Innistæðulaus hræðsluáróður í Noregi

dag_seierstad_ingressbildeDag Seijerstad, sérfræðingur í Evrópumálum hjá Norsku Nei Til EU samtökunum flutti erindi á opnum fundi í Háskólatorgi í dag. Hann sagði meðal annars frá því að í aðdraganda síðari þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 1994 hafi ESB sinnar spáð mikilli óáran ef þjóðin samþykkti ekki ESB samninginn.

ESB sinnar básúnuðu að ef Noregur gengi ekki í ESB myndi allt þetta gerast: Norska krónan ætti enga framtíð, vextir myndu hækka, erlendir fjárfestar forðast Noreg og landið einangrast og verða einhverskonar "Albanía norðursins". 

Niðurstaða þjóðaratkvæðisins varð samt sú að aðild var hafnað. Í kjölfarið styrktist krónan, vextir fóru að lækka, erlent fjármagn og fjárfestar sýndu Noregi síst minni áhuga en áður og í fyrra var Noregur tilnefndur í hóp 10 áhrifamestu þjóða í þróun heimsmála. 

Hrakspár ESB sinna reyndust gjörsamlega innistæðulausar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef ég hef skilið þessa færslu þína rétt, þá ert þú að mæla með því að við förum í aðildarviðræður við ESB, leggjum samninginn fyrir þjóðina og höfnum honum svo. Þá mun allt fara að ganga vel hjá okkur!

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 21:51

2 identicon

Það vantar eina breytu í þetta. Noregur varð á sama tíma eitt öflugasta olíuframleiðsluríki í heimi. Skyldi það ekki hafa haft áhrif?

Roastbeef (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 22:00

3 identicon

Það eru margar hliðar á hverju máli Frosti.

Olíuframleiðsla í Noregi náði hámarki á árunum 2000-2004 sjá m.a. hér eða

http://www.norway.org/NR/rdonlyres/3AE52C92-D215-419D-8131-9A5A13FB1ACA/49868/productionncs1.gif .

Engin þörf var á aðild Noregs að ESB á þeim tíma og ekki sjáanleg í nánustu framtíð.

Þeir hafa digra sjóði í að sækja og þjóðfélagið í þokkalegu jafnvægi.

Þetta sama verður ekki sagt um Ísland. Við þurfum á öllum þeim meðulum að halda sem til eru til að komast upp úr einni verstu kreppu sem sögur fara af.

Ísland er búið að reyna tvær leiðir, einangrun og haftabúskap, og svo óhefta frjálshyggju og nánast algjöra opnun. Hvorug hefur gengið.

Það var áhugavert að heyra að eina ráðið sem Dag Seijerstad hafði fram að færa til Íslendinga var að bíða og sjá hvort ekki fyndist olía. Mikið held ég að þjóðin verði orðin þreytt eftir 20-30 ár að bíða eftir fyrstu dropunum.

En, hvaða ráð hefur þú fram að færa?

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 00:34

4 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Svavar, markaðir kunna illa að meta óvissu. Óvissa um útkomu þjóðaratkvæðis endar ekki fyrr en á þeim degi sem niðurstöður liggja fyrir. Kannski hefði verið alveg sama á hvorn vegin Norska þjóðin kaus svo lengi sem hún bara hætti þessu hringli í ESB málinu og fór að einbeita sér að raunverulegum verkefnum.  

Við getum hætt þessu ESB hringli núna. Gefið út yfirlýsingu um að við ætlum að leysa okkar vandamál og taka ESB af dagskrá vegna mikilvægari verkefna. Sú yfirlýsing myndi strax eyða óvissu og vekja traust. 

Roastbeaf... það er rétt, Noregur er öflugt ríki. Ísland er líka mjög ríkt land, fiskur og orka sem dygði 20 sinnum stærri þjóð. Við erum núna eins rík og fyrir 10 árum, ekki nein vosbúð, við vinnum þetta upp á nokkrum árum.

Jóhann, sammála þér að Noregur hefur ekki þörf á að ganga í ESB. ESB hefur þörf fyrir Noreg.

Vandi Íslands er mikill en ESB er ekki lausnin. Við fáum ekki afslátt af skuldum við að ganga í ESB. Við getum hins vegar misst forræði yfir auðlindum okkar með inngöngu í ESB. Kannski ekki strax en hagsmunir okkar eru aðrir en ESB þjóða og við verðum rík en atkvæðalítil þjóð. ESB þarf Ísland meira en Ísland ESB.

Við eigum ekki að gefast upp, heldur læra af mistökum og gera betur næst. Íslendingar hafa aldrei verið betur undirbúnir til að greiða úr erfiðum verkefnum. Hér úir og grúir af vel menntuðu og reynslumiklu athafnafólki. Hættum að væla utan í ESB og brettum upp ermar.

Frosti Sigurjónsson, 20.5.2009 kl. 02:02

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góð er færslan eins og fleiri hjá þér, Frosti.

Jón Valur Jensson, 20.5.2009 kl. 02:03

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hverskonar vesaldómur er skollinn yfir þessa þjóð? Það fórna allir höndum og góla vegna þess að núna, allt í einu þarf fólk að reyna eitthvað sem það átti ekki von á. Og það er vitnað hérna í einhvern Norsarafjanda sem upplýsir að þjóðin okkar eigi ekki aðra kosti en þá að bíða eftir því hvort hér finnist olía. Ég er ekki að stæra mig af neinu og tel mig ekki afreksmann á neina lund, en ég er þar staddur í aldri að mér tjóaði ekki að setjast niður og góla þó ég missti atvinnu og hafði þó heiðurinn af því að bera ábyrgð á 8 manna fjölskyldu og hafði ekki próf til annars en að aka bifreið án atvinnuréttinda.

Það er ekki hungursneyð á Íslandi og það ríkir ekki blóðug borgarastyrjöld á Íslandi og það er ekki hafís, ekki eldgos eða uppskerubrestur.

Sú staða getur komið upp af ýmsum ástæðum að það standa ekki allar dyr opnar. Og sú staða getur komið upp að það bjargar enginn nema maður sjálfur og að það gengur ekki upp að spyrja: "Ætlar enginn að gera neitt í þessu?"

Og þá geta menn þurft að skrapa saman fyrir gúmmístígvélum.

Árni Gunnarsson, 20.5.2009 kl. 09:17

7 Smámynd: Haraldur Hansson

Það sem ég hnýt um eru athugasemdirnar um olíugróða Norðmanna. Þær eru í takt við íslensku umræðuna, að innganga í Evrópusambandið sé lausn í efnahagsmálum. Að hún gangi út á það að auka tekjur og hagnast á fé. 

Innganga í Evrópusambandið er hápólitískur gjörningur þar sem efnahagsmál eru bara einn angi. Það þarf ekki annað en að skoða Nýfundnaland til að sjá hvaða áhrif fjarlægt vald getur haft á samfélagið þegar til lengdar lætur.

Hinn pólitíski samruni og framsal á fullveldi er miklu þyngra á metunum en hugsanlegur fjárhagslegur ávinningur. Þar fyrir utan er engin trygging fyrir því að efnahagslegur bati fylgi inngöngu í ESB. Vandamálin hverfa klárlega ekki af sjálfu sér eins og þessi og þessi frétt bera vitni um.

Haraldur Hansson, 20.5.2009 kl. 11:48

8 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Um ESB áróður á Smugunni

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.5.2009 kl. 15:47

9 identicon

Ótrúlega er þessi umræðumræðu vettvangur langt leiddur þegar afdankaðir kommúnistar sem skrifa bara í öfgavinstri blöð í Norgi eins og Dag Seijerstad er tranað fram og tiltlaðir sem sérfræðingar í Evrópumálum.

Öfga vinstri maður eins og Dag Seijerstad (og vinir hans Hjörleifur Guttorms og Ragnar Arnalds) myndi náttúrulega fagna því ef Ísland myndi breytast í Kúbu norðursins.

Aðstæður Noregs og Íslands eru svo allt aðrar og hafa verið lengi eins og gengisþróun gjaldmiðla landanna  sýnir.

Haraldur, finnst þér að Írland, Grikkand og Finnland sem eru útnárar ESB séu að líkjast Nýfundnalandi?  Ég þekki nú aðeins til í þessum löndum og get nú ekki tekið undir þetta.

Vörður (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 15:55

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Vissulega er það rétt hjá þér Vörður að samanburður þessara þriggja landa við Nýfundnaland er að nokkru langsóttur. Nýfundnaland er hinsvegar ljótt dæmi um afleiðingar þess þegar sjálfstæð þjóð, rík af auðlindum lendir í kreppu og afsalar sjálfstæði sínu með bros á vör.

Og að nota þessa samlíkingu hans Haraldar er ekki á nokkurn hátt fáránlegra en margt það sem Evrópusinnar senda frá sér í fjölmiðlum daglega. Og má ég þá vitna til ESB dýrðaróðs forsætisráðherrans í stefnuræðunni.

Bara það eitt að sækja um aðild að ESB var stærsta skref til hagsældar sem henni gat komið í hug!!!

Sumir tapa dómgreindinni þegar þeir fara að heyra raddir.

Árni Gunnarsson, 20.5.2009 kl. 16:16

11 identicon

Ég get alveg tekið undir það með þér Árni að væntingar forsætisráðherrans til ESB eru komnar út fyrir skynsemismörk. 

Ég er líka á því að þetta mál sé að taka alltof mikla orku hjá stjórnmálamönnum það eru mörg önnur brýn mál sem þarf að takast á við.  Mín skoðun er sú að hefja bara undirbúning að umsókn og vinna það ferli, leyfa svo þjóðinni að ákveða þegar og ef samningur næst.  Það er sú lýðræðislega leið sem norrænu velferðarríkin sem við viljum núna líkjast hafa farið.

Vörður (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 16:40

12 Smámynd: Haraldur Hansson

Vörður: Fyrir það fyrsta yrði Ísland meiri "útnári" en hin ríkin, landfræðilega séð, og fámennið dregur ekki úr því. Ég er að vísa til þess hvernig "fjarlægð valdsins" getur haft neikvæð áhrif. Árni útskýrir það prýðilega.

Árni: Samanburðurinn er ekki eins langsóttur og kann að virðast. Nýfundnaland gekk inn í sambandsríkið Kanada 1949. Með þeim pólitíska samruna sem boðaður er í Lissabon samningnum (og mun halda áfram) stígur Evrópusambandið nokkuð stórt skerf í átt að sambandsríki. Innganga Íslands í sambandið, eftir lögtöku samningsins, yrði því óþægilega samanburðarhæf við tilvik Nýfundnalands, því miður.

Allt frá 1980 hefur fólki fækkað á Nýfundnalandi og efnahagnum hrakað. Arðurinn af auðlindunum rennur burt og íbúar kvarta undan skilningsleysi yfirvaldsins í Ottawa. Þeir segja að 7 þingmenn sínir megi sín lítils og hagsmunir landsins fái engan hljómgrunn hjá fjarlægu stjórnvaldi. Hræddur er ég um að svipað gæti orðið uppi á teningnum hér eftir 25-30 ár innan Evrópusambandsins.

Haraldur Hansson, 20.5.2009 kl. 17:04

13 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

sérfræðingur í Evrópumálum hjá Norsku Nei Til EU samtökunum

Hvaða skilyrði þarf maður að uppfylla til að verða sérfræðingur hjá Norsku Nei til EU samtökunum. Þarf þar sérstaka menntun til eða dugar reynsla? 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.5.2009 kl. 17:57

14 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Útlenska orðið "expert" sem á íslensku er sérfræðingur vísar ekki til prófgráðu heldur afburðaþekkingu og skilning á tilteknu og afmörkuðu sviði.

Hef hitt einstaklinga sem uppfylla þau skilyrði bæði á vinstri og hægri kannti.

Málflutningur á borð við "Ótrúlega er þessi umræðumræðu vettvangur langt leiddur þegar afdankaðir kommúnistar sem skrifa bara í öfgavinstri blöð í Norgi eins og Dag Seijerstad er tranað fram og tiltlaðir sem sérfræðingar í Evrópumálum." ber vott um lágkúru sem virðist vera eitt aðalsmerki ESB sinna

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.5.2009 kl. 18:48

15 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Þetta er nú doldið eins og að bera saman epli og gíraffa...

Norðmenn hafa digra olíusjóði til að verja krónuna sína falli, eina þjóðin sem á í vandræðum með alla peninga sína.

Íslendingar eru með krónu sem enginn vill versla með í heiminum, eru að ganga í gegnum mesta efnhagsskell á lýðveldistíma og svo framvegis...

Ekki hægt að bera saman stöðu Norðmanna á sínum tíma við stöðuna sem Ísland er í í dag.

Sigfús Þ. Sigmundsson, 20.5.2009 kl. 19:57

16 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jakobína:

Ég efast stórlega um að þetta lýsi hefðbundnum "málskilningi" Íslendinga á orðinu sérfræðingur.

Við hljótum að álykta að ef einhver félagasamtök vilja láta taka sig alvarlega þá sé hugtakið "sérfræðingur" ekki misnotað, heldur séu viðkomandi "fræðimenn" ekki aðeins sérfróðir um eitthvað málefni, heldur sérmenntaðir.

Hvað ef málsvari einhverra samtaka sjúklinga myndi koma fram í fjölmiðlum og segjast vera "sérfræðingur" í einhverjum sjúkdómi, eða einhver gæfi sig út fyrir að vera sérfræðingur í einhverjum fræðum, s.s. lögfræði, guðfræði eða stjórnmálafræði.

Evrópsk fræði (e. european studies) er fræðagrein og ekki hægt að gefa sig út fyrir að vera sérfræðingur nema að menn séu í raun fræðimenn eða sérfræðingar í þeirri grein. 

Munurinn á "expert" og "specialist" er að mínu mati einnig nokkur. 

Þannig er "expert" sérfræðingur eða einhver sem "vel er að sér á afmörkuðu sviði" á meðan "specialist" er "sérmenntaður eða sérfróður maður".

Þegar Ríkissjónvarpið notar orðið "sérfræðingur" um einhvern aðila verður maður að gera kröfu um að átt sé við enska orðið "specialist" í merkingunni sérmenntaður eða sérfróður maður á einhverju ákveðnu fræðasviði. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.5.2009 kl. 20:40

17 identicon

Ég er sammála þér Frosti um að markaðir kunna illa að meta óvissu.

Þess vegna  er besta lausnin að fara sem fyrst í aðildarviðræður og fá fram samning sem annað hvort verður samþykktur af þjóðinni eða ekki.

Óbreytt ástand skapar bara endalaust þrátefli.

Sumir  hérna eru að draga Nýfundnaland inn í umræðuna um ESB, til samanburðar um þjóð sem missir sjálfstæði sitt. Þvílíkt bull. Hvorir eru sjálfstæðari, Danir eða Nýfundnalandsbúar?

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 21:29

18 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hvaða ráð hefur þú fram að færa? spyr Jóhann F. Kristjánsson. Hvernig ætlið þið að gera þetta? spyrja kvótasinnar óðamála þegar talið berst að innköllun aflaheimilda. En á hverju eigum við þá að lifa, geturðu sagt mér það? sögðu virkjunarsinnar þegar náttúruverndarsinnar vildu stöðva Kárahnjúkavirkjun. Svona spurningar eru aldrei boðlegar og lýsa aldrei öðru en sauðheimsku þess sem spyr og ég bið ekki afsökunar. Valdalaust fólk hefur leyfi til skoðanaskipta en enga handhöfn pólitísks valds. Ef stjórnvöld hefðu ekki haft ráð á orkuöflun þegar ákveðið var að hefja framkvæmdir við Kárahnjúka þá hefði orðið að fara aðra leið. Engin neyð hefði myndast enda var engin neyð. Það er hægt að innkalla aflaheimildir og það verður gert ef og þegar það verður ákveðið. Og endurreisn hagkerfis á Íslandi er ekki óleysanlegt vandamál án aðildar að ESB. Mín skoðun er að aðild muni ekki verða okkur til happs og ég hef leyfi til að hafa þá skoðun án þess að skilgreina hvaða leiðir eigi að fara. Ég hef mína skoðun á því líka en hún mun ekki skipta máli því ég fer ekki með ákvörðunarvald á Íslandi né heldur framkvæmdavald. 

Árni Gunnarsson, 20.5.2009 kl. 21:42

19 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Guðbjörn íslenska orðið sérfræðingur er þýðing á enska orðinu specialist en einnig orðinu expert. Finnst nú svolítið skrítið ef þú ert orðinn orðalögga á Íslandi. Orðið sérfróður felur alls ekki í sér neinar tilteknar prófgráður eða löggildingu.

Það má auk þess spyrja hvort þessi formlegu Evrópufræði séu ekki svolítið eins og hagfræði nýfrjálshyggjunar, þ.e.a.s. byggi á kenningum sem ætlað er að þjóna tilteknum hagsmunum og því hæpið að kalla vísindagrein.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 21.5.2009 kl. 02:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband