Erindi til Innanríkisráðuneytis vegna kynningarátaks ESB á Íslandi

Eftirfarandi erindi var sent Innanríkisráðuneytinu 4. mars sl. Ráðuneytið hefur staðfest viðtöku og ráðherran sagt í fjölmiðlum að erindið sé komið í vinnslu. 

------------- 

Hr. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra

Sölvhólsgötu 7

150 Reykjavík

 

Erindi: Er kynningarstarf Evrópusambandsins á Íslandi lögbrot?

Evrópusambandið fjármagnar Evrópustofu sem tók til starfa 21. janúar á þessu ári og hefur það markmið að “stuðla að aukinni umræðu, þekkingu og skilningi á eðli og starfsemi ESB.” Evrópusambandið leggur Evrópustofu til 1,4 milljónir evra á tveim árum. Evrópustofa gefur út kynningarefni í bæklingum og öðru formi til dreifingar. Evrópustofa hefur staðið að fjölda kynningarfunda víða um landið. Meðal framsögumanna er sendiherra ESB, (t.d. á opnun fundi um ESB á Akureyri 29. febrúar sl.)

Ofangreindar upplýsingar má finna á vefsíðu Evrópustofu: www.evropustofa.is 

Spurt er hvort fyrirlestrar og fundir sendiherra ESB víða um land stangist á við eftirfarandi lög:

Úr 1. tl. 41. gr laga nr. 16/1971 Lög um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband: “Það er skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi. Á þeim hvílir einnig sú skylda að skipta sér ekki af innanlandsmálum þess ríkis.” 

Spurt er hvort útgáfustarf Evrópustofu, sem fjármögnuð er af erlendu ríkisvaldi, varði við eftirfarandi grein:

Úr 1. gr. laga nr. 62/1978 Lög um bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka og blaðaútgáfu erlendra sendiráða á Íslandi: “Þá er erlendum sendiráðum á Íslandi óheimilt að kosta eða styrkja blaðaútgáfu í landinu.”

Spurt er hvort Evrópustofa geti í nokkru tilliti talist hlutlaus aðili þegar kemur að kynningu á Evrópusambandinu. Má meta til fjár kynningu Evrópustofu á kostum aðildar, en það er eitt helsta baráttumáli Samfylkingar. Fellur kynningarstarf Evrópustofu ekki undir skilgreiningu eftirfarandi laga um framlög og þar með brot á eftirfarandi lögum:

Úr 6. gr laga nr. 162/2006 Lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra: “Óheimilt er [stjórnmálasamtökum] að veita viðtöku framlögum frá erlendum ríkisborgurum, fyrirtækjum eða öðrum aðilum sem skráðir eru í öðrum löndum.”

Að lokum er þeirri spurningu beint til Innanríkisráðuneytisins hvort starfsemi Evrópustofu eða sendiráðs ESB kunni að stangast á við einhver önnur lagaákvæði en hér voru talin upp.

Stjórnvöld stefna að því að ljúka aðildarsamningi við ESB og leggja hann fyrir þjóðaratkvæði. Lýðræðisleg umræða um kosti og galla aðildar er í gangi meðal kjósenda. Slík umræða þarf að geta átt sér stað á grundvelli jafnréttis og án inngripa erlendra hagsmunaaðila.

Það er ljóst að óheft inngrip fjársterkra hagsmunaaðila skekkja sjálfan jafnréttisgrundvöll hins beina lýðræðis. Ef gildandi lög í landinu girða ekki nú þegar fyrir slík inngrip þarf að bregðast tafarlaust við, vegna þess að erlent stjórnvald með ótakmörkuð fjárráð og beina hagsmuni hefur nú þegar hafið mikið og skipulagt átak til að móta afstöðu íslenskra kjósenda sér í hag.

Virðingarfyllst, 

Frosti Sigurjónsson 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábært vonandi verður þessi Evrópustofa send til síns heima.  Við höfum ekkert með svona áróður að gera. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.3.2012 kl. 12:15

2 identicon

Hvaða stofnun gaf starfsleyfi fyrir Evropustofuna? Hvað er lokatakmark hennar? Hver veitir þessarri stofu forstöðu. Gott að vita það. Verkefni fyrir Landsdóm. Lagaákvæði eru skýr í stjórnarskránni.

Jóhanna (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 13:26

3 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Frábær frammistaða hjá þér í Silfri Egils í dag.

Guðrún Sæmundsdóttir, 11.3.2012 kl. 13:35

4 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Þetta er frábært framtak. Vonandi að ráðuneytið þurfi ekki langan frest til að stöðva hið augljósa lögbrot sem ESB er að fremja. Ef þeir hefðu viljað fara löglega að, hefðu þeir geta boðið þetta fjármagn til kynningar, en það skiptist jafnt á milli hópa sem væru fylgjandi og andvígir aðild að ESB. Einhliða messa, af því tagi sem Evrópustofa stundar er klárt lögbrot.

Guðbjörn Jónsson, 11.3.2012 kl. 13:47

5 identicon

Bullukollur.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 13:55

6 identicon

Þó skömminni skárri en Bent Jensen. Lélegt Silfur í dag. Vilhjálmur og Kristrún, vá! 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 14:01

7 Smámynd: Jónas Pétur Hreinsson

Svar Umboðsmanns Alþingis við erindi mín sem einmitt varðar þetta mál er ekki enn komið inn á heimasíðu hans. Mál nr. 6847/2012 þar sem svarið er í grófum dráttum eftirfarandi að Evrópustofa sem rekin er af Athygliehf. fyrir Þýska fyrirtækið Media Consultaí Berlín og einnig kemur fram að Evrópusambandið fjármagni reksturinn. Þar sem aldrei hafi borist formleg beiðni til íslenskra stjórnvalda um reksturinn getir Umboðsmaður Alþingis ekki séð að Evrópustofa falli undir starfssvið hans. Umboðsmaður Alþingis vísar síðan til viðeigandi ráðuneyta til að leita svara.

Jónas Pétur Hreinsson, 11.3.2012 kl. 14:18

8 identicon

Sæll Frosti.

Þetta erindi þitt til Innanríkisráðuneytisins, mjög vel sett fram og gríðarlega vel rökstutt. Fyrir það ber að þakka, með von um að það skili tilætluðum árangri.

Ég segi nú bara eins og þú segir í niðurlagi bréfsins, að ef svo ólíkleg verður talið að íslensk lög séu ekki nógu afgerandi eða skýr í þessum málum, til þess að stöðva svona áróðursstarfssemi erlendra aðila til þess að hafa áhrif á skoðanamyndun fólks í landinu, þá verður bara að setja ný lög sem taka af öll tvímæli um það að svona áróðursmiðstöðvar verði ekki liðnar og bannaðar þegar í stað.

Þingmenn allra flokka, nema náttúrulega Samfylkingarinnar ættu þá að taka sig saman um það að setja slík lög, þegar í stað.

Þingmenn VG eru þar meðtaldir. Þeir verða bara að sýna Samfylkingunni í tvo heimana í þessu máli, það er ekkert verið að trufla aðildarumsóknina þó svona starfssemi verði stöðvuð með skýrari lagasetningu.

Ef Samfylkingin vildi þá slíta stjórnmálasamstarfinu vegna þessa, þá verður bara svo að vera.

Ég tel þetta lang síðasta tækifærið sem VG hefur til þess að bæta aðeins fyrir kosningaasvikin í ESB málinu og að þeir geti staðið í lappirnar og sýna fólki að þeir séu ekki bara aumir taglhnýtingar Samfylkingarinnar í þessu ESB máli !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 14:35

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek undir með Guðrúnu þú varst frábær í Silfri Egils áðan.  Var að hlusta. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.3.2012 kl. 16:12

10 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hreint afbragð Frosti,í Silfrinu.

Helga Kristjánsdóttir, 11.3.2012 kl. 17:14

11 Smámynd: Samstaða þjóðar

Samstaða þjóðar kærði starfsemi Evrópustofu til Ríkissaksóknara 17.02.2012.

Kæra: Starfsemi Evrópustofu er margfalt brot á landslögum !

Einnig hefur verið sent erindi til Innanríkisráðherra.

Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 11.3.2012 kl. 18:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband