Er þóríum orkugjafi framtíðarinnar?

Þóríum er geislavirkt frumefni sem finnst í nægilegu magni á jörðinni til að mæta orkuþörf alls mannkyns í mörg hundruð ár, hugsanlega þúsund ár. Eitt kíló af þóríum getur skilað 200 sinnum meiri orku en fæst úr sama magni af úrani. Eitt gramm af þóríum gefur álíka mikla orku og 3,5 tonn af kolum.

Mikill og vaxandi áhugi er nú á þróun þóríum kjarnorkuvera. Margt bendir til að þau gætu orðið mun ódýrari og hættuminni en nútíma kjarnorkuver, sem byggja á úrani. Geislavirkur úrgangur yrði einnig brot af því sem fellur til í úran kjarnorkuverum.

Ef björtustu vonir ganga eftir, myndi þóríum tæknin draga úr þörf fyrir dýrt og mengandi jarðefnaeldsneyti. Bandaríkjamenn gerðu tilraunir með þóríum kjarnakljúfa á árunum 1940 – 1970 og sú þekking er aðgengileg. En þrátt fyrir það mun þurfa verulega þróun og fjármagn til að koma fyrsta starfandi þóríum kjarnorkuverinu í gagnið.

Gangi allt að óskum gætu fyrstu þóríum kjarnorkuverin tekið til starfa eftir 10-15 ár. Orkuverin geta verið af ýmsum stærðum, gríðarstór eða örsmá og það eykur á notagildi þeirra. Kostnaður við orkudreifingu verður minni þar sem orkuverin geta verið miklu nær notendum.

Meðal þeirra þjóða sem hafa þegar lagt af stað í kapphlaupinu um þóríum tæknina eru Frakkar, Indverjar, Rússar, Japanir og Kínverjar. Bretar og Bandaríkjamenn íhuga þátttöku.

Stundum er tregða til að snúa frá þekktri tækni til að þróa eitthvað nýtt sem keppir við það gamla. Framleiðendur úran-kjarnorkuvera hafa fjárfest gríðarlega í núverandi tækni og þóríum tæknin er vissulega ógn við þá fjárfestingu. Það er því ólíklegt að kjarnorkuiðnaðurinn hafi frumkvæði að því að þróa þessa tækni.

Aðgangur að ódýrri orku er grunnforsenda þeirra lífsgæða sem vesturlandabúar hafa vanist. Með þóríum orku er von til þess að mæta orkuþörf hvers einasta íbúa jarðarinnar um ókomin árhundruð.

Fyrir þá sem vilja kynna sér þóríum orku betur er mælt með þessum krækjum:

http://www.youtube.com/watch?v=N2vzotsvvkw

http://energyfromthorium.com/

http://itheo.org/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband