Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Hörð gagnrýni á Seðlabankann

GOMC2CT6

Ragnar Þórisson ritaði áhugaverða grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann gagnrýnir hávaxtastefnu Seðlabankans. Háir vextir núna koma beinlínis í veg fyrir styrkingu krónunnar. Greinin í heild:

AÐ PENINGASTEFNUNEFND Seðlabankans hafi haldið stýrivöxtum óbreyttum í 12% er alveg út í hött enda blæðir íslenskum fyrirtækjum og heimilum á meðan sparifjáreigendur og erlendir jöklabréfaeigendur hlæja og græða á tá og fingri á okkur kostnað.

Þess má geta að Ungverjar, sem eru í meiri klípu en við, lækkuðu sína stýrivexti um 1% þann 27 júlí en þess má geta að AGS er með Ungverja í gíslingu eins og okkur þó þar sé sjóðurinn ekki að handrukka »Icesave« nauðasamning fyrir sína umbjóðendur eins og gert er grímulaust hér á landi.

Þessi peningastefnunefnd Seðlabankans virðist ekki hafa »götugreind« til að skilja það að íslenska krónan mun styrkjast ef stýrivextir verða lækkaðir en þess má geta að slíkt hefur gerst í Tyrklandi síðustu mánuði eftir að Seðlabanki Tyrklands byrjaði að lækka vexti jafnt og þétt og hafa hafa þeir nú lækkað stýrivexti um 8,5% niður í 8,25% á síðustu 8 mánuðum.

Tyrkneska líran hefur styrkst í gegnum þetta vaxtalækkunarferli. Því miður kemur hvergi fram í kennslubókum fyrir hagfræðinga að ef bankakerfi og hagkerfi hrynur samtímis, hindrar hávaxtastefna nauðsynlegan hagvöxt þar sem slík stefna fyrirbyggir fjárfestingu í atvinnuuppbyggingu.Þetta er staðreynd sem fjárfestar skilja vel og halda að sér höndum og því erum við komin í vítahring í umboði manna sem treysta því að meira af því sama sem kom gjaldmiðlinum í þrot muni ná honum aftur á flot.

Til þess að laða að nýja erlenda fjárfesta þá þarf að skapa grundvöll til fjárfestinga og fyrir lönd sem eru í klípu eins og Ungverjaland, Tyrkland og Ísland skiptir mestu máli að sýna fram á endurreisn efnahagsins og það er á þeim tímapunkti sem allir fjárfestar vilja komast inn, þ.e.a.s. á botninum og í byrjun vaxtalækkunarferlis. Nú þegar Tyrkir lækka vexti þá sýnir það erlendum fjárfestum að þeim sé alvara og hafi þor og þá byrja fjárfestar að koma inn og þá ekki bara til að kaupa ríkisskuldabréf heldur líka hlutabréf í fyrirtækjum og við það styrkist gjaldmiðillinn.

Ein birtingarmynd fáránleikans í hávaxtastefnu Seðlabankans er að nú liggja um 130 milljarðar af innlánum úr viðskiptabönkunum inni á reikningi í Seðlabankanum sem bankinn borgar 9,5% vexti af. Öllum ætti að vera ljóst að þessir peningar liggja dauðir og leiða ekki til verðmætasköpunar heldur leggjast á byrðar skattgreiðenda. Einnig er ljóst að þessir peningar leita td. ekki í fjárfestingar í íslenskum sprotafyrritækjum á meðan ríkistrygging er á þessum huggulegu dekurvöxtum sem, n.b., eru 8 sinnum hærri en í Noregi.

Skilaboð Seðlabanka Íslands til erlendra fjárfesta eru því einföld, hér á ekki að fara í endurreisn og hér ætla menn að dekra við þá fjárfesta sem eru fastir inni í kerfinu eins og jöklabréfaeigendur, sem að sjálfsögðu er algjör firra.

RAGNAR ÞÓRISSON,

AGS lánin til óþurftar

thorlindurÞórlindur Kjartansson hagfræðingur vakti athygli á því í vikuni að frekari AGS lán væru gagnslítil. Ég mæli sterklega með grein hans "Ólán í láni" sem birtist á Deiglunni. Hér eru nokkrir punktar úr henni:

1. Ef við tökum það ekki mun erlend skuldastaða ríkisins áfram vera mjög góð í samanburði við önnur lönd, þótt innlend skuldastaða verði verulega slæm.

2. Ef við tökum það þá stendur ekki til að nota það til þess að verja gengi krónunnar, þótt vafasamt sé að treysta stjórnmálamönnum til að standast þá freistingu.

3. Lánaloforðið hefur verið notað til þess að þrýsta á Íslendinga að gangast undir hrikalega ósanngjarna samninga um Icesave skuldbindingarnar og með því að fá ekki lánið ættum við að geta rétt úr bakinu í þeirri deilu.

4. Lánaloforðið hefur haft í för með sér að ekki hefur verið unnt að lækka vexti - og í ofanálag hafa verið sett hér gjaldeyrishöft sem virka eins og fótlóð á hina þreyttu fætur íslensks athafnalífs. Hvernig stuðlar það að "endurreisn íslensks efnahagslífs?" má spyrja.

5. Niðurstaða þess að taka lánin munu líklega verða til þess að með einum eða öðrum hætti (til dæmis með innspýtingu fjár í bankana eða gervi-gengishækkunum) mun stærri hluta kostnaðar af gjaldþroti íslensku einkabankanna verða velt af erlendum áhættufjárfestum og yfir á íslenska skattgreiðendur.

Aðspurðir hafa fleiri hagfræðingar tekið undir sjónarmið Þórlinds.

Eyjan.is leitaði álits Jóns Steinssonar, lektors í hagfræði við Columbia háskóla í Bandaríkjunum, og hafði hann meðal annars þetta að segja:

Ég held að það sé alltof mikið gert úr mikilvægi þess að við byggjum upp stóran gjaldeyrisvaraforða við núverandi aðstæður. Eins og Þórlindur bendir á hafa stjórnvöld þráfaldlega tekið fyrir það að þennan gjaldeyrisvaraforða eigi að nota til þess að styðja við gengi krónunnar. En til hvers er hann þá? Jú, hann skapar ákveðið öryggi varðandi ýmsa erlenda fjámögnun á næstu misserum. En hættan er - eins og Þórlindur bendir á - að stjórnmálamenn og/eða Seðlabankinn freistist til þess að sóa honum í vitleysu eins og stórkostleg gjaldeyrisinngrip til þess að halda í falskt gengi.

Í viðtali við Fréttastofu Stöðvar 2 sagði Jón Daníelsson hagfræðiprófessor við London School of Economics meðal annars þetta:

Ef við setum þetta í samhengi, þá eru þessi lán hærri upphæð en allur Icesave-pakkinn. Ef við höfum ekki efni á að taka Icesave á okkur, þá hlýtur að liggja ljóst fyrir að við höfum ekki heldur efni á að eyða þessum peningum í að styrkja krónuna. Þetta vita allir sem fylgjast með gjaldeyrismörkuðum.

Gjaldeyrisvaraforði, sem ekki má eyða, hefur engan tilgang.

Hin hlutlausa fréttastofa RÚV náði greinilega ekki sambandi við Þórlind Kjartansson, Jón Daníelsson né Jón Steinsson vegna málsins en tók hinsvegar viðtal við Vilhjálm Egilsson doktor í hagfræði og framkvæmdastjóra Samtaka Atvinnulífsins. Spurning RÚV virðist hafa verið sú hvort "gjaldeyrisvarasjóður af þessu tagi sé óþarfur eða hafi ekki tilgang". Vilhjálmur gat auðvitað ekki svarað öðru en að betra væri að hafa stóran gjaldeyrisvarasjóð. Sjá umfjöllun RÚV um málið.

Í tilefni af þessu ritaði Ólafur Arnarson, hagfræðingur og MBA pistil á Pressuna og kemst að eftirfarandi niðurstöðu:

Þess vegna er óhætt að fullyrða að við þurfum ekki að ganga frá Icesave og fá lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum til að byggja hér upp gjaldeyrisvarasjóð.

Sá sjóður verður vitagagnslaus og mun ekkert gera annað en að ala á falskri öryggistilfinningu þeirra, sem ekki skilja alþjóðlega fjármálamarkaði.

Þetta er allt mjög merkilegt því fram til þessa hefur það verið viðtekinn stóri sannleikur að við þurfum að taka gríðarleg erlend lán frá AGS og víðar til að málin gangi upp.

Reynist það á misskilningi byggt þá kallar það að sjálfsögðu á endurmat á aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar og það tafarlaust. 

Hvernig skyldi ríkisstjórnin bregast við?


ESB og hagsmunir atvinnulífsins

Sú skoðun hefur komið fram hjá einhverjum atvinnurekendum að það verði auðveldara að ná árangri í rekstri Íslenskra fyrirtækja ef Ísland gerist aðili að ESB og hér verði tekin upp evra í framhaldinu. Þá munum við losna við þann óstöðugleika sem einkennt hefur krónuna og aðgangur að erlendu lánsfé batni. Sumir virðast jafnvel trúa því að aðildarumsókn ein og sér muni efla tiltrú erlendra fjárfesta, styrkja gengi krónu og bæta aðgang að erlendu lánsfé.

Trúverðugleiki eða hókus pókus? 

Því miður bendi allar hagstærðir til þess að Ísland muni ekki ná að uppfylla skilyrði ESB um upptöku evru fyrr en eftir mörg ár, líklega áratugi. Þetta vita erlendir fjárfestar að sjálfsögðu og því mun tiltrú þeirra ekki aukast í bráð þótt við göngum í ESB. Við þurfum að grípa til mun trúverðugri aðgerða til að vekja tiltrú fjárfesta og gæta þess að eyða ekki tíma í að elta þá hókus pókus lausn stjórnmálamanna sem ESB aðild er.

Evran of sterk fyrir Írland

Aðgangur að lánsfé er erfiður alls staðar í heiminum. Hvernig halda menn að írskum fyrirtækjum gangi að fá lán núna? Samt eru Írar í ESB og með hina rómuðu evru. Evran er bara of sterk fyrir Írland núna og þeir geta engu breytt um það. Samkeppnishæfni írsks atvinnulífs hefur minnkað í samanburði við breskt atvinnulí því gengi pundsins hefur lækkað miðað við evru. Vandamál Írlands verður auðvitað ekki leyst með því að ganga í ESB og taka upp evru. Eins og Íslendingar, þá gerðu Írar sín mistök og nú þurfa þeir að vinna sig upp úr vandanum með trúverðugum aðgerðum, eins og við. 

ESB hindrar ekki aðildarríki sín í að gera mistök og ESB leysir heldur ekki vandamálin fyrir sín aðildarríki. Þegar harðnar á dalnum er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sendur inn í aðildarríkið.

Krónan er samkeppnistæki

Krónan truflaði Ísland ekki í því að komast úr hópi fátækustu þjóða Evrópu í hóp þeirra ríkustu á fáeinum áratugum.

Ég dreg í efa að annar gjaldmiðill hefði verið eitthvað hentugri eða við öðlast meiri lífsgæði með alþjóðlega mynt. Lönd sem hafa eigin gjaldmiðil eru nefnilega samkeppnishæfari en önnur lönd og þau geta betur mætt hagsveiflum. Þau geta frekar haldið atvinnuleysi niðri, sköttum lágum og viðvarandi afgangi af viðskiptum við útlönd ef rétt er haldið á spilunum. Joseph Stiglitz hagfræðingur og nóbelsverðlaunahafi skrifaði mjög áhugaverða skýrslu fyrir Seðlabankann árið 2001 sem innihélt prýðilegar ábendingar um hvernig við gætum náð árangri með eigin mynt, varið hana gegn spákaupmennsku ofl. Seðlabankinn hefði betur farið eftir þeim ábendingum. Það væri líklega trúverðugt í augum umheimsins ef við tækjum upp þau ráð núna í stað þess að tala niður krónuna sem ónýtan gjaldmiðil.

Áhættusamt að ganga inn

Það er ekki bara óþarft fyrir Ísland að ganga í ESB heldur er það líka áhættusamt. Við erum mjög fá og eigum hlutfallslega miklu meira af auðlindum, land- og hafsvæðum en aðrir íbúar Evrópu. Hagsmunir okkar eru ólíkir þeirra að því leiti að við erum aflögufær með orku, land og prótein en Evrópubúa skortir orku, vatn og prótein. Við ættum ekki að freista þeirra með því að deila með þeim löggjafarvaldi yfir landinu. Til langs tíma litið mun það bara fara á einn veg.

Tollabandalag með hverfandi hagvöxt 

Það þjónar ekki hagsmunum íslensks atvinnulífs vel að loka sig inni í tollabandalagi með þjóðum sem sjá fram á minni hagvöxt en flest önnur svæði heims. Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Evrópusvæðið dregur upp dökka mynd af ástandinu í ESB næsta áratuginn. Á sama tíma er hagvöxtur í Kína 7% og ágætt ástand í Kanada. Nýlega tók gildi fríverslunarsamningur við Kanda og samningur við Kína er á leiðinni.

Fríverslunarsamningar Íslands eru ómetanlegur fjársóður 

Rétt að geta þess að fríverslunarsamningar Íslands við önnur lönd eru ómetanlegur fjársjóður sem tekið hefur áratugi að byggja upp en þeir munu allir falla niður við inngöngu í ESB og verða ekki endurvaktir þótt við segjum okkur úr sambandinu. Úrsögn úr ESB er því nánast óhugsandi, hversu illa sem okkur líkar vistin.


Alþingi verður að fella ICESAVE frumvarpið

icesaveAlþingi verður að segja NEI við frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð á tryggingasjóð innistæðueigenda. Það finnast hvorki lagaleg né siðferðileg rök fyrir því að varpa skuldum einkabanka á saklausan almenning.  Ríkisstjórn Íslands hefur koðnað undan þrýstingi frá Bretum, Hollendingum og öðrum Evrópuþjóðum sem vildu ekki fara dómstólaleiðina vegna þess að þau hefðu tapað málinu á lagarökum. Evrópuþjóðir óttuðust að málareksturinn hefði "kollvarpað trausti á fjármálakerfi allra Evrópuríkja" eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu:

Íslensk stjórnvöld hafa allt frá upphafi málsins haldið því sjónarmiði fram af miklum þunga að tilskipun 94/19/EB um innstæðutryggingar hafi verið innleidd í íslenskan rétt á fullnægjandi hátt og án athugasemda og að íslenska ríkinu beri ekki að ábyrgjast innstæður umfram þá upphæð sem var í tryggingarsjóði innstæðueigenda. Íslensk stjórnvöld bentu einnig á samábyrgð Evrópuríkja vegna þess hve regluverkið varðandi innstæðutryggingar var gallað, enda hafi því ekki verið ætlað að taka til kerfisbundins hruns meginþorra fjármálastofnana á sama tíma. Í ljósi mikilvægis málsins var leitað eftir því að úr málinu yrði skorið fyrir dómi eða með öðrum viðunandi lögfræðilegum hætti. Staðreyndin er þó sú að allar leiðir til þess að leggja málið í dóm eða gerð myndu krefjast samþykkis allra málsaðila í samræmi við óumdeildrar meginreglu þjóðaréttar. Bretland og Holland þvertóku fyrir slíkan málarekstur og voru studd af öllum Evrópusambandsríkjunum auk Noregs. Rök þeirra voru samhljóða á þá leið að takmörkun ábyrgðar við eignir tryggingarsjóða væri fráleit lögfræðileg túlkun og málarekstur um slíkt væri til þess eins fallinn að grafa undan, ef ekki kollvarpa, trausti á fjármálakerfi allra Evrópuríkja

 

Ef íslendingar höfðu svona rangt fyrir sér og ríkinu bar að greiða það sem á vantar í tryggingasjóðinn, þá stafaði fjármálakerfinu auðvitað engin hætta af málinu þótt það væri tekið fyrir. ESB þorði greinilega ekki að taka þann slag.

Þegar kreppan skall á og bankarnir féllu kusu Bretar og Hollendingar að borga trygginguna út þótt þeim bæri ekki skylda til þess. Þetta gerðu þeir í því skyni að auka traust á bankakerfum sínum og draga þannig úr líkum á falli sinna banka. Þetta var þeirra val og eflaust skynsamlegt. En svo tóku þeir sig saman um að koma skuldinni á íslendinga og þegar lagarök þraut beittu þeir í staðinn þvingunum og hótunum.

Í stað þess að standa og berjast, guggnaði ríkisstjórnin og tók að ganga erinda Evrópu við það að leggja gríðarlegar skuldir á blásaklausa landsmenn. Varlega áætlað 2-3 milljónir á hvert mannsbarn, 12 milljónir á meðalfjölskyldu og við þetta bætast vaxtavextir. Jafnvel í mesta góðærinu voru ekki sérlega margar fjölskyldur sem voru aflögufærar um 12 milljónir. Hugsum okkur nú að ALLAR fjölskyldur leggi til 12 milljónir. Það mun augljóslega steypa þjóðinni í fátækt, jafnvel við bestu skilyrði.

Viðskiptaráðherrann hefur samt haldið því fram í blaðagrein og í þingræðu að þjóðin geti staðið undir þessu. Það er gott að vera bjartsýnn en mér er það óskiljanlegt hvernig ráðherrann getur talið sér trú um þetta. Sigmundur Davíð bendir á í sínu andsvari að þessa skuld þarf að greiða í beinhörðum gjaldeyri og hún er hrein viðbót við allt það eignatjón sem íslendingar þegar mátt þola og allar skuldirnar sem eru nú þegar að sliga fyrirtæki og heimili. 

Önnur ástæða til að fella þetta ICESAVE frumvarp er samningurinn sjálfur sem er vægast sagt mjög einhliða og óaðgengilegur fyrir Ísland. Vextirnir allt of háir og til hvers eru þessi ákvæði um aðför að eignum ríkisins hvar sem þær finnast þegar dráttur verður á greiðslu? Samningurinn gjaldfellur líka í heild sinni ef alþingi setur lög sem Bretar eða Hollendingar telja að ógni greiðslugetu okkar. Þetta þýðir að öll ný lög þurfa að samþykkjast fyrirfram af þessum þjóðum á lánstímanum. Það eitt er óþolandi niðurlæging og skerðing á fullveldi okkar sem þjóðar.

Þessi ómögulegi samningur tekur ekki gildi nema alþingi samþykki ríkisábyrgð á skuld tryggingasjóðsins. Ríkið ber enga ábyrgð á sjóðnum samkvæmt neinum lögum, nema Alþingi sé svo vitlaust að samþykkja það.

Hvað gerist hinsvegar ef Alþingi fellir málið? Lífið heldur áfram. Skuldir okkar verða viðráðanlegri. Krónan styrkist og skuldir í erlendum myntum lækka tilsvarandi. Lánshæfismat skánar. Það verður ekki slökkt á Íslandi. Bretar og Hollendingar munu vilja semja, það er þeirra hagur að ná einhverju út úr okkur. 

Alþjóðasamfélagið mun ekki fordæma smáþjóð fyrir að standa á lagalegum rétti sínum. Jafnvel þótt öll ESB lönd velji að ríkistryggja sína innlánstryggingasjóði umfram lagaskyldu þá skapar það ekki lagalega skyldu fyrir Ísland að gera það sama.

Það mun enginn fordæma Ísland fyrir að hafna samningi sem það getur ekki staðið við.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun ekki afturkalla lánin þótt við stöndum á rétti okkar í þessu máli.

Evrópusambandið mun ekki hafna aðildarumsókn Íslands, því miður. Því við höfum ekki brotið nein lög Evrópusambandsins. Við fórum einmitt eftir lögunum í hvívetna.

Bretar og Hollendingar munu heldur ekki mótmæla inngöngu Íslands, því miður, því þeir hafa mikla hagsmuni af því að við göngum þar inn - hvernig sem þetta ICESAVE mál velkist.


ESB gefur sér falleinkun í stjórnun fiskveiða

pcp2_2Á vefsíðu ESB um stjórnun fiskveiða má finna vinnublað sem telur upp helstu ágallana við sameiginlega fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Þar kemur m.a. fram að 88% af fiskistofnum eru ofveiddir, þar af eru 30% stofna að hruni komnir. Auk gegndarlausrar ofveiði eru önnur helstu vandamál offjárfesting í skipum, óhóflegt brottkast, ólöglegar veiðar og almennur taprekstur í greininni svo eitthvað sé nefnt.

Fiskveiðistefna ESB leit fyrst dagsins ljós árið 1983 og hefur síðan þá verið endurskoðuð á 10 ára fresti  nú síðast árið 2002. Þær úrbætur sem þá voru lagðar til hafa enn ekki komist í framkvæmd nema að litlu leyti.

Það hefur aldrei vantað vilja hjá Brussel til að innleiða góða fiskveiðistefnu. Árangurinn hefur hins vegar vantað.

Þótt ekki hafi enn tekist að koma úrbótum frá 2002 í framkvæmd er nú lagt í að ræða frekari úrbætur sem skuli innleiða árið 2012. Stefnumiðin hljóma eins og áður mjög vel, en í ljósi reynslunnar er vissara að fóstra efasemdir um árangurinn.

Fyrir þá sem vilja lesa sér til er upplagt að lesa Grænbókina Reform of the Common Fisheries Policy sem kom út þann 22. apríl sl. (28 bls.)

Nokkuð hefur borið á þeim misskilningi að ef Íslendingar ganga án tafar í ESB geti þeir haft mikil áhrif á þær úrbætur sem gerðar verða á fiskveiðistefnu sambandsins árið 2012. Þetta er ekki alls kostar rétt. Þótt við gætum viðrað skoðanir okkar munu raunveruleg áhrif á stefnu ESB fara algerlega eftir íbúafjölda landsins. Ísland mun ekki ná neinu í gegn sem ESB finnst ekki góð hugmynd hvort sem er.

Jafnvel þótt farið yrði að ráðum Íslendinga er ekki víst að það myndi duga. Getuleysi ESB til að framfylgja eigin fiskveiðistefnu í gegnum tíðina vekur ekki traust.


Krónan er eitt öflugasta tækið sem við höfum

478666AKrónan er eini kosturinn sem okkur býðst næstu árin. Það sem kemur hinsvegar mörgum á óvart er að hún er líka besti gjaldmiðillinn fyrir Ísland til framtíðar.

Allt þetta tal um að krónan sé ónýt eða hún eigi sér ekki framtíð er misskilningur. Það sem hefur verið í ólagi er sjálf hagstjórnin og stjórn gjaldeyrismála. Vandinn varð til þegar krónunni var fleytt í lok mars 2001. 

Hvernig getur sú mynt verið ónýt sem dugði til að koma okkur úr sárri fátækt í hóp ríkustu þjóða heims? Ég leyfi mér að draga í efa að okkur hefði gengið betur að byggja upp efnahag landsins þó við hefðum búið við Dollara, Evru eða einhverja aðra heimsmynt undanfarin 40 ár.  Líklega hefði okkur gengið verr.

Meginkosturinn við að hafa eigin gjaldmiðil er hann gerir okkur kleyft að halda atvinnulífinu samkeppnishæfu við önnur ríki. Gengi krónunnar má stilla þannig að atvinna sé næg og viðskiptajöfnuður jákvæður. Ef við tökum upp erlendan gjaldmiðil mun hann sjaldnast vera rétt stilltur fyrir okkar aðstæður. Afleiðingin verður atvinnuleysi og ofþensla á víxl nema svo vel vilji til að aðstæður okkar séu einmitt eins og meðaltalið í útgáfulandi gjaldmiðilsins. Það væri fágætt. Atvinnuleysi er útbreitt vandamál í Evrópu og augljóslega miklu alvarlegra vandamál en verðbólga eða gengissveiflur.

Frá árinu 2006 fór gengi krónunnar að ganga verulega úr samhengi við efnahag landsins. Stórfellt innstreymi erlends fjármagns vegna virkjana, hávaxta og spákaupmennsku réðu ferðinni og krónan ofreis gjörsamlega.  Nú erum við að súpa seyðið af þessu mikla misræmi. Afleiðingin er gjaldþrot og stórfellt atvinnuleysi.

Ef við tökum hér upp erlenda mynt eins og Evru eða Dollar munum við ganga í gegnum slíkar sveiflur reglulega. Útlenda tökumyntin mun verða úr takti við okkar aðstæður og afleiðingarnar eru til skiptis innflutningur á vinnuafli og fólksflótti. Jafnvægi á vinnumarkaði verður fremur undantekning en regla.

Við Íslendingar höfum lifað afar góðu lífi þrátt fyrir gengissveiflur og verðbólgu. Þetta eru auðvitað vandamál en frekar smávægileg á við það atvinnuleysi sem þjóðin er að kynnast núna.

Full atvinna um áratuga skeið var að verulegu leyti sveigjanleika krónunnar að þakka.

En hvað um aðgang að erlendu fjármagni? Vilja erlendir fjárfestar koma með peninga inn í landið ef krónan er áfram? Ég man ekki betur en að við höfum haft ágætan aðgang að erlendu fjármagni gegnum tíðina. Hvernig tókst okkur annars að komast í þessar miklu skuldir?

Núna stynja atvinnurekendur allstaðar í heiminum um skort á lánsfé. Ekki kenna þeir krónunni um það. Sumir íslenskir atvinnurekendur virðast hins vegar halda að krónunni sé um að kenna. Það er auðvitað rangt.

Útlendingar eru fúsir til að fjárfesta í arðbærum fyrirtækjum, líka á Íslandi, ef fjárfestingartækifærið er gott. Fjárfestar þurfa að dreifa áhættu milli landa og gjaldmiðla. Það getur því verið kostur að bjóða upp á gjaldmiðil hér sem sveiflast ekki í takt við aðra miðla.

Þeir sem fjárfesta á Íslandi verða auðvitað að geta treyst því að geta ávallt fengið greiddan út sinn arð og endurheimta höfuðstól fjárfestingarinnar þegar og ef þeir vilja. Íslenska Ríkið þarf að tryggja þann rétt með skýrum og gagnsæjum reglum.

Við höfum nú lært af biturri reynslu að jafn lítil mynt og krónan má alls ekki fljóta. Hlutverk hennar verður að takmarkast við innlend viðskipti. Það þarf að verja hana gegn spákaupmennsku og óeðlilegum fjármagnshreyfingum. Með nútíma tækni má reka slíkar gjaldeyrisvarnir með þeim hætti að 98% allra erlendra viðskipta finni aldrei fyrir þeim.

Inn- og útstreymi fjármagns vegna risavaxinna framkvæmda eins og virkjana þarf auðvitað að meðhöndla sérstaklega svo gengi myntarinnar verði ekki fyrir óeðlilegum breytingum sem trufla atvinnulífið í heild.

Þeir sem gera sér vonir um lægri raunvexti af lánum ef tekin verður upp Evra ættu að líta til Grikklands þar sem vextir af lánum eru mun hærri en í Þýskalandi. Samt er Evra í Grikklandi. Hvernig má þetta vera? Jú Grikkland er skuldugra en Þýskaland og það er það sem skiptir mestu máli um vaxtastigið. Við fáum ekki vexti niður á Íslandi fyrr en við höfum greitt okkar skuldir niður að miklu leyti. Allt annað er óskhyggja.

Kostir þess að halda krónunni áfram eru í raun miklu veigameiri en ókostirnir. Það er okkur fyrir bestu að hætta að tala krónuna niður.

Krónan gefur okkur einmitt þann sveigjanleika og viðbragð sem við þurfum til að koma atvinnulífinu í fullan gang aftur og vinna okkur út úr vandanum.


USD er bara ein af mörgum bandarískum myntum

liberty dollarÞað kom mér á óvart að USD er alls ekki eini gjaldmiðillin í Bandaríkjunum. Þar eru í umferð tugir annara innlendra gjaldmiðla sem kallast aukagjaldmiðlar (e. complementary currencies, local currencies).

Eins og við er að búast endurspeglar gengi USD afkomu alls bandaríska hagkerfisins en ekki einstakra svæða. Bandaríkjadollar er því iðulega of sterkur fyrir sum héruð og á sama tíma of veikur fyrir önnur svæði. Afleiðing af of sterkum Dollar er aukið atvinnuleysi á viðkomandi svæði og fólksflótti til annarra svæða.

Við slíkar aðstæður getur aukagjaldmiðill örvað viðskipti á svæðinu, aukið hagvöxt og dregið úr atvinnuleysi.

Það eru til mismunandi tegundir af aukagjaldmiðlum, sumir eru gefnir út sem seðlar og mynt en aðrir eru bara til á rafrænu formi. Sumir eru ávísun á vinnutíma en aðrir á góðmálma.

Það er líka fullt af aukagjaldmiðlum í Evrópu, líklega eru 20 slíkir í Þýskalandi einu sér. 

Maður veltir því fyrir sér ef Dollar hentar svona illa í Bandaríkjunum og Evra hentar ekki öllum í Evrópu, er þá hægt að reikna með að þessar stóru myntir henti hér á Íslandi?

Hér eru nokkrar krækjur á síður sem fjalla nánar um aukagjaldmiðla.


Skynsamleg lausn á vanda heimilanna

Jón SteinssonGauti B. EggertssonFramsókn býður 20% niðurfærslu skulda, Sjálfstæðismenn jafna það og afnema verðtryggingu að auki, VG bjóða 4m kr. á línuna. Öllum má vera ljóst að þetta eru ekki lausnir á vanda þeirra verst settu. Þetta eru útspil til að veiða atkvæði.

Á meðan flokkarnir skruma eftir atkvæðum reyna aðrir að koma með lausnir sem duga. Hagfræðingarnir Gauti B. Eggertsson og Jón Steinsson rituðu mjög fína grein sem birt var í Morgunblaðinu 19. mars. Í greininni er sett fram ágæt tillaga að lausn.:

Að okkar mati þurfa skynsamlegar tillögur að uppfylla a.m.k. fimm skilyrði eins vel og kostur er: 1) Þær eiga að byggjast á skýrum, almennum reglum; 2) Þær eiga að vera nægilega einfaldar til þess að unnt sé að framkvæma þær hratt og örugglega; 3) Þær eiga að lágmarka eins og kostur er fjölda þeirra heimila sem neyðast til þess að selja hús sín; 4) Þær eiga að „leysa vandann“ þannig að ljóst sé þegar þær hafa verið framkvæmdar að engar frekari sérstakar aðgerðir muni koma til (aðeins þá mun hagkerfið aftur taka að starfa eðlilega); 5) Þær eiga að leysa vandann með lágmarks kostnaði fyrir skattborgara.

Til þess að uppfylla öll þessi skilyrði þurfa aðgerðir stjórnvalda að taka tillit til bæði tekna og eigna hvers heimilis fyrir sig. Þeir sem hafa meiri tekjur í framtíðinni hafa burði til þess að greiða meira. Og þeir sem eiga meiri eignir (t.d. stærra húsnæði) hafa einnig burði til þess að greiða meira.

Ein leið sem uppfyllir öll ofangreind skilyrði gengur þannig fyrir sig að lánaskilmálum er breytt þannig að: 1) Þak sé sett á greiðslubyrði heimilis sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hvers árs á lánstímanum og mismunurinn sem ekki næst að greiða leggst við höfuðstól og greiðist því síðar; 2) Lánstíminn er gerður sveigjanlegur. Lánstími þeirra lána sem ekki eru greidd að fullu á þeim árafjölda sem upphaflega lánið gerir ráð fyrir er lengdur þar til lánið er að fullu greitt. Þetta fyrirkomulag er svipað og það fyrirkomulag sem Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur notað um árabil (en þó ögn frábrugðið). Það er einnig áþekkt einni af þeim leiðum sem ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur nýlega kynnt til lausnar á greiðsluvanda húsnæðiseigenda þar í landi.

Þessi „LÍN leið“ hefur þann kost að hún er einföld í framkvæmd. Hún leiðir einnig sjálfkrafa til þess að þeir sem hafa burði til þess að greiða skuldir sínar að fullu gera það. Bankarnir bjóða nú þegar upp á ýmiss konar greiðslujöfnun og lengingu lána. Leiðin sem við leggjum til er því í rauninni útvíkkun og samræming á þeim leiðum sem eru í boði í dag. Við teljum að þau úrræði sem bankarnir hafa fram til þessa boðið gangi ekki nægilega langt. Það er auk þess afskaplega mikilvægt að tryggt sé að allir landsmenn eigi kost á sams konar breytingum á lánaskilmálum sínum.

Helsti ókosturinn við þessa leið er að þeir sem eru í hvað vonlausastri stöðu munu hafa háa hlutfallslega greiðslubyrði í langan tíma og munu hafa litla von um að geta lækkað hana. Langflestir munu hins vegar hafa hvata til þess að hækka tekjur sínar til þess að greiða lánið upp á sem skemmstum tíma.

Hvernig væri unnt að útfæra þessa leið þannig að hún tæki mið af eignum fólks? Það mætti gera með því að miða greiðslubyrði hverrar fjölskyldu við eignastöðu hennar í dag. Þakið á greiðslubyrði gæti til dæmis verið 40% af tekjum eftir skatta fyrir þá sem eiga eignir undir 30 m.kr. En hærri fyrir þá sem sem eiga í dag meiri eignir. Líklega væri heppilegt að þakið á greiðslubyrði væri ekki miðað við eignir fólks á hverjum tíma í framtíðinni heldur einungis eignastöðu þess nú. Að miða það við eignastöðu fólks í framtíðinni hefði þann ókost að það myndi draga um of úr hvata fólks til þess að spara og byggja upp eignir að nýju.

Mikilvægur kostur við þessa leið er að allar fjölskyldur landsins eiga þess kost að halda áfram að búa í því húsnæði sem þær búa í nú. Tillagan gerir ráð fyrir að fólk með litlar eignir þurfi að greiða lægra hlutfall tekna sinna í afborganir af skuldum sínum en fólk með miklar eignir. Það mætti til dæmis hugsa sér að þakið á greiðslubyrði hækkaði um eitt prósentustig fyrir hverjar 5 m.kr yfir 30 m.kr eign heimilis í byrjun árs 2009. Þá væri þetta þak 44% fyrir þá sem áttu eignir upp á 50 m.kr í byrjun árs en 54% fyrir þá sem áttu eignir upp á 100 m.kr í byrjun árs. Þeir sem eiga miklar eignir munu því þurfa að leggja meira á sig ef þeir ætla að komast hjá því að selja eignir sínar. Sum heimili spenntu bogann allt of hátt í uppsveiflunni. Það er eðlilegt að þau þurfi að leggja meira á sig til þess að halda sínu en hinir sem voru varkárari.

Huga þarf vel að ýmsum útfærsluatriðum varðandi þessa leið (og þessi grein inniheldur ekki tæmandi lista hvað það varðar). Til dæmis er mikilvægt að hjón geti ekki komist hjá því að greiða skuldir sínar með því að færa skuldir á þann aðila sem hefur minni tekjur. Þá þarf að takmarka framseljanleika þessara lána. Loks er engin ástæða til að veita lánafyrirgreiðslu af þessu tagi fyrir fleiri en eitt hús á hverja fjölskyldu, og eðlilegt að setja einhver takmörk um hversu há lánin geta verið sem hægt er að breyta á þennan hátt. Það er engin ástæða fyrir skattgreiðendur að niðurgreiða sumarhallir með þyrlupöllum.

En leiðin sem við leggum til er hér að ofan er ekki eina leiðin til þess að taka á vanda skuldsettra heimila. Önnur leið væri að nota upplýsingar um eignir, tekjur síðustu ára, menntun og aldur heimilismanna á hverju heimili til þess að leggja mat á framtíðartekjur og þar með greiðslugetu heimilisins. Ef skuldir heimilisins reynast meiri en greiðslugeta þess, væru skuldirnar færðar niður að greiðslugetu. Helsti ókosturinn við þessa leið er að erfitt getur verið að spá fyrir um framtíðartekjur (og þar með greiðslugetu) heimila. Framtíðartekjur fólks eru háðar mikilli óvissu. Sum heimili myndu því vafalítið fá greiðslumat sem væri töluvert of hátt og önnur fá greiðslumat sem væri töluvert of lágt. Þessi leið hefði líka þann galla að hún væri ekki jafn gegnsæ og hin, og því meiri hætta á misnotkun við útfærslu hennar.

Báðar þessar leiðir eru framkvæmanlegar. Og báðar leysa vanda skuldugra heimila með mun minni kostnaði fyrir skattborgara en tillögur sem gera ráð fyrir hlutfallslegri niðurfellingu skulda annaðhvort beint eða með afturvirku afnámi verðtryggingar. Okkar mat er að „LÍN leiðin“ sé líklega ákjósanlegri þar sem hún er einfaldari í framkvæmd og öruggari hvað það varðar að setja þak á greiðslubyrði heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum á hverjum tíma.

Ágæt tillaga hjá þeim félögum. Skýr markmið og aðferðafræði sem virkar. 


Er krónan rót vandans?

krónurSú skoðun virðist mjög útbreidd að krónan eigi sér ekki framtíð og stjórnmálamenn eru farnir að velta fyrir sér í mikilli alvöru að innleiða hér erlendan gjaldmiðil. Slík aðgerð yrði mjög dýr og nánast óafturkræf. Er öruggt að hún væri til bóta?

En hvað ef krónan er alls ekki vandinn? Er ekki hugsanlegt að hann felist í slæmri hagstjórn, röngum ákvörðunum stjórnenda og einsleitu og þar með sveiflukenndu hagkerfi? Það finnst mér frekar líklegt.

Ef okkur á að ganga betur í framtíðinni þurfum við að læra að mistökum og ráðast að rót vandans.

Þegar vel árar í atvinnuvegum eykst eftispurn eftir krónum og gengi hennar styrkist, í niðursveiflu dregur úr eftirspurn og gengið veikist. Þetta á ekki að koma stjórnendum fyrirtækja á óvart. Nú þurfa þeir að viðurkenna ábyrgð á því að hafa skuldsett fyrirtæki sín í erlendum myntum eins og uppsveiflan myndi vara að eilífu. Stjórnendur kjósa að sjálfsögðu að kenna krónunni um, þó að í raun og veru sé sökin  hjá þeim sjálfum.

Í stað þess að játa mistök og læra af þeim leggja stjórnmálamenn og stjórnendur nú til að við tökum upp útlenda og "trausta" mynt. En hún mun því miður ekki endurspegla íslenskar aðstæður. Sá galli mun síðan leiða til gjaldþrota og atvinnuleysis þegar gengi gjaldmiðilsins verður of sterkt fyrir okkar aðstæður. Nú eru Grikkir, Írar og fleiri þjóðir einmitt í þeirri stöðu.

Íslendingar eru núna að kynnast því hvernig fer ef gjaldmiðill og hagkerfi eru ekki í takt. Stjórnvöld létu það nefnilega viðgangast allt frá árinu 2006 að krónan styrktist án nokkurs samhengis við íslenskt efnahagslíf. Ef Seðlabankinn og ríkisstjórnin hefðu haft dug til að grípa til aðgerða þegar einkennin voru orðin augljós, hefði mátt fyrirbyggja ofstyrkingu krónunnar og skuldasöfnun fyrirtækja og almennings. Bankarnir hefðu þá síður rúllað og mun færri fyrirtæki væru gjaldþrota. Stjórnvöld vilja auðvitað kenna krónunni um hvernig fór, en sökin er í raun og veru hjá þeim og engum öðrum.

Stundum heyrir maður þau rök að Ísland sé of fámennt land til að hafa eigin gjaldmiðil, seðlabanka og fjármálaeftirlit. Hvernig má það vera að land sem telur færri íbúa en meðalstór gata á Manhattan þurfi eigin gjaldmiðil?  Ástæðan er einfaldlega sú að við erum ekki á Manhattan. Við erum í allt öðru umhverfi og þurfum að geta brugðist við öðrum aðstæðum. 

Það er rétt að rifja upp að þar til við misstum fótanna í bankamálunum gekk okkur mjög vel og það var undir eigin stjórn og með eigin gjaldmiðil. Þrátt fyrir krónuna komumst við úr sárri fátækt í hóp ríkustu þjóða heims. Það hljóta að teljast nokkur meðmæli með krónunni.

 

 

 


Hvaða fyrirtækjum á að bjarga?

Of einfalt?Fyrirsjáanlegt er að mörg fyrirtæki munu verða gjaldþrota ef þeim er ekki komið til bjargar. Framsókn hefur komið með tillögu sem vekur spurningar, en líka fleiri hugmyndir.

Neðst í tillöguskjali Framsóknar stendur þetta:

"Það sama á við um fyrirtæki og heimili. Raunhæfasta og sanngjarnasta leiðin er sú að eitt sé látið yfir alla ganga. Það er æskilegast hvort sem um er að ræða mjög illa stödd, sæmilega stödd eða vel stödd fyrirtæki. Fyrirtæki sem er mjög illa statt fjárhagslega verður líklega gjaldþrota hvort sem það fær 20% skuldaniðurfellingu eða ekki. Það felst því enginn skaði í því fyrir kröfuhafann að gefa eftir 20% skuldarinnar, enda voru þeir peningar líkast til hvort eð er tapaðir. Fyrir sæmilega statt fyrirtæki getur 20% skuldaniðurfelling hins vegar skipt sköpum (samhliða vaxtalækkun). Þau geta þá haldið áfram rekstri og komist hjá því að segja upp fólki. Vel stödd fyrirtæki sem fá skuldaniðurfellinguna eru hins vegar ekki síður mikilvæg. Það eru fyrirtækin sem munu þá hafa eigið fé til uppbyggingar. Þ.e. til að kaupa önnur félög (m.a. þau sem fara í þrot), standa að nýsköpun og stuðla að uppbyggingu atvinnulífsins."

Þarna er lagt til að skuldir allra fyrirtækja (við ríkisbankana) séu lækkaðar um sömu prósentu, óháð því hvort þau eru vel eða illa stödd. Ekki kemur fram hve háar upphæðir er um að ræða alls eða í hverjum flokki, en þær hljóta að vera verulegar.

Er skuldsetning sanngjarnt viðmið þegar á reynir?

Ef aðeins ætti að aðstoða gjaldþrota fyrirtæki væri eðlilegt að miða við skuldastöðu, en fyrst hugmyndin er sú að liðsinna öllum fyrirtækjum getur falist hrein mismunun í því að miða eingöngu við skuldir.

Taka má dæmi um tvö fyrirtæki í samkeppni, annað er lítið skuldsett enda ávallt verið rekið af hagsýni en keppinauturinn er afar skuldsettur og tvísýnt um afdrif hans. Skuldsetta fyrirtækið fær tugmilljóna niðurgreiðslur en hið vel rekna fær aðeins örfáar milljónir.

Er það þjóðinni í hag að efla illa rekin fyrirtæki meir en hin betur reknu?

Hver eru markmiðin með björgunaraðgerðum?

Markmið Framsóknar eru án efa að koma í veg fyrir að góð fyrirtæki fari í gjaldþrot með tilheyrandi atvinnuleysi. Grípa þarf til skjótvirkra aðgerða til að bjarga málum svo fyrirtækin fái ráðrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum. Aðferðin má ekki vera of flókin. Varast ber óskýrar úthlutunarreglur sem geta leitt til spillingar eða grunsemda um spillingu. Kannski má ná þessu fram með því að þróa hugmyndina aðeins lengra. Markmiðin gætu t.d. verið:

  • Hjálpa þeim fyrirtækjum sem hafa flesta í vinnu.
  • Hjálpa þeim fyrirtækjum sem greitt hafa mesta skatta gegnum tíðina.
  • Hjálpa fyrirtækjum sem eru í greiðsluvanda.
  • Hjálpa fyrirtækjum sem geta sýnt fram á góða möguleika í framtíðinni.

Þetta eru bara tillögur, endilega koma með fleiri.

Hugmynd að nánari útfærslu

Einföldun er mjög æskileg. Albert Einstein sagði "Alla hluti ætti að einfalda eins mikið og hægt er, en þó ekki meira." Það virðist of mikil einföldun fólgin í því að miða eingöngu við skuldsetningu. Aðgerðin verður mjög dýr og réttlætanlegt að leggja töluverða vinnu í hana.

Ég legg til að sett verði upp einfalt en skilvirkt matskerfi sem gerir kleift að gefa fyrirtæki einkunn eftir því hversu vel það mætir skilgreindum markmiðum björgunaraðgerðanna. Síðan sækja fyrirtæki um, eru metin og fá í flestum tilfellum skjóta afgreiðslu. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband