1.9.2009 | 17:04
Greinin sem Morgunblaðið birti ekki
Meðfylgjandi er grein sem ég sendi Morgunblaðinu nokkrum dögum áður en alþingi greiddi atkvæði um umsókn inn í Evrópusambandið. Greinin var af einhverjum ástæðum aldrei birt sem var auðvitað mjög leitt. Hér kemur greinin í heild sinni.
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa gert tillögu um að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu en aðildarviðræður geta ekki hafist án þess að slík umsókn sé lögð fram áður. Þegar taka skal ákvörðun af slíkri stærðargráðu hlýtur það að teljast lágmarkskrafa að allur undirbúningur sé sérstaklega vandaður og sem breiðust samstaða um málið.
Asi og óeining
Tillaga stjórnarflokkana ber þess hinsvegar merki að vera unnin í flýti og í beinni andstöðu við stóran hluta þingheims og líklega meirihluta landsmanna, ef marka má nýlegar skoðanakannanir. Tillagan innifelur hvorki skýr markmið né áætlun um ávinning af aðild. Ekkert mat er lagt á kostnað við umsóknar- og samningsferlið sem þó hlýtur að nema hátt í milljarð eða jafnvel meir. Slíka fjárfestingu ætti aldrei að leyfa nema sterk rök fylgi um mikinn ávinning fyrir þjóðina.
Aðild að ESB er engin lausn
ESB mun ekki greiðar skuldir Íslands og það tekur mörg ár, ef ekki áratugi að uppfylla skilyrði um evruaðild. Þrátt fyrir aðild að ESB, glíma Írar, Spánverjar, Grikkir, Pólverjar og Lettar við gríðarlegan efnahagsvanda en fá litla aðstoð frá ESB. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er kallaður inn. Það er því ljóst að ESB aðild hvorki hindrar aðildarþjóðir í að gera mistök né forðar þeim úr vanda. Við þurfum að leysa sjálf úr okkar vandamálum.
Gríðarlegur kostnaður við umsókn
Fyrri ríkisstjórn eyddi hálfum milljarði í draum um sæti í öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna. Það mistókst. Ljóst er að samningaferlið við ESB verður enn dýrara. Það mun standa í tvö ár hið minnsta og útheimta gríðarlega vinnu sérfræðinga, ráðuneyta og sendinefnda. Heimsækja þarf ráðamenn 27 aðildarríkja til að hvetja þá til að samþykkja umsókn Íslands og líka til að afla fylgis sjónarmiðum okkar um varanlegar undanþágur frá sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu ESB og fleira í þeim dúr. Jafnvel þótt samningaferlið kostaði okkur "bara" einn milljarð væru það samt gríðarleg útgjöld fyrir þjóð sem þarf að leggja í sársaukafullann niðurskurð á öllum sviðum.
Sundrung á versta tíma
Umsókn um aðild að Evrópusambandinu varðar sjálfstæði þjóðarinnar. Þetta er þegar orðið mikið hitamál sem mun skipta þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar einmitt þegar það er mikilvægara en nokkru sinni að allir vinni saman að því að vinna landið upp úr kreppuni.
Óvissa ríkir fram að þjóðaratkvæðagreiðslu
Aðildarsinnar gefa sér að óvissu sé eytt með því að leggja inn umsókn og útlendingar fái þá strax meira traust á landinu. Töluverðar líkur eru hins vegar á því að þjóðin muni hafna aðild. Skoðanakannanir benda til þess að meirihluti landsmanna vilji ekki ganga í ESB og fylgi við aðild hefur farið minnkandi. Skynsamir útlendingar munu því áfram vera í óvissu um aðild þar til þjóðaratkvæði hefur farið fram um samninginn.
Spyrjum þjóðina áður en gert er bjölluat hjá 27 evrópulöndum
Norðmenn hafa í tvígang fellt aðildarsamninga við ESB. Kostnaður var mikill og samskipti urðu stirðari við Evrópu í nokkurn tíma á eftir. Nú eru sáralitlar líkur á að Norðmenn sæki um aftur nema yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar sé því fylgjandi í skoðanakönnunum. Getum við kannski lært eitthvað af reynslu Norðmanna? Góð byrjun væri að kynna þjóðinni kosti og galla aðildar með hlutlausum hætti, þýða Lissabon sáttmálan hvetja til umræðu og kanna hug þjóðarinnar með skoðanakönnunum.
Kynnum okkur fyrst það sem hægt er að vita
Aðildarsinnar halda því fram að það sé ómögulegt að komast að því hvað felst í aðild nema sótt sé um og gengið til samninga. Þetta er alrangt því það er til miklu ódýrari og fljótlegri leið. Allir sáttmálar, reglur og aðildarsamningar Evrópusambandsins liggja fyrir. Við getum nú þegar vitað 95% af því sem máli skiptir að vita. Það er reyndar með ólíkindum að ekki sé búið að þýða Lissabon sáttmálann og kynna hann áður en þingið er krafið um að móta afstöðu til aðildarumsóknar.
Óraunhæfar væntingar um undanþágur
Væntingar aðildarsinna um varanlegar undanþágur frá meginreglum ESB virðast óraunhæfar ef eitthvað er að marka orð embættismanna ESB. Aðrar þjóðir hafa ekki fengið umtalsverðar varanlegar undanþágur og spurning hvers vegna þær ættu að una Íslandi þess að fá undanþágur sem þeim var sjálfum neitað um. Sambandinu er meinilla við undanþágur. Samningstaða okkar gæti ekki verið slakari en einmnitt núna. Jafnvel þótt einhverjar varanlegar undanþágur fengjust á einhverjum sviðum er óvarlegt að treysta því að þær haldi til langframa. Evrópusambandið er í stöðugri þróun og hún hættir ekki þótt Ísland gangi í það.
Tillaga ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn er illa undirbúin, hún er nýtur hvorki fylgis þings né þjóðar. Ávinningur af henni er óljós og væntingar ríkisstjórnar um undanþágur eru óraunhæfar. Fyrirsjáanlegur kostnaður er gríðarlegur. Málið er til þess fallið að sundra þjóðinni einmitt þegar hún þarf að vera samstíga í lausn aðsteðjandi vandamála.
Meginflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.9.2009 kl. 09:17 | Facebook
Athugasemdir
Já, Frosti, það var mjög óheppilegt, að þessi góða grein þín skyldi ekki birtast í Morgunblaðinu. En ég þakka góðan lesturinn.
Jón Valur Jensson, 1.9.2009 kl. 17:14
Tiltekin efnistök virðast ekki eiga upp á pallborðið hjá fjölmiðlum. Takk fyrir að birta greinina hér.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 1.9.2009 kl. 17:28
Sæll Frosti,
ertu vikrilega að segja satt með að gamli Mogginn minn hafi neitað að birta greinina? Eða birtu þei hana bara ekki og sögðu þér ekki frá því? Væri fróðlegt að heyra hvort hafi verið? Kær kveðja
Baldvin Jónsson, 1.9.2009 kl. 17:55
Greinin þín Frosti er stórhættuleg - fyrir aðildarsinna.
Páll Vilhjálmsson, 1.9.2009 kl. 17:55
Það er sérkennilegt að sjá svona nálgun: Frosti skrifar:
"Það er því ljóst að ESB aðild hvorki hindrar aðildarþjóðir í að gera mistök né forðar þeim úr vanda. Við þurfum að leysa sjálf úr okkar vandamálum."
Þú vilt semsagt ekki ganga í ESB vegna þess að það felur ekki í sér nógu mikið afsal af sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar. Fyrst hún þarf að greiða sjálf úr eigin vandamál tekur það því ekki.
Get ekki séð beutur en "Páll-þjóðrembingur -Vilhjálmsson sé sammála!
Er það grunnur andstöðunnar, að við þyrftum að hafa of mikið fyrir hlutunum - ef við gengjum í ESB, speninn gæfi ykkur bara ekki nógu mikið.
Aðildarsinni (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 18:18
Þetta er afar skýr og skilmerkileg grein,
þó held ég að milljarður í kostnað sé
töluvert vanmat miðað við síðustu upplýsingar
um þýðingakostnað. Kannski menn geti komist
niður í þá tölu með því að reikna vinnu
þeirra sem eru "hvort eð er á launum" á
0 kr.
Athugasemd "Aðildarsinna" er spaugsamur
útúrsnúningur. Frosti er með málsgreininni
sem um ræðir að svara söng Evróputrúboða
um að ósýnileg hönd Evrópusambandsins
hefði komið í veg fyrir kreppuna og mundi
bjarga öllu, bara ef Ísland væri í sambandinu.
Allt er það vitaskuld tómt bull, en því miður
hefur síbylja trúboðsins gert að verkum að
margir trúa hinu gagnstæða.
Haraldur Ólafsson (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 19:03
Baldvin, skýringin var nú bara þessi: "Ég er hrædd um að grein þín hafi "brunnið inni" hjá okkur."
Frosti Sigurjónsson, 1.9.2009 kl. 21:21
Það er góður punktur að það er engin trygging fyrir því að undanþágur eða sérkjör haldi. Sjá t.d. þessa færslu mína um "hlutfallslegan stöðugleika." http://swesk.blogspot.com/2009/07/hlutfallslegur-stougleiki.html
Kristján Valur Jónsson (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 21:27
Ekki það að ég sé nú sérstaklega mikill evrópu sinni. En mikið lifandis skelfingingar ósköp hvað þessu landi er og hefur alltaf verið illa stjórnað í efnhagsmálum alla okkar hundstíð (danska og íslenska krónan var skilin í sundur eitthvað um 1920 og restina vita flestir). Sem fyrr segir er ég ekki evropu sinni en ég er farinn að þrá stöðuleika og því miður held ég að ísland með sína stjórnmálamenn komi aldrei til með að geta fært mér hann. Tengslin eru of mikil og viljinn til að breyta of lítill, við virðumst ekki geta fundið þetta hárfína strik milli atvinnuleysis og verðbólgu. En einhverju þarf að breyta annars kveð ég þetta land börnin mín eiga það skilið.
Jón bróðir (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 22:38
Þú færð aldeilis lesninguna, samherji, enda vel að henni kominn!
Jón Valur Jensson, 2.9.2009 kl. 01:11
Hafðu þökk fyrir Frosti að birta greinina hér og gefa mér tækifæri til að lesa hana
Þórólfur Ingvarsson, 2.9.2009 kl. 03:41
Takk fyrir góð skrif Frosti. Eitt af því sem hrjáir aðildarsinnar er m.a. það að þeir halda að Íslendingar fái einhverjar sérmeðferð eða njóti botnlausra sérkjara - af því við séum svo sérstök. Sannleikurinn er hins vegar sá að ESB hefur í raun engan sérstakan áhuga á okkur, við getum ekki verið með neinn stórkallahátt, við förum í gegnum alla ferla við umsókn eins og aðrir og greiðum atkvæði í samræmi við íbúafjölda okkar - það heyrist ekki mikið í slíku fólki.
Og gleymum ekki staðreyndum - í dag eigum engin sérstök tromp á hendi til að veifa til stóru þjóðanna - við erum á hausnum.
Auður Pálsdóttir (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 08:59
Þetta er góð og vönduð grein Frosti, þakka þér fyrir að miðla þessum hugsunum þínum með okkur hinum. Alvarlegt þykir mér að Morgunblaðið skuli halda grein sem þessari frá lesendum sínum, bara til þess að halda þessum sjónarmiðum frá fólki, en þessi sjónarmið eiga fullan rétt á sér.
Tómas Ibsen Halldórsson, 2.9.2009 kl. 12:03
Þrælgóð grein hjá þér Frosti. Ég veit ekki í hvaða hugarástandi eða heimi þessi aðildarsinni sem getur ekki komið fram undir nafni er en hann er allavega ekki að fatta um hvað málið snýst.
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 12:05
Mér finnst svoldið merkilegt að alls kyns náungar, eins og þú, séu að fullyrða að þjóðin sé á móti hinu eða þessu og vísa í einhverja skoðanakannanir. Vilji þjóðarinnar allrar getur bara komið fram í allsherjar kosningum. Ég vil sækja um aðild að Esb og mér finnst óþolandi að náungar sem ég þekki ekkert þykist tala fyrir alla þjóðina. Ég var á móti þessu en skipti um skoðun eftir hrunið. Hvað er svona ljótt við þetta? Þegar aðildarsamningur liggur fyrir kjósum við um hann. Viljið þið virkilega reka þetta land svona áfram? Endalausar rússíbanareiðir og ekkert hægt að gera langtíma áætlanir. Frosti, þú talar bara fyrir þig sjálfan, ekki þjóðina alla.
Jakob Ólafsson (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 13:52
Jakob þegar ESB áróðurinn er rekinn þannnig að hann sé einhverskonar lausn þá er það stórt vandamál. Við erum að setja þjóðina inní samkomulag sem verður ekki hlauðið frá.
Slíkar ákvaðarnir ættu með réttu að taka þegar við höfum unniuð úr okkar málum og getum tekið þessa ákvörðun pressulaust.
Evrópuaðild hjálpar ekki við að leysa vandan.
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 14:02
"Við erum að setja þjóðina inní samkomulag sem verður ekki hlauðið (hlaupið) frá."
Einmitt það!
"Evrópuaðild hjálpar ekki við að leysa vandan".
En hjálpar það að hlaupa frá honum? Sennilega ættu 'íslendingar' að biðja um núja ólympiska grein: hver getur hlaupið hraðast og lengst frá vandanum.
Til Frosta: mér finnst að Mbl hefði átt að birta þessa grein. Þó finnst mér hún ekki varpa neinu nýju ljósi á umræðuna. Hún er meira einsog samantekt yfir umræðuna á blogginu einsog ESB andstæðingar hafa flutt mál sitt. Sennilega hefur mbl fundist að allt sem þarna stendur þegar verið sagt og birt á síðum blaðsins í aðdraganda umræddrar atkvæðagreiðslu á þingi og því ekki upplýsa málið frekar. Amk er ekki annað hægt að sjá af viðbrögðum þeirra sem bara blogga gegn ESB en að þú fáir hæstu einkunn.
Gísli Ingvarsson, 2.9.2009 kl. 14:29
Gísli Ingvarsson, þetta er ómerkilegt neðanbeltisskot hjá þér og afhjúpar sjálfan þig. Frosti talar með fullgildum rökum og á ljósan hátt og skýran eins og hann hefur hæfileika til.
Jón Valur Jensson, 2.9.2009 kl. 23:17
Sæll villtst einhvernvegin hérna inn og ég get sagt þér frá öðrum manni sem sendir greinar til fjölmiðla ekki bara moggans heldur allra fjölmiðla og þar er allstaðar sama svarið NEI VIÐ BIRTUM ÞETTA EKKI (utan við bændablaðið) og þessi maður er formaður bændasamtaka íslands Haraldur Benediktsson.
Og þessar greinar sem hann er að senda inn eru ekki hans eigin hugrenningar heldur samdar af sérfróðum mönnun innanlands sem utan.
Og afhverju neita allir fjölmiðlar jú Bændasamtökin hafa skýra stefnu eru á móti aðild að ESB og hefur Haraldur verið að reyna að koma að mótrökum við aðildarsinna en því er bara ekki hleypt að þess vegna nær þessi uræða aldrei neinum vitsmunalegum hæðum því hún er mjög einhliða og einkennist af röklausum draumórum aðildarsinna sem aldrei eru rökstuddir neitt bara hent fram eins og þetta með matvælaverð muni lækka mikið við aðild ég spyr afhverju ætti að að gerast? íslenskar kartöflur njóta tollverndar fram í júlí minnir mig og þá byrja búðir að flytja inn ætti þá ekki verð að lækka? og nei verðið hækkar hvernig stendur á því? er ekki allt ódýrara úti heimi,ofl dæmi t.d með kjúklingin hann kostar birgja það sama í innkaupum þ.e.a.s innfluttur og innlendur en hvað kostar hann útí búð okkur er gefin sá útlenski en borgum augun úr fyrir þann innlenda.
Þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur að koma okkar rökum fram gegn inngöngu því áróðurinn er yfirgengilegur.
einar örn aðalsteinsson (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 14:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.