Ósannfærandi hrakspár Steingríms J.

sjs_870275Steingrímur J Sigfússon fjármálaráðherra ritaði grein í Morgunblaðið í gær (7/8/09) þar sem hann birtir sundurliðaða hrakspá um afdrif Íslands ef ICESAVE samningnum yrði hafnað. Við fyrstu sýn gæti hrakspáin skotið manni skelk í bringu en sé hún skoðuð nánar kemur í ljós að hún er byggð á miklum ólíkindum. Það mætti telja líklegra að Ísland yrði fyrir loftsteini en að spádómur Steingríms rættist lið fyrir lið.

"Samstarfsáætlunin með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum siglir í strand og engin frekari lán til að byggja upp gjaldeyrisvaraforðann berast þaðan."

AGS hefur lýst því yfir að öll skilyrði fyrir lánum hafi verið uppfyllt en fæst ekki segja að ICESAVE sé eitt af þessum skilyrðum. Samt fullyrðir Steingrímur að ICESAVE sé skilyrði. Hversu líklegt er að ef AGS fæst ekki einu sinni til þess að segja að ICESAVE sé skilyrði, hverjar eru þá líkurnar á því að AGS lánið strandi í raun vegna ICESAVE? Svo er stór spurning hvort okkur er óhætt  að taka AGS lánið. (Mæli með þessari grein um það mál)

"Engin gjaldeyrislán berast frá hinum Norðurlöndunum."

Frændur okkar hafa ekki fengist til að viðurkenna nein slík skilyrði. Svíar vilja reyndar alls ekki að þeirra lán gangi til greiðslu á ICESAVE lánum. Færeyingar hafa engin skilyrði sett. Ég er viss um að þegar Norðurlöndin fá að heyra alla málavöxtu þá munu þeir standa gegn því að Íslenskum heimilum verði steypt í skuldir vegna galla í evrópsku regluverki. 

"Erlendu kröfuhafarnir samþykkja ekki að koma að endurreisn Kaupþings og Íslandsbanka."

Þetta er bull. Þeir hafa allt að vinna með því að koma að endurreisn bankanna, annars myndu þeir vera löngu búnir að drífa sig burt og gera eitthvað annað. Erlendir kröfuhafar eru ekki góðgerðasamtök. Verði ICESAVE skuldunum bætt á landið mun þeim, eins og öðrum, lítast mun verr á að koma að endurreisn bankanna.

"Alþjóðlegar lánastofnanir og erlendir bankar verða áfram lokuð bók og ný lán eða endurfjármögnun eldri lána er ógerleg."

Það er bara erfitt að fá lán eins og staðan er í heiminum í dag. Hvernig gengur Írlandi og Lettlandi að fá lán þessa dagana? Þeir eru ekki með neitt ICESAVE vandamál, samt fá þeir engin lán, endurfjármögnun er ógerleg. ICESAVE er viðbótarskuldsetning sem bara veikir lánshæfi og lánstraust þjóðarinnar. 

"Hætta á að neyðarlögunum frá í október verði hnekkt vex á ný."

Þetta er nú umdeilt atriði og þau rök hafa líka heyrst að samþykkt ICESAVE muni jafnvel auka hættu á að neyðarlögum verði hnekkt. Þessi óvissa verður því ekki leyst með því að samþykkja ICESAVE.

"Mikil neikvæð umræða verður um Íslendinga á nýjan leik sem óábyrga í viðskiptum og aðila sem hlaupi frá skuldbindingum sínum og gefnum fyrirheitum."

Það verður vonandi mikil umræða og við munum þá fá gott tækifæri til að skýra okkar málstað. Þetta verður vonandi fréttnæm milliríkjadeila og lesendur stórblaða munu flestir fallast á að íslenskar fjölskyldur eiga ekki að axla þessar byrðar.

Íslendingar njóta almennt trausts erlendis þótt einhverjir Íslendingar hafi verið óábyrgir. Allar þjóðir eiga óábyrga einstaklinga í sínum röðum. Allar þjóðir eiga stjórnmálamenn sem lofa meiru en þeir geta staðið við. Menn munu því áfram vilja kaupa íslenskan fisk, orku, hugbúnað og selja okkur olíu og matvæli. Þeir gera það vegna þess að það er ábatasamt.

"Trúverðugleiki Íslands, sem hefur byrjað að endurheimtast að undanförnu, fer aftur þverrandi."

Þetta er nú meira ruglið. Hvaða könnun hefur verið gerð í útlöndum um "trúverðugleika Íslands". Hvernig væri að gera slíka könnun? Hvað með það þótt einhverjir pólitíkusar í Bretlandi og Hollandi fari í fýlu?

Við höfum góðan málstað að verja og eigum að verja hann með öllum tiltækum ráðum og aldrei að gefast upp. Slík barátta er trúverðug! Það er engin trúverðugleiki í því að láta valta yfir sig með hótunum.

"Ef deilan opnast upp aftur kann að verða gripið til aðgerða sem geta reynst íslenskum fyrirtækjum og íslenskum hagsmunum skeinuhættar."

Hér á Steingrímur líklega við viðskiptahindranir á Ísland. Aðeins Bretar eða Hollendingar myndu hafa frumkvæði að slíkum aðgerðum en það væri þó afar ósennilegt að sú leið væri farin áður en búið væri að reyna dómstólaleið til þrautar.

Viðskiptahindranir eru mjög óvinsælar heima fyrir enda bitna þær á fyrirtækjum í Hollandi og Bretlandi og saklausu fólki á Íslandi. Viðskipti okkar myndu einfaldlega færast frá þessum löndum til annara Evrópuríkja, enda næðist aldrei víðtæk samstaða í Evrópu um viðskiptabann á Ísland.

"Minni líkur á styrkingu gengis, minni líkur á lækkun stýrivaxta, meiri óvissa um þróun lánshæfismats ríkisins og tengdra aðila."

Þetta er einmitt þveröfugt. Heilbrigð skynsemi segir að meiri erlend skuldsetning muni veikja gengið og gera lánshæfismat ríkisins og tengdra aðila verra.

"Endurreisnaráætlun stjórnvalda, stöðugleikasáttmálinn og ýmsir tengdir hlutir lenda í óvissu og bið."

Þetta er allt mjög óljóst og væri gott ef Steingrímur gæti útskýrt nánar hvernig það getur styrkt Endurreisnaráætlun stjórnvalda að leggja hundruð milljarða í erlendum skuldum á þjóðina, sem hún skuldar ekki nú þegar. Stöðugleikasáttmálinn ætti einnig að styrkjast ef ICESAVE er hafnað af sömu sökum. Liðurinn "ýmsir tengdir hlutir lenda í óvissu og bið" hljómar nú bara eins og "business as usual" og vekur lítinn ugg í brjósti hjá þjóðum almennt.

"Aukin svartsýni grípur um sig, uppsögnum starfsfólks og gjaldþrotum fyrirtækja fer fjölgandi og flutningur frá landinu eykst."

Þvert á móti mun aukin bjartsýni grípa um sig ef ICESAVE er hafnað. Það myndi auka trú landsmanna á réttlæti, lægri skatta og draga úr landflótta. Uppsagnir og gjaldþrot fyrirtækja verða ekki umflúin með því að taka ICESAVE lánið. Ég óttast einmitt að ef ICESAVE óréttlætið verður látið ganga yfir þjóðina og skulda- og skattbyrði aukin á óréttlátan hátt þá fer fólk úr landi sem annars hefði verið hér áfram.

"Tekjur ríkis- og sveitarfélaga dragast meira saman en ella hefði orðið."

ICESAVE samningurinn hefur ekki neinar tekjur í för með sér fyrir ríki- og sveitarfélög. Nú, nema Steingrímur sé hér að nefna þá staðreynd að ríkið þarf að hækka skatta á allt og alla til að geta borgað niður ICESAVE lánið. Það myndi jú auka tekjur ríkisins en líka útgjöld. Þá er nú betra að fella þennan ICESAVE samning strax. 

----

Ef þetta er nú allt það sem Steingrímur óttaðist mest þá vona ég að hann kynni sér þessa færslu sem fyrst svo hann geti farið að berjast fyrir hagsmunum Íslands af meiri einurð.

Ekkert í hrakspám hans er líklegt til að ganga eftir og ekkert jafn skelfilegt og hann virðist telja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Baldursson

Áfram Ísland, ekkert ESB, ekkert AGS, ekkert norrænt lán, ekkert Icesave, (og ef þarf með ekkert EES)....
Vísa til greinarinnar :
http://eyjan.is/blog/2009/08/07/jon-steinsson-hagfraedingur-allt-of-mikid-gert-ur-mikilvaegi-erlendu-lananna/

Haraldur Baldursson, 8.8.2009 kl. 13:56

2 Smámynd: Júlíus Björnsson

Mér sýnist á öllu að Steingrímur setja hagsmuni innflutnings aðila frá EU á oddinn. Þeir eru stórhluti af atvinnuveitendum á efnahagsvæðinu Íslandi. Stærstu viðskiptavinir gömlu einkabankanna eða eigendur. Á kreppu tímum í alþjóðasamkeppni þá verður hvert ríki að hugsa um sinn heimamarkað og skera niður allan óþarfa innflutning og byggja upp innanlands framleiðslu sem er það sama og styrkja heimamarkað. Beita til öllum úrræðum svo sem Englendingar og Hollendingar. Start nýjum innflutnings fyrirtækjum er ekki svo mikil fjárfesting vegna fámennis hér á landi. Þjóðhagslegt er að gera úttekt á því hvort það borgar sig ekki að setja sem flest á uppboð og byrja upp á  nýtt. Ég er vissum að margir koma að bjóða í.

Júlíus Björnsson, 8.8.2009 kl. 14:25

3 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Þetta er sérstaklega traustur rökstuðningur hjá þér Frosti. Það er mikilvægt að láta erlenda óvini okkar sýna andlitið. Það væri óþolandi að leggja dráps-klyfjar á þjóðina, eingöngu vegna gruns sem ótrúverðugir stjórnmálamenn hafa um hefndar-aðgerðir gegn okkur.

Hér er nýleg sýn mín á "hótanir Norðurlandanna":

http://altice.blog.is/blog/altice/entry/923129/

Steingrímur J. Sigfússon heldur því sterkt til haga, að Sverges Riksdag hafi sett skilyrði um lánveitingu til okkar. Þetta er rétt en Steingrímur hefur ekki fyrir því að útskýra hvernig afstöðu Svíanna er raunverulega háttað. Sannleikurinn er sá, að skilyrði Riksdagens eru sett til að þvinga Bretland og Holland til að veita Íslandi lán. Norrænu ríkin vilja með þessu móti hindra að fjármunir frá þeim fari til að greiða Bretum og Hollendingum. Í greinargerð sem ríkisstjórn Svíþjóðar lagði fyrir Riksdagen 02.07.2009 segir:

De nordiska långivarna har villkorat sin utlåning med att de länder som främst berörs av Islands insättningsgarantiåtaganden, dvs. Storbritannien och Nederländerna, ska bidra med lån till Island. De nordiska långivarna vill på detta sätt undvika att medel från de nordiska krediterna går till dessa två länder.

Þetta skapar algjörlega nýja sýn á afstöðu Norðurlandanna. Ekki virðast vera neinar forsendur til að hallmæla okkar Norrænu vinum. Er ekki að minnsta kosti ástæða til að láta þá njóta vafans ? Hvernig væri að Icesave-stjórnin færi að segja okkur sannleikann ?

Heimild: http://www.riksdagen.se/webbnav/index.aspx?nid=37&dok_id=GW03230

Loftur Altice Þorsteinsson, 8.8.2009 kl. 16:07

4 Smámynd: Júlíus Björnsson

Það er hörð innri virðingar samkeppni í EU samanber föðurarfleiðina elíta meginlandsins.

Júlíus Björnsson, 8.8.2009 kl. 16:35

5 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég má til með að hnykkja á umsögn Sverges Riksdags:

De nordiska långivarna har villkorat sin utlåning med att de länder som främst berörs av Islands insättningsgaranti-åtaganden, dvs. Storbritannien och Nederländerna, ska bidra med lån till Island. De nordiska långivarna vill på detta sätt undvika att medel från de nordiska krediterna går till dessa två länder.

Hér er kjarninn í afstöðu norrænu þjóðanna. Þeim hefur verið sagt (Jón Sigurðsson ?) að við ætluðum að undirgangast kröfur Breta og Hollendinga og að við teldum það okkar skyldu. Þennan misskilning á algjörlega eftir að leiðrétta.

Það á algjörlega eftir að gera Norrænu þingunum grein fyrir þeirri staðreynd, að almenningur á Ísland má ekki ganga í ábyrgð fyrir Icesave-reikningunum. Við megum ekki raska samkeppnisumhverfi Evrópska efnahagssvæðisins, með ríkistryggingum. Þegar þessu hefur verið komið á hreint, munu frændur okkar við Eystrasaltið sjá að framangreint skilyrði er óþarft.

Loftur Altice Þorsteinsson, 8.8.2009 kl. 17:36

6 Smámynd: Júlíus Björnsson

Við megum ekki raska samkeppnisumhverfi Evrópska efnahagssvæðisins, með ríkistryggingum.

Ekki vilja sannir EU sinnar það?

Júlíus Björnsson, 8.8.2009 kl. 17:42

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er með þetta eins og svo margt annað að rök stjórnvalda standast enga gagnrýni.  Of algengt er að þetta séu eftiráskýringar eða reynt er að finna skýringar sem eru ógnvænlegar í þeirri von að enginn þori að ögra þeim.  Síðan þegar einhverju dettur í hug að gera það, þá hrynja rökin eins og léleg spilaborg.

Marinó G. Njálsson, 8.8.2009 kl. 22:31

8 identicon

Ætli menn að finna skýringuna á framgöngu Steingríms í því að þröngva Icesave-skuldum einkabanka upp á landsmenn þá verða þeir að horfa út yfir regluverk ESB um tryggingasjóði innstæðueigenda, vegna þess að það er margbúið að sýna fram á að tryggingasjóðurinn er ekki með ríkisábyrgð.

Skýringuna er að finna hjá Steingrími sjálfum. Hvaða hagsmuna á hann að gæta? Eru þeir einkaeignalegir, pólitískir eða hrein valdagræðgi eða hvað?

Helga (IP-tala skráð) 9.8.2009 kl. 00:58

9 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég tek undir með Helga.  Hvaða áhrif hefði það á pólitíska stöðu Steingríms ef honum tækist að koma Íslandi inn í ESB? Það er ekki erfitt að sjá fyrir sér að hann yrði í algerri lykilstöðu til að verða landstjóri.

Sigurður Þórðarson, 9.8.2009 kl. 06:57

10 Smámynd: Haraldur Baldursson

Í grunninn er verið að spila full mikið á ótta fólks. Við (íslendingar) erum góð í því að sjá flísina í auganu á bandaríkjamönnum og fussum yfir hræðslustjórnun þar í landi. Á sama tíma erum við blind á á bjálkann í eigin auga, sem er ekkert öðruvísi.
Það er svo sannarlega verið að mála grýlur á veggi á Íslandi. Það er reynt að láta líta svo út að ein ríkasta þjóð í heimi sé komin á vonarvöl. Það er bara nánast ekki hægt að gera það því Ísland er svo ríkt af auðlindum. En Steingrímur reynir samt að allt til skelfa sína þjóð. Honum líst sennilega vel á árangur Georg Bush og trúir kannski að þetta sé aðferðin til að leiða þjóðina.

Skipulögð, staðföst og yfirveguð hugsun er það sem þarf til að leiða þetta land. Það má ekki láta "erfiðar" samninganefndir erlendra ríkja ráða. Við þurfum leiðtoga, ekki fólk sem telur sig ávinna sér rétt til stjórnunar með því að berjast út í eitt eftir röngum stígum.

Haraldur Baldursson, 9.8.2009 kl. 11:05

11 Smámynd: Haraldur Baldursson

Hvar í heiminum hefur land skotist jafn hátt í gegnum himinhvolfið og Ísland á síðustu öld. Við sitjum hérna á þvílíkri Gullkistu í auðlindum að við dönsum framhjá þeim hindrunum sem þessi hagfræðingur málar upp.

Hópur úrtölufólks og aumingja stækkar orðið ansi hratt. Mín ályktun er sú að áróðursfé ESB sé komið í umferð á spilaborðinu. Nú verður allt sett undir með að draga úr okkur kjarkinn, undirstrika smæð okkar og hreinlega hræða úr okkur líftóruna vegna "slæmra framtíðarhorfa". Megi þeir sem taka undir í þessum landráðakór visna upp og fjúka burt frá okkar ströndum sem allra fyrst.

Áfram Ísland, Ekkert ESB, ekkert AGS, ekkert risalán og enga aumingja !

Haraldur Baldursson, 9.8.2009 kl. 16:41

12 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þegar maður les grein sem þessa veltir maður því óhjákvæmilega fyrir sér hvers vegna fólk eins og Steingrímur stýrir málefnum landsins en ekki fólk eins greinarhöfundur. Steingrímur lemur þjóðina niður í hverju orði en Frosti byggir upp. Steingrímur heldur hirtingarhrís svartsýninnar yfir þjóðinni á meðan Frosti og hans líkir benda með einföldum rökum skynseminnar á hræðsluáróðurinn í orðum Steingríms og stjórnarliða hans.

Mig langar til að bæta því við að ég hef öruggar heimildir fyrir því að nýráðnir einstaklingar í utanríkisráðuneytinu a.m.k. eru að taka að sér óvinsæl verkefni gegn loforði um örugga stöðu hjá ESB um leið og við erum komin þangað inn... (tek það fram að ég get hvorki nefnt heimildamenn eða þá starfsmenn sem um ræðir)

Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.8.2009 kl. 23:28

13 Smámynd: Ólafur Tryggvason Þorsteinsson

Það sem mér finnst hvað mest áberandi í grein Steingríms er hve holur málflutningurinn er. Hver fullyrðingin af annarri er sett fram ein og þær sú hans prívat skoðun án rökstuðnings. Þetta eða hitt mun gerast, gerast ekki eða tefjast. Líkur á þessu og hinu minnka eða aukast og svo framvegist.

Annars vegar er þarna um að ræða póliltískar hótanir og hins vegar órökstudda tölfræði.

"Minni líkur á styrkingu gengis..." Minnka líkurnar úr 18,23% í 18,14%? Er eitthvað annað en hans álit sem liggur þarna að baki. Ef svo er skal maðurinn útskýra hvað það er. Hann hrópaði manna hæst áður en hann var svo ólukkulega munstraður í embætti ráðherra.

Ég er ekki skyggn og sé því ekki framtíðina skýrari augum en almenningur almennt. Með samantekt eins og þessa í fartestkinu og þær upplýsingar sem yfirvöld milgra í okkur sýnist mér að niðurstaða þín sé ekki ólíklegri en hver önnur. Á margan hátt er hún líklegri en aðrar.

Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 10.8.2009 kl. 09:15

14 Smámynd: Baldvin Jónsson

Takk Frosti, gott að jarðtengja sig hér á síðunni með reglulegu millibili.

Baldvin Jónsson, 10.8.2009 kl. 14:53

15 identicon

Góð samantekt hjá þér Frosti. Eitt finnst mér þó vanta í hana en það er samstarfsáætlun Íslands og AGS. Við erum nú þegar búin að fá rúma $800 milljónir frá AGS. Ef við riftum samstarsfsáætluninni hvað gerist þá? Munum við skila þessu fé til AGS og þá hvernig? Hvaða afleiðingar hefur það?

Ísland á að hafna Icesave. Það er engin spurning í mínum huga. AGS hefur af eðlilegum ástæðum ekki sagt að Icesave löndun sé skilyrði en þeir hafa sagt að það væri betra ef væri samið um Icesave. Í mínum huga þýðir þetta að Icesave sé skilyrði af hálfu AGS.

Svona til gamans þá má nefna fjármagnsflutninga RBS til Lehmans bræðra sama dag og sá banki féll. Gordon Brown varð snarvitlaus þegar það komst upp. En á sama tíma vildu Bandaríkjamenn ekki styðja við Lehmans sem fór á hausinn. Mér er ekki kunnugt um að Bretar hafi krafið Bandaríkin um greiðslur vegna þessa.

Og enn til gamans þá buðu Bretar fram aðstoð við rannsókn á Kaupþingi og Landsbankanum nýlega.

Flott hjá þeim en hver var tilgangurinn? Var það góður ásetningur eða var það vegna þess að þeir vildu mýkja Steingrím og Jóhönnu svo Icesave yrði samþykkt?
Ég hef lesið bloggið þitt nokkuð reglulega og röksemdirnar sem þú setur fram og mér þykja þær skynsamlegar. Við eigum ekki að samþykkja Icesave! Punktur!

Hafþór Baldvinsson (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 16:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband