5.1.2013 | 17:29
Ráðumst að rót verðbólgunnar
Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. janúar 2013
Verðbólga er alvarlegt vandamál sem stjórnvöldum hefur ekki tekist að ráða við. Í stað þess að koma böndum á sjálfa verðbólguna hefur vandanum verið sópað undir teppi verðtryggingar. Sú leið felur í sér að fjárfestar njóta tryggingar gegn verðbólgu en því miður er sú trygging á kostnað allra annarra í samfélaginu.
Um þá leið verður seint sátt og enn síður ef verðtrygging er einnig túlkuð sem altrygging gegn efnahagsáföllum. Með því að velta þannig verðbólgu og efnahagsáföllum alfarið á lántakendur munu tugþúsundir heimila og þúsundir fyrirtækja burðast með stökkbreytt lán árum saman. Sá skuldaklafi tefur mjög endurbata í hagkerfinu og á því tapa allir, einnig fjárfestar.
Trygging gegn hruni?
Það sætir furðu að hrein vinstristjórn skuli standa að því óréttlæti að velta hruninu alfarið á lántakendur. Næsta ríkisstjórn verður að hafa kjark til að gera almenna skuldaleiðréttingu. Allt umfram venjulegar verðhækkanir er efnahagshrun sem fjárfestar og lántakendur eiga að bera í sameiningu. Hvar stendur í lánasamningum að lántaki tryggi lánveitanda gegn efnahagsáföllum og setji að veði aleigu sína og framtíðartekjur?
Rót vandans
En hver er raunveruleg rót vandans? Hvernig mætti draga úr verðbólgu og fyrirbyggja annað efnahagshrun? Hér sem annars staðar hafa bankar fengið að auka peningamagn mun hraðar en hagkerfið vex. Afleiðingin er sú að sífellt fleiri krónur eltast við sömu framleiðsluna, sem leiðir til verðhækkana og verðbólgu. Fái peningamagn að fimmfaldast á fimm árum, eins og hér gerðist á árunum 2003-2008 þá leiðir það óhjákvæmilega til hruns.
Taumlaus peningamyndun
Peningaþensla er afleiðing þess að viðskiptabönkum er leyft að auka peningamagn að vild. Ekkert hefur verið gert til að koma böndum á peningamyndun banka eða fyrirbyggja annað hrun af þeirra völdum í framtíðinni. Viðskiptabankar græða enn á verðbólgu og fá vexti af þeim peningum sem þeir skapa. Þetta fyrirkomulag er beinlínis hættulegt.
Örugg lausn
Lausnin er að setja lög sem koma í veg fyrir að bankar geti aukið peningamagn. Hlutverk banka verði að miðla sparnaði til lántakenda, en ekki að búa til nýja peninga eins og nú er. Peningamyndun verði alfarið í höndum Seðlabanka með þarfir hagkerfisins og verðstöðugleika að leiðarljósi. Ágóði af nýmyndun peninga rennur þá óskiptur til almannahagsmuna en ekki til eigenda bankanna.
Þessi breyting myndi draga úr peningaþenslu og verðbólgu af hennar völdum. Auk þess myndi vaxtabyrði í samfélaginu og skuldir fara minnkandi eins og lýst er nánar á þessari vefsíðu www.betrapeningakerfi.is
Höfundur er rekstrarhagfræðingur og skipar 1. sæti Framsóknarflokksins í Reykjavík norður.
13.12.2012 | 01:19
Umsögn: Peningavaldið og stjórnarskráin
Umsögn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar 12. 12 2012:
Peningavaldið - Umsögn um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þingskjal 510 - Mál nr. 415.
Með peningavaldi er átt við valdið til að búa til peninga, eða ígildi peninga, og setja í umferð.
Ógætileg meðferð peningavaldsins er vafalítið ein af höfuðástæðum hrunsins og má færa rök fyrir því að ný stjórnarskrá fjalli um peningavaldið og hvernig skuli koma í veg fyrir að því verði misbeitt.
Stjórnarskrá þarf einnig að gera greinarmun á valdi til útgáfu og úthlutunar nýrra peninga en þessi tvö valdsvið mega ekki vera á sömu hendi.
Það hlýtur að teljast alvarlegur galli á stjórnarskrárfrumvarpinu að í því sé ekki gerð tilraun til að koma böndum á peningavaldið.
GREINARGERÐ
Taumlaus peningamyndun er meginorsök hrunsins
Við einkavæðingu viðskiptabankanna árið 2002 færðist peningavaldið að mestu leiti frá ríkinu til eigenda bankanna. Á næstu fimm árum ríflega fimmfölduðu einkabankarnir peningamagn í umferð. Sú aukning var gersamlega úr samhengi við vöxt þjóðartekna og afleiðingin var hrun gjaldmiðilsins.
Enn hefur ekkert verið gert til að koma peningavaldinu í skjól fyrir sérhagsmunum. Enn hafa einkabankarnir aðstöðu til að búa til peninga og ákveða hver skuli fá nýja peninga. Verði þessu ekki breytt, mun það halda áfram að bitna á landsmönnum með verðbólgu, vaxtabyrði, óstöðugleika og skuldsetningu.
Viðskiptabankar búa til ígildi peninga með útlánum
Viðskiptabankar eru í aðstöðu til að skapa ígildi peninga með útlánum. Viðskiptabanki skapar ígildi peninga með því að veita lán og afhenda lántakanda innstæðu í stað seðla. Innstæðuna býr bankinn til úr engu. Innstæðan er í raun loforð bankans um að afhenda seðla hvenær sem óskað er. Innstæðan er handhægari en seðlar og lántaki og allir aðrir líta á innstæðu í banka sem ígildi peninga, enda er hægt að nota þær til að greiða skuldir og jafnvel skatta.
Peningamyndun er skattheimta
Bankinn hagnast mjög á því að búa til ígildi peninga, því hann greiðir litla sem enga vexti á innstæðuna en innheimtir hins vegar markaðsvexti á útlánið. Íslenskir bankar hafa búið til 1.000 milljarða með þessum hætti og nema tekjur banka af vaxtamun inn- og útlána tugum milljarða árlega.
Banki sem eykur eigið fé sitt um 2 milljarða getur búið til 25 milljarða af nýjum innstæðum og lánað þær út (miðað við 8% eiginfjárkröfu). Þegar veitt eru ný lán myndast innlán sem eru nýir peningar og rýra verðgildi þeirra peninga sem fyrir eru. Innstæður í bönkum eru í minna mæli óverðtryggðar en útlán og bankar græða því á rýrnun þeirra.
Fái bankar að beita peningavaldinu í eigin þágu, er ekki við öðru að búast en þeir leggi sig alla fram um að auka gróða sinn af vaxtamun og verðbólgu, þótt það verði á kostnað alls almennings.
Alþjóðlegt vandamál
Sama fyrirkomulag peningamála er við lýði í nær öllum löndum. Peningavaldið er víðast hvar komið í hendur einkaaðila. Afleiðingin er nánast taumlaus peningaprentun. Vaxtabyrði þjóða af því að hafa gjaldmiðil sinn að láni frá einkabönkum þyngir í sífellu skuldabyrði þeirra. Svo er komið að alvarleg skuldakreppa ríkir í heiminum og á torgum stórborga safnast almenningur saman til að mótmæla ráðaleysi stjórnvalda.
Peningavaldið tilheyrir þjóðinni
Taka þarf peningavaldið frá viðskiptabönkunum og skipta því upp milli seðlabanka og ríkisstjórnar landsins.
En það nægir ekki að koma peningavaldinu til ríkisins, einnig þarf að tryggja tvískiptingu valdsins til að draga úr freistnivanda.
Seðlabanki fari með útgáfuvald peninga
Seðlabankinn gefur í dag út seðla og mynt, en þessir miðlar eru sáralítið notaðir í viðskiptum. Bankainnstæður (rafrænir peningar) búnar til af einkabönkum eru uppistaðan í peningamagni landsins. Bankar skapa peninga með útlánum og nær allt fé í landinu er myndað með þessum hætti og ber vexti sem greiðast bönkum. Þessu þarf að breyta.
Aðeins Seðlabanki ætti að hafa leyfi til að búa til peninga fyrir fyrir hagkerfið og hann getur gert það án skuldsetningar.
Seðlabanki á að meta og stýra því hve mikið peningamagn er í hagkerfinu á hverjum tíma, út frá þjóðhagslegum markmiðum eins og verðbólgu, sjálfbærum hagvexti, atvinnuleysi og fleiri þáttum.
Ríkisstjórn fari með úthlutunarvald peninga
Í dag ákveða bankar hverjum skuli afhenda nýtt fé og til hvers það skal notað. Hagsmunir bankans ráða þar för, þótt nýir peningar rýri alla peninga sem fyrir eru í kerfinu.
Þar sem nýir peningar valda kostnaði hjá öllum almenningi, er eðlileg krafa að nýjum peningum sé ráðstafað með lýðræðislegum hætti. Ríkisstjórn er best til þess fallin og getur gert það með fjárlögum.
Nánari upplýsingar um peningavald og skiptingu þess má finna á www.betrapeningakerfi.is
Virðingarfyllst
Frosti Sigurjónsson
rekstrarhagfræðingur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.12.2012 | 21:04
Umsögn um 67. grein frumvarps um stjórnarskrá
Eftirfarandi umsögn hefur verið mótttekin af stjórnlaga- og eftirlitsnefnd Alþingis:
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndNefndasvið Alþingis
nefndasvid@althingi.is
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík 9. desember 2012
Umsögn um 67. grein frumvarps til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þingskjal 510 - Mál nr. 415.
Í 67. grein eru settar afar víðtækar takmarkanir við því hvaða málum kjósendur geti vísað til þjóðaratkvæðis. Þessar takmarkanir sem eru bæði matskenndar og ólýðræðislegar, munu fyrirsjáanlega leiða til vandamála.
Svo virðist sem Stjórnlagaráði hafi verið þessi hætta ljós, enda er í greininni tekið fram að ágreiningi um túlkunaratriði skuli vísað til dómstóla. Ekki þarf að fjölyrða um hvaða óvissa, tafir og kostnaður bíður kjósenda sem þurfa að fara dómstólaleiðina til að fá skorið úr um slíkan ágreining.
Ákvæðið um að túlkun dómstóla skuli ráða hvort kjósendur fái að tjá sig um einstök mál í þjóðaratkvæðagreiðslu, virðist opna á þann möguleika að dómstólar fái óbeint löggjafarvald. Dómstólar geta endað í þeirri aðstöðu að þurfa að skera úr um hvort kjósendur megi beita málskoti eða frumkvæði um lagasetningu sem hafa myndi áhrif á dómstólana sjálfa beint eða óbeint. Slíkt fyrirkomulag gengur gegn þrískiptingu valdsins.
Þrátt fyrir að 67. gr. beri yfirskriftina Framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæða- greiðslu þá segir greinin ekkert sem máli skiptir um framkvæmdina en vísar í staðinn þeim atriðum til löggjafans án fyrirvara eða leiðsagnar.
Að fenginni reynslu í Icesave þjóðaratkvæðagreiðslunni (sjá viðauka) er einmitt full ástæða til að stjórnarskrá gefi stjórnvöldum og löggjafanum sem minnst svigrúm til að draga úr málskotsvaldi kjósenda með óheppilegri lagasetningu.
Það, að undanskilja ákveðna málaflokka málskots- og frumkvæðisrétti er takmörkun á beinu lýðræði og í raun lítt dulbúin mógðun við skynsemi almennra kjósenda. Það er lítil bót í því að forsetavaldið sé ekki háð sömu takmörkunum.
Það getur ekki verið ásættanlegt að þjóðin þurfi til framtíðar að reiða sig á afstöðu og kjark eins manns þegar hún telur nauðsynlegt að ganga gegn vilja Alþingis og vísa mikilvægum málum til þjóðaratkvæðis.
Virðingarfyllst,
Frosti Sigurjónsson, rekstrahagfræðingur
félagi í Advice hópnum
(Umsögnin ásamt viðauka er hér)
11.3.2012 | 11:57
Erindi til Innanríkisráðuneytis vegna kynningarátaks ESB á Íslandi
Eftirfarandi erindi var sent Innanríkisráðuneytinu 4. mars sl. Ráðuneytið hefur staðfest viðtöku og ráðherran sagt í fjölmiðlum að erindið sé komið í vinnslu.
-------------
Hr. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra
Sölvhólsgötu 7
150 Reykjavík
Erindi: Er kynningarstarf Evrópusambandsins á Íslandi lögbrot?
Evrópusambandið fjármagnar Evrópustofu sem tók til starfa 21. janúar á þessu ári og hefur það markmið að stuðla að aukinni umræðu, þekkingu og skilningi á eðli og starfsemi ESB. Evrópusambandið leggur Evrópustofu til 1,4 milljónir evra á tveim árum. Evrópustofa gefur út kynningarefni í bæklingum og öðru formi til dreifingar. Evrópustofa hefur staðið að fjölda kynningarfunda víða um landið. Meðal framsögumanna er sendiherra ESB, (t.d. á opnun fundi um ESB á Akureyri 29. febrúar sl.)
Ofangreindar upplýsingar má finna á vefsíðu Evrópustofu: www.evropustofa.is
Spurt er hvort fyrirlestrar og fundir sendiherra ESB víða um land stangist á við eftirfarandi lög:
Úr 1. tl. 41. gr laga nr. 16/1971 Lög um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband: Það er skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi. Á þeim hvílir einnig sú skylda að skipta sér ekki af innanlandsmálum þess ríkis.
Spurt er hvort útgáfustarf Evrópustofu, sem fjármögnuð er af erlendu ríkisvaldi, varði við eftirfarandi grein:
Úr 1. gr. laga nr. 62/1978 Lög um bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka og blaðaútgáfu erlendra sendiráða á Íslandi: Þá er erlendum sendiráðum á Íslandi óheimilt að kosta eða styrkja blaðaútgáfu í landinu.
Spurt er hvort Evrópustofa geti í nokkru tilliti talist hlutlaus aðili þegar kemur að kynningu á Evrópusambandinu. Má meta til fjár kynningu Evrópustofu á kostum aðildar, en það er eitt helsta baráttumáli Samfylkingar. Fellur kynningarstarf Evrópustofu ekki undir skilgreiningu eftirfarandi laga um framlög og þar með brot á eftirfarandi lögum:
Úr 6. gr laga nr. 162/2006 Lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra: Óheimilt er [stjórnmálasamtökum] að veita viðtöku framlögum frá erlendum ríkisborgurum, fyrirtækjum eða öðrum aðilum sem skráðir eru í öðrum löndum.
Að lokum er þeirri spurningu beint til Innanríkisráðuneytisins hvort starfsemi Evrópustofu eða sendiráðs ESB kunni að stangast á við einhver önnur lagaákvæði en hér voru talin upp.
Stjórnvöld stefna að því að ljúka aðildarsamningi við ESB og leggja hann fyrir þjóðaratkvæði. Lýðræðisleg umræða um kosti og galla aðildar er í gangi meðal kjósenda. Slík umræða þarf að geta átt sér stað á grundvelli jafnréttis og án inngripa erlendra hagsmunaaðila.
Það er ljóst að óheft inngrip fjársterkra hagsmunaaðila skekkja sjálfan jafnréttisgrundvöll hins beina lýðræðis. Ef gildandi lög í landinu girða ekki nú þegar fyrir slík inngrip þarf að bregðast tafarlaust við, vegna þess að erlent stjórnvald með ótakmörkuð fjárráð og beina hagsmuni hefur nú þegar hafið mikið og skipulagt átak til að móta afstöðu íslenskra kjósenda sér í hag.
Virðingarfyllst,
Frosti Sigurjónsson
30.1.2012 | 15:12
Hver greiddi ferðina til Sardiníu?
Á 19. öld ákvað ónafngreindur breskur lávarður að heimsækja hina fögru miðjarðarhafseyju Sardiníu, ásamt fjölskyldu sinni og þjónustufólki. Ferðalagið gekk eins og í sögu. Lávarðurinn og fylgdarlið hans gisti aðeins á bestu hótelum og snæddi aðeins á bestu matstöðunum - ekkert var sparað.
Eyjaskeggjar tóku að sjálfsögðu vel á móti þessum forríku ferðamönnum. Lávarðurinn ákvað líka að framlengja dvölina um tvo mánuði. Kostnaðurinn var að sjálfsögðu verulegur. Alls staðar greiddi lávarðurinn með ávísunum í pundum á viðurkenndan breskan banka. Ávísunum lávarðsins var vel tekið, enda voru þær í pundum og á þessum árum var gjaldmiðill eyjaskeggja ekki upp á marga fiska.
Það eina sem skyggði á heimferðina voru vaxandi áhyggjur lávarðarins af því hve óskaplega margar ávísanirnar urðu og hversu stóra spildu af ættaróðalinu hann þyrfti nú að selja til að standa í skilum við bankann.
En svo fór að mörgum mánuðum eftir heimkomuna bólaði ekkert á ávísunum frá Sardiníu. Lávarðurinn var undrandi og feginn. Árin líðu og aldrei bárust ávísanirnar frá Sardiníu og lávarðurinn þurfti aldrei að greiða sumarfríið góða á Sardiníu.
Ávísanirnar voru aldrei innleystar. Þeir sem höfðu fengið greitt með ávísunum notuðu þær einfaldlega til að greiða fyrir eitthvað annað. Þær nutu meira trausts en mynt eyjaskeggja löngu eftir að lávarðurinn var allur. Þær urðu gjaldmiðill.
Spurningin er hinsvegar þessi: Hver borgaði fyrir ferðalag lávarðsins?
20.11.2011 | 03:51
Hvers vegna þarf að fegra ESB?
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
25.9.2011 | 01:28
Lissabon sáttmálinn fegraður í þýðingu
Lissabon sáttmálinn hefur verið þýddur á Íslensku. Sáttmálinn lýsir réttindum og skyldum aðildarríkja í smáatriðum. Þess vegna er mikilvægt að þýðingin sé vönduð og nákvæm en því miður virðist það markmið ekki hafa náðst. Hér eru nokkur dæmi:
2. KAFLI, SÉRTÆK ÁKVÆÐI UM SAMEIGINLEGA STEFNU Í UTANRÍKIS- OG ÖRYGGISMÁLUM, 1. ÞÁTTUR ALMENN ÁKVÆÐI, 24. gr :
Þau skulu forðast að gera nokkuð það sem vinnur gegn hagsmunum Sambandsins eða kynni að skaða áhrif þess sem afls í þágu samheldni í alþjóðasamskiptum.
"They shall refrain from any action which is contrary to the interests of the Union or likely to impair its effectiveness as a cohesive force in international relations."
Þetta er rangt þýtt því "Cohesive force in international relations" þýðir samheldið afl í alþjóðasamskiptum, en alls ekki afl í þágu samheldni í alþjóðasamskiptum.
XXI. BÁLKUR ORKUMÁL 194. gr.
1. Með tilliti til stofnunar og starfsemi innri markaðarins og með skírskotun til þarfarinnar á að varðveita og bæta umhverfið skal stefna Sambandsins í orkumálum miða að því, í anda samstöðu meðal aðildarríkjanna, að:
a) tryggja starfsemi orkumarkaðarins,
b) tryggja öryggi í orkuafhendingu í Sambandinu,
"(b) ensure security of energy supply in the Union; "
Þetta telst röng þýðing því supply þýðir framboð en ekki afhending Lið b) ætti því frekar þýða þannig "tryggja öryggi orkuframboðs í Sambandinu." Aðildarríki eru hér að samþykkja að Brussel taki ákvarðanir um öruggt orkuframboð (auðlindina) en ekki bara örugga afhendingu orku.
I. BÁLKUR FLOKKAR OG SVIÐ VALDHEIMILDA SAMBANDSINS 3. gr.
1. Eftirtalin svið skulu falla undir fullar valdheimildir Sambandsins: a) tollabandalag, b) setning nauðsynlegra samkeppnisreglna vegna starfsemi innri markaðarins, c) peningamálastefna fyrir þau aðildarríki sem hafa evru sem gjaldmiðil, d) verndun lífrænna auðlinda hafsins innan sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar, e) sameiginleg viðskiptastefna.
"1. The Union shall have exclusive competence in the following areas: "
Exclusive þýðir að sambandið sé alfarið einrátt um þessa málaflokka. Sem mætti þýða "Sambandið skal hafa óskiptar valdheimildir á eftirfarandi sviðum". Þetta skiptir máli því aðildarríkin eru hér að samþykkja að lúta einhliða ákvörðunum ESB í þessum flokkum.
C. YFIRLÝSINGAR AÐILDARRÍKJANNA
... og Evrópudagurinn 9. maí verða áfram í þessum löndum tákn samfélags borgara í Evrópusambandinu og tengsla þeirra við það.
"... and Europe day May 9th will for them continue as symbols to express the sense of community of the people in the European Union and their allegiance to it."
Orðið allegiance" getur þýtt: obligation, commitment, devotion, faith og loyalty. Þarna er á ferð yfirlýsing um hollustu við Evrópusambandið en ekki bara "tengsl" við það.
Finnst einhverjum fleirum en mér að þessar þýðingavillur séu best til þess fallnar að láta þennan grundvallarsáttmála Evrópusambandsins líta út fyrir að vera eitthvað ásættanlegri en hann er í raun og veru?
Íslensk þýðing: http://www.utanrikisraduneyti.is/media/esb/lissabon-sattmali/Lissabon-heildarskjal.pdf
Enska útgáfan: http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:C:2010:083:FULL:EN:PDF
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 01:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (46)
20.9.2011 | 18:44
Fréttum er hagrætt
Í aðdraganda Icesave kosninga gat verið erfitt fyrir kjósendur að finna hlutlausar fréttir og upplýsingar til að byggja atkvæði sitt á. Fréttablaðið og Morgunblaðið voru augljóslega á öndverðum meiði og það skilaði sér í fréttaflutningi þeirra af málinu. Jafnvel RÚV, sem á samkvæmt lögum að gæta fyllstu hlutlægni, tókst ekki að uppfylla skyldu sína að því leiti.
Það getur verið erfitt að koma auga á það hvenær fréttamiðill hagræðir fréttum og hvenær ekki. Sé það gert á augljósan hátt missir fréttin trúverðugleika og þar með áhrifamátt sinn. Þess vegna þurfa fréttamiðlar að fara fínt í allt slíkt. Aðferðirnar eru nokkuð vel þekktar. Hér eru nokkur dæmi um aðferðir sem hérlendir fréttamiðlar hafa beitt til að hagræða fréttum í því skyni að fá fram rétta niðurstöðu í Icesave og ESB málum:
1) Velja til birtingar fréttir sem styðja réttan málstað
Það er aldrei hægt að gera öllum fréttum jafn hátt undir höfði, velja þarf úr og það val getur verið pólitískt.
2) Velja viðmælanda með rétta afstöðu
Oft er leitað til álitsgjafa og sérfræðinga til að varpa ljósi á atburði. Í Icesave málinu leituðu Fréttablaðið og RÚV áberandi oft til álitsgjafa sem töldu farsælla að samþykkja Icesave samningana. Skoðanir Þórólfs Matthíassonar virðist hafa átt mikinn hljómgrunn hjá stjórnendum fréttaskýringaþáttarins Spegilsins á RÚV. Óskað var álits hans 25 sinnum á árunum 2009/2010 (heimild: Svar ráðherra við spurningu þingmanns um efnið.)
3) Skammta réttu sjónarmiði meiri tíma / pláss
Til að ljá umfjöllun hlutlaust yfirbragð er vinsælt að gefa fulltrúum beggja sjónarmiða orðið en skammta svo ójafnan tíma. Í prentmiðli er hægt að velja úr tilvitnunum þannig að annað sjónarmiðið fái meira rými. Í sjónvarpi og útvarpi er hægt að klippa til viðtöl í sama tilgangi. Sé um beina útsendingu að ræða, er ekki hægt að klippa hlutina til. En þá er sú leið farin að bjóða fleiri gestum með rétta skoðun í þáttinn.
4) Traustari viðmælendur
Tunguliprir sérfræðingar er yfirleitt taldir meira sannfærandi en almúginn á götunni. Þannig mætti sem dæmi spyrja Evrópusérfræðing um kosti aðildar en spyrja síðan leikmann um ókostina.
5) Lævísleg hugtakanotkun
Þegar vissir fjölmiðlar fjölluðu um Icesave kröfuna þá notuðu þeir iðulega Icesave skuldina. Evrópusambandið glímir nú við gríðarlega erfiðleika, sumir fjölmiðlar kjósa hins vegar að kenna erfiðleikana ávallt við Evrópu en ekki Evrópusambandið.
Ber fréttamiðlum að gæta hlutlægni?
Í lögum um RÚV segir að hlutverk almannafjölmiðilsins sé
að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.
Fróðlegt væri að gera faglega úttekt á því hvernig RÚV hefur tekist að uppfylla skyldur sínar að þessu leyti í Icesave og ESB málinu. Hve oft skyldi RÚV hafa freistast til þess að beita brellum eins og þeim sem voru tíundaðar hér að ofan?
Öðrum fréttamiðlum en RÚV er ekki skylt að gæta hlutlægni. Blaðamönnum er ekki heldur skylt að gæta hlutlægni í sínum störfum, ef ég skil siðareglur Blaðamannafélagsins rétt.
Verum raunsæ
Það er vissara að reikna með því að allir fréttamiðlar nýti það svigrúm sem þeir hafa til að hafa áhrif á okkur, ekki síst í aðdraganda þjóðaratkvæðis um mikilvæg málefni. Allir fréttamiðlar er hlutdrægir að vissu marki og allir þjóna þeir einhverjum hagsmunum.
Spyrjum því spurninga: Hvaða frétt var ekki birt? Hvers vegna er rætt við þessa viðmælendur en ekki aðra? Er þessi sérfræðingur hlutlaus? Hvað segja hinir fréttamiðlarnir um málið?
Það er skynsamlegt að neyta frétta á gagnrýnin hátt, treysta ekki á einn fréttamiðil, gera samanburð. Það er líka miklu skemmtilegra en að láta mata sig hugsunarlaust.
17.8.2011 | 00:54
Brotaforðakerfi í molum
Sífelldar upp- og niðursveiflur á fjármálamörkuðum vekja grun um að fjármálakerfið sé í raun óstöðugt í eðli sínu. Góðu fréttirnar eru að það er hægt að gera það stöðugra með einföldum hætti.
Allir vita að hlutverk banka er að taka við innlánum og ávaxta þau með því að lána féð út. Færri vita að bankar lána ekki bara út innlánin. Þeir búa að auki til viðbótarfjármagn úr engu og lána það út gegn vöxtum. Þetta er að sjálfsögðu mjög ábatasamt fyrir bankana og skýrir að einhverju leyti hvers vegna almenningur verður sífellt skuldugri. Það er ekki óalgengt að bankar láni út tíu sinnum hærri fjárhæð en sem nemur upprunalegum innlánum til þeirra. Þetta ótrúlega fyrirkomulag kallast brotaforðakerfi (fractional reserve) því forði bankana af innlánum er aðeins brot af því fjármagni sem þeir lána út.
Bankar hafa á einhvern undraverðan hátt fengið einkaleyfi til að prenta peninga á meðan öðrum er það sérstaklega bannað að viðlögðum þungum refsingum. Seðlabankinn gefur vissulega út seðla og mynt, en það eru í raun bankarnir sem búa til megnið af fjármagninu sem efnahagslífið þarf. Bankar búa fjármagnið til úr engu og rukka af því vexti. Staðan er því sú að nær allt fjármagn í landinu verður upphaflega til sem vaxtaberandi skuldir við bankana. Kannski var þetta ekki vandamál þegar bankar voru sameign þjóðarinnar og ágóðinn rann til samneyslu, en það verður að staldra við ef bankar í einkaeigu hafa einkaleyfi til að framleiða fjármagnið í landinu og innheimta vexti af því.
Þegar allt leikur í lyndi, bjóða bankar mikið fjármagn á lágum vöxtum. Fyrirtæki og neytendur freistast til að taka lán fyrir misgóðum fjárfestingum og jafnvel neyslu. Svo blakar fiðrildi vængjum einhverstaðar í fjarlægu landi og allt er breytt. Einhverjir tapa á glæfralegum fjárfestingum, bankar fara að innheimta skuldir af krafti, ótti um verðfall á mörkuðum breiðist út, bankar hækka vexti, hlutabréf lækka í verði og fjármagnskortur gerir vart við sig, sum fyrirtæki ráða ekki við hækkandi vexti og fara á hausinn. Samdráttur eða kreppa tekur við. Bankar hirða fyrirtæki og fasteignir á hrakvirði upp í skuldir - skuldir sem þeir bjuggu til úr engu.
Til að stöðva þessa hringekju offramboðs og skorts á fjármagni þarf að taka af bönkum leyfið til að framleiða fjármagn. Setja þarf 100% bindiskyldu á bankana. Verði það gert, munu bankar þurfa að einbeita sér alfarið að því að ávaxta innlán með því að lána þau út til arðbærra verkefna. Framleiðsla fjármagns yrði ekki í þeirra höndum heldur Seðlabankans.
Bankar myndu þá geta boðið upp á tvenns konar bankareikninga: annarsvegar vaxtalausa hlaupareikninga sem væru ávallt lausir til úttektar, og hinsvegar vaxtaberandi bundna sparireikninga. Bankar gætu eingöngu lánað út og ávaxtað það fé sem lagt væri á bundna sparireikninga. Bundnir reikningar væru bundnir til viss tíma eða uppsegjanlegir með vissum tímafyrirvara.
Með fullri bindiskyldu væru áhlaup á banka ástæðulaus því bankar myndu ávallt eiga nægt fé til að greiða út innistæður á hlaupareikningum. Þörf fyrir innistæðutryggingar væri því úr sögunni. Illa reknir bankar gætu farið á hausinn, en það myndi ekki valda keðjuverkun eins og er í dag. Kerfið væri stöðugt.
Með þessu væri búið að aðskilja tvö ólík verkefni: framleiðslu fjármagns og ávöxtun sparifjár. Illa reknir bankar gætu þá ekki lengur falið misheppnuð útlán með framleiðslu meiri peninga.
Seðlabankinn myndi hafa það hlutverk að stilla af magn peninga og fjármagns í samræmi við stærð hagkerfisins. Þetta myndi hann gera með útgáfu myntar og rafeyris án vaxtaútgjalda fyrir ríkissjóð (þjóðina). Sú leið væri mun beinni og skilvirkari en að fitla við stýrivexti og bindiskylduhlutfall. Verðbólga og verðlag yrði mun auðveldari viðfangs, því bankarnir væru ekki að freistast til að auka stöðugt fjármagn í umferð.
Brotaforðakerfið er sveifluvaldandi og gefur einkabönkum einkaleyfi til að framleiða fjármagnið í landinu. Það er löngu tímabært að íhuga aðra valkosti. Hversu lengi ætlum við að sætta okkur við óstöðugleika, verðbólgu og að allt fjármagn í landinu sé fengið að láni á vöxtum frá bönkum sem búa það til úr engu?
Nánari upplýsingar um fulla bindiskyldu:
Wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/Full-reserve_banking
Towards a 21st century banking and monetary system :
http://www.positivemoney.org.uk/wp-content/uploads/2010/11/NEF-Southampton-Positive-Money-ICB-Submission.pdf
2.8.2011 | 23:48
Er þóríum orkugjafi framtíðarinnar?
Þóríum er geislavirkt frumefni sem finnst í nægilegu magni á jörðinni til að mæta orkuþörf alls mannkyns í mörg hundruð ár, hugsanlega þúsund ár. Eitt kíló af þóríum getur skilað 200 sinnum meiri orku en fæst úr sama magni af úrani. Eitt gramm af þóríum gefur álíka mikla orku og 3,5 tonn af kolum.
Mikill og vaxandi áhugi er nú á þróun þóríum kjarnorkuvera. Margt bendir til að þau gætu orðið mun ódýrari og hættuminni en nútíma kjarnorkuver, sem byggja á úrani. Geislavirkur úrgangur yrði einnig brot af því sem fellur til í úran kjarnorkuverum.
Ef björtustu vonir ganga eftir, myndi þóríum tæknin draga úr þörf fyrir dýrt og mengandi jarðefnaeldsneyti. Bandaríkjamenn gerðu tilraunir með þóríum kjarnakljúfa á árunum 1940 1970 og sú þekking er aðgengileg. En þrátt fyrir það mun þurfa verulega þróun og fjármagn til að koma fyrsta starfandi þóríum kjarnorkuverinu í gagnið.
Gangi allt að óskum gætu fyrstu þóríum kjarnorkuverin tekið til starfa eftir 10-15 ár. Orkuverin geta verið af ýmsum stærðum, gríðarstór eða örsmá og það eykur á notagildi þeirra. Kostnaður við orkudreifingu verður minni þar sem orkuverin geta verið miklu nær notendum.
Meðal þeirra þjóða sem hafa þegar lagt af stað í kapphlaupinu um þóríum tæknina eru Frakkar, Indverjar, Rússar, Japanir og Kínverjar. Bretar og Bandaríkjamenn íhuga þátttöku.
Stundum er tregða til að snúa frá þekktri tækni til að þróa eitthvað nýtt sem keppir við það gamla. Framleiðendur úran-kjarnorkuvera hafa fjárfest gríðarlega í núverandi tækni og þóríum tæknin er vissulega ógn við þá fjárfestingu. Það er því ólíklegt að kjarnorkuiðnaðurinn hafi frumkvæði að því að þróa þessa tækni.
Aðgangur að ódýrri orku er grunnforsenda þeirra lífsgæða sem vesturlandabúar hafa vanist. Með þóríum orku er von til þess að mæta orkuþörf hvers einasta íbúa jarðarinnar um ókomin árhundruð.
Fyrir þá sem vilja kynna sér þóríum orku betur er mælt með þessum krækjum:
http://www.youtube.com/watch?v=N2vzotsvvkw
http://energyfromthorium.com/
http://itheo.org/