Ekki ein niðurstaða um þjóðkirkju

Í samantekt stjórnlaganefndar um niðurstöður þjóðfundar kemur meðal annars þetta fram: 

"Efla skal ímynd Íslands, stuðla að fjölmenningu og aðskilnaði ríkis og trúfélaga."

Hugsanlega hefur þessi samantekt verið gerð í einhverjum flýti því þegar gögnin sjálf eru skoðuð þá kemur einmitt fram að skoðanir hafi verið nokkuð skiptar um hvort gera eigi breytingu á stöðu þjóðkirkjunnar.

Um ýmis önnur mál er hins vegar mikill einhugur t.d. að ráðherra skuli ekki skipa dómara í hæstarétt. Þar er áþreifanleg niðurstaða á ferð.

Hér má nálgast niðurstöður þjóðfundarins á margs konar formi. 

http://www.thjodfundur2010.is/nidurstodur/

 


mbl.is Stjórnarskrá fyrir fólkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða, ágreiningur og lokaorðið

Samstaða um sumt
Nú er áherslur all margra frambjóðenda orðnar aðgengilegar á netinu. Af lestri þeirra að dæma virðist  stefna í breiða samstöðu um verulegar úrbætur á stjórnskipan landsins. Margir frambjóðendur vilja skerpa þrígreiningu valdsins, skýra hlutverk forseta, auka áhrif kjósenda í kosningum, draga úr valdi flokka, styrkja þingið sem löggjafa, velja ráðherra á faglegum grunni, auka gagnsæi og eftirlit með stjórnvöldum, tryggja að farið verði eftir stjórnarskránni og fleiri atriði sem varða bætta stjórnarhætti. Hvað varðar ákvæði um mannréttindi virðast margir frambjóðendur hafa keimlíkar áherslur. Það er því ástæða til bjartsýni um að stjórnlagaþingið geti náð góðri niðurstöðu hvað varðar mannréttindi og bætt stjórnskipulag.
 
Ágreiningur um annað
Um sum atriði virðast skoðanir frambjóðenda vera skiptari. Menn eru ekki á einu máli um hvort fella eigi niður ákvæði um þjóðkirkju, hvort landið skuli vera eitt kjördæmi, hvort setja eigi skorður við framsali fullveldis og fleira. Þótt flestir séu fúsir til að  taka rökum og miðla málum þá gæti samt farið svo að stjórnlagaþing nái ekki samstöðu um sum þessara atriða.
 
Þjóðin hafi lokaorðið
En þá er spurning hvað skal gera? Ein leið væri sú að stjórnlagaþing geri ekki breytingar frá núverandi fyrirkomulagi nema um þær ríki góð samstaða. Önnur leið væri að leggja ágreiningsefnin undir þjóðaratkvæði um leið og stjórnarskrána sjálfa. Sem dæmi þá gætu kjósendur hakað við hvort þeir vilja hafa ákvæði um þjóðkirku í stjórnarskrá. Eflaust væri þetta örlítil flóknara í framkvæmd en kosturinn væri sá að það væri þá þjóðin sjálf sem réði úrslitum.

Aukið lýðræði - Svissneska leiðin

Það er óumdeilt að Sviss býr við meira og beinna lýðræði en flest önnur ríki og þannig hefur það verið í meira en 130 ár. Á þeim tíma hafa þeir haldið áfram að þróa lýðræðisleg vinnubrögð og útkoman er sáttir íbúar og hagkerfi sem gengur eins og klukka. Svo virðist sem Svisslendingum hafi tekist að ná fram kostum fulltrúalýðræðis og beins lýðræðis án teljandi vandkvæða. Um þetta má fræðast í bókinni Guidebook to Direct Democracy (útg. 2010) sem lýsir beinu lýðræði í Sviss og tekur all mörg dæmi um mál og hvernig þeim reiddi af. Ég mæli með þessari bók fyrir alla þá sem hafa áhuga á nútímalýðræði. Eftirfarandi eru nokkrir punktar sem mér fannst áhugaverðir.

Í Sviss einkenndist tímabilið frá 1798 til 1848 af óreiðu og uppþotum sem þó leiddi að lokum til stofnunar þjóðríkis með beinu lýðræði sem bundið var í stjórnarskrá. Beint lýðræði var ekki hugmynd stjórnvalda heldur borgarana sjálfra sem komu saman í þúsunda tali og kröfðust þess að stjórnvöld tækju fullt tillit til vilja kjósenda í öllum málum.

Vandinn við fulltrúalýðræði er að þar fá stjórnmálamenn einkarétt á fjölda valdsviða og þeir ráða því hvað löggjafinn tekur á dagskrá. Þetta er rótin að ójafnvægi milli stjórnmálamanna og kjósenda. Kjósendur kjósa en stjórnmálamenn taka allar ákvarðanir.

Beint lýðræði felur í sér að kjósendur geta tekið ákvarðanir og þeir hafa úrslitavaldið. Í Sviss starfar þingið með álíkum hætti og við þekkjum en kjósendur taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um lagasetningu ef eitt af þessu þrennu ber að:

  1) Þingið leggur til breytingu á stjórnarskrá.

  2) Fleiri en 50.000 kjósendur (1%) óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu innan 100 daga frá því ný lög eru samþykkt af þinginu.

  3) Fleiri en 100.000 (2%) kjósendur óska eftir því að leggja fram frumvarp að lögum ber þinginu að taka við málinu og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það kemur á óvart hversu lágt hlutfall kjósenda þarf til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu, aðeins 1%. Kosturinn við að hafa hlutfallið svona lágt er að þannig er fámennum hópum kjósenda gefin uppbyggileg leið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ef stjórnvöld fallast ekki á sjónarmiðin þá er málinu vísað til þjóðarinnar sem hefur lokaorðið.

Það kemur líka á óvart hversu sjaldan hefur reynt á þetta. Frá því þetta fyrirkomulag var tekið upp árið 1848 hafa verið sett 2200 lög í Sviss og í aðeins 7% tilfella verið óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu áður en þau tóku gildi.Undanfarinn áratug hafa kjósendur fylgt stjórnvöldum að málum í 75% tilfella. Þeir sem tapa málum geta þó huggað sig við að hafa fengið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Í öðrum lýðræðisríkjum er þessi farvegur ekki jafn greiður og afleiðingin er að óleyst mál leiða fremur til uppþota.

Óttinn við að treysta kjósendum til að taka skynsamlegar ákvarðanir virðist mjög útbreiddur í öðrum lýðræðisríkjum en Sviss. Sumir stjórnmálamenn virðast jafnvel efast um að venjulegt fólk hafi nægilegan skilning á framförum og hvaða fórnir þurfi að færa til að ná þeim fram. Kjósendur muni t.d. alltaf leggjast gegn skattahækkunum. Menn hafa bent á Kaliforníufylki sem víti til varnaðar, en þar hafa tilraunir stjórnvalda til að hækka skatta verið felldar í atkvæðagreiðslum.Að einhverju leiti getur þessi munur á útkomu skýrst af mismunandi aðferðum, í Sviss sem dæmi lögð mikil áhersla á að sætta sjónarmið áður en gengið er til atkvæðis.

Í Sviss hefur komið í ljós að sé kjósendum treyst þá verða þeir ábyrgari. Í þeim Kantónum þar sem fjárlög eru skilyrðislaust borin undir íbúana eru undanskot frá skatti 30% minni en í kantónum sem gera það ekki.  

Íbúar Sviss virðast vera hæstánægðir með núverandi fyrirkomulag. Þeir sjá ekki eftir þeim tíma sem fer í að setja sig inní mál og kjósa. Í venjulegu ári er kosið fjórum sinnum og flest tengjast málin fylkinu (kantónunni). Gögn eru send til kjósenda fjórum vikum fyrir kjördag. Kjósendur geta sent atkvæði sitt inn með pósti. Prófanir á rafrænni útfærslu eru hafnar.

Aðeins kjósendur geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss, en ekki stjórnvöld. Þetta er býsna veigamikið atriði því þannig er komið í veg fyrir að stjórnmálamenn freistist til að beita þjóðaratkvæði sem vopni í pólitískum átökum.

Hið nútímalega lýðræði Svisslendinga hefur skilað þeim góðum árangri og er vissulega fyrirmynd sem við ættum að skoða mjög vandlega. Þetta kerfi nýtir kosti fulltrúalýðræðis en þó þannig að kjósendur geta stöðvað ný lög og einnig haft frumkvæði að nýjum lögum. Kjósendur hafa lokaorðið ef þeir vilja.

Þarna er kerfi sem er þrautreynt og virkar. Það er mjög freistandi að innleiða svipað fyrirkomulag hér á landi.


Þróun stjórnarskrárinnar

Þróun stjórnarskrárinnar er afar forvitnileg en um hana má lesa í skýrslu sérfræðinefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar sem kom út árið 2005: "Ágrip af þróun stjórnarskrárinnar".  Skýrslan er 30 blaðsíður en hér eru nokkrir punktar úr henni:

Ísland hefur þrisvar fengið stjórnarskrá. Sú fyrsta tók gildi árið 1874 og veitti Alþingi löggjafarvald. Önnur tók gildi árið 1920 í kjölfar fullveldisins árið 1918. Sú þriðja kom með stofnun lýðveldisins árið 1944.

Allar tóku þessar stjórnarskrár mið af þeirri dönsku.  Í gegnum tíðina hafa komið fram fjöldi tillagna um breytingar á þessum stjórnarskrám en fæstar verið samþykktar. Allar tilraunir til heildarendurskoðunar á stjórnarskránni frá 1944 hafa mistekist en allmargar breytingar hafa náð í gegn.

Stjórnarskrá um sértæk málefni Íslands 1874

Í kjölfar stöðulaganna var Íslandi gefin stjórnarskrá um sérmálefni sín á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar, árið 1874. Með henni fékk Alþingi löggjafarvald í sérmálum Íslands, takmarkað af neitunarvaldi konungs (sem ráðherra fór með). Framkvæmdavaldið var hluti dönsku stjórnsýslunnar og yfir það settur Íslandsráðherra (dómsmálaráðherra Dana). Mikilvægar umbætur í dómsmálum sem komið höfðu inn í dönsku stjórnarskrána árið 1849 náðu ekki inn í þá Íslensku. Hæstiréttur Dana var æðsti dómstóll Íslands.

Árið 1903 voru gerðar nokkrar breytingar, þingmönnum fjölgað, kosningaréttur karla rýmkaður og sett inn ákvæði um ráðherra.

Árið 1915 komu meðal annars inn ákvæði um landsdóm og lagður niður réttur embættismanna til eftirlauna við brottvikningu eða flutning. Konungskjör þingmanna var afnumið, konur fengu kosningarétt og ákvæði um að enginn skyldi gjalda til annarar guðsdýrkunar en hann sjálfur aðhylltist.

Ný stjórnarskrá 1920

Ísland fékk fullveldi árið 1918 og árið 1919 lagði Jón Magnússon fram frumvarp að stjórnarskrá konungsríkisins Íslands sem innifól þær breytingar sem leiddi af fullveldi. Frumvarpið fór í gegn með minniháttar breytingum og stjórnarskráin var staðfest árið 1920. Eitt af því sem kom inn var réttur embættismanna til eftirlauna sem hafði verið felldur niður árið 1915.

Á árunum 1923 - 1942 komu fram margar tillögur að breytingum sem meðal annars lutu að fækkun ráðherra, fækkun þingmanna, þinghald annað hvert ár, landið eitt kjördæmi, þing ein málstofa, lækkun kosningaaldurs, ofl. 

Árið 1934 var kjördæmaskipting fest í stjórnarskrá, þingmönnum fjölgað, landskjör afnumið og kosningaréttur lækkaður í 21 ár. Fjárlög skyldu lögð fyrir sameinað þing.

Árið 1942 var kosningafyrirkomulagi breytt og samþykkt frávik sem gerði landsmönnum kleyft að samþykkja breytingar á stjórnarskrá vegna sambandsslita við Dani í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Stjórnarskrá lýðveldisins 1944

Í upphafi árs 1940 var skipuð nefnd til að semja frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið sem menn sáu færast nær. Nefndin lauk frumvarpinu um mitt árið en það var ekki lagt fram á Alþingi. Kannski vegna þess að Ísland var hernumið af bretum í maí 1940.

Í maí 1942 samþykkti Alþingi að kjósa fimm manna milliþinganefnd til að gera tillögur að breytingum á stjórnskipunarlögum í samræmi við vilja Alþingis um stofnun lýðveldis. Nefndinni vannst vel og nún skilaði uppkasti að nýrri stjórnarskrá í júlí sama ár. Í september 1942 var fjölgað í nefndinni um þrjá svo allir flokkar ættu fulltrúa hún skilaði áliti sínu í apríl 1943 en lagði til að gildistaka yrði miðuð við 17. júní 1944.

Nýja stjórnarskráin var að mestu óbreytt frá þeirri fyrri, nema að felld voru út ákvæði um konung og sett inn ákvæði um forseta. Enda má lesa úr áliti nefndarinnar að hún hafi gert ráð fyrir því að öllu víðtækari endurskoðun á stjórnarskránni myndi bíða betri tíma.

Árið 1945 ákvað Alþingi að skipa tólf manna stjórnarskrárnefnd til að vinna að heildurendurskoðun stjórnarskrárinnar en hún lognaðist út af. Árið 1947 var nefndin sett af stað aftur með sjö mönnum en árið 1955 hafði lítið miðað og lítið fundað þótt nefndin væri formlega til. Árið 1972 var kosin sjö manna nefnd til að vinna að heildarendurskoðun sem skilaði af sér 1983 en ekki náðist sátt um niðurstöðu.

Heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar frá 1944 hefur því aldrei verið lokið. Fjölmargar tillögur hafa komið fram um breytingar en fæstar náð í gegn. Allnokkrar breytingar hafa þó verið gerðar. Stjórnarskránni hefur verið breytt í sex skipti og alls 45 greinum verið breytt en 34 greinar eru ennþá óbreyttar.

Það verður fróðlegt að skoða öll þau frumvörp sem komið hafa fram um tillögur að endurbótum á stjórnarskránni. Meira um það síðar.

Heimild:

Ágrip af þróun stjórnarskrárinnar - sérfræðinefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar - Unnið að beiðni nefndar um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands - Desember 2005.

http://www.stjornarskra.is/media/stjr_itarefni/ST-N_(2005)_agrip_af_troun_stjskr.doc


Framboð til stjórnlagaþings

Þá er það ákveðið, ég er kominn í framboð til stjórnlagaþings.

Nái ég kjöri mun ég fyrst og fremst beita mér fyrir beinna lýðræði og skýrari hömlum og eftirliti með valdastofnunum ríkisins. Á komandi dögum mun ég skrifa nokkra pistla um þetta málefni til að kynna áherslur mínar og hugmyndir nánar.

Allar ábendingar og hugmyndir um þetta efni velkomnar. Hvað finnst þér mikilvægast að hafa í nýrri stjórnarskrá?

Skoða Facebook síðu framboðsins. 


Hugmyndir skapa störf

Hugmyndir skapa störf

Erindi sem ég flutti á fundi Félags Atvinnurekenda í Iðnó 6. október 2010

 

Nýsköpun í atvinnurekstri hefur verið áhugamál hjá mér í meira en 30 ár. Á þessum tíma hafa verið tímabil þar sem nýsköpun hefur verið mikil, en ég þori að fullyrða að gróska á þessu sviði hefur aldrei verið meiri en einmitt núna.

 

Einmitt núna, þegar landið er statt á botni djúprar efnahagslægðar vekur þessi mikla gróska í nýsköpun von um betri tíð sé framundan. Kannski er mögulegt að á komandi misserum muni efnahagur landsins rétta úr kútnum, ný fyrirtæki blómstra og atvinnuleysið hverfa.

 

Erlendar rannsóknir hafa ítrekað sýnt að efnahagskreppur hafa miklu minni áhrif á vöxt ungra og smárra fyrirtækja en stórra. Í kreppu virðast ung fyrirtæki oft halda áfram vexti en stór fyrirtæki eru líkleg til að segja upp fólki í verulegum mæli. Þetta virðist líka eiga við hér á Íslandi.

 

176 nýsköpunarfyrirtæki og enn bætist við

Dr. Eyþór Jónsson framkvæmdastjóri hjá Klaki, nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins, tók nýlega saman lista yfir 140 íslensk sprotafyrirtæki. Listinn er gerður að umfjöllunarefni í nýjasta hefti Frjálsrar Verslunar. Í gær fékk ég góðfúslegt leyfi Eyþórs til að birta sprotalistann á netinu (slóðin erhttp://url.is/43w ) þannig að aðrir gætu bætt við hann. Á innan við sólarhring hafa bæst við nöfn 36 sprotafyrirtækja og vonandi að fleiri bætist við á komandi dögum og mánuðum.

 

Á listanum má finna orkusprota eins og Carbon Recycling sem undirbýr framleiðslu á eldsneyti úr raforku og koltvísýringi frá jarðvarmavirkjun. Þarna eru sprotar í hátæknilausnum fyrir heilbrigðisgeirann, útgerð, ferðamennsku ofl. Fyrirtækin á listanum eru mörg og fjölbreytnin mikil. Þarna leynast líklega einhver af framtíðar stórfyrirtækjum Íslands.

 

Það kemur vissulega á óvart að nýsköpun blómstri þegar efnahagur landsins er í lamasessi, hvernig getur staðið á þessu?

 

Vandamál geta verið tækifæri

Ef til vill er núna meira framboð á vandamálum en áður og sumir frumkvöðlar hafa lag á því að koma auga á tækifæri í vandamálum. Tökum tvö þekkt dæmi:

  • Ráðstöfunartekjur almennings snarminnkuðu, skuldir hækkuðu og ráðdeild varð fólki enn mikilvægari en áður. Skömmu síðar var Meniga stofnað til að gefa fólki betri yfirsýn yfir rekstur heimilisins.
  • Gufuaflsvirkjanir losa mikinn koltvísýring út í andrúmsloftið og það er vandamál. Carbon recycling var stofnað til að nýta koltvísýringinn, binda hann vetni og framleiða þannig orkugjafa sem má nota til íblöndunar í bensín.

Stórkostlegur mannauður

Samkvæmt gögnum frá Vinnumálastofnun eru um 12.000 manns að leita sér að vinnu. Langflestir þeirra höfðu vinnu fyrir hrun. Þetta er að uppistöðu fólk með dýrmæta starfsreynslu. Vinnufúst og fjölhæft fólk sem er tilbúið að bretta upp ermar. Frumkvöðlar hafa sjaldan átt auðveldara með að finna gott starfsfólk.

 

Lítið framboð á hálaunastörfum

Fólk með reynslu og góða menntun, sem áður gat valið úr vel launuðum störfum, á nú erfiðara með að finna vel launuð störf við hæfi. Hálaunastörf, sem héldu mörgum frá því að stofna eigið fyrirtæki, eru miklu færri núna.

 

Auðlindir landsins

Ísland á mikið af auðlindum sem eru annars af skornum skammti í heiminum: Orka, landsvæði og auðug fiskimið. Mikið af nýsköpunarfyrirtækjunum keppa einmitt að betri nýtingu og markaðssetningu á þessum auðlindum.

 

Ísland í alfaraleið

Internetið og ljósleiðaravæðing undafarinna ára hefur gert Íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum kleyft að bjóða þjónustu milliliðalaust til neytenda um allan heim.

Ísland sem var áður á hjara veraldar er núna í miðju alnetsins. Allt bendir til að Ísland sé líka að færast nær mörkuðum Asíu með opnun siglingaleiðarinnar um norðuríshafið.  Asíuríkjum er spáð miklum hagvexti á komandi árum og þarna er mikil uppspretta tækifæra.

 

Umhverfi nýsköpunar á Íslandi

Aðstæður til nýsköpunar eru nú betri en oft áður eins og ég mun fara nánar í. Við þurfum hins vegar að gæta þess að þær versni ekki frá því sem er og það má vissulega bæta þær enn frekar. Samkeppnishæfni Íslands og hagvöxtur í framtíðinni munu að verulegu leyti ráðast af því hversu vel við búum að frumkvöðlum og nýsköpun í landinu.

 

Einfalt regluverk og lítil skriffinnska

Of einfalt regluverk og of mikill hraði átti líklega ekki erindi í starfsemi útrásarbankana og því er viss hætta á að pendúllinn sveiflist núna í hina áttina. Allt verði, til öryggis, kæft í reglum og skriffinnsku. Líka í nýsköpun þar sem ekki er nein þörf á skrifræði. Besta leiðin til að kæfa nýsköpun er einmitt skrifræði.

 

Ég hef fengið að kynnast stofnun og rekstri sprotafyrirtækja í Frakklandi af eigin raun. Þar þótti afar gott ef tókst að stofna nýtt hlutafélag á þrem mánuðum, sem tekur þrjá daga hér. Í Frakklandi er mikilvægast að ráða bókara og lögfræðing áður en nokkuð annað var gert. Vissara að hugsa sig mjög vel um áður en bætt er við starfsmönnum því lögbundinn uppsagnarfrestur er talin í árum en ekki mánuðum. Bankareikningur verður ekki stofnaður nema framvísað sé símareikningi en símreikningur fæst ekki nema bankareikningur sé til. Ótrúlegur tími og orka hverfur þannig í verkefni sem skila engum raunverulegum virðisauka þótt hugsanlega mælist allt stússið sem aukinn hagvöxtur. Víti til að varast.

 

Nýsköpunarmiðstöðvar spretta upp

Líklega hefur aldrei verið meira framboð á ráðgjöf og aðstöðu fyrir frumkvöðla. Nýsköpunarmiðstöðvar hafa sprottið upp út um allt land og vinna mikilvægt starf. Þar má nefna Klak, Innovit , Nýsköpunarmiðstöð Íslands - Impra, V6 Sprotahús, Hugmyndaráðuneytið, Hugmyndahús Háskólanna, Frumkvöðlasetrið Ásbrú og fleiri.

 

Fjármagn og styrkir í boði

Undanfarin misseri hafa raunvextir á innlánum banka verið nokkuð háir og líklegt að það hafi dregið úr framboði á fjármagni til atvinnurekstrar og nýsköpunar. Ólíklegt er að þetta ástand geti varað mikið lengur.

 

Opinberir sjóðir eins og Rannís, Nýsköpunarsjóð og Frumtak hafa þó haldið dampi og gert eins mikið og svigrúm þeirra leyfir til að styrkja og fjárfesta í efnilegum fyrirtækjum.

 

Viðskiptaenglar, efnaðir einstaklingar sem fjárfesta í sprotum, eru nú miklu færri en fyrir hrun. Viðskiptaenglar gegna lykilhlutverki í eflingu nýsköpunar því þeir fylgja jafnan fjárfestingum sínum vel eftir og miðla þeim af reynslu sinni og viðskiptasamböndum.

 

Í Finnlandi, Noregi, Skotlandi og víðar hafa opinberir aðilar náð góðum árangri í að efla nýsköpun með því að fjárfesta samhliða viðskiptaenglum. Þeir líta svo á að ef viðskiptaengill er tilbúinn til að hætta sínum eigin peningum í hugmynd frumkvöðuls er ríkinu óhætt að leggja  svipaða upphæð á móti. Þetta fyrirkomulag “krónu á móti krónu” þarf einnig að taka upp á Íslandi.

 

Nýlegar ívilnanir fyrir nýsköpunarfyrirtæki eru hænuskref

Þróunarkostnaður fæst nú endurgreiddur að hluta en hámarkast við upphæð sem jafngildir einu stöðugildi.  Ágætt skref sem skiptir máli í smáum fyrirtækjum en hvetur ekki stóru fyrirtækin til að leggja í neitt verulega meiri þróun en þau hefðu annars gert.

 

Hvati til hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtækjum takmarkast við kr 300 þúsund á einstakling. Sproti þarf því að finna 10-15 hluthafa til að fjármagna eitt stöðugildi sem gæti orðið erfitt.  Miklu betra hefði verið að leyfa einstaklingum að fjárfesta í sérstökum sprotasjóðum sem síðan myndu velja vænleg fyrirtæki til að fjárfesta í.

 

Góð samvinna

Ísland er lítið og frumkvöðlar eiga auðvelt með að ná sambandi við lykilfólk í atvinnulífinu. Í stærri löndum er yfirleitt miklu erfiðara og tímafrekara að ná tengslum við rétta fólkið.

Almennt eru menn boðnir og búnir til að hjálpa frumkvöðlum, gefa ráð, miðla af reynslu og nýta viðskiptasambönd út úr landinu sem fyrir eru - allt endurgjaldslaust. Íslendingar hjálpast að.  Það er óhætt að segja að það sé virkilega góður samstarfsandi í sprotaheiminum, enginn skortur á hugmyndum og menn ófeimnir hræddir við að leita ráða hvor hjá öðrum.

 

Hvað má betur fara?

Umhverfi nýsköpunar á Íslandi er gott en það er að  sjálfsögðu hægt að gera það enn betra.  

 

Mikilvægt er að styðja enn betur við frumkvöðla sem eru að taka fyrstu skrefin. Yfirleitt þurfa þeir að vinna kauplausir mánuðum saman áður en hugmyndin er komin á það stig að fjárfestar telji sér óhætt að koma að borðinu. Margir góðir sprotar komast þannig aldrei upp úr jörðinni. Það þarf að fjölga stuðningsleiðum fyrir þá sem eru að taka fyrstu skrefin.

 

Við þurfum að koma á “krónu á móti krónu” sjóðum til að draga viðskiptaengla að borðinu eins og gert er í nágrannalöndum okkar með góðum árangri.

 

Gott væri ef ríkisstjórnin myndi gefa þjóðinni hlé frá erfiðum deilumálum sem eru ekki aðkallandi en munu fyrirsjáanlega leiða til vaxandi átaka í þjóðfélaginu og draga þannig tíma og orku fólks frá uppbyggingu atvinnulífsins.

 

Ríkisstjórnin þarf jafnframt að gæta þess að kasta ekki meiri sandi í hjól atvinnulífsins en komið er með skattahækkunum, háum vöxtum eða með því að draga lappirnar þegar erlendir aðilar vilja koma að fjárfestingum.

 

Að lokum tvær ábendingar til að draga fyrr úr atvinnuleysi.

 

Vinnumálastofnun býður fyrirtækjum að ráða fólk sem á rétt til atvinnuleysisbóta þannig að fyrirtækið fær atvinnuleysisbæturnar greiddar í 6 mánuði, sem oft má framlengja í aðra 6 mánuði.  Í dag eru um 500 manns sem nýta þetta fyrirkomulag sem er allt of fáir. Af hverju eru ekki 5.000 manns að vinna á þessum kjörum út í fyrirtækjum? Vita atvinnurekendur ekki af þessu?

 

Vinnumálastofnun er núna með 12.000 manns á atvinnuleysiskrá. Þetta er mikill mannauður sem hefur fjölbreytta menntun, reynslu og hæfni en það er ekki hægt að leita eftir þeim eiginleikum sem skipta máli.  Ég þurfti að grufla töluvert í skýrslum til að komast að því að 82 kerfis- og tölvunarfræðingar eru að leita að vinnu. Á sama tíma eru allir að kvarta yfir því að það vanti slíkt fólk! Hér er gullið tækifæri til að búa til leitarvél sem atvinnurekendur gætu notað til að finna hæft fólk á augabragði.

 

Þakka ykkur fyrir.


Hvenær fáum við skoða reglur ESB klúbbsins á íslensku?

picture_39.png
Nú er rúmt ár síðan Össur afhenti stækkunarstjóra ESB umsókn (Samfylkingarinnar) í Evrópusambandið. Hvað sem samningum og undanþágum líður þá snýst þetta mál fyrst og fremst um aðild Íslands að ESB.  Ef við eigum að móta okkur upplýsta afstöðu til aðildar þá þurfum við að skilja reglurnar eins og þær eru - en hvenær fáum við að sjá þær?

Segja má að Lissabon sáttmálinn innihaldi leikreglur ESB klúbbsins. Hann er nýjasti sáttmáli Evrópusambandsins og byggir á stjórnarskrá þess sem tók reyndar aldrei gildi enda var henni hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi.

Þótt Lissabon sáttmálinn sé nánast samhljóða hinni óvinsælu stjórnarskrá ESB þá var ákveðið að bera hann ekki undir þjóðaratkvæði í aðildarríkjunum. Ekki er víst að íbúar aðildarríkjanna hefðu samþykkt sáttmálann og framkvæmdastjórn ESB taldi greinilega vissara að láta ekki á það reyna.

Þjóðþing aðildarríkjanna samþykktu flest sáttmálann nema í Írlandi en írsk lög kröfðust þjóðaratkvæðis. Svo fór að írska þjóðin hafnaði sáttmálanum.  ESB breytti þá sáttmálanum lítillega, efldi kynningarstarfið verulega og ári síðar var kosið aftur. Þá sögðu Írar já og Lissabon sáttmálinn varð staðreynd.

Þess má reyndar geta að þjóðþing aðildarlandana fengu aldrei að sjá Lissabon sáttmálann í heild sinni áður en þau samþykktu hann. Þess í stað var sáttmálinn lagður fram sem 3000 breytingatillögur við óteljandi eldri lagagreinar. Því verður vart trúað að margir hafi lesið eða skilið efnið og kannski var það einmitt ætlun forystumanna ESB að sem fæstir gætu kynnt sér það.

Nú er hægt er að finna Lissabon sáttmálann á netinu á erlendum málum en Utanríkisráðuneytið hefur af einhverjum ástæðum ekki séð ástæðu til að þýða þessan mikilvæga sáttmála sambandsins á Íslensku eða kynna hann þjóðinni. Öll töf á þýðingu sáttmálans á Íslensku styttir að sjálfsögðu þann tíma sem Íslendingar hafa til að kynna sér og skiptast á skoðunum um grundvallarleikreglur ESB klúbbsins. Er það kannski meiningin?

Utanríkisráðuneytið hefur ekki enn getað upplýst hvenær Lissabon sáttmálinn verður aðgengilegur á Íslensku.

Í lokin er rétt að velta því fyrir sér hversu margir af þeim þingmönnum sem studdu aðildarumsókn Íslands í ESB höfðu áður lesið og skilið Lissabon sáttmálann?

Lissabon sáttmálinn: Stórminnkuð áhrif smáríkja

picture_38.png
Því hefur verið haldið á lofti sem kosti að smáríki hafi hlutfallslega meiri áhrif innan ESB en ef eingöngu væri miðað við íbúafjölda. Þegar Lissabon sáttmálinn, hin nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins, tók gildi 1. desember árið 2009 varð ljóst að áhrif fámennari aðildarríkja Evrópusambandsins myndu skerðast verulega.

Neitunarvald fellt niður á fjölmörgum sviðum
Neitunarvald er eitt sterkasta tækið sem smáþjóð getur beitt til að fá sitt fram eða standa gegn ákvörðunum sem varða hagsmuni þess. Tilvist neitunarvalds knýr aðila til að komast að samkomulagi. Með gildistöku Lissabon sáttmálans féll neitunarvald niður á 68 sviðum. Í stað þess að allir þurfi að vera samþykkir mun meirihluti duga til ákvörðunar og þar ræðst atkvæðamagn af fjölda íbúa. Þegar neitunarvald er fellt niður bitnar það fyrst og fremst á áhrifum fámennra aðildarríkja ESB.

Atkvæðamagn í ráðherraráðinu skal framvegis miðast við mannfjölda
Með Lissabon breytist atkvæðavægi við ákvarðanatöku stórveldum í hag. Sem dæmi: áður  hafði Írland 7 atkvæði í ráðherraráðinu (2,0%) en Þýskaland 29 atkvæði (8,4%). Frá og með 1. nóvember 2014 verður atkvæðamagn hins vegar miðað við mannfjölda og þá fær Írland 0,89% atkvæða en Þýskaland 16,41% atkvæða - Þetta þýðir að áhrif Þýskalands tvöfaldast en áhrif Írlands minnka um 60%.  Malta hafði áður 0,9% atkvæða en missir rúm 90% þeirra og fer í 0.08%

Hvernig gátu smáríkin fallist á Lissabon sáttmálann?
Niðurfelling neitunarvalds og breytt atkvæðamagn felur í sér stórkostlega rýrnun á áhrifum smáríkja innan ESB. Það er með algerum ólíkindum að smáríkin skyldu samþykkja sáttmála sem skerti áhrif þeirra svona gríðarlega. Hvað voru þau eiginlega að hugsa? Hvers vegna fór Lissabon sáttmálinn ekki í þjóðaratkvæði neins staðar nema á Írlandi fyrst hann breytti svona miklu?

Frekari skerðing í kortunum
Því miður er full ástæða til að óttast að áhrif smáríkja skerðist enn frekar í framtíðinni án þess að til þjóðaratkvæðagreiðslna komi. Ennþá hafa smáríkin 1 fulltrúa í framkvæmdastjórn ESB, eins og stóru ríkin.  Það stóð reyndar til að fækka fulltrúum úr 27 í 20 með Lissabon sáttmálanum en Írar felldu hann í þjóðaratkvæði og þá var hætt við að fækka fulltrúum. Hins vegar varð sú breyting að í stað þess að hvert land geti tilnefnt einn fulltrúa í framkvæmdastjórnina munu þau aðeins gert “tillögu” að fulltrúa en framkvæmdastjórnin sjálf mun eiga lokaorðið um hverjir veljast í hana. Þannig er nú það.

Ísland yrði áhrifaminnsta aðildarríkið
Hvað sem minnkandi vægi smáríkja líður þá yrði Ísland lang-áhrifaminnsta aðildarríkið. Íbúafjöldi gefur Íslandi aðeins 0.062% atkvæðamagns í ESB.  Íbúar ESB eru líka 1.607 sinnum fleiri en Íslendingar og einnig má nefna að meðalríki í ESB er 60 sinnum fjölmennari en Ísland. Ísland yrði sannkallað dverg-aðildarríki og með áhrif í samræmi við það.

Evrópusambandið hefur verið í sífelldri þróun frá upphafi og líklegast er að hún haldi áfram. Eitt af meginmarkmiðum ESB er sífellt nánari samruni aðildarríkja. Lissabon sáttmálinn fól í sér nánari samruna á fleiri sviðum en líka stórfellda rýrnun á áhrifum smærri aðildarríkja . Það er vissara að reikna með að næstu sáttmálar gangi lengra í sömu átt.

Niðurstaðan er sú að sem aðili að ESB myndi Ísland ekki hafa nein teljandi áhrif og erfitt að ímynda sér að afstaða Íslands myndi skipta úrslitum í nokkru máli.  Önnur aðildarríki munu því varla sjá sér mikinn ávinning í því að tryggja sér stuðning okkar og við getum því ekki vænst sérstaks stuðnings frá þeim. Hagsmunir hinna stóru munu ráða för.

Ef við göngum í ESB verðum við að trúa því að okkar hagsmunir muni alltaf fara saman við hagsmuni hinna stóru því innan ESB munum við ekki hafa áhrif, hvorki til að stöðva ákvarðanir sem eru okkur í óhag né koma í gegn ákvörðunum sem verja hagsmuni Íslands sérstaklega. Er það óhætt?

Verður lýðræði í pakkanum?

José Barroso

Þrátt fyrir að ESB sé samband lýðræðisríkja má sambandið þola vaxandi gagnrýni fyrir að vera sjálft ekki nógu lýðræðislegt. Talað er um að sambandið þjáist af verulegum lýðræðishalla og almennir kjósendur hafi sáralítil áhrif á stefnu þess.

Kjarni lýðræðisins er sá að kjósendur hafi síðasta orðið um stjórnun og lög ríkisins. Kjósendur taki þátt í kosningum, kjósi nýjan meirihluta sem myndar nýja ríkisstjórn og semur ný lög. Þennan kjarna lýðræðisins virðist vanta í stjórnun og lagasetningu Evrópusambandsins.

Þótt Evrópubúar kjósi til Evrópuþings á fimm ára fresti, þá er það ekki þingið sem setur lögin. Það er framkvæmdastjórn ESB sem hefur frumkvæðisrétt að lagasetningu og semur öll lög sambandsins en sú framkvæmdastjórn er ekki lýðræðislega kjörin. Evrópuþingið sem er kosið í almennum kosningum hefur ekki vald til að semja lög þótt það geti gert athugasemdir við löggjöf framkvæmdastjórnarinnar eða neitað að samþykkja þau.

Framkvæmdastjórnin hefur í raun öll tögl og haldir í rekstri og mótun Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórnin er skipuð 27 fulltrúum og tilnefnir hvert aðildarríki einn þeirra. Fulltrúarnir skipta með sér málaflokkum líkt og ráðherrar í ríkisstjórn. Forseti framkvæmdastjórnar er síðan valinn af leiðtogaráðinu en í því sitja forsætisráðherrar aðildarríkjanna. Forseti framkvæmdastjórnarinnar er í raun leiðtogi Evrópusambandsins. Núverandi forseti framkvæmdastjórnarinnar er José Barroso en hann tók fyrst við því hlutverki árið 2004.

Það er ljóst að almennir kjósendur hafa ekki neitt um það að segja hverjir eru valdir í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Kjósendur geta því ekki veitt framkvæmdastjórninni það aðhald sem þykir sjálfsagt í lýðræðisríkjum. Kannski er þessi staðreynd ástæðan fyrir síminnkandi þátttöku almennings í kosningum til Evrópuþingsins. Í fyrstu kosningunum árið 1979 tóku 63% þátt en árið 2009 var þátttaka komin niður í 43%.

Þar sem lýðræðislegt aðhald skortir er talsverð hætta á að framkvæmdavaldið fari sínar eigin leiðir og missi jarðsamband við kjósendur. Þetta gæti verið að gerast í Evrópusambandinu. Skoðanakannanir benda til þess að almenningur í aðildarríkjum vilji ekki færa frekari völd til Brussel. Á sama tíma vinnur ESB að sífellt meiri samruna og miðstýringu.  Gjá milli fólksins og leiðtoganna?

Tilburðir ESB til að innleiða nýja stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið geta vart talist lýðræðislegir. Stjórnarskránni var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi og Hollandi árið 2005 og var þá dregin til baka. Tveimur árum síðar var Lissabon sáttmálinn tilbúinn en hann fól í sér 95% af efni stjórnarskrárinnar. Í þetta sinn ákvað ESB að hafa ekki þjóðaratkvæðagreiðslur og þess í stað myndu þjóðþingin fjalla um hann. Á sama tíma sýndu skoðanakannanir að kjósendur vildu fá sáttmálann í þjóðaratkvæði.

Aðeins á Írlandi var Lissabon sáttmálinn settur í þjóðaratkvæði og var honum hafnað.  ESB lét það ekki á sig fá og boðaði til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu rúmu ári síðar um lítið breyttan sáttmála. Þá var Írska þjóðin í áfalli eftir efnahagshrun og var ekki í aðstöðu til að standa gegn vilja ESB.

Nú hefur Ísland sótt um aðild að ESB og margir bíða spenntir eftir því að kíkja í pakkann og sjá hvaða undanþágur Ísland fái frá reglum sambandsins. Það má vel vera að Ísland fái allar þær undanþágur sem talsmenn aðildar hafa gert sér vonir um.

En eitt mun pakkinn ekki innihalda og það er lýðræðislegt Evrópusamband.


Gerum kavíar úr laxahrognum

Laxalúxus

Það er mikil sóun að henda hrognum úr nýveiddum laxi en það gera samt flestir sem ég þekki. Það er eins og menn átti sig ekki á því hvaða verðmæti þeir hafa í höndunum. Kavíar úr villtum laxi er alger lúxus og selst á 7.500 kr. kílóið. 

Þegar líður á seinni hluta veiðitímabilsins eru hrognin farin að stækka og þá er um að gera að nýta þau í kavíar.

Það er einfalt og fljótlegt að gera kavíarinn hér er aðferðin:

Þú þarft:

 

  • 1 Stórt sigti
  • 2 Stórar skálar úr gleri eða stáli
  • 1.5 lítrar volgu vatni (38 c)
  • 200 gr salt 

 

Skrefin: 

Fyrst er að laga saltpækilinn: Blanda saman 2 lítrum af volgu vatni og 200 gr af salti í stóra glerskál.

Síðan er að hreinsa hrognasekkina að utan undir kalda krananum.

Hrognasekkir í pækli

Svo er að setja hrognsekkina í saltpækilinn og láta þá liggja í honum í c.a. 30 mínútur. Þetta á að losa um sekki og himnur. Gott að opna sekkina varlega svo pækillinn komist að hrognum og himnum.

Eftir að hálftíminn er liðinn er pækillinn sigtaður frá hrognunum og geymdur. 

Nú þarf að aðskilja hrognin frá himnunum. Þau eru nudduð varlega undir volgu rennandi kranavatni yfir sigti. Volga vatnið og nuddið losar hrognin úr himnunum. Mikilvægt að fjarlægja allar himnur. Ágætt að dýfa sigtinu í skál með volgu svo himnur fljóti upp, en hrogn eru þyngri en vatn og sökkva.

Þegar öll hrognin eru orðin laus og hrein eru þau sett í saltpækilinn og látin standa þar í einhverja stund til að saltast: 10 mínútur ættu að duga.

Að lokum eru hrognin síuð frá pæklinum og sett í krukkur. Þau eru nú tilbúin til neyslu en ættu líka að geymast ágætlega í ísskáp - trúlega í nokkrar vikur.  

Laxakavíar er frábær með blinis, sýrðum rjóma og smátt söxuðum lauk og einum dropa af sítrónusafa. Líka fínn á ristað franskbrauð með smjöri eða kex með kotasælu.

Ekki sakar að skola þessu niður með freyðivíni eða vodka.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband