Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

ESB gefur sér falleinkun í stjórnun fiskveiða

pcp2_2Á vefsíðu ESB um stjórnun fiskveiða má finna vinnublað sem telur upp helstu ágallana við sameiginlega fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Þar kemur m.a. fram að 88% af fiskistofnum eru ofveiddir, þar af eru 30% stofna að hruni komnir. Auk gegndarlausrar ofveiði eru önnur helstu vandamál offjárfesting í skipum, óhóflegt brottkast, ólöglegar veiðar og almennur taprekstur í greininni svo eitthvað sé nefnt.

Fiskveiðistefna ESB leit fyrst dagsins ljós árið 1983 og hefur síðan þá verið endurskoðuð á 10 ára fresti  nú síðast árið 2002. Þær úrbætur sem þá voru lagðar til hafa enn ekki komist í framkvæmd nema að litlu leyti.

Það hefur aldrei vantað vilja hjá Brussel til að innleiða góða fiskveiðistefnu. Árangurinn hefur hins vegar vantað.

Þótt ekki hafi enn tekist að koma úrbótum frá 2002 í framkvæmd er nú lagt í að ræða frekari úrbætur sem skuli innleiða árið 2012. Stefnumiðin hljóma eins og áður mjög vel, en í ljósi reynslunnar er vissara að fóstra efasemdir um árangurinn.

Fyrir þá sem vilja lesa sér til er upplagt að lesa Grænbókina Reform of the Common Fisheries Policy sem kom út þann 22. apríl sl. (28 bls.)

Nokkuð hefur borið á þeim misskilningi að ef Íslendingar ganga án tafar í ESB geti þeir haft mikil áhrif á þær úrbætur sem gerðar verða á fiskveiðistefnu sambandsins árið 2012. Þetta er ekki alls kostar rétt. Þótt við gætum viðrað skoðanir okkar munu raunveruleg áhrif á stefnu ESB fara algerlega eftir íbúafjölda landsins. Ísland mun ekki ná neinu í gegn sem ESB finnst ekki góð hugmynd hvort sem er.

Jafnvel þótt farið yrði að ráðum Íslendinga er ekki víst að það myndi duga. Getuleysi ESB til að framfylgja eigin fiskveiðistefnu í gegnum tíðina vekur ekki traust.


Iceasave: Bretar tóku skatta en ekki ábyrgð

arsaellvalfellsÁrsæll Valfells er gestapenni Forbes.com í gær. Fyrirsögnin greinarinnar er "Iceland: The land without an economy". Greinin er frábærlega skrifuð og hvet ég alla til að lesa hana. Það sem mér finnst þó merkilegast er fullyrðing Ársæls um að Breska ríkið ætli ekki að tryggja innistæður sinna banka erlendis.

It is interesting that the British Government was quite happy to collect up to 40% tax on the interest income from the IceSave accounts, a privilege the Icelandic Government did not enjoy. The British government collected all the revenue but demanded that the Icelandic taxpayer should absorb the risk. In contrast to this, the U.K. government does not guarantee bank deposits in subsidiaries of a British bank operating in the Isle of Man and Guernsey. Its argument was that the U.K. did not receive tax revenue on those operations.

Ástæðan er semsé sú að fjármagnstekjuskatturinn rann til eyjanna en ekki til Bretlands.

Nú hljótum við að geta beitt sömu vörn á Breta. Fjármagnstekjuskattur af Icesave rann jú allur til Bretlands en ekki til Íslands.

Sjá eldri bloggfærslu um málið: "Eiga Bretar kannski útibú..."


Norska krónan - Kostir og gallar

norska kronanSteingrímur J. Sigfússon hefur verið talsmaður þess að Ísland leiti til Norðmanna um myntsamstarf. Hvað ef Norðmenn væru til í þetta? Hverjir væru kostir og gallar. Á norska krónan framtíð?

Nógu stór?

Þótt norska krónan sé smámynt miðað við evru og dollar er hún samt 25 sinnum stærri en íslenska krónan. (Miðað við verga landsframleiðslu). Seðlabanki Noregs virðist vera starfi sínu vaxinn og það skiptir ef til vill meira máli en stærð gjaldmiðilsins.

Í takt?

Það er margt skylt með Íslandi og Noregi. Mikil haf- og landsvæði, einkum miðað við íbúatölu, fengsæl fiskimið, umframorka og orku- útflutningur, lagaumhverfi EES, þjóðartekjur á mann með því hæsta sem þekkist og hátt mennta og atvinnustig og pólitík. Þessi lönd eru á ýmsan hátt ólík Evrópu sem hefur barist við viðvarandi hátt atvinnuleysi, á fremur lítil haf- og landsvæði á íbúa og þarf að flytja inn mest af sinni orku.

Hagkerfi Noregs og Íslands eru að mörgu leyti í takt sem er kostur. Það skyggir aðeins á að Noregur flytur út olíu og verðsveiflur á olíumarkaði geta haft áhrif á gengi norsku krónunnar.

Á heildina litið finnst mér líklegra að Ísland verði oftar í takt við Noreg en Evrópu. Einnig gætu Íslendingar haft meiri áhrif á ákvarðanatöku í myntsamstarfi við Noreg en Evrópu ef mikið lægi við.

Framtíðarlausn? 

Það hafa ekki komið fram rök gegn því að myntsamstarf við Noreg geti verið langtímalausn fyrir Ísland. Viðskiptaráðherra hefur að vísu látið þá skoðun í ljós að hann telji ekki framtíð í slíku samstarfi, en ekki fært nánari rök fyrir þeirri skoðun opinberlega.

Hafa Norðmenn hag af samstarfi?

Norðmenn væru að taka vissa áhættu en þó ekki mikla, þar sem Ísland væri ekki nema 4% viðbót. Þeir þyrftu að hafa okkur með í ráðum og kosta ýmsu til við lagagerð og breytingar. 

Norðmenn gætu hinsvegar viljað hafa Ísland áfram með sér í EES. Núna er raunveruleg hætta á að Ísland gangi í skyndingu og allt of veikt til samninga við Evrópusambandið. Það myndi ekki þjóna hagsmunum Noregs. Samningsstaða Noregs við Evrópusambandið yrði verri. Ekki bara vegna þess að samningar við Ísland væru slæmt fordæmi heldur einnig vegna þess að fiskimið, auðlindir og lögsaga Íslands væru innan bandalagsins.

Samanburður við aðrar lausnir

Myntsamstarf við Noreg er margfalt ódýrari kostur en einhliða upptaka myntar eða myntráð. Traustara og vonandi ódýrara en að halda úti eigin gjaldmiðli. Vegna skyldleika hagkerfa gæti myntsamstarf við Noreg verið betri langtímalausn en Evra.

Niðurstaða?

Ef Norðmenn bjóða okkur til myntsamstarfs þá held ég að við ættum að þiggja það.

 


Eiga breskir bankar kannski útibú í Evrópu?

Gordon Brown

Nú ramba breskir bankar á barmi gjaldþrots. Ríkisstjórnin dælir milljörðum punda inn í bankana í þeirri von að þeir nái að haldi velli. Bankakerfið er ískyggilega stór hluti af hagkerfinu. Hljómar kunnuglega?

Ætli breskir bankar reki einhver útibú í evrópulöndum? Spurning hvort tryggingasjóður innlána dugi til að greiða út að fullu?

Ef allt fer á versta veg....

Hinn geðþekki Gordon Brown yrði skyndilega sammála okkur Íslendingum um hve óréttlátt það er að steypa saklausum kjósendum í skuldafen til þess að greiða út innistæður til sparifjáreigenda í öðrum löndum, sparifjáreigenda sem töldu sig hvort sem er aldrei njóta ríkistryggingar á innlánum. 

Þessir sparifjáreigendur hefðu átt að fjárfesta í ríkistryggðum bréfum ef þeir hefðu viljað ríkistryggja sparnað sinn. En þeir kusu hærri vexti og þar með meiri áhættu. Áhættu á að fá ekki greitt.

Breskir skattgreiðendur voru hins vegar saklausir, grunlausir og voru ekki gerendur né aðilar að málinu. Það væri fáránlegt og óþolandi óréttlæti að skella skuldunum á þá.

Hæstvirtur Brown myndi líka benda á þá augljósu staðreynd að lög um tryggingasjóð innlána eiga ekki við við þegar allt bankakerfið riðar til falls. 

Myndu Bretar bæta töpuð innlán sinna útibúa?

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband