Lissabon sáttmálinn fegraður í þýðingu

560145

Lissabon sáttmálinn hefur verið þýddur á Íslensku. Sáttmálinn lýsir réttindum og skyldum aðildarríkja í smáatriðum. Þess vegna er mikilvægt að þýðingin sé vönduð og nákvæm en því miður virðist það markmið ekki hafa náðst. Hér eru nokkur dæmi:

2. KAFLI, SÉRTÆK ÁKVÆÐI UM SAMEIGINLEGA STEFNU Í UTANRÍKIS- OG ÖRYGGISMÁLUM, 1. ÞÁTTUR ALMENN ÁKVÆÐI, 24. gr :

“Þau skulu forðast að gera nokkuð það sem vinnur gegn hagsmunum Sambandsins eða kynni að skaða áhrif þess sem afls í þágu samheldni í alþjóðasamskiptum.”

"They shall refrain from any action which is contrary to the interests of the Union or likely to impair its effectiveness as a cohesive force in international relations."

Þetta er rangt þýtt því "Cohesive force in international relations" þýðir “samheldið afl í alþjóðasamskiptum”, en alls ekki “afl í þágu samheldni í alþjóðasamskiptum”.

XXI. BÁLKUR ORKUMÁL 194. gr.

“1. Með tilliti til stofnunar og starfsemi innri markaðarins og með skírskotun til þarfarinnar á að varðveita og bæta umhverfið skal stefna Sambandsins í orkumálum miða að því, í anda samstöðu meðal aðildarríkjanna, að:

a) tryggja starfsemi orkumarkaðarins,

b) tryggja öryggi í orkuafhendingu í Sambandinu, “

"(b) ensure security of energy supply in the Union; "

Þetta telst röng þýðing því “supply” þýðir “framboð” en ekki “afhending” Lið b) ætti því frekar þýða þannig "tryggja öryggi orkuframboðs í Sambandinu." Aðildarríki eru hér að samþykkja að Brussel taki ákvarðanir um öruggt orkuframboð (auðlindina) en ekki bara örugga afhendingu orku.

I. BÁLKUR FLOKKAR OG SVIÐ VALDHEIMILDA SAMBANDSINS 3. gr.

“1. Eftirtalin svið skulu falla undir fullar valdheimildir Sambandsins: a) tollabandalag, b) setning nauðsynlegra samkeppnisreglna vegna starfsemi innri markaðarins, c) peningamálastefna fyrir þau aðildarríki sem hafa evru sem gjaldmiðil, d) verndun lífrænna auðlinda hafsins innan sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar, e) sameiginleg viðskiptastefna. “

"1. The Union shall have exclusive competence in the following areas: "

Exclusive þýðir að sambandið sé alfarið einrátt um þessa málaflokka. Sem mætti þýða "Sambandið skal hafa óskiptar valdheimildir á eftirfarandi sviðum". Þetta skiptir máli því aðildarríkin eru hér að samþykkja að lúta einhliða ákvörðunum ESB í þessum flokkum.

C. YFIRLÝSINGAR AÐILDARRÍKJANNA

“... og Evrópudagurinn 9. maí verða áfram í þessum löndum tákn samfélags borgara í Evrópusambandinu og tengsla þeirra við það. “

"... and Europe day May 9th will for them continue as symbols to express the sense of community of the people in the European Union and their allegiance to it."

Orðið „allegiance" getur þýtt: obligation, commitment, devotion, faith og loyalty. Þarna er á ferð yfirlýsing um hollustu við Evrópusambandið en ekki bara "tengsl" við það.

Finnst einhverjum fleirum en mér að þessar þýðingavillur séu best til þess fallnar að láta þennan grundvallarsáttmála Evrópusambandsins líta út fyrir að vera eitthvað ásættanlegri en hann er í raun og veru? 

Íslensk þýðing: http://www.utanrikisraduneyti.is/media/esb/lissabon-sattmali/Lissabon-heildarskjal.pdf

Enska útgáfan: http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:C:2010:083:FULL:EN:PDF 


Fréttum er hagrætt

Í aðdraganda Icesave kosninga gat verið erfitt fyrir kjósendur að finna hlutlausar fréttir og upplýsingar til að byggja atkvæði sitt á. Fréttablaðið og Morgunblaðið voru augljóslega á öndverðum meiði og það skilaði sér í fréttaflutningi þeirra af málinu. Jafnvel RÚV, sem á samkvæmt lögum að gæta fyllstu hlutlægni, tókst ekki að uppfylla skyldu sína að því leiti.

Það getur verið erfitt að koma auga á það hvenær fréttamiðill hagræðir fréttum og hvenær ekki. Sé það gert á augljósan hátt missir fréttin trúverðugleika og þar með áhrifamátt sinn. Þess vegna þurfa fréttamiðlar að fara fínt í allt slíkt. Aðferðirnar eru nokkuð vel þekktar. Hér eru nokkur dæmi um aðferðir sem hérlendir fréttamiðlar hafa beitt til að “hagræða” fréttum í því skyni að fá fram “rétta” niðurstöðu í Icesave og ESB málum:

1) Velja til birtingar fréttir sem styðja “réttan” málstað

Það er aldrei hægt að gera öllum fréttum jafn hátt undir höfði, velja þarf úr og það val getur verið pólitískt.

2) Velja viðmælanda með “rétta” afstöðu

Oft er leitað til álitsgjafa og sérfræðinga til að varpa ljósi á atburði. Í Icesave málinu leituðu Fréttablaðið og RÚV áberandi oft til álitsgjafa sem töldu farsælla að samþykkja Icesave samningana. Skoðanir Þórólfs Matthíassonar virðist hafa átt mikinn hljómgrunn hjá stjórnendum fréttaskýringaþáttarins Spegilsins á RÚV. Óskað var álits hans 25 sinnum á árunum 2009/2010 (heimild: Svar ráðherra við spurningu þingmanns um efnið.)

3) Skammta “réttu” sjónarmiði meiri tíma / pláss

Til að ljá umfjöllun hlutlaust yfirbragð er vinsælt að gefa fulltrúum beggja sjónarmiða orðið en skammta svo ójafnan tíma. Í prentmiðli er hægt að velja úr tilvitnunum þannig að annað sjónarmiðið fái meira rými. Í sjónvarpi og útvarpi er hægt að klippa til viðtöl í sama tilgangi. Sé um beina útsendingu að ræða, er ekki hægt að klippa hlutina til. En þá er sú leið farin að bjóða fleiri gestum með “rétta” skoðun í þáttinn.

4) Traustari viðmælendur

Tunguliprir sérfræðingar er yfirleitt taldir meira sannfærandi en almúginn á götunni. Þannig mætti sem dæmi spyrja Evrópusérfræðing um kosti aðildar en spyrja síðan leikmann um ókostina.

5) Lævísleg hugtakanotkun

Þegar vissir fjölmiðlar fjölluðu um Icesave kröfuna þá notuðu þeir iðulega “Icesave skuldina”. Evrópusambandið glímir nú við gríðarlega erfiðleika, sumir fjölmiðlar kjósa hins vegar að kenna erfiðleikana ávallt við “Evrópu” en ekki “Evrópusambandið”.

Ber fréttamiðlum að gæta hlutlægni?

Í lögum um RÚV segir að hlutverk almannafjölmiðilsins sé

“að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.”

Fróðlegt væri að gera faglega úttekt á því hvernig RÚV hefur tekist að uppfylla skyldur sínar að þessu leyti í Icesave og ESB málinu. Hve oft skyldi RÚV hafa freistast til þess að beita brellum eins og þeim sem voru tíundaðar hér að ofan?

Öðrum fréttamiðlum en RÚV er ekki skylt að gæta hlutlægni. Blaðamönnum er ekki heldur skylt að gæta hlutlægni í sínum störfum, ef ég skil siðareglur Blaðamannafélagsins rétt.

Verum raunsæ

Það er vissara að reikna með því að allir fréttamiðlar nýti það svigrúm sem þeir hafa til að hafa áhrif á okkur, ekki síst í aðdraganda þjóðaratkvæðis um mikilvæg málefni. Allir fréttamiðlar er hlutdrægir að vissu marki og allir þjóna þeir einhverjum hagsmunum.

Spyrjum því spurninga: Hvaða frétt var ekki birt? Hvers vegna er rætt við þessa viðmælendur en ekki aðra? Er þessi sérfræðingur hlutlaus? Hvað segja hinir fréttamiðlarnir um málið?

Það er skynsamlegt að neyta frétta á gagnrýnin hátt, treysta ekki á einn fréttamiðil, gera samanburð. Það er líka miklu skemmtilegra en að láta mata sig hugsunarlaust.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband