Frosti 5614 : Áherslur

frostinr
Stjórnlagaþing er tækifæri til að koma á nútíma legu og lýðræðislegu stjórnarfari á Íslandi og ég hef mikinn áhuga á að leggja mitt af mörkum í því verkefni. Eftirfarandi eru nokkur atriði sem ég tel vert að hafa í huga við gerð nýrrar stjórnarskrár.
 
Aukin áhrif kjósenda
Það er mikilvægt að tryggja kjósendum aukin áhrif á störf þingsins. Hér getum við lært af 130 ára reynslu Svisslendinga en þar getur hluti kjósenda skotið nýjum lögum til þjóðaratkvæðis eða haft frumkvæði að nýjum lögum.
 
Fullveldið
Aðeins þjóðin sjálf geti tekið ákvarðanir sem skerða fullveldið. Gera ætti kröfu um aukinn meirihluta, enda þarf að vera  breið samstaða um ákvarðanir af þessu tagi.
 
Eftirlit og gegnsæi
Kjósendur eiga að hafa aðgang að öllum opin berum gögnum og geta lagt spurningar fyrir þingið.  Umboðsmaður alþingis á að hafa eftirlit með því að ný lög standist stjórnarskrá.
 
Forsetinn
Margir hafa viðrað efasemdir um tilgang forseta embættisins. Ég tel það ótvírætt kost fyrir smáþjóð að eiga forseta sem hefur aðgang að þjóðhöfðing jum annarra ríkja og stórvelda.
 
Ráðherrar
Þingið kjósi forsætisráðherra en hún/hann velji aðra ráðherra. Þingið þarf þó að hafa trú á því vali. Takmarka ætti þann tíma sem ráðherrar sitja að völdum. Þeir geti ekki verið þingmenn á sama tíma.
 
Kjördæmin
Ég vil skoða kosti þess að kjósa helming þingmanna úr þrímenningskjördæmum en hinn helminginn á landsvísu.  Skoða mætti persónukjör í bland við lista flokkana.
 
Þjóðkirkja
Ég tel ekki mjög brýnt að stjórnlagaþing taki afstöðu til þjóðkirkju. Þetta er mál sem mætti fremur leggja fyrir þjóðaratkvæði.
 
Vöndum til verks
Nýja stjórnarskráin þarf að kveða skýrt á um grund vallar atriði eins og þrískiptingu valds, hlutverk forseta, meðferð dómsvalds, aukið gegnsæi og eftirlit með stjórnvöldum og ýmislegt annað sem of lengi hefur verið of óljóst eða hreinlega vantað.
 
Ég er bjartsýnn á að stjórnlagaþingi takist að semja nýja og mun haldbetri stjórnar skrá en þá sem við höfum í dag.  
 
Kosningarnar verða á laugardaginn og ég vona að þú setjir auðkennistöluna mína 5614 mjög ofarlega á kjörseðilinn og hvetjið sem flesta til þess að gera það sama. 

Hvað heldur aftur af rafrænum kosningum?

Kostnaður við þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave samninginn var áætlaður 230 milljónir, eða álíka og kostnaðurinn við alþingiskosningar vorið 2009. 
 
Kostnaður við kosningu til stjórnlagaþings gæti verið um 100 milljónir og svo verða drög að stjórnarskrá lögð fyrir þjóðina sem kostar 200 milljónir. 
 
Mjög stór hluti kjósenda hefur aðgang að tölvu og gæti því kosið heima hjá sér. Þeir fáu sem ekki treysta sér til að nota tölvu, gætu mætt á kjörstað eða kosið utankjörfundar eða sent atkvæði í pósti. 
 
Það virðist augljóst að tölvuvæðing kosninga myndi spara stóran hluta þess kostnaðar sem fellur til í kosningum og í talningu atkvæða. En hvers vegna hefur þetta ferli ekki verið tölvuvætt? 
 
Í 5. gr. stjórnarskrá er ákvæði um að forseti skuli kjörinn í <span>leynilegri</span> kosningu og í 31. gr. er ákvæði um að þingmenn skulu kosnir í <span>leynilegri</span> kosningu. 
 
Kjósandinn á því að geta kosið án þess að hægt sé að sanna hvað hann kaus. Leyndin er réttur kjósandans. En leyndin virðist líka talin veita vörn gegn því að kjósandinn verði beittur þvingunum eða honum mútað til að kjósa með öðrum hætti en hann ætlaði sér. 
 
Í aðdraganda Icesave kosninganna bauðst DeCode til að útvega kerfi (Íslendingaval) sem gæti tryggt kjósendum nafnleynd í rafrænum kosningum og sparað mikinn kostnað. Ekki var dregið í efa að það kerfi dygði en stjórnvöld afþökkuðu boðið.
 
Í kosningu til stjórnlagaþings er kjósendum ráðlagt að undirbúa sig heima en kjósa á kjörstað. Kosningin fer þannig fram að kjósendur skrifa tölur í reiti á kjörseðlum sem síðan verða skannaðir inn í tölvu. Notaðir verða þrír hraðvirkir skannar sem leigðir voru til landsins í þessu skyni.
 
Enginn efast um að það hefði verið þægilegra fyrir alla að fylla út kjörseðla á netinu heima hjá sér og það hefði dregið mjög úr hættum á villum. Það hefði líka verið miklu ódýrara í framkvæmd og það hefði mátt tryggja nafnleynd kjósenda með t.d. tækni DeCode. 
 
Það er ráðgáta hvers vegna kjörstjórn nýtir ekki tölvutæknina öllum til hagsbóta. Eina skýringin sem ég sé er ótti við að ef kjósendur kjósa ekki einir í kjörklefa þá opnist möguleiki á að þeir verði beittir þvingunum eða mútum til að kjósa með tilteknum hætti.
 
En það má vel minnka líkur á því með öðrum hætti.
 
Leyfa mætti kjósanda að kjósa eins oft og hann vill, skipta um skoðun, þar til kosningu lýkur. Þá getur sá sem vill kaupa eða þvinga kjósandann ekki verið viss um að kjósandinn standi við gefin fyrirheit.
 
Þvingarinn gæti séð við þessu með því að sitja yfir kjósandanum og láta hann kjósa rétt fyrir lokun kosningar. Hver þvingari getur ekki haft auga með mörgum kjósendum á lokamínútum kosninga nema grípa til stórtækra aðgerða. 
 
Til að gera þvingurum enn erfiðara fyrir mætti hafa kjörstaði opna 1-2 í daga eftir að rafrænni kosningu lýkur. Þá getur kjósandinn farið á kjörstað og kosið í kjörklefa. 
 
Til að þvingunaraðgerðir skili tilsettum árangri þarf að þvinga mjög marga kjósendur hugsanlega þúsundir. Ef viðurlög við kosningasvindli eru höfð þung þá verður bæði erfitt að og afar dýrt að finna nógu marga þvingara og kjósendur til að hafa áhrif á úrslit kosninga.  
 
Hætta á þvingun og mútum virðist í raun vera sáralítil og óhætt þess vegna að tölvuvæða kosningaferlið og spara hundruði milljóna með því. 
 
Það er líklegt að kosningaþátttaka muni aukast umtalsvert ef kjósendur þurfa ekki að fara á kjörstað. 
 
Ef það er eitthvað allt annað sem heldur aftur af tölvuvæðingu kosningaferlisins myndi ég gjarnan vilja heyra af því.  Ég vona bara að raunverulega ástæðan sé ekki sú, að stjórnvöld vilji sem sjaldnast hafa kosningar. Þau vilji því hafa þær sem dýrastar og óþægilegastar svo fólk sé ekki að rella um að hafa þær of oft. 

Bloggfærslur 25. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband