Færsluflokkur: Vísindi og fræði
2.8.2011 | 23:48
Er þóríum orkugjafi framtíðarinnar?
Þóríum er geislavirkt frumefni sem finnst í nægilegu magni á jörðinni til að mæta orkuþörf alls mannkyns í mörg hundruð ár, hugsanlega þúsund ár. Eitt kíló af þóríum getur skilað 200 sinnum meiri orku en fæst úr sama magni af úrani. Eitt gramm af þóríum gefur álíka mikla orku og 3,5 tonn af kolum.
Mikill og vaxandi áhugi er nú á þróun þóríum kjarnorkuvera. Margt bendir til að þau gætu orðið mun ódýrari og hættuminni en nútíma kjarnorkuver, sem byggja á úrani. Geislavirkur úrgangur yrði einnig brot af því sem fellur til í úran kjarnorkuverum.
Ef björtustu vonir ganga eftir, myndi þóríum tæknin draga úr þörf fyrir dýrt og mengandi jarðefnaeldsneyti. Bandaríkjamenn gerðu tilraunir með þóríum kjarnakljúfa á árunum 1940 1970 og sú þekking er aðgengileg. En þrátt fyrir það mun þurfa verulega þróun og fjármagn til að koma fyrsta starfandi þóríum kjarnorkuverinu í gagnið.
Gangi allt að óskum gætu fyrstu þóríum kjarnorkuverin tekið til starfa eftir 10-15 ár. Orkuverin geta verið af ýmsum stærðum, gríðarstór eða örsmá og það eykur á notagildi þeirra. Kostnaður við orkudreifingu verður minni þar sem orkuverin geta verið miklu nær notendum.
Meðal þeirra þjóða sem hafa þegar lagt af stað í kapphlaupinu um þóríum tæknina eru Frakkar, Indverjar, Rússar, Japanir og Kínverjar. Bretar og Bandaríkjamenn íhuga þátttöku.
Stundum er tregða til að snúa frá þekktri tækni til að þróa eitthvað nýtt sem keppir við það gamla. Framleiðendur úran-kjarnorkuvera hafa fjárfest gríðarlega í núverandi tækni og þóríum tæknin er vissulega ógn við þá fjárfestingu. Það er því ólíklegt að kjarnorkuiðnaðurinn hafi frumkvæði að því að þróa þessa tækni.
Aðgangur að ódýrri orku er grunnforsenda þeirra lífsgæða sem vesturlandabúar hafa vanist. Með þóríum orku er von til þess að mæta orkuþörf hvers einasta íbúa jarðarinnar um ókomin árhundruð.
Fyrir þá sem vilja kynna sér þóríum orku betur er mælt með þessum krækjum:
http://www.youtube.com/watch?v=N2vzotsvvkw
http://energyfromthorium.com/
http://itheo.org/
29.6.2011 | 22:38
Landlæknir kaupir umdeilt bóluefni
Nýlega bárust fréttir af því að landlæknir hafi undirritað samning við lyfjafyrirtækið Glaxo Smith Kline um kaup á bóluefni gegn HPV-sýkingingum og leghálskrabbameini. Ákveðið hefur verið að bólusetja allar 12 ára stúlkur.
Bóluefnið heitir Cervarix en samkvæmt tilkynningu frá Glaxo var það prófað á stúlkum á aldrinum 15-25 ára, en landlæknir hefur ákveðið að nota það á 12 ára stúlkur. Fréttin heldur áfram:
Með bólusetningunni verður komið í veg fyrir sýkingar af völdum HPV sem valdið geta leghálskrabbameini. Talið er að með almennri bólusetningu megi koma í veg fyrir um 60-70% leghálskrabbameins og um 40% alvarlegra forstigsbreytinga þess. Hér á landi greinast árlega um 17 konur með leghálskrabbamein og um 300 konur með alvarlegar forstigsbreytingar.
Þarna er beinlínis fullyrt að Cervarix komi í veg fyrir sýkingu af völdum HPV. Hið rétta er að bóluefnið ver gegn smiti af aðeins fimm afbrigðum veirunnar (HPV-16 og HPV-18) en afbrigðin eru mun fleiri. Bólusettir einstaklingar geta því smitast af öðrum HPV afbrigðum.
Hver er ávinningurinn?
Smokkurinn veitir fullkomnari vörn gegn HPV veirum en Cervarix bóluefnið, auk þess sem smokkurinn ver gegn mörgum öðrum kynsjúkdómum. Bólusetning gegn HPV þýðir því alls ekki að óhætt sé að sleppa smokknum.
Í upplýsingum frá GSK er tekið fram að Cervarix veitir ekki öllum vernd gegn HPV.
Í Bandaríkjunum er tíðni leghálskrabbameins 7/100.000 en tíðni alvarlegra aukaverkana af bólusetningu 3.4/100.000
Í Bandaríkjunum hafa 80% af 50 ára konum fengið HPV sýkingu en 95% virðast hreinsa veiruna úr líkamanum hjálparlaust. 5% fá forstigsbreytingar sem síðar geta leitt til leghálskrabbameins. Þessar forstigsbreytingar uppgötvast við reglubundna skimun, yfirleitt löngu áður en krabbamein myndast. Reglubundin skimun er mun öruggari leið en bólusetning og án aukaverkana.
Þrátt fyrir bólusetningu með Cervarix þurfa bólusettir einstaklingar að fara reglulega í skimun gegn leghálskrabbameini enda ver bóluefnið ekki gegn öllum afbrigðum HPV veirunnar og varnaráhrif þess endast ekki nema í nokkur ár.
Af þessu að dæma virðist ávinningur af bólusetningu gegn HPV harla lítill eða enginn, sérstaklega í ljósi þess að einstaklingar geta náð meiri árangri með því að stunda öruggt kynlíf og fara reglulega í skimun. Hvort tveggja atriði sem hafa engar aukaverkanir.
Hver er áhættan?
Bóluefni innihalda fjölda efna: óvirkar veirur og ýmis stoðefni sem vekja upp viðbrögð ónæmiskerfisins gegn veiruefninu. Auk þess innihalda bóluefni ýmis rotvarnarefni. Skiptar skoðanir eru um hve mikil áhætta fylgir því að hleypa slíkum efnum inn í líkamann.
Samkvæmt upplýsingum frá Glaxo getur bólusetning með Cervarix haft eftirfarandi aukaverkanir:
- Yfirlið, því getur fylgt skjálfti og líkaminn getur orðið stífur.
- Verkir, roði, bólga, þreyta, höfuðverkur, vöðvaverkur, uppkösts og liðverkir.
Tekið er fram að ekki skuli gefa barnshafandi konum Cervarix.
Alvarlegar aukaverkanir þekkjast, hér eru tvö dæmi frá Bretlandi:
Ashleigh (12 ára) fékk sinn fyrsta skammt af Cervarix þann 15 október 2008 og varð veik hálftíma síðar. Höfuðverkurinn var svo sár að hún hljóðaði. Næstu daga var hún með svima, síðar fékk hún verki í fætur sem voru svo sárir að hún féll við. Hún var lögð inn á Frimley Park Spítalann í tvo daga. Sjúkdómsgreiningin hljóðaði þannig: Svimi og vöðvaverkir líklega vegna bólusetningar. Smám saman versnaði ástand Ashleigh og að lokum gat hún ekki gengið fyrir verkjum. Heimild: Daily Mail 14. desember 2008.
Stacey (17 ára) fékk sitt fyrsta flogakast nokkrum dögum eftir bólusetningu með Cervarix. Á næstu vikum urðu köstin fleiri og að lokum greindist hún með heilaskaða. Nú er Stacey í endurhæfingu að endurlæra einföld atriði eins og að búa til samloku. Heimild: The Telegraph 3. október 2009.
Slík dæmi eru sem betur fer fátíð, líklega innan við 4 af 100.000 og í raun ekkert sem bendir til að Cervarix sé verra en önnur bóluefni að þessu leyti.
14.11.2010 | 16:56
Er Íslendingum treystandi fyrir beinu lýðræði?
Stundum heyrast þau sjónarmið að það sé mjög varasamt að fela íslenskum kjósendum málskots- og frumkvæðisrétt. Þeir myndi þá bara hafna lögum um aukna skatta og heimta á sama tíma lög um aukna þjónustu og vera almennt óábyrgir í ákvörðunum. Ríkið færi fjótlega á hausinn.
Þessu til stuðnigs er vísað til Kaliforníu sem býr við einhverskonar beint lýðræði og rambar á barmi gjaldþrots. Ef vísað er til góðrar reynslu Svisslendinga af beinu lýðræði þá er hún skýrð í burtu með því að sú þjóð hafi meiri lýðræðisþroska en aðrar þjóðir. Íslendingar séu hinsvegar mjög vanþroska og vísir til að klúðra þessu eins og öllu öðru.
Rökin gegn þessari afstöðu eru tvenns konar. Í fyrsta lagi eru leikreglur beins lýðræðis ekki þær sömu í Kaliforníu og Sviss. Í öðru lagi hefur reynslan sýnt að kjósendur verða ábyrgari og sýna meiri skynsemi í ákvörðunum ef þeir fá meiri áhrif.
Stigsmunur á Kaliforníu og Sviss
Í Sviss er mikil áhersla lögð á að ná samkomulagi milli þings og þeirra kjósenda sem vilja þjóðaratkvæði um tiltekið mál. Þetta millistig virðist einmitt vanta í Kaliforníu og kannski liggur vandinn í því.
Þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslunni hafa kjósendur í Sviss yfirleitt val um upprunalega tillögu þingsins og málamiðlunartillögu sem tekur þá mið af sjónarmiðum þeirra sem vildu stöðva lögin. Þjóðin getur hafnað báðum tillögum eða samþykkt aðra hvora. Oft er málamiðlunin valin og útkoman er þá sú að eitthvað tillit er tekið til sjónarmiða þings, minnihlutahópa og meirihluta kjósenda.
Hvernig varð þessi ólgandi suðupottur vagga nútímalýðræðis?
Áður en beint lýðræði var tekið upp í Sviss var landið ólgandi suðupottur ólíkra þjóðarbrota, tungumála og trúarbragða. Beint lýðræði var tekið upp í kjölfar borgarastríðs og síðan hefur Sviss verið til fyrirmyndar sem friðelskandi og farsæl þjóð. Í borgarastríðinu fyrir rúmum 130 árum hefðu fáir trúað því að æstur almúginn í Sviss hefði þroska hvað þá vilja til að taka ákvarðanir sem höfðu hag heildarinnar að leiðarljósi.
Lýðræðisþroski og farsæld er bein afleiðing af beinu lýðræði
Í fyrstu gæti virst óábyrgt að fela kjósendum úrslitavald yfir störfum þingsins. En reynslan hefur sýnt hið gagnstæða, að kjósendur eru í eðli sínu varkárir, jafnvel varkárari en þingið.
Það að kjósendur geti skotið öllum nýjum lögum til þjóðaratkvæðis setur jákvæða pressu á þingið að vanda sig og sú freisting að skara eld að köku sérhagsmunaafla hverfur. Enda myndi þjóðin stöðva slíka löggjöf.
Reynslan í Sviss hefur sýnt að kjósendur eru íhaldssamari í útgjöldum og ríkisrekstri en þingið. Einnig hefur komið í ljós að þeir kjósendur sem hafa vald til að hafna fjárlögum í sínu umdæmi eru 30% ólíklegri til að svíkja undan skatti en hinir. Kjósendur sem hafa raunveruleg áhrif axla sína ábyrgð frekar en aðrir.
Áhrifalausir kjósendur hafa hins vegar lítinn hvata til að setja sig inn í einstök mál á starfstíma þingsins. Valdið til að kjósa út þingmenn er ómarkvisst og gefur kjósendum falskt öryggi. Rödd kjósenda heyrist sjaldan nema þegar áföll dynja á landinu og jafnvel þá taka stjórnvöld lítið mark á kjósendum.
En hafi kjósendur rétt til að skjóta málum til þjóðaratkvæðis, svo ekki sé minnst á frumkvæði að nýjum lögum, þá er vilji þjóðarinnar og ábyrgð alltaf til staðar.
Sagan sýnir að aukin áhrif kjósenda leiða til meiri áhuga þeirra á málefnum og ákvörðunum ríkisvaldsins. Með því dregur úr valdi og áhrifum stjórnmálaflokka. Íbúarnir verða vakandi og upplýstir um eigin málefni og taka virkari þátt í að móta framtíð landsins.
Ekkert bendir til þess að Svisslendingar séu svo sérstakir að þeim einum sé treystandi til að ná árangri með beinu lýðræði. Það er orðið löngu tímabært að næsta þjóð taki það skref sem Sviss tók fyrir 130 árum: að treysta kjósendum.