Viltu spara milljarð?

Ísland er meðal tölvuvæddustu þjóða heims og íslensk fyrirtæki og hið opinbera kaupa mikið af hugbúnaði. Stærsti hluti er fluttur inn og greitt fyrir hann í gjaldeyri. Það er hægt að draga verulega úr þeim innflutningi með því að nota opinn hugbúnað sem er fáanlegur án endurgjalds. Sparnaður gæti numið milljarði á ári.

Í erindi sem ég flutti í dag á ráðstefnu Samtaka Vefiðnaðarins er sagt frá íslensku hugbúnaðarfyrirtæki sem tókst að spara 20 milljónir á 4 ára tímabili með því að velja alltaf opinn og ókeypis hugbúnað þegar þess var kostur.

Stóra spurningin er hinsvegar hvað gæti allt Ísland sparað mikið með því að nota sömu stefnu?

Lauslegir útreikningar benda til að sparnaður gætu verið nálægt 1.000 milljónum á ári. Það eru umtalsverðir peningar fyrir skulduga þjóð.

Upphæðin er áætluð með því að margfalda fjölda vinnustöðva með kaupverði og uppfærslukostnaði hugbúnaðar á hverja vinnustöð. Fjöldin er áætlaður 40.000 vinnustöðvar, þar af 10.000 hjá hinu opinbera. Hugbúnaðarkostnaður er áætlaður 25.000 kr. á vinnustöð (Sjá skýrslu ParX fyrir Forsætisráðuneytið um opinn hugbúnað) Samtals gerir þetta um 1 milljarð á ári. Svo má líka spara hundruð milljóna til viðbótar með því að nota ókeypis hugbúnað í gagnagrunnshugbúnaði, stýrikerfum, vefmiðlurum ofl. ofl.

Þetta er hinsvegar ekki auðvelt. Það þarf að taka ákvörðun, móta stefnu, hefja átak og leggja í mikla vinnu. Fólk þarf að leggja það á sig að læra á öðruvísi hugbúnað. Kreppa er einmitt góður tími til að hefja slíkt átak. Það skapar störf og sparar dýrmætan gjaldeyri.

Það er samt rétt að vara við því að ganga of langt. Stundum er einfaldlega ódýrara að kaupa hugbúnað þótt hann sé dýr.

Ég vil skora á stjórnvöld og samtök atvinnulífsins að skoða þetta tækifæri.

----

Framboð á góðum ókeypis hugbúnaði hefur aukist mjög á undanförnum árum og notkun hans fer mjög vaxandi. Hér eru nokkur dæmi:

Skrifstofuhugbúnaður (Ritvinnsla, töflureiknir ofl): Google Docs, Open Office.

Stýrikerfi (í stað Windows XP, Vista): Ubuntu

Póstforrit (t.d. í stað Outlook) : Thunderbird

Tölvupóstur : Gmail

Þetta er bara lítið brot. PC Magazine fjallaði nýlega um 173 ókeypis forrit..


Eiga breskir bankar kannski útibú í Evrópu?

Gordon Brown

Nú ramba breskir bankar á barmi gjaldþrots. Ríkisstjórnin dælir milljörðum punda inn í bankana í þeirri von að þeir nái að haldi velli. Bankakerfið er ískyggilega stór hluti af hagkerfinu. Hljómar kunnuglega?

Ætli breskir bankar reki einhver útibú í evrópulöndum? Spurning hvort tryggingasjóður innlána dugi til að greiða út að fullu?

Ef allt fer á versta veg....

Hinn geðþekki Gordon Brown yrði skyndilega sammála okkur Íslendingum um hve óréttlátt það er að steypa saklausum kjósendum í skuldafen til þess að greiða út innistæður til sparifjáreigenda í öðrum löndum, sparifjáreigenda sem töldu sig hvort sem er aldrei njóta ríkistryggingar á innlánum. 

Þessir sparifjáreigendur hefðu átt að fjárfesta í ríkistryggðum bréfum ef þeir hefðu viljað ríkistryggja sparnað sinn. En þeir kusu hærri vexti og þar með meiri áhættu. Áhættu á að fá ekki greitt.

Breskir skattgreiðendur voru hins vegar saklausir, grunlausir og voru ekki gerendur né aðilar að málinu. Það væri fáránlegt og óþolandi óréttlæti að skella skuldunum á þá.

Hæstvirtur Brown myndi líka benda á þá augljósu staðreynd að lög um tryggingasjóð innlána eiga ekki við við þegar allt bankakerfið riðar til falls. 

Myndu Bretar bæta töpuð innlán sinna útibúa?

 

 


Krónan og valkostir í gjaldmiðilsmálum

Er það rétt að krónan sé vonlaus gjaldmiðill? Ef svo er, hverjir eru valkostirnir?

1. Einhliða upptaka Evru eða Dollara

Einhliða upptaka annars gjaldmiðils felur það í sér að öllum krónum í umferð er skipt út fyrir gjaldmiðil annars lands. Fyrsta skrefið er að ákveða hvaða mynt verði tekin upp og því næst á hvaða gengi krónum verður skipt út fyrir nýju myntina. Ríkissjóður kaupir því næst nægilegt magn (~20 milljarða) af seðlum og mynt og flytur til landsins. Gefinn er frestur til að skipta krónum yfir í nýju myntina t.d. 4 mánuðir. Eftir það er krónan verðlaus og úr sögunni.

Þessi leið hefur þann kost að þjóðin fær með hraði traustan gjaldmiðil til heimabrúks sem innlend stjórnvöld geta hvorki misbeitt né prentað að vild. Einhliða upptöku er hægt að framkvæma á nokkrum vikum. Í kjölfarið myndu vextir á Íslandi líklega nálgast þá sem gilda í upprunalandi myntarinnar. Íslenskir bankar myndu þó ekki hafa lánveitanda til þrautavara. Líklega myndi það leiða til hærri vaxta.

Evrópa er helsti viðskiptaðili Íslands og því myndi Evran vera hentug mynt.  Því miður hefur Evrópusambandið lýst eindreginni andstöðu við að Ísland taki upp Evru einhliða og trúlega mjög óráðlegt að ganga beint gegn því. Það eru hins vegar ýmis fordæmi fyrir því að þjóðir hafi tekið Bandaríkjadollar upp einhliða í sátt við Bandaríkin og með ágætum árangri.

Einhliða upptaka hefur líka ókosti. Verulegur kostnaður felst í því að seðlar og mynt í umferð bera ekki vexti liggjandi í skúffum og buddum landsmanna. Slíkir fórnarvextir gætu numið 600 milljónum á ári, m.v. 3% vexti og 20 milljarða. Til viðbótar týnast og skemmast seðlar fyrir tugi milljóna árlega og sem væri tap fyrir okkur en ágóði fyrir seðlabanka útgáfulandins.

Helsti ókosturinn er þó sá að gengi upptökumyntarinnar mun ráðast alfarið af efnahag upprunalandsins en ekki efnahag Íslands. Það munu koma tímabil þar sem upptökumyntin verður svo sterk að íslensk útflutningsfyrirtæki verða ósamkeppnishæf, innfluttar vörur frá öðrum myntsvæðum falla í verði og kaupæði rennur á Íslendinga með tilheyrandi skuldasöfnun. Ef upptökumyntin veikist hinsvegar um of hækka vörur frá öðrum myntsvæðum og verðbólga eykst á Íslandi. Þessi tiltekni ókostur á líklega við um allar myntir aðrar en Krónuna.

2. Aðild að evrópska myntbandalaginu

Þátttaka í evrópska myntbandalaginu felur í sér að seðlabanki Evrópu myndi kaupa allar krónur og greiða fyrir með Evrum.

Aðild að myntbandalaginu býðst aðeins þeim ríkjum sem eru í Evrópusambandinu og tekst að halda gengi sinnar eigin myntar innan ákveðinna vikmarka í 2 ár. Þetta stranga skilyrði um stöðugleika þýðir eiginlega að fáum ekki Evruna nema við sýnum fyrst að við getum vel lifað án hennar.

Ef horft er framhjá löngum biðtíma tíma og stöðugleikaskilyrðinu þá hefur aðild að myntbandalagi ýmsa kosti. Landið hefði traustan gjaldmiðil.

Ókosturinn væri þó alltaf sá að gengi Evru mun ekki taka mið af aðstæðum á Íslandi. 

3. Myntráð

Myntráð (e. Currency Board) felur í sér að öllum krónum er skipt út fyrir nýja mynt, sem kalla mætti t.d. Ísdal. Gengi Ísdals væri kyrfilega fest við gengi hentugrar viðmiðunarmyntar t.d. Evru, í hlutfallinu 1:1. Til þess að Ísdalur njóti trausts skal ávallt vera hægt að skipta einum slíkum út fyrir eina Evru og á öllum tímum þarf að vera til nægilegt magn af Evrum í varasjóði myntráðsins til að skipta öllum Ísdollurum út fyrir Evrur. 

Myntráð hefur vissa kosti umfram einhliða upptöku annars gjaldmiðils. Í stað þess að setja 20 milljarða af t.d. Dollurum í umferð með tilheyrandi vaxtatapi er upphæðin geymd í banka og ber þar vexti.  Ísdalir sem týnast eða skemmast eru hagur myntráðsins. Ekki verður heldur séð að Evrópusambandið geti sett sig upp á móti því að Ísland miði Ísdollar sinn við gengi Evrunnar. 

Myntráð myndi aðeins virka ef stjórnvöldum er treyst til að víkja aldrei frá þeirri reglu að fyrir 1 Ísdal fáist alltaf 1 Evra og að ávallt séu til nægar Evrur til að innleysa alla Ísdali.  Freistingin getur verið mikil fyrir stjórnvöld, einkum þegar gengi viðmiðunarmyntarinnar sveiflast úr takti við þarfir Íslands. 

4. Myntfrelsi

Myntfrelsi hefur lítið verið reynt, enda byggir það á nútímalegri tækni, en það felur í sér að leyfa allar myntir í viðskiptum. Krónan er þó áfram til, en hlutverk hennar minnkar af sjálfu sér. Fyrirtæki og einstaklingar velja aðrar myntir ef þær þykja traustari eða henta betur í þeirra viðskiptum. Myntfrelsi má koma á með því að breyta lögum sem krefjast þess að verslanir bjóði vörur í krónum, að fyrirtæki haldi bókhald í krónum, greiði skatta í krónum.

Nú er ég bara að giska á hvernig þetta myndi virka hér... en Seðlabankinn myndi nota hluta gjaldeyrisforðans til að kaupa þær krónur út af markaðinum sem ekki væri þörf fyrir. Ekki þarf að óttast að hér yrðu margar myntir í umferð, flestir myndu velja Evru, Dollar eða Pund. Ekki þarf heldur að óttast að Krónan myndi hrynja sérstaklega út af þessu.

Einstaklingar gætu átt reikninga í 2-3 myntum og debetkort á hvern reikning. Fá lönd ættu auðveldara með að taka upp myntfrelsi en Ísland, enda er tæknivæðing banka og útbreiðsla greiðslumiðlunar hvergi lengra komin en hér. 

Kostur myntfrelsis er að við gætum notað hér Evru í stórum stíl án þess að móðga Evrópu. Efnahagslífið yrði ekki ofurselt einni mynt og duttlungum hennar og gæti aðlagast sveiflum á gjaldeyrismörkuðum. Krónan myndi lifa áfram og gengi hennar reiknað út og stýrt af Seðlabanka. Við gætum t.d. notað krónu áfram í stöðumæla og sjálfsala eins lengi og þeir endast. 

5. Krónan áfram

Krónan á sér ekki marga málsvara þessa dagana. En skoðum samt kosti og galla við að hafa hana áfram.

Krónan hefur ekki reynst sérlega traustur gjaldmiðill. Hún er smá og sumir óttast að stórir fjárfestar gætu freistast til að "ráðast á Krónuna" í hagnaðarskyni. Sá ótti hefur þó reynst tilefnislaus fram til þessa. Gengi krónunnar sveiflast eftir því hvernig fiskast, hún sveiflast þegar við virkjum og byggjum álver. Hún hrynur þegar stjórnvöld klúðra málum.

Sveiflur krónunnar getað hjálpað sjávarútvegi að komast af en trufla hins vegar iðnfyrirtæki sem byggja á útflutningi.  

Ef við viljum hafa Krónuna áfram þurfum við að lifa áfram við sveiflur. Íslensk stjórnvöld þyrftu líka að sýna meiri kunnáttu og ráðdeild í fjármálastjórn en hingað til.  Ef vel er haldið á málum gæti krónan hugsanlega dugað okkur sem innlendur gjaldmiðill.

Mitt viðhorf

Það eru semsé nokkrir valkostir í stöðunni og trúlega fleiri en þeir sem hér voru taldir. Enginn þeirra er þó gallalaus. Gjaldmiðlar eru allir gallagripir. Þeir hafa verið það í mörg þúsund ár og verða enn um sinn.

Krónan er auðvitað gallagripur líka en kannski viljum við frekar lifa við hennar galla áfram en hætturnar sem felast í því að festa okkur við einn erlendan gjaldmiðil sem tekur ekkert mið af framgangi mála á Íslandi. Það eru tvær hliðar á þeim peningi.

Mitt viðhorf er reyndar að það eigi að skoða eitthvað nýtt. Það mætti kanna kosti myntfrelsis miklu nánar. Myntfrelsi virðist vera ódýr og fljótleg lausn sem færir okkur m.a. Evru án þess að styggja Evrópusambandið. Mörg iðnfyrirtæki gætu unað slíkum málalokum. Fyrirtæki í viðskiptum við ríki utan Evrópu gætu líka valið mynt sem hentar en væru ekki pínd til að nota Evru. Sjávarútvegsfyrirtæki geta ákveðið að halda sig við Krónu ef þau vilja það. 

Ísland er eitt fárra landa sem hafa nægilega útbreiðslu rafrænna greiðslukorta til að taka upp myntfrelsi auðveldlega - Eigum við ekki bara að nýta okkur það?


Tónlistarhúsið og valkostirnir þrír

Allt stopp

Framkvæmdir við tónlistarhúsið hafa legið niðri síðan í byrjun janúar en þá höfðu Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) ekki fengið greitt fyrir vinnu við byggingu hússins í 3 mánuði. Sagt er að viðræður séu í gangi milli ríkis, borgar sem eiga Austurhöfn-TR um yfirtöku á Portus sem sá um fjármögnun, byggingu og rekstur tónlistarhússins. Viðræðurnar munu vera flóknar og hafa tekið langan tíma. Öðru hvoru fréttist að aðilar séu bjartsýnir um að samningar náist fljótlega.

Hvernig sem fer er ljóst að ríki og borg þurfa að taka að sér að fjármagna framhaldið. Kostnaður hússins, sem upprunalega var áætlaður 12 milljarðar, verður líklega mun meiri enda er krónan fallin og vextir miklu hærri en lagt var upp með.

Ríki og borg standa nú frammi fyrir þremur valkostum.

1 Hætta við
Þjóðin skuldar of mikið. Þeir peningar sem til eru verða að fara til arðbærari og brýnni verkefna. Ókláruð byggingin liggur undir skemmdum og verður rifin eftir nokkur ár.

Tap: Giskum á 7 milljarða.

2 Bíða
Gerum bara nóg til að forða eignum frá tapi. Setjum upp hjúpinn, sem er sagður langt kominn í framleiðslu, gerum húsið fokhelt. Klárum svo hitt þegar við höfum efni á því.

Viðbótarfjárfesting: Giskum á 5 milljarða.

3 Klára
Komum húsinu í rekstrarhæft form svo það geti aflað tekna upp í kostnað með ráðstefnum og tónleikahaldi. 

Viðbótarfjárfesting: Giskum á 10 milljarða.

Allt eru þetta vondir kostir en við þurfum að velja. Ég vel leið 2 að gera fokhelt og bíða svo með restina. Sú leið forðar eignatjóni, skapar störf og heldur því opnu að húsið klárist í framtíðinni. Of dýrt að klára húsið strax.

Ef leið 2 kostar 5 miljarða þá eru það samt miklir peningar og erfitt að réttlæta slíka fjárfestingu á sama tíma og skera þarf niður í öllum ríkisútgjöldum. 

hjúpurinnEn gefumst ekki upp strax. Það eru án efa til þeir einstaklingar, listamenn og fyrirtæki sem vilja styðja verkefnið. Glerhjúpur Ólafs Elíassonar er stórfenglegt listaverk sem margir hérlendis og erlendis vilja sjá verða að veruleika.

Hefjumst handa núna við að stofna og kynna vinafélag tónlistarhússins. Það félag myndi hefja undirbúning að söfnun fjármagns til að ljúka húsinu. 

Vinafélagið gæti haldið úti vefsíðu þar sem tekið væri á móti frjálsum framlögum. Nafnalisti gefenda verður varanlegur hluti af húsinu. Allir sem gefa er með í happadrætti hússins svo lengi sem þeir lifa. Þeir fá afslætti á viðburði, enda eru þeir í raun búnir að borga fyrirfram. Það eru til ótal fyrirmyndar af svona átaksverkefnum erlendis, fullt af hugmyndum sem má nýta og óþarfi að finna hjólið upp.

Vinafélag tónlistarhússins gæti líklega safnað nokkrum milljörðum. Megnið af framlögum væru smá en nokkur væru stór. Er svona útkoma nokkuð óhugsandi á tveimur árum?  

100.000 x           1.000 kr = 100.000.000 kr
  50.000 x         10.000 kr = 500.000.000 kr
  10.000 x         50.000 kr = 500.000.000 kr
    5.000 x       100.000 kr = 500.000.000 kr
    1.000 x       500.000 kr = 500.000.000 kr
       500 x    1.000.000 kr = 500.000.000 kr
       100 x    5.000.000 kr = 500.000.000 kr
         10 x  10.000.000 kr = 100.000.000 kr

Samtals: 3.2 milljarðar. Tja... virðist ekki alveg ómögulegt.

Sumir myndu núna benda hversu miklu betur slíkum fjármunum væri varið til þarfari mála, t.d. að hlúa að öldruðum eða greiða niður skuldir þjóðarinnar. Það væri rétt ef þetta væru skattar en þetta eru frjáls framlög. Peningar sem fólk ræður hvað það gerir við og engin leið að vita hvort féð hefði nýst í eitthvað verðugra ef það hefði ekki verið gefið til tónlistarhússins.

Viðhorf mitt til tónlistarhússins er semsé að ríki og borg eigi að hætta þessu hangsi. Taka ákvörðun strax um að klára hjúpinn og gera húsið fokhelt svo það grotni ekki niður. Stofnsetja vinafélag án tafar og opna farveg fyrir frjáls framlög.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband