Er 20% niðurfærsla skulda góð?

Spurning?Framsókn á lof skilið fyrir að koma fram með tillögur að aðgerðum til að leysa fjárhagsvanda heimila og fyrirtækja. Í tillöguskjalinu eru ýmsar frumlegar hugmyndir sem flestar virðast til bóta.

Tillagan um 20% niðurfærslu allra húsnæðislána vekur þó upp efasemdir. En í henni segir m.a.:

Öll húsnæðislán verða færð frá bönkunum til Íbúðalánasjóðs miðað við þá afskrift sem varð eða verður á lánasöfnum við flutninginn frá gömlu bönkunum til nýju bankanna e.t.v. 50%). Íbúðalánasjóður veitir svo flata 20% skuldaniðurfellingu vegna allra húsnæðislána. Þetta er gert til að tryggja jafnræði milli þeirra sem voru með húsnæðislán hjá bönkunum og hjá Íbúðalánasjóði.

Framsóknarmenn nefna reyndar einn galla við þessa aðferð og segja: 

Það gæti þótt gagnrýni vert að þeir sem tóku óhóflega há lán skuli með þessari aðferð fá umtalsvert meiri niðurfellingu en þeir sem tóku lægri lán. Sá sem tók 10 milljón króna lán í erlendri mynt en skuldar nú 20 milljónir fengi þannig 4 milljón kr. niðurfellingu en sá sem tók 100 milljón króna lán sem nú stendur í 200 milljónum fengi 40 milljón króna niðurfellingu.

Framsóknarmenn telja þetta þolanlegan galla þegar tekið er tillit til kostanna við þessa leið.

En varla eru allir skuldsettir í nauðum?

Þótt flestir skuldi nú meira af húsum sínum en þeir gerðu fyrir kreppu er ekki sjálfgefið að þeir séu fátækir eða þurfi hjálpar við. Margir eignamenn tóku út lán á hús sín þótt þeir þyrftu ekki á þeim að halda. Þeir eru kannski ekki eins ríkir og þeir voru, en þeir eru margir sem geta staðið í skilum.

Vonandi hafa sumir átt eignir í erlendum myntum sem hafa aukist í krónum talið um leið og lánin með veikingu krónunnar. Þeim er borgið og þurfa ekki afskriftir.

Er gott að skattleggja almenning til að hjálpa ríkum?

Líklega vilja framsóknarmenn alls ekki leggja slíkt til, en sú yrði því miður útkoman ef þessi 20% niðurfærsluleið er farin. Því ef skuldir þeirra sem eru nógu ríkir til að standa í skilum sjálfir eru færðar niður þá eru það aukin útgjöld fyrir ríkið. Auknum útgjöldum þarf að mæta með auknum sköttum á allan almenning.

Hvað er þá til ráða?

Það er bæði nauðsynlegt og mögulegt að greina á milli þeirra sem þurfa nauðsynlega á niðurfærslu að halda og hinna sem geta bjargað sér sjálfir.

Setja mætti fram einfaldar matsreglur og virkja t.d. starfsfólk bankanna í að framkvæma greiðslumat fyrir þá sem óska eftir aðstoð. Það þarf að vera grundvallarregla að menn séu raunverulega hjálpar þurfi. 

Annars vil ég aftur taka fram að tillögur framsóknarmanna eru gott innlegg sem þeir þróa vonandi áfram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Baldursson

Það eru margir útlimir á þessu skrímsli.....
Þarfir skuldara eru gríðarlega ólíkar. 20% niðurfelling skulda heimilana, hljómar þó eins og klippt úr Hollywood ævintýri. Margir virðast sjá fyrir sér einhvern töfrakassa þar sem ríkiskassinn er annars vegar, svona eins og höll Jóakims frænda í Andrésblöðunum. Það er falleg tilhugsun, en ég óttast að skuldirnar hlaupi ekki frá okkur svo auðveldlega.
Fjármagnseigendum gert hærra undir höfði
Í útvarpinu í morgun heyrðist í Þórði hjá Hagsmunasamtökum Heimilana. Hann benti á ákveðið misvægi sem væri það að ínnistæðueigendum var hjálpað umfram innistæðutryggingar. Peningamarkaðssjóðir fengu ca. 200 milljarða innspýtingu líka.
Gjaldmiðlaumræðan
Hávær er umræðan um að skipta út gjaldmiðlinum. Krónan sé ónýt og nýjan gjaldmiðil þurfi hið fyrsta. Því er ég reyndar algerlega ósammála. En gefum okkur það að þetta kæmi engu að síður til. Hverjum myndi þetta þjóna mest ?
Það er nefnilega ein lykilspurning sem engin kærir sig sérstaklega um að svara : "Hvert á skiptigengi að verða ".
a) Krónan yrði hátt metinn á móti Evru (hér mætti skipta út orðinu Evra með Dollar), þá kæmi það sér afar vel fyrir fjármagnseigendur og reyndar líka fyrir þá sem skulda gengistryggð lán, í samanburði við verðtr.lán, því þá eru skuldir þeirra nær almennum skuldum á húsnæðismarkaði...en með lægr vext
b) Krónan er lágt metin gagnvart Evru. Það kæmi sér vel fyrir alla sem skulda í verðtryggðum lánum, eða í krónum almennt. Þeir stæðu eftir með færri Evrur í skuld að gjaldmiðlaskiptum loknum.

Í gegnum aldirnar hafa fjármagnseigendur sjaldan farið halloka fyrir þeim sem skulda. Eru einhverjar líkur á að í þessu yrði nokkur breyting á ?

Haraldur Baldursson, 2.3.2009 kl. 09:22

2 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Hvað skyldi þessi 20% vera há upphæð, veit einhver það? Ég hef heyrt 1200 milljarðar.

Frosti Sigurjónsson, 2.3.2009 kl. 12:06

3 identicon

Held að eina leiðin sé að breyta gjaldþrotalögum þannig að fólk "núllist" við gjaldþrot eins og fyrirtæki, þurfi sem sé ekki að bera skuldir eftir gjaldþrot nema í kannski eitt, tvö ár eða svo.  Leyfa svo þeim sem spiluðu glannalega að fara á hausinn.  Það er ekkert jafnræði eða réttlæti ef farið er að afskrifa skuldir sumra, verðlauna fyrir glannaskap.  Kreppur eiga að grisja fjárhagskerfið, það á ekki að beila út fólk og fyrirtæki og skella skuldinni á skattgreiðendur.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 12:44

4 Smámynd: Haraldur Baldursson

Með vankunnáttu og fúsk sem aðalvopnin reyndi ég að lesa í Hagtölur seðlabankans þar má opna undir bankakerfi Excel skjal um útlán. Þar eru skuldir heimilana sýnd vera ca. 1.000 milljarðar, þar af húsnæðisskuldir ca. 630 milljarðar. Ég óttast þó að það sé ekki öll myndin. Ég sé ekki eignir lífeyrissjóðanna í þeirri mynd. Áður hafði ég beðið um og fengið yfirlit hjá Seðlabankanums sem sýndi heildarskuldirnar um ca. 1.200 milljarða. 20% af því gera 240 milljarða. Það er ögn hærri upphæð en fór í peningamarkaðssjóðina.
Ekki það að ég vilji vera bölsýnismaður (jú stundum)...en hverjum er verið að hjálpa og hverjum ekki ?

Stærstu hjálpina sé ég þó í því að krónan haldi áfram að leiðrétta sig. Bæði fyrir þá sem verðtryggð lán skulda sem og sérstaklega fyrir þá sem skulda gengistryggð lán. Þangað til ætti útflutningurinn að sitja þægilega til borðs miðað við hversu erfiðir markaðir eru um heiminn. Útflutningurinn þarf að fá forgang til að hala okkur hin að landi eins og líflína.

Haraldur Baldursson, 2.3.2009 kl. 12:57

5 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Haraldur, sá sem gaf mér upp þessa 1200 milljarða var rétt í þessu að koma með leiðréttingu. Líklega séu skuldir heimilanna vegna húsnæðislána alls um 1200 milljarðar og 20% af þeirri tölu gera þá 240 milljarða sem stemmir við þitt mat.

Frosti Sigurjónsson, 2.3.2009 kl. 14:08

6 Smámynd: Haraldur Baldursson

Í háloftavindunum hljóma þessar tölur orðið sem smælki :-) Eru það hins vegar ekki. Útspil framsóknarmanna kallar fram minningar (á ensku) "Beware of Greeks bearing gifts". Framsókn af botnlausri hjartagæsku sinni lofaði 90% húsnæðislánum og afhenti meira að segja. Við það upphófst mikið kapphlaup allra útlánastofnana. Hluti af vanda heimilana er tilkominn vegna þessa. Nú koma framsóknarmenn aftur og bjóðast til að þurrka út 20% af skuldum heimilana. Hver er ekki til í að þurrka út t.d. 6 milljónir af 30 milljóna skuld sinni. Nágrannarnir, grandvart fólk með eindæmum, skuldaði ekki nema 7 milljónir, fá líka lækkun. Að vísu falla þeim ekki nema 700 þúsund krónur til. Það finnst framsóknarmönnum allt í lagi af því að þeir eru svo "heppnir" að stór hluti þjóðarinnar er ekki svona grandvar. Skuldugi hluti þjóðarinnar mun því falla fyrir tilboði framsóknar, enda ekki á hverjum degi sem einhver losar mann við byrgðarnar til að deila þeim aftur út á meðal fjöldans. Hver græðir ? Ekki þeir sem slepptu partýinu, ekki grandvari hluti þjóðarinnar.
Þetta er alla vega mín sýn á þetta og telst þó ekki til grandvara hópsins :-)

Haraldur Baldursson, 2.3.2009 kl. 14:48

7 identicon

Ég tel að tillögur Framsókanarmanna eigi að skoða án fordóma og fullyrðinga.  Í þessu sambandi hafa margir talað um að til greina kæmi að binda vísitöluna t.d. við 01. jan 2008.  Í þeirri tillögu mundu líka allir sem skulda húsnæðislán hafa ávinning.  Neyðarlögin kváðu svo um að allir sem ættu innistæður í bönkum fengju þær að fullu greiddar, þar var ekki gerður greinarmunur á eitt þúsund krónum eða eitt hundrað milljónum.  Allir fengu allt.  Þeir sem áttu peninga í peningarmarkaðssjóðum fengu 200 milljarða frá ríkinu til að hægt væri að greiða 60-80 % bréfanna, mismundandi eftir bönkum.  Þegar kemur að þeim sem eiga sparifé sitt í húsnæði er ekkert hægt að gera, nema þá helst að fara í eignaupptöku.  Mín skoðun er sú að hvorki fjármæalaráðherra né forsætisráðherra hafi haft fyrir því að kynna sér tillögurnar, hvað þá að reyna að skilja þær.  Sú bágbylja að halda því stöðugt að fólki að 90% lánin sem fyrst og fremst fóru til ungs fólks til að kaupa sér kjallaraholu eða litla íbúð í blokk, hafi sprengt húsnæðismarkaðinn er bæði ódýr og ósmekkleg.  Ég tek fram að ég skulda engum neitt en geri mér grein fyrir því að það verður að koma til móts við heimilin í landinu og það áður en allt er farið til fjandans.

pétur (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband