Hvaða fyrirtækjum á að bjarga?

Of einfalt?Fyrirsjáanlegt er að mörg fyrirtæki munu verða gjaldþrota ef þeim er ekki komið til bjargar. Framsókn hefur komið með tillögu sem vekur spurningar, en líka fleiri hugmyndir.

Neðst í tillöguskjali Framsóknar stendur þetta:

"Það sama á við um fyrirtæki og heimili. Raunhæfasta og sanngjarnasta leiðin er sú að eitt sé látið yfir alla ganga. Það er æskilegast hvort sem um er að ræða mjög illa stödd, sæmilega stödd eða vel stödd fyrirtæki. Fyrirtæki sem er mjög illa statt fjárhagslega verður líklega gjaldþrota hvort sem það fær 20% skuldaniðurfellingu eða ekki. Það felst því enginn skaði í því fyrir kröfuhafann að gefa eftir 20% skuldarinnar, enda voru þeir peningar líkast til hvort eð er tapaðir. Fyrir sæmilega statt fyrirtæki getur 20% skuldaniðurfelling hins vegar skipt sköpum (samhliða vaxtalækkun). Þau geta þá haldið áfram rekstri og komist hjá því að segja upp fólki. Vel stödd fyrirtæki sem fá skuldaniðurfellinguna eru hins vegar ekki síður mikilvæg. Það eru fyrirtækin sem munu þá hafa eigið fé til uppbyggingar. Þ.e. til að kaupa önnur félög (m.a. þau sem fara í þrot), standa að nýsköpun og stuðla að uppbyggingu atvinnulífsins."

Þarna er lagt til að skuldir allra fyrirtækja (við ríkisbankana) séu lækkaðar um sömu prósentu, óháð því hvort þau eru vel eða illa stödd. Ekki kemur fram hve háar upphæðir er um að ræða alls eða í hverjum flokki, en þær hljóta að vera verulegar.

Er skuldsetning sanngjarnt viðmið þegar á reynir?

Ef aðeins ætti að aðstoða gjaldþrota fyrirtæki væri eðlilegt að miða við skuldastöðu, en fyrst hugmyndin er sú að liðsinna öllum fyrirtækjum getur falist hrein mismunun í því að miða eingöngu við skuldir.

Taka má dæmi um tvö fyrirtæki í samkeppni, annað er lítið skuldsett enda ávallt verið rekið af hagsýni en keppinauturinn er afar skuldsettur og tvísýnt um afdrif hans. Skuldsetta fyrirtækið fær tugmilljóna niðurgreiðslur en hið vel rekna fær aðeins örfáar milljónir.

Er það þjóðinni í hag að efla illa rekin fyrirtæki meir en hin betur reknu?

Hver eru markmiðin með björgunaraðgerðum?

Markmið Framsóknar eru án efa að koma í veg fyrir að góð fyrirtæki fari í gjaldþrot með tilheyrandi atvinnuleysi. Grípa þarf til skjótvirkra aðgerða til að bjarga málum svo fyrirtækin fái ráðrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum. Aðferðin má ekki vera of flókin. Varast ber óskýrar úthlutunarreglur sem geta leitt til spillingar eða grunsemda um spillingu. Kannski má ná þessu fram með því að þróa hugmyndina aðeins lengra. Markmiðin gætu t.d. verið:

  • Hjálpa þeim fyrirtækjum sem hafa flesta í vinnu.
  • Hjálpa þeim fyrirtækjum sem greitt hafa mesta skatta gegnum tíðina.
  • Hjálpa fyrirtækjum sem eru í greiðsluvanda.
  • Hjálpa fyrirtækjum sem geta sýnt fram á góða möguleika í framtíðinni.

Þetta eru bara tillögur, endilega koma með fleiri.

Hugmynd að nánari útfærslu

Einföldun er mjög æskileg. Albert Einstein sagði "Alla hluti ætti að einfalda eins mikið og hægt er, en þó ekki meira." Það virðist of mikil einföldun fólgin í því að miða eingöngu við skuldsetningu. Aðgerðin verður mjög dýr og réttlætanlegt að leggja töluverða vinnu í hana.

Ég legg til að sett verði upp einfalt en skilvirkt matskerfi sem gerir kleift að gefa fyrirtæki einkunn eftir því hversu vel það mætir skilgreindum markmiðum björgunaraðgerðanna. Síðan sækja fyrirtæki um, eru metin og fá í flestum tilfellum skjóta afgreiðslu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Frosti. Mér finnast tillögur framsóknar umniðurfellingu 20% skulda óháð stöðu hvers og eins, lykta mjög af kosningum em framundan eru. Ég mundi telja að aðstoð við fyrirtæki og einstaklinga þurfi að einstaklingsmiða ef svo má segja. Sumum er ekki hægt að bjarga með slíkri niðurfellingu og öðrum er ekki þörf að hjálpa eins og gengur. Þetta er kosningaloforð sem er ekki vænlegt til árangurs.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 2.3.2009 kl. 19:55

2 identicon

Ef það á að gera eitthvað sem hjálpar öllum "jafnt" þá er niðurfelling hluta skulda ljóslega ekki rétta leiðin. Niðurfelling skulda hjálpar t.d. alls ekki vel reknum fyrirtækjum og heimilum sem ekki skulda neitt.

Önnur aðferð til að hjálpa öllum "jafnt" væri einfaldlega að lækka stýrivexti umtalsvert og gera aðgang að lánsfjármagni sæmilega auðveldan a.m.k. fyrir fyrirtæki (m.ö.o. að prenta peninga). Þetta kæmi sjálfsagt á svipaðan stað niður og niðurfelling skulda hvað varðar áhrif á verðbólgu og annað slíkt. Þetta myndi hjálpa þeim sem skulda með því að lækka greiðslubyrði þeirra, og hjálpa þeim sem ekki skulda með því að gefa þeim tækifæri til að fjármagna kaup á atvinnutækjum eða yfirtökur á illa stöddum fyrirtækjum.

Jói Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 20:25

3 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sammála þessari nálgun. 

Hvert markmið gæti haft ákveðið vægi við endanlegan útreikning á þessu "survival index".

Til frádráttar endanlegri útkomu kæmu atriði sem tengjast óefnislegum eignum, viðskiptavild (sic!), og meintum loftbóluæfingar góðærisins.  Það er einfaldlega ekki boðlegt gagnvart samkeppnisaðilum sem barist hafa í bökkum með hagsýni og hófstillta skuldsetningu að leiðarljósi, að loftbólu fyrirtækjum og eigendum þeirra verði gefið nýtt líf.

Þetta verður hvorki einfalt né sársaukalaust. 

Jenný Stefanía Jensdóttir, 3.3.2009 kl. 01:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband