Færsluflokkur: Evrópumál

Ellefu firrur (Jóns Baldvins Hannibalssonar) um Evruland

jbhJón Baldvin Hannibalsson ritar langa grein í Fréttablaðið 1. maí sl. sem titluð er "Ellefu firrur um Evruland". Í henni gerir Jón Baldvin tilraun til að leiðrétta helstu ranghugmyndir þeirra sem efast um að ESB sé góður kostur fyrir Ísland. Það er því full ástæða til að skoða röksemdir Jóns Baldvins og íhuga þær lið fyrir lið. Jón Baldvin skrifar:

1. Fullveldi fyrir bí. Evrópusambandið er samtök sjálfstæðra þjóða og fullvalda ríkja. Sérstaða Evrópusambandsins er sú að aðildarríki láta af hendi hluta af fullveldi sínu, en fá í staðinn hlutdeild í samþjóðlegu valdi sambandsins. Þetta þýðir meðal annars að smáþjóðir eru áhrifameiri um eigin hagsmuni innan sambandsins en utan. 

Eystrasaltsþjóðirnar eru gott dæmi um það. Þær endurheimtu sjálfstæði sitt formlega árið 1991, eftir að hafa verið innlimaðar með hervaldi í sovéska nýlenduveldið í tæplega hálfa öld. Fyrsta verk þeirra að fengnu sjálfstæði var að ganga í Evrópusambandið. Það gerðu þær að sjálfsögðu ekki til þess að farga nýfengnu fullveldi, heldur til að festa það í sessi og tryggja það fyrir utanaðkomandi ásælni. Þær gengu í ESB til þess að styrkja stöðu sína sem sjálfstæðar þjóðir. Það er fásinna að halda því fram að frændþjóðir okkar á Norður­löndum, sem eru í ESB, séu ekki lengur sjálfstæðar þjóðir. 
Með aðild okkar að EES-samningnum erum við nú þegar aðilar að ESB að u.þ.b. tveimur/þriðju hlutum, án þess að hafa áhrif á þá löggjöf, sem við fáum senda í pósti.Það sæmir varla fullvalda þjóð. Með inngöngu í ESB mundum við styrkja fullveldi okkar en ekki veikja. 

Ef aðildarríki ESB kalla sig ennþá sjálfstæð og fullvalda þá þarf eitthvað nýtt hugtak til að lýsa stöðu þeirra ríkja sem eru utan ESB og ráða sér sjálf í raun og veru. Sjálfstæði þýðir að standa á eigin fótum en alls ekki að vera háður stærri heild. Fullvalda þjóð hefur vald til að setja sér eigin lög og fylgja þeim eftir.

Jón Baldvin telur Eystrasaltsþjóðirnar gott fordæmi fyrir Ísland. Aðstæður þeirra voru hins vegar allt aðrar en okkar þegar þær kusu að ganga í ESB. Þær voru ekki aðili að EES og þurftu skjótan aðgang að markaði ESB. Hann var ekki í boði án inngöngu. Þær óttuðust ásælni Rússa og leituðu skjóls hjá ESB. ESB leiðin var því valin í neyð og þrátt fyrir það afsal fullveldis sem í því fólst.

Ísland hefur þegar afsalað nokkrum hluta fullveldisins með aðild að EES og líka með því að vera aðili að Sameinuðu Þjóðunum og öðrum alþjóðasamtökum en við erum fullvalda þjóð í öllum þeim miklivægu málaflokkum sem lúta að sérstöðu okkar og sjálfstæði. Við stýrum okkar eigin hafsvæði, veiðum, landbúnaði, utanríkismálum ofl. 100%.

Innan ESB myndum við hafa c.a. 0.03% áhrif á ÖLL okkar mál sem er augljóslega nánast fullkomið áhrifaleysi en Jón telur það betri kost en að við ráðum 100% um flest okkar mikilvægustu mál. 

Það hlýtur að vera augljóst að innan ESB mun fullveldi Íslands því minnka en ekki styrkjast. 

2. Ekki núna – kannski seinna. Það tekur tíma – nokkur ár allt í allt – að semja um aðild og upptöku evru, breyta stjórnarskrá og leggja aðildar­samning undir þjóðar­atkvæði. Einmitt þess vegna töpum við á því að draga málið á langinn. Einmitt þess vegna þurfum við að byrja samnings­ferlið strax. Og þetta er nauðsynlegt, af því að traustur gjaldmiðill og lægri vextir á lánum eru forsenda þess, að við getum unnið okkur út úr kreppunni. Til þess þurfum við að semja við Evrópusambandið núna, ekki seinna. Af því að Evrópusambandsaðild er partur af lausninni á bráðavandanum, en ekki framtíðarmúsík, sem við dönsum eftir einhvern tíma seinna.

Aðildarumsókn þarf vandlegan undirbúning og samstöðu hjá þjóðinni ef vel á að takast. Óðagot í samingum við ESB þýðir að við náum einfaldlega ekki eins góðum samningum. Ísland stendur mjög illa að vígi til að knýja fram undanþágur og þarf að styrkja stöðu sína áður en gengið er til samninga. 

ESB á í miklum erfiðleikum núna og er ekki von á mikilli "gjafmildi" við samingaborðið við slíkar aðstæður. Nú þarf hver að sjá um sig og sína. Betra væri að semja þegar ESB er komið á beinu brautina.

Traustur gjaldmiðill og lægri vextir koma ekki fyrr en eftir mörg ár. Ísland fær ekki aðild að EMU fyrr en það sýnir fram á að það getur stýrt eigin gjaldmiðli. Þá verður líklega enginn áhugi á að taka upp Evru.

3. Evrópusambandið veitir engar varanlegar undanþágur. Með öðrum orðum, það er ekki hægt að semja við Evrópusambandið. Þetta er ósatt. Allar þjóðir (og þær eru núna 27) sem hafa samið um aðild, hafa fengið viðurkenningu á brýnustu þjóðarhagsmunum í aðildarsamningum. Það er sjálf aðferðafræði Evrópusambandsins að leysa ágreiningsmál með samningum, á grundvelli laga og réttar. 

Aðildarsamningar hafa sömu þjóðréttarlegu stöðu og sjálfur stofnsáttmálinn. Það þýðir að þeim verður ekki breytt – þeir fela í sér varanlega lausn – nema við samþykkjum breytinguna sjálf. Dæmi um sérlausnir með vísan til sérstakra aðstæðna eru mýmörg. Gott dæmi er sérlausn fyrir heimskautalandbúnað Finna og Svía norðan 62° breiddargráðu. Með EES-samningnum hefur Ísland þegar yfirtekið um tvo/þriðju hluta af regluverki ESB. Meðal samningsmarkmiða er að fá viðurkenningu á sérlausn fyrir íslenskt fiskveiðistjórnunarsvæði. 

Jón fullyrðir að ALLAR 27 þjóðir hafi fengið viðurkenningu á brýnustu þjóðarhagsmunum í aðildarsamingum. Eftir töluverða yfirlegu tókst mér ekki að koma auga á neinar mikilvægar undanþágur í aðildarsamningi Búlgaríu og Rúmeníu, og fáar í aðildasamningi Tékklands, Eistlands, Kýpur, Lettlands, Litháen, Ungverjalands, Möltu, Póllands, Slóveníu og Slóvakíu. Vona að lesendur leiðrétti mig ef þetta er rangt.

Noregi var einmitt meinað um varanlegar undanþágur hvað varðar sameiginlegu fiskveiðistefnuna. Írland fékk inn varanlegt ákvæði um hlutleysi í utanríkismálum og stríði en ef Írland samþykkir Lissabon sáttmálann í þjóðaratkvæði þá er það ákvæði niður fallið.

Í öðrum löndum hefur Lissabon sáttmálinn ekki verið settur í þjóðaratkvæðagreiðslu heldur samþykktur af þingi hvers aðildarríkis. Varanlegar undanþágur geta því fallið niður sem hluti af stærra máli og framþróun sambandsins.

Sérlausn heimskautalandbúnaðar norðan 62° Breiddargráðu byggir á að sækja styrki til Brussel. Reglan er að gefa ekki undanþágu frá reglum ESB en beita styrkjum sem plástri vegna tjóns. Svíþjóð og Finnland greiða miklu meira til Brussel til að standa undir styrkjakefum ESB en þeir fá til baka.

4. Þeir stela af okkur auðlindunum. Þetta er skröksaga. Aðildarþjóðir Evrópusambandsins ráða sjálfar yfir auðlindum sínum. Bretar ráða sjálfir yfir sinni Norðursjávarolíu; Þjóðverjar yfir sínum kolanámum í Ruhr, Spánverjar yfir sínum ólívulundum og Finnar yfir sínum skógar­lendum. Með sama hætti munum við, Íslendingar, ráða yfir okkar eigin orkulindum í fallvötnum og jarðvarma. Okkur er í sjálfsvald sett, hvernig við högum eignaréttarskipan á auðlindum – hvort þær eru í einka- eða þjóðareign.

Í dag á Ísland allar sínar auðlindir óskiptar og setur sér lög um nýtingu þeirra. Fiskimiðin eru auðlind en engin ESB þjóð hefur sjálfræði yfir fiskimiðum sínum, það vald er í Brussel. Hingað til hefur ESB ekki gert tilkall til annarra auðlinda en fiskimiða. Með Lissabon sáttmálanum kemur þó inn ákvæði sem gefur ESB rétt til að ganga að orkulindum ef nauðsyn krefur. Ef Lissabon sáttmálinn tekur gildi þá er ESB vissulega komið með rétt til að hlutast um orkulindir aðildarríkja sinna. Það er réttur sem ESB hafði aldrei en ætlar sér að fá. Það er ekki hægt að útiloka að nauðsyn krefji að aðrar auðlindir fari sömu leið.

5. Við glötum yfirráðum yfir fiskimiðunum. Það er óhætt að fullyrða að það verður engin breyting á úthlutun veiðiheimilda innan íslenskrar lögsögu við aðild að Evrópusambandinu. Grundvallarreglur um sögulegan rétt og hlutfallslegan stöðugleika þýða að aðrar þjóðir öðlast engan rétt til veiða innan íslensku lögsögunnar. Eina breytingin verður sú, að útlendingar munu öðlast rétt til að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Rétt eins og Samherji t.d. hefur fjárfest í sjávarútvegsfyrirtækjum innan ESB. (70 prósent af tekjum Samherja koma utan Íslands). 
Vegna samkeppnis­yfir­burða íslensks sjávarútvegs er þetta kostur en ekki galli. Þetta er til dæmis leið til að losa sjávarútvegsfyrirtækin út úr skuldum, sem þau eru sokkin í vegna kvótabrasks. Hverri þjóð er heimilt að setja nánari reglur til að tryggja löndun og fullvinnslu afla í heimahöfn, þannig að tekjur skili sér til heimalandsins.

Við inngöngu í ESB verður hafið umhverfis landið undir stjórn ESB. Vald til lagasetningar um fiskveiðar á Íslandsmiðum færist til ESB. Umboð til samninga um hlutdeild í deilistofnum fer til ESB. Reglan um hlutfallslegan stöðugleika er til endurskoðunar hjá ESB. Við glötum semsé yfirráðum yfir fiskimiðunum. 

6. Sameiginleg fiskveiðistefna ESB rústar sjávarútveginn. Hin sameiginlega fiskveiðistefna Evrópusambandsins (CFP) er undantekning frá þeirri grundvallarreglu, að sérhver aðildarþjóð ráði ein yfir auðlindum sínum. Ástæðan er auðskilin. Öldum saman hafa margar þjóðir stundað veiðar úr sameiginlegum fiskistofnum á sameiginlegu hafsvæði, t.d. á Norðursjónum. Til þess að gæta jafnræðis var reglusetning um nýtingu sameiginlegra fiskistofna færð til Evrópusambandsins. Aðildarríkin verða síðan að semja sín í milli um framkvæmd stefnunnar og nýtingu auðlindarinnar. 
Þetta fyrirkomulag helgast af þessum sérstöku aðstæðum. Það gegnir allt öðru máli um íslensku fiskveiðilögsöguna. Hún er algerlega aðskilin frá hinu sameiginlega hafsvæði ríkjanna við Norður­sjó. Helstu nytjastofnar okkar eru allir staðbundnir. Að því er varðar flökkustofna, þá semjum við nú við Evrópusambandið og aðrar nágrannaþjóðir um nýtingu þeirra. Breytingin verður sú, að eftir aðild semjum við innan Evrópusambandsins um okkar hlut. 
Í ljósi þessara aðstæðna munu Íslendingar setja fram þá samningskröfu, að íslenska lögsagan verði sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði. Rökin fyrir þessari kröfu eru, að hér sé um brýnustu þjóðar­hagsmuni að ræða. Fyrir þessu eru fjölmörg fordæmi. Allar aðildarþjóðir hafa fengið viðurkenningu á brýnustu þjóðarhagsmunum. Það sem auðveldar okkur að ná þessari samningsniðurstöðu er, að það er ekkert frá Evrópusambandinu eða aðildarþjóðum þess tekið og við gerum engar kröfur um að taka neitt frá þeim, sem þær hafa átt. Þess vegna ætti ekki að vera torvelt að ná fram slíkri samnings­niðurstöðu, sem væri viðunandi fyrir báða aðila. 



Jón telur "ekki torvelt" að undanskilja fiskveiðar undan fiskveiðistefnu ESB og færir reyndar fyrir því ágæt rök. Ekkert bendir hinsvegar til þess að ESB sé sammála Jóni, þvert á móti hafa talsmenn ESB ítrekað að Ísland muni alls ekki fá undanþágu frá fiskveiðistefnunni. Samningsstaða Íslands er veik.

Fiskveiðistefna ESB hefur reyndar rústað sjávarútveg ESB. Í grænbók ESB um endurskoðun stefnunnar eru 88% stofna sagðir ofveiddir, þar af 30% við að hruni komnir, brottkast er gríðarlegt, offjárfesting í skipum, tap á greininni og svindlað á styrkjum.

7. Landbúnaðurinn mun leggjast af. Þetta er dæmigerður hræðslu­áróður. Samningsniðurstaðan varðandi íslenskan landbúnað mun sennilega taka mið af sérlausn Finna og Svía um þeirra heimskauta­landbúnað. Sú lausn felur m.a. í sér, að okkur verður í sjálfsvald sett að styrkja eigin landbúnað umfram þá styrki, sem fást úr sameiginlegum sjóðum ESB. En starfs­umhverfi landbúnaðarins hefur verið að breytast og mun halda áfram að breytast. Búum fækkar um leið og þau stækka, vegna hagræðingar. Það er framhald af ríkjandi þróun. Aukið viðskiptafrelsi með landbúnaðarafurðir mun hvort eð er verða staðfest, þegar yfirstandandi samningalotu alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) lýkur. 
Starfsskilyrði landbúnaðarins munu því breytast, hvort heldur við göngum í ESB eða ekki. Styrkir frá ESB eru ekki framleiðslutengdir heldur beinast frekar að búsetu, byggðastefnu og innviðum á landsbyggðinni. Innlend landbúnaðarframleiðsla mun því áreiðanlega taka breytingum, hvort heldur við göngum í ESB eða ekki. En í þeim breytingum felast líka tækifæri fyrir sumar greinar landbúnaðarins. Þar getum við mikið lært af Svíum, en sænsk landbúnaðarframleiðsla hefur styrkt stöðu sína eftir aðild á innri markaðnum. 



Landbúnaður mun ekki leggjast af en hann mun verða háður styrkjum ESB sem koma auðvitað út úr þeirri margmilljarða greiðslu sem Ísland þarf að greiða árlega í styrkjahít sambandsins. Þessar ódýru landbúnaðarvörur verða nefnilega að stóru leiti niðurgreiddar með sköttum á heimilin í landinu. 

Smærri bændur á Íslandi munu þurfa að eyða miklum tíma í að fylla út umsóknarform um styrki eða leggja ella upp laupana. Landið verður enn háðara innflutningi sem ógnar fæðuöryggi þjóðarinnar. 

8. Evrópusambandið er ólýðræðislegt. Engin önnur fjölþjóðasamtök hafa hjálpað jafnmörgum þjóðum til að losna frá arfleifð einræðis og kúgunar og að byggja upp stofnanir og starfshætti lýðræðis eins og Evrópusambandið. Þetta á við um Spán, Portúgal og Grikkland. Þetta á við um þjóðir Mið- og Austur-Evrópu. Þetta á við um vinaþjóðir okkar við Eystrasalt. Þetta á við um hinar nýfrjálsu þjóðir á Balkan­skaga. Fyrir utan átökin á Balkan­skaga, þar sem Evrópusambandið gætir nú friðarins, hefur þessi lýðræðisþróun átt sér stað án valdbeitingar. Evrópusambandið er því sterkasta friðar- og lýðræðisafl í okkar heimshluta. Þar að auki er Evrópusambandið öðrum fyrirmynd um það, hvernig efnahag og lífskjörum hinna fátækari þjóða hefur verið lyft upp á stig hinna, sem betur hefur búnast. 

Evrópusambandið er því öflugt jöfnunarafl að því er varðar efnahags- og lífskjaraþróun íbúanna. Innan Evrópusambandsins er að finna rótgrónustu lýðræðisþjóðir heims. Eftir hrun horfast Íslendingar í augu við veikleika og vankanta okkar lýðræðisskipunar. Við ættum að láta ógert að kveða upp sleggjudóma um vanþroska lýðræði annarra. Við höfum ekki efni á því.



Það er full langt gengið að þakka ESB að hafa innleitt lýðræði á Spáni eða öðrum löndum sambandsins. Lýðræði var fremsta krafa fólksins í þessum löndum og fólkið kom lýðræðinu á.

Evrópusambandið verður ekki lýðræðislegt þótt Ísland eða einhver önnur lönd eigi í vandræðum með að höndla sitt lýðræði. 

ESB er sagt ólýðræðislegt vegna þess að ákvarðanir eru teknar af fulltrúum sem ekki hafa verið lýðræðislega kosnir. Valdið er komið mjög langt frá kjósendum. Það eru helst lobbíistar stórfyrirtækja og hagsmunasamtaka sem geta náð eyrum valdhafana í Brussel. ESB tekur ekki einu sinni mark á NEI í þjóðaratkvæðagreiðslum. Þjóðaratkvæðagreiðslan er bara endurtekin seinna þar til JÁ er niðurstaðan. 

9. Við erum svo smá að við höfum engin áhrif innan ESB. Það eru vandfundin þau fjölþjóðasamtök í veröldinni, þar sem smáþjóðir hafa jafnmikil áhrif og innan Evrópusambandsins. Af 27 aðildar­þjóðum ESB eru 21 skv. skilgreiningu smáþjóðir. Forystumönnum þessara þjóða ber saman um að smáþjóðirnar hafi styrkt stöðu sína með aðild að ESB í samanburði við að standa einar utan garðs. Þær þjóðir kallast stórþjóðir, sem geta farið sínu fram, án þess að taka tillit til annarra. 

Stórþjóðir geta haft sitt fram í krafti efnahagslegra yfirburða eða hervalds. Það eru hinar stærri þjóðir innan Evrópusambandsins (eins og t.d. Þjóðverjar, Frakkar og Bretar) sem með aðild sinni hafa afsalað sér valdi og skuldbundið sig til að leysa ágreiningsmál innan bandalagsins með samningum, á grundvelli laga og réttar. Friðsamleg lausn deilumála er brýnasta hagsmunamál smáþjóða. Sú aðferðafræði Evrópusambandsins að leysa ágreiningsmál með samningum er því smáþjóðum í hag. 

Innan Evrópusambandsins gætir vaxandi tilhneigingar til svæðisbundins samstarfs. Innan Evrópusambandsins munu Íslendingar skipa sér í sveit með öðrum Norður­landaþjóðum og Eystrasaltsþjóðum í svæðisbundnu samstarfi innan ESB. Með því móti munum við styrkja stöðu okkar í samanburði við það að standa einir utan garðs.



Rök Jóns ganga út á að smáþjóðir hafi meiri áhrif innan ESB en í nokkrum öðrum samtökum. Punkturinn er bara sá að við erum ekki að íhuga inngöngu í nein önnur samtök og í ESB höfum við eftir sem áður sáralítil áhrif.

Jón Baldvin bendir á að aðeins stórþjóðir geti farið sínu fram án tillits til annara. Enginn er að segja að Ísland hafi þörf fyrir að troða öðrum um tær með valdi. Málið snýst hins vegar um að hafa full forræði yfir eigin málefnum, eigin fiskveiðilögsögu og utanríkismálum. 

Nýleg skýrsla ESB segir 10 ný aðildarríki mjög óánægð með áhrifaleysi sitt í ESB. Mörg þessara ríkja þurftu áður að leita til Moskvu með sín málefni en Brussel er sögð jafnvel verri.

Ísland yrði fámennasta aðildarríki ESB. Það fengi líklega 3 af 345 atkvæðum í ráðherraráðinu, 5 sæti af 785 á evrópuþinginu. Afstaða okkar til mála hefur því lítil sem engin áhrif á niðurstöður.

Við getum styrkt samstarf okkar við norðurlöndin, ef við teljum það auka áhrif okkar á einhverjum sviðum, en það má gera án þess að  ganga í ESB.

10. Það eru allir vondir við okkur í ESB, sbr. reynsluna af Bretum og Icesave. Þetta er misskilningur. Fórnarlömbin í Icesave-málinu voru breskir og hollenskir sparifjár­eigendur og á endanum íslenskir skattgreiðendur. Skúrkarnir voru eigendur og forráðamenn Landsbankans, sem buðu sparifjáreigendum í þessum löndum hæstu vexti til þess að fá þá til að trúa sér fyrir sparifé sínu, til þess að bjarga sjálfum sér úr lausafjárkreppu við endurfjármögnun eigin skulda. 

Að því er varðar Holland, þá stungu þeir af, án þess svo mikið sem þakka fyrir sig. Íslensk yfirvöld vissu frá upphafi, að útibú íslenskra banka alls staðar á EES-svæðinu, voru undir íslenskum bankaleyfum, undir íslensku eftir­liti og undir íslenskri sparifjártryggingu lögum samkvæmt. Það vorum við sem brugðumst. Þetta réttlætir að sjálfsögðu ekki hefndar­ráðstafanir Breta með því að beita hryðjuverkalögum. En af einhverjum ástæðum hafa íslensk stjórnvöld ekki treyst sér til að höfða mál gegn Bretum til að fá því hnekkt. Þau skulda okkur skýringu á því. 

Sannleikurinn er sá, að Íslendingar hafa notið góðs af samstarfi við grannþjóðir. Við höfum notið góðs af Norðurlandasamstarfinu. Við nutum góðs af Marshall-aðstoðinni án þess að fullnægja settum skilyrðum. Við nutum góðs af varnarsamstarfinu við Bandaríkjamenn – græddum m.a.s. á því, á meðan aðrar þjóðir færðu fórnir í þágu landvarna. Við höfum notið góðs af EES-samningnum, sem með einu pennastriki veitti okkur aðgang á jafnréttisgrundvelli að stærsta fríverslunarsvæði heims. Og við höfum notið góðs af Evrópusamstarfinu á mörgum sviðum, ekki síst að því er varðar vísindi og rannsóknir, menntun og menningu. Við erum vegna uppruna okkar, sögu og menningar Evrópuþjóð og eigum heima í samstarfi evrópskra lýðræðisríkja. 



Það hefur enginn sagt að allir séu vondir við okkur í ESB. Þetta snýst bara um hagsmuni og ESB hefur þá hagsmuni að láta Ísland borga eins mikið og mögulegt er í Icesave málinu. Jafnvel þótt það þýði að íslenskur almenningur sem hefur tapað meiru en dæmi eru um, taki líka á sig skuldir einkarekinna banka sem hann hafði enga stjórn á.

Þetta sýnir einfaldlega að ESB er ekki góðgerðastofnun og það er barnaskapur að halda að ESB hafi í hyggju að "hjálpa" Íslandi í nokkru máli. Ef Íslandi verður hleypt í ESB er það vegna þess að það hjálpar ESB að gera það.

11. Evrópusambandið er sósíalískt ríkisforsjárbákn og/eða valdastofnun heimskapítalismans í anda frjálshyggju. Bíðum hæg. Hvort tveggja getur ekki verið satt, enda er sannleikurinn sá, að hvorugt er sannleikanum samkvæmt. Hægri öfgamenn í Bandaríkjunum fyrirlíta Evrópusambandið á þeirri forsendu að það sé hálfsósíalískt velferðarapparat, sem hafi misst alla lyst á að standa við bakið á Bandaríkjamönnum í ofbeldisverkum þeirra vítt og breitt um heiminn. 

Það má til sanns vegar færa að þjóðfélagsgerð flestra Evrópuþjóða dregur í vaxandi mæli dám af hinu norræna velferðarríki miklu fremur en af óbeisluðum kapítalisma í amerískum dúr. Evrópuþjóðir verja takmörkuðum fjármunum til vígbúnaðar og stefna ekki að heimsyfirráðum. Evrópusambandið er friðarafl í okkar heimshluta. Helmingurinn af allri þróunaraðstoð við fátækar þjóðir kemur frá Evrópusambandinu og Evrópusambandið er frumkvöðull um umhverfisvernd á heimsvísu. 

Þrátt fyrir þetta vilja ýmsir vinstrimenn telja sér trú um, að Evrópusambandið sé valdastofnun í þjónustu fjármagns og í anda frjálshyggju. Þeir sem því trúa ættu að gera samanburð á velferðar­þjónustu og félagslegum réttindum almennings í ríkjum Evrópu í samanburði við hið hráslagalega og mannfjandsamlega auðræði í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Sá samanburður mun leiða hið sanna í ljós. 

Það ætti líka að auðvelda vinstrimönnum að kveða upp úr um það, hvort heldur þeir vilja að Ísland framtíðarinnar verði skrípamynd af amerískum kapítalisma eða virkur þátttakandi á jafnréttisgrundvelli í samstarfi hinna norrænu velferðarríkja innan vébanda Evrópusambandsins. 

Ellefta firran er alveg ný fyrir mér. Treysti mér ekki til að rekja þetta.

Líklega hef ég gleymt einhverju mikilvægu en treysti þér til að koma með gagnlegar ábendingar og athugasemdir fyrir Jón Baldvin.


Áhugaverð grein um Krónuna eftir Friðrik Daníelsson

Eftirfarandir grein er eftir Friðrik Daníelsson en mér þótti hún svo áhugaverð að ég varð að skella henni hér inn í heild sinni.  

TIL þess að land eða svæði með sérstakan gjaldmiðil geti sameinast öðru gjaldmiðilssvæði þurfa ákveðin skilyrði að vera fyrir hendi.

Hreyfanlegt vinnuafl og ríkissjóður

Vinnuafl verður að vera hreyfanlegt og geta flust milli svæðanna auðveldlega í takt við atvinnuframboð. Eða, í öðru lagi, að launþegar (og þá fyrst og fremst verkalýðssamtök) geti samþykkt kauplækkanir þegar þjóðartekjur minnka. Eða, í þriðja lagi, verða löndin að hafa sameiginlegan sjóð sem flytur fjármagn greiðlega til þess lands innan svæðisins sem verður fyrir efnahagsþrengingum. Ekkert af þessum skilyrðum er uppfyllt hvað varðar Ísland og evrusvæðið. Hreyfanleiki vinnuafls takmarkast af fjarlægð, kostnaði og menningarmun milli Íslands og evrulanda. Kauplækkanir verða ekki samþykktar af stéttarfélögum á Íslandi. Evrópusambandið hefur ekki sambandsríkissjóð (eins og þjóðríki hafa ríkissjóði) sem veitir miklu fé til sinna aðildarlanda.

Sömu hagsveiflur

Fjórða og veigamesta skilyrðið, sem eitt og sér mundi duga til þess að tvö svæði geti notað sama gjaldmiðil, er að hagsveiflur svæðanna séu svipaðar. Ástæðan fyrir þessu er að hagsveiflur kalla á aðgerðir í peningamálum gjaldmiðilssvæðisins til að milda áhrif sveiflunnar. Þegar tekjur minnka þarf gengið að lækka svo dragi úr eyðslu gjaldmiðilssvæðisins út á við. Þegar tekjurnar hækka má gengið hækka, lífskjörin batna og hægt að fjárfesta til framtíðar eða draga úr verðbólgu. Þegar eyðsla fer úr hófi fram er hægt að minnka fjármagn í umferð. Þegar kreppa skellur á er hægt að auka fjármagn í umferð; lækka vexti og gefa út peninga til þess að auka viðskipti og atvinnu. Þessar aðgerðir getur hvert land innan sama gjaldmiðilssvæðis ekki framkvæmt fyrir sig heldur verður peningamálastjórnkerfi svæðisins að framkvæma þær. Það þýðir t.d. að einstakt land getur ekki blásið lífi í atvinnulífið af eigin rammleik ef það lendir í efnahagslægð heldur þarf að fá peninga lánaða frá sameiginlegum seðlabanka svæðisins (eða fá fé úr ríkissjóði ríkjasambandsins sem ekki er til í ESB) og steypa landinu þannig í skuld.

Peningastjórntækið lykillinn

Peningamálastjórnunin er mikilvægasta hagstjórntæki hvers gjaldmiðilssvæðis og gerir kleift að minnka slæm efnahagsáhrif sveiflna sem oft stafa af óviðráðanlegum breytingum á erlendum mörkuðum eða framleiðsluaðstæðum. Land sem afsalar sínum gjaldmiðli afsalar um leið hagstjórninni og sjálfstæðri efnahagsstefnu. Peningamálastefna ESB byggist á að halda verðbólgu í skefjum frekar en að efla atvinnuþróun. Stöðugleiki í verðmæti útflutnings, og þar með í gengi gjaldmiðils og verðlagi, er ekki hér á landi, hefur ekki verið og verður ekki í nánustu framtíð. Þannig stöðugleiki skapast með fjölbreytni og stærð efnahagslífsins. Sérstakur íslenskur gjaldmiðill hefur aftur á móti gert að verkum að hægt hefur verið að halda útflutningsatvinnuvegunum og þar með almannasjóðum gangandi þrátt fyrir sveiflurnar. Hefði Ísland þurft að nota erlenda mynt hefðu stórir hlutar atvinnulífsins lent í þurrð en erlendir bankar og stórfyrirtæki hirt hreyturnar.

Verðbólga ekki það versta

Margir halda að verðbólgan sé rót alls ills. Svo er ekki þó óðaverðbólga sé slæm. Enn aðrir halda að verðbólgan sé gjaldmiðlinum að kenna. Svo er ekki, þar er við hagsveiflurnar og hagstjórnina að sakast. Hafa verður í huga að verðbólga er fylgifiskur uppbyggingar en ekki hemill á hana. Verðbólga getur orðið yfir 20% á ári tímabundið án þess að hafa sérlega neikvæð áhrif á efnahagsþróunina. Það verður áfram meiri verðbólga hérlendis en á evrusvæðinu. Vanhugsuð barátta við hana getur gert mikinn skaða og hefur reyndar þegar gert hér, sbr. háa stýrivexti.

Sterkur gjaldmiðill tvíeggja

Upptaka gjaldmiðils stórríkja, eða festing verðgildis þjóðargjaldmiðilsins við hann, hefur gefist illa minni þjóðum með fábreyttari atvinnuhætti og allt aðrar hagsveiflur en stórríki. Argentína festi sinn gjaldmiðil við dollar og fór í þrot. Lettland festi sinn gjaldmiðil við evru og er þess vegna í miklum vandræðum núna í kreppunni. Ísland var aftur á móti með eigin gjaldmiðil þegar kreppan skall á. Það gerði að verkum að útflutningsatvinnuvegir lifa enn vegna þess að verðgildi krónunnar lækkaði (og fyrirtækin fá fleiri krónur til þess m.a. að borga kaupið) og þau geta áfram selt afurðirnar, þrátt fyrir verðfall og sölutregðu, án þess að tapa fé og fara í þrot. Þá fyrst er óyfirstíganleg vá fyrir dyrum ef þau fara í þrot.

Þjóðargjaldmiðill

Þátttaka Íslands í myntbandalagi gæti komið til greina í framtíðinni þegar myntbandalög þróast og þegar fjölbreytni atvinnuvega og hagsveiflurnar hér verða líkari því sem gerist í nálægum löndum. Upptaka evru á næstu árum mundi leiða til þess að Íslendingar misstu stjórn á eigin hagkerfi og atvinnuvegina úr höndum sér. Forsenda þess að Ísland verði áfram sjálfstætt og fullvalda er því að það hafi áfram sérstakan þjóðargjaldmiðil. Það þýðir líka að hér verður að vera betri peningamálastjórn en verið hefur síðustu 15 árin, byggð á langtímahagsmunum þjóðarheildarinnar.

ESB gefur sér falleinkun í stjórnun fiskveiða

pcp2_2Á vefsíðu ESB um stjórnun fiskveiða má finna vinnublað sem telur upp helstu ágallana við sameiginlega fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Þar kemur m.a. fram að 88% af fiskistofnum eru ofveiddir, þar af eru 30% stofna að hruni komnir. Auk gegndarlausrar ofveiði eru önnur helstu vandamál offjárfesting í skipum, óhóflegt brottkast, ólöglegar veiðar og almennur taprekstur í greininni svo eitthvað sé nefnt.

Fiskveiðistefna ESB leit fyrst dagsins ljós árið 1983 og hefur síðan þá verið endurskoðuð á 10 ára fresti  nú síðast árið 2002. Þær úrbætur sem þá voru lagðar til hafa enn ekki komist í framkvæmd nema að litlu leyti.

Það hefur aldrei vantað vilja hjá Brussel til að innleiða góða fiskveiðistefnu. Árangurinn hefur hins vegar vantað.

Þótt ekki hafi enn tekist að koma úrbótum frá 2002 í framkvæmd er nú lagt í að ræða frekari úrbætur sem skuli innleiða árið 2012. Stefnumiðin hljóma eins og áður mjög vel, en í ljósi reynslunnar er vissara að fóstra efasemdir um árangurinn.

Fyrir þá sem vilja lesa sér til er upplagt að lesa Grænbókina Reform of the Common Fisheries Policy sem kom út þann 22. apríl sl. (28 bls.)

Nokkuð hefur borið á þeim misskilningi að ef Íslendingar ganga án tafar í ESB geti þeir haft mikil áhrif á þær úrbætur sem gerðar verða á fiskveiðistefnu sambandsins árið 2012. Þetta er ekki alls kostar rétt. Þótt við gætum viðrað skoðanir okkar munu raunveruleg áhrif á stefnu ESB fara algerlega eftir íbúafjölda landsins. Ísland mun ekki ná neinu í gegn sem ESB finnst ekki góð hugmynd hvort sem er.

Jafnvel þótt farið yrði að ráðum Íslendinga er ekki víst að það myndi duga. Getuleysi ESB til að framfylgja eigin fiskveiðistefnu í gegnum tíðina vekur ekki traust.


Hvers vegna ganga Danir ekki í ESB?

eudkflagVið fyrstu sýn virðast Danir hafa gengið í ESB árið 1973 en við nánari athugun kemur í ljós að 80% af landsvæðum og 90% af hafsvæðum Danaveldis og meiri hluti fiskauðlindarinnar eru utan ESB.

Auðvitað eru Danir formlega aðilar að ESB en þeir virðast einhvern vegin hafa komist upp með það að halda auðlindakistunum Grænlandi og Færeyjum utan ESB. Bláa sneiðin á þessum kökuritum sýnir Danska hlutann sem gekk í ESB.

LandsvæðiFiskafli

Grænland gekk úr ESB árið 1985 og fellur undir aflandseyjar, en nokkur aðildarríki ESB halda slíkum svæðum utan ESB. Grænlendingar hafa reyndar ríkisborgararétt í ESB en án kosningaréttar. 

Færeyjar hafa aldrei verið aðili að ESB en hafa beinan fríverslunarsamning við ESB.

Það að Danaveldi hafi kosið að halda auðlindum sínum og meiri hluta fiskimiða utan ESB hlýtur að vekja nokkrar spurningar. 


Hvað kostar að ganga úr ESB?

Það er vissara að gera sér grein fyrir því hvort það er yfirleitt hægt að ganga úr ESB ef við göngum þar inn. Samfylkingin afgreiðir þessa spurningu vef sínum með þessum orðum:

Rétt er:

Engin ESB-þjóð hefur óskað eftir að segja sig úr ESB – nema Grænlendingar sem gengu úr ESB árið 1985. Þeir njóta þó óbeinna ávinninga af aðild – þar með af tengingu við evruna – með ríkjasambandi sínu við Danmörku. Úrsögn Grænlendinga var vandalaus á sínum tíma. Ekkert formlegt úrsagnarákvæði er þó í samningum ESB, en slíkt ákvæði er að finna í Lissabonsamningnum frá 2007 sem enn bíður staðfestingar.

Ljóst er að úrsögn er engum pólitískum vandkvæðum háð – en það er athyglisvert að slíkur kostur er ekki ræddur í alvöru í neinu ESB-ríki, jafnvel ekki Bretlandi þar sem aðildin hefur verið hvað umdeildust.

Grænlendingar gengu úr ESB árið 1985. Grænland er auðvitað hluti af Danaveldi og þetta þýðir því í raun að Danmörk hafi ákveðið að halda hluta af sínum auðlindum utan ESB. Hvers vegna gera þeir það?

Samfylkingin hefur ekki áhyggjur af "pólitískum vandkvæðum" við úrsögn. En hvað þá með efnahagsleg vandkvæði? Á ekki að svara því líka?

Það að úrsögn sé ekki á dagskrá hjá neinu ESB ríki getur seint talist gott svar við spurningunni um hvort það sé hægt að ganga út úr ESB.

Staðreyndin er sú að innganga í ESB myndi ógilda þá milliríkjasamninga sem Ísland á við önnur lönd enda tækjum við upp þá samninga sem ESB hefur gert. Það hefur tekið áratugi að byggja upp þessa milliríkjasamninga og þeir verða ekki endurvaktir við það eitt að ganga aftur úr ESB.

Við úrsögn myndi Ísland ekki geta tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið, heldur værum við á byrjunarreit í utanríkismálum. EES samningurinn væri ekki lengur til. Úrsögn úr ESB myndi þýða einangrun og gríðarlega óvissu. Það er óhemju slæm staða.

Auk þess væri Evran ekki lengur í boði og við yrðum að taka upp aðra mynt eða endurvekja krónuna. Úrsögn úr ESB þýðir því algera óvissu í gengismálum.

ESB hefur engan hag af því að gera úrsögn eitthvað auðvelda fyrir aðildarríki ESB.

Samfylkingunni hlýtur að vera ljóst að það er nánast óhugsandi að segja sig úr ESB ef við göngum þar inn. Hvers vegna kýs hún þá að segja kjósendum að það sé "engum pólitískum vandkvæðum háð" ?

 


Krónan er eitt öflugasta tækið sem við höfum

478666AKrónan er eini kosturinn sem okkur býðst næstu árin. Það sem kemur hinsvegar mörgum á óvart er að hún er líka besti gjaldmiðillinn fyrir Ísland til framtíðar.

Allt þetta tal um að krónan sé ónýt eða hún eigi sér ekki framtíð er misskilningur. Það sem hefur verið í ólagi er sjálf hagstjórnin og stjórn gjaldeyrismála. Vandinn varð til þegar krónunni var fleytt í lok mars 2001. 

Hvernig getur sú mynt verið ónýt sem dugði til að koma okkur úr sárri fátækt í hóp ríkustu þjóða heims? Ég leyfi mér að draga í efa að okkur hefði gengið betur að byggja upp efnahag landsins þó við hefðum búið við Dollara, Evru eða einhverja aðra heimsmynt undanfarin 40 ár.  Líklega hefði okkur gengið verr.

Meginkosturinn við að hafa eigin gjaldmiðil er hann gerir okkur kleyft að halda atvinnulífinu samkeppnishæfu við önnur ríki. Gengi krónunnar má stilla þannig að atvinna sé næg og viðskiptajöfnuður jákvæður. Ef við tökum upp erlendan gjaldmiðil mun hann sjaldnast vera rétt stilltur fyrir okkar aðstæður. Afleiðingin verður atvinnuleysi og ofþensla á víxl nema svo vel vilji til að aðstæður okkar séu einmitt eins og meðaltalið í útgáfulandi gjaldmiðilsins. Það væri fágætt. Atvinnuleysi er útbreitt vandamál í Evrópu og augljóslega miklu alvarlegra vandamál en verðbólga eða gengissveiflur.

Frá árinu 2006 fór gengi krónunnar að ganga verulega úr samhengi við efnahag landsins. Stórfellt innstreymi erlends fjármagns vegna virkjana, hávaxta og spákaupmennsku réðu ferðinni og krónan ofreis gjörsamlega.  Nú erum við að súpa seyðið af þessu mikla misræmi. Afleiðingin er gjaldþrot og stórfellt atvinnuleysi.

Ef við tökum hér upp erlenda mynt eins og Evru eða Dollar munum við ganga í gegnum slíkar sveiflur reglulega. Útlenda tökumyntin mun verða úr takti við okkar aðstæður og afleiðingarnar eru til skiptis innflutningur á vinnuafli og fólksflótti. Jafnvægi á vinnumarkaði verður fremur undantekning en regla.

Við Íslendingar höfum lifað afar góðu lífi þrátt fyrir gengissveiflur og verðbólgu. Þetta eru auðvitað vandamál en frekar smávægileg á við það atvinnuleysi sem þjóðin er að kynnast núna.

Full atvinna um áratuga skeið var að verulegu leyti sveigjanleika krónunnar að þakka.

En hvað um aðgang að erlendu fjármagni? Vilja erlendir fjárfestar koma með peninga inn í landið ef krónan er áfram? Ég man ekki betur en að við höfum haft ágætan aðgang að erlendu fjármagni gegnum tíðina. Hvernig tókst okkur annars að komast í þessar miklu skuldir?

Núna stynja atvinnurekendur allstaðar í heiminum um skort á lánsfé. Ekki kenna þeir krónunni um það. Sumir íslenskir atvinnurekendur virðast hins vegar halda að krónunni sé um að kenna. Það er auðvitað rangt.

Útlendingar eru fúsir til að fjárfesta í arðbærum fyrirtækjum, líka á Íslandi, ef fjárfestingartækifærið er gott. Fjárfestar þurfa að dreifa áhættu milli landa og gjaldmiðla. Það getur því verið kostur að bjóða upp á gjaldmiðil hér sem sveiflast ekki í takt við aðra miðla.

Þeir sem fjárfesta á Íslandi verða auðvitað að geta treyst því að geta ávallt fengið greiddan út sinn arð og endurheimta höfuðstól fjárfestingarinnar þegar og ef þeir vilja. Íslenska Ríkið þarf að tryggja þann rétt með skýrum og gagnsæjum reglum.

Við höfum nú lært af biturri reynslu að jafn lítil mynt og krónan má alls ekki fljóta. Hlutverk hennar verður að takmarkast við innlend viðskipti. Það þarf að verja hana gegn spákaupmennsku og óeðlilegum fjármagnshreyfingum. Með nútíma tækni má reka slíkar gjaldeyrisvarnir með þeim hætti að 98% allra erlendra viðskipta finni aldrei fyrir þeim.

Inn- og útstreymi fjármagns vegna risavaxinna framkvæmda eins og virkjana þarf auðvitað að meðhöndla sérstaklega svo gengi myntarinnar verði ekki fyrir óeðlilegum breytingum sem trufla atvinnulífið í heild.

Þeir sem gera sér vonir um lægri raunvexti af lánum ef tekin verður upp Evra ættu að líta til Grikklands þar sem vextir af lánum eru mun hærri en í Þýskalandi. Samt er Evra í Grikklandi. Hvernig má þetta vera? Jú Grikkland er skuldugra en Þýskaland og það er það sem skiptir mestu máli um vaxtastigið. Við fáum ekki vexti niður á Íslandi fyrr en við höfum greitt okkar skuldir niður að miklu leyti. Allt annað er óskhyggja.

Kostir þess að halda krónunni áfram eru í raun miklu veigameiri en ókostirnir. Það er okkur fyrir bestu að hætta að tala krónuna niður.

Krónan gefur okkur einmitt þann sveigjanleika og viðbragð sem við þurfum til að koma atvinnulífinu í fullan gang aftur og vinna okkur út úr vandanum.


Kljúfa þjóðina strax!

Þjóðin er og verður klofin í þessu hitamáli. Björgvin telur ásættanlegt að kljúfa þjóðina einmitt þegar hún þarf að vinna saman að lausn erfiðra vandamála. 

Það eru skynsamir menn í báðum fylkingum. Ástæðan fyrir því að þetta skynsama fólk kemst að svo ólíkri niðurstöðu er að það er næg óvissa um framtíð mála á Íslandi og í Evrópu. Við það bætast svo tilfinningar og innsæi sem er ólíkt.

Við höfum ekki efni eða tíma til að ná sátt um ESB málið. Á að neyða helming þjóðarinnar í ESB? Það verður ekki gæfulegt. 

 


mbl.is Evrópustefnan verði á hreinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

USD er bara ein af mörgum bandarískum myntum

liberty dollarÞað kom mér á óvart að USD er alls ekki eini gjaldmiðillin í Bandaríkjunum. Þar eru í umferð tugir annara innlendra gjaldmiðla sem kallast aukagjaldmiðlar (e. complementary currencies, local currencies).

Eins og við er að búast endurspeglar gengi USD afkomu alls bandaríska hagkerfisins en ekki einstakra svæða. Bandaríkjadollar er því iðulega of sterkur fyrir sum héruð og á sama tíma of veikur fyrir önnur svæði. Afleiðing af of sterkum Dollar er aukið atvinnuleysi á viðkomandi svæði og fólksflótti til annarra svæða.

Við slíkar aðstæður getur aukagjaldmiðill örvað viðskipti á svæðinu, aukið hagvöxt og dregið úr atvinnuleysi.

Það eru til mismunandi tegundir af aukagjaldmiðlum, sumir eru gefnir út sem seðlar og mynt en aðrir eru bara til á rafrænu formi. Sumir eru ávísun á vinnutíma en aðrir á góðmálma.

Það er líka fullt af aukagjaldmiðlum í Evrópu, líklega eru 20 slíkir í Þýskalandi einu sér. 

Maður veltir því fyrir sér ef Dollar hentar svona illa í Bandaríkjunum og Evra hentar ekki öllum í Evrópu, er þá hægt að reikna með að þessar stóru myntir henti hér á Íslandi?

Hér eru nokkrar krækjur á síður sem fjalla nánar um aukagjaldmiðla.


Versti tíminn til að semja við ESB

brussels-2Hvort sem menn eru með eða á móti aðild að ESB hljóta allir að geta fallist á að samningstaða okkar í aðildarviðræðum gæti varla orðið verri en einmitt núna. Ef samninganefnd ESB er skipuð góðum samningamönnum, sem við hljótum að reikna með, þá mun hún nýta sér veikleika okkar til fulls. Samningur núna yrði líklega sá versti sem Ísland gæti nokkurn tíman fengið.

Aðild að ESB er varanleg og mikil óvissa um hvort sé hægt að ganga út úr sambandinu ef okkur líkar ekki vistin þar. Það er því skylda okkar að semja af kostgæfni og velja til þess réttan tíma.

Við þurfum að sýna þolinmæði og styrkja stöðu okkar áður en gengið er til samninga. Gefum okkur næsta kjörtímabil til að rétta efnahag og ímynd landsins við. Fjögur ár eru ekki langur tími ef tekið er tillit til þess að ESB aðild er varanleg. Til þess að uppbyggingin takist sem best þarf þjóðin að standa saman í mörgum erfiðum verkefnum og því ber að forðast að tvístra henni með því að knýja fram ótímabæra afstöðu til ESB.

Í lok næsta kjörtímabils verður efnahagsbati kominn vel á veg hjá okkur en hugsanlega eitthvað styttra í Evrópu. Samningsstaða okkar verður eðlileg. Þá fyrst verður tímabært að láta reyna á hvað býðst í aðildarviðræðum.

 


Sjaldan hef ég flotinu neitað

Jón ÁrnasonÞessi frétt um aðildarviðræður rifjaði af einhverjum ástæðum upp eina af þjóðsögum Jóns Árnasonar um Fúsa sem sat á krossgötum, en hún er svona:

Sumir segja að krossgötur séu þar, t.d. á fjöllum eða hæðum, sem sér til fjögurra kirkna. Elsta trúin er sú að menn skuli liggja úti jólanótt því þá er áraskipti og enn í dag telja menn aldur sinn eftir jólanóttum og sá er t.d. kallaður 15 vetra sem hefur lifað 15 jólanætur. Síðar færðu menn ársbyrjunina á nýársnótt.

Þegar menn sitja á krossgötum þá koma álfar úr öllum áttum og þyrpast að manni og biðja hann að koma með sér en maður má engu gegna. Þá bera þeir að manni alls konar gersemar, gull og silfur, klæði, mat og drykk, en maður má ekkert þiggja. Þar koma álfakonur í líki móður og systur manns og biðja mann að koma og allra bragða er leitað.

En þegar dagur rennur þá á maður að standa upp og segja: "Guði sé lof, nú er dagur um allt loft." Þá hverfa allir álfar en allur þessi álfaauður verður eftir og hann á þá maðurinn. En svari maður eður þiggi boð álfa þá er maður heillaður og verður vitstola og aldrei síðan mönnum sinnandi.

Því varð manni sem Fúsi hét og sat úti jólanótt og stóðst lengi, þangað til ein álfkona kom með stóra flotskildi og bauð honum að bíta í. Þá leit Fúsi við og sagði það sem síðan er að orðtaki haft: "Sjaldan hef ég flotinu neitað." Beit hann þá bita sinn úr flotskildinum og trylltist og varð vitlaus.

Kannski er þessi saga um freistingar einmitt viðeigandi þegar hugað er að aðildarviðræðum. Þar munu án efa verða ýmsar freistingar og gylliboð sem erfitt verður að standast.


mbl.is Flestir vilja aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband