23.2.2009 | 01:34
Framtíðarsýn fyrir Ísland
Ísland á sér ekki framtíðarsýn í dag en þó er almennt viðurkennt að skýr framtíðarsýn þarf að vera til staðar ef almennilegur árangur á að nást í einhverju. Góðu fréttirnar eru að það er fljótlegt og ódýrt að bæta úr þessari vöntun.
Fyrsta útgáfa af framtíðarsýn Íslands þarf hvorki að vera fullkomin né endanleg. Hún þarf bara að vera skárri en ekki neitt. Endurbætt útgáfa verður svo fyrsta verk á dagskrá næstu ríkisstjórnar sem setur verkefnið vonandi í hendur þjóðarinnar. Framtíðarsýn verður síðan endurskoðað árlega og árangur metinn.
Framtíðarsýn myndi lýsa okkar stöðu í dag og hvernig við viljum sjá stöðuna þróast í framtíðinni. Hún myndi lýsa okkar styrkleikum og veikleikum, helstu tækifærum og fyrirsjáanlegum ógnum og skilgreina mikilvægustu áherslur í hverjum málaflokki. Menntamálum, heilbrigðismálum, orkumálum, efnahagsmálum, auðlindamálum ...
Framtíðarsýn þarf að innifela markmið en ætti ekki að skilgreina leiðir. Að finna leiðina er hlutverk ríkisstjórnar á hverjum tíma.
Ég hef verið að leita að fordæmum frá útlöndum en reyndar ekki fundið mikið. Ótrúlegt hvað framtíðarsýn þjóða er vel falin. En á vef ríkisstjórnar Írlands tókst mér að finna þetta nýlega skjal "Framework for sustainable economic renewal" Í því er fjallað um leið Írlands út úr kreppunni.
Our strategy is to
address the current economic challenges facing the Irish economy by stabilising the
public finances, improving competitiveness, assisting those who lose their jobs, and
supporting Irish business and multinational companies; invest heavily in research and development, incentivise multinational companies to
locate more R&D capacity in Ireland, and ensure the commercialisation and retaining
of ideas that flow from that investment; implement a new green deal to move us away from fossil fuel-based energy
production through investment in renewable energy and to promote the green
enterprise sector and the creation of green-collar jobs; develop first-class infrastructure that will improve quality of life and increase the
competitiveness of Irish business
Það má læra mikið af öðrum þjóðum í þessu efni, en framtíðarsýn Íslands þarf samt að vera okkar eigin og sniðin að okkar aðstæðum og tækifærum.
Skýr framtíðarsýn mun auka trú okkar á eigin framtíð en ekki síður mun hún auðvelda útlendingum að skilja fyrir hvað við stöndum í raun og veru og hvert við stefnum sem þjóð.
Þetta væri stórt skref í því að endurheimta traust og virðingu annarra þjóða.
19.2.2009 | 19:56
Heimsendir í nánd!
Gylfi segir:
Útlit sé fyrir að enginn aðgangur verði að erlendu fjármagni um ókomin ár. Hvort það verði fimm eða tíu ár, viti enginn. Án þess verði engin framtíð
Engin framtíð. Það er eitt af helstu einkennum heimsendis. En er þetta nú ekki aðeins of mikil svartsýni?
Auðvitað er mikilvægt að semja við erlenda lánadrottna, hafa við þá gott samband og rétt hjá Gylfa að vekja athygli á því. En það má nú benda á hvað má betur fara og brýna menn til dáða án þess að hræða alla von úr þjóðinni í leiðinni.
![]() |
Gylfi Zoëga: Svartar horfur á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
14.2.2009 | 19:10
Lýðræðishalli minni í ESB en EES?
María Elivira Mendez Pinedo er doktor og lektor í Evrópurétti við lagadeild Háskóla Íslands. Grein eftir hana "Lýðræðishallinn í EES" birtist á bls 39 í Morgunblaðinu í dag (15. feb). Afstaða Maríu er sú að það sé minni lýðræðishalli í ESB en EES. Það reynist hins vegar við nánari skoðun vera alveg þveröfugt. Ísland myndi þurfa að þola meiri lýðræðishalla innan ESB.
Hvað er lýðræðishalli?
Gagnrýnendur ESB hafa nefnt lýðræðishalla (e. democratic deficit) sem einn af helstu ókostum sambandsins. Með lýðræðishalla er átt við að kjósendur hafi ekki nægileg áhrif á hverjir taka ákvarðanir fyrir þeirra hönd og virðast flestir sammála um að þetta vandamál sé fyrir hendi í ESB.
Er lýðræðishalli í EES?
EES ríki hafa ekki bein áhrif á lagasetningu í ESB en þurfa samt að innleiða lög ESB í vissum málaflokkum. Kjósendur í EES hafa ekki bein áhrif á þá lagasetningu og í því felst vissulega skortur á lýðræði.
María leggur til að Ísland gangi í ESB svo íslenskir kjósendur geti haft meiri áhrif á þau lög sem hér eru innleidd.
Það virðist góð hugmynd í fyrstu, einkum ef maður gleymir að skoða hvaða áhrifum íslenskir kjósendur tapa við að ganga í ESB. María gleymir nefnilega að halda því til haga í sinni grein.
Íslendingar hafa núna fulla lögsögu yfir eigin auðlindum, fiskimiðum, orku, landbúnaði og þurfa ekki að þola neinn lýðræðishalla í þeim málum.
Við inngöngu í ESB myndu áhrif okkar í þessum málefnum hrapa úr 100% í 0.06%. (Íslendingar eru bara 0.3 milljónir eða 0.06% af íbúafjölda ESB sem er 500 milljónir.)
Berum saman áhrif Íslendinga á eigin málefni innan og utan ESB
Utan ESB: Ráðum okkur 100% í sumu og 0% í öðru. Meðaltalið er 50%
Innan ESB: Ráðum okkur 0.06% í sumu og 0.06% í öðru. Meðaltalið er 0.06%
Þetta má eflaust reikna út með meiri nákvæmni en niðurstaðan virðist nokkuð ljós. Við höfum margfallt meiri áhrif á eigin málefni utan ESB. Lýðræðishalli yrði því óhjákvæmlega meiri innan ESB.
Evrópumál | Breytt 15.2.2009 kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.2.2009 | 17:37
Iceasave: Bretar tóku skatta en ekki ábyrgð
Ársæll Valfells er gestapenni Forbes.com í gær. Fyrirsögnin greinarinnar er "Iceland: The land without an economy". Greinin er frábærlega skrifuð og hvet ég alla til að lesa hana. Það sem mér finnst þó merkilegast er fullyrðing Ársæls um að Breska ríkið ætli ekki að tryggja innistæður sinna banka erlendis.
It is interesting that the British Government was quite happy to collect up to 40% tax on the interest income from the IceSave accounts, a privilege the Icelandic Government did not enjoy. The British government collected all the revenue but demanded that the Icelandic taxpayer should absorb the risk. In contrast to this, the U.K. government does not guarantee bank deposits in subsidiaries of a British bank operating in the Isle of Man and Guernsey. Its argument was that the U.K. did not receive tax revenue on those operations.
Ástæðan er semsé sú að fjármagnstekjuskatturinn rann til eyjanna en ekki til Bretlands.
Nú hljótum við að geta beitt sömu vörn á Breta. Fjármagnstekjuskattur af Icesave rann jú allur til Bretlands en ekki til Íslands.
Sjá eldri bloggfærslu um málið: "Eiga Bretar kannski útibú..."
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.2.2009 | 00:51
Vandi + ESB = Enginn vandi ?

"Samningar við Evrópusambandið eru lausn vandans" er titill greinar í Morgunblaðinu sem rituð er af Jóni Baldvin Hannibalssyni. Skoðum röksemdir Jóns Baldvins nánar.
Röksemdir Jóns:
Allur fyrri helmingur greinarinnar fer reyndar í að útskýra vandann og hver séu mikilvægustu úrlausnarefni og leiðir. Jón telur m.a. þörf á að endurskoða aðgerðaáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, lækka vexti en ávítar svo ríkisstjórn harðlega fyrir að "stinga höfðinu í sandinn í ESB málinu". Svo kemur hann að því hvers vegna ESB er eina lausnin:
Samningar við Evrópusambandið um aðild að því og myntsamstarfinu er lykillinn að lausnum á bráðavanda íslensku þjóðarinnar nú þegar. Ástæðan er einföld: Við getum hvorki leyst skuldavandann né gjaldmiðilsvandann ein og sér; við þurfum að semja um hvort tveggja. Samningsvettvangurinn er hjá Evrópusambandinu - allsherjarsamtökum lýðræðisríkja í Evrópu.
(...)
Það verður allt öðru vísi tekið á vandamálum Íslendinga sem verðandi aðildarþjóðar Evrópusambandsins en sem utangarðsþjóðar. Vandamál verðandi aðildarþjóða eru vandamál Evrópusambandsins sem slíks. Evrópusambandið býr yfir ýmsum úrræðum til þess að leysa vanda aðildarríkja af þeim toga sem Íslendingum er nú ofviða að leysa á eigin spýtur. Smæð Íslands skipti hér máli. Upphæðirnar sem um er að ræða eru risavaxnar á mælikvarða 300.000 manna þjóðar en smámunir einir á mælikvarða ríkjabandalags sem telur 500 milljónir manna.
En er ESB alveg örugglega eina lausnin?
Jón Baldvin telur að við getum ekki leyst skuldavandann ein og sér. Auðvitað er rétt hjá honum að við þurfum að semja við kröfuhafa. Kröfuhafar hafa hag af því að okkur takist að borga þeim. Það þarf enga aðild að ESB til að þeir samningar klárist. Það er líka ósannað að ESB aðild skili "ókeypis" niðurfellingu skulda í sjálfu sér. Allt kostar.
Jón Baldvin fullyrðir líka að við getum ekki leyst gjaldmiðilsvandann án ESB. En það ekki rétt því við höfum marga valkosti í gjaldmiðilsmálum. Allir valkostir í þeim efnum hafa sína ókosti, líka evran.
Allir vita að jafnvel hraðafgeiðsla umsóknar myndi taka 2 ár hið minnsta. Evran fengist töluvert síðar. Jón Baldvin gerir sér grein fyrir þessu en gefur sér að það eitt skili miklu að setja stefnuna.
Hvað kostar svo ESB lausnin? Hvað vill ESB fá fyrir að stytta afplánun Íslendinga í sjálfskaparvítinu. Hverju telur Jón Baldvin rétt að fórna? Greinin kemur ekki inn á það.
Hvað ef þjóðin er ekki tilbúin?
Þjóðin er klofin í afstöðu sinni til ESB og hún þyrfti tíma til að komast að niðurstöðu. Að rjúka í þetta mál núna myndi kljúfa þjóðina, flokka og þingheim og draga óhemju mikið afl úr okkur - einmitt þegar við þurfum að standa saman og hafa fulla einbeitingu við að greiða úr vandanum.
Evrópumál | Breytt 9.2.2009 kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.2.2009 | 01:05
Staða Íslands innan ESB árið 2014, 2020 og 2100

Segjum nú að Ísland gangi í ESB. Hvernig myndi okkur farnast í bráð og lengd? Þetta þarf að skoða dáldið og sérstaklega langtímahorfur, því aðild að ESB er hugsuð til langframa.
Beðið eftir evru: til 2014
Haft er eftir Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál ESB, að Ísland gæti fengið flýtimeðferð og komið inn í ESB árið 2011. Hans-Gert Pöttering, forseti Evrópuþingsins er ósammála og fullyrðir að þetta sé alls ekki rétti tíminn til að huga að stækkun sambandsins. Fyrst þurfi aðildarlöndin 27 að fjalla um Lissabon sáttmálann.
Líklega er raunhæft að innganga taki okkur 3 ár hið skemmsta. Þá tekur við 2 ára bið eftir Evrunni, en bara ef okkur tekst að halda gengi krónunnar stöðugu gagnvart Evru.
Næstu 3-5 ár verða líklega jafn erfið hvort sem við sækjum um aðild eða ekki.
Hunangstunglið: 2014-2020
Evran er loksins okkar. Stöðugur og traustur gjaldmiðill en óvæginn ef efnahagur Íslands fer úr fasa við ESB.
Hafi okkur á annað borð tekist að semja um einhverjar undanþágur frá sameiginlegri fiskveiðistefnu og milljarða framlagi til sjóða bandalagsins þá gæti þetta verið góður tími fyrir Ísland.
Ef allt fer vel gæti þetta tímabil einmitt verið sú gósentíð sem fjölskyldur og fyrirtæki landsins vonast eftir. Því miður treysta fæstir sér til að skyggnast lengra.
Næstu áratugir 2020-2100
Til langs tíma er óvarlegt að treysta því að sérákvæði Íslands um undanþágur frá grundvallarstefnu sambandsins um sameiginlega stjórnun auðlinda haldist. Alls kyns aðstæður og uppákomur geta leitt til þess að við kjósum að sætta okkur við niðurfellingu á þeim þegar á reynir.
Þróun Evrópusambandsins hefur hingað til verið í átt til sífellt meiri samræmingar og miðstýringar. Sú þróun er knúin áfram af þörf fyrir aukna hagkvæmni og eflingu viðskipta en einnig af náttúrulegri leitni valds til að safnast upp. Þessi þróun er líkleg til að halda áfram og ná til sífellt fleiri málaflokka þar á meðal skatta- og varnarmála. Lissabon sáttmálinn er t.d. skref í þá átt.
Sumir óttast (og aðrir vona) að ESB þróist í nokkurskonar Bandaríki Evrópu. Þá er ljóst að Ísland verður ekki lengur "stórasta land í heimi" heldur fjarlægur og kannski óspennandi hluti af miklu stærra bákni.
Svo er erfitt að sjá hvernig Ísland getur til lengri tíma skotið sér undanþví að leggja fé og mannskap til varnarmála Evrópu eða hernaðaraðgerða.
Jæja...
Einhver niðurstaða með framtíð Íslands innan ESB?
Það virðist alveg víst að hvort sem við göngum til samninga eða ekki verðum við að koma okkur á réttan kjöl af eigin rammleik.
Við verðum líklega búin með það versta þegar okkur er hleypt inn í ESB. Áratugurinn eftir það verður miklu betri en erfiðleikaárin. Líklega ágætur ekki síst ef samningar hafa tekist vel.
Til lengri tíma litið munu nýjir leiðtogar koma og fara hjá ESB. Það fjarar undan sérákvæðum. Bregðast þarf við ógnum og óvæntum aðstæðum. Getum við ætlast til að hagsmunir smáþjóðar í norðri ráði miklu ef á reynir? Líklega ekki.
Er þetta kannski of mikil svartsýni? Þeir sem telja rétt að ganga í ESB hljóta að hafa allt aðra sýn á framtíðina og vonandi bjartari. Gaman væri að heyra frá þeim.
Evrópumál | Breytt 9.2.2009 kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
4.2.2009 | 23:20
Norska krónan - Kostir og gallar
Steingrímur J. Sigfússon hefur verið talsmaður þess að Ísland leiti til Norðmanna um myntsamstarf. Hvað ef Norðmenn væru til í þetta? Hverjir væru kostir og gallar. Á norska krónan framtíð?
Nógu stór?
Þótt norska krónan sé smámynt miðað við evru og dollar er hún samt 25 sinnum stærri en íslenska krónan. (Miðað við verga landsframleiðslu). Seðlabanki Noregs virðist vera starfi sínu vaxinn og það skiptir ef til vill meira máli en stærð gjaldmiðilsins.
Í takt?
Það er margt skylt með Íslandi og Noregi. Mikil haf- og landsvæði, einkum miðað við íbúatölu, fengsæl fiskimið, umframorka og orku- útflutningur, lagaumhverfi EES, þjóðartekjur á mann með því hæsta sem þekkist og hátt mennta og atvinnustig og pólitík. Þessi lönd eru á ýmsan hátt ólík Evrópu sem hefur barist við viðvarandi hátt atvinnuleysi, á fremur lítil haf- og landsvæði á íbúa og þarf að flytja inn mest af sinni orku.
Hagkerfi Noregs og Íslands eru að mörgu leyti í takt sem er kostur. Það skyggir aðeins á að Noregur flytur út olíu og verðsveiflur á olíumarkaði geta haft áhrif á gengi norsku krónunnar.
Á heildina litið finnst mér líklegra að Ísland verði oftar í takt við Noreg en Evrópu. Einnig gætu Íslendingar haft meiri áhrif á ákvarðanatöku í myntsamstarfi við Noreg en Evrópu ef mikið lægi við.
Framtíðarlausn?
Það hafa ekki komið fram rök gegn því að myntsamstarf við Noreg geti verið langtímalausn fyrir Ísland. Viðskiptaráðherra hefur að vísu látið þá skoðun í ljós að hann telji ekki framtíð í slíku samstarfi, en ekki fært nánari rök fyrir þeirri skoðun opinberlega.
Hafa Norðmenn hag af samstarfi?
Norðmenn væru að taka vissa áhættu en þó ekki mikla, þar sem Ísland væri ekki nema 4% viðbót. Þeir þyrftu að hafa okkur með í ráðum og kosta ýmsu til við lagagerð og breytingar.
Norðmenn gætu hinsvegar viljað hafa Ísland áfram með sér í EES. Núna er raunveruleg hætta á að Ísland gangi í skyndingu og allt of veikt til samninga við Evrópusambandið. Það myndi ekki þjóna hagsmunum Noregs. Samningsstaða Noregs við Evrópusambandið yrði verri. Ekki bara vegna þess að samningar við Ísland væru slæmt fordæmi heldur einnig vegna þess að fiskimið, auðlindir og lögsaga Íslands væru innan bandalagsins.
Samanburður við aðrar lausnir
Myntsamstarf við Noreg er margfalt ódýrari kostur en einhliða upptaka myntar eða myntráð. Traustara og vonandi ódýrara en að halda úti eigin gjaldmiðli. Vegna skyldleika hagkerfa gæti myntsamstarf við Noreg verið betri langtímalausn en Evra.
Niðurstaða?
Ef Norðmenn bjóða okkur til myntsamstarfs þá held ég að við ættum að þiggja það.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)