótt yrði um inngöngu í annað ríkjabandalag. Endanleg þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB verður svo aðeins ráðgefandi fyrir þingið. Fleira mætti nefna í sama dúr, niðurstaðan er að þjóðin hefur engin völd.
Sættir þjóðin sig við svona lýðræði?
Vonandi ekki, enda engin ástæða til. Við erum nefnilega í ágætri aðstöðu til að þróa lýðræðið á næsta stig. Þjóðin er lítil, vel menntuð og tæknivæðing með því besta sem gerist. Við getum vel breytt þessu til betri vegar ef við bara nennum því.
Nú þegar eru nokkrir hópar af dugnaðarforkum byrjaðir að vinna að endurbættu lýðræði. Ég vona að þeim vinnist verkefnið hratt og vel. Hvet alla til að leggja þeim lið.
Lýðræði er ekki raunverulegt nema kjósendur sjálfir ráði því hvort þeir taka afstöðu til einstakra mála eða hvort þeir láta kjörinn fulltrúa sinn taka ákvörðun fyrir sína hönd.
Meira:
http://www.lydveldisbyltingin.is
http://www.skuggathing.is/
http://www.lydraedi.is
1.9.2009 | 17:04
Greinin sem Morgunblaðið birti ekki
Meðfylgjandi er grein sem ég sendi Morgunblaðinu nokkrum dögum áður en alþingi greiddi atkvæði um umsókn inn í Evrópusambandið. Greinin var af einhverjum ástæðum aldrei birt sem var auðvitað mjög leitt. Hér kemur greinin í heild sinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.9.2009 kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
27.8.2009 | 13:55
Ávarpið á Austurvelli
Hávaðinn á Austurvelli var ótrúlegur! Hér er ávarpið sem flutt var á undan niðurtalningunni. Bestu þakkir til allra sem komu og höfðu hátt!
"Bara örfá orð áður en niðurtalningin hefst. Í dag hófust á Alþingi umræður um Icesave frumvarpið en það er vilji ríkisstjórnarinnar að gera þann ósóma að lögum síðar í dag. Því verður að mótmæla.
Frá því þessi afleiti Icesave samningur var kynntur þjóðinni í byrjun sumars hafa stöðugt komið fram nýjar upplýsingar og sérfræðiálit, og allt hallar það í eina átt:
Samningurinn er afleitur fyrir Ísland, skaðlegur íslenskum hagsmunum og síðast en ekki síst óréttlátur fyrir íslenskan almenning.
Enda blasa staðreyndir málsins við: Það finnast engin lög sem segja að þjóðin eigi að axla skuldir einkabanka.
Dómstólar hafa líka sagt sitt álit: Sjálfur Evrópudómstólinn felldi dóm árið 2002 í máli númer 222 og sagði þar að það væri beinlínis bannað að ríkistryggja innistæðutryggingasjóð.
Þingmenn mega ekki láta hræðsluáróður eða hótanir slæva dómgreind sína.
Alþjóðasamfélagið mun ekki útskúfa nokkurt ríki þótt það deili við Bretland eða Holland um peninga. Þó það nú væri.
Stuðningur alþjóðasamfélagsins við málstað Íslands fer stöðugt vaxandi eins og ritstjórnargreinar erlendra stórblaða bera vitni um.
Stjórnvöld hafa samt allt of lítið gert til þess að halda fram málstað Íslands erlendis. Orkan hefur farið í að karpa um fyrirvara og pína þingmenn til samstöðu um ónýtan samning.
En það er ekki of seint að hafna þessum samningi og gera betri samning.
Þingmenn verða að taka slaginn fyrir Ísland og fella þetta frumvarp!
Nýleg Gallup könnun staðfestir að stór meirihluti þjóðarinnar er á móti þessum samningi. Þjóðin stendur með Íslandi á móti Icesave samningnum.
Verkefnið á Íslandi á næstu árum er að byggja upp en það verður miklu, miklu erfiðara ef alþingi samþykkir að leggja 700 til 1000 milljarða skuld á þjóðina ofan á allt annað. Skuld sem við erum ekki í ábyrgð fyrir og samþykktum aldrei.
Að lokum. Markmiðið með þessum mótmælum hér í dag - sem verða mjög hávær - er að andmæla því óréttlæti að þjóðin sé látin borga skuldir fjárglæframanna og einkabanka þeirra.
Þjóðin er búin að taka nóg á sig í þessu hruni.
Svo virðist sem of margir þingmenn hafi flotið sofandi að feigðarósi í þessu mikilvæga máli.
Við þurfum að vekja þá! Vekja þá og hvetja til dáða fyrir land sitt og þjóð.
Nú skulum við telja niður saman og vekja þingmenn með ... Hávaða á Austurvelli !!!
Tíu! Níu! Átta! ..."
Hávaði gegn Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
26.8.2009 | 00:26
Þú getur unnið þér inn 1-2 milljónir með hávaða!
Þetta verður í allra mesta lagi hálftíma púl en tímakaupið gæti orðið miklu hærra en hjá nokkrum útrásarvíkingi - ef þú stendur þig vel.
Það eina sem þú þarft að gera er að mæta á Austurvöll (eða í miðbæinn í þínum bæ) á fimmtudaginn kl. 12:00 og taka þar þátt í því að gera eins mikinn hávaða og þú mögulega getur. Bara í c.a. 20 mínútur. Þetta verður stuð! Taktu vinina með og næstu lúðrasveit. Vegleg verðlaun fyrir mesta hávaðann.
Ef þú kemst ekki á Austurvöll getur þú samt tekið þátt með því að gera sem mestan hávaða hvar sem þú ert. Gott er að þeyta bílflautu ef hún er við höndina, hækka græjurnar í botn og opna út á götu, berja potta úti á svölum, blása í lúður eða stappa og öskra. Fáðu alla í lið með þér, því fleiri því meira gaman og þetta verður holl og góð útrás fyrir sálartetrið.
Markmiðið með þessum gríðarlega hávaða er að andmæla því að þjóðin verði látin borga skuldir fjárglæframanna og einkabanka þeirra. Nóg erum við búin að þola samt. Enda er stríðir það líka gegn öllum lögum og siðgæði að láta okkur borga. Á það hafa margir bent bæði innlendir og erlendir sérfræðingar. Þjóðin á ekki að láta slíkt óréttlæti yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust!
Ef nógu margir mótmæla nógu hátt þá munu þingmenn okkar sem og Bretar og Hollendingar skilja að þjóðin vill alls ekki samþykkja ICESAVE samninginn. Þá gæti farið svo að þú og allir aðrir Íslendingar skuldi 1-2 milljónum minna en þeir hefðu annars gert.
Bretar og Hollendingar geta ef þeir vilja hirt þessa fjárglæframenn og bankann þeirra en þeir fá aldrei að velta þessum óreiðuskuldum á íslenskan almenning.
En hvað með fyrirvarana - duga þeir ekki? Nei - Þeir snúast því miður aðeins um lægri greiðslur (frestun) ef illa gengur í efnahagslífinu. Vextir halda samt sem áður áfram að tikka á eftirstöðvunum. Það er enginn fyrirvari sem segir að skuldin falli niður - aðeins óljóst orðalag um að aðilar skuli "ræða málið" árið 2024 ef skuldin er þá ekki uppgreidd.
Allir með í HÁVAÐANUM MIKLA!
25.8.2009 | 00:19
11 ástæður fyrir þingmenn til að hafna ICESAVE
Hér eru tíundaðar nokkrar af fjölmörgum ástæðum fyrir alla þingmenn til að hafna frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð á Icesave samninginn.
1. Það er ekki lagaskylda að veita ríkisábyrgð
Tryggingasjóður er sjálfseignarstofnun og það stendur hvergi í lögum að hún skuli hafa ríkistryggingu. Íslensku lögin um tryggingasjóð innistæðna voru innleidd á Íslandi skv. tilskipun Evrópusambandsins og þeim framfylgt eins og átti að gera. Æðsti dómstóll sambandsins, Evrópudómstóllinn úrskurðaði í dómi 222 árið 2002 að ekki megi ríkistryggja innistæðutryggingasjóð.
2. Það er ekki siðferðileg skylda þjóðarinnar að axla skuldir einkabanka
Íslenskur almenningur var síst af öllum einhver gerandi í útrás og hruni Landsbankans. Eftirlitsstofnanir á Íslandi stóðu sig ekki en það á líka við um eftirlitsstofnanir í Bretlandi og Hollandi.
Skattar af innistæðum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi runnu til þessara landa. Innistæðurnar voru fjárfestar að mestu í Breskum og Hollenskum fyrirtækjum.
Innistæðueigendur voru ekki grunlausir, þeir máttu vita að háum vöxtum fylgir alltaf meiri áhætta.
Bresk stjórnvöld sköpuðu Landsbankanum (og Íslensku þjóðinni) gríðarlegt tjón með setningu hryðjuverkalaga.
3. Hótanir eru ótrúverðugar enda höfum við ekki brotið nein lög
Bretar og Hollendingar eiga ekki að komast upp með að kúga okkur með hótunum einum saman. Það er allt of ódýr sigur. Látum þá standa við hótanirnar og sjáum hvort alþjóðasamfélagið styður í raun ólögmæta kúgun á smáþjóð.
Kynnum málstað okkar, fjölmiðlar heimsins munu hafa mikinn áhuga á honum.
4. Samningurinn tekur ekki gildi nema Alþingi samþykki ríkisábyrgð
Mikið er gert úr því að fjármálaráðherrann sé þegar búinn að undirrita samninginn. Íslensk stjórnvöld verði því ómerk orða sinna ef Alþingi samþykkir ekki ríkisábyrgðina. Þetta er auðvitað rangt. Viðsemjendur okkar gera sér einmitt fulla grein fyrir því að samningurinn tekur ekki gildi án samþykkis Alþingis.
Fjármálaráðherra getur ef hann telur þörf á beðið viðsemjendur og þjóðina afsökunar á frumhlaupi sínu og sagt af sér. Það er ekki of seint.
5. Við getum ekki fengið verri samning þótt við semjum upp á nýtt
Fjölmargir lögfræðingar og ráðgjafar, bæði innlendir og erlendir, hafa fært vönduð rök fyrir því að Icesave lánasamningurinn sé meingallaður og óþarflega ósanngjarn í garð Íslands. Það sé mjög nauðsynlegt að semja upp á nýtt og lítil hætta á að útkoman yrði verri en sú sem nú liggur fyrir.
6. Fyrirvararnir eru haldlausir við borgum samt
Sú leið hefur verið reynd að setja fyrirvara við ríkisábyrgðina. Það hefur verið stórundarlegt að sjá ríkisstjórnarflokkana berjast af heift gegn því að settir séu fyrirvarar sem eitthvað bit er í. Maður hefði haldið að það væri hlutverk Breta og Hollendinga.
Fyrirvarar við ábyrgðina breyta því miður ekki samningnum sjálfum sem er jafn meingallaður eftir sem áður. Samningurinn bannar einmitt alla fyrirvara við ábyrgðina og nú er talinn vafi á að þeir haldi fyrir breskum dómstólum.
Jafnvel þótt fyrirvararnir haldi þá má ekki gleyma því að við munum borga megnið af fjárhæðinni þrátt fyrir að okkur beri engin skylda til þess samanber lið 1.
Fyrirvörunum hefur verið lýst sem "tærri snilld" en fyrirvarinn um að ekki skuli greitt nema hagvöxtur sé góður tekur alls ekki á þeim möguleika að hér getur orðið góður hagvöxtur án þess að hér sé nokkur afgangur af viðskiptum við útlönd. Þá munum við ekki eiga gjaldeyri til að greiða af samningnum. Krónan mun falla.
Ekki er heldur skýrt hvað verður um eftirstöðvar lánsins árið 2024. Svo er eitthvað haldlaust orðagjálfur um að aðilar skuli ræða saman ef kemur í ljós að ekki var skylt að ríkistryggja tryggingasjóð innistæðna.
Þingmenn eru að blekkja sjálfa sig ef þeir halda að Bretar og Hollendingar muni láta hundruð milljarða af hendi til Íslands í teboði. Fyrirvarar verða að vera skýrir annars eru þeir marklausir.
7. Við getum ekki borgað
Fyrst hélt ríkisstjórnin því fram að skuldbindingin yrði í versta falli 30-100 milljarðar. Síðan hefur komið í ljós að líklega gæti talan orðið allt að 1000 milljarðar með vöxtum. Ríkisstjórnin situr samt föst við sinn keip, þjóðin skal borga skuldir Landsbankans.
Skuldabyrði þjóðarinnar er mjög mikil nú þegar, en verði Icesave bætt við þá eru þetta orðnar drápsklyfjar sem þjóðin mun ekki rísa undir. Landið verður þá skuldaþræll. Allur arður af auðlindunum mun renna til erlendra lánadrottna, Breta og Hollendinga um ókomin ár. Þær þjóðir eru reyndar ekki óvanar því að halda nýlendur.
8. Krónan mun veikjast, lánakjör versna og fjárfestar forðast landið
Eftir því sem líkur hafa aukist á því að Icesave skuldin verði samþykkt því meira hefur krónan veikst. Ástæðan er sú að ríkið mun þurfa að selja 1000 milljarða af krónum til að kaupa erlendan gjaldeyri. Þetta er ótrúleg fjárhæð og þetta mun draga úr styrk krónunnar í mörg ár eða áratugi. Afleiðingin er sú að erlend lán íslenskra fyrirtækja og einstaklinga munu haldast mun hærri en ella til langframa. Tjónið af því mun verða talið í amk hundruðum milljarða.
Lánakjör ríkisins munu að sjálfsögðu versna þegar Icesave skuldin bætist við. Lánshæfi ríkisfyrirtækja eins og Landsvirkjunar mun versna líka enda geta þau ekki verið metin traustari en ríkissjóður.
Efnahagsbati og styrking krónunnar mun því verða hægari og landið verða minna áhugavert fyrir fjárfesta ef Icesave er samþykkt. Þeir munu leita annað.
9. Hærri skattar munu fæla burt gott fólk og fyrirtæki
Verði Icesave samþykkt mun ríkið þurfa að draga meira úr útgjöldum og þjónustu en leggja meiri skatta á fyrirtæki og einstaklinga en annars. Þau fyrirtæki sem geta munu færa sig úr landi, fjölþjóðleg fyrirtæki með starfsemi á Íslandi munu stýra hagnaði sínum til landa þar sem skattar eru lægri.
Eignafólk og hálaunafólk mun verða að greiða verulega hærri skatta en ella hefði verið. Ríkt fólk og fólk í hálaunastörfum á auðveldast með að flytjast til annarra landa. Þótt aðeins 5% þjóðarinnar færu úr landi þá er hætt við að 15- 20% af skatttekjum Ríkisins myndu hverfa með þeim.
Hugsanlega er Íslandi mun meiri hætta búin af fólksflótta vegna Icesave en af þeim aðgerðum sem Bretar og Hollendingar haft í hótunum með.
10. Þeir þingmenn sem samþykkja Icesave, með eða án fyrirvara, verða ábyrgir
Ríkisstjórnin lætur að því liggja að þetta sé allt saman fyrri ríkisstjórn að kenna og nú sé of seint að gera eitt eða neitt í málinu. Það er ekki of seint. Samningurinn tekur ekki gildi nema alþingi samþykki ríkisábyrgðina, þetta vita Bretar og Hollendingar.
Það er varla hyggilegt fyrir nokkurn þingmann að leggja slíkar drápsklyfjar á þjóð sína án þess að sýnt hafi verið mjög rækilega fram á með óyggjandi hætti að hin leiðin sé mun verri. Kannski er skynsamlegt og rétt að spyrja þjóðina álits fyrst.
11. Það ber að kanna hug þjóðarinnar í svona stóru máli
Það hafa komið fram afar sterkar vísbendingar um að meirihluti þjóðarinnar vilji hafna þessum Icesave samningi og þingmenn ættu að sjálfsögðu að taka tillit til þess í svona stóru máli.
Skoðanakönnun Gallup frá því í ágúst sýndi að 68% þjóðarinnar er á móti því að samþykkja ICESAVE samninginn.
Þótt það teljist ekki vísindaleg könnun, þá má geta þess að á Facebook hafa 16.416 notendur skrifað undir áskorun til forsetans um að staðfesta ekki frumvarpið. Þar er líka hópur sem ber yfirskriftina: "Við neitum að greiða skuldir sem við berum ekki ábyrgð á (Icesave málið)" en í hann hafa skráð sig 37.018 einstaklingar, líklega meirihluti þeirra Íslendinga sem nota Facebook.
Þingmenn og einkum þeir sem eru í ríkisstjórn, verða að rifja það upp fyrir hverja þeir eru að vinna. Þeir hafa ekkert umboð frá þjóðinni til að láta hana axla skuldir einkabanka. Þjóðin mun seint fyrirgefa þingmönnum sem bregðast henni í svona stóru máli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
8.8.2009 | 13:19
Ósannfærandi hrakspár Steingríms J.
Steingrímur J Sigfússon fjármálaráðherra ritaði grein í Morgunblaðið í gær (7/8/09) þar sem hann birtir sundurliðaða hrakspá um afdrif Íslands ef ICESAVE samningnum yrði hafnað. Við fyrstu sýn gæti hrakspáin skotið manni skelk í bringu en sé hún skoðuð nánar kemur í ljós að hún er byggð á miklum ólíkindum. Það mætti telja líklegra að Ísland yrði fyrir loftsteini en að spádómur Steingríms rættist lið fyrir lið.
"Samstarfsáætlunin með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum siglir í strand og engin frekari lán til að byggja upp gjaldeyrisvaraforðann berast þaðan."
AGS hefur lýst því yfir að öll skilyrði fyrir lánum hafi verið uppfyllt en fæst ekki segja að ICESAVE sé eitt af þessum skilyrðum. Samt fullyrðir Steingrímur að ICESAVE sé skilyrði. Hversu líklegt er að ef AGS fæst ekki einu sinni til þess að segja að ICESAVE sé skilyrði, hverjar eru þá líkurnar á því að AGS lánið strandi í raun vegna ICESAVE? Svo er stór spurning hvort okkur er óhætt að taka AGS lánið. (Mæli með þessari grein um það mál)
"Engin gjaldeyrislán berast frá hinum Norðurlöndunum."
Frændur okkar hafa ekki fengist til að viðurkenna nein slík skilyrði. Svíar vilja reyndar alls ekki að þeirra lán gangi til greiðslu á ICESAVE lánum. Færeyingar hafa engin skilyrði sett. Ég er viss um að þegar Norðurlöndin fá að heyra alla málavöxtu þá munu þeir standa gegn því að Íslenskum heimilum verði steypt í skuldir vegna galla í evrópsku regluverki.
"Erlendu kröfuhafarnir samþykkja ekki að koma að endurreisn Kaupþings og Íslandsbanka."
Þetta er bull. Þeir hafa allt að vinna með því að koma að endurreisn bankanna, annars myndu þeir vera löngu búnir að drífa sig burt og gera eitthvað annað. Erlendir kröfuhafar eru ekki góðgerðasamtök. Verði ICESAVE skuldunum bætt á landið mun þeim, eins og öðrum, lítast mun verr á að koma að endurreisn bankanna.
"Alþjóðlegar lánastofnanir og erlendir bankar verða áfram lokuð bók og ný lán eða endurfjármögnun eldri lána er ógerleg."
Það er bara erfitt að fá lán eins og staðan er í heiminum í dag. Hvernig gengur Írlandi og Lettlandi að fá lán þessa dagana? Þeir eru ekki með neitt ICESAVE vandamál, samt fá þeir engin lán, endurfjármögnun er ógerleg. ICESAVE er viðbótarskuldsetning sem bara veikir lánshæfi og lánstraust þjóðarinnar.
"Hætta á að neyðarlögunum frá í október verði hnekkt vex á ný."
Þetta er nú umdeilt atriði og þau rök hafa líka heyrst að samþykkt ICESAVE muni jafnvel auka hættu á að neyðarlögum verði hnekkt. Þessi óvissa verður því ekki leyst með því að samþykkja ICESAVE.
"Mikil neikvæð umræða verður um Íslendinga á nýjan leik sem óábyrga í viðskiptum og aðila sem hlaupi frá skuldbindingum sínum og gefnum fyrirheitum."
Það verður vonandi mikil umræða og við munum þá fá gott tækifæri til að skýra okkar málstað. Þetta verður vonandi fréttnæm milliríkjadeila og lesendur stórblaða munu flestir fallast á að íslenskar fjölskyldur eiga ekki að axla þessar byrðar.
Íslendingar njóta almennt trausts erlendis þótt einhverjir Íslendingar hafi verið óábyrgir. Allar þjóðir eiga óábyrga einstaklinga í sínum röðum. Allar þjóðir eiga stjórnmálamenn sem lofa meiru en þeir geta staðið við. Menn munu því áfram vilja kaupa íslenskan fisk, orku, hugbúnað og selja okkur olíu og matvæli. Þeir gera það vegna þess að það er ábatasamt.
"Trúverðugleiki Íslands, sem hefur byrjað að endurheimtast að undanförnu, fer aftur þverrandi."
Þetta er nú meira ruglið. Hvaða könnun hefur verið gerð í útlöndum um "trúverðugleika Íslands". Hvernig væri að gera slíka könnun? Hvað með það þótt einhverjir pólitíkusar í Bretlandi og Hollandi fari í fýlu?
Við höfum góðan málstað að verja og eigum að verja hann með öllum tiltækum ráðum og aldrei að gefast upp. Slík barátta er trúverðug! Það er engin trúverðugleiki í því að láta valta yfir sig með hótunum.
"Ef deilan opnast upp aftur kann að verða gripið til aðgerða sem geta reynst íslenskum fyrirtækjum og íslenskum hagsmunum skeinuhættar."
Hér á Steingrímur líklega við viðskiptahindranir á Ísland. Aðeins Bretar eða Hollendingar myndu hafa frumkvæði að slíkum aðgerðum en það væri þó afar ósennilegt að sú leið væri farin áður en búið væri að reyna dómstólaleið til þrautar.
Viðskiptahindranir eru mjög óvinsælar heima fyrir enda bitna þær á fyrirtækjum í Hollandi og Bretlandi og saklausu fólki á Íslandi. Viðskipti okkar myndu einfaldlega færast frá þessum löndum til annara Evrópuríkja, enda næðist aldrei víðtæk samstaða í Evrópu um viðskiptabann á Ísland.
"Minni líkur á styrkingu gengis, minni líkur á lækkun stýrivaxta, meiri óvissa um þróun lánshæfismats ríkisins og tengdra aðila."
Þetta er einmitt þveröfugt. Heilbrigð skynsemi segir að meiri erlend skuldsetning muni veikja gengið og gera lánshæfismat ríkisins og tengdra aðila verra.
"Endurreisnaráætlun stjórnvalda, stöðugleikasáttmálinn og ýmsir tengdir hlutir lenda í óvissu og bið."
Þetta er allt mjög óljóst og væri gott ef Steingrímur gæti útskýrt nánar hvernig það getur styrkt Endurreisnaráætlun stjórnvalda að leggja hundruð milljarða í erlendum skuldum á þjóðina, sem hún skuldar ekki nú þegar. Stöðugleikasáttmálinn ætti einnig að styrkjast ef ICESAVE er hafnað af sömu sökum. Liðurinn "ýmsir tengdir hlutir lenda í óvissu og bið" hljómar nú bara eins og "business as usual" og vekur lítinn ugg í brjósti hjá þjóðum almennt.
"Aukin svartsýni grípur um sig, uppsögnum starfsfólks og gjaldþrotum fyrirtækja fer fjölgandi og flutningur frá landinu eykst."
Þvert á móti mun aukin bjartsýni grípa um sig ef ICESAVE er hafnað. Það myndi auka trú landsmanna á réttlæti, lægri skatta og draga úr landflótta. Uppsagnir og gjaldþrot fyrirtækja verða ekki umflúin með því að taka ICESAVE lánið. Ég óttast einmitt að ef ICESAVE óréttlætið verður látið ganga yfir þjóðina og skulda- og skattbyrði aukin á óréttlátan hátt þá fer fólk úr landi sem annars hefði verið hér áfram.
"Tekjur ríkis- og sveitarfélaga dragast meira saman en ella hefði orðið."
ICESAVE samningurinn hefur ekki neinar tekjur í för með sér fyrir ríki- og sveitarfélög. Nú, nema Steingrímur sé hér að nefna þá staðreynd að ríkið þarf að hækka skatta á allt og alla til að geta borgað niður ICESAVE lánið. Það myndi jú auka tekjur ríkisins en líka útgjöld. Þá er nú betra að fella þennan ICESAVE samning strax.
----
Ef þetta er nú allt það sem Steingrímur óttaðist mest þá vona ég að hann kynni sér þessa færslu sem fyrst svo hann geti farið að berjast fyrir hagsmunum Íslands af meiri einurð.
Ekkert í hrakspám hans er líklegt til að ganga eftir og ekkert jafn skelfilegt og hann virðist telja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.8.2009 kl. 01:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
5.8.2009 | 00:39
Guðbjartur og Sigmundur ósammála um ICESAVE í Kastljósinu
Guðbjartur Hannesson formaður fjárlaganefndar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefndarmaður sátu fyrir svörum í Kastljósi. Tilefnið var ICESAVE málið og hvort ný samantekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hefði einhver áhrif á afstöðu manna.
Guðbjartur sem er kennari að mennt og þingmaður Samfylkingar vildi ekki meina að neitt nýtt eða markvert kæmi fram í áliti Hagfræðistofnunar og hún væri alls ekki gagnrýnin á spá Seðlabankans. Skoðun hans er því áfram sú að "þjóðin geti staðið undir þessu" og "Ekkert sem bendir til að við ráðum ekki við þetta".
Sigmundur sem er viðskiptafræðingur að mennt með doktorsgráðu í skipulagshagfræði og þingmaður Framsóknarflokksins var alveg á öndverðum meiði. Hann taldi skýrsluna innihalda mjög harðorða gagnrýni á spá Seðlabankans um þróun efnahagsmála. Þjóðin ráði ekki við að greiða þetta nema lífskjör verði skert mjög verulega til margra ára.
Það kom einnig skýrt fram í þættinum hve sannfærður Guðbjartur er um að samþykkt ICESAVE muni efla traust á Íslandi og auðvelda frekari fjármögnun.
Sigmundur var þessu alveg ósammála og finnst líklegra að aukin skuldsetning þjóðarinnar myndi fæla lánveitendur frá landinu og rýra traust á hagkerfinu.
--
Ég er sammála Sigmundi Davíð. Þjóðin getur ekki risið undir erlendum skuldum ef ICESAVE er bætt við það sem þegar er komið. Bretar og Hollendingar munu ekki verða þakklátir lengur en í 5 mínútur þótt við sýnum þeim þann vinargreiða að láta íslensk heimili borga skuldir Landsbankans.
Lánveitingar í þakklætisskyni myndu duga skammt ef skuldsetning vegna ICESAVE rýrir lánshæfi og fælir á sama tíma skynsama fjárfesta frá landinu.
Íslensk heimili hafa enga skyldu og engan hag af því að látið sé undan ólögmætum kröfum Breta og Hollendinga um að þau axli skuldir Landsbankans.
Það er með ólíkindum að ríkisstjórn Íslands íhugi að skrifa undir þennan samning.
29.7.2009 | 23:11
Hlutleysi Ríkisútvarpsins
Í lögum um Ríkisútvarpið ohf er á þremur stöðum kveðið á um skyldu til óhlutdrægni og fyllstu hlutlægni í allri umfjöllun og fréttaflutningi. Þjóðin þarf að geta treyst því að RÚV fari að lögum og sé í raun hlutlaus fjölmiðill. Það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú að RÚV bregðist ekki trausti þjóðarinnar í þessu enda er þjóðin klofin í afstöðu sinni til stórmála eins og ESB og ICESAVE. RÚV má alls ekki taka afstöðu í þessum hitamálum.
Þær raddir verða nú háværari að umfjöllun RÚV um ESB og ICESAVE uppfylli ekki ákvæði útvarpslaga um óhlutdrægni. Hlutdrægni getur leynst víða t.d. í vali á fréttum, vali á viðmælendum, gildishlöðnum spurningum, tónlist, myndefni ofl.
Það er eðlilegt að fréttamenn og þáttastjórnendur RÚV hafi eins og aðrir sterkar skoðanir á ICESAVE og ESB og því er aukin hætta á að einhverjir þeirra falli í þá freistni að setja hlutina fram með hlutdrægum hætti.
Menntamálaráðherra, stjórn Ríkisútvarpsins, útvarpsstjóri og fréttastjórar bera ábyrgð á að farið sé að lögum í þessu efni. Þessum aðilum er skylt að sjá til þess að eftirlit sé haft með því að það efni sem frá RÚV kemur uppfylli kröfur laga um hlutleysi.
Mér er ekki kunnugt um hvernig eftirlit er haft með þessu, en hafi slíku eftirliti ekki verið komið á, þá eru þessir ábyrgðaraðilar ekki að framfylgja lögum um að hlutleysis sé gætt.
Einmitt núna, vegna þeirra aðstæða og átaka sem eru framundan, er sérstaklega mikilvægt að Ríkisútvarpið gæti fyllsta hlutleysis svo það glati ekki trausti þjóðarinnar.
Núna er rétti tíminn til að láta hlutlausan aðila gera úttekt á því hvort fyllsta hlutleysis hafi örugglega verið gætt í fréttaflutningi og umfjöllun um ESB og ICESAVE málin og birta þjóðinni niðurstöðuna.