Krónan og valkostir í gjaldmiðilsmálum

Er það rétt að krónan sé vonlaus gjaldmiðill? Ef svo er, hverjir eru valkostirnir?

1. Einhliða upptaka Evru eða Dollara

Einhliða upptaka annars gjaldmiðils felur það í sér að öllum krónum í umferð er skipt út fyrir gjaldmiðil annars lands. Fyrsta skrefið er að ákveða hvaða mynt verði tekin upp og því næst á hvaða gengi krónum verður skipt út fyrir nýju myntina. Ríkissjóður kaupir því næst nægilegt magn (~20 milljarða) af seðlum og mynt og flytur til landsins. Gefinn er frestur til að skipta krónum yfir í nýju myntina t.d. 4 mánuðir. Eftir það er krónan verðlaus og úr sögunni.

Þessi leið hefur þann kost að þjóðin fær með hraði traustan gjaldmiðil til heimabrúks sem innlend stjórnvöld geta hvorki misbeitt né prentað að vild. Einhliða upptöku er hægt að framkvæma á nokkrum vikum. Í kjölfarið myndu vextir á Íslandi líklega nálgast þá sem gilda í upprunalandi myntarinnar. Íslenskir bankar myndu þó ekki hafa lánveitanda til þrautavara. Líklega myndi það leiða til hærri vaxta.

Evrópa er helsti viðskiptaðili Íslands og því myndi Evran vera hentug mynt.  Því miður hefur Evrópusambandið lýst eindreginni andstöðu við að Ísland taki upp Evru einhliða og trúlega mjög óráðlegt að ganga beint gegn því. Það eru hins vegar ýmis fordæmi fyrir því að þjóðir hafi tekið Bandaríkjadollar upp einhliða í sátt við Bandaríkin og með ágætum árangri.

Einhliða upptaka hefur líka ókosti. Verulegur kostnaður felst í því að seðlar og mynt í umferð bera ekki vexti liggjandi í skúffum og buddum landsmanna. Slíkir fórnarvextir gætu numið 600 milljónum á ári, m.v. 3% vexti og 20 milljarða. Til viðbótar týnast og skemmast seðlar fyrir tugi milljóna árlega og sem væri tap fyrir okkur en ágóði fyrir seðlabanka útgáfulandins.

Helsti ókosturinn er þó sá að gengi upptökumyntarinnar mun ráðast alfarið af efnahag upprunalandsins en ekki efnahag Íslands. Það munu koma tímabil þar sem upptökumyntin verður svo sterk að íslensk útflutningsfyrirtæki verða ósamkeppnishæf, innfluttar vörur frá öðrum myntsvæðum falla í verði og kaupæði rennur á Íslendinga með tilheyrandi skuldasöfnun. Ef upptökumyntin veikist hinsvegar um of hækka vörur frá öðrum myntsvæðum og verðbólga eykst á Íslandi. Þessi tiltekni ókostur á líklega við um allar myntir aðrar en Krónuna.

2. Aðild að evrópska myntbandalaginu

Þátttaka í evrópska myntbandalaginu felur í sér að seðlabanki Evrópu myndi kaupa allar krónur og greiða fyrir með Evrum.

Aðild að myntbandalaginu býðst aðeins þeim ríkjum sem eru í Evrópusambandinu og tekst að halda gengi sinnar eigin myntar innan ákveðinna vikmarka í 2 ár. Þetta stranga skilyrði um stöðugleika þýðir eiginlega að fáum ekki Evruna nema við sýnum fyrst að við getum vel lifað án hennar.

Ef horft er framhjá löngum biðtíma tíma og stöðugleikaskilyrðinu þá hefur aðild að myntbandalagi ýmsa kosti. Landið hefði traustan gjaldmiðil.

Ókosturinn væri þó alltaf sá að gengi Evru mun ekki taka mið af aðstæðum á Íslandi. 

3. Myntráð

Myntráð (e. Currency Board) felur í sér að öllum krónum er skipt út fyrir nýja mynt, sem kalla mætti t.d. Ísdal. Gengi Ísdals væri kyrfilega fest við gengi hentugrar viðmiðunarmyntar t.d. Evru, í hlutfallinu 1:1. Til þess að Ísdalur njóti trausts skal ávallt vera hægt að skipta einum slíkum út fyrir eina Evru og á öllum tímum þarf að vera til nægilegt magn af Evrum í varasjóði myntráðsins til að skipta öllum Ísdollurum út fyrir Evrur. 

Myntráð hefur vissa kosti umfram einhliða upptöku annars gjaldmiðils. Í stað þess að setja 20 milljarða af t.d. Dollurum í umferð með tilheyrandi vaxtatapi er upphæðin geymd í banka og ber þar vexti.  Ísdalir sem týnast eða skemmast eru hagur myntráðsins. Ekki verður heldur séð að Evrópusambandið geti sett sig upp á móti því að Ísland miði Ísdollar sinn við gengi Evrunnar. 

Myntráð myndi aðeins virka ef stjórnvöldum er treyst til að víkja aldrei frá þeirri reglu að fyrir 1 Ísdal fáist alltaf 1 Evra og að ávallt séu til nægar Evrur til að innleysa alla Ísdali.  Freistingin getur verið mikil fyrir stjórnvöld, einkum þegar gengi viðmiðunarmyntarinnar sveiflast úr takti við þarfir Íslands. 

4. Myntfrelsi

Myntfrelsi hefur lítið verið reynt, enda byggir það á nútímalegri tækni, en það felur í sér að leyfa allar myntir í viðskiptum. Krónan er þó áfram til, en hlutverk hennar minnkar af sjálfu sér. Fyrirtæki og einstaklingar velja aðrar myntir ef þær þykja traustari eða henta betur í þeirra viðskiptum. Myntfrelsi má koma á með því að breyta lögum sem krefjast þess að verslanir bjóði vörur í krónum, að fyrirtæki haldi bókhald í krónum, greiði skatta í krónum.

Nú er ég bara að giska á hvernig þetta myndi virka hér... en Seðlabankinn myndi nota hluta gjaldeyrisforðans til að kaupa þær krónur út af markaðinum sem ekki væri þörf fyrir. Ekki þarf að óttast að hér yrðu margar myntir í umferð, flestir myndu velja Evru, Dollar eða Pund. Ekki þarf heldur að óttast að Krónan myndi hrynja sérstaklega út af þessu.

Einstaklingar gætu átt reikninga í 2-3 myntum og debetkort á hvern reikning. Fá lönd ættu auðveldara með að taka upp myntfrelsi en Ísland, enda er tæknivæðing banka og útbreiðsla greiðslumiðlunar hvergi lengra komin en hér. 

Kostur myntfrelsis er að við gætum notað hér Evru í stórum stíl án þess að móðga Evrópu. Efnahagslífið yrði ekki ofurselt einni mynt og duttlungum hennar og gæti aðlagast sveiflum á gjaldeyrismörkuðum. Krónan myndi lifa áfram og gengi hennar reiknað út og stýrt af Seðlabanka. Við gætum t.d. notað krónu áfram í stöðumæla og sjálfsala eins lengi og þeir endast. 

5. Krónan áfram

Krónan á sér ekki marga málsvara þessa dagana. En skoðum samt kosti og galla við að hafa hana áfram.

Krónan hefur ekki reynst sérlega traustur gjaldmiðill. Hún er smá og sumir óttast að stórir fjárfestar gætu freistast til að "ráðast á Krónuna" í hagnaðarskyni. Sá ótti hefur þó reynst tilefnislaus fram til þessa. Gengi krónunnar sveiflast eftir því hvernig fiskast, hún sveiflast þegar við virkjum og byggjum álver. Hún hrynur þegar stjórnvöld klúðra málum.

Sveiflur krónunnar getað hjálpað sjávarútvegi að komast af en trufla hins vegar iðnfyrirtæki sem byggja á útflutningi.  

Ef við viljum hafa Krónuna áfram þurfum við að lifa áfram við sveiflur. Íslensk stjórnvöld þyrftu líka að sýna meiri kunnáttu og ráðdeild í fjármálastjórn en hingað til.  Ef vel er haldið á málum gæti krónan hugsanlega dugað okkur sem innlendur gjaldmiðill.

Mitt viðhorf

Það eru semsé nokkrir valkostir í stöðunni og trúlega fleiri en þeir sem hér voru taldir. Enginn þeirra er þó gallalaus. Gjaldmiðlar eru allir gallagripir. Þeir hafa verið það í mörg þúsund ár og verða enn um sinn.

Krónan er auðvitað gallagripur líka en kannski viljum við frekar lifa við hennar galla áfram en hætturnar sem felast í því að festa okkur við einn erlendan gjaldmiðil sem tekur ekkert mið af framgangi mála á Íslandi. Það eru tvær hliðar á þeim peningi.

Mitt viðhorf er reyndar að það eigi að skoða eitthvað nýtt. Það mætti kanna kosti myntfrelsis miklu nánar. Myntfrelsi virðist vera ódýr og fljótleg lausn sem færir okkur m.a. Evru án þess að styggja Evrópusambandið. Mörg iðnfyrirtæki gætu unað slíkum málalokum. Fyrirtæki í viðskiptum við ríki utan Evrópu gætu líka valið mynt sem hentar en væru ekki pínd til að nota Evru. Sjávarútvegsfyrirtæki geta ákveðið að halda sig við Krónu ef þau vilja það. 

Ísland er eitt fárra landa sem hafa nægilega útbreiðslu rafrænna greiðslukorta til að taka upp myntfrelsi auðveldlega - Eigum við ekki bara að nýta okkur það?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk fyrir frábæra og skilmerkilega grein, sem er laus við trúarbragðalegan áróður evrusinna eða dollarasinna t.d.

Hér finnst mér myntráð eiga að vera í stað seðlabanka og hugmyndin um myntfrelsi virðist vera hógværasta og minnst áhættusama leiðin. Svona til að byrja með allavega. Sámmála þar, án þess að vera algerlega sérfróður um efnið.

Hér er smálegt um Dollarinn: http://www.youtube.com/watch?v=O_TjBNjc9Bo&eurl=http://prakkarinn.blog.is/blog/prakkarinn/

Bendi einnig á langa heimildamynd, á google video, sem heitir The Money Masters, þar er velt upp hugmyndum um betri myntkerfi og kerfi nefnd til sögunnar, sem hafa verið við lýði og reynst betur en þessi vítisvél, sem við búum við og hönnuð er af Bankaelítunni í USA.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.1.2009 kl. 02:27

2 Smámynd: gummih

Margt áhugavert. Varðandi Ísdalinn þá fara strax að hringja viðvörunarbjöllur hjá mér. Þetta hljómar of líkt peso-dollaranum sem fór illa með Argentínu
http://en.wikipedia.org/wiki/Argentine_economic_crisis_(1999%E2%80%932002)

gummih, 27.1.2009 kl. 13:07

3 identicon

Hvernig á ríkissjóður að fara að því að kaupa 20 milljarða dollara? Til að fá verðmæti verðum við að gefa verðmæti á móti. Um leið og við ákveðum að henda krónunni er hún strax verðlaus. Raunveruleikinn er sá að við getum ekki fengið svo mikinn gjaldeyri. Það mun enginn gefa okkur mynt sína.

Einhliða upptaka annarar myntar er því ekki möguleg.

Gunnar H. (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 14:21

4 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Gunnar,

Þarna er átt við 20 milljarða Króna (ekki Dollara). Sú upphæð er bara hluti af núverandi gjaldeyrisvarasjóði Seðlabankans.

Við einhliða upptöku er öllum krónum (seðlum og mynt) skipt út fyrir upptökumynt á ákveðnu gengi. Eftir það er krónunum eytt. Innistæður í bönkum, skuldabréf og samningar sem voru gerðir í krónum er breytt í upptökumyntina, vextir samninga breytast um leið.

Það er rétt hjá þér að 20 milljarðar króna eru miklir peningar og það væri miklu ódýrara að nota seðla sem við prentum sjálf. Þeir sem vilja einhliða upptöku vita af þessum kostnaði en telja hann koma margfalt til baka vegna stöðugleika og trausts sem kæmi með upptökumyntini.

Frosti Sigurjónsson, 27.1.2009 kl. 16:01

5 identicon

Jú við þurfum 20 milljarða dollara. Ástæðan er einfaldlega sú að það er velta hagkerfisins okkar. Landsframleiðsla Íslands er u.þ.b. 20 milljarðar dollara. Peningaþörf okkar er jöfn þeirri upphæð sem við erum að velta af peningum.

Gunnar H. (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 17:37

6 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Gunnar, það er fjallað um þetta í grein Ársæls og Heiðars Más í Morgunblaðinu 8. Nóvember:

"Skv. útreikningum Manuel Hinds í október 2007, hefði Seðlabanki Íslands átt eftir um 700 milljónir evra af forða sínum eftir að hafa skipt út öllum seðlum og mynt og grunninnistæðum bankakerfisins. Grunninnistæður skipta hér einungis máli því bankakerfi viðkomandi lands sér um að margfalda peningana í umferð. Til útskýringar: Einstaklingur A leggur inn í banka 100 evrur sem bankinn lánar einstaklingi B. Einstaklingur B kaupir eitthvað fyrir 100 evrur af einstaklingi C. Einstaklingur C leggur inn 100 evrur sem bankinn lánar einstaklingi D. Einstaklingur D kaupir eitthvað fyrir 100 evrur af einstaklingi E o.s.frv. Það þarf því ekki að skipta út heildarumsvifum bankakerfisins, heldur aðeins grunninum, því margföldunin á sér stað með framangreindum hætti. Skiptin á Íslandi kalla því ekki á 6 milljarða dollara lán heldur skila í raun afgangi af núverandi gjaldeyrisforða eins og Hinds bendir á."

Heimild: http://efnahagur.is/index.php/Grein_um_einhliða_upptöka_Evru_eftir_Heiðar_Má_Guðjónsson_og_Ársæl_Valfells

Frosti Sigurjónsson, 27.1.2009 kl. 18:22

7 identicon

Ég hef enga trú á þessu. Margföldunaráhrifin eru þannig að þau vaxa stöðugt. T.d. banki fær pening í innlán og lánar út og annar eyðir þeim og koll af kolli. Bankinn geymir einhvern pening því hann þarf að gæta eiginfjárhlutfalls síns sem gæti verið um 10-15%. Viðkomandi einstaklingur sem fær peninginn að láni eyðir honum ekki öllum. Sumir einstaklingar og fyrirtæki geyma reiðufé hjá sér. Segjum sem svo að í hvert sinn sem einhver fær pening og lætur aftur af hendi, heldur hann eftir 20% að meðaltali (lífeyrissjóðir halda meira eftir). Margfaldarinn er þá 1/(1-0,8)=5

Ef við fáum 2,1 milljarða dollara frá IMF þá margfaldast hann með þessu kerfi í 10,5 milljarða. Ef við erum rosalega bjartsýn og teljum að 10% verði haldið eftir verður margfaldarinn 10 og varaforðinn 21 milljarður. Þá má ekkert út af bregða til að kerfið hrynji. Varaforðinn er enginn því hann var allur notaður til margföldunnar. Möguleikinn á áhlaupi á bankana verður miklu meiri í svona kerfi og því þyrfti eiginfjárhlutfall bankanna að vera mjög hátt. Vöruskipti við útlönd verða alltaf að vera jákvæð sem og vaxtagreiðslur til útlanda. Þá má ekki flytja fjármagn til útlanda, t.d. erlendar fjárfestingar, annars hrynur kerfið. Margir eiga svo kallað dautt fé, það er fé sem ekki er í umferð eins og t.d. eign í fasteign. Þú átt kannski 20 milljón króna fasteign og skuldar helminginn. Dautt fé er því 10 milljónir.

Það er erfitt að meta svona margfaldara því að kerfið og uppbygging þess tekur sífelldum breytingum. Margfaldara kerfi sem gæti virkað í dag, virkar kannski ekki á morgun. Kreppur virðast því miður óhjákvæmilegar af og til og svona kerfi er verulega veikt fyrir kreppum.

Ég ræddi þetta við Jesper Rangvid sem sérhæfir sig í rannsóknum á alþjóðafjármálum og er prófessor við alþjóðafjármáladeild Copenhagen Business School. Hann sagði að þetta kerfi væri algjört bull, lágmarkið væri 200 milljarðar dollara og það væri ekki nóg ef við hefðum ekki greiðan aðgang að meiri gjaldeyri.

Gunnar H. (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 20:44

8 identicon

Takk fyrir góða grein Frosti, ég sé að ég verð að bæta einum góðum við rss áskriftina mína ;)

mbk. 

Freyr (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 20:46

9 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég hef verið að fjalla um peningamálin í nokkra mánuði, gjörið svo vel: http://altice.blog.is/blog/altice/

Loftur Altice Þorsteinsson, 28.1.2009 kl. 10:20

10 identicon

Mjög áhugaverðar pælingar, sérstaklega með myntfrelsi. En hvað með að leggja niður Seðlabankann og koma á raunverulegu myntfrelsi eins og Andríki hefur fært góð og gild rök fyrir síðan 1999 amk.

Sjá þessar greinar. Væri gaman að fá þínar hugleiðingar um þetta.

http://www.andriki.is/default.asp?art=28121999

http://www.andriki.is/getOneArticle.asp?art=05112008

http://www.andriki.is/getOneArticle.asp?art=12122008

http://www.andriki.is/default.asp?art=08012002

Jonni (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 14:19

11 Smámynd: gummih

Varðandi myntfrelsið, nú verður víst hægt að nota erlendar myntir í Zimbabwe

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item248425/

gummih, 29.1.2009 kl. 17:20

12 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Gaman að vita til þess að Mugabe les blogginn minn :)

Frosti Sigurjónsson, 5.2.2009 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband