Er hægt að ganga úr Evrópusambandinu?

senso
Aðildarsinnar virðast ekki hafa sérlega miklar áhyggjur af því hvort það sé yfirleitt hægt að ganga úr Evrópusambandinu. Flestir telja útgöngu vel mögulega og vísa í úrsagnarákvæði Lissabon sáttmálans og telja málið þar með afgreitt.
 
Úrsagnarákvæðið
Lissabon sáttmálinn er ótímabundinn, en í 50. grein sáttmálans er úrsagnarákvæði. Samkvæmt ákvæðinu getur aðildarríki tilkynnt úrsögn einhliða og tekur úrsögnin þá gildi innan tveggja ára, nema um annað semjist.

Samkvæmt 50. grein skal semja við útgönguríkið um úrlausnarefni í tengslum við útgönguna og gera framtíðarsamning við ríkið. Greinin segir ekkert um réttindi útgönguríkisins en vísar þess í stað til greinar 218 (3) sem fjallar almennum orðum um milliríkjasamninga sambandsins við önnur ríki. Því má segja að það ríki alger óvissa um þau kjör sem útgönguríkinu myndu bjóðast.

Þótt 50. gr. segi fátt, og ekkert sem tryggir hag útgönguríkisins, þá er ákvæði um að vilji útgönguríki síðar ganga aftur inn, þurfi það að sækja um og semja um aðild eins og hvert annað ríki sem óskar eftir aðild.

Andstætt hagsmunum Evrópusambandsins
Það gætu vaknað óþægilegar spurningar um sjálfan tilverurétt Evrópusambandsins, ef ríki sem gengi út myndi upp frá því taka að blómstra sem aldrei fyrr. Það væri því andstætt hagsmunum Evrópusambandsins að dekra við útgönguríki með hagstæðum útgönguskilyrðum eða góðum viðskiptakjörum til frambúðar.

Engir milliríkjasamningar
Ísland hefur gert viðskiptasamninga við fjölda ríkja og er aðili að evrópska efnahagssvæðinu (EES). Við inngöngu í Evrópusambandið falla þessir milliríkjasamningar Íslands úr gildi. Við útgöngu úr Evrópusambandinu myndi Ísland því þurfa að semja á nýjan leik við fjölda ríkja til að komast aftur í sömu stöðu. Það gæti tekið áratugi. Hvað varðar EES samninginn er algerlega óvíst að Ísland gæti fengið aðild að honum aftur.

Afleiðingar aðildar verða ekki aftur teknar
Innganga í ESB mun hafa mjög víðtækar afleiðingar, ekki síst í sjávarútvegi og landbúnaði. Forsendur margra atvinnugreina munu breytast og þær munu laga sig að styrkjakerfi sambandsins og viðskiptaumhverfi. Ekki er hægt að útiloka að með tímanum yrði slakað á núgildandi hömlum á eignarhaldi erlendra aðila í sjávarútvegi eða á auðlindum.
Við útgöngu úr ESB þyrfti atvinnulífið aftur að aðlagast breyttum aðstæðum og leggja á sig kostnaðarsama aðlögun. Einkum er erfitt að sjá fyrir sér hvernig væri hægt að vinda ofan af eignarhaldi erlendra aðila á innlendum auðlindum, ef til þess kæmi.

Upptaka evru lokar útgönguleiðum
Hafi útgönguríki lagt niður eigin gjaldmiðil og tekið upp evru, þarf það við útgönguna að leita samninga við Evrópusambandið um áframhaldandi aðild að myntsamstarfinu. Það er hins vegar erfitt að sjá hvaða hag Evrópusambandið hefði af því að leyfa slíka aukaaðild.

Útgönguríki gæti varla tekið upp sjálfstæða mynt á nýjan leik, nema hagkerfi þess væri það sterkt að markaðir hefðu meiri trú á nýju myntinni en evrunni. Að öðrum kosti væri fyrirsjáanlegt að nýja myntin myndi veikjast gagnvart evru. Allir sem vettlingi gætu valdið myndu þá senda evrur sínar úr landi áður en þeim yrði skipt í nýja mynt. Hætt er við að fjármagnsflótti myndi bresta á strax við úrsögn úr sambandinu.

Niðurstaða
Því verður ekki neitað að úrsögn úr Evrópusambandinu er tæknilega fær en hún er einfaldlega svo erfið að hún getur vart talist raunhæfur valkostur. Hafi aðildarríki innleitt evru eru yfirgnæfandi líkur á að úrsögn myndi leiða til meiriháttar efnahagsáfalls.

Af þessu leiðir að aðildarríki Evrópusambandsins munu láta ýmislegt yfir sig ganga fremur en að freista útgöngu. Nýlega samþykktu smærri aðildarríkin að láta af hendi 60% af atkvæðarétti sínum í ráðherraráðinu og misstu einnig neitunarvald í 68 málaflokkum. Óskiljanlegt er hvernig þau gátu fallist á slíka breytingu þegjandi og hljóðalaust.

Það ætti öllum að vera ljóst að gangi Ísland í Evrópusambandið verður ekki aftur snúið. Hvort sem sambandið þróast til betri eða verri vegar í framtíðinni, þurfa komandi kynslóðir að sætta sig við aðild sem orðinn hlut.

Tíminn til að efast um aðild er því núna, en ekki eftir inngögu, ef til hennar kemur.


Frosti 5614 : Áherslur

frostinr
Stjórnlagaþing er tækifæri til að koma á nútíma legu og lýðræðislegu stjórnarfari á Íslandi og ég hef mikinn áhuga á að leggja mitt af mörkum í því verkefni. Eftirfarandi eru nokkur atriði sem ég tel vert að hafa í huga við gerð nýrrar stjórnarskrár.
 
Aukin áhrif kjósenda
Það er mikilvægt að tryggja kjósendum aukin áhrif á störf þingsins. Hér getum við lært af 130 ára reynslu Svisslendinga en þar getur hluti kjósenda skotið nýjum lögum til þjóðaratkvæðis eða haft frumkvæði að nýjum lögum.
 
Fullveldið
Aðeins þjóðin sjálf geti tekið ákvarðanir sem skerða fullveldið. Gera ætti kröfu um aukinn meirihluta, enda þarf að vera  breið samstaða um ákvarðanir af þessu tagi.
 
Eftirlit og gegnsæi
Kjósendur eiga að hafa aðgang að öllum opin berum gögnum og geta lagt spurningar fyrir þingið.  Umboðsmaður alþingis á að hafa eftirlit með því að ný lög standist stjórnarskrá.
 
Forsetinn
Margir hafa viðrað efasemdir um tilgang forseta embættisins. Ég tel það ótvírætt kost fyrir smáþjóð að eiga forseta sem hefur aðgang að þjóðhöfðing jum annarra ríkja og stórvelda.
 
Ráðherrar
Þingið kjósi forsætisráðherra en hún/hann velji aðra ráðherra. Þingið þarf þó að hafa trú á því vali. Takmarka ætti þann tíma sem ráðherrar sitja að völdum. Þeir geti ekki verið þingmenn á sama tíma.
 
Kjördæmin
Ég vil skoða kosti þess að kjósa helming þingmanna úr þrímenningskjördæmum en hinn helminginn á landsvísu.  Skoða mætti persónukjör í bland við lista flokkana.
 
Þjóðkirkja
Ég tel ekki mjög brýnt að stjórnlagaþing taki afstöðu til þjóðkirkju. Þetta er mál sem mætti fremur leggja fyrir þjóðaratkvæði.
 
Vöndum til verks
Nýja stjórnarskráin þarf að kveða skýrt á um grund vallar atriði eins og þrískiptingu valds, hlutverk forseta, meðferð dómsvalds, aukið gegnsæi og eftirlit með stjórnvöldum og ýmislegt annað sem of lengi hefur verið of óljóst eða hreinlega vantað.
 
Ég er bjartsýnn á að stjórnlagaþingi takist að semja nýja og mun haldbetri stjórnar skrá en þá sem við höfum í dag.  
 
Kosningarnar verða á laugardaginn og ég vona að þú setjir auðkennistöluna mína 5614 mjög ofarlega á kjörseðilinn og hvetjið sem flesta til þess að gera það sama. 

Hvað heldur aftur af rafrænum kosningum?

Kostnaður við þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave samninginn var áætlaður 230 milljónir, eða álíka og kostnaðurinn við alþingiskosningar vorið 2009. 
 
Kostnaður við kosningu til stjórnlagaþings gæti verið um 100 milljónir og svo verða drög að stjórnarskrá lögð fyrir þjóðina sem kostar 200 milljónir. 
 
Mjög stór hluti kjósenda hefur aðgang að tölvu og gæti því kosið heima hjá sér. Þeir fáu sem ekki treysta sér til að nota tölvu, gætu mætt á kjörstað eða kosið utankjörfundar eða sent atkvæði í pósti. 
 
Það virðist augljóst að tölvuvæðing kosninga myndi spara stóran hluta þess kostnaðar sem fellur til í kosningum og í talningu atkvæða. En hvers vegna hefur þetta ferli ekki verið tölvuvætt? 
 
Í 5. gr. stjórnarskrá er ákvæði um að forseti skuli kjörinn í <span>leynilegri</span> kosningu og í 31. gr. er ákvæði um að þingmenn skulu kosnir í <span>leynilegri</span> kosningu. 
 
Kjósandinn á því að geta kosið án þess að hægt sé að sanna hvað hann kaus. Leyndin er réttur kjósandans. En leyndin virðist líka talin veita vörn gegn því að kjósandinn verði beittur þvingunum eða honum mútað til að kjósa með öðrum hætti en hann ætlaði sér. 
 
Í aðdraganda Icesave kosninganna bauðst DeCode til að útvega kerfi (Íslendingaval) sem gæti tryggt kjósendum nafnleynd í rafrænum kosningum og sparað mikinn kostnað. Ekki var dregið í efa að það kerfi dygði en stjórnvöld afþökkuðu boðið.
 
Í kosningu til stjórnlagaþings er kjósendum ráðlagt að undirbúa sig heima en kjósa á kjörstað. Kosningin fer þannig fram að kjósendur skrifa tölur í reiti á kjörseðlum sem síðan verða skannaðir inn í tölvu. Notaðir verða þrír hraðvirkir skannar sem leigðir voru til landsins í þessu skyni.
 
Enginn efast um að það hefði verið þægilegra fyrir alla að fylla út kjörseðla á netinu heima hjá sér og það hefði dregið mjög úr hættum á villum. Það hefði líka verið miklu ódýrara í framkvæmd og það hefði mátt tryggja nafnleynd kjósenda með t.d. tækni DeCode. 
 
Það er ráðgáta hvers vegna kjörstjórn nýtir ekki tölvutæknina öllum til hagsbóta. Eina skýringin sem ég sé er ótti við að ef kjósendur kjósa ekki einir í kjörklefa þá opnist möguleiki á að þeir verði beittir þvingunum eða mútum til að kjósa með tilteknum hætti.
 
En það má vel minnka líkur á því með öðrum hætti.
 
Leyfa mætti kjósanda að kjósa eins oft og hann vill, skipta um skoðun, þar til kosningu lýkur. Þá getur sá sem vill kaupa eða þvinga kjósandann ekki verið viss um að kjósandinn standi við gefin fyrirheit.
 
Þvingarinn gæti séð við þessu með því að sitja yfir kjósandanum og láta hann kjósa rétt fyrir lokun kosningar. Hver þvingari getur ekki haft auga með mörgum kjósendum á lokamínútum kosninga nema grípa til stórtækra aðgerða. 
 
Til að gera þvingurum enn erfiðara fyrir mætti hafa kjörstaði opna 1-2 í daga eftir að rafrænni kosningu lýkur. Þá getur kjósandinn farið á kjörstað og kosið í kjörklefa. 
 
Til að þvingunaraðgerðir skili tilsettum árangri þarf að þvinga mjög marga kjósendur hugsanlega þúsundir. Ef viðurlög við kosningasvindli eru höfð þung þá verður bæði erfitt að og afar dýrt að finna nógu marga þvingara og kjósendur til að hafa áhrif á úrslit kosninga.  
 
Hætta á þvingun og mútum virðist í raun vera sáralítil og óhætt þess vegna að tölvuvæða kosningaferlið og spara hundruði milljóna með því. 
 
Það er líklegt að kosningaþátttaka muni aukast umtalsvert ef kjósendur þurfa ekki að fara á kjörstað. 
 
Ef það er eitthvað allt annað sem heldur aftur af tölvuvæðingu kosningaferlisins myndi ég gjarnan vilja heyra af því.  Ég vona bara að raunverulega ástæðan sé ekki sú, að stjórnvöld vilji sem sjaldnast hafa kosningar. Þau vilji því hafa þær sem dýrastar og óþægilegastar svo fólk sé ekki að rella um að hafa þær of oft. 

Er Íslendingum treystandi fyrir beinu lýðræði?

 

Stundum heyrast þau sjónarmið að það sé mjög varasamt að fela íslenskum kjósendum málskots- og frumkvæðisrétt. Þeir myndi þá bara hafna lögum um aukna skatta og heimta á sama tíma lög um aukna þjónustu og vera almennt óábyrgir í ákvörðunum. Ríkið færi fjótlega á hausinn.

 

Þessu til stuðnigs er vísað til Kaliforníu sem býr við einhverskonar beint lýðræði og rambar á barmi gjaldþrots. Ef vísað er til góðrar reynslu Svisslendinga af beinu lýðræði þá er hún skýrð í burtu með því að sú þjóð hafi meiri lýðræðisþroska en aðrar þjóðir. Íslendingar séu hinsvegar mjög vanþroska og vísir til að klúðra þessu eins og öllu öðru.

 

Rökin gegn þessari afstöðu eru tvenns konar. Í fyrsta lagi eru leikreglur beins lýðræðis ekki þær sömu í Kaliforníu og Sviss. Í öðru lagi hefur reynslan sýnt að kjósendur verða ábyrgari og sýna meiri skynsemi í ákvörðunum ef þeir fá meiri áhrif.

 

Stigsmunur á Kaliforníu og Sviss

Í Sviss er mikil áhersla lögð á að ná samkomulagi milli þings og þeirra kjósenda sem vilja þjóðaratkvæði um tiltekið mál. Þetta millistig virðist einmitt vanta í Kaliforníu og kannski liggur vandinn í því. 

Þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslunni hafa kjósendur í Sviss yfirleitt val um upprunalega tillögu þingsins og málamiðlunartillögu sem tekur þá mið af sjónarmiðum þeirra sem vildu stöðva lögin. Þjóðin getur hafnað báðum tillögum eða samþykkt aðra hvora. Oft er málamiðlunin valin og útkoman er þá sú að eitthvað tillit er tekið til sjónarmiða þings, minnihlutahópa og meirihluta kjósenda.

 

Hvernig varð þessi ólgandi suðupottur vagga nútímalýðræðis?

Áður en beint lýðræði var tekið upp í Sviss var landið ólgandi suðupottur ólíkra þjóðarbrota, tungumála og trúarbragða. Beint lýðræði var tekið upp í kjölfar borgarastríðs og síðan hefur Sviss verið til fyrirmyndar sem friðelskandi og farsæl þjóð. Í borgarastríðinu fyrir rúmum 130 árum hefðu fáir trúað því að æstur almúginn í Sviss hefði þroska hvað þá vilja til að taka ákvarðanir sem höfðu hag heildarinnar að leiðarljósi. 

 

Lýðræðisþroski og farsæld er bein afleiðing af beinu lýðræði

Í fyrstu gæti virst óábyrgt að fela kjósendum úrslitavald yfir störfum þingsins. En reynslan hefur sýnt hið gagnstæða, að kjósendur eru í eðli sínu varkárir, jafnvel varkárari en þingið. 

 

Það að kjósendur geti skotið öllum nýjum lögum til þjóðaratkvæðis setur jákvæða pressu á þingið að vanda sig og sú freisting að skara eld að köku sérhagsmunaafla hverfur. Enda myndi þjóðin stöðva slíka löggjöf.

 

Reynslan í Sviss hefur sýnt að kjósendur eru íhaldssamari í útgjöldum og ríkisrekstri en þingið. Einnig hefur komið í ljós að þeir kjósendur sem hafa vald til að hafna fjárlögum í sínu umdæmi eru 30% ólíklegri til að svíkja undan skatti en hinir. Kjósendur sem hafa raunveruleg áhrif axla sína ábyrgð frekar en aðrir.

 

Áhrifalausir kjósendur hafa hins vegar lítinn hvata til að setja sig inn í einstök mál á starfstíma þingsins. Valdið til að kjósa út þingmenn er ómarkvisst og gefur kjósendum falskt öryggi. Rödd kjósenda heyrist sjaldan nema þegar áföll dynja á landinu og jafnvel þá taka stjórnvöld lítið mark á kjósendum. 

 

En hafi kjósendur rétt til að skjóta málum til þjóðaratkvæðis, svo ekki sé minnst á frumkvæði að nýjum lögum, þá er vilji þjóðarinnar og ábyrgð alltaf til staðar. 

 

Sagan sýnir að aukin áhrif kjósenda leiða til meiri áhuga þeirra á málefnum og ákvörðunum ríkisvaldsins. Með því dregur úr valdi og áhrifum stjórnmálaflokka. Íbúarnir verða vakandi og upplýstir um eigin málefni og taka virkari þátt í að móta framtíð landsins.

 

Ekkert bendir til þess að Svisslendingar séu svo sérstakir að þeim einum sé treystandi til að ná árangri með beinu lýðræði. Það er orðið löngu tímabært að næsta þjóð taki það skref sem Sviss tók fyrir 130 árum: að treysta kjósendum.


 


Ekki ein niðurstaða um þjóðkirkju

Í samantekt stjórnlaganefndar um niðurstöður þjóðfundar kemur meðal annars þetta fram: 

"Efla skal ímynd Íslands, stuðla að fjölmenningu og aðskilnaði ríkis og trúfélaga."

Hugsanlega hefur þessi samantekt verið gerð í einhverjum flýti því þegar gögnin sjálf eru skoðuð þá kemur einmitt fram að skoðanir hafi verið nokkuð skiptar um hvort gera eigi breytingu á stöðu þjóðkirkjunnar.

Um ýmis önnur mál er hins vegar mikill einhugur t.d. að ráðherra skuli ekki skipa dómara í hæstarétt. Þar er áþreifanleg niðurstaða á ferð.

Hér má nálgast niðurstöður þjóðfundarins á margs konar formi. 

http://www.thjodfundur2010.is/nidurstodur/

 


mbl.is Stjórnarskrá fyrir fólkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða, ágreiningur og lokaorðið

Samstaða um sumt
Nú er áherslur all margra frambjóðenda orðnar aðgengilegar á netinu. Af lestri þeirra að dæma virðist  stefna í breiða samstöðu um verulegar úrbætur á stjórnskipan landsins. Margir frambjóðendur vilja skerpa þrígreiningu valdsins, skýra hlutverk forseta, auka áhrif kjósenda í kosningum, draga úr valdi flokka, styrkja þingið sem löggjafa, velja ráðherra á faglegum grunni, auka gagnsæi og eftirlit með stjórnvöldum, tryggja að farið verði eftir stjórnarskránni og fleiri atriði sem varða bætta stjórnarhætti. Hvað varðar ákvæði um mannréttindi virðast margir frambjóðendur hafa keimlíkar áherslur. Það er því ástæða til bjartsýni um að stjórnlagaþingið geti náð góðri niðurstöðu hvað varðar mannréttindi og bætt stjórnskipulag.
 
Ágreiningur um annað
Um sum atriði virðast skoðanir frambjóðenda vera skiptari. Menn eru ekki á einu máli um hvort fella eigi niður ákvæði um þjóðkirkju, hvort landið skuli vera eitt kjördæmi, hvort setja eigi skorður við framsali fullveldis og fleira. Þótt flestir séu fúsir til að  taka rökum og miðla málum þá gæti samt farið svo að stjórnlagaþing nái ekki samstöðu um sum þessara atriða.
 
Þjóðin hafi lokaorðið
En þá er spurning hvað skal gera? Ein leið væri sú að stjórnlagaþing geri ekki breytingar frá núverandi fyrirkomulagi nema um þær ríki góð samstaða. Önnur leið væri að leggja ágreiningsefnin undir þjóðaratkvæði um leið og stjórnarskrána sjálfa. Sem dæmi þá gætu kjósendur hakað við hvort þeir vilja hafa ákvæði um þjóðkirku í stjórnarskrá. Eflaust væri þetta örlítil flóknara í framkvæmd en kosturinn væri sá að það væri þá þjóðin sjálf sem réði úrslitum.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband