Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Er þóríum orkugjafi framtíðarinnar?

Þóríum er geislavirkt frumefni sem finnst í nægilegu magni á jörðinni til að mæta orkuþörf alls mannkyns í mörg hundruð ár, hugsanlega þúsund ár. Eitt kíló af þóríum getur skilað 200 sinnum meiri orku en fæst úr sama magni af úrani. Eitt gramm af þóríum gefur álíka mikla orku og 3,5 tonn af kolum.

Mikill og vaxandi áhugi er nú á þróun þóríum kjarnorkuvera. Margt bendir til að þau gætu orðið mun ódýrari og hættuminni en nútíma kjarnorkuver, sem byggja á úrani. Geislavirkur úrgangur yrði einnig brot af því sem fellur til í úran kjarnorkuverum.

Ef björtustu vonir ganga eftir, myndi þóríum tæknin draga úr þörf fyrir dýrt og mengandi jarðefnaeldsneyti. Bandaríkjamenn gerðu tilraunir með þóríum kjarnakljúfa á árunum 1940 – 1970 og sú þekking er aðgengileg. En þrátt fyrir það mun þurfa verulega þróun og fjármagn til að koma fyrsta starfandi þóríum kjarnorkuverinu í gagnið.

Gangi allt að óskum gætu fyrstu þóríum kjarnorkuverin tekið til starfa eftir 10-15 ár. Orkuverin geta verið af ýmsum stærðum, gríðarstór eða örsmá og það eykur á notagildi þeirra. Kostnaður við orkudreifingu verður minni þar sem orkuverin geta verið miklu nær notendum.

Meðal þeirra þjóða sem hafa þegar lagt af stað í kapphlaupinu um þóríum tæknina eru Frakkar, Indverjar, Rússar, Japanir og Kínverjar. Bretar og Bandaríkjamenn íhuga þátttöku.

Stundum er tregða til að snúa frá þekktri tækni til að þróa eitthvað nýtt sem keppir við það gamla. Framleiðendur úran-kjarnorkuvera hafa fjárfest gríðarlega í núverandi tækni og þóríum tæknin er vissulega ógn við þá fjárfestingu. Það er því ólíklegt að kjarnorkuiðnaðurinn hafi frumkvæði að því að þróa þessa tækni.

Aðgangur að ódýrri orku er grunnforsenda þeirra lífsgæða sem vesturlandabúar hafa vanist. Með þóríum orku er von til þess að mæta orkuþörf hvers einasta íbúa jarðarinnar um ókomin árhundruð.

Fyrir þá sem vilja kynna sér þóríum orku betur er mælt með þessum krækjum:

http://www.youtube.com/watch?v=N2vzotsvvkw

http://energyfromthorium.com/

http://itheo.org/


Hugmyndir skapa störf

Hugmyndir skapa störf

Erindi sem ég flutti á fundi Félags Atvinnurekenda í Iðnó 6. október 2010

 

Nýsköpun í atvinnurekstri hefur verið áhugamál hjá mér í meira en 30 ár. Á þessum tíma hafa verið tímabil þar sem nýsköpun hefur verið mikil, en ég þori að fullyrða að gróska á þessu sviði hefur aldrei verið meiri en einmitt núna.

 

Einmitt núna, þegar landið er statt á botni djúprar efnahagslægðar vekur þessi mikla gróska í nýsköpun von um betri tíð sé framundan. Kannski er mögulegt að á komandi misserum muni efnahagur landsins rétta úr kútnum, ný fyrirtæki blómstra og atvinnuleysið hverfa.

 

Erlendar rannsóknir hafa ítrekað sýnt að efnahagskreppur hafa miklu minni áhrif á vöxt ungra og smárra fyrirtækja en stórra. Í kreppu virðast ung fyrirtæki oft halda áfram vexti en stór fyrirtæki eru líkleg til að segja upp fólki í verulegum mæli. Þetta virðist líka eiga við hér á Íslandi.

 

176 nýsköpunarfyrirtæki og enn bætist við

Dr. Eyþór Jónsson framkvæmdastjóri hjá Klaki, nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins, tók nýlega saman lista yfir 140 íslensk sprotafyrirtæki. Listinn er gerður að umfjöllunarefni í nýjasta hefti Frjálsrar Verslunar. Í gær fékk ég góðfúslegt leyfi Eyþórs til að birta sprotalistann á netinu (slóðin erhttp://url.is/43w ) þannig að aðrir gætu bætt við hann. Á innan við sólarhring hafa bæst við nöfn 36 sprotafyrirtækja og vonandi að fleiri bætist við á komandi dögum og mánuðum.

 

Á listanum má finna orkusprota eins og Carbon Recycling sem undirbýr framleiðslu á eldsneyti úr raforku og koltvísýringi frá jarðvarmavirkjun. Þarna eru sprotar í hátæknilausnum fyrir heilbrigðisgeirann, útgerð, ferðamennsku ofl. Fyrirtækin á listanum eru mörg og fjölbreytnin mikil. Þarna leynast líklega einhver af framtíðar stórfyrirtækjum Íslands.

 

Það kemur vissulega á óvart að nýsköpun blómstri þegar efnahagur landsins er í lamasessi, hvernig getur staðið á þessu?

 

Vandamál geta verið tækifæri

Ef til vill er núna meira framboð á vandamálum en áður og sumir frumkvöðlar hafa lag á því að koma auga á tækifæri í vandamálum. Tökum tvö þekkt dæmi:

  • Ráðstöfunartekjur almennings snarminnkuðu, skuldir hækkuðu og ráðdeild varð fólki enn mikilvægari en áður. Skömmu síðar var Meniga stofnað til að gefa fólki betri yfirsýn yfir rekstur heimilisins.
  • Gufuaflsvirkjanir losa mikinn koltvísýring út í andrúmsloftið og það er vandamál. Carbon recycling var stofnað til að nýta koltvísýringinn, binda hann vetni og framleiða þannig orkugjafa sem má nota til íblöndunar í bensín.

Stórkostlegur mannauður

Samkvæmt gögnum frá Vinnumálastofnun eru um 12.000 manns að leita sér að vinnu. Langflestir þeirra höfðu vinnu fyrir hrun. Þetta er að uppistöðu fólk með dýrmæta starfsreynslu. Vinnufúst og fjölhæft fólk sem er tilbúið að bretta upp ermar. Frumkvöðlar hafa sjaldan átt auðveldara með að finna gott starfsfólk.

 

Lítið framboð á hálaunastörfum

Fólk með reynslu og góða menntun, sem áður gat valið úr vel launuðum störfum, á nú erfiðara með að finna vel launuð störf við hæfi. Hálaunastörf, sem héldu mörgum frá því að stofna eigið fyrirtæki, eru miklu færri núna.

 

Auðlindir landsins

Ísland á mikið af auðlindum sem eru annars af skornum skammti í heiminum: Orka, landsvæði og auðug fiskimið. Mikið af nýsköpunarfyrirtækjunum keppa einmitt að betri nýtingu og markaðssetningu á þessum auðlindum.

 

Ísland í alfaraleið

Internetið og ljósleiðaravæðing undafarinna ára hefur gert Íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum kleyft að bjóða þjónustu milliliðalaust til neytenda um allan heim.

Ísland sem var áður á hjara veraldar er núna í miðju alnetsins. Allt bendir til að Ísland sé líka að færast nær mörkuðum Asíu með opnun siglingaleiðarinnar um norðuríshafið.  Asíuríkjum er spáð miklum hagvexti á komandi árum og þarna er mikil uppspretta tækifæra.

 

Umhverfi nýsköpunar á Íslandi

Aðstæður til nýsköpunar eru nú betri en oft áður eins og ég mun fara nánar í. Við þurfum hins vegar að gæta þess að þær versni ekki frá því sem er og það má vissulega bæta þær enn frekar. Samkeppnishæfni Íslands og hagvöxtur í framtíðinni munu að verulegu leyti ráðast af því hversu vel við búum að frumkvöðlum og nýsköpun í landinu.

 

Einfalt regluverk og lítil skriffinnska

Of einfalt regluverk og of mikill hraði átti líklega ekki erindi í starfsemi útrásarbankana og því er viss hætta á að pendúllinn sveiflist núna í hina áttina. Allt verði, til öryggis, kæft í reglum og skriffinnsku. Líka í nýsköpun þar sem ekki er nein þörf á skrifræði. Besta leiðin til að kæfa nýsköpun er einmitt skrifræði.

 

Ég hef fengið að kynnast stofnun og rekstri sprotafyrirtækja í Frakklandi af eigin raun. Þar þótti afar gott ef tókst að stofna nýtt hlutafélag á þrem mánuðum, sem tekur þrjá daga hér. Í Frakklandi er mikilvægast að ráða bókara og lögfræðing áður en nokkuð annað var gert. Vissara að hugsa sig mjög vel um áður en bætt er við starfsmönnum því lögbundinn uppsagnarfrestur er talin í árum en ekki mánuðum. Bankareikningur verður ekki stofnaður nema framvísað sé símareikningi en símreikningur fæst ekki nema bankareikningur sé til. Ótrúlegur tími og orka hverfur þannig í verkefni sem skila engum raunverulegum virðisauka þótt hugsanlega mælist allt stússið sem aukinn hagvöxtur. Víti til að varast.

 

Nýsköpunarmiðstöðvar spretta upp

Líklega hefur aldrei verið meira framboð á ráðgjöf og aðstöðu fyrir frumkvöðla. Nýsköpunarmiðstöðvar hafa sprottið upp út um allt land og vinna mikilvægt starf. Þar má nefna Klak, Innovit , Nýsköpunarmiðstöð Íslands - Impra, V6 Sprotahús, Hugmyndaráðuneytið, Hugmyndahús Háskólanna, Frumkvöðlasetrið Ásbrú og fleiri.

 

Fjármagn og styrkir í boði

Undanfarin misseri hafa raunvextir á innlánum banka verið nokkuð háir og líklegt að það hafi dregið úr framboði á fjármagni til atvinnurekstrar og nýsköpunar. Ólíklegt er að þetta ástand geti varað mikið lengur.

 

Opinberir sjóðir eins og Rannís, Nýsköpunarsjóð og Frumtak hafa þó haldið dampi og gert eins mikið og svigrúm þeirra leyfir til að styrkja og fjárfesta í efnilegum fyrirtækjum.

 

Viðskiptaenglar, efnaðir einstaklingar sem fjárfesta í sprotum, eru nú miklu færri en fyrir hrun. Viðskiptaenglar gegna lykilhlutverki í eflingu nýsköpunar því þeir fylgja jafnan fjárfestingum sínum vel eftir og miðla þeim af reynslu sinni og viðskiptasamböndum.

 

Í Finnlandi, Noregi, Skotlandi og víðar hafa opinberir aðilar náð góðum árangri í að efla nýsköpun með því að fjárfesta samhliða viðskiptaenglum. Þeir líta svo á að ef viðskiptaengill er tilbúinn til að hætta sínum eigin peningum í hugmynd frumkvöðuls er ríkinu óhætt að leggja  svipaða upphæð á móti. Þetta fyrirkomulag “krónu á móti krónu” þarf einnig að taka upp á Íslandi.

 

Nýlegar ívilnanir fyrir nýsköpunarfyrirtæki eru hænuskref

Þróunarkostnaður fæst nú endurgreiddur að hluta en hámarkast við upphæð sem jafngildir einu stöðugildi.  Ágætt skref sem skiptir máli í smáum fyrirtækjum en hvetur ekki stóru fyrirtækin til að leggja í neitt verulega meiri þróun en þau hefðu annars gert.

 

Hvati til hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtækjum takmarkast við kr 300 þúsund á einstakling. Sproti þarf því að finna 10-15 hluthafa til að fjármagna eitt stöðugildi sem gæti orðið erfitt.  Miklu betra hefði verið að leyfa einstaklingum að fjárfesta í sérstökum sprotasjóðum sem síðan myndu velja vænleg fyrirtæki til að fjárfesta í.

 

Góð samvinna

Ísland er lítið og frumkvöðlar eiga auðvelt með að ná sambandi við lykilfólk í atvinnulífinu. Í stærri löndum er yfirleitt miklu erfiðara og tímafrekara að ná tengslum við rétta fólkið.

Almennt eru menn boðnir og búnir til að hjálpa frumkvöðlum, gefa ráð, miðla af reynslu og nýta viðskiptasambönd út úr landinu sem fyrir eru - allt endurgjaldslaust. Íslendingar hjálpast að.  Það er óhætt að segja að það sé virkilega góður samstarfsandi í sprotaheiminum, enginn skortur á hugmyndum og menn ófeimnir hræddir við að leita ráða hvor hjá öðrum.

 

Hvað má betur fara?

Umhverfi nýsköpunar á Íslandi er gott en það er að  sjálfsögðu hægt að gera það enn betra.  

 

Mikilvægt er að styðja enn betur við frumkvöðla sem eru að taka fyrstu skrefin. Yfirleitt þurfa þeir að vinna kauplausir mánuðum saman áður en hugmyndin er komin á það stig að fjárfestar telji sér óhætt að koma að borðinu. Margir góðir sprotar komast þannig aldrei upp úr jörðinni. Það þarf að fjölga stuðningsleiðum fyrir þá sem eru að taka fyrstu skrefin.

 

Við þurfum að koma á “krónu á móti krónu” sjóðum til að draga viðskiptaengla að borðinu eins og gert er í nágrannalöndum okkar með góðum árangri.

 

Gott væri ef ríkisstjórnin myndi gefa þjóðinni hlé frá erfiðum deilumálum sem eru ekki aðkallandi en munu fyrirsjáanlega leiða til vaxandi átaka í þjóðfélaginu og draga þannig tíma og orku fólks frá uppbyggingu atvinnulífsins.

 

Ríkisstjórnin þarf jafnframt að gæta þess að kasta ekki meiri sandi í hjól atvinnulífsins en komið er með skattahækkunum, háum vöxtum eða með því að draga lappirnar þegar erlendir aðilar vilja koma að fjárfestingum.

 

Að lokum tvær ábendingar til að draga fyrr úr atvinnuleysi.

 

Vinnumálastofnun býður fyrirtækjum að ráða fólk sem á rétt til atvinnuleysisbóta þannig að fyrirtækið fær atvinnuleysisbæturnar greiddar í 6 mánuði, sem oft má framlengja í aðra 6 mánuði.  Í dag eru um 500 manns sem nýta þetta fyrirkomulag sem er allt of fáir. Af hverju eru ekki 5.000 manns að vinna á þessum kjörum út í fyrirtækjum? Vita atvinnurekendur ekki af þessu?

 

Vinnumálastofnun er núna með 12.000 manns á atvinnuleysiskrá. Þetta er mikill mannauður sem hefur fjölbreytta menntun, reynslu og hæfni en það er ekki hægt að leita eftir þeim eiginleikum sem skipta máli.  Ég þurfti að grufla töluvert í skýrslum til að komast að því að 82 kerfis- og tölvunarfræðingar eru að leita að vinnu. Á sama tíma eru allir að kvarta yfir því að það vanti slíkt fólk! Hér er gullið tækifæri til að búa til leitarvél sem atvinnurekendur gætu notað til að finna hæft fólk á augabragði.

 

Þakka ykkur fyrir.


Viltu spara milljarð?

Ísland er meðal tölvuvæddustu þjóða heims og íslensk fyrirtæki og hið opinbera kaupa mikið af hugbúnaði. Stærsti hluti er fluttur inn og greitt fyrir hann í gjaldeyri. Það er hægt að draga verulega úr þeim innflutningi með því að nota opinn hugbúnað sem er fáanlegur án endurgjalds. Sparnaður gæti numið milljarði á ári.

Í erindi sem ég flutti í dag á ráðstefnu Samtaka Vefiðnaðarins er sagt frá íslensku hugbúnaðarfyrirtæki sem tókst að spara 20 milljónir á 4 ára tímabili með því að velja alltaf opinn og ókeypis hugbúnað þegar þess var kostur.

Stóra spurningin er hinsvegar hvað gæti allt Ísland sparað mikið með því að nota sömu stefnu?

Lauslegir útreikningar benda til að sparnaður gætu verið nálægt 1.000 milljónum á ári. Það eru umtalsverðir peningar fyrir skulduga þjóð.

Upphæðin er áætluð með því að margfalda fjölda vinnustöðva með kaupverði og uppfærslukostnaði hugbúnaðar á hverja vinnustöð. Fjöldin er áætlaður 40.000 vinnustöðvar, þar af 10.000 hjá hinu opinbera. Hugbúnaðarkostnaður er áætlaður 25.000 kr. á vinnustöð (Sjá skýrslu ParX fyrir Forsætisráðuneytið um opinn hugbúnað) Samtals gerir þetta um 1 milljarð á ári. Svo má líka spara hundruð milljóna til viðbótar með því að nota ókeypis hugbúnað í gagnagrunnshugbúnaði, stýrikerfum, vefmiðlurum ofl. ofl.

Þetta er hinsvegar ekki auðvelt. Það þarf að taka ákvörðun, móta stefnu, hefja átak og leggja í mikla vinnu. Fólk þarf að leggja það á sig að læra á öðruvísi hugbúnað. Kreppa er einmitt góður tími til að hefja slíkt átak. Það skapar störf og sparar dýrmætan gjaldeyri.

Það er samt rétt að vara við því að ganga of langt. Stundum er einfaldlega ódýrara að kaupa hugbúnað þótt hann sé dýr.

Ég vil skora á stjórnvöld og samtök atvinnulífsins að skoða þetta tækifæri.

----

Framboð á góðum ókeypis hugbúnaði hefur aukist mjög á undanförnum árum og notkun hans fer mjög vaxandi. Hér eru nokkur dæmi:

Skrifstofuhugbúnaður (Ritvinnsla, töflureiknir ofl): Google Docs, Open Office.

Stýrikerfi (í stað Windows XP, Vista): Ubuntu

Póstforrit (t.d. í stað Outlook) : Thunderbird

Tölvupóstur : Gmail

Þetta er bara lítið brot. PC Magazine fjallaði nýlega um 173 ókeypis forrit..


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband