Staða Íslands innan ESB árið 2014, 2020 og 2100

Spákúla

Segjum nú að Ísland gangi í ESB. Hvernig myndi okkur farnast í bráð og lengd? Þetta þarf að skoða dáldið og sérstaklega langtímahorfur, því aðild að ESB er hugsuð til langframa.

Beðið eftir evru: til 2014

Haft er eftir Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál ESB, að Ísland gæti fengið flýtimeðferð og komið inn í ESB árið 2011. Hans-Gert Pöttering, forseti Evrópuþingsins er ósammála og fullyrðir að þetta sé alls ekki rétti tíminn til að huga að stækkun sambandsins. Fyrst þurfi aðildarlöndin 27 að fjalla um Lissabon sáttmálann.

Líklega er raunhæft að innganga taki okkur 3 ár hið skemmsta. Þá tekur við 2 ára bið eftir Evrunni, en bara ef okkur tekst að halda gengi krónunnar stöðugu gagnvart Evru.

Næstu 3-5 ár verða líklega jafn erfið hvort sem við sækjum um aðild eða ekki.

Hunangstunglið: 2014-2020

Evran er loksins okkar. Stöðugur og traustur gjaldmiðill en óvæginn ef efnahagur Íslands fer úr fasa við ESB.

Hafi okkur á annað borð tekist að semja um einhverjar undanþágur frá sameiginlegri fiskveiðistefnu og milljarða framlagi til sjóða bandalagsins þá gæti þetta verið góður tími fyrir Ísland.

Ef allt fer vel gæti þetta tímabil einmitt verið sú gósentíð sem fjölskyldur og fyrirtæki landsins vonast eftir. Því miður treysta fæstir sér til að skyggnast lengra. 

Næstu áratugir 2020-2100

Til langs tíma er óvarlegt að treysta því að sérákvæði Íslands um undanþágur frá grundvallarstefnu sambandsins um sameiginlega stjórnun auðlinda haldist.  Alls kyns aðstæður og uppákomur geta leitt til þess að við kjósum að sætta okkur við niðurfellingu á þeim þegar á reynir.

Þróun Evrópusambandsins hefur hingað til verið í átt til sífellt meiri samræmingar og miðstýringar. Sú þróun er knúin áfram af þörf fyrir aukna hagkvæmni og eflingu viðskipta en einnig af náttúrulegri leitni valds til að safnast upp. Þessi þróun er líkleg til að halda áfram og ná til sífellt fleiri málaflokka þar á meðal skatta- og varnarmála. Lissabon sáttmálinn er t.d. skref í þá átt.

Sumir óttast (og aðrir vona) að ESB þróist í nokkurskonar Bandaríki Evrópu. Þá er ljóst að Ísland verður ekki lengur "stórasta land í heimi" heldur fjarlægur og kannski óspennandi hluti af miklu stærra bákni.

Svo er erfitt að sjá hvernig Ísland getur til lengri tíma skotið sér undanþví að leggja fé og mannskap til varnarmála Evrópu eða hernaðaraðgerða.

Jæja...

Einhver niðurstaða með framtíð Íslands innan ESB?

Það virðist alveg víst að hvort sem við göngum til samninga eða ekki verðum við að koma okkur á réttan kjöl af eigin rammleik.

Við verðum líklega búin með það versta þegar okkur er hleypt inn í ESB. Áratugurinn eftir það verður miklu betri en erfiðleikaárin. Líklega ágætur ekki síst ef samningar hafa tekist vel.

Til lengri tíma litið munu nýjir leiðtogar koma og fara hjá ESB. Það fjarar undan sérákvæðum. Bregðast þarf við ógnum og óvæntum aðstæðum. Getum við ætlast til að hagsmunir smáþjóðar í norðri ráði miklu ef á reynir? Líklega ekki.

Er þetta kannski of mikil svartsýni? Þeir sem telja rétt að ganga í ESB hljóta að hafa allt aðra sýn á framtíðina og vonandi bjartari. Gaman væri að heyra frá þeim.


 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Því má bæta við að í fyrirlestri nýskipaðs viðskiptaráðherra á vef HÍ, telur hann möguleika á því að við yrðum gjaldþrota á því að taka upp efru vegna tröllaukins kostnaðar við slíka aðgerð.  Það held ég að megi koma inn í umræðuna. Hvað kostar það þjóðarbúið beint að taka upp evru burtséð frá öllu því sem við þurfum að deila með sambandslöndunum möglunarlaust í auðlindum og sjálfstjórn. (Nefni m.a. að við yrðum að sætta okkur við hugsanlegt tvöfalt réttarkerfi með sharía lögum, eins og nú er orðið fakta auk ótal sturlaðra rétthugsunarákvæða og málfrelsishafta)

Jón Steinar Ragnarsson, 6.2.2009 kl. 01:13

2 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Jón, var hann ekki tala um kostnað við einhliða upptöku evru?

Slík aðgerð væri mjög kostnaðarsöm. Mér skilst að innganga í myntbandalagið sé hinsvegar aðallega tímafrek en ekki mjög kostnaðarsöm þar sem Seðlabanki Evrópu myndi kaupa upp Íslenska mynt og seðla á fyrirfram ákveðnu gengi.

Frosti Sigurjónsson, 6.2.2009 kl. 02:00

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

Frosti erum við ekki að horfa upp á svipuð dæmi dags daglega.
Lítil bílskúrsfyrirtæki eru stofnuð af eldhugum, sem eru reiðubúnir að vinna lagna vinnudaga (Ísland ?) til að upplifa sjáfstæðan atvinnurekstur og vera sínir eigin herrar. Á hugviti og verkþekkingu (Ísland:upphaflega mest sjávarútvegur og núna þekkingariðnaðurinn) stækkar fyrirtækið og velta eykst. Stærra fyrirtæki (ESB) sínir þessu litla áhuga. Sameiningarviðæður hefjast og markaðstækifæri stóra fyrirtækisins (engir tollamúrar) eru mærðir og samlegðaráhrif í rekstri (sameiginleg landbúnaðar- og sjávarútvegstefna...ódýrari matvara í verslunum) eru taldar öllum kostum æðri. Starfsmannafélagið (tækifæri fyrir listamenn) sýnir dagskrá síðasta árs og lofar góðri skemmtan á því næsta.
Sameining er ákveðin.
Hagræðing í rekstri hefst (stjórnsýsla færist héðan í auknum mæli... fjarlægðin eykst). Eldhúsin eru sameinuð (stórar erlendar verslunarkeðjur eignast smásölu á Íslandi). Þjónustudeildir sameinast (íslenskir bankar hverfa inn í erlenda). Frumherjarnir færast inn í aðrar deildir (íslenskt hugvit og frumkvöðlaandi) fyrst sem deildarstjórar. Vöruflóran rennur saman við úrval stærra fyrirtækisins (Spænskir og skoskir sjómenn fara að veiða við Íslandsstrendur og hugvit færist hægt en örugglega úr landi). Tiltrú starsmanna smærra fyrirtækisins á glansmyndinni minnkar, framtíðarhorfur virðast ekki jafn miklar (barnseignum á Íslandi fækkar).
Einsleitt fyrirtæki er fætt...margir eldri starfsmenn litla fyrirtækisins keyra stundum framhjá bílsskúrnum á sunnudögum og horfa langandi augum til eldri tíma (íslendingar munu koma í ferðir með börnin sín og barnabörn á sumrin ti að heimsækja gamla landið...héðan komuð þið...sagt á þýsku eða frönsku).
Hver sigraði ?

Haraldur Baldursson, 6.2.2009 kl. 08:05

4 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það verður engu við færslu Haraldar bætt. Þakka þér.

Ragnhildur Kolka, 6.2.2009 kl. 08:23

5 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Haraldur:
Nákvæmlega!

Hjörtur J. Guðmundsson, 6.2.2009 kl. 09:15

6 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Haraldur,

Þakka þér fyrir þessa snilldar athugasemd!

Frosti Sigurjónsson, 6.2.2009 kl. 09:38

7 Smámynd: Haraldur Baldursson

Kæra þökk öll fyrir jákvæð ummæli...alltaf best að tilla sér á axlir risa, þegar maður vill skyggnast fram á við. Grein þín Frosti kitlaði fram þessa þanka sem eftir á voru meira augljósir en fyrirfram.

Haraldur Baldursson, 6.2.2009 kl. 14:52

8 Smámynd: Þorleifur Magnús Magnússon. ( Brói )

Mér finnst þessi uppsetning ekki fjarri lagi og er alfarið á móti því að við setjum okkur inn í þetta samband. Við gætum náð hagstæðari samningum með Canada eða Noregi og komið okkur í betri stöðu með nýrri mynnt. Mér finnst blóðsugu fnykur af ES, ég veit að við erum búin að vera að dansa frjálsan dans við þá í áravís, en öll þessi ríki, bretland, frakkland, þýskaland, osf munu ekki hika við að troða á okkur við minnsta tækifæri. Sjáiði bretana.! Hugsum þetta vel og kallt, kannski heitt líka, og eins og fjölskyldu maður hugsar, hvað er best fyrir börnin mín.! Áfram Ísland.!

Þorleifur Magnús Magnússon. ( Brói ), 6.2.2009 kl. 19:13

9 identicon

Góðar umræður hér.

En af hverju virðast umræður um ESB og okkar framtíðarskipan peningamála reikna með alherjarlausn á tilveru okkar í þeim efnum?.  Enginn hefur dottið um hana svo vitað sé.  Hvort sem við göngum í ESB eða ekki munum við alltaf standa frammi fyrir því að ráða fram úr okkar málum sjálf.  Okkar tilvera ræðst af okkar hæfileikum til að að ráða okkar málum sjálf og mun alltaf gera, hvort sem við erum í ESB eða ekki,.  Þrátt fyrir erfiðleika sem við höfum þurft að takast á við í gegnum tíðina ( sem aðrar þjóðir hafa líka þurft að gera, virðist of gleymast í umræðunni,) vinnum við okkur út úr þeim.

itg (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 20:58

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ísland gæti einnig reynt að ganga í Ísland eftur. Semja við sig sjálfa.

Þið gleymduð þó einu: ESB verður löngu orðið gjaldþrota fyrir árið 2050. Nema náttúrlega að hinn hái meðalaldur hins efnahagslega öryrkjabandalags Evrópu geti tryggt þeim að þeir fái að kjósa sig til mikilla auðæfa annarra, fljótt. Ég er elstur og því ræð ég.

Í millitíðinni, já, þá hættu öll íslensk dagblöð að koma út. Þó er mogganum dreift einusinni í viku á öllum 12 bensínstöðvum um allt land og einnig í einu matvöruverslun Íslands um allt land. Union Tribune kemur svo út einu sinni í mánuði og er mest lesið af eldra Samfylkingarfólki því þar er 1/4 síða á Íslensku aftast í blaðinu. Kommissjónin gefur þetta blað út. Það kemur því alltaf út á réttum tíma

Au revoir

Kommmissar

Ímat Úrmat

Brussels

Gunnar Rögnvaldsson, 6.2.2009 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband