Er krónan rót vandans?

krónurSú skoðun virðist mjög útbreidd að krónan eigi sér ekki framtíð og stjórnmálamenn eru farnir að velta fyrir sér í mikilli alvöru að innleiða hér erlendan gjaldmiðil. Slík aðgerð yrði mjög dýr og nánast óafturkræf. Er öruggt að hún væri til bóta?

En hvað ef krónan er alls ekki vandinn? Er ekki hugsanlegt að hann felist í slæmri hagstjórn, röngum ákvörðunum stjórnenda og einsleitu og þar með sveiflukenndu hagkerfi? Það finnst mér frekar líklegt.

Ef okkur á að ganga betur í framtíðinni þurfum við að læra að mistökum og ráðast að rót vandans.

Þegar vel árar í atvinnuvegum eykst eftispurn eftir krónum og gengi hennar styrkist, í niðursveiflu dregur úr eftirspurn og gengið veikist. Þetta á ekki að koma stjórnendum fyrirtækja á óvart. Nú þurfa þeir að viðurkenna ábyrgð á því að hafa skuldsett fyrirtæki sín í erlendum myntum eins og uppsveiflan myndi vara að eilífu. Stjórnendur kjósa að sjálfsögðu að kenna krónunni um, þó að í raun og veru sé sökin  hjá þeim sjálfum.

Í stað þess að játa mistök og læra af þeim leggja stjórnmálamenn og stjórnendur nú til að við tökum upp útlenda og "trausta" mynt. En hún mun því miður ekki endurspegla íslenskar aðstæður. Sá galli mun síðan leiða til gjaldþrota og atvinnuleysis þegar gengi gjaldmiðilsins verður of sterkt fyrir okkar aðstæður. Nú eru Grikkir, Írar og fleiri þjóðir einmitt í þeirri stöðu.

Íslendingar eru núna að kynnast því hvernig fer ef gjaldmiðill og hagkerfi eru ekki í takt. Stjórnvöld létu það nefnilega viðgangast allt frá árinu 2006 að krónan styrktist án nokkurs samhengis við íslenskt efnahagslíf. Ef Seðlabankinn og ríkisstjórnin hefðu haft dug til að grípa til aðgerða þegar einkennin voru orðin augljós, hefði mátt fyrirbyggja ofstyrkingu krónunnar og skuldasöfnun fyrirtækja og almennings. Bankarnir hefðu þá síður rúllað og mun færri fyrirtæki væru gjaldþrota. Stjórnvöld vilja auðvitað kenna krónunni um hvernig fór, en sökin er í raun og veru hjá þeim og engum öðrum.

Stundum heyrir maður þau rök að Ísland sé of fámennt land til að hafa eigin gjaldmiðil, seðlabanka og fjármálaeftirlit. Hvernig má það vera að land sem telur færri íbúa en meðalstór gata á Manhattan þurfi eigin gjaldmiðil?  Ástæðan er einfaldlega sú að við erum ekki á Manhattan. Við erum í allt öðru umhverfi og þurfum að geta brugðist við öðrum aðstæðum. 

Það er rétt að rifja upp að þar til við misstum fótanna í bankamálunum gekk okkur mjög vel og það var undir eigin stjórn og með eigin gjaldmiðil. Þrátt fyrir krónuna komumst við úr sárri fátækt í hóp ríkustu þjóða heims. Það hljóta að teljast nokkur meðmæli með krónunni.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er allveg 100% sammála þér í þessu, í dag eru ekki nema þrjár atvinnugreinar sem affla okkur erlends gjaldeyris það er sjávarútvegur, áliðnaður og ferðaþjónusta og allar þessar atvinnugreinar væru mun verr staddar í dag ef við hefðum ekki krónuna og þar til að hérna verður fjölbreyttara atvinnulíf þá höfum við ekki efni á því að hafa erlendann eða í raun stöðugan gjaldmiðil.

Árni Gunnar Haraldsson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 08:26

2 Smámynd: Haraldur Baldursson

Sæll Frosti.
Nákvæmlega þetta síðasta atriði virðist gleymast, þegar allt er talað og rifið niður. Það er kraftaverki líkast hversu langt við höfum þróast fram á við á undraverðum tíma. Við munum rífa okkur upp úr þessu það er enginn spurning um það, nema.... að ESB trúabrögðin grípi um of um sig. Það gat að heyra á Steingrími Sigfússyni í gær í Silfri Egils að stefnan hjá þeim væri að vísu gegn ESB, en svo þyrfti að semja um öll mál í stjórnarmyndunarviðræðum. Svipað má heyra í bílaviðskiptum, bílinn er ekki til sölu, en ef einhver býður nógu hátt verð....
Valkostum frelsi okkar til handa fækkar óðum...

Haraldur Baldursson, 23.3.2009 kl. 08:35

3 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Meðfylgjandi er grein eftir Kára Arnór Kárason hagfræðing sem birtist í Morgunblaðinu í dag:

Á AÐ KASTA KRÓNUNNI?

BANKAHRUNIÐ á Íslandi og sú fjármála- og gjaldeyriskreppa sem fylgt hefur í kjölfarið hefur sem von er vakið spurningar um framtíðarskipan gjaldeyrismála í landinu. Margir stjórnmálamenn og hagfræðingar tala eins og upptaka evru muni leysa stóran hluta af vandamálum okkar og sé eina rauhæfa lausnin á núverandi efnahagsástandi. Lítið fer fyrir efnislegum rökum í þessari umræðu og lítið er talað um þá ókosti sem upptaka evru hefur í för með sér. Þar sem framtíðarskipan gjaldeyrismála er ein mikilvægasta ákvörðun í hagstjórn næstu ára er mikilvægt að vel sé vandað til verka og kostir og gallar þeirra möguleika sem til greina koma séu vegnir og metnir.

Markmið í hagstjórn

Sagt að þeir sem stýra efnahagsmálum þjóðar vilji ná þremur meginmarkmiðum með efnahagsstjórn sinni. Í fyrsta lagi vilja þeir hafa yfir stjórn peningamála að ráða, þannig að þeir geti barist gegn efnahagssamdrætti eða verðbólgu. Í öðru lagi vilja þeir hafa stöðugt gengi þannig að fólk og fyrirtæki búi við sem minnsta óvissu og í þriðja lagi vilja þeir að flæði fjármagns og vinnuafls sé sem frjálsast þannig að efnahagsleg hagkvæmni sem leiðir af alþjóðlegri verkaskiptingu sé sem mest og að fólki og fyrirtækjum séu sem minnstar skorður settar í athöfnum sínum. Oft er talað um að ekki sé hægt að ná öllum þessum markmiðum í einu. Þannig má segja að Íslendingar hafi reynt að ná markmiðum eitt og þrjú en fórnað markmiðinu um stöðugt gengi með því að láta krónuna fljóta. Þessi stefna hefur raunar verið vinsæl meðal margra þjóða undanfarna tvo áratugi með misjöfnum árangri. Að taka upp evru væri að fórna markmiðinu um sjálfstæða peningastjórn til að reyna að ná hinum markmiðunum tveimur.

Hagkvæm myntsvæði

Mikið hefur verið skrifað um hagkvæm myntsvæði. Til að myntsvæði teljist hagkvæmt þarf það að uppfylla nokkur skilyrði, s.s. um hreyfanleika vinnuafls þannig að vinnandi hendur geti flutt frá svæðum þar sem er samdráttur til þeirra svæða þar sem er uppgangur. Frelsi í fjármagnsflutningum, sveigjanleika í verð- og launamyndun og að til sé tilfærslukerfi sem byggist á sköttum til að jafna sveiflur innan svæðisins. Bandaríki Norður-Ameríku er stærsta myntsvæði heims – og uppfyllir flest ofangreindra skilyrða, ef frá er talið að laun eru tregbreytanleg niður á við þar sem annars staðar. Öflugt tilfærslukerfi í gegnum alríkisstjórnina er til staðar. Hvað Evrópu varðar er sveigjanleiki í launum lítill, menningarlegur mismunur mikill og hreyfanleiki vinnuafls lítill. Evrópusambandið er ekki ríki heldur ríkjasamband og ekki er til staðar tilfærslukerfi sem jafnar aðstæður innan evrópska myntsvæðisins. Því hefur oft hefur verið efast um að Evrópa sé hagkvæmt myntsvæði. Evran er í raun risastór félagsleg tilraun þar sem myntsvæði nær yfir landamæri. Þar til nú hefur efnahagur heimsins verið nokkuð stöðugur síðan evrunni var hleypt af stokkunum. Nú fyrst reynir á þetta samstarf.

Kostir og gallar myntsvæða

Myntsamstarf og stór myntsvæði hafa ýmsa óumdeilda kosti. Stærri hluti viðskipta er innan myntsvæðisins og gengissveiflur hafa því minni áhrif. Viðskiptakostnaður minnkar og öflugur Seðlabanki er til staðar. Menn hafa mjög litið til þessara kosta í umræðunni um valkosti Íslendinga í gjaldeyrismálum. Ókostir eru líka til staðar, ekki síst fyrir smáríki eins og Ísland með tiltölulega einhæft atvinnulíf. Lítið fer fyrir mati á kostnaðinum við inngöngu í slíkt myntsamstarf.

Stærsti gallinn við evrópska myntsamstarfið er að einstök ríki glata möguleikanum á sjálfstæðri gjaldeyris- og peningamálastjórnun og þar með möguleikanum á að bregðast við utanaðkomandi áföllum. Á hinu sameinginlega Evrópska myntsvæði er peningamálum stýrt í samræmi við þarfir stærstu ríkjanna, einkum Þýskalands og Frakklands. Ekkert tillit er tekið til efnahagsþróunar í minni ríkjum og jafnvel ekki í stórum ríkjum eins og Spáni og Ítalíu. Það er því ljóst að peningastefnan myndi í engu taka mið af þróuninni í smáríki eins og Íslandi. Atvinnulíf á Íslandi er talsvert frábrugðið atvinnulífi stærstu landanna í Evrulandi og fylgni hagsveiflunnar hér og á evrusvæðinu er lítil.

Þrátt fyrir sameiginlegt myntsvæði kann eftir sem áður að vera talsverður munur á hagvexti milli landa svæðisins og þar með á launaþróun, verðbólgu og breytingum á eignaverði, til dæmis vegna þess að sameiginleg peningamálastjórn á misvel við ríkin. Þetta leiðir til þess innan tíðar verður ríki ósamkeppnishæft vegna hækkandi launakostnaðar. Hafi land ekki möguleika til að bregðast við slíku misvægi með gengisbreytingum verður aðlögunin að fara fram í gegnum lækkun launa með tilheyrandi félagslegum og pólitískum erfiðleikum.

Mismunandi samkeppnisstaða

Evrusamstarfinu er stýrt í gegn um svokallaðan Stöðugleika og vaxtar sáttmála (Stability and Growth Pact). Þar er er ekki minnst á launakostnað. Á síðasta áratug hefur þróunin innan Evrulands verið ólík milli ríkja, ekki síst hvað varðar framleiðni og launakostnað. Þannig var launakostnaður orðinn um 15-25% hærri í ríkjum eins og Portúgal, Spáni, Ítalíu, Grikklandi og Írlandi en hann var í Þýskalandi miðað við tölur frá árinu 2007 (sjá http://stats.oecd.org). Augljóst er að samkeppnisstaða þessara ríkja er mjög erfið en mörg þeirra reiða sig mjög á útflutning. Þar sem möguleikinn á að bæta samkeppnisaðstöðuna með gengisbreytingum – líkt og Bretland – er ekki lengur til staðar verður aðlögunin að eiga sér stað í gegnum vinnumarkaðinn, með lækkun launa. Sagan sýnir okkur að slík aðlögun gerist á löngum tíma eftir langvarandi verulegt atvinnuleysi. Hinn kosturinn er millifærslukerfi í Evrópu líkt og í Bandaríkjunum. Ef marka má yfirlýsingar núverandi kanslara Þýskalands er það ekki líklegt á næstunni. Slíkt væri risaskref í átt að ríki sem forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa þrástagast á að sé ekki markmiðið. Jan-Claude Trichet aðalbankastjóri Evrópska seðlabankans hefur raunar sagt að í ljósi reynslunnar hefði þurft að stýra myntsamstarfinu með Stöðugleikasáttmála um launaþróun. Slíkt er þó varla meira en draumórar skriffinns því illa gengur að stjórna launaþróun innan atvinnugreina og landa, hvað þá milli landa. Þetta er þó forsenda fyrir því að evran virki til lengri tíma litið.

Er hægt að yfirgefa evruna?

En geta þessi ríki þá ekki yfirgefið evruna. Ef marka má skuldatryggingarálög sem nú eru á skuldum sumra þessara ríkja virðast fjárfestar á þeirri skoðun. Það er hins vegar hægara sagt en gert ef ríki er á annað borð komið inn. Þótt það kosti blóð, svita og tár að vera inni, kann að kosta enn meira að fara út. Allar skuldir bæði viðkomandi ríkis sem og fólks og fyrirtækja eru í evrum. Upptaka sjálfstæðrar myntar myndi því framkalla gjaldeyriskreppu samdægurs með skelfilegum afleiðingum. Löndin eru því föst þar sem kvalafull aðlögun í gegnum vinnumarkaðinn með tilheyrandi félagslegum óróleika virðist eina leiðin. Verði félagslegur óróleiki of mikill kann samstarfið að springa eða að þjóðirnar verða neyddar til að taka upp millifærslukerfi til að bjarga því. Aðeins framtíðin mun leiða það í ljós.

Höfundur er hagfræðingur.

Frosti Sigurjónsson, 23.3.2009 kl. 10:26

4 identicon

 Auðvitað er krónan ekki rót vandans. Krónan er bara tákn. Krónan er bara nákvæmlega það sem við gerum við hana. Krónan endurspeglar hagkerfið en stjórnar því ekki.

 Það eru menn sem taka ákvarðanir í hagstjórn, menn sem ákveða vexti svo háa að það býr til falska eftirspurn  útlendinga eftir krónum sem leiðir til of hás gengis og í framhaldinu algers innkaupa og lána -fyllerís á "hagstæðu gengi"

Það segir sig sjálft að það endar bara með ósköpum að vextir séu svo háir að öll innlánin séu frá útlöndum en öll lánin tekin í útlöndum á vitlausu gengi.

 Ef krónan er ónýt þá er það bara vegna þess að misvitrir menn hafa eyðilagt hana með rangri hagstjórn.

 Ef við sættum okkur við að vera lítið land í íshafinu og látum af draumum um heimsyfirráð í fjármálaheiminum, þá er krónan fín.

 Mér hefur alltaf fundist fullyrðing sköpunarsinna: "Guð gerði það" vera rosalega billeg skýring á tilurð alheimsins, en ég er ekki frá því að skýring Tortólanna og stjórnvalda á hruninu: "Krónan gerði það" sé samt enn vitlausari.

Árni Árnason (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 12:18

5 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

miðað við  þessa röksemdafærslu erum við með allt of marga háskóla.  ekkert vit að mennta allt þetta fólk í greinum sem koma fisveiðum, ferðamennsku, áliðnaði og landbúnaði ekki að notum.  svo lengi sem ég man eftir mér hefur verið sífelld umræða um að gera atvinnulífið fjölbreyttara.  það skildi þó aldrei vera að sveiflukennd króna geri okkur erfitt fyrir að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf?  hvort kom fyrst hænan eða eggið.  þetta snýst ekki aðeins um krónur heldur hvers konar samfélag við viljum byggja upp hér og hvaða tækifæri við viljum gefa næstu kynslóð.  ef við ætlum aðeins að vera veiði- og álbræðslustöð norður í hafi þá skiptir gjaldmiðilinn litlu máli.

Andri Geir Arinbjarnarson, 23.3.2009 kl. 18:46

6 identicon

Það er alveg ljóst að ef við hefðum ekki íslensku krónuna núna, en hefðum tekið upp annan gjaldmiðil hvort sem það er evra eða eitthvað annað, þá væri sjávarútvegurinn stopp.

Það er sama hvaða gjaldmiðil við höfum, ef efnahagsstjórn er ekki í lagi, og hagstjórnin er eins og hér hefur verið, þá virkar hann ekki.

Þessir þættir hafa verið útí hafsauga undanfarin ár, auk þess sem eftirlit stjórnkerfisins fylgdi ekki eftir stækkun fjármálakerfisins. Auk þess misnotuðu eigendur gömlu bankanna þá herfilega.

Þetta hafði afskaplega lítið að gera með krónuna.

 Afleiðingar þessa erum við að glíma við núna, og verðum næstu árin.

Það er eins gott að horfast í augu við þetta, því töfralausnir eins og ganga í ESB og taka upp evru leysa ekkert í bráð, og eru ekki til í rauninni. Ef það á ganga þann planka að fara í ESB og taka upp evru þá er verið að tala um allt að 15 ár.

Eiríkur Tómasson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 21:05

7 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

hvernig gengur sjávarútvegur í löndum sem ekki hafa hina góðu íslensku krónu?  fiskmarkaðurinn í Tokyo sem er einna stærstur í heimi gengur bara vel þó jenið sé einna sterkasti gjaldmiðill í heimi.  nei það er ekki alltaf hægt að fela sig á bak við krónuna.  Og nú flykkjast íslensk skip til Grimsby?  Af hverju vilja þau ekki selja fiskinn á Íslandi?  Ætli krónan og höftin hafi ekki eitthvað að segja þar um.  Nú er uppgangur í Grimsby en ekki í neinu íslensku þorpi þökk sé íslenskum skipum.  Já vegir krónurnar eru óútreiknanlegir.

Andri Geir Arinbjarnarson, 23.3.2009 kl. 21:24

8 Smámynd: Arnar Sigurðsson

Frosti, það er ljóst að við þurfum aðeins að ræða málin betur. Snúðu dæminu aðeins við, af hverju króna.

Tilgangur myntar er þríþættur:

# Skráning verðmæta (hér er krónan augljóslega tilgangslítil)

# Miðill í viðskiptum (engin önnur þjóð tekur krónur í viðskiptum)

# Vistun verðmæta (verðmæti skráð í krónum hafa rýrnað um ca helming)

Að því er "hagstjórn" varðar, þá var hugmyndin (a.m.k. fyrir frjálst flæði fjármagns milli landa) að ef vel gengi styrktist gjaldmiðillinn og velsæld almennings ykist og svo öfugt, þ.e. jafnaði hagsveiflur.

Öllum ætti löngu að vera ljóst að minnsti sjálfstæði gjaldmiðill í heimi hefur ekki jafnað hagsveiflur heldur aukið þær.

Íslenska hagkerfið hefur slegið nokkur met, t.a.m. fjórfalt heimsmet, fjögur ár í röð í viðskiptahalla. Annað met sem fáir minnast á er 40% samdráttur í einkaneyslu, hrun í innflutningi og gríðarlegar launalækkanir (annara en ríkisstarfsmanna). Þessi sveigjanleiki skiptir meginmáli og er akkúrat það sem þjóðin þarf á að halda. Hvorki krónan né Evrópusambandsaðild gera neitt í þessa veru.

Frosti ! Hugsaðu aðeins málið ef hér hefði verið viðurkenndur alþjóðlegur gjaldmiðill og einhver hefði komið með þá hugmynd að skipta nú um og breyta yfir í smæstu sjálfstæðu mynt í heimi sem hvergi væri gjaldgeng. Hefðir þú hlustað á slíka hugmynd ?

Hvernig stendur á því að hagkerfi Kaliforníu sem er stærra en Frakkland þarf ekki eigin gjaldmiðil ? Nú eða Manhattan sem er stærra en Mexikó ?

Að verja þennan gjaldmiðil kostar okkur nú 17% stýrivexti ofan í 10% samdrátt hagkerfisins. Hvað varð um sveiflujöfnunina??? Ef við gefum okkur erlenda eign á um 500M í hverskyns skuldabréfum, þýðir þetta að héðan munu flæða 85 Milljarðar af gjaldeyri í fórnarkostnað til að halda við krónuna ! Athugaðu að þessir peningar eru teknir að láni á 5% vöxtum af þjóðum sem prenta alvöru peninga án nokkurs kostnaðar.

Að kenna Evru um slæmt efnahagsástand á Spáni og Írlandi er vitaskuld alger rökleysa. Vandamál í þessum löndum er offjárfesting í íbúðar og skrifstofuhúsnæði með óhóflegri skuldsetningu. Sú fjárfesting einfaldlega skilar ekki arði en hinsvegar þarf að borga vexti af lánunum. Heldur þú að vextir í spænskum pesetum eða írskum pundum væru lægri við þær aðstæður sem nú eru ?

Málflutningur krónuunnenda virðist ganga út á að krónan sé í e.k. smádýfu og eina leiðréttingin héðan í frá sé uppávið, þ.e. til styrkingar. Því miður eru allar líkur á hinu gagnstæða, að núverandi staða sé bara upphafið að endalokunum, endanlegu hruni krónunnar, þ.e. hún verði verðlaus með öllu, allar innistæður í bönkum glatist og ríkissjóður verði formlega gjaldþrota.

Arnar Sigurðsson, 23.3.2009 kl. 22:08

9 identicon

Rekstur fiskmarkaða er verslun, en ekki sjávarútvegur. Þetta er því ekki samanburðarhæft. Sjávarútvegur gengur misjafnlega í heiminum. T.d. erum við í betri málum eins og er vegna krónunnar en norskur sjávarútvegur. Það er hins vegar leyst þar með miklum ríkisstyrkjum sem hafa verið auknir verulega frá áramótum. Eins er í ESB löndum, þar eru styrkir stór hluti af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja.

Það hefur verið siglt, og sent í gámum afli af Íslandsmiðum síðan fyrir seinni heimstyrjöld. Þetta er einn af okkar mikilvægustu mörkuðum fyrir fisk.

Uppgangur er ekki mikill í Grimsby, og eru bæjaryfirvöld þar nú í viðræðum við apparatið í Brussel um styrki til að halda þar uppi atvinnu. Það er hins vegar ágætis gangur í mjög mörgum íslenskum sjávarþorpum. Þangað kom góðærið ekki á sama hátt og á höfuðborgarsvæðið, og þangað kemur kreppan ekki eins kröftug og á höfuðborgarsvæðið. Atvinnuleysið er að aukast verulega á höfuðborgarsvæðinu, en ekkert líkt því á sama hátt á landsbyggðinni.

Eiríkur Tómasson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 22:12

10 identicon

Sæll

Menn gleima ýmsu í umræðunni. Eins og að það var GRÆÐGIN og svo til engin hagstjórn sem orsakaði þetta hrun að mestu leiti, og Ríkisstjórninni hefði verið nær að fara eftir orðum Davíðs í febrúar 2006.

Svo þetta með efruna: Ef menn taka hana upp í dag mun það orsaka launaLÆKKUN um 10-25% fyrstu árin af mörgum ástæðum, eins og einföldum samanburði á verðlagi. Ekki gleyma því.

Kveðjs

Eyþór.

EYþór Guðmundur Jónsson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 22:56

11 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Eiríkur,

Þú hefur greinilega ekki fylgst með fréttum BBC í dag.  Það er mikill uppgangur í Grimsby þar sem fjöldi íslenskra fiskiskipa eru að landa.  Af hverju má ekki tala um þetta hér á landi? (kíktu á bbc.co.uk http://news.bbc.co.uk/1/hi/uk/7959788.stm)  Auðvita er þetta vandræðalegt fyrir stjórnmálamenn en það breytir ekki staðreyndum.  Gengið á kr. er allt of hátt skráð á Íslandi.  Raunverulegt gengi er yfir 200 kr evran.  Þegar lán AGS er uppurið verður gjaldeyrisskortu á Íslandi og kr. mun síga.  Launataxtar á Íslandi eru orðnir ansi lágir miðað við Portúgal og Spán og eiga eftir að lækka enn.  Íslenskur sjávarútvegur og áliðnaður getur ekki staðið undir velferðarkerfi eins og á hinum Norðurlöndunum.  Við höfum brúað þetta með lánum hingað til en nú er komið að skuldardögum.  Valið stendur á milli þess að einangrast og láta lífskjör síga til botns eða komast á spena hjá EB.  Glæsileg staða eða hitt þó heldur.

Andri Geir Arinbjarnarson, 23.3.2009 kl. 23:16

12 Smámynd: Einar Solheim

Að halda að við getum haldið í krónuna með því að bæta hagstjórn er fyrir neðan þína virðingu Frosti. Ef maður er öfgabjartsýnn, þá má gefa sér það að hægt væri að halda í krónunni með gallalausri hagstjórn. Því miður er það nú bara svo að gallalaus hagstjórn er ekki til. Krónan er og mun alltaf vera ávísun á verðbólgu og háa vexti. Það getur verið ágætt fyrir einhverja, en íslenskur almenningur á betra skilið.

Einar Solheim, 23.3.2009 kl. 23:43

13 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Arnar,

1. Skráning verðs. Við höfum fyrir löngu aðlagað okkur að sveiflum í verði. Allir gjaldmiðlar sveiflast.

2. Miðill í viðskiptum. Hún er hentugur miðill í viðskiptum innanlands en það er alger óþarfi að nota hana í viðskiptum við útlendinga. 

3. Vistun verðmæta. Þarna notum við verðtryggða krónu og það hefur dugað.

Krónan er of smá mynt til að fljóta á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði. Við þurfum að líta raunsætt á hana og nota hana í það sem hún dugar til, þ.e. sem staðbundinn gjaldmiðil á Íslandi. Það útilokar samt ekki að íslensk fyrirtæki geri samninga í erlendum myntum. 

Stærð gjaldmiðils er heldur ekki vörn gegn sveiflum. Líttu á krossgengi USD/EUR eða annara mynta. Gengið hefur sveiflast um tugi prósenta á fáum árum.

Krónan er vissulega í vanda, en hún er mjög líklega eini gjaldmiðillinn sem okkur býðst næstu árin. Að vona að hér komi önnur mynt í bráð er kannski öfgabjartsýni.

Er betra að ræða hvernig stýra megi krónunni út úr þessu rugli sem hún var komin í?

Frosti Sigurjónsson, 24.3.2009 kl. 01:42

14 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Hér kemur hugmynd til að fá evru fyrir þá sem það vilja:

1. Ísland tekur upp dollar einhliða og skiptir út kr. fyrir $

2. Ísland sækir um aðild að EB

3. Nú kemur vel á vondan!  Ekki getur Brussel  hafnað okkar umsókn en heldur geta þeir ekki samþykkt $ sem gjaldmiðil í EB landi. 

4. Evran verður tekin upp á fyrsta degi!

Comment?

Andri Geir Arinbjarnarson, 24.3.2009 kl. 08:58

15 identicon

Helsti gallinn við krónuna er óstöðuleikinn og kostnaður sem hún veldur í milliríkjaviðskiptum. Svo var henni ekki leyft að fljóta af ótta við verðbólguskot og það kostaði mikið, háa vexti, aukinn viðskiptahalla og aukinn óstöðuleika í fjármálakerfinu vegna mikillrar lántöku í erlendum myntum. Mér fannst alltaf sérkennilegt að maður sem forsætisráðherra rökstuddi kosti krónunnar til að mæta sveiflum, skuli svo sem seðlabankastjóri hafa framfylgt stefnu sem miðaði að því að halda uppi genginu.

GFJ (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband