Norska krónan - Kostir og gallar

norska kronanSteingrímur J. Sigfússon hefur verið talsmaður þess að Ísland leiti til Norðmanna um myntsamstarf. Hvað ef Norðmenn væru til í þetta? Hverjir væru kostir og gallar. Á norska krónan framtíð?

Nógu stór?

Þótt norska krónan sé smámynt miðað við evru og dollar er hún samt 25 sinnum stærri en íslenska krónan. (Miðað við verga landsframleiðslu). Seðlabanki Noregs virðist vera starfi sínu vaxinn og það skiptir ef til vill meira máli en stærð gjaldmiðilsins.

Í takt?

Það er margt skylt með Íslandi og Noregi. Mikil haf- og landsvæði, einkum miðað við íbúatölu, fengsæl fiskimið, umframorka og orku- útflutningur, lagaumhverfi EES, þjóðartekjur á mann með því hæsta sem þekkist og hátt mennta og atvinnustig og pólitík. Þessi lönd eru á ýmsan hátt ólík Evrópu sem hefur barist við viðvarandi hátt atvinnuleysi, á fremur lítil haf- og landsvæði á íbúa og þarf að flytja inn mest af sinni orku.

Hagkerfi Noregs og Íslands eru að mörgu leyti í takt sem er kostur. Það skyggir aðeins á að Noregur flytur út olíu og verðsveiflur á olíumarkaði geta haft áhrif á gengi norsku krónunnar.

Á heildina litið finnst mér líklegra að Ísland verði oftar í takt við Noreg en Evrópu. Einnig gætu Íslendingar haft meiri áhrif á ákvarðanatöku í myntsamstarfi við Noreg en Evrópu ef mikið lægi við.

Framtíðarlausn? 

Það hafa ekki komið fram rök gegn því að myntsamstarf við Noreg geti verið langtímalausn fyrir Ísland. Viðskiptaráðherra hefur að vísu látið þá skoðun í ljós að hann telji ekki framtíð í slíku samstarfi, en ekki fært nánari rök fyrir þeirri skoðun opinberlega.

Hafa Norðmenn hag af samstarfi?

Norðmenn væru að taka vissa áhættu en þó ekki mikla, þar sem Ísland væri ekki nema 4% viðbót. Þeir þyrftu að hafa okkur með í ráðum og kosta ýmsu til við lagagerð og breytingar. 

Norðmenn gætu hinsvegar viljað hafa Ísland áfram með sér í EES. Núna er raunveruleg hætta á að Ísland gangi í skyndingu og allt of veikt til samninga við Evrópusambandið. Það myndi ekki þjóna hagsmunum Noregs. Samningsstaða Noregs við Evrópusambandið yrði verri. Ekki bara vegna þess að samningar við Ísland væru slæmt fordæmi heldur einnig vegna þess að fiskimið, auðlindir og lögsaga Íslands væru innan bandalagsins.

Samanburður við aðrar lausnir

Myntsamstarf við Noreg er margfalt ódýrari kostur en einhliða upptaka myntar eða myntráð. Traustara og vonandi ódýrara en að halda úti eigin gjaldmiðli. Vegna skyldleika hagkerfa gæti myntsamstarf við Noreg verið betri langtímalausn en Evra.

Niðurstaða?

Ef Norðmenn bjóða okkur til myntsamstarfs þá held ég að við ættum að þiggja það.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Við fórum sem mótmælendur frá Noregi og héldum sjálfstæði til 1262. Síðustu árin þar á undan var kreppa á Íslandi og kólnandi veðurfar. Snorri Sturluson missti eitt sinn hundrað stórgripi í einu óveðri á Svignaskarði. Íslenskir höfðingjar voru farnir að láta Noregskonung leysa innanríkisdeilur, líkt og dómstólar erlendis gera nú í vissum málum.

1262 gátu Íslendingar ekki lengur smíðað skip, voru búnir að eyða skógum landsins en voru upp á samskipti við aðrar þjóðir komnir, rétt eins og nú.

Þá hlupum við í fang Norðmanna eftir hjálp og í Gamla sáttmála var sérstakt ákvæði um að Noregskonungur tryggði skipaferðir til landsins.

Landsmenn voru nógu klókir til að gera þennan samning við Noregskonung einan sem persónu og valdsmann. Það skóp grunninn undir málatilbúnaði Jóns Sigurðssonar.

Við gættum þess vandlega alla tíð að verða ekki að hluta norska ríkisins eða hins danska heldur aðeins í persónusambandi við konunga þessara ríkja.

1380 fórum við síðan aftur að heiman en í þetta skipti var okkur rænt af Dönum og þar bjuggum við hjá danska kónginum til 1944.

1262 vantaði okkur frið innanlands og trygg tengsl við umheiminn. 2009 vantar okkur aftur það sama. Ef við fáum þetta tvennt hjá Noregskonungi má segja að sagan hafi farið í hring og að litli bróðir sé kominn heim eftir að hafa farið tvisvar að heiman.

Ómar Ragnarsson, 5.2.2009 kl. 00:07

2 identicon

Sæll Frosti og þakka þér fyrir góðan pistil.

Ég er sammála þér í þessu máli. Ég vona að Steingrímur geti komið þessu máli af stað nógu vel til þess að úr verði raunverulegur möguleiki eftir kosningar.

Varðandi afstöðu Viðskiptaráðherra þá er hann augsýnilega ESB maður og sér fyrst og fremst ljósið í umsókn. Hans rök eru þau að strax og sótt er um skili það sér með mjög jákvæðum hætti. Ég hef litla trú á því.

En hann færði engin rök gegn myntsamstarfi við Noreg og stakk þetta mig líka.

Aftur á móti sá ég myndband á vef HÍ þar sem hann er með stuttan fyrirlestur um efnahagskreppuna og gjaldmiðilsmálin. Þar fer hann fremur flausturslega yfir þessa möguleika; Einhliða upptöku Evru eða dollar, myntsamstarf, aðild að ESB ect. Þar er augljóst að hann hefur verið fenginn í samstarf við stjórnina sökum áhuga síns á ESB aðild.

Mér þykir NOK með samstarfi við Norska Seðlabankann vera draumalausn í rauninni.

Tenging eða myntslátturáð hefur ekki gengið vel og langar mig ekki til að reyna það. Það kom mér á óvart að Beuter skyldi benda á þann möguleika að binda gengi krónunnar við danska krónu sem er bundin við Evru. Líklega ein súrasta hugmynd sem ég hef heyrt.

Við nánari athugun kom í ljós að Bauter var fyrst og fremst að tala fyrir ESB aðild. Það er erfitt fyrir fólk almennt að sjá í gegnum hina ýmsu ráðgjafa sem fluttir eru til landsins til skrafs og ráðagerða. Með fullri virðingu þá verðum við að átta okkur á því hvernig ráðgjöf er sóst eftir.

Ef að við fáum einn af lykilmönnum úr Evrópska fjármálakerfinu hingað í ráðgjöf þá er eðlilegt að hann veiti ráðgjöf sem inniheldur umsókn um aðild að ESB. Ef við fáum Daniel Gros hingað þá mun hann segja okkur að taka upp Evru einhliða. Ekkert óeðlilegt við það. Sama með Manuel Hinds sem mun segja okkur að taka upp dollar geri ég ráð fyrir.

Það sem ég er að segja er að það verður að koma til sjálfstæð hugsun á endanum. Mér hugnast þessi hugmynd Steingríms. Ég vona að hann lendi þessu og Samfylkingarmenn grafi ekki þessar umleitannir

sandkassi (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 00:17

3 identicon

Góð samantekt Frosti. Ég er sammála ykkur Steingrími í þessu og erum við (a.m.k. ég og Steingrímur) nú ekki sammála um margt :)

Mesta ógnunin við að þetta geti orðið að veruleika er auðvitað pólitískur vilji Norðmanna, sem ég held að muni á endanum koma í veg fyrir að okkur bjóðist þessi kostur. Við verðum þess vegna að búa sem albest í haginn fyrir þann möguleika að við þurfum að halda í Íslensku krónuna (eða annan sjálfstæðan gjaldmiðil) a.m.k. næstu árin.

Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 01:03

4 identicon

Myntbandalag við Noreg eða upptaka Dollars eru álitlegir kostir og auðvitað eðlilegt að reyna fyrst við nágrannana.  Því styð ég umleitan Steingríms.  Við megum þó ekki gleyma góðum undirstöðum atvinnulífs á Íslandi og verði fiskveiðistjórnunarkerfinu breytt svo samfélagið njóti mun krónan okkar styrkjast og þá getum við selt okkur dýrar komi til þess.

lydur arnason (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 03:43

5 Smámynd: Haraldur Baldursson

Kæra Frosti.
Þvert á herferð gegn íslensku krónunni þá er staðreyndin þó sú að hún varðveitir störf.
Sjómenn og útgerðamenn í Noregi eru í vanda vegna hríðfallandi fiskverðs í heiminum (helst mjög í hendur við olíuverð), Rio-Tinto hefur víðast sagt upp fólki vegna fallandi álverðs (helst líka mjög í hendur við olíuverð), en ekki á Íslandi, Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga er ein fárra sem næg hefur verkefnin, fjöldamörg íslensk framleiðslufyrirtæki eru með gríðarleg verkefni ....öllum þessum störfum bjargar króna....við erum samkeppnisfærari fyrir vikið að launakostnaður er það miklu lægri en hann var. Áhrifa þess að heimsmarkaður...fyrir nánast allar vörur er að minnka. Við hins vegar þolum lækkað verð á mörkuðum betur en ella sökum þess að öll þjóðin er að taka á sig launalækkun, með því að íslenska krónan aðlagar sig að þörfum okkar. Við erum því í raun afar heppinn að geta notið eigin gjaldmiðils.

Skuldsettum fyrirtækju gengur illa...skuldsettum heimilum gengur illa... Sumum verður illa hægt að bjarga úr skuldafeninu. Öðrum mun ganga illa og eiga erfitt, en með auknum útflutningi, sem umfram allt er mögulegur vegna lækkaðs framleiðslukostnaðar, vegna lækkaðrar krónu, mun krónan leiðrétta sig að nýju. Staða húsnæðislána mun batna, ef króna styrkist og verðlag lækkar þá er tilfellið það að verðbætur ganga tilbaka. Vissulega er það sjaldgæft, en forsendan er lækkað verðlag, sem mun skila sér með styrkingu krónunar. Bati gengistryggðra lána skilar sér þá enn hraðar, því þar er ekki eins og í tilfelli verðtryggðra lána um hlaupandi meðaltalsáhrif innbyggð.

Haraldur Baldursson, 5.2.2009 kl. 09:18

6 identicon

Það er rétt að upptaka annars gjaldmiðils myndi ekki hugnast erlendum aðilum í áliðnaðinum sem dæmi þar sem að launakostnaður og tengdur kostnaður myndi hækka.

Það þíðir samt ekki að við séum heppin að eiga þennann hjaldmiðil Haraldur. Það þíðir einungis það að við erum að byggja okkar hagkerfi upp samkvæmt þessum forsendum.

Annars er launakostnaður tiltölulega lágt hlutfall í álframleiðslu. Einnig er það ekki til góðs að rekstrarfé Álfyrirtækjanna sem dæmi skuli bara ekki færast að neinu leyti hér á landi. Aukið flæði fjármagns í gegnum hagkerfið væri gott mál. Það mun ekki gerast með ISK.

Færslur verða eins og hingað til framkvæmdar erlendis.

Síðan eru það þessi venjulegu rök með krónunni að hægt sé að stýra peningamagni í umferð. Hægt er að festa gengið og fella það ect.

Þetta kerfi virkar ekki fyrir svona lítið hagkerfi. Á fastgengistímabilum er gengið aldrei fellt á réttum tíma heldur vikum og mánuðum eftir að raungengisfellingin hefur átt sér stað.

Stýrivaxtaleiðin er verri í okkar tilfelli þar sem að þeir eru allt of háir. Því er ekki hægt að tala um að krónan hafi nokkurn tíman verið sett á flot.

Slík stefna er almennt talin verri en engin og er þá betra að taka upp erlendan sterkan gjaldmiðil og aðlaga hagkerfið á eðlilegan hátt stöðugum gjaldmiðli frekar en hitt.

sandkassi (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 13:24

7 Smámynd: Haraldur Baldursson

Kæri Gunnar.

Hljómar yndislegt og einfalt hjá þér. Ég er samt ekki viss um að Írland, Spánn, Grikkland, eða Ítalía hoppi brosandi á rök þín. Ekkert þesara landa hefur nokkurt svigrúm til leiðréttingar á rándýrum útflutningi sínum. Auk þess sem fullyrðing þín um launakosntað er hreinlega röng. Þetta er verulegur factor í rekstri stóriðju. Ef við værum með Evru, Norkar-Krónur eða Dollar, værum við ekki að horfa upp á samdrátt hjá útgerðinni, við værum að sjá hrun. Það má lengi hræra í kaffibollunum og hafa skoðanir á þessu, en krónan er í raun að halda lífi í þessum atvinnugreinum og þær í okkur. Það er slæmt ef menn vilja rökræða líflínu okkar í sundur með einhverri handanhyggju um einhverja græna grasbala sem ekkert...ekkert geta gert fyrir okkur núna.

Haraldur Baldursson, 5.2.2009 kl. 14:02

8 identicon

Nú erum við að tala um Ísland.

Sjávarútvegurinn myndi samt ekki hrynja þó skipt yrði yfir í Norska krónu hér á landi. LÍÚ hefur sterklega óskað eftir því að hér verði tekinn upp ný gjaldmiðil. Þannig að ég verð að vísa þessu heim til föðurhúsa.

Varðandi hlutfall launa í Álframleiðslu þá er gengishagnaður þessara fyrirtækja af krónu ekki það mikill á móti heildarafkomu að það eigi að breyta miklu. Því er fullyrðing þín röng:).

Annars þætti mér gaman að fá að heira frá þér rekstrartölur þessara fyrirtækja og hve stór hluti er launakostnaður. Það vill svo til að umfang erlends gjaldmiðils í "innanlandsviðskiptum" liggur ekki frammi og engar tölur lagðar fram um það efni hvorki á hagstofu eða Seðlabankanum.

Nei þetta hljómar ekki einfalt þótt það sé sett fram á mannamáli Haraldur, það er í raun ekkert einfalt við þetta.

sandkassi (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 14:59

9 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Þetta er ágæt grein hjá þér Frosti, en samt má finna hjá þér alvarlegar villur. Þú segir:

Myntsamstarf við Noreg er margfalt ódýrari kostur en einhliða upptaka myntar eða myntráð. Traustara og vonandi ódýrara en að halda úti eigin gjaldmiðli.

Það er dýrt að taka upp erlendan gjaldmiðil, nema því aðeins að úgáfuland myntarinnar gefi okkur myntina ! Við þurfum sem samsvarar 30 milljörðum Íslendskra Króna. Ætlum við að biðja Norðmenn að gefa okkur þessa peninga og viðhaldi þeirra um alla framtíð ?

Það sem þú ert að tala um Frosti er myntsamstarf með Norvegi og segir réttilega, að það er (líklega) ódýrara en einhliða upptaka gjaldmiðils. Hins vegar gætu komið upp alvarlegir samstarfs-erfiðleikar, til dæmis varðandi peningamagn og stýrivexti. Þessi vankvæði eru öll tengd því að bæði löndin eru með seðlabanka og reka torgreinda peningastefnu (discretionary monetary policy).

Myntráð hins vegar er ódýrasti og einfaldasti kostur sem við eigum völ á. Þá gefum við út okkar eigin gjaldmiðil og bakstyðjum hann með US Dollurum eða Norskri Krónu. Stoðmyntin (anchor currency) er að mestu í vinnu erlendis, þannig að kostnaður er lítill. Myntráðið er einnig mannfátt og við niðurlagningu Seðalabankans sparast mikið.

Að líkindum eru hagsveiflur í Bandaríkjunum líkari okkar, en hagsveiflur í Norvegi. Þetta þyrfti samt að athuga, því að samræmi hagsveiflna er eitt þeirra atriða sem eiga að ráða hvaða gjaldmiðill er notaður sem stoðmynt. Þetta er þó alls ekki eina atriðið og má benda á að USD er eina alþjóðlegi gjaldmiðillinn og við upptöku Íslendsks Dals, sem gefinn væri út af myntráði, munu öll okkar utanríkisviðskipti verða í US Dollurum og við njóða hagræðis í viðskiptum, af að vera hluti af stærsta gjaldmiðils-svæði heims.

Loftur Altice Þorsteinsson, 5.2.2009 kl. 16:12

10 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Það hefur slegið saman málsgreinum. Ég reyni að laga það.

 ><><><

Þetta er ágæt grein hjá þér Frosti, en samt má finna hjá þér alvarlegar villur. Þú segir:

Myntsamstarf við Noreg er margfalt ódýrari kostur en einhliða upptaka myntar eða myntráð. Traustara og vonandi ódýrara en að halda úti eigin gjaldmiðli.

Það er dýrt að taka upp erlendan gjaldmiðil, nema því aðeins að úgáfuland myntarinnar gefi okkur myntina ! Við þurfum sem samsvarar 30 milljörðum Íslendskra Króna. Ætlum við að biðja Norðmenn að gefa okkur þessa peninga og viðhaldi þeirra um alla framtíð ?

Það sem þú ert að tala um Frosti er myntsamstarf með Norvegi og segir réttilega, að það er (líklega) ódýrara en einhliða upptaka gjaldmiðils. Hins vegar gætu komið upp alvarlegir samstarfs-erfiðleikar, til dæmis varðandi peningamagn og stýrivexti. Þessi vankvæði eru öll tengd því að bæði löndin eru með seðlabanka og reka torgreinda peningastefnu (discretionary monetary policy).

Myntráð hins vegar er ódýrasti og einfaldasti kostur sem við eigum völ á. Þá gefum við út okkar eigin gjaldmiðil og bakstyðjum hann með US Dollurum eða Norskri Krónu. Stoðmyntin (anchor currency) er að mestu í vinnu erlendis, þannig að kostnaður er lítill. Myntráðið er einnig mannfátt og við niðurlagningu Seðalabankans sparast mikið.

Að líkindum eru hagsveiflur í Bandaríkjunum líkari okkar, en hagsveiflur í Norvegi. Þetta þyrfti samt að athuga, því að samræmi hagsveiflna er eitt þeirra atriða sem eiga að ráða hvaða gjaldmiðill er notaður sem stoðmynt. Þetta er þó alls ekki eina atriðið og má benda á að USD er eina alþjóðlegi gjaldmiðillinn og við upptöku Íslendsks Dals, sem gefinn væri út af myntráði, munu öll okkar utanríkisviðskipti verða í US Dollurum og við njóða hagræðis í viðskiptum, af að vera hluti af stærsta gjaldmiðils-svæði heims.

Loftur Altice Þorsteinsson, 5.2.2009 kl. 16:15

11 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Loftur,

Þakka þér fyrir að leiðrétta þetta. Það er ekki hægt að fullyrða að myntsamstarf við Seðlabanka Noregs myndi vera miklu ódýrara en myntráð.

Það sem ég hefði frekar átt að nefna er að margir telja að myntráð veki ekki nægilegt traust þegar um er að ræða mjög skuldsett ríki. Norsk króna sé því hugsanlega traustari kostur en myntráð.

Frosti Sigurjónsson, 6.2.2009 kl. 01:55

12 identicon

Það er nú samt aldrei að vita, fer allt eftir því hvort og hvernig samningar ganga við Norðmenn. Kannski eru þeir bara til í að skipta við okkur á þægilegu gengi hver veit.

Myntráð kallar á sterka efnahagsstjórn, lágar skuldir ríkissjóðs, trúverðuga ríkisstjórn og hallalausan ríkisrekstur.

Ef þessar aðstæður eru ekki fyrir hendi þá hafnar umheimurinn nýju myntinni og fella þarf gengið.

sandkassi (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 02:10

13 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Sæll Frosti.

Myntráð eru almennt talin jafn traustvekjandi og full Dollaravæðing (með USD eða NKR til dæmis). Þetta er þó bundið því skilyrði, að um alvöru myntráð sé að ræða, ekki myntráð-nefnu (currency board-like). Dæmi um myntráð-nefni var" myntráð" Argentínu.

Skuldsetning ríkis hefur ekkert með traust á myntráði þess að gera, vegna þess að alvöru myntráð er algjörlega aðskilið fjárhag ríkisins. Alvöru myntráð er bundið í Stjórnarskrána þannig að mikill aðdragandi er að breytingum. Alvöru myntráð á einnig stoðmynt (USD eða NKR) fyrir 100% til 115% af innlendu myntinni. Alvöru myntráð er því 100% öruggt, eins og reynslan sýnir. Þetta fyrirkomulag hefur aldreigi brugðist.

Myntráð neyðir ríkisstjórnir til að sýna ráðdeild í efnahagsmálum. Þetta er einn margra kosta við myntráð. Þegar myntráð hefur verið sett á stofn, er ráðlegt að leggja Seðlabankann niður sem fyrst. Hins vegar skiptir Seðlabankinn ekki miklu máli, þegar hann hefur verið sviptur rétti til peningaútgáfu og "peningaprentun" fyrir óreiðumenn í ríkisstjórn. Með öðrum orðum þá fylgir trúverðugleiki peningakerfisins og stöðugleiki efnahafslífsins í kjölfar stofnunar Myntráðs Íslands, en ekki öfugt. Ef menn hafa aðrar hugmyndir, stafa þær af vanþekkingu.

Loftur Altice Þorsteinsson, 6.2.2009 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband