Skynsamleg lausn á vanda heimilanna

Jón SteinssonGauti B. EggertssonFramsókn býður 20% niðurfærslu skulda, Sjálfstæðismenn jafna það og afnema verðtryggingu að auki, VG bjóða 4m kr. á línuna. Öllum má vera ljóst að þetta eru ekki lausnir á vanda þeirra verst settu. Þetta eru útspil til að veiða atkvæði.

Á meðan flokkarnir skruma eftir atkvæðum reyna aðrir að koma með lausnir sem duga. Hagfræðingarnir Gauti B. Eggertsson og Jón Steinsson rituðu mjög fína grein sem birt var í Morgunblaðinu 19. mars. Í greininni er sett fram ágæt tillaga að lausn.:

Að okkar mati þurfa skynsamlegar tillögur að uppfylla a.m.k. fimm skilyrði eins vel og kostur er: 1) Þær eiga að byggjast á skýrum, almennum reglum; 2) Þær eiga að vera nægilega einfaldar til þess að unnt sé að framkvæma þær hratt og örugglega; 3) Þær eiga að lágmarka eins og kostur er fjölda þeirra heimila sem neyðast til þess að selja hús sín; 4) Þær eiga að „leysa vandann“ þannig að ljóst sé þegar þær hafa verið framkvæmdar að engar frekari sérstakar aðgerðir muni koma til (aðeins þá mun hagkerfið aftur taka að starfa eðlilega); 5) Þær eiga að leysa vandann með lágmarks kostnaði fyrir skattborgara.

Til þess að uppfylla öll þessi skilyrði þurfa aðgerðir stjórnvalda að taka tillit til bæði tekna og eigna hvers heimilis fyrir sig. Þeir sem hafa meiri tekjur í framtíðinni hafa burði til þess að greiða meira. Og þeir sem eiga meiri eignir (t.d. stærra húsnæði) hafa einnig burði til þess að greiða meira.

Ein leið sem uppfyllir öll ofangreind skilyrði gengur þannig fyrir sig að lánaskilmálum er breytt þannig að: 1) Þak sé sett á greiðslubyrði heimilis sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hvers árs á lánstímanum og mismunurinn sem ekki næst að greiða leggst við höfuðstól og greiðist því síðar; 2) Lánstíminn er gerður sveigjanlegur. Lánstími þeirra lána sem ekki eru greidd að fullu á þeim árafjölda sem upphaflega lánið gerir ráð fyrir er lengdur þar til lánið er að fullu greitt. Þetta fyrirkomulag er svipað og það fyrirkomulag sem Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur notað um árabil (en þó ögn frábrugðið). Það er einnig áþekkt einni af þeim leiðum sem ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur nýlega kynnt til lausnar á greiðsluvanda húsnæðiseigenda þar í landi.

Þessi „LÍN leið“ hefur þann kost að hún er einföld í framkvæmd. Hún leiðir einnig sjálfkrafa til þess að þeir sem hafa burði til þess að greiða skuldir sínar að fullu gera það. Bankarnir bjóða nú þegar upp á ýmiss konar greiðslujöfnun og lengingu lána. Leiðin sem við leggjum til er því í rauninni útvíkkun og samræming á þeim leiðum sem eru í boði í dag. Við teljum að þau úrræði sem bankarnir hafa fram til þessa boðið gangi ekki nægilega langt. Það er auk þess afskaplega mikilvægt að tryggt sé að allir landsmenn eigi kost á sams konar breytingum á lánaskilmálum sínum.

Helsti ókosturinn við þessa leið er að þeir sem eru í hvað vonlausastri stöðu munu hafa háa hlutfallslega greiðslubyrði í langan tíma og munu hafa litla von um að geta lækkað hana. Langflestir munu hins vegar hafa hvata til þess að hækka tekjur sínar til þess að greiða lánið upp á sem skemmstum tíma.

Hvernig væri unnt að útfæra þessa leið þannig að hún tæki mið af eignum fólks? Það mætti gera með því að miða greiðslubyrði hverrar fjölskyldu við eignastöðu hennar í dag. Þakið á greiðslubyrði gæti til dæmis verið 40% af tekjum eftir skatta fyrir þá sem eiga eignir undir 30 m.kr. En hærri fyrir þá sem sem eiga í dag meiri eignir. Líklega væri heppilegt að þakið á greiðslubyrði væri ekki miðað við eignir fólks á hverjum tíma í framtíðinni heldur einungis eignastöðu þess nú. Að miða það við eignastöðu fólks í framtíðinni hefði þann ókost að það myndi draga um of úr hvata fólks til þess að spara og byggja upp eignir að nýju.

Mikilvægur kostur við þessa leið er að allar fjölskyldur landsins eiga þess kost að halda áfram að búa í því húsnæði sem þær búa í nú. Tillagan gerir ráð fyrir að fólk með litlar eignir þurfi að greiða lægra hlutfall tekna sinna í afborganir af skuldum sínum en fólk með miklar eignir. Það mætti til dæmis hugsa sér að þakið á greiðslubyrði hækkaði um eitt prósentustig fyrir hverjar 5 m.kr yfir 30 m.kr eign heimilis í byrjun árs 2009. Þá væri þetta þak 44% fyrir þá sem áttu eignir upp á 50 m.kr í byrjun árs en 54% fyrir þá sem áttu eignir upp á 100 m.kr í byrjun árs. Þeir sem eiga miklar eignir munu því þurfa að leggja meira á sig ef þeir ætla að komast hjá því að selja eignir sínar. Sum heimili spenntu bogann allt of hátt í uppsveiflunni. Það er eðlilegt að þau þurfi að leggja meira á sig til þess að halda sínu en hinir sem voru varkárari.

Huga þarf vel að ýmsum útfærsluatriðum varðandi þessa leið (og þessi grein inniheldur ekki tæmandi lista hvað það varðar). Til dæmis er mikilvægt að hjón geti ekki komist hjá því að greiða skuldir sínar með því að færa skuldir á þann aðila sem hefur minni tekjur. Þá þarf að takmarka framseljanleika þessara lána. Loks er engin ástæða til að veita lánafyrirgreiðslu af þessu tagi fyrir fleiri en eitt hús á hverja fjölskyldu, og eðlilegt að setja einhver takmörk um hversu há lánin geta verið sem hægt er að breyta á þennan hátt. Það er engin ástæða fyrir skattgreiðendur að niðurgreiða sumarhallir með þyrlupöllum.

En leiðin sem við leggum til er hér að ofan er ekki eina leiðin til þess að taka á vanda skuldsettra heimila. Önnur leið væri að nota upplýsingar um eignir, tekjur síðustu ára, menntun og aldur heimilismanna á hverju heimili til þess að leggja mat á framtíðartekjur og þar með greiðslugetu heimilisins. Ef skuldir heimilisins reynast meiri en greiðslugeta þess, væru skuldirnar færðar niður að greiðslugetu. Helsti ókosturinn við þessa leið er að erfitt getur verið að spá fyrir um framtíðartekjur (og þar með greiðslugetu) heimila. Framtíðartekjur fólks eru háðar mikilli óvissu. Sum heimili myndu því vafalítið fá greiðslumat sem væri töluvert of hátt og önnur fá greiðslumat sem væri töluvert of lágt. Þessi leið hefði líka þann galla að hún væri ekki jafn gegnsæ og hin, og því meiri hætta á misnotkun við útfærslu hennar.

Báðar þessar leiðir eru framkvæmanlegar. Og báðar leysa vanda skuldugra heimila með mun minni kostnaði fyrir skattborgara en tillögur sem gera ráð fyrir hlutfallslegri niðurfellingu skulda annaðhvort beint eða með afturvirku afnámi verðtryggingar. Okkar mat er að „LÍN leiðin“ sé líklega ákjósanlegri þar sem hún er einfaldari í framkvæmd og öruggari hvað það varðar að setja þak á greiðslubyrði heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum á hverjum tíma.

Ágæt tillaga hjá þeim félögum. Skýr markmið og aðferðafræði sem virkar. 


Er krónan rót vandans?

krónurSú skoðun virðist mjög útbreidd að krónan eigi sér ekki framtíð og stjórnmálamenn eru farnir að velta fyrir sér í mikilli alvöru að innleiða hér erlendan gjaldmiðil. Slík aðgerð yrði mjög dýr og nánast óafturkræf. Er öruggt að hún væri til bóta?

En hvað ef krónan er alls ekki vandinn? Er ekki hugsanlegt að hann felist í slæmri hagstjórn, röngum ákvörðunum stjórnenda og einsleitu og þar með sveiflukenndu hagkerfi? Það finnst mér frekar líklegt.

Ef okkur á að ganga betur í framtíðinni þurfum við að læra að mistökum og ráðast að rót vandans.

Þegar vel árar í atvinnuvegum eykst eftispurn eftir krónum og gengi hennar styrkist, í niðursveiflu dregur úr eftirspurn og gengið veikist. Þetta á ekki að koma stjórnendum fyrirtækja á óvart. Nú þurfa þeir að viðurkenna ábyrgð á því að hafa skuldsett fyrirtæki sín í erlendum myntum eins og uppsveiflan myndi vara að eilífu. Stjórnendur kjósa að sjálfsögðu að kenna krónunni um, þó að í raun og veru sé sökin  hjá þeim sjálfum.

Í stað þess að játa mistök og læra af þeim leggja stjórnmálamenn og stjórnendur nú til að við tökum upp útlenda og "trausta" mynt. En hún mun því miður ekki endurspegla íslenskar aðstæður. Sá galli mun síðan leiða til gjaldþrota og atvinnuleysis þegar gengi gjaldmiðilsins verður of sterkt fyrir okkar aðstæður. Nú eru Grikkir, Írar og fleiri þjóðir einmitt í þeirri stöðu.

Íslendingar eru núna að kynnast því hvernig fer ef gjaldmiðill og hagkerfi eru ekki í takt. Stjórnvöld létu það nefnilega viðgangast allt frá árinu 2006 að krónan styrktist án nokkurs samhengis við íslenskt efnahagslíf. Ef Seðlabankinn og ríkisstjórnin hefðu haft dug til að grípa til aðgerða þegar einkennin voru orðin augljós, hefði mátt fyrirbyggja ofstyrkingu krónunnar og skuldasöfnun fyrirtækja og almennings. Bankarnir hefðu þá síður rúllað og mun færri fyrirtæki væru gjaldþrota. Stjórnvöld vilja auðvitað kenna krónunni um hvernig fór, en sökin er í raun og veru hjá þeim og engum öðrum.

Stundum heyrir maður þau rök að Ísland sé of fámennt land til að hafa eigin gjaldmiðil, seðlabanka og fjármálaeftirlit. Hvernig má það vera að land sem telur færri íbúa en meðalstór gata á Manhattan þurfi eigin gjaldmiðil?  Ástæðan er einfaldlega sú að við erum ekki á Manhattan. Við erum í allt öðru umhverfi og þurfum að geta brugðist við öðrum aðstæðum. 

Það er rétt að rifja upp að þar til við misstum fótanna í bankamálunum gekk okkur mjög vel og það var undir eigin stjórn og með eigin gjaldmiðil. Þrátt fyrir krónuna komumst við úr sárri fátækt í hóp ríkustu þjóða heims. Það hljóta að teljast nokkur meðmæli með krónunni.

 

 

 


Tillaga að tillögukerfi fyrir Alþingi

lightTreeÞað er fullt af fólki í landinu sem hefur tillögur að lausnum á þeim vandamálum sem þingmenn og ríkisstjórn glíma við. Vandinn er að hugmyndirnar skipta þúsundum og þær eru auðvitað misjafnar að gæðum.

Nú er til kerfi sem getur tekið við aragrúa tillagna og sjálfkrafa leitt í ljós þær tillögur sem teljast bestar af notendum þess. Notendur geta gefið hugmyndum með- eða mótatkvæði sitt skrifað athugasemdir við þær. Góðar hugmyndir sem vinna sér fylgi færast upp listann og eru að loknum teknar til greina.

Alþingi gæti mjög auðveldlega sett upp svona tillögukerfi til að hlusta á þjóðina og þingmenn sett þar inn tillögur eins og aðrir til að leita álits almennings á þeim. Hugbúnaðurinn sem til þarf er ókeypis, en ef menn vilja, geta má borga 13.000 kr. á mánuði. Kerfið fæst hér. http://www.ideascale.com/

Vonandi drífur Alþingi í að setja þetta upp fljótlega.

Ég var einmitt að prófa kerfið áðan og setti þessa tillögu inn þar. Tók bara 10 mínútur. Vona að þú kíkir við og greiðir tillögunni atkvæði. Eða setjir inn aðra.


Sjaldan hef ég flotinu neitað

Jón ÁrnasonÞessi frétt um aðildarviðræður rifjaði af einhverjum ástæðum upp eina af þjóðsögum Jóns Árnasonar um Fúsa sem sat á krossgötum, en hún er svona:

Sumir segja að krossgötur séu þar, t.d. á fjöllum eða hæðum, sem sér til fjögurra kirkna. Elsta trúin er sú að menn skuli liggja úti jólanótt því þá er áraskipti og enn í dag telja menn aldur sinn eftir jólanóttum og sá er t.d. kallaður 15 vetra sem hefur lifað 15 jólanætur. Síðar færðu menn ársbyrjunina á nýársnótt.

Þegar menn sitja á krossgötum þá koma álfar úr öllum áttum og þyrpast að manni og biðja hann að koma með sér en maður má engu gegna. Þá bera þeir að manni alls konar gersemar, gull og silfur, klæði, mat og drykk, en maður má ekkert þiggja. Þar koma álfakonur í líki móður og systur manns og biðja mann að koma og allra bragða er leitað.

En þegar dagur rennur þá á maður að standa upp og segja: "Guði sé lof, nú er dagur um allt loft." Þá hverfa allir álfar en allur þessi álfaauður verður eftir og hann á þá maðurinn. En svari maður eður þiggi boð álfa þá er maður heillaður og verður vitstola og aldrei síðan mönnum sinnandi.

Því varð manni sem Fúsi hét og sat úti jólanótt og stóðst lengi, þangað til ein álfkona kom með stóra flotskildi og bauð honum að bíta í. Þá leit Fúsi við og sagði það sem síðan er að orðtaki haft: "Sjaldan hef ég flotinu neitað." Beit hann þá bita sinn úr flotskildinum og trylltist og varð vitlaus.

Kannski er þessi saga um freistingar einmitt viðeigandi þegar hugað er að aðildarviðræðum. Þar munu án efa verða ýmsar freistingar og gylliboð sem erfitt verður að standast.


mbl.is Flestir vilja aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhrif makaskipta á verðtryggingu

Þróun fasteignaverðs

Húsnæðislán eru flest verðtryggð og þáttur fasteignaverðs nemur 15-18% af þeirri vísitölu sem verðtryggingin miðast við.  Eftir að hafa meira en þrefaldast síðan 1994, hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu nú loksins hætt að hækka.  Það þurfti heimskreppu til. En hún lækkar furðu lítið. Stendur eiginlega í stað. Hvernig getur staðið á því?

Síðan kreppan skall á hefur fasteignasala nánast stöðvast. Kaupendur halda að sér höndum enda geta þeir ekki fengið lán til fasteignakaupa. Margir geta ekki selt húsin sín því að verðið sem býðst er lægra en áhvílandi lán. Þessi tregða hægir á lækkun fasteignaverðs.

Þegar ekki er hægt að fjármagna fasteignakaup er gripið til makaskipta. Seljandi fær þá aðeins lítinn hluta söluverðsins í peningum, en megnið í ódýrari fasteign, bílum eða öðrum verðmætum. Makaskipti hafa færst mjög í vöxt, einkum á höfuðborgarsvæðinu þar sem þau nema hátt í 30% af öllum sölum.

Söluverð í makaskiptum er oftast verulega hærra en ef eignin hefði verið seld gegn greiðslu í reiðufé. Þetta stafar af því að bæði seljandi og kaupandi hafa hag af því að meta eignir sem hæst því að lánshlutfall miðast við verð. Því hærra verð, því meira veð. 

Hagstofan tekur þróun fasteignaverðs inn í vísitöluútreikninga. Líklega er vægi fasteigna um 15-18% af þeirri vísitölu sem fasteignalán miðast við. Þessi háu makaskiptaverð eru líka notuð í vísitölunni og það myndi leiða til ofmats á vísitölu ef ekki kæmi til sérstök niðurfærsla.  

Áður en verð í makaskiptum er tekið inn í vísitöluna, er sá hluti kaupverðs sem greiddur er með íbúðum, bílum og þess háttar metinn niður um 25%. (þetta niðurmat var áður 10%) Það dregur vissulega úr skekkjunni, en mat af þessu tagi kallar á ýmsar spurningar. 

Hver veit hvort 25% niðurfærsla er rétt? Hvaða rannsóknir liggja að baki þeirri tölu? Er raunverulega hægt að selja jeppana og uppítökuhúsnæðið fyrir beinharða peninga ef með aðeins 25% afföllum? Það er ómögulegt að segja.

Það er mjög ólíkt Hagstofunni að vera með ágiskanir af þessu tagi í sínum niðurstöðum. Æskilegra væri að sleppa makaskiptasamningum alfarið úr vísitölunni. 

Tjónið af skekkju getur verið verulegt. Ef t.d. makaskiptasamningar væru þrátt fyrir niðurfærsluna að valda ofmati fasteignaþáttar vísitölunnar sem næmi 10%, þá  leiðir það til hækkunar verðtryggðra skulda upp á 1.5% Það er veruleg fjárhæð.

Fróðlegt væri að vita hver vísitalan væri ef makaskiptasamningar væru ekki inní vísitölunni.

 


Hvaða fyrirtækjum á að bjarga?

Of einfalt?Fyrirsjáanlegt er að mörg fyrirtæki munu verða gjaldþrota ef þeim er ekki komið til bjargar. Framsókn hefur komið með tillögu sem vekur spurningar, en líka fleiri hugmyndir.

Neðst í tillöguskjali Framsóknar stendur þetta:

"Það sama á við um fyrirtæki og heimili. Raunhæfasta og sanngjarnasta leiðin er sú að eitt sé látið yfir alla ganga. Það er æskilegast hvort sem um er að ræða mjög illa stödd, sæmilega stödd eða vel stödd fyrirtæki. Fyrirtæki sem er mjög illa statt fjárhagslega verður líklega gjaldþrota hvort sem það fær 20% skuldaniðurfellingu eða ekki. Það felst því enginn skaði í því fyrir kröfuhafann að gefa eftir 20% skuldarinnar, enda voru þeir peningar líkast til hvort eð er tapaðir. Fyrir sæmilega statt fyrirtæki getur 20% skuldaniðurfelling hins vegar skipt sköpum (samhliða vaxtalækkun). Þau geta þá haldið áfram rekstri og komist hjá því að segja upp fólki. Vel stödd fyrirtæki sem fá skuldaniðurfellinguna eru hins vegar ekki síður mikilvæg. Það eru fyrirtækin sem munu þá hafa eigið fé til uppbyggingar. Þ.e. til að kaupa önnur félög (m.a. þau sem fara í þrot), standa að nýsköpun og stuðla að uppbyggingu atvinnulífsins."

Þarna er lagt til að skuldir allra fyrirtækja (við ríkisbankana) séu lækkaðar um sömu prósentu, óháð því hvort þau eru vel eða illa stödd. Ekki kemur fram hve háar upphæðir er um að ræða alls eða í hverjum flokki, en þær hljóta að vera verulegar.

Er skuldsetning sanngjarnt viðmið þegar á reynir?

Ef aðeins ætti að aðstoða gjaldþrota fyrirtæki væri eðlilegt að miða við skuldastöðu, en fyrst hugmyndin er sú að liðsinna öllum fyrirtækjum getur falist hrein mismunun í því að miða eingöngu við skuldir.

Taka má dæmi um tvö fyrirtæki í samkeppni, annað er lítið skuldsett enda ávallt verið rekið af hagsýni en keppinauturinn er afar skuldsettur og tvísýnt um afdrif hans. Skuldsetta fyrirtækið fær tugmilljóna niðurgreiðslur en hið vel rekna fær aðeins örfáar milljónir.

Er það þjóðinni í hag að efla illa rekin fyrirtæki meir en hin betur reknu?

Hver eru markmiðin með björgunaraðgerðum?

Markmið Framsóknar eru án efa að koma í veg fyrir að góð fyrirtæki fari í gjaldþrot með tilheyrandi atvinnuleysi. Grípa þarf til skjótvirkra aðgerða til að bjarga málum svo fyrirtækin fái ráðrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum. Aðferðin má ekki vera of flókin. Varast ber óskýrar úthlutunarreglur sem geta leitt til spillingar eða grunsemda um spillingu. Kannski má ná þessu fram með því að þróa hugmyndina aðeins lengra. Markmiðin gætu t.d. verið:

  • Hjálpa þeim fyrirtækjum sem hafa flesta í vinnu.
  • Hjálpa þeim fyrirtækjum sem greitt hafa mesta skatta gegnum tíðina.
  • Hjálpa fyrirtækjum sem eru í greiðsluvanda.
  • Hjálpa fyrirtækjum sem geta sýnt fram á góða möguleika í framtíðinni.

Þetta eru bara tillögur, endilega koma með fleiri.

Hugmynd að nánari útfærslu

Einföldun er mjög æskileg. Albert Einstein sagði "Alla hluti ætti að einfalda eins mikið og hægt er, en þó ekki meira." Það virðist of mikil einföldun fólgin í því að miða eingöngu við skuldsetningu. Aðgerðin verður mjög dýr og réttlætanlegt að leggja töluverða vinnu í hana.

Ég legg til að sett verði upp einfalt en skilvirkt matskerfi sem gerir kleift að gefa fyrirtæki einkunn eftir því hversu vel það mætir skilgreindum markmiðum björgunaraðgerðanna. Síðan sækja fyrirtæki um, eru metin og fá í flestum tilfellum skjóta afgreiðslu. 


Er 20% niðurfærsla skulda góð?

Spurning?Framsókn á lof skilið fyrir að koma fram með tillögur að aðgerðum til að leysa fjárhagsvanda heimila og fyrirtækja. Í tillöguskjalinu eru ýmsar frumlegar hugmyndir sem flestar virðast til bóta.

Tillagan um 20% niðurfærslu allra húsnæðislána vekur þó upp efasemdir. En í henni segir m.a.:

Öll húsnæðislán verða færð frá bönkunum til Íbúðalánasjóðs miðað við þá afskrift sem varð eða verður á lánasöfnum við flutninginn frá gömlu bönkunum til nýju bankanna e.t.v. 50%). Íbúðalánasjóður veitir svo flata 20% skuldaniðurfellingu vegna allra húsnæðislána. Þetta er gert til að tryggja jafnræði milli þeirra sem voru með húsnæðislán hjá bönkunum og hjá Íbúðalánasjóði.

Framsóknarmenn nefna reyndar einn galla við þessa aðferð og segja: 

Það gæti þótt gagnrýni vert að þeir sem tóku óhóflega há lán skuli með þessari aðferð fá umtalsvert meiri niðurfellingu en þeir sem tóku lægri lán. Sá sem tók 10 milljón króna lán í erlendri mynt en skuldar nú 20 milljónir fengi þannig 4 milljón kr. niðurfellingu en sá sem tók 100 milljón króna lán sem nú stendur í 200 milljónum fengi 40 milljón króna niðurfellingu.

Framsóknarmenn telja þetta þolanlegan galla þegar tekið er tillit til kostanna við þessa leið.

En varla eru allir skuldsettir í nauðum?

Þótt flestir skuldi nú meira af húsum sínum en þeir gerðu fyrir kreppu er ekki sjálfgefið að þeir séu fátækir eða þurfi hjálpar við. Margir eignamenn tóku út lán á hús sín þótt þeir þyrftu ekki á þeim að halda. Þeir eru kannski ekki eins ríkir og þeir voru, en þeir eru margir sem geta staðið í skilum.

Vonandi hafa sumir átt eignir í erlendum myntum sem hafa aukist í krónum talið um leið og lánin með veikingu krónunnar. Þeim er borgið og þurfa ekki afskriftir.

Er gott að skattleggja almenning til að hjálpa ríkum?

Líklega vilja framsóknarmenn alls ekki leggja slíkt til, en sú yrði því miður útkoman ef þessi 20% niðurfærsluleið er farin. Því ef skuldir þeirra sem eru nógu ríkir til að standa í skilum sjálfir eru færðar niður þá eru það aukin útgjöld fyrir ríkið. Auknum útgjöldum þarf að mæta með auknum sköttum á allan almenning.

Hvað er þá til ráða?

Það er bæði nauðsynlegt og mögulegt að greina á milli þeirra sem þurfa nauðsynlega á niðurfærslu að halda og hinna sem geta bjargað sér sjálfir.

Setja mætti fram einfaldar matsreglur og virkja t.d. starfsfólk bankanna í að framkvæma greiðslumat fyrir þá sem óska eftir aðstoð. Það þarf að vera grundvallarregla að menn séu raunverulega hjálpar þurfi. 

Annars vil ég aftur taka fram að tillögur framsóknarmanna eru gott innlegg sem þeir þróa vonandi áfram.


Framtíðarsýn fyrir Ísland

Ísland á sér ekki framtíðarsýn í dag en þó er almennt viðurkennt að skýr framtíðarsýn þarf að vera til staðar ef almennilegur árangur á að nást í einhverju. Góðu fréttirnar eru að það er fljótlegt og ódýrt að bæta úr þessari vöntun.

Fyrsta útgáfa af framtíðarsýn Íslands þarf hvorki að vera fullkomin né endanleg. Hún þarf bara að vera skárri en ekki neitt. Endurbætt útgáfa verður svo fyrsta verk á dagskrá næstu ríkisstjórnar sem setur verkefnið vonandi í hendur þjóðarinnar. Framtíðarsýn verður síðan endurskoðað árlega og árangur metinn.

Framtíðarsýn myndi lýsa okkar stöðu í dag og hvernig við viljum sjá stöðuna þróast í framtíðinni. Hún myndi lýsa okkar styrkleikum og veikleikum, helstu tækifærum og fyrirsjáanlegum ógnum og skilgreina mikilvægustu áherslur í hverjum málaflokki. Menntamálum, heilbrigðismálum, orkumálum, efnahagsmálum, auðlindamálum ... 

Framtíðarsýn þarf að innifela markmið en ætti ekki að skilgreina leiðir. Að finna leiðina er hlutverk ríkisstjórnar á hverjum tíma.

Ég hef verið að leita að fordæmum frá útlöndum en reyndar ekki fundið mikið. Ótrúlegt hvað framtíðarsýn þjóða er vel falin. En á vef ríkisstjórnar Írlands tókst mér að finna þetta nýlega skjal "Framework for sustainable economic renewal" Í því er fjallað um leið Írlands út úr kreppunni.

Our strategy is to

• address the current economic challenges facing the Irish economy by stabilising the
public finances, improving competitiveness, assisting those who lose their jobs, and
supporting Irish business and multinational companies;

• invest heavily in research and development, incentivise multinational companies to
locate more R&D capacity in Ireland, and ensure the commercialisation and retaining
of ideas that flow from that investment;

• implement a ‘new green deal’ to move us away from fossil fuel-based energy
production through investment in renewable energy and to promote the green
enterprise sector and the creation of ‘green-collar’ jobs;

• develop first-class infrastructure that will improve quality of life and increase the
competitiveness of Irish business

Það má læra mikið af öðrum þjóðum í þessu efni, en framtíðarsýn Íslands þarf samt að vera okkar eigin og sniðin að okkar aðstæðum og tækifærum.

Skýr framtíðarsýn mun auka trú okkar á eigin framtíð en ekki síður mun hún auðvelda útlendingum að skilja fyrir hvað við stöndum í raun og veru og hvert við stefnum sem þjóð.

Þetta væri stórt skref í því að endurheimta traust og virðingu annarra þjóða. 


Heimsendir í nánd!

Gylfi segir:

Útlit sé fyrir að enginn aðgangur verði að erlendu fjármagni um ókomin ár. Hvort það verði fimm eða tíu ár, viti enginn. Án þess verði engin framtíð

Engin framtíð. Það er eitt af helstu einkennum heimsendis. En er þetta nú ekki aðeins of mikil svartsýni?

Auðvitað er mikilvægt að semja við erlenda lánadrottna, hafa við þá gott samband og rétt hjá Gylfa að vekja athygli á því. En það má nú benda á hvað má betur fara og brýna menn til dáða án þess að hræða alla von úr þjóðinni í leiðinni.


mbl.is Gylfi Zoëga: Svartar horfur á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðishalli minni í ESB en EES?

prosentanMaría Elivira Mendez Pinedo er doktor og lektor í Evrópurétti við lagadeild Háskóla Íslands. Grein eftir hana "Lýðræðishallinn í EES" birtist á bls 39 í Morgunblaðinu í dag (15. feb). Afstaða Maríu er sú að það sé minni lýðræðishalli í ESB en EES. Það reynist hins vegar við nánari skoðun vera alveg þveröfugt. Ísland myndi þurfa að þola meiri lýðræðishalla innan ESB.

Hvað er lýðræðishalli?
Gagnrýnendur ESB hafa nefnt lýðræðishalla (e. democratic deficit) sem einn af helstu ókostum sambandsins. Með lýðræðishalla er átt við að kjósendur hafi ekki nægileg áhrif á hverjir taka ákvarðanir fyrir þeirra hönd og virðast flestir sammála um að þetta vandamál sé fyrir hendi í ESB. 

Er lýðræðishalli í EES?
EES ríki hafa ekki bein áhrif á lagasetningu í ESB en þurfa samt að innleiða lög ESB í vissum málaflokkum. Kjósendur í EES hafa ekki bein áhrif á þá lagasetningu og í því felst vissulega skortur á lýðræði.

María leggur til að Ísland gangi í ESB svo íslenskir kjósendur geti haft meiri áhrif á þau lög sem hér eru innleidd.

Það virðist góð hugmynd í fyrstu, einkum ef maður gleymir að skoða hvaða áhrifum íslenskir kjósendur tapa við að ganga í ESB. María gleymir nefnilega að halda því til haga í sinni grein. 

Íslendingar hafa núna fulla lögsögu yfir eigin auðlindum, fiskimiðum, orku, landbúnaði og þurfa ekki að þola neinn lýðræðishalla í þeim málum.

Við inngöngu í ESB myndu áhrif okkar í þessum málefnum hrapa úr 100% í 0.06%. (Íslendingar eru bara 0.3 milljónir eða 0.06% af íbúafjölda ESB sem er 500 milljónir.)

Berum saman áhrif Íslendinga á eigin málefni innan og utan ESB

Utan ESB: Ráðum okkur 100% í sumu og 0% í öðru. Meðaltalið er 50%

Innan ESB: Ráðum okkur 0.06% í sumu og 0.06% í öðru. Meðaltalið er 0.06%

Þetta má eflaust reikna út með meiri nákvæmni en niðurstaðan virðist nokkuð ljós. Við höfum margfallt meiri áhrif á eigin málefni utan ESB. Lýðræðishalli yrði því óhjákvæmlega meiri innan ESB.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband