Gleymd skýrsla Stiglitz um peningastefnu fyrir Ísland

225px-Joseph_Stiglitz
Í nóvember árið 2001 afhenti hagfræðingurinn Joseph Stiglitz Seðlabanka Íslands skýrslu um peningastefnu fyrir smá og opin hagkerfi með sérstökum ráðleggingum fyrir Ísland. Nú blasir við að ef ráðgjöf Stiglitz hefði verið tekin alvarlega hefði mátt afstýra hruninu hér á landi, eða í það minnsta draga mjög úr því tjóni sem varð. Margt í skýrslunni á jafn vel við í dag og árið 2001.
 
Stiglitz, sem var um skeið aðalhagfræðingur Alþjóðabankans er nú prófessor hjá Columbia háskóla. Hann er í hópi virtustu hagfræðinga heims og hlaut árið 2001 Nóbelsverðlaun í hagfræði.
 
Í skýrslu sinni fyrir Seðlabankann fjallar Stiglitz almennt um hættur í smáum, opnum hagkerfum og hvernig megi draga úr þeim. Hann telur að stjórnvöldum beri skylda til að grípa inní til að auka stöðugleika, draga úr líkum á efnahagsáföllum og lágmarka kostnað sem af áföllum hlýst.
 
Árið 2001 hafði viðskiptahalli farið vaxandi og Stiglitz taldi ástæðu til að hafa áhyggjur af þeirri þróun. Erlent lánsfé streymdi óheft inn í landið í kjölfar aukins frjálsræðis á fjármálamörkuðum, en einnig vegna væntinga um stöðugt gengi og að ríkið myndi standa við bakið á bankakerfinu sem var að mestu í ríkiseigu. Samkeppni milli bankana sem nýlega höfðu fengið aukið frelsi, birtist í kapphlaupi um markaðshlutdeild með tilheyrandi útlánavexti.  Stiglitz hvatti Seðlabanka og stjórnvöld til að grípa þegar til aðgerða til hemja vöxt bankana og draga úr áhættu landsins af bankahruni.
 
Á þessum tíma var Már Guðmundsson aðalhagfræðingur Seðlabankans. Hann tók saman úrdrátt úr skýrslunni svo honum var kunnugt um innihald hennar. Ekki varð hann þó  þeirrar gæfu aðnjótandi að afstýra því hruni sem Stiglitz varaði við. Nú virðist skýrslan gleymd, því í nýju sérriti Seðlabankans “Peningastefnan eftir höft” sem út kom í desember er hvergi minnst á hana þótt vitnað sé í meira en 100 heimildir aðrar.
 
En hverju var Stiglitz að vara við? Tökum þrjú dæmi úr skýrslunni:
 
Screen shot 2010-12-28 at 15.13.22
1. Viðskiptahalli dregur úr stöðugleika
Varað var við því að vaxandi viðskiptahalli (innflutningur meiri en útflutningur) gæti dregið úr stöðugleika hagkerfisins. Viðskiptahalli kallar jafnan á aukningu á erlendum skuldum. Ef stór hluti skulda er í erlendri mynt og til skamms tíma dregur það úr stöðugleika. Kröfuhafar geta orðið órólegir af minnsta tilefni og rokið með fjármagn úr landi. Slíkt áhlaup væri áfall fyrir gjaldmiðilinn.
Viðskiptahallinn sem Stiglitz varaði við var smáræði miðað við þann gríðarlega viðskiptahalla sem hér varð árin fram að hruni.
Þar sem hækkun stýrivaxta getur leitt til gengishækkunar og enn meiri innflutnings benti Stiglitz á aðrar leiðir. Þær voru ekki farnar. Seðlabankinn endaði með því hækka vexti, sem leiddi einmitt til styrkingar gengisins, aukins innflutnings og enn meiri viðskiptahalla.
 
2. Bankarnir vaxa allt of hratt
Útlánavöxtur bankana hafði um þetta leiti verið um og yfir 25% í þrjú ár. Þekkt er að hraður vöxtur leiðir oft til hrakandi gæða útlánasafna. Stiglitz efaðist um að vaxtahækkanir dygðu til að slá á eftirspurn eftir lánum. Vaxtahækkanir myndu hins vegar draga mátt úr atvinnulífinu, hækka gengi og auka kaupmátt og neyslu. Grípa þyrfti til fleiri tækja. Til dæmis mætti setja reglur um að þeir bankar sem stækkuðu of hratt, greiddu hærri prósentu í tryggingasjóð innistæðueigenda,  gera hærri kröfu um eiginfjárhlutfall þeirra og auka bindiskyldu. Ekkert af þessu var gert og vöxtur bankanna varð skefjalaus fram að hruni.
 
3. Lán í erlendum gjaldmiðlum
Stiglitz taldi ástæðu til að vara við því að bankar byðu erlend lán til aðila sem ekki gætu sýnt fram á erlendar tekjur. Bönkum hætti til að vanmeta hve berskjaldaðir slíkir lántakendur væru fyrir gengisbreytingum og vaxtaálagið yrði því of lágt. Vextir myndu ekki endurspegla raunverulega áhættu gengislána. Stiglitz lagði meðal annars til að lántakendum yrði skylt að upplýsa um skuldir í erlendum myntum svo gengisáhætta yrði sýnilegri. Letja þyrfti banka til að lána erlend lán til innlendra aðila t.d. með álögum. Ekkert var að gert og erlendar lánveitingar uxu úr hömlu fram að hruni.
 
Varað er við fleiri hættum en látum þessi dæmi nægja. Skýrslan sýnir að innan Seðlabankans og líklega víðar, var þekking á þeim hættum sem steðjuðu að fjármálakerfinu og hvaða úrræði væru tiltæk og nauðsynleg til að draga úr áhættu. Mjög leitt að sú þekking hafi ekki nýst betur.
 
Skýrslu Sigtlitz má finna á vef Seðlabankans:
Á ensku: http://english.sedlabanki.is/uploads/files/WP-15.pdf
Á íslensku: http://www.sedlabanki.is/uploads/files/ft022-3.pdf
Úrdráttur: http://www.sedlabanki.is/?PageID=13&NewsID=149

Er Grænland í hættu?

greenland-port
Í júní árið 2009 fékk grænlenska þjóðin lögsögu yfir náttúruauðlindum sínum en þær höfðu fram til þess dags tilheyrt Danaveldi.  Náttúruauðlindir Grænlands eru gríðarlegar. Landið er meira en 2 milljónir ferkílómetrar. Núna eru 81% lands undir íshellu en því er spáð að hún muni hörfa hratt á næstu áratugum. Undan ströndum Grænlands má finna auðug fiskimið og mikla olíu en auk þess er landið auðugt af góðmálmum og jafnvel eðalsteinum. Nóg er af hreinu vatni og virkjanleg vatnsorka hlýtur að vera umtalsverð.

Þessar stórkostlegu náttúruauðlindir eru núna í eigu 58 þúsund Grænlendinga. Grænlendingar eiga því möguleika á að verða ein ríkasta þjóð í heimi, en ef illa tekst til gætu þeir hæglega orðið ein af skuldugustu þjóðum heims. 
 
Nýlendustefna fyrri alda var möguleg vegna þess að herveldin gátu beitt yfirburðum sínum til að komast yfir auðlindir þeirra þjóða sem minna máttu sín og það þótti ekkert að því. Íbúarnir voru jafnvel hnepptir í þrældóm og gerðir að verslunarvöru. Arðrán nýlendna var mjög ábatasöm iðja og lagði grundvöllinn að ríkidæmi margra Evrópuþjóða.
 
Sem betur fer hefur þrælahald löngu lagst af og ekki er lengur talið ásættanlegt að ein þjóð undiroki aðra þjóð.
 
En hvað með Grænlendinga - getur sú fámenna þjóð með gríðarlegar auðlindir leyft sér að vera áhyggjulaus?
 
Auðvitað ekki. Nú eru það alþjóðleg stórfyrirtæki sem vilja byggja virkjanir, reisa álver, grafa eftir gulli og fleira í þeim dúr. Stórfyrirtækin munu að sjálfsögðu ganga eins langt og þeim verður leyft í því að láta arðinn af auðlindunum falla sér í skaut, en ekki Grænlendingum. 
 
Erlendir fjárfestar og sjóðir munu bjóða þjóðinni lán svo hún geti átt hluta í virkjunum og verksmiðjum, en hér verður hættan sú að vextirnir muni éta upp allan arðinn af auðlindunum. 
 
Eflaust eiga Grænlendingar ágæta leiðtoga sem vilja gæta hagsmuna þjóðarinnar, en freistingar munu verða á hverju strái. Dæmin sanna að alþjóðleg stórfyrirtæki virðast telja það ómissandi hluta af samningagerð að reyna að múta samningamönnum og jafnvel stjórnmálamönnum ef þess þarf.
 
Í júní 2009, þegar drottning Dana færði Grænlendingum yfirráð yfir auðlindum sínum, gat ég ekki varist þeirri hugsun að nú hefði þrengt svo að gamaldags nýlendustefnu að hún væri einfaldlega orðin óarðbær. Fram væri komin mun skilvirkari aðferð við að koma arði af auðlindum smáþjóða í "réttar" hendur.
 
Nýlenduveldin eru hætt að ræna nýlendur og hneppa íbúa þeirra í ánuð. Í þeirra stað eru komin alþjóðleg stórfyrirtæki og fjárfestingasjóðir sem boða mikil tækifæri sem því miður geta snúist upp í skuldaþrælkun.
 
Vonum að Grænlendingar gangi hægt inn um gleðinnar dyr.


Valkreppa aðalsamningamanna gagnvart ESB

Það virðist algengt að aðalsamningamenn þeirra þjóða sem nýlega hafa gengið í Evrópusambandið, taki við æðstu embættum í sambandinu. Nokkrir þeirra hafa orðið fulltrúar í framkvæmdastjórn sambandsins, en lengra verður vart náð í Brussel enda launakjörin í samræmi við það.

Þessi háttur Evrópusambandsins, að bera aðalsamningamenn aðildarríkja á gullstóli í kjölfar aðildar, setur okkar ágæta aðalsamningamann í nokkuð undarlega stöðu. 

Aðalsamningamaðurinn á auðvitað fyrst og fremst að gæta hagsmuna Íslands og vera hafinn yfir allan vafa um að hagsmunir hans fari ekki saman við hagsmuni Íslands. Samningamaður getur stundum þurft að sýna Evrópusambandinu talsverða hörku ef bestu samningar eiga að nást fyrir Íslands hönd. Vandinn er sá að þegar hann beitir Evrópusambandið hörðu, gæti hann þar með verið að útiloka sjálfan sig frá æðstu embættum innan Evrópusambandsins. Hafi hann á annað borð einhvern metnað til slíkra metorða.

Það er óheppilegt að setja aðalsamningamann í þá aðstöðu að hagsmunir hans og Íslands fari hugsanlega ekki saman að öllu leyti. Þótt Evrópusambandið virðist ekki sjá neitt óeðlilegt við slíka aðstöðu, þá ættum við að útiloka að sú staða sé uppi og þá er sama þótt samningamaðurinn sé traustur og drengur góður. 

Hugsanlega hefur Utanríkisráðherra vor þegar séð fyrir þessu og samið þannig við aðalsamningamanninn að hann myndi afsala sér öllum metorðastöðum hjá Evrópusambandinu eftir aðild. Kannski.

Það er reyndar engin ástæða til að ætla annað en að Stefán Haukur Jóhannesson, sem er okkar aðalsamningamaður, sé afar traustur. Það má meira að segja vel vera að hann hafi engann áhuga á metorðastöðum hjá Evrópusambandinu. En engu að síður tel ég óheppilegt fyrir alla aðila að setja nokkurn mann í aðstöðu sem felur í sér hagsmunaárekstur af þessu tagi.

Þetta má reyndar leysa, hafi það ekki þegar verið gert. Í ráðningarsamning mætti setja ákvæði í þessum dúr: "Ég heiti því að vinna að hagsmunum lands og þjóðar af heilindum... Komi til þess að Ísland gangi í Evrópusambandið mun ég ekki taka við launuðu starfi hjá Evrópusambandinu næstu 20 árin." Kannski mætti láta nægja að útiloka "æðstu metorðastöður" í slíku ákvæði, samkvæmt einhverri nánari skilgreiningu. Eflaust má útfæra þetta með ýmsum hætti - aðalatriði er að útiloka hagsmunaárekstur.

Svipað ákvæði mætti líka vera í erindisbréfum allra sem eru í samninganefnd okkar við Evrópusambandið. Hugsanlega mætti stytta tíma lægra settra samningamanna í 10 ár.

Aðildarsinnar, jafnt sem andstæðingar aðildar og samningamenn sjálfir, hljóta að fagna því ef hægt væri að taka af allan vafa um hagsmunaárekstra af þessu tagi.


mbl.is Sendiherraskipti í Brussel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarlegt Sérrit Seðlabanka um Peningastefnu eftir höft

Screen shot 2010-12-22 at 17.40.26
Þrátt fyrir titil Sérritsins sé "Peningastefna eftir höft" þá fer býsna drjúgur hluti í að verja þá ógæfulegu peningastefnu sem Seðlabankinn kaus að fylgja frá því krónunni var fleytt árið 2001 og kennd er við verðbólgumarkmið, þar sem eina stýritækið er vextir.
 
Niðurstaða skýrsluhöfunda, sem vart geta talist hlutlausir, er sú að Seðlabankinn hafi byggt peningastefnu sína á “hugmyndum hagfræðinnar um besta fyrirkomulag peningamála”. Það  sem úrskeiðis fór er svo að mestu skrifað á gerð íslensks þjóðarbúskapar, óvenjulegar aðstæður, alþjóðavæðingu innlends fjármálakerfis og ofvöxt þess og fleira í þeim dúr.  Yfirsóp af þessu tagi vekur mann óneitanlega til umhugsunar um hvort núverandi stjórnendur Seðlabankans séu á réttri leið.
 
Þótt í Sérriti Seðlabankans sé vitnað í sæg af heimildum, þá hlýtur að teljast dularfullt að geta ekki skýrslu sem nóbelsverðlaunahafinn og hagfræðingurinn Joseph Stiglitz skrifaði fyrir Seðlabankann árið 2001 “Monetary and exchange rate policy in small open economies: The case of Iceland”. Hún fjallar nákvæmlega um sama efni og Sérritið.
 
Stiglitz, sem er sérfræðingur í fjármálakreppum, taldi Ísland árið 2000 hafa mörg einkenni sem leitt gætu til kreppu. Hann hvatti því stjórnvöld og Seðlabanka til að grípa þegar til margvíslegra aðgerða til að afstýra hugsanlegri fjármálakreppu. Því var ekki sinnt.
 
Engu er líkara en að Seðlabankinn hafi stungið skýrslu Stiglitz ofan í skúffu. Kannski var hún á skjön við þá stefnu sem Seðlabankinn taldi “besta fyrirkomulag peningamála”. Enda varaði Stiglitz beinlínis við því að einblínt væri á verðbólgumarkmið og líka því að treysta á vaxtatækið eitt og sér.  Maður spyr sig hverjir báru ábyrgð á því að þessum viðvörunum hans var ekki sinnt? Eru þeir sömu kannski enn í lykilstörfum innan Seðlabankans?
 
Í síðari hluta Sérrits Seðlabankans er vikið að hugsanlegum úrræðum til að auka stöðugleika eftir að höftum sleppir. Þar eru reyndar talin upp mörg af þeim meðulum sem Stiglitz mælti með þótt höfundar Sérritsins kjósi fremur að vitna í aðrar heimildir.  
 
Seðlabankinn leggur til að þegar höftum lýkur verði tekin upp stefna sem hann vill kalla “verðbólgumarkmið-plús” þar sem plúsinn stendur fyrir að þeim tækjum verði beitt sem lýst er í kafla 6 í Sérritinu, í stað þess að treysta eingöngu á stýrivexti. Það hljómar í sjálfu sér ágætlega, en þó má aldrei gleyma því að markmið peningastefnu er ekki stöðugleikinn í sjálfu sér, heldur hlýtur markmiðið ávallt að vera aukin hagsæld almennings í landinu.
 
Þá víkur að þeim hluta Sérritsins sem vekur allra mesta furðu. En það er sá kafli sem fjallar um að gengi krónunnar hafi rýrnað um 99,95% á 90 ára tímabili í samanburði við dönsku krónuna. Ekki er minnst á þá staðreynd að á sama tíma tókst að koma landinu úr hópi fátækustu þjóða Evrópu í hóp ríkustu þjóða í heimi. Hér óx hagsæld margfalt hraðar en í Danaveldi á þessu tímabili.
 
Verðrýrnun krónunnar er í Sérritinu talin vísbending um getuleysi Íslendinga til að halda úti eigin gjaldmiðli. Á blaðsíðu 13 kemur reyndar fram að hér hefur atvinnustig að jafnaði verið hærra en í löndum sem notið hafi lægri verðbólgu. Menn geta svo auðvitað haft skoðun á því hvort sé verra þjóðarböl viðvarandi atvinnuleysi eða viðvarandi verðbólga, en um það stendur valið að nokkru leiti.
 
Höfundar Sérritsins skoða einnig kosti og galla þess að taka hér upp aðra mynt og telja “Veigamikil rök hníga að því” að festa gengið við evru, frekar en dollar eða aðrar myntir og vísa þar til neðanmálsgreinar sem segir einmitt “veigamikil rök hníga að því að tengja við stærri gjaldmiðil eins og evru eða Bandaríkjadollar”.  En hver eru þá þessi veigamiklu rök? Því er ekki svarað í Sérritinu enda eru þau vandfundin. Kannski veit Ríkisstjórnin svarið og þá væri auðvitað heiðarlegast að vitna í þá heimild.
 
Reyndar er minnst á það í sérritinu að íslenska hagkerfið hefur afar litla fylgni við hagkerfi evrulands og í raun er fylgnin öfug á framboðshliðinni.  Í Sérritinu er lítið gert úr þessu þótt ljóst megi vera að afleiðingarnar af inngöngu í slíkt myntbandalag gæti haft skelfilegar afleiðingar fyrir Ísland. Þess í stað er rætt um ætlaða kosti stórra myntsvæða og hér sé því best að taka upp evru og þá ganga í Evrópusambandið til að fá stuðning Seðlabanka Evrópu.
 
Hvergi er minnst á þá staðreynd að sífellt fleiri málsmetandi hagfræðingar telja framtíð evrunnar vægast sagt þyrnum stráða og ekki séð fyrir endann á þeirri skuldakreppu sem nú geisar í evrulandi.
 
Rétt er að benda á það sem vel er gert í Sérritinu og í því má finna margvíslegan fróðleik. Ágætlega er fjallað um þær hættur sem felast í því að taka einhliða upp evru eða aðrar myntir, hvort sem það er gert með myntráði eða öðrum hætti.
 
Höfundar Sérritsins fá líka plús fyrir að halda því til haga á bls. 44 að fjöldi rannsókna og reynsla annara ríkja sýnir að aðhaldsaðgerðir á útgjaldahlið eru vænlegri leið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs en sú leið að auka skattaálögur á fyrirtæki og heimili. Fjármálaráðherra mun eflaust fagna þessum fréttum.
 
Fyrir þá sem vilja kynna sér hvað gæti tekið við er höftum sleppir mæli ég með kafla 5. “Umbætur á umgjörð efnahagsstefnunnar” og kafla 6. “Breytingar á útfærslu verðbólgumarkmiðsins”.
 
Einnig mæli ég eindregið með því að allir lesi skýrslu Stiglitz frá 2001.
 
Að lokum þetta. Sérrit Seðlabankans um Peningastefnu eftir höft hefði gjarnan mátt sleppa því að sópa yfir þau afdrifaríku  mistök sem hávaxtastefnan var í reynd. Sérritið bætir svo gráu á svart með því að gera lítið úr þeirri vá sem þjóðinni er búin með fasttengingu við evru. Einnig er dapurlegt að hvergi sé getið skýrslu Stiglitz sem varaði við og benti á úrræði árið 2001. Ef menn eru á annað borð að verja tíma í að greina hvað fór úrskeiðis í peningastefnunni þá þarf um leið að svara því hvers vegna menn hlustuðu ekki á aðvaranir sem bárust í tæka tíð.
 
Sérritið: http://www.sedlabanki.is/?PageID=13&NewsID=2678
Stiglitz: http://www.sedlabanki.is/uploads/files/WP-15.pdf

Dollarinn rýrnaði um 88% á aðeins 40 árum

Árið 1970 voru 360 yen í Dollar en núna eru c.a. 80 yen í dollar. Þetta er 88% rýrnun á USD miðað við JPY á fjörtíu árum.

Af þessu má sjá að Bandaríkjamenn hafa farið enn verr að ráði sínu en Íslendingar í  gjaldmiðilsmálum og ættu að ganga í evrópusambandið sem allra fyrst. Helst áður en myntbandalag Evrópusambandsins fer sömu leið og öll önnur myntbandalög 


mbl.is Rýrnun krónunnar 99,95%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB, þar sem lýðræðið telst til trafala

Lýðræði
Í Evrópusambandinu er lagasetning í höndum framkvæmdastjórnarinnar, sem er skipuð 27 fulltrúum sem eru ekki kosnir, heldur tilnefndir af aðildarríkjum. Framkvæmdastjórnin ein hefur vald til að leggja fram lagafrumvörp og hún hefur auk þess allt framkvæmdavald. Þrískipting valdsins er því ekki fyrir hendi í ESB.

Evrópuþingið hefur ekki vald til að leggja fram lagafrumvörp. Þingið hefur aðeins eftirlit með framkvæmdastjórninni og samþykkir lagafrumvörp hennar. Þingið getur ekki gert breytingar á lagafrumvörpum, og þarf hreinan meirihluta þingmanna til að stöðva frumvarp. Til að lýsa vantrausti á framkvæmdastjórnina þarf ⅔ þingsins.

Lýðræðishalli
Í Evrópusambandinu er sérstakt orð yfir þann áhrifamissi sem kjósendur mega þola þegar ákvarðanataka flyst frá þjóðþingum aðildarríkja Evrópusambandsins til Brussel. Orðið er lýðræðishalli. 

Í Brussel eru flestar ákvarðanir teknar ef embættismönnum, en ekki af lýðræðislega kjörnum fulltrúum. Þróunin hefur frá upphafi verið sú að ákvarðanataka í sífellt fleiri málaflokkum færist frá lýðræðislega kjörnum þjóðþingum til embættismanna í Brussel. Lýðræðishallinn fer því vaxandi.

Niðurstöður könnunar meðal íbúa Evrópusambandsins (*1) virðast styðja þetta. Þannig töldu 56% svarenda rödd sína skipta máli í landsmálum, en hinsvegar töldu aðeins 34% rödd sína skipta máli í Evrópumálum.

Fjarlægð eykst milli kjósenda og fulltrúa
Þegar ákvarðanir flytjast frá þjóðþingum til Brussel, þá eykst um leið fjarlægð milli kjósenda og þeirra sem véla um ákvarðanir og löggjöf. Það verður því mun erfiðara fyrir kjósendur að ná sambandi við kjörna fulltrúa sína, eða safnast saman og mótmæla. 
Einnig verður erfiðara fyrir fulltrúa sem lifir og hrærist í Brussel að setja sig í spor fjarlægra kjósenda.

Lýðræðið virðast vera til trafala
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur rekið sig á það að íbúum aðildarríkjanna er ekki fyllilega treystandi til að kjósa yfir sig meiri samruna og samþjöppun valds í Brussel.  Það olli töfum á samrunanum, þegar ný stjórnarskrá Evrópusambandsins var felld í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi.
Í stað þess að taka mark á vilja kjósenda, lagði framkvæmdastjórnin fram nýjan sáttmála (Lissabon) sem fól í sér nánast sömu breytingar og stjórnarskráin sem kjósendur höfðu hafnað. 
Lissabon sáttmálinn var hins vegar ekki settur í þjóðaratkvæði, heldur var hann samþykktur af þjóðþingum aðildarríkjanna. Aðeins Írland lagði hann í dóm kjósenda sem sögðu “nei”. Þar sem það var rangt svar, var “fræðslan” stórefld og Írar látnir kjósa aftur.

Minnkandi þátttaka í kosningum til Evrópuþings.
Þátttaka í kosningum til Evrópuþingsins hefur farið minnkandi frá upphafi og er nú komin niður í 43%. Áhugaleysi kjósenda skýrist kannski af því hve Evrópuþingið er áhrifalaust. Það er í raun framkvæmdastjórnin sem hefur löggjafarvaldið og kjósendur geta ekki kosið fulltrúa í hana.

Frumkvæðisréttur fólksins er til málamynda
Í Lissabon sáttmálanum kom inn ákvæði (*2) um að ein milljón íbúa Evrópusambandsins geti  skorað á framkvæmdastjórnina að leggja fram frumvarp að lögum um tiltekið málefni. 
Þess er krafist að undirskriftir safnist frá 0.5% kjósenda, sem koma frá að minnsta kosti þriðjungi aðildarríkja.
Vandinn er sá að það krefst mikilla fjármuna að safna milljón undirskriftum frá svo mörgum ríkjum og engir styrkir eru í boði til þess.
Jafnvel þótt takist að safna undirskriftum þá er samt erfiðasti hjallin eftir, því framkvæmdastjórnin hefur algert sjálfdæmi um hvort hún tekur málið á dagskrá eða ekki. 
Þannig söfnuðust meira en 1,2 milljón undirskriftir til stuðnings þeirri tillögu að Evrópuþingið hætti sínu kostnaðarsama flakki milli Brussel og Strasburg. Forsetar Evrópuþingsins létu sér fátt um finnast og höfnuðu því að tillagan yrði rædd í þinginu.

Vaxandi gjá á milli leiðtoga og íbúa
Skoðanakannanir á vegum Evrópusambandsins (*1) sýna vaxandi andstöðu almennings við flutning ákvarðana frá aðildarríkjum til Brussel. Á sama tíma vinna leiðtogarnir að sífellt nánari samruna og miðstýringu. Þetta veit ekki á gott.  
Kannanir staðfesta einnig að þeim fer fækkandi sem finnst sambandið “standa fyrir lýðræði”, hlutfallið lækkaði úr 26% í 19% milli árana 2009 og 2010. Aðeins 50% íbúa telja “skilvirkni lýðræðis viðunandi” í Evrópusambandinu, en það er lækkun úr 54% frá því ári áður. (*1)

Niðurstaða
Evrópusambandið er ekki lýðræðislegt, allavega ekki í þeim skilningi að þar sé farið að vilja íbúanna eða fylgt góðri venju um aðskilnað framkvæmda- og löggjafarvalds.

Þrátt fyrir fögur fyrirheit er staðreyndin sú að Evrópusambandið er ólýðræðislegt bákn sem þróast hröðum skrefum til meiri miðstýringar, þvert gegn vilja íbúanna.

Heimildir:

(*1) Könnun Eurobarometer frá því í Maí 2010, var birt í Nóv 2010
http://ec.europa.eu/public_opinion/archives/eb/eb73/eb73_vol1_fr.pdf

(*2) Frumkvæðisréttur:
http://ec.europa.eu/dgs/secretariat_general/citizens_initiative/index_en.htm

Er hægt að ganga úr Evrópusambandinu?

senso
Aðildarsinnar virðast ekki hafa sérlega miklar áhyggjur af því hvort það sé yfirleitt hægt að ganga úr Evrópusambandinu. Flestir telja útgöngu vel mögulega og vísa í úrsagnarákvæði Lissabon sáttmálans og telja málið þar með afgreitt.
 
Úrsagnarákvæðið
Lissabon sáttmálinn er ótímabundinn, en í 50. grein sáttmálans er úrsagnarákvæði. Samkvæmt ákvæðinu getur aðildarríki tilkynnt úrsögn einhliða og tekur úrsögnin þá gildi innan tveggja ára, nema um annað semjist.

Samkvæmt 50. grein skal semja við útgönguríkið um úrlausnarefni í tengslum við útgönguna og gera framtíðarsamning við ríkið. Greinin segir ekkert um réttindi útgönguríkisins en vísar þess í stað til greinar 218 (3) sem fjallar almennum orðum um milliríkjasamninga sambandsins við önnur ríki. Því má segja að það ríki alger óvissa um þau kjör sem útgönguríkinu myndu bjóðast.

Þótt 50. gr. segi fátt, og ekkert sem tryggir hag útgönguríkisins, þá er ákvæði um að vilji útgönguríki síðar ganga aftur inn, þurfi það að sækja um og semja um aðild eins og hvert annað ríki sem óskar eftir aðild.

Andstætt hagsmunum Evrópusambandsins
Það gætu vaknað óþægilegar spurningar um sjálfan tilverurétt Evrópusambandsins, ef ríki sem gengi út myndi upp frá því taka að blómstra sem aldrei fyrr. Það væri því andstætt hagsmunum Evrópusambandsins að dekra við útgönguríki með hagstæðum útgönguskilyrðum eða góðum viðskiptakjörum til frambúðar.

Engir milliríkjasamningar
Ísland hefur gert viðskiptasamninga við fjölda ríkja og er aðili að evrópska efnahagssvæðinu (EES). Við inngöngu í Evrópusambandið falla þessir milliríkjasamningar Íslands úr gildi. Við útgöngu úr Evrópusambandinu myndi Ísland því þurfa að semja á nýjan leik við fjölda ríkja til að komast aftur í sömu stöðu. Það gæti tekið áratugi. Hvað varðar EES samninginn er algerlega óvíst að Ísland gæti fengið aðild að honum aftur.

Afleiðingar aðildar verða ekki aftur teknar
Innganga í ESB mun hafa mjög víðtækar afleiðingar, ekki síst í sjávarútvegi og landbúnaði. Forsendur margra atvinnugreina munu breytast og þær munu laga sig að styrkjakerfi sambandsins og viðskiptaumhverfi. Ekki er hægt að útiloka að með tímanum yrði slakað á núgildandi hömlum á eignarhaldi erlendra aðila í sjávarútvegi eða á auðlindum.
Við útgöngu úr ESB þyrfti atvinnulífið aftur að aðlagast breyttum aðstæðum og leggja á sig kostnaðarsama aðlögun. Einkum er erfitt að sjá fyrir sér hvernig væri hægt að vinda ofan af eignarhaldi erlendra aðila á innlendum auðlindum, ef til þess kæmi.

Upptaka evru lokar útgönguleiðum
Hafi útgönguríki lagt niður eigin gjaldmiðil og tekið upp evru, þarf það við útgönguna að leita samninga við Evrópusambandið um áframhaldandi aðild að myntsamstarfinu. Það er hins vegar erfitt að sjá hvaða hag Evrópusambandið hefði af því að leyfa slíka aukaaðild.

Útgönguríki gæti varla tekið upp sjálfstæða mynt á nýjan leik, nema hagkerfi þess væri það sterkt að markaðir hefðu meiri trú á nýju myntinni en evrunni. Að öðrum kosti væri fyrirsjáanlegt að nýja myntin myndi veikjast gagnvart evru. Allir sem vettlingi gætu valdið myndu þá senda evrur sínar úr landi áður en þeim yrði skipt í nýja mynt. Hætt er við að fjármagnsflótti myndi bresta á strax við úrsögn úr sambandinu.

Niðurstaða
Því verður ekki neitað að úrsögn úr Evrópusambandinu er tæknilega fær en hún er einfaldlega svo erfið að hún getur vart talist raunhæfur valkostur. Hafi aðildarríki innleitt evru eru yfirgnæfandi líkur á að úrsögn myndi leiða til meiriháttar efnahagsáfalls.

Af þessu leiðir að aðildarríki Evrópusambandsins munu láta ýmislegt yfir sig ganga fremur en að freista útgöngu. Nýlega samþykktu smærri aðildarríkin að láta af hendi 60% af atkvæðarétti sínum í ráðherraráðinu og misstu einnig neitunarvald í 68 málaflokkum. Óskiljanlegt er hvernig þau gátu fallist á slíka breytingu þegjandi og hljóðalaust.

Það ætti öllum að vera ljóst að gangi Ísland í Evrópusambandið verður ekki aftur snúið. Hvort sem sambandið þróast til betri eða verri vegar í framtíðinni, þurfa komandi kynslóðir að sætta sig við aðild sem orðinn hlut.

Tíminn til að efast um aðild er því núna, en ekki eftir inngögu, ef til hennar kemur.


Frosti 5614 : Áherslur

frostinr
Stjórnlagaþing er tækifæri til að koma á nútíma legu og lýðræðislegu stjórnarfari á Íslandi og ég hef mikinn áhuga á að leggja mitt af mörkum í því verkefni. Eftirfarandi eru nokkur atriði sem ég tel vert að hafa í huga við gerð nýrrar stjórnarskrár.
 
Aukin áhrif kjósenda
Það er mikilvægt að tryggja kjósendum aukin áhrif á störf þingsins. Hér getum við lært af 130 ára reynslu Svisslendinga en þar getur hluti kjósenda skotið nýjum lögum til þjóðaratkvæðis eða haft frumkvæði að nýjum lögum.
 
Fullveldið
Aðeins þjóðin sjálf geti tekið ákvarðanir sem skerða fullveldið. Gera ætti kröfu um aukinn meirihluta, enda þarf að vera  breið samstaða um ákvarðanir af þessu tagi.
 
Eftirlit og gegnsæi
Kjósendur eiga að hafa aðgang að öllum opin berum gögnum og geta lagt spurningar fyrir þingið.  Umboðsmaður alþingis á að hafa eftirlit með því að ný lög standist stjórnarskrá.
 
Forsetinn
Margir hafa viðrað efasemdir um tilgang forseta embættisins. Ég tel það ótvírætt kost fyrir smáþjóð að eiga forseta sem hefur aðgang að þjóðhöfðing jum annarra ríkja og stórvelda.
 
Ráðherrar
Þingið kjósi forsætisráðherra en hún/hann velji aðra ráðherra. Þingið þarf þó að hafa trú á því vali. Takmarka ætti þann tíma sem ráðherrar sitja að völdum. Þeir geti ekki verið þingmenn á sama tíma.
 
Kjördæmin
Ég vil skoða kosti þess að kjósa helming þingmanna úr þrímenningskjördæmum en hinn helminginn á landsvísu.  Skoða mætti persónukjör í bland við lista flokkana.
 
Þjóðkirkja
Ég tel ekki mjög brýnt að stjórnlagaþing taki afstöðu til þjóðkirkju. Þetta er mál sem mætti fremur leggja fyrir þjóðaratkvæði.
 
Vöndum til verks
Nýja stjórnarskráin þarf að kveða skýrt á um grund vallar atriði eins og þrískiptingu valds, hlutverk forseta, meðferð dómsvalds, aukið gegnsæi og eftirlit með stjórnvöldum og ýmislegt annað sem of lengi hefur verið of óljóst eða hreinlega vantað.
 
Ég er bjartsýnn á að stjórnlagaþingi takist að semja nýja og mun haldbetri stjórnar skrá en þá sem við höfum í dag.  
 
Kosningarnar verða á laugardaginn og ég vona að þú setjir auðkennistöluna mína 5614 mjög ofarlega á kjörseðilinn og hvetjið sem flesta til þess að gera það sama. 

Hvað heldur aftur af rafrænum kosningum?

Kostnaður við þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave samninginn var áætlaður 230 milljónir, eða álíka og kostnaðurinn við alþingiskosningar vorið 2009. 
 
Kostnaður við kosningu til stjórnlagaþings gæti verið um 100 milljónir og svo verða drög að stjórnarskrá lögð fyrir þjóðina sem kostar 200 milljónir. 
 
Mjög stór hluti kjósenda hefur aðgang að tölvu og gæti því kosið heima hjá sér. Þeir fáu sem ekki treysta sér til að nota tölvu, gætu mætt á kjörstað eða kosið utankjörfundar eða sent atkvæði í pósti. 
 
Það virðist augljóst að tölvuvæðing kosninga myndi spara stóran hluta þess kostnaðar sem fellur til í kosningum og í talningu atkvæða. En hvers vegna hefur þetta ferli ekki verið tölvuvætt? 
 
Í 5. gr. stjórnarskrá er ákvæði um að forseti skuli kjörinn í <span>leynilegri</span> kosningu og í 31. gr. er ákvæði um að þingmenn skulu kosnir í <span>leynilegri</span> kosningu. 
 
Kjósandinn á því að geta kosið án þess að hægt sé að sanna hvað hann kaus. Leyndin er réttur kjósandans. En leyndin virðist líka talin veita vörn gegn því að kjósandinn verði beittur þvingunum eða honum mútað til að kjósa með öðrum hætti en hann ætlaði sér. 
 
Í aðdraganda Icesave kosninganna bauðst DeCode til að útvega kerfi (Íslendingaval) sem gæti tryggt kjósendum nafnleynd í rafrænum kosningum og sparað mikinn kostnað. Ekki var dregið í efa að það kerfi dygði en stjórnvöld afþökkuðu boðið.
 
Í kosningu til stjórnlagaþings er kjósendum ráðlagt að undirbúa sig heima en kjósa á kjörstað. Kosningin fer þannig fram að kjósendur skrifa tölur í reiti á kjörseðlum sem síðan verða skannaðir inn í tölvu. Notaðir verða þrír hraðvirkir skannar sem leigðir voru til landsins í þessu skyni.
 
Enginn efast um að það hefði verið þægilegra fyrir alla að fylla út kjörseðla á netinu heima hjá sér og það hefði dregið mjög úr hættum á villum. Það hefði líka verið miklu ódýrara í framkvæmd og það hefði mátt tryggja nafnleynd kjósenda með t.d. tækni DeCode. 
 
Það er ráðgáta hvers vegna kjörstjórn nýtir ekki tölvutæknina öllum til hagsbóta. Eina skýringin sem ég sé er ótti við að ef kjósendur kjósa ekki einir í kjörklefa þá opnist möguleiki á að þeir verði beittir þvingunum eða mútum til að kjósa með tilteknum hætti.
 
En það má vel minnka líkur á því með öðrum hætti.
 
Leyfa mætti kjósanda að kjósa eins oft og hann vill, skipta um skoðun, þar til kosningu lýkur. Þá getur sá sem vill kaupa eða þvinga kjósandann ekki verið viss um að kjósandinn standi við gefin fyrirheit.
 
Þvingarinn gæti séð við þessu með því að sitja yfir kjósandanum og láta hann kjósa rétt fyrir lokun kosningar. Hver þvingari getur ekki haft auga með mörgum kjósendum á lokamínútum kosninga nema grípa til stórtækra aðgerða. 
 
Til að gera þvingurum enn erfiðara fyrir mætti hafa kjörstaði opna 1-2 í daga eftir að rafrænni kosningu lýkur. Þá getur kjósandinn farið á kjörstað og kosið í kjörklefa. 
 
Til að þvingunaraðgerðir skili tilsettum árangri þarf að þvinga mjög marga kjósendur hugsanlega þúsundir. Ef viðurlög við kosningasvindli eru höfð þung þá verður bæði erfitt að og afar dýrt að finna nógu marga þvingara og kjósendur til að hafa áhrif á úrslit kosninga.  
 
Hætta á þvingun og mútum virðist í raun vera sáralítil og óhætt þess vegna að tölvuvæða kosningaferlið og spara hundruði milljóna með því. 
 
Það er líklegt að kosningaþátttaka muni aukast umtalsvert ef kjósendur þurfa ekki að fara á kjörstað. 
 
Ef það er eitthvað allt annað sem heldur aftur af tölvuvæðingu kosningaferlisins myndi ég gjarnan vilja heyra af því.  Ég vona bara að raunverulega ástæðan sé ekki sú, að stjórnvöld vilji sem sjaldnast hafa kosningar. Þau vilji því hafa þær sem dýrastar og óþægilegastar svo fólk sé ekki að rella um að hafa þær of oft. 

Er Íslendingum treystandi fyrir beinu lýðræði?

 

Stundum heyrast þau sjónarmið að það sé mjög varasamt að fela íslenskum kjósendum málskots- og frumkvæðisrétt. Þeir myndi þá bara hafna lögum um aukna skatta og heimta á sama tíma lög um aukna þjónustu og vera almennt óábyrgir í ákvörðunum. Ríkið færi fjótlega á hausinn.

 

Þessu til stuðnigs er vísað til Kaliforníu sem býr við einhverskonar beint lýðræði og rambar á barmi gjaldþrots. Ef vísað er til góðrar reynslu Svisslendinga af beinu lýðræði þá er hún skýrð í burtu með því að sú þjóð hafi meiri lýðræðisþroska en aðrar þjóðir. Íslendingar séu hinsvegar mjög vanþroska og vísir til að klúðra þessu eins og öllu öðru.

 

Rökin gegn þessari afstöðu eru tvenns konar. Í fyrsta lagi eru leikreglur beins lýðræðis ekki þær sömu í Kaliforníu og Sviss. Í öðru lagi hefur reynslan sýnt að kjósendur verða ábyrgari og sýna meiri skynsemi í ákvörðunum ef þeir fá meiri áhrif.

 

Stigsmunur á Kaliforníu og Sviss

Í Sviss er mikil áhersla lögð á að ná samkomulagi milli þings og þeirra kjósenda sem vilja þjóðaratkvæði um tiltekið mál. Þetta millistig virðist einmitt vanta í Kaliforníu og kannski liggur vandinn í því. 

Þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslunni hafa kjósendur í Sviss yfirleitt val um upprunalega tillögu þingsins og málamiðlunartillögu sem tekur þá mið af sjónarmiðum þeirra sem vildu stöðva lögin. Þjóðin getur hafnað báðum tillögum eða samþykkt aðra hvora. Oft er málamiðlunin valin og útkoman er þá sú að eitthvað tillit er tekið til sjónarmiða þings, minnihlutahópa og meirihluta kjósenda.

 

Hvernig varð þessi ólgandi suðupottur vagga nútímalýðræðis?

Áður en beint lýðræði var tekið upp í Sviss var landið ólgandi suðupottur ólíkra þjóðarbrota, tungumála og trúarbragða. Beint lýðræði var tekið upp í kjölfar borgarastríðs og síðan hefur Sviss verið til fyrirmyndar sem friðelskandi og farsæl þjóð. Í borgarastríðinu fyrir rúmum 130 árum hefðu fáir trúað því að æstur almúginn í Sviss hefði þroska hvað þá vilja til að taka ákvarðanir sem höfðu hag heildarinnar að leiðarljósi. 

 

Lýðræðisþroski og farsæld er bein afleiðing af beinu lýðræði

Í fyrstu gæti virst óábyrgt að fela kjósendum úrslitavald yfir störfum þingsins. En reynslan hefur sýnt hið gagnstæða, að kjósendur eru í eðli sínu varkárir, jafnvel varkárari en þingið. 

 

Það að kjósendur geti skotið öllum nýjum lögum til þjóðaratkvæðis setur jákvæða pressu á þingið að vanda sig og sú freisting að skara eld að köku sérhagsmunaafla hverfur. Enda myndi þjóðin stöðva slíka löggjöf.

 

Reynslan í Sviss hefur sýnt að kjósendur eru íhaldssamari í útgjöldum og ríkisrekstri en þingið. Einnig hefur komið í ljós að þeir kjósendur sem hafa vald til að hafna fjárlögum í sínu umdæmi eru 30% ólíklegri til að svíkja undan skatti en hinir. Kjósendur sem hafa raunveruleg áhrif axla sína ábyrgð frekar en aðrir.

 

Áhrifalausir kjósendur hafa hins vegar lítinn hvata til að setja sig inn í einstök mál á starfstíma þingsins. Valdið til að kjósa út þingmenn er ómarkvisst og gefur kjósendum falskt öryggi. Rödd kjósenda heyrist sjaldan nema þegar áföll dynja á landinu og jafnvel þá taka stjórnvöld lítið mark á kjósendum. 

 

En hafi kjósendur rétt til að skjóta málum til þjóðaratkvæðis, svo ekki sé minnst á frumkvæði að nýjum lögum, þá er vilji þjóðarinnar og ábyrgð alltaf til staðar. 

 

Sagan sýnir að aukin áhrif kjósenda leiða til meiri áhuga þeirra á málefnum og ákvörðunum ríkisvaldsins. Með því dregur úr valdi og áhrifum stjórnmálaflokka. Íbúarnir verða vakandi og upplýstir um eigin málefni og taka virkari þátt í að móta framtíð landsins.

 

Ekkert bendir til þess að Svisslendingar séu svo sérstakir að þeim einum sé treystandi til að ná árangri með beinu lýðræði. Það er orðið löngu tímabært að næsta þjóð taki það skref sem Sviss tók fyrir 130 árum: að treysta kjósendum.


 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband