Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Brotaforðakerfi í molum

Sífelldar upp- og niðursveiflur á fjármálamörkuðum vekja grun um að fjármálakerfið sé í raun óstöðugt í eðli sínu. Góðu fréttirnar eru að það er hægt að gera það stöðugra með einföldum hætti. 

Allir vita að hlutverk banka er að taka við innlánum og ávaxta þau með því að lána féð út. Færri vita  að bankar lána ekki bara út innlánin. Þeir búa að auki til viðbótarfjármagn úr engu og lána það út gegn vöxtum. Þetta er að sjálfsögðu mjög ábatasamt fyrir bankana og skýrir að einhverju leyti hvers vegna almenningur verður sífellt skuldugri. Það er ekki óalgengt að bankar láni út tíu sinnum hærri fjárhæð en sem nemur upprunalegum innlánum til þeirra. Þetta ótrúlega fyrirkomulag kallast brotaforðakerfi (fractional reserve) því “forði” bankana af innlánum er aðeins brot af því fjármagni sem þeir lána út.

Bankar hafa á einhvern undraverðan hátt fengið einkaleyfi til að prenta peninga á meðan öðrum er það sérstaklega bannað að viðlögðum þungum refsingum. Seðlabankinn gefur vissulega út seðla og mynt, en það eru í raun bankarnir sem búa til megnið af fjármagninu sem efnahagslífið þarf. Bankar búa fjármagnið til úr engu og rukka af því vexti. Staðan er því sú að nær allt fjármagn í landinu verður upphaflega til sem vaxtaberandi skuldir við bankana. Kannski var þetta ekki vandamál þegar bankar voru sameign þjóðarinnar og ágóðinn rann til samneyslu, en það verður að staldra við ef bankar í einkaeigu hafa einkaleyfi til að framleiða fjármagnið í landinu og innheimta vexti af því.

Þegar allt leikur í lyndi, bjóða bankar mikið fjármagn á lágum vöxtum. Fyrirtæki og neytendur freistast til að taka lán fyrir misgóðum fjárfestingum og jafnvel neyslu. Svo blakar fiðrildi vængjum einhverstaðar í fjarlægu landi og allt er breytt. Einhverjir tapa á glæfralegum fjárfestingum, bankar fara að innheimta skuldir af krafti, ótti um verðfall á mörkuðum breiðist út, bankar hækka vexti, hlutabréf lækka í verði og fjármagnskortur gerir vart við sig, sum fyrirtæki ráða ekki við hækkandi vexti og fara á hausinn. Samdráttur eða kreppa tekur við. Bankar hirða fyrirtæki og fasteignir á hrakvirði upp í skuldir - skuldir sem þeir bjuggu til úr engu.

Til að stöðva þessa hringekju offramboðs og skorts á fjármagni þarf að taka af bönkum leyfið til að framleiða fjármagn. Setja þarf 100% bindiskyldu á bankana. Verði það gert, munu bankar þurfa að einbeita sér alfarið að því að ávaxta innlán með því að lána þau út til arðbærra verkefna. Framleiðsla fjármagns yrði ekki í þeirra höndum heldur Seðlabankans.

Bankar myndu þá geta boðið upp á tvenns konar bankareikninga: annarsvegar vaxtalausa hlaupareikninga sem væru ávallt lausir til úttektar, og hinsvegar vaxtaberandi bundna sparireikninga. Bankar gætu eingöngu lánað út og ávaxtað það fé sem lagt væri á bundna sparireikninga. Bundnir reikningar væru bundnir til viss tíma eða uppsegjanlegir með vissum tímafyrirvara.

Með fullri bindiskyldu væru áhlaup á banka ástæðulaus því bankar myndu ávallt eiga nægt fé til að greiða út innistæður á hlaupareikningum. Þörf fyrir innistæðutryggingar væri því úr sögunni. Illa reknir bankar gætu farið á hausinn, en það myndi ekki valda keðjuverkun eins og er í dag. Kerfið væri stöðugt.

Með þessu væri búið að aðskilja tvö ólík verkefni: framleiðslu fjármagns og ávöxtun sparifjár. Illa reknir bankar gætu þá ekki lengur falið misheppnuð útlán með framleiðslu meiri peninga.

Seðlabankinn myndi hafa það hlutverk að stilla af magn peninga og fjármagns í samræmi við stærð hagkerfisins. Þetta myndi hann gera með útgáfu myntar og rafeyris án vaxtaútgjalda fyrir ríkissjóð (þjóðina). Sú leið væri mun beinni og skilvirkari en að fitla við stýrivexti og bindiskylduhlutfall. Verðbólga og verðlag yrði mun auðveldari viðfangs, því bankarnir væru ekki að freistast til að auka stöðugt fjármagn í umferð.

Brotaforðakerfið er sveifluvaldandi og gefur einkabönkum einkaleyfi til að framleiða fjármagnið í landinu. Það er löngu tímabært að íhuga aðra valkosti. Hversu lengi ætlum við að sætta okkur við óstöðugleika, verðbólgu og að allt fjármagn í landinu sé fengið að láni á vöxtum frá bönkum sem búa það til úr engu?

Nánari upplýsingar um fulla bindiskyldu:
Wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/Full-reserve_banking

“Towards a 21st century banking and monetary system” :
http://www.positivemoney.org.uk/wp-content/uploads/2010/11/NEF-Southampton-Positive-Money-ICB-Submission.pdf


Ættu stjórnendur að nota aðstöðu sína í pólitískum tilgangi?

Flestir hafa skoðanir á pólitík og auðvitað eru stjórnendur fyrirtækja þar engin undantekning. Það kemur stundum fyrir að stjórnendur beiti vörumerki og áhrifum fyrirtækisins til að vinna sínum pólitísku skoðunum fylgi í samfélaginu. Hér er því haldið fram að slíkt sé í misnotkun á aðstöðu og geti leitt til tjóns bæði fyrir eigendur og samfélagið.

Stórfyrirtæki eru iðulega í eigu fjölmargra hluthafa. Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að allir eigendur hafi sömu skoðun í pólitík, hvað þá að meirihluti hluthafa sé sammála pólitískum skoðunum stjórnandans. Tillitsemi við ólíkar skoðanir hluthafa er því gild ástæða fyrir því að stjórnendur gæti hlutleysis í störfum sínum.

En tillitsemi er þó ekki eina ástæðan. Flest fyrirtæki hafa hagsmuni af því að höfða til sem flestra viðskiptavina, en ef fyrirtækið tekur afgerandi pólitíska afstöðu getur slíkt virkað fráhrindandi fyrir tiltekinn hluta viðskiptavina með tilheyrandi tapi fyrir fyrirtækið.

Dæmi eru um að stjórnendur stórfyrirtækja beiti stjórnvöld þrýstingi og hóti jafnvel að fara með fyrirtækin úr landi. Þar er illa farið með áhrifastöðu og traust eigenda.Það væri líka óheppilegt fyrir lýðræðið í landinu ef fyrirtækjum væri almennt beitt með þessum hætti. Eftir því sem fyrirtæki beita sér meira, því minni verða áhrif kjósenda.

Farsælast er að stjórnendur sneiði hjá því að blanda fyrirtækjum í pólitísk álitamál. Þeir geta að sjálfsögðu tjáð sig opinberlega um pólitík, en þá er réttast að taka fram að um persónulegar skoðanir sé að ræða, en ekki afstöðu fyrirtækisins.


Allt misskilningur hjá Moody's ?

Moodys-LogoÞegar fyrir lá að Icesave samningurinn yrði settur í þjóðaratkvæðagreiðslu, tók matsfyrirtækið Moody's upp á því að senda frá sér álit um að lánshæfismat Íslands myndi versna ef landsmenn myndu fella Icesave samkomulagið.

 

 

Tímasetningin álitsins er grunsamleg en niðurstaðan undarlegri. Það stenst ekki að ríki sem tekur á sig auknar fjárhagsbyrðar teljist þar með betri lántakandi. 

 

Þegar rýnt er í fréttatilkynningu Reuters um álit Moody's blasir skýringin við: 

Moody's said that if the current bill is rejected, the issue could have to be settled in court. This could take a long time and cost Iceland more than the 50 billion Iceland crowns ($426 million) the government believes to be the maximum tab the Icelandic taxpayer will have to pick up under the current deal.

Sjá: http://uk.reuters.com/article/2011/02/23/iceland-rating-idUKLDE71M1GP20110223

 

Ekki ber á öðru en að Moody's telji að VERSTA mögulega niðurstaða Icesave samningsins fyrir Íslendinga sé aðeins 50 milljarðar króna. Það væri óskandi. Hið rétta er að versta niðurstaða samningsins gæti vel numið hátt í 250 milljörðum. Til þess þyrftu heimtur aðeins að versna um 15% og gengi krónunar að veikjast um 1% á ársfjórðungi.

 

Því miður er ekki er hægt að sjá af fréttini hvaða útkomur Moody's gefur sér verði dómstólaleiðin farin af viðsemjendum.

 

Nú er spurning hvort Ríkisstjórn Íslands hafi séð ástæðu til að leiðrétta þennan alvarlega misskilning hjá Moody's?



Viðtalið við Lárus Blöndal

lblond
Fréttablaðið birti þann 5. febrúar viðtal við Lárus Blöndal undir fyrirsögninni “Dómsmál margfalt áhættusamara”. Margt er undarlegt í þessu viðtali en það hefst þannig:
 
Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi kunna að fá bakþanka vegna þeirra vaxtakjara sem þau hafa boðið Íslendingum í Icesave-deilunni.  Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður og fulltrúi stjórnarandstöðunnar í samninganefnd Íslands um Icesave, segir það umfram hans væntingar að náðst hafi saman um þau vaxtakjör sem Íslendingum bjóðast í samningnum.
Lárus áréttar að íslenska samninganefndin líti þannig á að Bretar og Hollendingar taki þátt í fjármagnskostnaði með Íslendingum. Þeir kynni málið hins vegar þannig heima fyrir að þeir séu að fá endurgreitt lán.
 
„Undir þeim formerkjum  lítur mjög  sérkennilega  út  að þeir skuli samþykkja að fá endurgreitt lán með 2,64 prósenta vöxtum meðan lán sem Írum bjóðast eru með 5,8 prósenta vöxtum. Þetta getur augljóslega valdið vandræðum og Lee Buchheit  [formaður samninganefndar Íslands] hefur haft af því áhyggjur hvernig þetta muni þróast þegar fleiri lönd þurfa fjárhagslega fyrirgreiðslu,“
 
Það er afar sérstakt að Lárus skuli minnast á þá vexti sem Írum bjóðast á láni frá Bretum og Evrópusambandinu. Kjörin á þeim “björgunarpakka” hafa einmitt verið harðlega gagnrýnd. Raunverulegur fjármögnunarkostnaður er líklega undir 3% en samt eru Írar látnir borga 5,8% í einhverju allt öðru skyni en að bjarga þeim úr vanda.
 
Ólíkt Icesave þá er ljóst að ef Írar taka lán á þeim kjörum, þá er engin vafi á að þeir skuldi andvirðið. Í Icesave málinu er hins vegar deilt um hvort okkur beri yfir höfuð að ábyrgjast skuld einkabankans. Flestir telja meiri líkur en minni á því að við myndum vinna slíkt mál. Í raun er undarlegt að við skulum fallast á að greiða nokkra vexti þegar skylda okkar er ósönnuð.
 
Fljótt, fljótt skrifum uppá - áður en þeir sjá að sér
Lárusi og Bucheit tókst að semja um verulega lækkun vaxta og voru aðalrök þeirra að deila mætti um hvort krafan væri lögleg. Ef nokkra vexti ætti að greiða ættu þeir í mesta lagi að endurspegla útlagðan fjármagnskostnað viðsemjenda, ekkert umfram það. Viðsemjendur féllust á þessi góðu rök. En í viðtalinu við Fréttablaðið viðrar Lárus áhyggjur af því að Bretar og Hollendingar kunni nú að sjá eftir því.
 
“Lárus og telur, að eftir því sem vikurnar líði aukist hættan á að Bretum og Hollendingum detti í hug að betra sé að komast út úr málinu frekar en að búa til fordæmi sem aðrar þjóðir gætu vísað í.”
 
Ætli Bretar og Hollendingar hefðu gert slíkan samning ef þeir teldu hann ekki ásættanlegan? Væru þeir ekki nú þegar búnir að koma sér út úr samningnum ef þeir vildu?
 
Þetta með fordæmisgildi samningsvaxta v. Icesave kröfu, sem ekki hefur verið sýnt fram á að sé lögvarin, hlýtur að teljast frekar langsótt. Evrópusambandið ákveður vexti í “björgunaraðgerðum” á pólitískum grundvelli þar sem allt önnur sjónarmið ráða ferð og Icesave skiptir þar engu máli.
 
Annar snúningur ekki í boði?
Lárus er svartsýnn á að hægt sé að ná betri samningi.
 
„Það kæmi mér mjög á óvart ef Bretar og Hollendingar væru tilbúnir til að setjast niður aftur,“
 
Það er eflaust rétt hjá Lárusi að samninganefndirnar hafa lokið sínu starfi og hafa því ekkert fleira um að ræða að óbreyttu. Það þýðir hins vegar ekki að þjóðin getir ekki sett skilyrði fyrir sínu samþykki.
Lárus telur að ef Alþingi samþykki ekki samninginn muni viðsemjendur fara dómstólaleiðina. Það getur reyndar vel verið, enda standa þeir þá ekki frammi fyrir öðrum valkosti. Lárus gleymir alveg þeim möguleika að bjóða viðsemjendum okkar upp á einhvern valkost við dómstólaleiðina.
 
Það sem vantar: Valkostur fyrir Breta og Hollendinga
Samninganefndin gerði sitt besta en niðurstaðan er samt óásættanleg fyrir Íslendinga. Líklega átti samninganefnd viðsemjenda erfitt með að hemja sig í kröfunum, en það þýðir samt ekki að yfirvöld í Bretlandi og Hollandi vilji halda niðurstöðu nefndarinnar til streitu. Samninganefnd er eitt og yfirvöld annað.
 
Það er óhjákvæmilegt að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, en núverandi samningsdrögum verður að öllum líkindum hafnað ef þau verða lög fyrir þjóðina. Ef Alþingi vill í raun vinna að lausn Icesave deilunnar á það tvo kosti.
  1. Beita landsmenn hræðsluáróðri og blekkingum í þeirri von að þeir samþykki vondan samning í þjóðaratkvæðagreiðslu, eða
  2. Setja fyrirvara við samninginn sem gerir áhættuna viðráðanlega og líklegt væri að landsmenn samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu.
 
Verði leið 2. farin munu Bretar og Hollendingar hafa samþykktan samning í höndunum - góðan valkost við dómstólaleiðina. Það er auðvitað ekki víst að þeir myndu fallast á útkomuna, en það er alveg eins líklegt. Þeir gætu líka prúttað eða farið hina margumræddu dómstólaleið sem er þó ólíklegast.
 
Ef þeir velja dómstólaleiðina er það samt ekki endanleg niðurstaða. Dómsmál tæki langan tíma og mörg tækifæri gæfust til að taka upp viðræður á ný.
 
Ef við töpum málinu, sem er ólíklegt, er heldur ekki víst að við töpum því illa. Minnstar líkur eru á slæmu tapi.

Evruvandinn: Ísland þarf viðbragðsáætlun

Screen shot 2010-12-30 at 21.07.23
Á meðan ríkisstjórnin keppir að því að koma Íslandi í Evrópusambandið, svo hér megi taka upp evru, hrannast óveðursskýin upp yfir myntbandalaginu.
 
Líkur á endalokum evrusamstarfsins eru enn sem komið er taldar litlar, en kannski meiri líkur á að evrusvæðinu verði skipt í tvo hluta. Hvers kyns breytingar af þessu tagi myndu þó hafa víðtækar afleiðingar um allan heim og líka hér á Íslandi.
 
Árið 2007 skrifaði Barry Eichergreen, prófessor í hagfræði við Kaliforníuháskóla skýrslu fyrir hagfræðstofnun Bandaríkjanna, þar sem hann fjallar um endalok evrusvæðins og hverjar helstu pólitískar, efnahagslegar, lagalegar og tæknilegar afleiðingar gætu orðið.
 
Eichergreen færir rök fyrir því að útganga úr myntbandalaginu sé þyrnum stráð en þó líklega minnst verst fyrir Þýskaland.
 
Aðildarríki (annað en Þýskaland) sem tilkynnir áform um útgöngu úr myntbandalaginu skapar með því væntingar um gengisfellingu hins nýja gjaldmiðils. Allir sem geta, munu vilja flytja evrur sínar úr því landi fyrir myntbreytingu. Það myndi jafngilda áhlaupi á alla banka þess lands.
 
Öðru máli gegnir um Þýskaland, enda mætti reikna með að nýr gjaldmiðill þess myndi styrkjast gagnvart evru. Um leið og áform um endurkomu þýska marksins spyrðust út myndu evrur streyma hvaðanæva af evrusvæðinu og inn á Þýska bankareikninga.
 
Sumir telja líklegt að myntbandalagið skipst í tvo hluta þar sem Þýskaland og sterku hagkerfin yrðu í einum hluta en svonefnd PIIGS lönd í hinum.
 
Allir hljóta að vona að Evrópusambandinu takist að finna lausn á vanda myntbandalagsins. En hvað ef það tekst nú ekki? Hver yrðu þá áhrifin á eignir og skuldir Íslendinga í evrum? Hver yrðu áhrifin á Icesave samninginn? Hvað geta stjórnvöld og einkaaðilar gert núna til að takmarka tjón sitt af hugsanlegum endalokum / breytingum myntbandalagsins? Hvað yrði um umsóknina í Evrópusambandið?
 
Á meðan óvissa ríkir um afdrif evrunnar munu skynsamir fjárfestar kjósa að geyma evrueignir sínar í Þýskalandi, fremur en í öðrum evrulöndum. Heyrst hefur að þýskur almenningur hafi um nokkurt skeið hamstrað evruseðla sem útgefnir eru í Þýskalandi.
 
Svo má velta því fyrir sér hvað yrði um evrur í bönkum utan evrulanda. Varla breytast þær í þýsk mörk. Nei, þær verða líklega áfram evrur og falla því í verði ef Þýskaland tekur upp markið.
 
Þeir skuldarar sem hafa eitthvað val, munu kjósa að hafa evruskuldir sínar útgefnar í PIIGS löndunum, þá er möguleiki á að þeim verði sjálfkrafa breytt í veikari mynt.  
 
Þegar land tekur upp nýjan gjaldmiðil er ekki bara skipt um seðla og mynt. Allar innistæður í evrum breytast, allar evrukröfur kreditkortafyrirtækja og öll skuldabréf í evrum sem útgefin eru í viðkomandi landi munu líklegast breytast í hina nýju mynt.  Annars gengur dæmið varla upp.
 
Á meðan engin lausn er í sjónmáli á vanda myntbandalags Evrópusambandsins er ekki hægt að útiloka afdrifaríkar sviptingar. Íslensk stjórnvöld hljóta því að biðja Seðlabankann að undirbúa næmigreiningu og viðbragðsáætlun, enda er það skylda stjórnvalda að gæta þjóðarhagsmuna.
 
Heimildir:
 
NBER WORKING PAPER SERIES, THE BREAKUP OF THE EURO AREA, Barry Eichengreen, October 2007
http://www.carloscuerpo.com/wp-content/uploads/2010/05/eichengreen_1.pdf


Gleymd skýrsla Stiglitz um peningastefnu fyrir Ísland

225px-Joseph_Stiglitz
Í nóvember árið 2001 afhenti hagfræðingurinn Joseph Stiglitz Seðlabanka Íslands skýrslu um peningastefnu fyrir smá og opin hagkerfi með sérstökum ráðleggingum fyrir Ísland. Nú blasir við að ef ráðgjöf Stiglitz hefði verið tekin alvarlega hefði mátt afstýra hruninu hér á landi, eða í það minnsta draga mjög úr því tjóni sem varð. Margt í skýrslunni á jafn vel við í dag og árið 2001.
 
Stiglitz, sem var um skeið aðalhagfræðingur Alþjóðabankans er nú prófessor hjá Columbia háskóla. Hann er í hópi virtustu hagfræðinga heims og hlaut árið 2001 Nóbelsverðlaun í hagfræði.
 
Í skýrslu sinni fyrir Seðlabankann fjallar Stiglitz almennt um hættur í smáum, opnum hagkerfum og hvernig megi draga úr þeim. Hann telur að stjórnvöldum beri skylda til að grípa inní til að auka stöðugleika, draga úr líkum á efnahagsáföllum og lágmarka kostnað sem af áföllum hlýst.
 
Árið 2001 hafði viðskiptahalli farið vaxandi og Stiglitz taldi ástæðu til að hafa áhyggjur af þeirri þróun. Erlent lánsfé streymdi óheft inn í landið í kjölfar aukins frjálsræðis á fjármálamörkuðum, en einnig vegna væntinga um stöðugt gengi og að ríkið myndi standa við bakið á bankakerfinu sem var að mestu í ríkiseigu. Samkeppni milli bankana sem nýlega höfðu fengið aukið frelsi, birtist í kapphlaupi um markaðshlutdeild með tilheyrandi útlánavexti.  Stiglitz hvatti Seðlabanka og stjórnvöld til að grípa þegar til aðgerða til hemja vöxt bankana og draga úr áhættu landsins af bankahruni.
 
Á þessum tíma var Már Guðmundsson aðalhagfræðingur Seðlabankans. Hann tók saman úrdrátt úr skýrslunni svo honum var kunnugt um innihald hennar. Ekki varð hann þó  þeirrar gæfu aðnjótandi að afstýra því hruni sem Stiglitz varaði við. Nú virðist skýrslan gleymd, því í nýju sérriti Seðlabankans “Peningastefnan eftir höft” sem út kom í desember er hvergi minnst á hana þótt vitnað sé í meira en 100 heimildir aðrar.
 
En hverju var Stiglitz að vara við? Tökum þrjú dæmi úr skýrslunni:
 
Screen shot 2010-12-28 at 15.13.22
1. Viðskiptahalli dregur úr stöðugleika
Varað var við því að vaxandi viðskiptahalli (innflutningur meiri en útflutningur) gæti dregið úr stöðugleika hagkerfisins. Viðskiptahalli kallar jafnan á aukningu á erlendum skuldum. Ef stór hluti skulda er í erlendri mynt og til skamms tíma dregur það úr stöðugleika. Kröfuhafar geta orðið órólegir af minnsta tilefni og rokið með fjármagn úr landi. Slíkt áhlaup væri áfall fyrir gjaldmiðilinn.
Viðskiptahallinn sem Stiglitz varaði við var smáræði miðað við þann gríðarlega viðskiptahalla sem hér varð árin fram að hruni.
Þar sem hækkun stýrivaxta getur leitt til gengishækkunar og enn meiri innflutnings benti Stiglitz á aðrar leiðir. Þær voru ekki farnar. Seðlabankinn endaði með því hækka vexti, sem leiddi einmitt til styrkingar gengisins, aukins innflutnings og enn meiri viðskiptahalla.
 
2. Bankarnir vaxa allt of hratt
Útlánavöxtur bankana hafði um þetta leiti verið um og yfir 25% í þrjú ár. Þekkt er að hraður vöxtur leiðir oft til hrakandi gæða útlánasafna. Stiglitz efaðist um að vaxtahækkanir dygðu til að slá á eftirspurn eftir lánum. Vaxtahækkanir myndu hins vegar draga mátt úr atvinnulífinu, hækka gengi og auka kaupmátt og neyslu. Grípa þyrfti til fleiri tækja. Til dæmis mætti setja reglur um að þeir bankar sem stækkuðu of hratt, greiddu hærri prósentu í tryggingasjóð innistæðueigenda,  gera hærri kröfu um eiginfjárhlutfall þeirra og auka bindiskyldu. Ekkert af þessu var gert og vöxtur bankanna varð skefjalaus fram að hruni.
 
3. Lán í erlendum gjaldmiðlum
Stiglitz taldi ástæðu til að vara við því að bankar byðu erlend lán til aðila sem ekki gætu sýnt fram á erlendar tekjur. Bönkum hætti til að vanmeta hve berskjaldaðir slíkir lántakendur væru fyrir gengisbreytingum og vaxtaálagið yrði því of lágt. Vextir myndu ekki endurspegla raunverulega áhættu gengislána. Stiglitz lagði meðal annars til að lántakendum yrði skylt að upplýsa um skuldir í erlendum myntum svo gengisáhætta yrði sýnilegri. Letja þyrfti banka til að lána erlend lán til innlendra aðila t.d. með álögum. Ekkert var að gert og erlendar lánveitingar uxu úr hömlu fram að hruni.
 
Varað er við fleiri hættum en látum þessi dæmi nægja. Skýrslan sýnir að innan Seðlabankans og líklega víðar, var þekking á þeim hættum sem steðjuðu að fjármálakerfinu og hvaða úrræði væru tiltæk og nauðsynleg til að draga úr áhættu. Mjög leitt að sú þekking hafi ekki nýst betur.
 
Skýrslu Sigtlitz má finna á vef Seðlabankans:
Á ensku: http://english.sedlabanki.is/uploads/files/WP-15.pdf
Á íslensku: http://www.sedlabanki.is/uploads/files/ft022-3.pdf
Úrdráttur: http://www.sedlabanki.is/?PageID=13&NewsID=149

Er Grænland í hættu?

greenland-port
Í júní árið 2009 fékk grænlenska þjóðin lögsögu yfir náttúruauðlindum sínum en þær höfðu fram til þess dags tilheyrt Danaveldi.  Náttúruauðlindir Grænlands eru gríðarlegar. Landið er meira en 2 milljónir ferkílómetrar. Núna eru 81% lands undir íshellu en því er spáð að hún muni hörfa hratt á næstu áratugum. Undan ströndum Grænlands má finna auðug fiskimið og mikla olíu en auk þess er landið auðugt af góðmálmum og jafnvel eðalsteinum. Nóg er af hreinu vatni og virkjanleg vatnsorka hlýtur að vera umtalsverð.

Þessar stórkostlegu náttúruauðlindir eru núna í eigu 58 þúsund Grænlendinga. Grænlendingar eiga því möguleika á að verða ein ríkasta þjóð í heimi, en ef illa tekst til gætu þeir hæglega orðið ein af skuldugustu þjóðum heims. 
 
Nýlendustefna fyrri alda var möguleg vegna þess að herveldin gátu beitt yfirburðum sínum til að komast yfir auðlindir þeirra þjóða sem minna máttu sín og það þótti ekkert að því. Íbúarnir voru jafnvel hnepptir í þrældóm og gerðir að verslunarvöru. Arðrán nýlendna var mjög ábatasöm iðja og lagði grundvöllinn að ríkidæmi margra Evrópuþjóða.
 
Sem betur fer hefur þrælahald löngu lagst af og ekki er lengur talið ásættanlegt að ein þjóð undiroki aðra þjóð.
 
En hvað með Grænlendinga - getur sú fámenna þjóð með gríðarlegar auðlindir leyft sér að vera áhyggjulaus?
 
Auðvitað ekki. Nú eru það alþjóðleg stórfyrirtæki sem vilja byggja virkjanir, reisa álver, grafa eftir gulli og fleira í þeim dúr. Stórfyrirtækin munu að sjálfsögðu ganga eins langt og þeim verður leyft í því að láta arðinn af auðlindunum falla sér í skaut, en ekki Grænlendingum. 
 
Erlendir fjárfestar og sjóðir munu bjóða þjóðinni lán svo hún geti átt hluta í virkjunum og verksmiðjum, en hér verður hættan sú að vextirnir muni éta upp allan arðinn af auðlindunum. 
 
Eflaust eiga Grænlendingar ágæta leiðtoga sem vilja gæta hagsmuna þjóðarinnar, en freistingar munu verða á hverju strái. Dæmin sanna að alþjóðleg stórfyrirtæki virðast telja það ómissandi hluta af samningagerð að reyna að múta samningamönnum og jafnvel stjórnmálamönnum ef þess þarf.
 
Í júní 2009, þegar drottning Dana færði Grænlendingum yfirráð yfir auðlindum sínum, gat ég ekki varist þeirri hugsun að nú hefði þrengt svo að gamaldags nýlendustefnu að hún væri einfaldlega orðin óarðbær. Fram væri komin mun skilvirkari aðferð við að koma arði af auðlindum smáþjóða í "réttar" hendur.
 
Nýlenduveldin eru hætt að ræna nýlendur og hneppa íbúa þeirra í ánuð. Í þeirra stað eru komin alþjóðleg stórfyrirtæki og fjárfestingasjóðir sem boða mikil tækifæri sem því miður geta snúist upp í skuldaþrælkun.
 
Vonum að Grænlendingar gangi hægt inn um gleðinnar dyr.


Undarlegt Sérrit Seðlabanka um Peningastefnu eftir höft

Screen shot 2010-12-22 at 17.40.26
Þrátt fyrir titil Sérritsins sé "Peningastefna eftir höft" þá fer býsna drjúgur hluti í að verja þá ógæfulegu peningastefnu sem Seðlabankinn kaus að fylgja frá því krónunni var fleytt árið 2001 og kennd er við verðbólgumarkmið, þar sem eina stýritækið er vextir.
 
Niðurstaða skýrsluhöfunda, sem vart geta talist hlutlausir, er sú að Seðlabankinn hafi byggt peningastefnu sína á “hugmyndum hagfræðinnar um besta fyrirkomulag peningamála”. Það  sem úrskeiðis fór er svo að mestu skrifað á gerð íslensks þjóðarbúskapar, óvenjulegar aðstæður, alþjóðavæðingu innlends fjármálakerfis og ofvöxt þess og fleira í þeim dúr.  Yfirsóp af þessu tagi vekur mann óneitanlega til umhugsunar um hvort núverandi stjórnendur Seðlabankans séu á réttri leið.
 
Þótt í Sérriti Seðlabankans sé vitnað í sæg af heimildum, þá hlýtur að teljast dularfullt að geta ekki skýrslu sem nóbelsverðlaunahafinn og hagfræðingurinn Joseph Stiglitz skrifaði fyrir Seðlabankann árið 2001 “Monetary and exchange rate policy in small open economies: The case of Iceland”. Hún fjallar nákvæmlega um sama efni og Sérritið.
 
Stiglitz, sem er sérfræðingur í fjármálakreppum, taldi Ísland árið 2000 hafa mörg einkenni sem leitt gætu til kreppu. Hann hvatti því stjórnvöld og Seðlabanka til að grípa þegar til margvíslegra aðgerða til að afstýra hugsanlegri fjármálakreppu. Því var ekki sinnt.
 
Engu er líkara en að Seðlabankinn hafi stungið skýrslu Stiglitz ofan í skúffu. Kannski var hún á skjön við þá stefnu sem Seðlabankinn taldi “besta fyrirkomulag peningamála”. Enda varaði Stiglitz beinlínis við því að einblínt væri á verðbólgumarkmið og líka því að treysta á vaxtatækið eitt og sér.  Maður spyr sig hverjir báru ábyrgð á því að þessum viðvörunum hans var ekki sinnt? Eru þeir sömu kannski enn í lykilstörfum innan Seðlabankans?
 
Í síðari hluta Sérrits Seðlabankans er vikið að hugsanlegum úrræðum til að auka stöðugleika eftir að höftum sleppir. Þar eru reyndar talin upp mörg af þeim meðulum sem Stiglitz mælti með þótt höfundar Sérritsins kjósi fremur að vitna í aðrar heimildir.  
 
Seðlabankinn leggur til að þegar höftum lýkur verði tekin upp stefna sem hann vill kalla “verðbólgumarkmið-plús” þar sem plúsinn stendur fyrir að þeim tækjum verði beitt sem lýst er í kafla 6 í Sérritinu, í stað þess að treysta eingöngu á stýrivexti. Það hljómar í sjálfu sér ágætlega, en þó má aldrei gleyma því að markmið peningastefnu er ekki stöðugleikinn í sjálfu sér, heldur hlýtur markmiðið ávallt að vera aukin hagsæld almennings í landinu.
 
Þá víkur að þeim hluta Sérritsins sem vekur allra mesta furðu. En það er sá kafli sem fjallar um að gengi krónunnar hafi rýrnað um 99,95% á 90 ára tímabili í samanburði við dönsku krónuna. Ekki er minnst á þá staðreynd að á sama tíma tókst að koma landinu úr hópi fátækustu þjóða Evrópu í hóp ríkustu þjóða í heimi. Hér óx hagsæld margfalt hraðar en í Danaveldi á þessu tímabili.
 
Verðrýrnun krónunnar er í Sérritinu talin vísbending um getuleysi Íslendinga til að halda úti eigin gjaldmiðli. Á blaðsíðu 13 kemur reyndar fram að hér hefur atvinnustig að jafnaði verið hærra en í löndum sem notið hafi lægri verðbólgu. Menn geta svo auðvitað haft skoðun á því hvort sé verra þjóðarböl viðvarandi atvinnuleysi eða viðvarandi verðbólga, en um það stendur valið að nokkru leiti.
 
Höfundar Sérritsins skoða einnig kosti og galla þess að taka hér upp aðra mynt og telja “Veigamikil rök hníga að því” að festa gengið við evru, frekar en dollar eða aðrar myntir og vísa þar til neðanmálsgreinar sem segir einmitt “veigamikil rök hníga að því að tengja við stærri gjaldmiðil eins og evru eða Bandaríkjadollar”.  En hver eru þá þessi veigamiklu rök? Því er ekki svarað í Sérritinu enda eru þau vandfundin. Kannski veit Ríkisstjórnin svarið og þá væri auðvitað heiðarlegast að vitna í þá heimild.
 
Reyndar er minnst á það í sérritinu að íslenska hagkerfið hefur afar litla fylgni við hagkerfi evrulands og í raun er fylgnin öfug á framboðshliðinni.  Í Sérritinu er lítið gert úr þessu þótt ljóst megi vera að afleiðingarnar af inngöngu í slíkt myntbandalag gæti haft skelfilegar afleiðingar fyrir Ísland. Þess í stað er rætt um ætlaða kosti stórra myntsvæða og hér sé því best að taka upp evru og þá ganga í Evrópusambandið til að fá stuðning Seðlabanka Evrópu.
 
Hvergi er minnst á þá staðreynd að sífellt fleiri málsmetandi hagfræðingar telja framtíð evrunnar vægast sagt þyrnum stráða og ekki séð fyrir endann á þeirri skuldakreppu sem nú geisar í evrulandi.
 
Rétt er að benda á það sem vel er gert í Sérritinu og í því má finna margvíslegan fróðleik. Ágætlega er fjallað um þær hættur sem felast í því að taka einhliða upp evru eða aðrar myntir, hvort sem það er gert með myntráði eða öðrum hætti.
 
Höfundar Sérritsins fá líka plús fyrir að halda því til haga á bls. 44 að fjöldi rannsókna og reynsla annara ríkja sýnir að aðhaldsaðgerðir á útgjaldahlið eru vænlegri leið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs en sú leið að auka skattaálögur á fyrirtæki og heimili. Fjármálaráðherra mun eflaust fagna þessum fréttum.
 
Fyrir þá sem vilja kynna sér hvað gæti tekið við er höftum sleppir mæli ég með kafla 5. “Umbætur á umgjörð efnahagsstefnunnar” og kafla 6. “Breytingar á útfærslu verðbólgumarkmiðsins”.
 
Einnig mæli ég eindregið með því að allir lesi skýrslu Stiglitz frá 2001.
 
Að lokum þetta. Sérrit Seðlabankans um Peningastefnu eftir höft hefði gjarnan mátt sleppa því að sópa yfir þau afdrifaríku  mistök sem hávaxtastefnan var í reynd. Sérritið bætir svo gráu á svart með því að gera lítið úr þeirri vá sem þjóðinni er búin með fasttengingu við evru. Einnig er dapurlegt að hvergi sé getið skýrslu Stiglitz sem varaði við og benti á úrræði árið 2001. Ef menn eru á annað borð að verja tíma í að greina hvað fór úrskeiðis í peningastefnunni þá þarf um leið að svara því hvers vegna menn hlustuðu ekki á aðvaranir sem bárust í tæka tíð.
 
Sérritið: http://www.sedlabanki.is/?PageID=13&NewsID=2678
Stiglitz: http://www.sedlabanki.is/uploads/files/WP-15.pdf

Hugmyndir skapa störf

Hugmyndir skapa störf

Erindi sem ég flutti á fundi Félags Atvinnurekenda í Iðnó 6. október 2010

 

Nýsköpun í atvinnurekstri hefur verið áhugamál hjá mér í meira en 30 ár. Á þessum tíma hafa verið tímabil þar sem nýsköpun hefur verið mikil, en ég þori að fullyrða að gróska á þessu sviði hefur aldrei verið meiri en einmitt núna.

 

Einmitt núna, þegar landið er statt á botni djúprar efnahagslægðar vekur þessi mikla gróska í nýsköpun von um betri tíð sé framundan. Kannski er mögulegt að á komandi misserum muni efnahagur landsins rétta úr kútnum, ný fyrirtæki blómstra og atvinnuleysið hverfa.

 

Erlendar rannsóknir hafa ítrekað sýnt að efnahagskreppur hafa miklu minni áhrif á vöxt ungra og smárra fyrirtækja en stórra. Í kreppu virðast ung fyrirtæki oft halda áfram vexti en stór fyrirtæki eru líkleg til að segja upp fólki í verulegum mæli. Þetta virðist líka eiga við hér á Íslandi.

 

176 nýsköpunarfyrirtæki og enn bætist við

Dr. Eyþór Jónsson framkvæmdastjóri hjá Klaki, nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins, tók nýlega saman lista yfir 140 íslensk sprotafyrirtæki. Listinn er gerður að umfjöllunarefni í nýjasta hefti Frjálsrar Verslunar. Í gær fékk ég góðfúslegt leyfi Eyþórs til að birta sprotalistann á netinu (slóðin erhttp://url.is/43w ) þannig að aðrir gætu bætt við hann. Á innan við sólarhring hafa bæst við nöfn 36 sprotafyrirtækja og vonandi að fleiri bætist við á komandi dögum og mánuðum.

 

Á listanum má finna orkusprota eins og Carbon Recycling sem undirbýr framleiðslu á eldsneyti úr raforku og koltvísýringi frá jarðvarmavirkjun. Þarna eru sprotar í hátæknilausnum fyrir heilbrigðisgeirann, útgerð, ferðamennsku ofl. Fyrirtækin á listanum eru mörg og fjölbreytnin mikil. Þarna leynast líklega einhver af framtíðar stórfyrirtækjum Íslands.

 

Það kemur vissulega á óvart að nýsköpun blómstri þegar efnahagur landsins er í lamasessi, hvernig getur staðið á þessu?

 

Vandamál geta verið tækifæri

Ef til vill er núna meira framboð á vandamálum en áður og sumir frumkvöðlar hafa lag á því að koma auga á tækifæri í vandamálum. Tökum tvö þekkt dæmi:

  • Ráðstöfunartekjur almennings snarminnkuðu, skuldir hækkuðu og ráðdeild varð fólki enn mikilvægari en áður. Skömmu síðar var Meniga stofnað til að gefa fólki betri yfirsýn yfir rekstur heimilisins.
  • Gufuaflsvirkjanir losa mikinn koltvísýring út í andrúmsloftið og það er vandamál. Carbon recycling var stofnað til að nýta koltvísýringinn, binda hann vetni og framleiða þannig orkugjafa sem má nota til íblöndunar í bensín.

Stórkostlegur mannauður

Samkvæmt gögnum frá Vinnumálastofnun eru um 12.000 manns að leita sér að vinnu. Langflestir þeirra höfðu vinnu fyrir hrun. Þetta er að uppistöðu fólk með dýrmæta starfsreynslu. Vinnufúst og fjölhæft fólk sem er tilbúið að bretta upp ermar. Frumkvöðlar hafa sjaldan átt auðveldara með að finna gott starfsfólk.

 

Lítið framboð á hálaunastörfum

Fólk með reynslu og góða menntun, sem áður gat valið úr vel launuðum störfum, á nú erfiðara með að finna vel launuð störf við hæfi. Hálaunastörf, sem héldu mörgum frá því að stofna eigið fyrirtæki, eru miklu færri núna.

 

Auðlindir landsins

Ísland á mikið af auðlindum sem eru annars af skornum skammti í heiminum: Orka, landsvæði og auðug fiskimið. Mikið af nýsköpunarfyrirtækjunum keppa einmitt að betri nýtingu og markaðssetningu á þessum auðlindum.

 

Ísland í alfaraleið

Internetið og ljósleiðaravæðing undafarinna ára hefur gert Íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum kleyft að bjóða þjónustu milliliðalaust til neytenda um allan heim.

Ísland sem var áður á hjara veraldar er núna í miðju alnetsins. Allt bendir til að Ísland sé líka að færast nær mörkuðum Asíu með opnun siglingaleiðarinnar um norðuríshafið.  Asíuríkjum er spáð miklum hagvexti á komandi árum og þarna er mikil uppspretta tækifæra.

 

Umhverfi nýsköpunar á Íslandi

Aðstæður til nýsköpunar eru nú betri en oft áður eins og ég mun fara nánar í. Við þurfum hins vegar að gæta þess að þær versni ekki frá því sem er og það má vissulega bæta þær enn frekar. Samkeppnishæfni Íslands og hagvöxtur í framtíðinni munu að verulegu leyti ráðast af því hversu vel við búum að frumkvöðlum og nýsköpun í landinu.

 

Einfalt regluverk og lítil skriffinnska

Of einfalt regluverk og of mikill hraði átti líklega ekki erindi í starfsemi útrásarbankana og því er viss hætta á að pendúllinn sveiflist núna í hina áttina. Allt verði, til öryggis, kæft í reglum og skriffinnsku. Líka í nýsköpun þar sem ekki er nein þörf á skrifræði. Besta leiðin til að kæfa nýsköpun er einmitt skrifræði.

 

Ég hef fengið að kynnast stofnun og rekstri sprotafyrirtækja í Frakklandi af eigin raun. Þar þótti afar gott ef tókst að stofna nýtt hlutafélag á þrem mánuðum, sem tekur þrjá daga hér. Í Frakklandi er mikilvægast að ráða bókara og lögfræðing áður en nokkuð annað var gert. Vissara að hugsa sig mjög vel um áður en bætt er við starfsmönnum því lögbundinn uppsagnarfrestur er talin í árum en ekki mánuðum. Bankareikningur verður ekki stofnaður nema framvísað sé símareikningi en símreikningur fæst ekki nema bankareikningur sé til. Ótrúlegur tími og orka hverfur þannig í verkefni sem skila engum raunverulegum virðisauka þótt hugsanlega mælist allt stússið sem aukinn hagvöxtur. Víti til að varast.

 

Nýsköpunarmiðstöðvar spretta upp

Líklega hefur aldrei verið meira framboð á ráðgjöf og aðstöðu fyrir frumkvöðla. Nýsköpunarmiðstöðvar hafa sprottið upp út um allt land og vinna mikilvægt starf. Þar má nefna Klak, Innovit , Nýsköpunarmiðstöð Íslands - Impra, V6 Sprotahús, Hugmyndaráðuneytið, Hugmyndahús Háskólanna, Frumkvöðlasetrið Ásbrú og fleiri.

 

Fjármagn og styrkir í boði

Undanfarin misseri hafa raunvextir á innlánum banka verið nokkuð háir og líklegt að það hafi dregið úr framboði á fjármagni til atvinnurekstrar og nýsköpunar. Ólíklegt er að þetta ástand geti varað mikið lengur.

 

Opinberir sjóðir eins og Rannís, Nýsköpunarsjóð og Frumtak hafa þó haldið dampi og gert eins mikið og svigrúm þeirra leyfir til að styrkja og fjárfesta í efnilegum fyrirtækjum.

 

Viðskiptaenglar, efnaðir einstaklingar sem fjárfesta í sprotum, eru nú miklu færri en fyrir hrun. Viðskiptaenglar gegna lykilhlutverki í eflingu nýsköpunar því þeir fylgja jafnan fjárfestingum sínum vel eftir og miðla þeim af reynslu sinni og viðskiptasamböndum.

 

Í Finnlandi, Noregi, Skotlandi og víðar hafa opinberir aðilar náð góðum árangri í að efla nýsköpun með því að fjárfesta samhliða viðskiptaenglum. Þeir líta svo á að ef viðskiptaengill er tilbúinn til að hætta sínum eigin peningum í hugmynd frumkvöðuls er ríkinu óhætt að leggja  svipaða upphæð á móti. Þetta fyrirkomulag “krónu á móti krónu” þarf einnig að taka upp á Íslandi.

 

Nýlegar ívilnanir fyrir nýsköpunarfyrirtæki eru hænuskref

Þróunarkostnaður fæst nú endurgreiddur að hluta en hámarkast við upphæð sem jafngildir einu stöðugildi.  Ágætt skref sem skiptir máli í smáum fyrirtækjum en hvetur ekki stóru fyrirtækin til að leggja í neitt verulega meiri þróun en þau hefðu annars gert.

 

Hvati til hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtækjum takmarkast við kr 300 þúsund á einstakling. Sproti þarf því að finna 10-15 hluthafa til að fjármagna eitt stöðugildi sem gæti orðið erfitt.  Miklu betra hefði verið að leyfa einstaklingum að fjárfesta í sérstökum sprotasjóðum sem síðan myndu velja vænleg fyrirtæki til að fjárfesta í.

 

Góð samvinna

Ísland er lítið og frumkvöðlar eiga auðvelt með að ná sambandi við lykilfólk í atvinnulífinu. Í stærri löndum er yfirleitt miklu erfiðara og tímafrekara að ná tengslum við rétta fólkið.

Almennt eru menn boðnir og búnir til að hjálpa frumkvöðlum, gefa ráð, miðla af reynslu og nýta viðskiptasambönd út úr landinu sem fyrir eru - allt endurgjaldslaust. Íslendingar hjálpast að.  Það er óhætt að segja að það sé virkilega góður samstarfsandi í sprotaheiminum, enginn skortur á hugmyndum og menn ófeimnir hræddir við að leita ráða hvor hjá öðrum.

 

Hvað má betur fara?

Umhverfi nýsköpunar á Íslandi er gott en það er að  sjálfsögðu hægt að gera það enn betra.  

 

Mikilvægt er að styðja enn betur við frumkvöðla sem eru að taka fyrstu skrefin. Yfirleitt þurfa þeir að vinna kauplausir mánuðum saman áður en hugmyndin er komin á það stig að fjárfestar telji sér óhætt að koma að borðinu. Margir góðir sprotar komast þannig aldrei upp úr jörðinni. Það þarf að fjölga stuðningsleiðum fyrir þá sem eru að taka fyrstu skrefin.

 

Við þurfum að koma á “krónu á móti krónu” sjóðum til að draga viðskiptaengla að borðinu eins og gert er í nágrannalöndum okkar með góðum árangri.

 

Gott væri ef ríkisstjórnin myndi gefa þjóðinni hlé frá erfiðum deilumálum sem eru ekki aðkallandi en munu fyrirsjáanlega leiða til vaxandi átaka í þjóðfélaginu og draga þannig tíma og orku fólks frá uppbyggingu atvinnulífsins.

 

Ríkisstjórnin þarf jafnframt að gæta þess að kasta ekki meiri sandi í hjól atvinnulífsins en komið er með skattahækkunum, háum vöxtum eða með því að draga lappirnar þegar erlendir aðilar vilja koma að fjárfestingum.

 

Að lokum tvær ábendingar til að draga fyrr úr atvinnuleysi.

 

Vinnumálastofnun býður fyrirtækjum að ráða fólk sem á rétt til atvinnuleysisbóta þannig að fyrirtækið fær atvinnuleysisbæturnar greiddar í 6 mánuði, sem oft má framlengja í aðra 6 mánuði.  Í dag eru um 500 manns sem nýta þetta fyrirkomulag sem er allt of fáir. Af hverju eru ekki 5.000 manns að vinna á þessum kjörum út í fyrirtækjum? Vita atvinnurekendur ekki af þessu?

 

Vinnumálastofnun er núna með 12.000 manns á atvinnuleysiskrá. Þetta er mikill mannauður sem hefur fjölbreytta menntun, reynslu og hæfni en það er ekki hægt að leita eftir þeim eiginleikum sem skipta máli.  Ég þurfti að grufla töluvert í skýrslum til að komast að því að 82 kerfis- og tölvunarfræðingar eru að leita að vinnu. Á sama tíma eru allir að kvarta yfir því að það vanti slíkt fólk! Hér er gullið tækifæri til að búa til leitarvél sem atvinnurekendur gætu notað til að finna hæft fólk á augabragði.

 

Þakka ykkur fyrir.


Frumvarp um (lítinn) stuðning við nýsköpunarfyrirtæki

Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp til laga sem ætlað er að efla nýsköpun í landinu. Samkvæmt því munu nýsköpunarfyrirtæki fá skattfrádrátt vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni og þeir sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum geta fengið skattafslátt. Því miður gengur frumvarpið svo skammt að ólíklegt má telja að það hafi teljandi áhrif á nýsköpun í landinu þótt það verði að lögum.

Það ber þó að taka viljann fyrir verkið og enn er von til þess að bætt verði úr ágöllum enda þarf ekki að breyta miklu til að lögin skili tilætluðum árangri, störfum fjölgi og tekjur ríkissjóðs aukist.

Upphafsgrein lagana mætti vera skýrari en hún lýsir markmiðinu sem er "að bæta samkeppnisstöðu nýsköpunarfyrirtækja og efla rannsóknar- og þróunarstarf".  Skýrara væri ef þarna kæmi líka fram eitthvað mælanlegt markmið eins og t.d. "að skapa 1000 ný störf í nýsköpun á árinu 2010".

Óljós skilyrði

Því miður eru skilyrðin óljós og flókin og fyrirtæki geta ekki verið viss um það fyrirfram hvort þau uppfylla skilyrðin eða ekki. Rannís er því falið að meta hvort fyrirtæki uppfylli skilyrði lagana. Rannís gæti þurft marga mánuði til verksins. Á meðan bíða fyrirtæki í óvissu.

Það væri mun betra ef skilyrðin væru svo skýr að flest fyrirtæki gætu beðið endurskoðanda sinn að skera úr um málið. Rannís gæti þá einbeitt kröftum sínum að því að skera úr um þau jaðartilfelli sem upp koma.

Útilokar flest sprotafyrirtæki

Skilyrði fyrir skattfrádrætti vegna þróunarkostnaðar eru m.a. þau að fyrirtækið leggja út 20 mkr til rannsókna- og þróunar á komandi 12 mánuðum. Þetta útilokar fyrirtæki sem hafa færri en 3-4 við rannsóknarstörf. 

Fyrirtæki þurfa að vera enn stærri til þess að kaupendur að hlutabréfum þeirra njóti skattfrádráttar. Þau skulu hafa varið 40 milljónum á ári til rannsóknar- og þróunar undanfarin tvö ár.  Þetta útilokar augljóslega fyrirtæki sem eru yngri en tveggja ára og væntanlega líka þau sem hafa haft færri en 8 starfsmenn í þróunarstörfum undanfarin tvö ár. 

Það verður að teljast afar óheppilegt ef lögin nýtast ekki smærri fyrirtækjum með stutta sögu t.d. þeim fjölmörgu sprotafyrirtækjum sem hafa sprottið upp í kjölfar hrunsins.

Skiptir litlu máli fyrir stærri fyrirtæki

Þau fyrirtæki sem uppfylla skilyrði um frádrátt vegna þróunarkostnaðar geta dregið 15% af útlögðum kostnaði frá skatti. Þó er sett hámark við 50 mkr. sem þýðir að hámarks frádráttur fyrir hvert fyrirtæki er ekki nema 7.5 milljónir sem er rúmlega kostnaður við einn auka starfsmann á ári.

Stærri fyrirtæki munu því ekki ráða marga nýja starfsmenn á grundvelli þessara laga, sem er mjög miður.

Hámörk skattafsláttar vegna fjárfestingar eru allt of lág

Einstaklingar geta árlega dregið frá skattskyldum tekjum sínum 300 þúsund kr. af kaupverði nýrra hlutabréfa í nýsköpunarfélögum. Þessi upphæð er því miður allt of lág. Nýsköpunarfyrirtæki þyrfti samkvæmt þessu að afla 20 nýrra hluthafa til að fjármagna eitt stöðugildi við rannsóknir. Það væri miklu vænlegra ef fjárhæðin væri 1-3 milljónir á mann.

Lögin gefa heldur ekkert svigrúm fyrir rekstur sjóðs til að fjárfesta í Nýsköpunarfyrirtækjum en slíkur sjóður gæti boðið einstaklingum áhættudreifingu, lagt faglegt mat á fyrirtækin og þau myndu fá einn stóran hluthafa í stað fjölmargra smárra. Þetta er galli.

Hvers vegna þrenn áramót?

Það má færa góð rök fyrir því skilyrði að fólk eigi hlutabréfin yfir tvenn áramót en krafa um eignarhald yfir þrenn áramót (rúmlega tvö ár) gerir lítið annað en að fæla einstaklinga frá því að taka þá áhættu sem felst í því að kaupa hluti í nýsköpunarfélögum. Sjá Mál 82

Hvers vegna svona flókið?

Þessi lög eru sögð byggja á Norskri fyrirmynd. Ekki vil ég amast við því að við leitum í reynslubanka nágrannaþjóða, en kannski er þetta kerfi ekki einfaldasta leiðin til að ná markmiðinum. 

Ef menn vilja hvetja Nýsköpunarfyrirtæki til að vera djarfari í sókn og atvinnusköpun þá mætti líka læra af reynslu frænda okkar í Kanada. Þar fá nýsköpunarfyrirtæki einfaldlega endurgreidd 30% af útborguðum launum við rannsóknir þróunarstörf. Nánast sama fjáræð og starfsmaðurinn greiðir í tekjuskatta. Ekkert hámark eða lágmark á fjölda starfsmanna. Kerfið er einfalt og öll nýsköpunarfyrirtæki sitja við sama borð.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband