Eva Joly: Ísland - það sem læra má af efnahagshruninu

- Grein eftir EVU JOLY birt í Morgunblaðinu -- 

MÖRGUM þjóðhöfðingjum og ríkisstjórnum, allt frá G8 til G20, verður gjarna tíðrætt um að héðan í frá verði ekkert eins og það var áður. Heimurinn hafi breyst, kreppan hafi jafnvel gerbreytt honum; afstaða okkar og vinnubrögð varðandi lagaumhverfi fjármálastarfsemi, alþjóðasamskipti eða þróunarsamvinnu verði því, að þeirra sögn, einnig að þróast. En því miður ganga fjölmörg dæmi þvert gegn þessum fagurgala þeirra. Staða Íslands nú í kjölfar bankahrunsins og þjóðnýtingar þriggja stærstu bankanna þar (Kaupþings, Landsbankans og Glitnis) er sennilega eitt skýrasta dæmið um þetta. Ísland, þar sem eru einungis 320 þúsund íbúar, sér nú fram á að þurfa að axla margra milljarða evra skuldabyrði sem langstærstur hluti þjóðarinnar ber nákvæmlega enga ábyrgð á og ræður alls ekki við að greiða.

Sáralítil umræða í Evrópu

Ég fékk áhuga á Íslandi þegar ég var fengin til að starfa sem ráðgjafi vegna réttarrannsóknar á orsökum bankahrunsins, sem er rót þess vanda sem landið glímir nú við. Umfjöllunarefni mitt nú varðar hins vegar ekki þá rannsókn; það er mun víðtækara en hún. Auk þess er ég ekki á neinn hátt talskona íslenskra stjórnvalda, en þau bera vitaskuld umtalsverða ábyrgð á þessu öllu saman. Sú stjórn sem sat þegar bankahrunið varð neyddist raunar til að segja af sér, enda hafði almenningur risið upp og mótmælt þeim hagsmunaárekstrum og klíkuskap í stjórnkerfinu sem eru undirrót allra ófara þeirra. Þar sem ég er snortin af örlögum þessarar grandvöru og elskulegu þjóðar og finnst sárlega skorta umræðu um hlutskipti hennar í evrópskum fjölmiðlum, langar mig bara að vekja athygli almennings á því hversu miklir hagsmunir eru í húfi í þessu máli - gríðarlegir hagsmunir sem afmarkast síður en svo af strandlengju Íslands. Ábyrgðarlaus afstaða sumra ríkja, Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart hruni íslenska efnahagskerfisins sýnir að þau eru ófær um að draga lærdóm af hruni þess samfélags sem Ísland var holdgervingur fyrir - þ.e. samfélags óhefts markaðsfrelsis, einkum frjálsra fjármálamarkaða, sem þessir sömu aðilar tóku þátt í að móta.

Skáldskapur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Tökum fyrst kröfur Bretlands og Hollands. Hrun íslensku bankanna snertir þessi lönd beint, enda tóku þau dótturfyrirtækjum bankanna og útibúum opnum örmum þrátt fyrir að yfirvöld þessara sömu landa hafi að einhverju leyti verið vöruð við þeirri hættu sem vofði yfir bönkunum. Nú krefjast þau þess að Ísland greiði þeim himinháar upphæðir (Bretlandi meira en 2,7 milljarða evra og Hollandi meira en 1,3 milljarða evra), og það á 5,5% vöxtum. Löndin telja að Íslandi beri að gangast í ábyrgð fyrir innlán í Icesave, netbankaútibúi Landsbankans sem bauð mun hærri vexti á innlánum en keppinautarnir. Það voru Hollendingar og Bretar sem ákváðu einhliða að upphæð innistæðutryggingarinnar ætti að vera ekki aðeins 20 þúsund evrur fyrir hvern reikning, rétt eins og kveðið var á um í evrópskum og íslenskum lögum- nokkuð sem þegar var ógerlegt fyrir íslensku ríkisstjórnina að standa við, en hún hafði tilkynnt mjög fljótlega eftir að bankarnir voru þjóðnýttir að aðeins væri hægt að ábyrgjast innlán á Íslandi -, heldur að upphæð 50.000 til 100.000 evrur, jafnvel hærri. Raunar var gripið til hneykslanlegra þvingunarráðstafana vegna þessa. Bretland greip þannig strax í októberbyrjun til afar róttækra aðgerða: frysti innistæður á reikningum Landsbankans og einnig Kaupþings, sem þó hafði nákvæmlega ekkert með Icesave að gera, og beitti til þess lögum um baráttu gegn hryðjuverkum. Með þessu setti Bretland Íslendinga, bandamenn sína í NATO, í sama flokk og hryðjuverkasamtök á borð við al-Qaeda... Upp frá þessu virðist Bretland hafa lagst með öllum sínum þunga gegn því að alþjóðasamfélagið grípi til nokkurra ráðstafana sem komið geta Íslandi að gagni fyrr en það hefur haft sitt fram. Gordon Brown gaf þannig í skyn í breska þinginu að hann »ynni með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum« til að ná fram kröfum sínum gagnvart Íslandi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurfti því að fresta því að lána Íslandi og setti afar hörð skilyrði fyrir veitingu lánsins. Það á við um þau markmið að ná jafnvægi í fjárlögum á Íslandi í síðasta lagi árið 2013, markmið sem ekki er gerlegt að ná, en kemur engu að síður til með að leiða til gríðarlegs niðurskurðar í grundvallarmálaflokkum á borð við menntakerfið, heilbrigðiskerfið, almannatryggingakerfið, o.s.frv. Afstaða Evrópusambandsins og annarra Evrópuríkja var lítið skárri. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tók strax í nóvember skýra afstöðu með Bretlandi þegar forseti hennar lét að því liggja að aðstoð myndi ekki berast frá Evrópu meðan Icesavemálið væri enn ófrágengið; raunar má segja að Barroso, sem þá var allur með hugann við eigin kosningabaráttu og dauðhræddur við að styggja helstu stuðningsmenn sína, Breta, hafi þá eins og fyrri daginn algerlega verið búinn að missa stjórn á atburðarásinni. Sama má segja um Norðurlöndin, sem þó eru ötulir talsmenn alþjóðasamstöðu, en afreka það nú helst að bregðast ekkert við þeirri kúgun sem Ísland er beitt - nokkuð sem dregur úr trú manna á raunverulegan vilja þeirra til þess að veita Íslandi stuðning.

Bresk stjórnvöld bera líka ábyrgð

Brown heldur því ranglega fram að hann og ríkisstjórn hans beri enga ábyrgð á þessu máli. Brown ber siðferðilega ábyrgð þar sem hann var fremstur í flokki þeirra sem hömpuðu svo mjög því skipulagi sem nú er komið í þrot. En hann ber líka ábyrgð að því leyti að hann getur ekki skýlt sér á bak við lagalega stöðu Icesave - að það heyri formlega undir íslensk yfirvöld bankamála - og sagt að Bretland hafi hvorki haft tök né lagalega stöðu til að fylgjast með starfsemi þeirra. Hvernig er hægt að ímynda sér að 40 manns í Reykjavík hafi getað haft virkt eftirlit með starfsemi banka í hjarta fjármálahverfisins í Lundúnum? Það er raunar athyglisvert að evrópskar reglugerðir sem fjalla um fjármálasamsteypur virðast greinilega gera ráð fyrir að aðildarríki ESB sem heimila starfsemi slíkra fyrirtækja frá þriðja landi verða að fullvissa sig um að þau séu undir jafn miklu eftirliti frá upprunaríkinu og kveðið er á um í evrópskum lögum. Þannig kann að vera að bresk yfirvöld hafi brugðist að þessu leyti - nokkuð sem raunar kemur ekki mikið á óvart þegar »frammistaða« annarra enskra banka í bankakreppunni er skoðuð, banka sem voru alls ótengdir Íslandi... Það hversu mjög Brown hefur beitt sér gegn þessu smáríki er því ekki hægt að skýra á annan hátt en þann að hann hefur viljað ganga í augu eigin kjósenda og skattgreiðenda, fólks sem að sönnu varð fyrir miklu fjárhagstjóni og rétt er að halda til haga. Rétt er að undirstrika að íslenskar stofnanir bera mikla ábyrgð á þessu máli. En þýðir það að menn eigi að líta fram hjá því að bresk stjórnvöld bera jafn mikla ábyrgð, en láta íslensku þjóðina axla allar byrðarnar?

Ætla Evrópa og AGS að koma Íslandi á vonarvöl?

Þess ber að gæta að Ísland, sem hefur einungis tekjur af útflutningi, kemur ekki til með að geta staðið undir þessum ábyrgðum. Samningurinn um Icesave, sem Alþingi greiðir atkvæði um á næstunni, myndi þýða aukna skuldsetningu Íslands. Hlutfallslega er um að ræða upphæð sem er sambærileg við það að Bretar tækju á sig 700 milljarða sterlingspunda skuld eða að Bandaríkjamenn tæku á sig 5600 milljarða dollara skuld. Það er heldur ekki raunhæft að Ísland geti skilað hallalausum fjárlögum innan fimm ára á sama tíma og fjárlagahalli flestra ríkja eykst gríðarlega. Þar fara fremst í flokki stórveldi heimsins, ekki síst Bretland og Bandaríkin. Ef Evrópa og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn snúa ekki við blaðinu kann að vera að þau vinni sannkallað afrek: dragi land þar sem þjóðartekjur á hvern íbúa hafa verið með þeim hæstu í heimi niður á stig þeirra allra fátækustu... Afleiðingin: Íslendingar, sem langflestir eru vel menntaðir, fjöltyngdir og í nánum tengslum við Norðurlöndin þar sem þeir aðlagast auðveldlega, eru þegar farnir að flýja land. Þegar til kastanna kemur verður hvorki hægt að endurgreiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum né Bretlandi né Hollandi. Lega Íslands er hernaðarlega mikilvæg og landið ríkt af náttúruauðlindum. Ef svo fer sem horfir mun aldurssamsetning íbúanna breytast og ungt, menntað fólk flytja úr landi. Þeir sem eftir verða munu eiga meira undir þeim sem hæst býður. Engum dylst aukinn áhugi Rússa á svæðinu.

Lausnir eru til

En það eru til aðrar lausnir. Aðildarlönd Evrópusambandsins hefðu þannig getað hugað að leiðum sem gerðu þeim kleift að axla ábyrgð í málinu, koma betra skipulagi á fjármálamarkaðina, jafnvel taka á sig að minnsta kosti hluta skuldarinnar vegna þess að þeim láðist að sinna hlutverki sínu sem eftirlitsaðilar gagnvart bönkunum - nokkuð sem er síður en svo bannað samkvæmt evrópskum lögum. Þau hefðu getað boðið Íslandi, sem hefur auðvitað enga reynslu í málum sem þessum, aðstoð í þeirri rannsókn sem er ætlað að leiða í ljós hvað gerðist og greina ástæður hrunsins að fullu. Evrópuríkin hefðu getað notað þetta tilefni og efnt til umræðu um hvernig megi kljást við alþjóðlega glæpastarfsemi, einkum fjármálaglæpi með beitingu evrópskra laga. Eins hefðu Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og forstjóri hans geta notað þetta tækifæri til að endurskoða rækilega þau skilyrði sem sjóðurinn setur fyrir lánveitingum. Það er hægt gera þau raunhæfari, hugsa þau betur og til lengri tíma og taka meira tillit til félagslegra þátta. Þannig hefði fyrsta skrefið verið stigið í átt að nauðsynlegum og löngu tímabærum umbótum á fjölþjóðlegum stofnunum sem hafa lykilhlutverki að gegna í alþjóðasamstarfi. Strauss-Kahn, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, missti hér af gullnu tækifæri til þess að láta loks verkin tala.

Viðbrögð Evrópuþingsins

Það mun augljóslega kosta mikinn tíma og orku að halda þessari umræðu lifandi, og það þarf að vera vel á verði - einkum á Evrópuþinginu þar sem búast má við miklum umræðum um þetta efni á næstu mánuðum. Svíum, sem nú eru í forsæti í Evrópusambandinu, virðist nefnilega ekkert sérlega mikið í mun að setja fjármálageiranum skýrari lagaramma. Andstæðingar ríkisafskipta eru ráðandi í þeim nefndum Evrópuþingsins sem fjalla um efnahagsmál og eru Bretar þar fremstir í flokki. Það er því ljóst að þeir sem ráða ferðinni hafa ekkert lært, heldur á að halda áfram á sömu braut. Við þurfum því að krefjast þess að alþjóðasamfélagið veiti svör við því hvernig koma eigi í veg fyrir hrun og hörmungar eins og Ísland lenti í. Það á ekki að líðast að alþjóðasamfélagið yppi öxlum og láti sem engra breytinga sé þörf og beiti lönd eins og Ísland þrýstingi af fullkomnu miskunnarleysi.


ICESAVE - Okkur ber ekki að borga - punktur

gordon-brownÍslenska ríkinu ber ekki að ábyrgjast tryggingasjóð innistæðna. Ríkið hefur rækt allar skyldur sínar af kostgæfni um að koma á fót slíkum sjóði í samræmi við lög ESB. Þau lög kalla hinsvegar hvergi á ríkisábyrgð á tryggingasjóðum innistæðna. Hefði verið um ríkisábyrgð að ræða hefði það að sjálfsögðu verið orðað þannig í lögum ESB.

Bretar og Hollendingar kusu að ábyrgjast innistæður

Bretum og Hollendingum bar heldur ekki að borga innistæðueigendum út trygginguna en þeir ákváðu samt að gera það. Með þessu vildu þeir draga úr líkum á áhlaupi á aðra banka enda var þetta í miðju hruninu. Þetta var þeirra val og gert til að verja aðra og stærri hagsmuni.

Þessi ákvörðun skuldbatt ekki íslenska ríkið

Hvorki Landsbankinn né tryggingasjóðurinn voru á ábyrgð ríkisins. Bretar og Hollendingar vissu það vel þegar þeir greiddu innistæðueigendum trygginguna. Þeir vilja samt knýja Íslendinga til að taka á sig trygginguna ef þess er nokkur kostur og þótt engin lög kveði á um að okkur beri að verða við því.

Bresk og Hollensk yfirvöld beita þrýstingi og hótunum til að knýja sitt fram. Þau reyna að spilla fyrir því að Ísland fái lán frá vinaþjóðum eða Alþjóðagjaldeyrissjóði. Þau róa gegn því að umsókn Íslands í ESB fái jákvæðar viðtökur. Þetta er ólíðandi framkoma og í raun ofbeldi.

gay_iceland_0130Hin duglausa ríkisstjórn Íslands gætir ekki réttar okkar

Í stað þess að taka til varna, kynna okkar málstað erlendis og láta reyna á lögmæti krafna hefur ríkisstjórn Íslands bara gefist upp og gengið að ýtrustu kröfum viðsemjenda.

Icesave samningurinn verður samninganefndinni og ríkisstjórn til ævarandi skammar og það er með ólíkindum að slíkt plagg sé lagt fyrir Alþingi. Enn verra er að ríkisstjórnin hefur leynt þing og þjóð ýmsum mikilvægum gögnum um málið. Það er grafalvarlegt mál sem umboðsmaður Alþingis ætti að taka til rannsóknar án tafar.

Hagsmunir Íslands og réttlætið kalla á að þessum samningi verði hafnað einróma af þingmönnum.

En hvað gerist þá?

Lífið heldur áfram sinn vanagang.

Yfirvofandi skuldsetningu þjóðarinnar um c.a. 700 milljarða í erlendum gjaldeyri er afstýrt. Krónan mun án efa styrkjast við það. Skatta þarf ekki að hækka eins mikið og á horfðist. Þetta tvennt mun bæta afkomuhorfur íslensks efnahagslífs verulega.

Erlendir fjölmiðlar munu hafa áhuga á deilunni og við munum því fá næg tækifæri til að kynna heiminum okkar málstað. Málstaður Íslands er réttlátur og allir munu geta séð að þær byrðar sem áformað var að leggja á íslensk heimili hefðu verið óbærilegar.

Ísland verður ekki sett í viðskiptabann enda höfum við ekki brotið nein lög. Það er almenn andstaða við slíkar aðgerðir enda bitna þær ávallt á þeim er síst skyldi. Ef svo ólíklega færi að Bretar og Hollendingar settu bann á viðskipti við Ísland mætti beina viðskiptum til annarra landa í Evrópu. Slíkt bann myndi á endanum bitna meira á Breskum og Hollenskum fyrirtækjum en Íslenskum.

Lán frá AGS og vinaþjóðum munu ekki stranda lengi á Icesave málinu. Kröfuhafar Íslands víða um heim munu þrýsta á AGS að lána Íslandi svo þeir geti fengið greitt.

Er íslenska ríkið þá orðið ómerkt orða sinna?

Því hefur verið haldið á lofti að íslenska ríkið (eða fulltrúar þess) hafi gefið breskum og hollenskum yfirvöldum loforð um að íslenska ríkið myndi standa á bak við innistæðutrygginguna. Hafi slík loforð verið gefin í raun og veru þá er spurning hvort þau voru gefin undir þrýstingi frá mótaðila. Einnig er spurning hvort mótaðili mátti vita að loforðið hlyti að vera með fyrirvara um samþykki Alþingis. Að lokum er spurning hvers vegna þurfti slíkt loforð yfirleitt ef íslenska ríkinu var skylt að lögum að standa á bak við tryggingasjóðinn.

Ég hef reyndar hitt kjósanda sem finnst rétt að staðið sé við öll loforð sem talsmenn þjóðarinnar gefa út jafnvel þótt talsmaðurinn hafi þar með farið langt út fyrir sitt umboð. Ef gengið sé á bak slíkum loforðum sé Ísland sem ríki búið að missa traust annarra þjóða.

Talsmaður, ráðherra eða forsætisráðherra sem gefur loforð án þess að hafa til þess nauðsynlegt umboð getur ekki skapað þjóðinni nokkra skyldu. Hér á ekki að skipta máli hvort mótaðilinn er erlent ríki eða innlendur aðili. Þetta skilja fulltrúar erlendra ríkja mætavel enda er sama fyrirkomulag hjá þeim.

Staðreyndin er sú að ef við öxlum þessa gríðarlegu og óréttmætu byrði þá aukast mjög líkur á að Ísland geti ekki staðið við fjölmargar aðrar skuldbindingar og skyldur sem við eigum með réttu að standa við. Þá verðum við örugglega ómerk orða okkar.

Íslendingar njóta trausts í útlöndum og munu gera það áfram þótt þeir neiti að láta undan þvingunum til að undirgangast óréttmætar og óbærilegar skuldbindingar. 


Hlutleysi Ríkisútvarpsins

ruv

Í lögum um Ríkisútvarpið ohf er á þremur stöðum kveðið á um skyldu til óhlutdrægni og fyllstu hlutlægni í allri umfjöllun og fréttaflutningi. Þjóðin þarf að geta treyst því að RÚV fari að lögum og sé í raun hlutlaus fjölmiðill. Það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú að RÚV bregðist ekki trausti þjóðarinnar í þessu enda er þjóðin klofin í afstöðu sinni til stórmála eins og ESB og ICESAVE. RÚV má alls ekki taka afstöðu í þessum hitamálum.

Þær raddir verða nú háværari að umfjöllun RÚV um ESB og ICESAVE uppfylli ekki ákvæði útvarpslaga um óhlutdrægni. Hlutdrægni getur leynst víða t.d. í vali á fréttum, vali á viðmælendum, gildishlöðnum spurningum, tónlist, myndefni ofl.

Það er eðlilegt að fréttamenn og þáttastjórnendur RÚV hafi eins og aðrir sterkar skoðanir á ICESAVE og ESB og því er aukin hætta á að einhverjir þeirra falli í þá freistni að setja hlutina fram með hlutdrægum hætti.

Menntamálaráðherra, stjórn Ríkisútvarpsins, útvarpsstjóri og fréttastjórar bera ábyrgð á að farið sé að lögum í þessu efni. Þessum aðilum er skylt að sjá til þess að eftirlit sé haft með því að það efni sem frá RÚV kemur uppfylli kröfur laga um hlutleysi.

Mér er ekki kunnugt um hvernig eftirlit er haft með þessu, en hafi slíku eftirliti ekki verið komið á, þá eru þessir ábyrgðaraðilar ekki að framfylgja lögum um að hlutleysis sé gætt. 

Einmitt núna, vegna þeirra aðstæða og átaka sem eru framundan, er sérstaklega mikilvægt að Ríkisútvarpið gæti fyllsta hlutleysis svo það glati ekki trausti þjóðarinnar.

Núna er rétti tíminn til að láta hlutlausan aðila gera úttekt á því hvort fyllsta hlutleysis hafi örugglega verið gætt í fréttaflutningi og umfjöllun um ESB og ICESAVE málin og birta þjóðinni niðurstöðuna.


ESB og hagsmunir atvinnulífsins

Sú skoðun hefur komið fram hjá einhverjum atvinnurekendum að það verði auðveldara að ná árangri í rekstri Íslenskra fyrirtækja ef Ísland gerist aðili að ESB og hér verði tekin upp evra í framhaldinu. Þá munum við losna við þann óstöðugleika sem einkennt hefur krónuna og aðgangur að erlendu lánsfé batni. Sumir virðast jafnvel trúa því að aðildarumsókn ein og sér muni efla tiltrú erlendra fjárfesta, styrkja gengi krónu og bæta aðgang að erlendu lánsfé.

Trúverðugleiki eða hókus pókus? 

Því miður bendi allar hagstærðir til þess að Ísland muni ekki ná að uppfylla skilyrði ESB um upptöku evru fyrr en eftir mörg ár, líklega áratugi. Þetta vita erlendir fjárfestar að sjálfsögðu og því mun tiltrú þeirra ekki aukast í bráð þótt við göngum í ESB. Við þurfum að grípa til mun trúverðugri aðgerða til að vekja tiltrú fjárfesta og gæta þess að eyða ekki tíma í að elta þá hókus pókus lausn stjórnmálamanna sem ESB aðild er.

Evran of sterk fyrir Írland

Aðgangur að lánsfé er erfiður alls staðar í heiminum. Hvernig halda menn að írskum fyrirtækjum gangi að fá lán núna? Samt eru Írar í ESB og með hina rómuðu evru. Evran er bara of sterk fyrir Írland núna og þeir geta engu breytt um það. Samkeppnishæfni írsks atvinnulífs hefur minnkað í samanburði við breskt atvinnulí því gengi pundsins hefur lækkað miðað við evru. Vandamál Írlands verður auðvitað ekki leyst með því að ganga í ESB og taka upp evru. Eins og Íslendingar, þá gerðu Írar sín mistök og nú þurfa þeir að vinna sig upp úr vandanum með trúverðugum aðgerðum, eins og við. 

ESB hindrar ekki aðildarríki sín í að gera mistök og ESB leysir heldur ekki vandamálin fyrir sín aðildarríki. Þegar harðnar á dalnum er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sendur inn í aðildarríkið.

Krónan er samkeppnistæki

Krónan truflaði Ísland ekki í því að komast úr hópi fátækustu þjóða Evrópu í hóp þeirra ríkustu á fáeinum áratugum.

Ég dreg í efa að annar gjaldmiðill hefði verið eitthvað hentugri eða við öðlast meiri lífsgæði með alþjóðlega mynt. Lönd sem hafa eigin gjaldmiðil eru nefnilega samkeppnishæfari en önnur lönd og þau geta betur mætt hagsveiflum. Þau geta frekar haldið atvinnuleysi niðri, sköttum lágum og viðvarandi afgangi af viðskiptum við útlönd ef rétt er haldið á spilunum. Joseph Stiglitz hagfræðingur og nóbelsverðlaunahafi skrifaði mjög áhugaverða skýrslu fyrir Seðlabankann árið 2001 sem innihélt prýðilegar ábendingar um hvernig við gætum náð árangri með eigin mynt, varið hana gegn spákaupmennsku ofl. Seðlabankinn hefði betur farið eftir þeim ábendingum. Það væri líklega trúverðugt í augum umheimsins ef við tækjum upp þau ráð núna í stað þess að tala niður krónuna sem ónýtan gjaldmiðil.

Áhættusamt að ganga inn

Það er ekki bara óþarft fyrir Ísland að ganga í ESB heldur er það líka áhættusamt. Við erum mjög fá og eigum hlutfallslega miklu meira af auðlindum, land- og hafsvæðum en aðrir íbúar Evrópu. Hagsmunir okkar eru ólíkir þeirra að því leiti að við erum aflögufær með orku, land og prótein en Evrópubúa skortir orku, vatn og prótein. Við ættum ekki að freista þeirra með því að deila með þeim löggjafarvaldi yfir landinu. Til langs tíma litið mun það bara fara á einn veg.

Tollabandalag með hverfandi hagvöxt 

Það þjónar ekki hagsmunum íslensks atvinnulífs vel að loka sig inni í tollabandalagi með þjóðum sem sjá fram á minni hagvöxt en flest önnur svæði heims. Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Evrópusvæðið dregur upp dökka mynd af ástandinu í ESB næsta áratuginn. Á sama tíma er hagvöxtur í Kína 7% og ágætt ástand í Kanada. Nýlega tók gildi fríverslunarsamningur við Kanda og samningur við Kína er á leiðinni.

Fríverslunarsamningar Íslands eru ómetanlegur fjársóður 

Rétt að geta þess að fríverslunarsamningar Íslands við önnur lönd eru ómetanlegur fjársjóður sem tekið hefur áratugi að byggja upp en þeir munu allir falla niður við inngöngu í ESB og verða ekki endurvaktir þótt við segjum okkur úr sambandinu. Úrsögn úr ESB er því nánast óhugsandi, hversu illa sem okkur líkar vistin.


Kosningasvindl á Íslandi?

sjsVG undir forystu Steingríms J Sigfússonar hafa blekkt kjósendur sína fullkomlega. Ég kaus VG nær eingöngu vegna stefnu flokksins gegn aðild að ESB. Nú stendur þessi sami flokkur og Steingrímur J að tillögu um aðildarumsókn í ESB, án þess að spyrja þjóðina álits.

Varla get ég verið einn um þá tilfinningu að atkvæði mitt hafi verið misnotað í einhverskonar kosningasvindli?

Það hlýtur að vera fullkomlega ólýðræðislegt að lofa kjósendum einni stefnu en taka svo upp þveröfuga stefnu eftir kosningar. Hvaða tilgang hafa annars kosningar? Um hvað er maður að kjósa?

VG eiga að sýna þann manndóm að annað hvort segja sig úr ríkisstjórn eða fylgja þeirri stefnu sem lofað var fyrir kosningar.

Í stefnu VG stendur: 

Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað.


Alþingi verður að fella ICESAVE frumvarpið

icesaveAlþingi verður að segja NEI við frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð á tryggingasjóð innistæðueigenda. Það finnast hvorki lagaleg né siðferðileg rök fyrir því að varpa skuldum einkabanka á saklausan almenning.  Ríkisstjórn Íslands hefur koðnað undan þrýstingi frá Bretum, Hollendingum og öðrum Evrópuþjóðum sem vildu ekki fara dómstólaleiðina vegna þess að þau hefðu tapað málinu á lagarökum. Evrópuþjóðir óttuðust að málareksturinn hefði "kollvarpað trausti á fjármálakerfi allra Evrópuríkja" eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu:

Íslensk stjórnvöld hafa allt frá upphafi málsins haldið því sjónarmiði fram af miklum þunga að tilskipun 94/19/EB um innstæðutryggingar hafi verið innleidd í íslenskan rétt á fullnægjandi hátt og án athugasemda og að íslenska ríkinu beri ekki að ábyrgjast innstæður umfram þá upphæð sem var í tryggingarsjóði innstæðueigenda. Íslensk stjórnvöld bentu einnig á samábyrgð Evrópuríkja vegna þess hve regluverkið varðandi innstæðutryggingar var gallað, enda hafi því ekki verið ætlað að taka til kerfisbundins hruns meginþorra fjármálastofnana á sama tíma. Í ljósi mikilvægis málsins var leitað eftir því að úr málinu yrði skorið fyrir dómi eða með öðrum viðunandi lögfræðilegum hætti. Staðreyndin er þó sú að allar leiðir til þess að leggja málið í dóm eða gerð myndu krefjast samþykkis allra málsaðila í samræmi við óumdeildrar meginreglu þjóðaréttar. Bretland og Holland þvertóku fyrir slíkan málarekstur og voru studd af öllum Evrópusambandsríkjunum auk Noregs. Rök þeirra voru samhljóða á þá leið að takmörkun ábyrgðar við eignir tryggingarsjóða væri fráleit lögfræðileg túlkun og málarekstur um slíkt væri til þess eins fallinn að grafa undan, ef ekki kollvarpa, trausti á fjármálakerfi allra Evrópuríkja

 

Ef íslendingar höfðu svona rangt fyrir sér og ríkinu bar að greiða það sem á vantar í tryggingasjóðinn, þá stafaði fjármálakerfinu auðvitað engin hætta af málinu þótt það væri tekið fyrir. ESB þorði greinilega ekki að taka þann slag.

Þegar kreppan skall á og bankarnir féllu kusu Bretar og Hollendingar að borga trygginguna út þótt þeim bæri ekki skylda til þess. Þetta gerðu þeir í því skyni að auka traust á bankakerfum sínum og draga þannig úr líkum á falli sinna banka. Þetta var þeirra val og eflaust skynsamlegt. En svo tóku þeir sig saman um að koma skuldinni á íslendinga og þegar lagarök þraut beittu þeir í staðinn þvingunum og hótunum.

Í stað þess að standa og berjast, guggnaði ríkisstjórnin og tók að ganga erinda Evrópu við það að leggja gríðarlegar skuldir á blásaklausa landsmenn. Varlega áætlað 2-3 milljónir á hvert mannsbarn, 12 milljónir á meðalfjölskyldu og við þetta bætast vaxtavextir. Jafnvel í mesta góðærinu voru ekki sérlega margar fjölskyldur sem voru aflögufærar um 12 milljónir. Hugsum okkur nú að ALLAR fjölskyldur leggi til 12 milljónir. Það mun augljóslega steypa þjóðinni í fátækt, jafnvel við bestu skilyrði.

Viðskiptaráðherrann hefur samt haldið því fram í blaðagrein og í þingræðu að þjóðin geti staðið undir þessu. Það er gott að vera bjartsýnn en mér er það óskiljanlegt hvernig ráðherrann getur talið sér trú um þetta. Sigmundur Davíð bendir á í sínu andsvari að þessa skuld þarf að greiða í beinhörðum gjaldeyri og hún er hrein viðbót við allt það eignatjón sem íslendingar þegar mátt þola og allar skuldirnar sem eru nú þegar að sliga fyrirtæki og heimili. 

Önnur ástæða til að fella þetta ICESAVE frumvarp er samningurinn sjálfur sem er vægast sagt mjög einhliða og óaðgengilegur fyrir Ísland. Vextirnir allt of háir og til hvers eru þessi ákvæði um aðför að eignum ríkisins hvar sem þær finnast þegar dráttur verður á greiðslu? Samningurinn gjaldfellur líka í heild sinni ef alþingi setur lög sem Bretar eða Hollendingar telja að ógni greiðslugetu okkar. Þetta þýðir að öll ný lög þurfa að samþykkjast fyrirfram af þessum þjóðum á lánstímanum. Það eitt er óþolandi niðurlæging og skerðing á fullveldi okkar sem þjóðar.

Þessi ómögulegi samningur tekur ekki gildi nema alþingi samþykki ríkisábyrgð á skuld tryggingasjóðsins. Ríkið ber enga ábyrgð á sjóðnum samkvæmt neinum lögum, nema Alþingi sé svo vitlaust að samþykkja það.

Hvað gerist hinsvegar ef Alþingi fellir málið? Lífið heldur áfram. Skuldir okkar verða viðráðanlegri. Krónan styrkist og skuldir í erlendum myntum lækka tilsvarandi. Lánshæfismat skánar. Það verður ekki slökkt á Íslandi. Bretar og Hollendingar munu vilja semja, það er þeirra hagur að ná einhverju út úr okkur. 

Alþjóðasamfélagið mun ekki fordæma smáþjóð fyrir að standa á lagalegum rétti sínum. Jafnvel þótt öll ESB lönd velji að ríkistryggja sína innlánstryggingasjóði umfram lagaskyldu þá skapar það ekki lagalega skyldu fyrir Ísland að gera það sama.

Það mun enginn fordæma Ísland fyrir að hafna samningi sem það getur ekki staðið við.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun ekki afturkalla lánin þótt við stöndum á rétti okkar í þessu máli.

Evrópusambandið mun ekki hafna aðildarumsókn Íslands, því miður. Því við höfum ekki brotið nein lög Evrópusambandsins. Við fórum einmitt eftir lögunum í hvívetna.

Bretar og Hollendingar munu heldur ekki mótmæla inngöngu Íslands, því miður, því þeir hafa mikla hagsmuni af því að við göngum þar inn - hvernig sem þetta ICESAVE mál velkist.


Þennan samning verður að fella

78e3b6ae08ec40418600a132b471d68c_300x225

Í dag birtist í Morgunblaðinu eftirfarandi grein um Icesave málið eftir hagfræðinginn Jón Daníelsson.

  "Það blasir við að afdrifarík mistök voru gerð af íslensku samninganefndinni. Bretar og Hollendingar hafa án efa teflt fram mjög reyndum samningamönnum."

ICESAVE-vandinn varð þannig til að íslenskir bankar stálu í raun frá sparifjáreigendum í Evrópu: Þeir tóku við peningum sem þeir hafa ekki borgað aftur. Það virðist hafa verið með fullu samþykki íslenskra yfirvalda. Bankarnir sjálfir, stjórnmálamenn og embættismenn fullyrtu að íslenska ríkið stæði að baki innistæðunum og tóku öllum efasemdum um annað fjarri. Það fór ekki leynt, hvorki í íslenskum fjölmiðlum né erlendum. Hvað sem líður allri lagalegri óvissu, höfum við Íslendingar því siðferðislega skyldu til að viðurkenna ábyrgð okkar. Nema menn vilji vera álitnir þjófsnautar um aldur og ævi.

Bretar og Hollendingar deili ábyrgðinni

En ábyrgðin er ekki einvörðungu okkar. Veruleg brotalöm var á eftirlitskerfi Evrópusambandsins, og Fjármálaeftirlit Bretlands og hollenski seðlabankinn sinntu eftirlitshlutverki sínu ekki sem skyldi. Virðast raunar hafa þagað gegn betri vitund.Bretar og Hollendingar hafa beitt gífurlegri hörku við að knýja fram fyllstu ábyrgð Íslendinga á Icesave-skuldbindingunum. Framan af nutu þeir til þess óskoraðs stuðnings annarra Evrópuríkja, sem stafaði af einkar vályndri stöðu evrópskra fjármálamarkaða sl. haust, en þær aðstæður hafa nú breyst.

Þegar íslensku bankarnir hrundu í október, var mikil óvissa um fjármálastöðugleika í Evrópu. Stórir bankar riðuðu til falls og annað var óhugsandi fyrir Evrópuþjóðir en láta Íslendinga gangast við tryggingaskuldbindingum sínum. Ella hefði almenn vantrú getað skapast á tryggleika evrópskra bankainnistæðna og bankaáhlaup siglt í kjölfarið. Af biturri reynslu þekkja menn hvernig allir bankar, góðir sem lélegir, geta hrunið líkt og spilaborg í einu vetfangi við slíkar aðstæður.

Þessi staðreynd var ástæðan fyrir hinni hörðu afstöðu Evrópulandanna, en sem fyrr segir eru þær forsendur ekki lengur fyrir hendi. Fjármálaóstöðugleiki virðist að mestu horfinn og regluverk Evrópu hefur verið aðlagað því, sem nú er kallað „íslenska vandamálið“. Eftir situr ábyrgð íslenska ríkisins gagnvart evrópskum sparifjáreigendum, allt að 20.887 evrur á hvern og einn reikning. Hollenska og breska ríkið hafa þegar greitt fjárhæðina út og ábyrgðin er því gagnvart þessum ríkjum. Það mun hafa úrslitaáhrif á framtíð íslenska hagkerfisins hvernig um skuldina semst. Heildartalan nemur um 3,4 milljörðum punda, eða 734 milljörðum króna.

Milli feigs og ófeigs

Íslenska hagkerfið stendur á krossgötum. Líklegast er að niðurstaðan verði annaðhvort „slæmt jafnvægi“ eða „gott jafnvægi“, svo gripið sé til hugtaka úr tungumáli hagfræðinnar. Millivegurinn er ósennilegur, en iðulega er afar mjótt á mununum hvorum megin hryggjar mál falla.Í góða jafnvæginu skapast væntingar um að ástandið muni batna, tekjur og eyðsla fólks og fjárfestingar aukast, sem eitt og sér leiðir til meiri væntinga og betri stöðu. Í vonda jafnvæginu missir fólk og fyrirtæki hins vegar trúna á hagkerfið og framtíðina, fyrirtæki halda að sér höndum, og tiltækt fjármagn leitar til útlanda. Búast má við að bæði einstaklingar og fyrirtæki flytji út, sem enn eykur vandamálið og vantrúna.

Íslendinga þarf ekki að bera mikið af leið til þess að lenda í slæmu jafnvægi. Niðurstaða Icesave-mála getur ráðið úrslitum um það og því er það algjört grundvallaratriði fyrir framtíð Íslands og Íslendinga að Icesave-samningurinn verði eins hagstæður og unnt er.

Gallar Icesave-samningsins

Það eru tvö grundvallarvandamál við fyrirliggjandi samningstillögu ríkisstjórnarinnar: annars vegar form samningsins og hins vegar samningskjörin.

1. Vextir eru 5,5% á ári sem í sjálfu sér eru ekki óeðlileg kjör, en nemur þó um 40 milljörðum króna á ári. Vandinn er að svo virðist sem íslenski tryggingasjóðurinn eigi forgangskröfu í þrotabú Landsbankans, en aðeins fyrir höfuðstólnum, ekki vöxtunum. Sé þessi skilningur réttur munu þeir falla á íslenska ríkið í heild sinni. Ljóst er að um er að ræða gríðarlega fjárhæð, væntanlega tugi milljarða á ári. Hjá þessu vandamáli mætti hæglega komast með því að gera bankann sjálfan að lántaka, en láta tryggingasjóðinn og ríkið ábyrgjast skuldbindinguna. Krefjast verður þess að samningnum verði breytt á þá lund áður en á hann er fallist af Alþingi.

2. Íslendingar hafa gengist undir það með samningum að greiða innistæðueigendum í Hollandi og Bretlandi innistæður upp að 20.887 evrum. Bresk og hollensk yfirvöld tóku ákvörðun um að greiða umfram lágmarkið. Sú ráðstöfun þeirra má ekki verða til þess að réttur okkar til endurheimtu raskist. Skilanefndin virðist þó telja svo vera. Væri skilningur hennar réttur fengju tryggingasjóðir ríkjanna þriggja sama hlutfall upp í kröfur sínar. Ákvörðun Hollendinga og Breta, sem Íslendingar fengu engu um ráðið og er umfram hina samevrópsku skyldu þeirra yrði þannig til þess að rýra endurheimtu Íslendinga. Það getur ekki verið rétt niðurstaða, hvað þá réttlát. Mér fróðari menn um gjaldþrotarétt fullyrða við mig að greiðsla tryggingasjóðsins sé í raun fyrirframgreiðsla upp í úthlutun úr þrotabúi Landsbankans og tryggingasjóðurinn eigi rétt til endurheimtu þess sem hann greiðir, áður en aðrir tryggingasjóðir eða innistæðueigendur fá nokkuð í sinn hlut. Innistæðueigandi eigi þann rétt einan að fá sér greiddar 20.887 evrur úr tryggingakerfinu og nægi eignir bankans til greiðslu þeirrar fjárhæðar, eigi hann enga kröfu á tryggingasjóðinn.

3. Samningurinn samsvarar því, miðað við höfðatölu, að Bretar samþykktu 700 milljarða punda og Bandaríkjamenn 5,6 trilljónir dollara. Ég fæ ekki séð að þær auðsælu þjóðir tækju slíkar byrðar á sig við bestu kringumstæður, hvað þá í miðri kreppu. Það er algerlega óþolandi að íslenska ríkið taki þetta á sig í heild sinni. Þessar grannþjóðir okkar verða að horfast í augu við einstaklega erfiða stöðu okkar og burði þjóðarinnar til þess að standa undir skuldbindingunum án þess að hér verði örbirgð og landauðn. Sérstaklega á það þó við fyrir þær sakir að þær eiga ríkan þátt í því hversu ömurlega er komið fyrir okkur.

Þingið verður að fella samninginn

Það er veruleg og augljós hætta á að samkomulag leiði Íslendinga í slæma jafnvægið skyldi Alþingi verða það slys á að samþykkja samninginn óbreyttan. Þess vegna verður að breyta samkomulaginu. Það þarf að sníða af því lagalega agnúa og tryggja sem bestar endurheimtur, það er öllum fyrir bestu. Það verður líka að gæta þess að fjárhæðin sem fellur á Ísland verði ekki svo há að hagkerfið nái aldrei að slíta þá skuldahlekki af sér og öðlist fyrri styrk.

Ríkisstjórnin skuldbatt sig á sínum tíma til samningaviðræðna um Icesave. Við það hefur verið staðið, en framkvæmdavaldið gat vitaskuld ekki skuldbundið þingið til þess að staðfesta samninginn eins og stjórnarskráin býður. Enn síður þar sem í millitíðinni hafa farið fram alþingiskosningar. Því er það Alþingi vandalaust að fella samninginn án þess að ríkisstjórnin hafi á nokkurn hátt gengið á bak orða sinna. Það verður Alþingi að gera.

Hvað er til ráða?

Samkomulagið er við breska og hollenska ríkið. Þau ríki þurfa að axla sinn hluta ábyrgðarinnar. Það geta þau gert með því að fallast á að endurgreiðslur frá Íslandi fari ekki fram úr tilteknu hlutfalli þjóðarframleiðslu eða útflutningsverðmæta. Ef vel gengur borgum við meira, en ef illa gengur minna, eða ekki neitt.Það blasir við að afdrifarík mistök voru gerð af íslensku samninganefndinni. Bretar og Hollendingar hafa án efa teflt fram mjög reyndum samningamönnum. Íslenska nefndin var hins vegar samsett af stjórnmálamönnum og embættismönnum, sem fæstir hafa komið nálægt alþjóðlegri samningagerð af því tagi og virðast hafa verið einkar tregir til að að leita ráða utan Arnarhóls.

Best færi á því að fela samningagerðina bestu erlendu lögfræðingum sem völ er á, óumdeildum sérfræðingum í slíkum samningum. Ríkisstjórnin myndi hafa yfirumsjón með samningnum – hugsanlega í nánara samráði við þingið en til þessa – en láta erlendu sérfræðingana að mestu ráða för. Slíkir aðilar þykja kannski dýrir, en lélegur samningur er mun dýrari fyrir þjóðina. Við höfum ekki efni á að láta íslenska áhugamenn semja við erlenda atvinnumenn.

Höfundur er prófessor við London School of Economics.


ICESAVE: Lögfræðingar skora á þingmenn

ice-save-logo

Eftirfarandi grein eftir lögfræðingana Lárus L. Blöndal og Stefán Má Stefánsson birtist í mbl í dag.

Lárus er hæstaréttarlögmaður og Stefán er prófessor í lagadeild Háskóla Íslands og höfundur margra viðamikilla fræðirita þar á meðal um Evrópurétt, réttarreglur og stofnanir Efnahagsbandalagsins. Skrifaði bók um EES samninginn. Grundvallarrannsóknir í Evrópurétti svo eitthvað sé nefnt.

Hér er svo greinin. 

Áskorun til þingmanna

Við undirritaðir höfum ritað allmargar greinar þar sem við höfum fært lögfræðileg rök fyrir því að okkur sem þjóð beri ekki að endurgreiða þeim innist...Við undirritaðir höfum ritað allmargar greinar þar sem við höfum fært lögfræðileg rök fyrir því að okkur sem þjóð beri ekki að endurgreiða þeim innistæðueigendum sem lögðu inn hjá íslensku bönkunum erlendis fyrir hrunið.

Við höfum ekki fengið nein málefnaleg rök sem hnekkja okkar ályktunum.Ríkisábyrgð verður ekki til úr engu. Til að hún stofnist þarf afdráttarlausa lagaheimild sem ekki er til staðar í dag vegna innistæðutryggingasjóðs.

Við höfum verið þátttakendur í samstarfi ríkja í Evrópu þar sem við höfum tekið upp reglur sem samdar hafa verið af Evrópusambandinu. Ekkert í þeim reglum gerir íslenska ríkið ábyrgt fyrir starfsemi íslenskra einkabanka. Þær reglur hafa hins vegar ekki staðist þær væntingar sem ESB hefur byggt upp í kringum þær. Þær reyndust gallaðar og náðu ekki markmiðum sínum. Þeir ágallar geta hins vegar ekki verið á ábyrgð íslenskrar þjóðar að okkar mati.

Þeir samningar sem nú hafa verið kynntir þjóðinni eru tæpast ásættanlegir. Ekki er með góðu móti unnt að réttlæta að við tökum á okkur ábyrgð sem við höfum aldrei gengist undir eða berum ábyrgð á með öðrum hætti, hvað þá að það sé gert á þeim kjörum sem um hefur verið samið.Við köllum eftir lögfræðilegum rökstuðningi fyrir þeim samningum sem búið er að undirrita.

Ákvörðunin um undirritun samninganna er stór á alla mælikvarða. Hún er m.a. stór í því ljósi að ekki liggur fyrir hve mikill hluti heildarfjárhæðarinnar, 650 milljarða króna að viðbættum háum vöxtum, kemur í hlut Íslendinga að greiða eða hvort innistæður njóti forgangs fram yfir aðrar kröfur samkvæmt neyðarlögunum. Það er engan veginn hægt að ganga út frá því að það ákvæði neyðarlaganna standist. Það liggur hins vegar fyrir að kröfuhafar allra gömlu bankanna munu láta á þetta reyna og breytir umræddur samningur þar engu um. Ef þetta forgangsákvæði laganna stenst ekki verður greiðslubyrði íslenska ríkisins margfalt meiri en ætla mætti samkvæmt kynningu á samningnum.

Samninganefnd Íslands hefur skilað sínu verki. Forsendan í starfi hennar virðist hafa verið sú að okkur bæri skylda til að greiða og því ekki annað að gera en að semja um greiðslukjör. Þessi nálgun er ekki í samræmi við þá þingsályktun sem samþykkt var þann 5. desember sl. á Alþingi né þá kynningu sem fram fór á hlutverki samninganefndarinnar þegar hún var skipuð. Í þingsályktuninni ályktar Alþingi aðeins að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld á grundvelli tiltekinna viðmiða. Í þeim viðmiðunum er hins vegar ekkert að finna sem bendir til að Alþingi hafi litið svo á að íslenska ríkið væri greiðsluskylt.

Í kynningu nefndarinnar á samningnum kemur ekki fram hvers vegna rökum, sem leiddu til þess að íslenska ríkinu bæri ekki að greiða, hafi verið hafnað í samningaviðræðunum. Ekki liggur heldur fyrir hvers vegna alþjóðlegir dómstólar voru ekki fengnir til að skera úr um deiluna svo sem eðlilegt hefði verið í samskiptum ríkja. Hafi þau sjónarmið ekki verið höfð að leiðarljósi í samningaviðræðunum að Ísland væri ekki greiðsluskylt var fyrirfram lítil von til þess að ná viðunandi samningum.

Nú er komið að Alþingi Íslendinga að taka afstöðu til málsins. Ef til eru lögfræðileg rök fyrir þeim niðurstöðum sem samninganefndin hefur samið um, þá verður að kynna þau. Það er nauðsynlegt að um þau sé rætt og að skipst sé á skoðunum um þau. Jafnframt verður að greina frá því hvers vegna dómstólaleiðin var ekki valin. Hins vegar er ljóst að ef ekki er upplýst um röksemdir samninganefndarinnar eru þingmenn í jafnmikilli óvissu um það á hverju hún byggist og aðrir landsmenn. Á hverju eiga þeir þá að byggja sína afstöðu?

Séu niðurstöður samninganna byggðar á pólitískum sjónarmiðum, t.d. vegna mögulegrar aðildarumsóknar Íslands að ESB, eða beinum eða óbeinum þvingunum, verður að upplýsa það. Síðan verða þingmenn að taka upplýsta ákvörðun um hvort þau sjónarmið réttlæti skuldsetningu þjóðarinnar sem hljóða upp á óvissar en gríðarlegar fjárhæðir þrátt fyrir að lögfræðileg rök hnígi í aðra átt.

Það er algjörlega á valdi Alþingis að ákveða hvert framhald þessa máls verður óháð því hvað núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnir kunna að hafa sagt eða gert.

Við skorum á þingmenn á Alþingi Íslendinga að krefjast þess að öll rök fyrir þeim samningi sem gerður hefur verið, hvort sem þau eru lögfræðileg eða pólitísk, verði kynnt þingi og þjóð og að ákvörðun verði síðan tekin í framhaldi af því.

Þjóðin hlýtur að spyrja: treysta þingmenn sér til að taka ákvörðun um að skuldsetja hana um 650 milljarða kr. auk hárra vaxta, án þess að skýr og afdráttarlaus rökstuðningur liggi að baki?

Lárus Blöndal

Stefán Már Stefánsson,

 


Sífellt fleiri vilja minna ESB

CBR517skoðanakönnun, unnin af Gallup fyrir Heimssýn, leiðir í ljós að ríkisstjórn Íslands er á miklum villugötum í sínum áherslum. Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar eða 95% telur frekar eða mjög aðkallandi að leysa fjárhagsvanda íslenskra heimila og 91,5% telja að ríkisstjórnin eigi að leggja áherslu á að sinna vanda fyrirtækja.

Ríkisstjórninni gengur illa að vinna í þessum brýnu verkefnum en leggur því meiri orku í að hefja samningaviðræður við ESB. Meirihluti aðspurðra eða 44,3% telur hins vegar að ríkisstjórnin eigi að leggja frekar litla eða mjög litla áherslu á aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Íslensk stjórnvöld eru samt ekki þau einu sem eru algerlega úr takti við kjósendur sína í evrópumálum. Nýleg skoðanakönnun unnin fyrir The Economist í Bretlandi (sjá súlurit) sýnir að stuðningur við ESB hefur aldrei verið minni og meirihluti þjóðarinnar vill ganga úr ESB eða taka upp fríverslunarsamning við ESB. 

 

 


Mikil óánægja með ESB í Bretlandi

6a00d83550306a69e20115709bc04d970b-320wiNý og ítarleg skoðanakönnun um viðhorf til ESB, sem gerð var á vegum The TaxPayers Alliance í Bretlandi, leiðir í ljós mikla andstöðu við Lissabon sáttmálann (62% á móti, 28% með). Svarendur eru jafnframt andsnúnir upptöku Evru (75% á móti, 23% með) en andstaðan við Evru hefur ekki mælst svo mikil áður.

Rétt er að taka fram að samtök skattgreiðenda í Bretlandi telja að Brussel sé komið með of mikið vald yfir málefnum landsins.

Svarendur eru ekki sannfærðir um að Bretland hafi meiri áhrif á sín mál með því að vera í sambandinu.

Spurning númer 10 í könnuninni hljómar þannig á íslensku:

Q10 Hvor setningin er meira sannfærandi að þínu mati?

(a) Að færa vald til ESB í þeirri von að hafa áhrif á sambandið hefur verið reynt í áratugi og ESB fær sífellt meira vald yfir lífi Breta en notar það illa. Við ættum að taka vald til baka í stað þess láta sífellt meira af hendi.

(b) Með því að vera hluti af ESB getum við haft áhrif á stefnu sambandsins í þágu Bretlands og stöðvað vöxt stórríkisins. Eina leiðin til að hafa áhrif á klúbbinn er að vera meðlimur í honum, að segja sig úr honum væri stórslys.

Setning (a) fékk stuðning 60% aðspurðra en 37% aðspurðra völdu setningu (b).  ESB sinnar hafa lengi verið sannfærðir um að (b) sé rétt, en almenningur virðist ekki vera á sama máli.

Í greinargerð með könnuninni er draga aðstandendur eftirfarandi ályktun:

People do not buy the fundamental argument that we need to give away control of trade policy and economic regulation in order to trade with the EU.

Einmitt það.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband