Hvað heldur aftur af rafrænum kosningum?

Kostnaður við þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave samninginn var áætlaður 230 milljónir, eða álíka og kostnaðurinn við alþingiskosningar vorið 2009. 
 
Kostnaður við kosningu til stjórnlagaþings gæti verið um 100 milljónir og svo verða drög að stjórnarskrá lögð fyrir þjóðina sem kostar 200 milljónir. 
 
Mjög stór hluti kjósenda hefur aðgang að tölvu og gæti því kosið heima hjá sér. Þeir fáu sem ekki treysta sér til að nota tölvu, gætu mætt á kjörstað eða kosið utankjörfundar eða sent atkvæði í pósti. 
 
Það virðist augljóst að tölvuvæðing kosninga myndi spara stóran hluta þess kostnaðar sem fellur til í kosningum og í talningu atkvæða. En hvers vegna hefur þetta ferli ekki verið tölvuvætt? 
 
Í 5. gr. stjórnarskrá er ákvæði um að forseti skuli kjörinn í <span>leynilegri</span> kosningu og í 31. gr. er ákvæði um að þingmenn skulu kosnir í <span>leynilegri</span> kosningu. 
 
Kjósandinn á því að geta kosið án þess að hægt sé að sanna hvað hann kaus. Leyndin er réttur kjósandans. En leyndin virðist líka talin veita vörn gegn því að kjósandinn verði beittur þvingunum eða honum mútað til að kjósa með öðrum hætti en hann ætlaði sér. 
 
Í aðdraganda Icesave kosninganna bauðst DeCode til að útvega kerfi (Íslendingaval) sem gæti tryggt kjósendum nafnleynd í rafrænum kosningum og sparað mikinn kostnað. Ekki var dregið í efa að það kerfi dygði en stjórnvöld afþökkuðu boðið.
 
Í kosningu til stjórnlagaþings er kjósendum ráðlagt að undirbúa sig heima en kjósa á kjörstað. Kosningin fer þannig fram að kjósendur skrifa tölur í reiti á kjörseðlum sem síðan verða skannaðir inn í tölvu. Notaðir verða þrír hraðvirkir skannar sem leigðir voru til landsins í þessu skyni.
 
Enginn efast um að það hefði verið þægilegra fyrir alla að fylla út kjörseðla á netinu heima hjá sér og það hefði dregið mjög úr hættum á villum. Það hefði líka verið miklu ódýrara í framkvæmd og það hefði mátt tryggja nafnleynd kjósenda með t.d. tækni DeCode. 
 
Það er ráðgáta hvers vegna kjörstjórn nýtir ekki tölvutæknina öllum til hagsbóta. Eina skýringin sem ég sé er ótti við að ef kjósendur kjósa ekki einir í kjörklefa þá opnist möguleiki á að þeir verði beittir þvingunum eða mútum til að kjósa með tilteknum hætti.
 
En það má vel minnka líkur á því með öðrum hætti.
 
Leyfa mætti kjósanda að kjósa eins oft og hann vill, skipta um skoðun, þar til kosningu lýkur. Þá getur sá sem vill kaupa eða þvinga kjósandann ekki verið viss um að kjósandinn standi við gefin fyrirheit.
 
Þvingarinn gæti séð við þessu með því að sitja yfir kjósandanum og láta hann kjósa rétt fyrir lokun kosningar. Hver þvingari getur ekki haft auga með mörgum kjósendum á lokamínútum kosninga nema grípa til stórtækra aðgerða. 
 
Til að gera þvingurum enn erfiðara fyrir mætti hafa kjörstaði opna 1-2 í daga eftir að rafrænni kosningu lýkur. Þá getur kjósandinn farið á kjörstað og kosið í kjörklefa. 
 
Til að þvingunaraðgerðir skili tilsettum árangri þarf að þvinga mjög marga kjósendur hugsanlega þúsundir. Ef viðurlög við kosningasvindli eru höfð þung þá verður bæði erfitt að og afar dýrt að finna nógu marga þvingara og kjósendur til að hafa áhrif á úrslit kosninga.  
 
Hætta á þvingun og mútum virðist í raun vera sáralítil og óhætt þess vegna að tölvuvæða kosningaferlið og spara hundruði milljóna með því. 
 
Það er líklegt að kosningaþátttaka muni aukast umtalsvert ef kjósendur þurfa ekki að fara á kjörstað. 
 
Ef það er eitthvað allt annað sem heldur aftur af tölvuvæðingu kosningaferlisins myndi ég gjarnan vilja heyra af því.  Ég vona bara að raunverulega ástæðan sé ekki sú, að stjórnvöld vilji sem sjaldnast hafa kosningar. Þau vilji því hafa þær sem dýrastar og óþægilegastar svo fólk sé ekki að rella um að hafa þær of oft. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það þarf að gera ráð fyrir þeim sem gera ógilt, blindum. tölfulausum, heimilislausum og svo framvegis. Allir hafa rétt á að kjósa. Ef fólk nennir ekki að fara á kjörstað þá hefur það ekki kosið punktur.

Guðmundur Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 25.11.2010 kl. 01:24

2 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Guðmundur, sem betur fer myndu rafrænar kosningar ekki útiloka að veita áfram sömu þjónustu og nú er fyrir þá sem eru blindir, tölvulausir eða geta ekki nýtt sér rafræna kosningu. Sá hópur er ekki mjög stór og því auðvelt að sinna honum vel.

Frosti Sigurjónsson, 25.11.2010 kl. 01:55

3 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Alveg sammála þér í þessu Frosti. Og af því að það má beinlínis gera ráð fyrir því að þetta sé framtíðin í þessum efnum. Eftir hverju er þá verið að bíða?

Ólafur Eiríksson, 25.11.2010 kl. 08:10

4 identicon

Ætlar þú að setja inn í stjórnarskrána okkar að við eigum að kjósa rafrænt? Er það stóra kosningarloforðið? Á það ekki heima í kosningalögum?  Er þetta ekki allt saman einhver múgsefjun þessi stjórnarskrárbreytting? Eigum við núna að setja öll tískufyrirbrigði sem nú er í gangi inn í stjórnarskrána? Eigum við þá ekki að breytta henni aftur eftir 20 ár þegar eitthvað annað hipp og kúl kemur til sögunar?

Rugl segi ég, rugl.

Guðmundur Bragason (IP-tala skráð) 25.11.2010 kl. 10:34

5 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Guðmundur Bragason, ég held reyndar að það sé óþarfi að setja ákvæði um rafrænar kosningar í stjórnarskrá.

Ég tel hins vegar þörf á ákvæði um að kjósendur sjálfir geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um þau mál sem þeir telja mikilvæg. Þá verður mikilvægt að nýta tölvutæknina til að halda niðri kostnaði við þær.

Frosti Sigurjónsson, 25.11.2010 kl. 21:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband