11.12.2009 | 17:14
Lýðræði er tækifæri
Þau vandamál sem þjóðin glímir við um þessar mundir eru ekki bara í stærra laginu, þau eru risavaxin. En þeim fylgja líka margvísleg tækifæri. Við þurfum bara að vera með augun opin til sjá þau og hafa kjark til að grípa þau.
Þótt fæstir hafi séð hrunið fyrir, virðast flestir skilja svona eftirá séð hvað fór úrskeiðis, hver mistökin voru og hvernig hefði mátt afstýra því öllu: Bankarnir fengu að vaxa allt of mikið, eftirliti með fjármálafyrirtækjum var ábótavant, regluverkið gallað og svo framvegis og svo framvegis.
Allt er þetta rétt, en þessi miklu mistök eigi sér samt rót sem liggur mun dýpra. Þar til við ráðum bót á þeim undirliggjandi vanda þá megum við búast við áframhaldandi ógöngum af öllum stærðum og gerðum.
Hrunið hefur nú opnað augu mín (og trúlega annara líka) fyrir afar stóru vandamáli - ehem... ég meina auðvitað mjög stóru tækifæri - sem einskorðast alls ekki við Ísland - því það er útbreitt um heiminn.
En hvað er ég að tala um? Er heimurinn eitthvað í ólagi? Já hann er í ólagi.
Heimur rangra ákvarðana
Hvers vegna tekur mannkynið svona rangar ákvarðanir? Hvers vegna erum við að kaffæra hnöttinn okkar í mengun? Hvers vegna fara þjóðir í stríð? Hvernig getur nokkur ríkisstjórn fallist á að verða skattlenda annarra ríkja? Hvernig dettur nokkurri fullvalda þjóð í hug að selja annari þjóð réttinn til að setja sér lög?
Þetta er allt mjög öfugsnúið því sé hinn almenni borgari er spurður, þá vill hann alls ekki kaffæra heiminn í mengun, hann vill alls ekki fara í stríð, og hann vill alls ekki borga skatta til erlendra ríkja. Hinn almenni borgari vill ekki færa völd yfir sínu lífi til annara ríkja, þvert á móti, hann vill meira lýðræði og geta haft meiri áhrif á eigin hagsmuni. Hvers vegna er svona mikill munur á vilja borgaranna og gerðum ríkjanna?
Skýringin er sú að borgarar hafa engin áhrif. Skortur á lýðræði er hið stóra vandamál, ekki bara í einræðisríkjum, heldur í nær öllum ríkjum sem kenna sig við lýðræði - ekki síst á Íslandi.
Staðnað lýðræði og úrelt stjórnarskrá
Í stað þess að þróast áfram með aukinni menntun, læsi og upplýsingatækni hefur lýðræðið nánast staðið í stað.
Enn þann dag í dag eru kjósendur meðhöndlaðir eins og þeir séu hvorki læsir né skrifandi. Hlutverk kjósenda í lýðræði nútímans takmarkast við það eitt að pára táknið X við einhvern framboðslista á fjögurra ára fresti.
Með því að krota þetta X, gefa kjósendur stjórnvöldum hins vegar ótakmarkað umboð til að setja lög og gera samninga fyrir sína hönd - stjórnvöld geta jafnvel sagt öðrum þjóðum stríð á hendur án þess að spyrja kjósendur.
Umboðið geta kjósendur ekki afturkallað hversu illa sem stjórnvöld fara með það. Að kosningum loknum geta hinir kjörnu leiðtogar í raun gert allt þveröfugt við það sem þeir lofuðu að gera - umboðið heldur.
Spillingaröflin eiga því miður greiða leið að kjörnum leiðtogunum og þau ganga skipulega til verks. Það verður alltaf hagkvæmara fyrir spillingaröflin að hafa áhrif á fáeina valdhafa en allan almenning.
Hér á landi var það Sambandið sem hafði öll völd, síðan var það Kolkrabbinn svo kvótakóngarnir og loks útrásarvíkingarnir. Það var almenningur sem tapaði á valdabrölti þessara aðila.
Núna eru það kröfuhafarnir með Hollendinga, Breta og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í fararbroddi sem vilja mjólka íslenskan almenning og notar til þess vinstri stjórn - sem er óneitanlega snilldarbragð. Ísland hefur breyst í vaxtanýlendu og ríkisstjórnin er þarfasti þjónn kröfuhafanna.
Hvernig gat þetta gerst? Jú við búum við úrelta stjórnarskrá sem færir ríkisstjórninni óheft vald til að gera hvað sem hún vill í fjögur ár án þess að spyrja kjósendur álits. Þar með er voðinn vís.
Þróum lýðræðið áfram
Það er bráðnauðsynlegt að Ísland fái nýja og betri stjórnarskrá sem kemur á opnu og skilvirku lýðræði þar sem almenningur hefur fullan aðgang að öllum upplýsingum og tekur virkan þátt í mótun valkosta og ákvarðanatöku.
Íslenska þjóðin hefur ýmislegt til að bera sem auðveldar okkur að taka frumkvæði í því að þróa lýðræðið áfram. Smæðin kom ekki í veg fyrir Íslendingar kæmu á fót einu fyrsta löggjafarþingi í heimi. Í raun auðveldar smæðin okkur að gera breytingar. Þjóðin er öll læs, menntastig hátt og almenn færni í notkun upplýsingatækni með því besta sem gerist í heiminum. Lýðræði gæti þróast hraðar hér en í flestum öðrum ríkjum.
Íslensk stjórnvöld eru hins vegar alveg jafn ólíkleg og stjórnvöld í öðrum löndum til að hafa frumkvæði að því að færa aukið vald til kjósenda.
Ef hin nýja stjórnarskrá á að leiða til verulegra lýðræðisumbóta þarf þjóðin sjálf að semja hana - en ekki valdhafarnir.
Við þurfum að hefjast handa strax og aðferðin gæti verið einhvern vegin svona: Við stofnum samtök sem hafa það eina hlutverk að semja nýja og lýðræðislegri stjórnarskrá fyrir Ísland. Þetta yrði unnið yrir opnum tjöldum með þátttöku innlendra og erlendra sérfræðinga og þeirra áhugamanna sem vilja leggja hönd á plóg. Notum Internetið. Notum þjóðfundi.
Það tæki varla nema tæpt ár að semja drög að nýrri stjórnarskrá sem taka myndu gömlu stjórnarskránni fram í öllum meginatriðum.
Hin nýju stjórnarskrárdrög yrðu kynnt rækilega fyrir þjóðinni og samhliða því safnað undirskriftum þeirra sem vilja bera hana undir þjóðaratkvæði.
Það gæti gerst að Alþingi og forsetinn myndu styðja framtakið á endanum en það væri ekki nauðsynlegt.
Um leið og 20 þúsund Íslendingar hafa óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu verður hún auglýst og framkvæmd.
Heyrst hefur að Decode og Íslendingabók búi yfir tækni sem gerir þjóðaratkvæðagreiðslur fljótlegar, öruggar og ódýrar í framkvæmd.
Ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verður jákvæð þá tekur ný stjórnarskrá gildi á tilgreindum degi.
Allar líkur eru á því að ný stjórnarskrá myndi leiða til verulegra lýðræðisumbóta og þar með væri búið að draga mjög úr hættu á spillingu valdsins og ógæfulegum ákvörðunum í framtíðinni. Almenningur væri bæði upplýstur og með úrslitavaldið í málefnum landsins. Undirrót vandans væri þar með úr sögunni.
Með þessu væri Ísland líka að taka ákveðið frumkvæði og ef aðrar þjóðir myndu fylgja fordæmi okkar myndi það leiða til jákvæðrar þróunar lýðræðis í heiminum.
Það væri gott!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.11.2009 | 23:19
Frumvarp um (lítinn) stuðning við nýsköpunarfyrirtæki
Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp til laga sem ætlað er að efla nýsköpun í landinu. Samkvæmt því munu nýsköpunarfyrirtæki fá skattfrádrátt vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni og þeir sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum geta fengið skattafslátt. Því miður gengur frumvarpið svo skammt að ólíklegt má telja að það hafi teljandi áhrif á nýsköpun í landinu þótt það verði að lögum.
Það ber þó að taka viljann fyrir verkið og enn er von til þess að bætt verði úr ágöllum enda þarf ekki að breyta miklu til að lögin skili tilætluðum árangri, störfum fjölgi og tekjur ríkissjóðs aukist.
Upphafsgrein lagana mætti vera skýrari en hún lýsir markmiðinu sem er "að bæta samkeppnisstöðu nýsköpunarfyrirtækja og efla rannsóknar- og þróunarstarf". Skýrara væri ef þarna kæmi líka fram eitthvað mælanlegt markmið eins og t.d. "að skapa 1000 ný störf í nýsköpun á árinu 2010".
Óljós skilyrði
Því miður eru skilyrðin óljós og flókin og fyrirtæki geta ekki verið viss um það fyrirfram hvort þau uppfylla skilyrðin eða ekki. Rannís er því falið að meta hvort fyrirtæki uppfylli skilyrði lagana. Rannís gæti þurft marga mánuði til verksins. Á meðan bíða fyrirtæki í óvissu.
Það væri mun betra ef skilyrðin væru svo skýr að flest fyrirtæki gætu beðið endurskoðanda sinn að skera úr um málið. Rannís gæti þá einbeitt kröftum sínum að því að skera úr um þau jaðartilfelli sem upp koma.
Útilokar flest sprotafyrirtæki
Skilyrði fyrir skattfrádrætti vegna þróunarkostnaðar eru m.a. þau að fyrirtækið leggja út 20 mkr til rannsókna- og þróunar á komandi 12 mánuðum. Þetta útilokar fyrirtæki sem hafa færri en 3-4 við rannsóknarstörf.
Fyrirtæki þurfa að vera enn stærri til þess að kaupendur að hlutabréfum þeirra njóti skattfrádráttar. Þau skulu hafa varið 40 milljónum á ári til rannsóknar- og þróunar undanfarin tvö ár. Þetta útilokar augljóslega fyrirtæki sem eru yngri en tveggja ára og væntanlega líka þau sem hafa haft færri en 8 starfsmenn í þróunarstörfum undanfarin tvö ár.
Það verður að teljast afar óheppilegt ef lögin nýtast ekki smærri fyrirtækjum með stutta sögu t.d. þeim fjölmörgu sprotafyrirtækjum sem hafa sprottið upp í kjölfar hrunsins.
Skiptir litlu máli fyrir stærri fyrirtæki
Þau fyrirtæki sem uppfylla skilyrði um frádrátt vegna þróunarkostnaðar geta dregið 15% af útlögðum kostnaði frá skatti. Þó er sett hámark við 50 mkr. sem þýðir að hámarks frádráttur fyrir hvert fyrirtæki er ekki nema 7.5 milljónir sem er rúmlega kostnaður við einn auka starfsmann á ári.
Stærri fyrirtæki munu því ekki ráða marga nýja starfsmenn á grundvelli þessara laga, sem er mjög miður.
Hámörk skattafsláttar vegna fjárfestingar eru allt of lág
Einstaklingar geta árlega dregið frá skattskyldum tekjum sínum 300 þúsund kr. af kaupverði nýrra hlutabréfa í nýsköpunarfélögum. Þessi upphæð er því miður allt of lág. Nýsköpunarfyrirtæki þyrfti samkvæmt þessu að afla 20 nýrra hluthafa til að fjármagna eitt stöðugildi við rannsóknir. Það væri miklu vænlegra ef fjárhæðin væri 1-3 milljónir á mann.
Lögin gefa heldur ekkert svigrúm fyrir rekstur sjóðs til að fjárfesta í Nýsköpunarfyrirtækjum en slíkur sjóður gæti boðið einstaklingum áhættudreifingu, lagt faglegt mat á fyrirtækin og þau myndu fá einn stóran hluthafa í stað fjölmargra smárra. Þetta er galli.
Hvers vegna þrenn áramót?
Það má færa góð rök fyrir því skilyrði að fólk eigi hlutabréfin yfir tvenn áramót en krafa um eignarhald yfir þrenn áramót (rúmlega tvö ár) gerir lítið annað en að fæla einstaklinga frá því að taka þá áhættu sem felst í því að kaupa hluti í nýsköpunarfélögum. Sjá Mál 82
Hvers vegna svona flókið?
Þessi lög eru sögð byggja á Norskri fyrirmynd. Ekki vil ég amast við því að við leitum í reynslubanka nágrannaþjóða, en kannski er þetta kerfi ekki einfaldasta leiðin til að ná markmiðinum.
Ef menn vilja hvetja Nýsköpunarfyrirtæki til að vera djarfari í sókn og atvinnusköpun þá mætti líka læra af reynslu frænda okkar í Kanada. Þar fá nýsköpunarfyrirtæki einfaldlega endurgreidd 30% af útborguðum launum við rannsóknir þróunarstörf. Nánast sama fjáræð og starfsmaðurinn greiðir í tekjuskatta. Ekkert hámark eða lágmark á fjölda starfsmanna. Kerfið er einfalt og öll nýsköpunarfyrirtæki sitja við sama borð.
Viðskipti og fjármál | Breytt 25.11.2009 kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.10.2009 | 00:52
Ríkisstjórnin er gagnslaus og á að víkja núna
Ríkisstjórn Íslands hefur klúðrað þessu Icesave máli fullkomlega og á að víkja. Ef hún þráast við að horfast í augu við þann kost er það skylda hvers þingmanns að fella tillögurnar.
Það þarf nýja ríkisstjórn til að leysa úr deilunni við Breta og Hollendinga. Það ætti að vera hægt enda eru engin lög sem segja að Íslendingar eigi einir að bæta tjón af falli einkabanka sem starfar samkvæmt Evrópskum lögum. Ríkisstjórn Jóhönnu lét aldrei reyna á rétt okkar af ótta við að spilla fyrir umsókn Íslands í ESB.
Ríkisstjórnin hefur gert sig seka um mörg alvarleg mistök og hér eru örfá dæmi sem tengjast Icesave:
- Fórnaði samningstöðu Íslands í Icesave fyrir ESB aðild
- Sendi trúnaðarvini í samninganefndina í stað sérfræðinga
- Samþykkti ótrúlega lélegan samning
- Lét af hendi réttinn til að sækja Breta til saka fyrir það tjón sem þeir bökuðu Íslandi
- Skrifaði undir samninginn í skjóli nætur og án þess að bera hann undir þingið
- Sagði þinginu ítrekað ósatt um framvindu samninga og ætlaði að leyna samningnum og skjölum fyrir þinginu
- Barðist gegn því að eðilegir fyrirvarar yrðu settir við ríkisábyrgð
- Spann hræðsluáróður um afleiðingar þess að hafna Icesave
- Láðist að kynna umheiminum okkar hlið á Icesave málinu
- Lét AGS komast upp með að tefja afgreiðslu sig út af ótengdu máli
- Bað Norðmenn aldrei um lánalínu ótengda AGS en það hefði losað þumalskrúfur AGS
- Mistókst að sannfæra Breta og Hollendinga um að fyrirvararnir væru endanlegir
- Er nú búin að semja við Breta og Hollendinga um að fella niður verðmætustu fyrirvarana
Þessi gagnslausa ríkisstjórn þarf að víkja áður en hún gerir enn fleiri axarsköft og bakar þjóðinni enn meira tjón en orðið er.
Icesave-fyrirvörum breytt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
10.9.2009 | 17:16
Er lýðræði á Íslandi?
Ef það kallast lýðræði að setja á svið gjörning þar sem kjósendur setja stafinn X við framboðslista á fjögurra ára fresti en hafa samt ekki minnstu áhrif á afdrif mála, þá er lýðræði á Íslandi. En það er langt frá því að vera fullkomið.
Sigurvegarar kosninga fá umboð til að stýra landinu. Þeir virðast geta notað umboðið til að þverbrjóta gefin kosningaloforð og í raun farið beint gegn vilja kjósenda. Stjórnvöld fá frítt spil í allt að fjögur ár nema gerð sé bylting í millitíðinni.
Kjósendur hafa fá úrræði önnur en byltingu sem er mikið vesen. Þeir láta því frekar óstjórnina yfir sig ganga.
Þetta form lýðræðis hefur eflaust þótt mikið framfaraskref á sínum tíma. En það er óralangt síðan og við búum nú að allt öðrum möguleikum tæknilega. Hvers vegna hefur þá lýðræðið staðið í stað allan þennan tíma?
Þeir sem bíða eftir því að stjórnmálamenn hafi frumkvæði að því að gera lýðræðið eitthvað virkara geta búið sig undir að bíða mjög lengi. Stjórnmálamenn vilja meiri áhrif, ekki minni. Enda hafa ekki verið gerðar neinar umbætur til að gera fyrirkomulagið lýðræðislegra, ef eitthvað er, þá hefur valdið færst fjær kjósendum.
Þetta gamaldags lýðræði hefur ekki reynst þjóðinni sérlega vel. Stjórnvöld hafa alla tíð legið undir ámæli fyrir hagsmunapot, samkrull við valdaklíkur og sérhagsmunaöfl sem vilja skammta sér sérstöðu og auðæfi sem auðvitað koma frá þjóðinni sjálfri. Nægir að nefna sambandið, kolkrabbann og síðast en ekki síst bankana.
Núna eru stjórnvöld að stokka spilin og gefa upp á nýtt. Milljarðaskuldir fyrirtækja eru skrifaðar niður, reglurnar eru óljósar og upplýsingar um hverjir fá hvað afskrifað eru algert trúnaðarmál. Hér er mikil hætta á ferðum. Þjóðin þarf að vita hvað er að gerast.
En ríkisstjórnin hefur öll völd og hún notar þau óspart. ESB og Icesave voru bókstaflega keyrð í geng þvert á vilja þings og þjóðar. Stjórnin þverneitaði að leyfa þjóðinni að ákveða hvort sótt yrði um inngöngu í annað ríkjabandalag. Endanleg þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB verður svo aðeins ráðgefandi fyrir þingið. Fleira mætti nefna í sama dúr, niðurstaðan er að þjóðin hefur engin völd.
Sættir þjóðin sig við svona lýðræði?
Vonandi ekki, enda engin ástæða til. Við erum nefnilega í ágætri aðstöðu til að þróa lýðræðið á næsta stig. Þjóðin er lítil, vel menntuð og tæknivæðing með því besta sem gerist. Við getum vel breytt þessu til betri vegar ef við bara nennum því.
Nú þegar eru nokkrir hópar af dugnaðarforkum byrjaðir að vinna að endurbættu lýðræði. Ég vona að þeim vinnist verkefnið hratt og vel. Hvet alla til að leggja þeim lið.
Lýðræði er ekki raunverulegt nema kjósendur sjálfir ráði því hvort þeir taka afstöðu til einstakra mála eða hvort þeir láta kjörinn fulltrúa sinn taka ákvörðun fyrir sína hönd.
Meira:
http://www.lydveldisbyltingin.is
http://www.skuggathing.is/
http://www.lydraedi.is
8.9.2009 | 01:36
Þurfum við virkilega meiri steinsteypu núna?
Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu er nú í fullum gangi. Lokanir á skurðstofum og uppsagnir eru daglegt brauð. Fall krónunnar bætir gráu ofan a svart, því laun starfsfólks í heilbrigðisstéttum á Íslandi eru nú orðin ósamkeppnisfær við það sem býðst á norðurlöndunum. Hættan á landflótta í heilbrigðisstétt magnast. Hvað er til ráða?
Einhvern veginn datt mér ekki í hug að lausnin væri sú að byggja fleiri sjúkrahús. Þess vegna brá mér í brún þegar ég sá þessa frétt á RÚV:
Bygging nýs sjúkrahúss er gríðarlega stórt verkefni og var minnst sérstaklega á það í stöðugleikasáttmálanum sem gerður var í sumar. Viðræður ríkisvaldsins og lífeyrissjóðanna um fjármögnun þessa verkefnis hafa tafist að undanförnu ekki síst vegna Icesave-samningsins. Þær eru nú að komast á skrið aftur og er fundur um verkefnið í viðræðunefnd í dag.[Heimild RÚV]
Það er mikilvægt að halda í störf í byggingariðnaði en það er virðist þó vera enn mikilvægara að halda í störf í heilbrigðiskerfinu. Sé það ekki gert kemur óhjákvæmilega að því að biðraðir munu lengjast eftir þjónustu, einnig eftir lífsnauðsynlegri þjónustu eins og skurðaðgerðum, krabbameinslækningum og bráðamóttöku. Biðraðir voru samt nógu langar áður en niðurskurðurinn hófst:
Sjúklingar hér heima þurfa yfirleitt að bíða sárþjáðir í 327 daga eftir mjaðmaaðgerð, svo að dæmi sé tekið: þetta mun vera Evrópumet. Gamalt fólk þarf jafnan að bíða í 18 mánuði eftir plássi á dvalarheimilum og þannig áfram. [Vísbending 2004, Þorvaldur Gylfason]
Eftir því sem heilbrigðisþjónusta okkar verður lakari og ósamkeppnishæfari við það sem býðst í nágrannalöndum þá magnast hættan á landflótta. Eins og venjulega, þá fara þeir fyrstir sem hafa mesta menntun og mesta möguleika til að skapa verðmæti í kringum sig og eftir sitja hinir til að takast á við vandann.
Er óhætt að skera frekar niður í heilbrigðiskerfinu þegar lækkun krónunnar er nú þegar búin að lækka laun í heilbrigðisstétt um helming?
Þessi sjúkrahúsbygging verður að bíða betri tíðar. Fjármagnið ætti frekar að nota til að halda heilbrigðiskerfinu í fullum gangi og draga úr landflótta hjá heilbrigðisstéttum. Það er arðbær fjárfesting.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
1.9.2009 | 17:04
Greinin sem Morgunblaðið birti ekki
Meðfylgjandi er grein sem ég sendi Morgunblaðinu nokkrum dögum áður en alþingi greiddi atkvæði um umsókn inn í Evrópusambandið. Greinin var af einhverjum ástæðum aldrei birt sem var auðvitað mjög leitt. Hér kemur greinin í heild sinni.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 2.9.2009 kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
28.8.2009 | 13:16
Inngrip: Seðlabankinn spreðar varasjóðnum
Gengi krónunnar styrkist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
27.8.2009 | 13:55
Ávarpið á Austurvelli
Hávaðinn á Austurvelli var ótrúlegur! Hér er ávarpið sem flutt var á undan niðurtalningunni. Bestu þakkir til allra sem komu og höfðu hátt!
"Bara örfá orð áður en niðurtalningin hefst. Í dag hófust á Alþingi umræður um Icesave frumvarpið en það er vilji ríkisstjórnarinnar að gera þann ósóma að lögum síðar í dag. Því verður að mótmæla.
Frá því þessi afleiti Icesave samningur var kynntur þjóðinni í byrjun sumars hafa stöðugt komið fram nýjar upplýsingar og sérfræðiálit, og allt hallar það í eina átt:
Samningurinn er afleitur fyrir Ísland, skaðlegur íslenskum hagsmunum og síðast en ekki síst óréttlátur fyrir íslenskan almenning.
Enda blasa staðreyndir málsins við: Það finnast engin lög sem segja að þjóðin eigi að axla skuldir einkabanka.
Dómstólar hafa líka sagt sitt álit: Sjálfur Evrópudómstólinn felldi dóm árið 2002 í máli númer 222 og sagði þar að það væri beinlínis bannað að ríkistryggja innistæðutryggingasjóð.
Þingmenn mega ekki láta hræðsluáróður eða hótanir slæva dómgreind sína.
Alþjóðasamfélagið mun ekki útskúfa nokkurt ríki þótt það deili við Bretland eða Holland um peninga. Þó það nú væri.
Stuðningur alþjóðasamfélagsins við málstað Íslands fer stöðugt vaxandi eins og ritstjórnargreinar erlendra stórblaða bera vitni um.
Stjórnvöld hafa samt allt of lítið gert til þess að halda fram málstað Íslands erlendis. Orkan hefur farið í að karpa um fyrirvara og pína þingmenn til samstöðu um ónýtan samning.
En það er ekki of seint að hafna þessum samningi og gera betri samning.
Þingmenn verða að taka slaginn fyrir Ísland og fella þetta frumvarp!
Nýleg Gallup könnun staðfestir að stór meirihluti þjóðarinnar er á móti þessum samningi. Þjóðin stendur með Íslandi á móti Icesave samningnum.
Verkefnið á Íslandi á næstu árum er að byggja upp en það verður miklu, miklu erfiðara ef alþingi samþykkir að leggja 700 til 1000 milljarða skuld á þjóðina ofan á allt annað. Skuld sem við erum ekki í ábyrgð fyrir og samþykktum aldrei.
Að lokum. Markmiðið með þessum mótmælum hér í dag - sem verða mjög hávær - er að andmæla því óréttlæti að þjóðin sé látin borga skuldir fjárglæframanna og einkabanka þeirra.
Þjóðin er búin að taka nóg á sig í þessu hruni.
Svo virðist sem of margir þingmenn hafi flotið sofandi að feigðarósi í þessu mikilvæga máli.
Við þurfum að vekja þá! Vekja þá og hvetja til dáða fyrir land sitt og þjóð.
Nú skulum við telja niður saman og vekja þingmenn með ... Hávaða á Austurvelli !!!
Tíu! Níu! Átta! ..."
Hávaði gegn Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
26.8.2009 | 00:26
Þú getur unnið þér inn 1-2 milljónir með hávaða!
Þetta verður í allra mesta lagi hálftíma púl en tímakaupið gæti orðið miklu hærra en hjá nokkrum útrásarvíkingi - ef þú stendur þig vel.
Það eina sem þú þarft að gera er að mæta á Austurvöll (eða í miðbæinn í þínum bæ) á fimmtudaginn kl. 12:00 og taka þar þátt í því að gera eins mikinn hávaða og þú mögulega getur. Bara í c.a. 20 mínútur. Þetta verður stuð! Taktu vinina með og næstu lúðrasveit. Vegleg verðlaun fyrir mesta hávaðann.
Ef þú kemst ekki á Austurvöll getur þú samt tekið þátt með því að gera sem mestan hávaða hvar sem þú ert. Gott er að þeyta bílflautu ef hún er við höndina, hækka græjurnar í botn og opna út á götu, berja potta úti á svölum, blása í lúður eða stappa og öskra. Fáðu alla í lið með þér, því fleiri því meira gaman og þetta verður holl og góð útrás fyrir sálartetrið.
Markmiðið með þessum gríðarlega hávaða er að andmæla því að þjóðin verði látin borga skuldir fjárglæframanna og einkabanka þeirra. Nóg erum við búin að þola samt. Enda er stríðir það líka gegn öllum lögum og siðgæði að láta okkur borga. Á það hafa margir bent bæði innlendir og erlendir sérfræðingar. Þjóðin á ekki að láta slíkt óréttlæti yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust!
Ef nógu margir mótmæla nógu hátt þá munu þingmenn okkar sem og Bretar og Hollendingar skilja að þjóðin vill alls ekki samþykkja ICESAVE samninginn. Þá gæti farið svo að þú og allir aðrir Íslendingar skuldi 1-2 milljónum minna en þeir hefðu annars gert.
Bretar og Hollendingar geta ef þeir vilja hirt þessa fjárglæframenn og bankann þeirra en þeir fá aldrei að velta þessum óreiðuskuldum á íslenskan almenning.
En hvað með fyrirvarana - duga þeir ekki? Nei - Þeir snúast því miður aðeins um lægri greiðslur (frestun) ef illa gengur í efnahagslífinu. Vextir halda samt sem áður áfram að tikka á eftirstöðvunum. Það er enginn fyrirvari sem segir að skuldin falli niður - aðeins óljóst orðalag um að aðilar skuli "ræða málið" árið 2024 ef skuldin er þá ekki uppgreidd.
Allir með í HÁVAÐANUM MIKLA!
25.8.2009 | 00:19
11 ástæður fyrir þingmenn til að hafna ICESAVE
Hér eru tíundaðar nokkrar af fjölmörgum ástæðum fyrir alla þingmenn til að hafna frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð á Icesave samninginn.
1. Það er ekki lagaskylda að veita ríkisábyrgð
Tryggingasjóður er sjálfseignarstofnun og það stendur hvergi í lögum að hún skuli hafa ríkistryggingu. Íslensku lögin um tryggingasjóð innistæðna voru innleidd á Íslandi skv. tilskipun Evrópusambandsins og þeim framfylgt eins og átti að gera. Æðsti dómstóll sambandsins, Evrópudómstóllinn úrskurðaði í dómi 222 árið 2002 að ekki megi ríkistryggja innistæðutryggingasjóð.
2. Það er ekki siðferðileg skylda þjóðarinnar að axla skuldir einkabanka
Íslenskur almenningur var síst af öllum einhver gerandi í útrás og hruni Landsbankans. Eftirlitsstofnanir á Íslandi stóðu sig ekki en það á líka við um eftirlitsstofnanir í Bretlandi og Hollandi.
Skattar af innistæðum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi runnu til þessara landa. Innistæðurnar voru fjárfestar að mestu í Breskum og Hollenskum fyrirtækjum.
Innistæðueigendur voru ekki grunlausir, þeir máttu vita að háum vöxtum fylgir alltaf meiri áhætta.
Bresk stjórnvöld sköpuðu Landsbankanum (og Íslensku þjóðinni) gríðarlegt tjón með setningu hryðjuverkalaga.
3. Hótanir eru ótrúverðugar enda höfum við ekki brotið nein lög
Bretar og Hollendingar eiga ekki að komast upp með að kúga okkur með hótunum einum saman. Það er allt of ódýr sigur. Látum þá standa við hótanirnar og sjáum hvort alþjóðasamfélagið styður í raun ólögmæta kúgun á smáþjóð.
Kynnum málstað okkar, fjölmiðlar heimsins munu hafa mikinn áhuga á honum.
4. Samningurinn tekur ekki gildi nema Alþingi samþykki ríkisábyrgð
Mikið er gert úr því að fjármálaráðherrann sé þegar búinn að undirrita samninginn. Íslensk stjórnvöld verði því ómerk orða sinna ef Alþingi samþykkir ekki ríkisábyrgðina. Þetta er auðvitað rangt. Viðsemjendur okkar gera sér einmitt fulla grein fyrir því að samningurinn tekur ekki gildi án samþykkis Alþingis.
Fjármálaráðherra getur ef hann telur þörf á beðið viðsemjendur og þjóðina afsökunar á frumhlaupi sínu og sagt af sér. Það er ekki of seint.
5. Við getum ekki fengið verri samning þótt við semjum upp á nýtt
Fjölmargir lögfræðingar og ráðgjafar, bæði innlendir og erlendir, hafa fært vönduð rök fyrir því að Icesave lánasamningurinn sé meingallaður og óþarflega ósanngjarn í garð Íslands. Það sé mjög nauðsynlegt að semja upp á nýtt og lítil hætta á að útkoman yrði verri en sú sem nú liggur fyrir.
6. Fyrirvararnir eru haldlausir við borgum samt
Sú leið hefur verið reynd að setja fyrirvara við ríkisábyrgðina. Það hefur verið stórundarlegt að sjá ríkisstjórnarflokkana berjast af heift gegn því að settir séu fyrirvarar sem eitthvað bit er í. Maður hefði haldið að það væri hlutverk Breta og Hollendinga.
Fyrirvarar við ábyrgðina breyta því miður ekki samningnum sjálfum sem er jafn meingallaður eftir sem áður. Samningurinn bannar einmitt alla fyrirvara við ábyrgðina og nú er talinn vafi á að þeir haldi fyrir breskum dómstólum.
Jafnvel þótt fyrirvararnir haldi þá má ekki gleyma því að við munum borga megnið af fjárhæðinni þrátt fyrir að okkur beri engin skylda til þess samanber lið 1.
Fyrirvörunum hefur verið lýst sem "tærri snilld" en fyrirvarinn um að ekki skuli greitt nema hagvöxtur sé góður tekur alls ekki á þeim möguleika að hér getur orðið góður hagvöxtur án þess að hér sé nokkur afgangur af viðskiptum við útlönd. Þá munum við ekki eiga gjaldeyri til að greiða af samningnum. Krónan mun falla.
Ekki er heldur skýrt hvað verður um eftirstöðvar lánsins árið 2024. Svo er eitthvað haldlaust orðagjálfur um að aðilar skuli ræða saman ef kemur í ljós að ekki var skylt að ríkistryggja tryggingasjóð innistæðna.
Þingmenn eru að blekkja sjálfa sig ef þeir halda að Bretar og Hollendingar muni láta hundruð milljarða af hendi til Íslands í teboði. Fyrirvarar verða að vera skýrir annars eru þeir marklausir.
7. Við getum ekki borgað
Fyrst hélt ríkisstjórnin því fram að skuldbindingin yrði í versta falli 30-100 milljarðar. Síðan hefur komið í ljós að líklega gæti talan orðið allt að 1000 milljarðar með vöxtum. Ríkisstjórnin situr samt föst við sinn keip, þjóðin skal borga skuldir Landsbankans.
Skuldabyrði þjóðarinnar er mjög mikil nú þegar, en verði Icesave bætt við þá eru þetta orðnar drápsklyfjar sem þjóðin mun ekki rísa undir. Landið verður þá skuldaþræll. Allur arður af auðlindunum mun renna til erlendra lánadrottna, Breta og Hollendinga um ókomin ár. Þær þjóðir eru reyndar ekki óvanar því að halda nýlendur.
8. Krónan mun veikjast, lánakjör versna og fjárfestar forðast landið
Eftir því sem líkur hafa aukist á því að Icesave skuldin verði samþykkt því meira hefur krónan veikst. Ástæðan er sú að ríkið mun þurfa að selja 1000 milljarða af krónum til að kaupa erlendan gjaldeyri. Þetta er ótrúleg fjárhæð og þetta mun draga úr styrk krónunnar í mörg ár eða áratugi. Afleiðingin er sú að erlend lán íslenskra fyrirtækja og einstaklinga munu haldast mun hærri en ella til langframa. Tjónið af því mun verða talið í amk hundruðum milljarða.
Lánakjör ríkisins munu að sjálfsögðu versna þegar Icesave skuldin bætist við. Lánshæfi ríkisfyrirtækja eins og Landsvirkjunar mun versna líka enda geta þau ekki verið metin traustari en ríkissjóður.
Efnahagsbati og styrking krónunnar mun því verða hægari og landið verða minna áhugavert fyrir fjárfesta ef Icesave er samþykkt. Þeir munu leita annað.
9. Hærri skattar munu fæla burt gott fólk og fyrirtæki
Verði Icesave samþykkt mun ríkið þurfa að draga meira úr útgjöldum og þjónustu en leggja meiri skatta á fyrirtæki og einstaklinga en annars. Þau fyrirtæki sem geta munu færa sig úr landi, fjölþjóðleg fyrirtæki með starfsemi á Íslandi munu stýra hagnaði sínum til landa þar sem skattar eru lægri.
Eignafólk og hálaunafólk mun verða að greiða verulega hærri skatta en ella hefði verið. Ríkt fólk og fólk í hálaunastörfum á auðveldast með að flytjast til annarra landa. Þótt aðeins 5% þjóðarinnar færu úr landi þá er hætt við að 15- 20% af skatttekjum Ríkisins myndu hverfa með þeim.
Hugsanlega er Íslandi mun meiri hætta búin af fólksflótta vegna Icesave en af þeim aðgerðum sem Bretar og Hollendingar haft í hótunum með.
10. Þeir þingmenn sem samþykkja Icesave, með eða án fyrirvara, verða ábyrgir
Ríkisstjórnin lætur að því liggja að þetta sé allt saman fyrri ríkisstjórn að kenna og nú sé of seint að gera eitt eða neitt í málinu. Það er ekki of seint. Samningurinn tekur ekki gildi nema alþingi samþykki ríkisábyrgðina, þetta vita Bretar og Hollendingar.
Það er varla hyggilegt fyrir nokkurn þingmann að leggja slíkar drápsklyfjar á þjóð sína án þess að sýnt hafi verið mjög rækilega fram á með óyggjandi hætti að hin leiðin sé mun verri. Kannski er skynsamlegt og rétt að spyrja þjóðina álits fyrst.
11. Það ber að kanna hug þjóðarinnar í svona stóru máli
Það hafa komið fram afar sterkar vísbendingar um að meirihluti þjóðarinnar vilji hafna þessum Icesave samningi og þingmenn ættu að sjálfsögðu að taka tillit til þess í svona stóru máli.
Skoðanakönnun Gallup frá því í ágúst sýndi að 68% þjóðarinnar er á móti því að samþykkja ICESAVE samninginn.
Þótt það teljist ekki vísindaleg könnun, þá má geta þess að á Facebook hafa 16.416 notendur skrifað undir áskorun til forsetans um að staðfesta ekki frumvarpið. Þar er líka hópur sem ber yfirskriftina: "Við neitum að greiða skuldir sem við berum ekki ábyrgð á (Icesave málið)" en í hann hafa skráð sig 37.018 einstaklingar, líklega meirihluti þeirra Íslendinga sem nota Facebook.
Þingmenn og einkum þeir sem eru í ríkisstjórn, verða að rifja það upp fyrir hverja þeir eru að vinna. Þeir hafa ekkert umboð frá þjóðinni til að láta hana axla skuldir einkabanka. Þjóðin mun seint fyrirgefa þingmönnum sem bregðast henni í svona stóru máli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)