24.11.2009 | 23:19
Frumvarp um (lítinn) stuðning við nýsköpunarfyrirtæki
Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp til laga sem ætlað er að efla nýsköpun í landinu. Samkvæmt því munu nýsköpunarfyrirtæki fá skattfrádrátt vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni og þeir sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum geta fengið skattafslátt. Því miður gengur frumvarpið svo skammt að ólíklegt má telja að það hafi teljandi áhrif á nýsköpun í landinu þótt það verði að lögum.
Það ber þó að taka viljann fyrir verkið og enn er von til þess að bætt verði úr ágöllum enda þarf ekki að breyta miklu til að lögin skili tilætluðum árangri, störfum fjölgi og tekjur ríkissjóðs aukist.
Upphafsgrein lagana mætti vera skýrari en hún lýsir markmiðinu sem er "að bæta samkeppnisstöðu nýsköpunarfyrirtækja og efla rannsóknar- og þróunarstarf". Skýrara væri ef þarna kæmi líka fram eitthvað mælanlegt markmið eins og t.d. "að skapa 1000 ný störf í nýsköpun á árinu 2010".
Óljós skilyrði
Því miður eru skilyrðin óljós og flókin og fyrirtæki geta ekki verið viss um það fyrirfram hvort þau uppfylla skilyrðin eða ekki. Rannís er því falið að meta hvort fyrirtæki uppfylli skilyrði lagana. Rannís gæti þurft marga mánuði til verksins. Á meðan bíða fyrirtæki í óvissu.
Það væri mun betra ef skilyrðin væru svo skýr að flest fyrirtæki gætu beðið endurskoðanda sinn að skera úr um málið. Rannís gæti þá einbeitt kröftum sínum að því að skera úr um þau jaðartilfelli sem upp koma.
Útilokar flest sprotafyrirtæki
Skilyrði fyrir skattfrádrætti vegna þróunarkostnaðar eru m.a. þau að fyrirtækið leggja út 20 mkr til rannsókna- og þróunar á komandi 12 mánuðum. Þetta útilokar fyrirtæki sem hafa færri en 3-4 við rannsóknarstörf.
Fyrirtæki þurfa að vera enn stærri til þess að kaupendur að hlutabréfum þeirra njóti skattfrádráttar. Þau skulu hafa varið 40 milljónum á ári til rannsóknar- og þróunar undanfarin tvö ár. Þetta útilokar augljóslega fyrirtæki sem eru yngri en tveggja ára og væntanlega líka þau sem hafa haft færri en 8 starfsmenn í þróunarstörfum undanfarin tvö ár.
Það verður að teljast afar óheppilegt ef lögin nýtast ekki smærri fyrirtækjum með stutta sögu t.d. þeim fjölmörgu sprotafyrirtækjum sem hafa sprottið upp í kjölfar hrunsins.
Skiptir litlu máli fyrir stærri fyrirtæki
Þau fyrirtæki sem uppfylla skilyrði um frádrátt vegna þróunarkostnaðar geta dregið 15% af útlögðum kostnaði frá skatti. Þó er sett hámark við 50 mkr. sem þýðir að hámarks frádráttur fyrir hvert fyrirtæki er ekki nema 7.5 milljónir sem er rúmlega kostnaður við einn auka starfsmann á ári.
Stærri fyrirtæki munu því ekki ráða marga nýja starfsmenn á grundvelli þessara laga, sem er mjög miður.
Hámörk skattafsláttar vegna fjárfestingar eru allt of lág
Einstaklingar geta árlega dregið frá skattskyldum tekjum sínum 300 þúsund kr. af kaupverði nýrra hlutabréfa í nýsköpunarfélögum. Þessi upphæð er því miður allt of lág. Nýsköpunarfyrirtæki þyrfti samkvæmt þessu að afla 20 nýrra hluthafa til að fjármagna eitt stöðugildi við rannsóknir. Það væri miklu vænlegra ef fjárhæðin væri 1-3 milljónir á mann.
Lögin gefa heldur ekkert svigrúm fyrir rekstur sjóðs til að fjárfesta í Nýsköpunarfyrirtækjum en slíkur sjóður gæti boðið einstaklingum áhættudreifingu, lagt faglegt mat á fyrirtækin og þau myndu fá einn stóran hluthafa í stað fjölmargra smárra. Þetta er galli.
Hvers vegna þrenn áramót?
Það má færa góð rök fyrir því skilyrði að fólk eigi hlutabréfin yfir tvenn áramót en krafa um eignarhald yfir þrenn áramót (rúmlega tvö ár) gerir lítið annað en að fæla einstaklinga frá því að taka þá áhættu sem felst í því að kaupa hluti í nýsköpunarfélögum. Sjá Mál 82
Hvers vegna svona flókið?
Þessi lög eru sögð byggja á Norskri fyrirmynd. Ekki vil ég amast við því að við leitum í reynslubanka nágrannaþjóða, en kannski er þetta kerfi ekki einfaldasta leiðin til að ná markmiðinum.
Ef menn vilja hvetja Nýsköpunarfyrirtæki til að vera djarfari í sókn og atvinnusköpun þá mætti líka læra af reynslu frænda okkar í Kanada. Þar fá nýsköpunarfyrirtæki einfaldlega endurgreidd 30% af útborguðum launum við rannsóknir þróunarstörf. Nánast sama fjáræð og starfsmaðurinn greiðir í tekjuskatta. Ekkert hámark eða lágmark á fjölda starfsmanna. Kerfið er einfalt og öll nýsköpunarfyrirtæki sitja við sama borð.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 25.11.2009 kl. 14:22 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þessa samantekt.
Ég fann ekki í hvaða grein er talað um eignarhaldstíma yfir þrenn áramót! En þetta gæti verið flókið í framkvæmd, sér í lagi 14. gr. um hlutafjáraukningu en ekki kaup á bréfum milli manna. Líka spurning hvernig stofnun er "sambærileg við Rannís" erlendis. (Ath. að 300 þús. vegna hlutabréfakaupa dregst frá tekjum, ekki tekjuskatti.)
Hvað sem segja má um frumvarpið í heild þá held ég að fullyrða megi að greiðslur til fyrirtækja skv. 11. gr. séu algjör nýmæli.
Haraldur Hansson, 25.11.2009 kl. 00:29
Góð grein Frosti.
Ég hef tilfinningu fyrir því að það sé rétt ályktað hjá þér að þetta geti tekið Rannís marga mánuði. CLARA er með styrk frá Rannís sem greiða á þrisvar á ári á ákveðnum tíma. Vegna álags hjá þeim - sem reyndar er skiljanlegt, umsóknir til þeirra hafa þrefaldast - hafa þarsíðustu og síðustu greiðslur þeirra frestast um 2-4 vikur. Þið getið rétt ímyndað ykkur hve erfitt er að áætla sjóðstreymi sprotafyrirtækis í svona óvissu.
Gunnar Hólmsteinn (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 01:18
Þetta nýsköp sem ég þýða eins og inovation á ensku kom fram um 1987 í Júgóslavíu. Staðan þar þá og hér nú er bara mjög svipað. Úr nýsköpum var ekkert, þar sem allir tala bara um en frumkvöðlar eru skilinn eftir í súpuni.
Veit þetta vel því ég stunda hlutir sem mjög fáir í heiminum og jafnvel ríkistjórn Íslands og/eða borgarstjórn vil ekkert um það að segja. Þetta þýðir að best væri að stunda nýsköpun og selja svo út. Engin græðir hér á því sem er einmitt kerfinu að kenna. Og kerfi kemur frá ríkistjórninni. Svo einfalt er það að ég er hættur að skrifa og tala hér innanlands, þeir ná mig því miður ekki og er ástæða aðallega í fyrirvonandi sjúkdómum þeirra og andlegu ástandi ráðamanna eða aðra sem varðar því dæmi.
Andrés.si, 25.11.2009 kl. 13:53
Haraldur, takk fyrir ábendinguna um frádrátt frá tekjum, lagaði það.
Krafa um eignarhald yfir þrenn áramót kemur fram í þingskjali nr. 82 sjá http://www.althingi.is/altext/138/s/0082.html
Frosti Sigurjónsson, 25.11.2009 kl. 14:26
Sæll FrostiTakk fyrir þessa bloggfærslu. Það gott mál að skapa umræðu um málið og ekki síst ræða um metnaðarfull markmið í sköpun starfa í því sambandi. Tek heilshugar undir þau markmið sem þú setur fram og tel þau reyndar mjög raunhæf sérstaklega ef þessum frumvörpun fylgir samhliða efling Tækniþróunarsjóðs. Snilldin við frumvörpin er einmitt sú að þau kosta ríkissjóð ekki krónu á árinu 2010, en afla þess í stað tekna fyrir ríkissjóð. Hluta þessara tekna þarf að nota strax til að efla Tækniþróunarsjóð og þannig skapa mjög áhugaverða skjálfstyrkjandi bylgju í nýsköpunarstarfi fyrirtækja. Við hjá SI, SUT (Samtökum upplýsingatæknifyrirtækja), SÍL(Samtökum íslenskra líftæknifyrirtækja, IGI (Icelandic Gaming Industry) og SSP (Samtökum sprotafyrirtækja) höfum barist lengi fyrir því að koma á þessu endurgreiðslukerfi fyrir rannsókna og þróunarverkefni að norskri fyrirmynd. Ástæðan er einföld - "einfaldar og skýrar leikreglur og hraðvirkt kerfi sem búið er að sanna gildi sitt í Noregi". Íslenska frumvarpið hefur því miður nokkra vankanta sem við höfum einmitt bent á og vonum að verði lagfærðir í höndum þingsins áður en það verður að lögum. Þú bendir á nokkra þeirra - og í raun þarf ekki að laga mikið til sníða þessa vankanta af og standast samanburð við það norska.Þar vega þyngst í þingmáli 82 skilyrðin um 20 milljón kr. framlag til R&Þ til að koma til greina fyrir endurgreiðslu og síðan hitt að 15% endurgreiðsluhlutfall er að okkar mati of lágt til að standast samkeppni við Noreg sem bíður 20-22%. Við höfum lagt til að þessi mörk verði sett á 5 milljónir kr. og 20%. Hvers vegna eiga íslensk fyrirtæki að sætta sig við verri starfsskilyrði en nágrannaþjóðirnar? Í þingmáli 81 bendir þú réttilega á að svigrúmið um 300 þús pr. einstakling er allt of lágt, sérstaklega ef það á líka að nýtast sem hvatning fyrir frumkvöðlana og starfsmenn fyrirtækjanna. Þarna höfum við lagt til að mörkin verði sett við 2,5 millj. pr. einstakling (5 fyrir hjón) eða til vara 1 millj kr. pr. einstakling með viðbótarheimild upp á 1,5 fyrir frumkvöðla og starfsmenn nýsköpunarfyrirtækja. Við höfum hins vegar minni áhyggjur af 40 milljón kr. girðingunni í gr. 6 (mál 82) því hún að aðeins önnur tveggja girðinga sem fyrirtækin geta farið yfir. Ef þú lest greinina betur þá sérðu að greinin inniheldur tvær girðingar þar sem sú lægri er alltaf greiðfær (nóg að uppfylla annað skilyrðið). Greinin er svohljóðandi svo það fari ekki milli mála hvað við erum að ræða um:"1. að rannsóknar- og þróunarkostnaður samkvæmt ársreikningum lögaðilans undanfarin tvö af þremur árum næst á undan umsóknarári hafi numið meira en 1,5% af rekstrartekjum eða rekstrarkostnaði eftir því hvor fjárhæðin er hærri, eða varið hafi verið a.m.k 40 millj. kr. til rannsókna og þróunar á ári undanfarin tvo ár",...Greinin er svolítið tormelt, en ég vek athygli þína á feitletraða lykilorðinu "eða" í þessari lagagrein. Þetta þýðir á mannamáli að öll fyrirtæki sem verja 1,5% af tekjum/kostnaði í R&Þ eiga rétt á þessu, hins vegar geta þau (lesist stór fyrirtæki) líka komið þarna inn ef þau verja 40 millj.kr. í málaflokkinn þó þau nái ekki 1,5% markinu! Þetta eru ekki ósanngjörn skilyrði – við gerum því enga athugasemd við þessa grein!Áhyggjur þínar af því að fólk þurfi að eiga bréfin sín yfir þrjú áramót teljum við líka óþarfar - þetta er góð leið til að losna við bólur og skammtímagræðgi - fyrirtækin þurfa meira á þolinmóðum fjárfestum að halda sem ekki eru á höttunum eftir skammtímagróða - við erum búin súpa seiðið af þeim þankagangi áður - nú er kominn tími til að byggja upp til framtíðar.Þú hefur líka áhyggjur af flækjustigi og afgreiðslutíma Rannís sem við höfum líka bent að geti valdið töfum. Við höfum lagt áherslu á að við þessu verði brugðist strax í upphafi svo ekki myndist óþarfa flöskuhálsar. Við verðum að trúa því að þarna vilji menn leggja sig fram og sanna getu sína. Að lokum bendir þú líka á mikilvægan valkost að hægt sé að nálgast þessar fjárfestingar með fjárfestinum í sjóðum . Þessa athugasemd höfum við líka gert, en skilyrðið fyrir þessu er að viðkomandi sjóður fjárfesti eingöngu í fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði frumvarpsins og að beina leiðin sé líka opin fyrir þá sem heldur vilja kjósa hana.Framangreind samtök fagna þessum frumvarpsdrögum í trausti þess að nauðsynlegar lagfæringar verði gerðar á þeim áður en þau verða að lögum. Ef svo verður gert þá er hér um að ræða eitt markverðasta framlaga til nýsköpunar og uppbyggingar nýsköpunarfyrirtæja sem komið hefur fram í seinni tíð hér á landi. Um það ættum við öll að gera verið sammála.Tengill á athugasemdir SI, SÍL, SSP, SUT og IGI: http://www.si.is/media/logfraedileg-malefni/umsogn_um_tingmal_81_og_82.pdfKveðja Davíð
Davíð Lúðvíksson (IP-tala skráð) 26.11.2009 kl. 13:15
Davíð, þakka þér kærlega fyrir þetta fróðlega innlegg.
Ég get tekið undir hvert orð hjá þér.
Ef þessar lagfæringar ná fram að ganga, þá verða þessi lög mikið framfaraskref.
Frosti Sigurjónsson, 26.11.2009 kl. 23:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.