Gauti B. Eggertsson og ógeðsdrykkurinn ICESAVE

gauti_eggertsson

Dr. Gauti, sem er yngri bróðir Dags, varaformanns Samfylkingarinnar kallar Icesave samninginn ógeðsdrykk sem verður að kyngja. Ef það verði ekki gert telur hann að allt fari á versta veg samanber eftirfarandi upptalningu: 

EES samningurinn er í húfi og þar með gífurleg útflutningsverðmæti.
Samskipti okkar við norðurlönd.
Allar lánalínur.
Lánshæfnismat íslenska ríkisins, sem hefur bein áhrif á lánshæfni allra íslenskra fyrirtækja.
Samskipti við fjölmörg fjármögnunarbatterí eins og Þróunarbanka Evrópu sem fjármagnar orkuverin að einhverju marki.
Öll fyrirgreiðsla alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
Og svo framvegis
Hætt er við algeru frosti í viðskipum okkar við útlönd.
Kannski er eitthvað hægt að klóra eitthvað í bakkann um þennan ömurlega samning -- sem ég játa að mér lýst ömurlega á -- en mér sýnist enginn kostur annar í stöðunni. Það verður að samþykkja hann. Sorrý.Þetta er ógeðsdrykkur sem verður að kyngja.

 

Hagfræðidoktorinn segir ennfremur að ábyrgð þeirra manna, sem ætli að fella samninginn, sé afskaplega þung og mikil.

 

Þeir verða að skýra út vegvísana í þeirri háskaför sem við tekur ef samningurinn fellur.

Eitt er víst, Ríkisstjórnin er þá fallinn ef icesave fellur á Alþingi. Ef nokkrir þingmenn VG ætla að fella samninginn, verða þeir að útskýra hvernig hin nýja ríkisstjórn lítur út. Það er á þeirra ábyrgð að mynda starfhæfa ríkisstjórn með Framsókn, Sjálfstæðisflokki og Borgarhreyfingunni.
 
Um hvað yrði nýja ríkisstjórnin? Icesave, jú það er væntanlega málið að fella þann samning? Og svo yrði líklega fyrsta verk hinnar nýju ríkisstjórnar að draga til baka umsókn í ESB? Væri það óneitanlega táknrænt um einangrun landsins. Kannski rétt að segja sig úr nato líka og sameinuðu þjóðunum? Taka bjart í sumarhúsum á þetta?
Fara að snúa sér aftur að því að lifa á harðfiski, hákarli, slátri og sviðakjömmum?

 

Það er gagnlegt að skoða þessa ógnvekjandi upptalningu nánar og kanna hversu líklegt sé nú að þetta færi eins og Gauti óttast.

EES samningurinn í húfi?

Hvers vegna? Sá samningur er alls ekki í húfi þótt við höfnum ICESAVE því EES lög hafa ekki verið brotin á nokkurn hátt. Ísland hefur einmitt farið að lögum ESB um tryggingasjóð innistæðna í öllum atriðum. Það er hvergi sagt í þeim lögum að það skuli vera ríkisábyrgð á tryggingasjóði. 

Samskipti okkar við Norðurlönd?

Við þurfum að upplýsa frændur okkar á norðurlöndum um það hvers vegna íslenskum heimilum ber ekki að ábyrgjast skuldir einkabanka. Ríkisstjórnin hefur frá upphafi látið undir höfuð leggjast að halda uppi okkar málstað í þessu máli en það er ekki of seint að bæta úr því. Norðurlandabúar munu ekki taka afstöðu með því að íslenskur almenningur verði beittur órétti.

Allar lánalínur?

Færeyjingar settja engin skilyrði fyrir lánum. Pólverjar ekki heldur. Svíar hafa tekið sérstaklega fram að lánin frá þeim megi alls ekki renna í ICESAVE hítina.  AGS mun lána enda er það hagsmunamál allra þeirra sem eiga inni fé á Íslandi. 

Lánshæfismat ríkisins og fyrirtækja?

Lánshæfismat mun einmitt versna ef við bætum ICESAVE skuldinni (500-1000 milljarðar) við þessa 2000 milljarða sem við skuldum í erlendum gjaldeyri. Það stangast á við heilbrigða skynsemi að halda öðru fram.

Samskipti við fjölmörg fjármögnunarbatterí eins og Þróunarbanka Evrópu?

Kannski, kannski ekki. Ég hef ekkert heyrt um að þessi batterí setji skilyrði um að Ísland taki á sig ICESAVE.

Öll fyrirgreiðsla Alþjóða gjaldeyrissjóðsins?

Nei, sá sjóður hefur aldrei sagt að Ísland þurfi að samþykkja ICESAVE enda væri það óhæfa. Bretar og Hollendingar beita eflaust þrýstingi en það mun ekki duga til lengdar. Ísland hefur uppfyllt ÖLL skilyrði sem AGS hefur sett um fyrirgreiðslu. Við megum ekki gleyma því að AGS er hér til að gæta hagsmuna kröfuhafa og þeir felast í því að lána ríkinu og halda því að verkáætlun AGS.

Hætt er við algeru frosti í viðskiptum við útlönd?

Þetta er með ólíkindum ólíklegt. "Útlönd" munu aldrei setja viðskiptabann á Ísland þótt það eigi í lögfræðilegum ágreiningi við tvö ríki. Það er ekki gripið til slíkra þvingana almennt. Bretland og Holland gætu ákveðið að setja einhverskonar þvinganir á Ísland en það er afskaplega ólíklegt enda á eftir að reyna dómstólaleiðina.

Ríkisstjórnin fellur?

Er þetta slæm afleiðing eða góð? Ég held bara að við gætum ekki fengið verri ríkisstjórn en þá sem hefur látið gæluverkefnið ESB og ógeðsdrykkinn ICESAVE ganga fyrir því að takast á við raunveruleg vandamál.

Draga aftur ESB umsókn og einangra landið?

Þetta er bull. Sviss drógu aftur sína ESB umsókn, eða settu hana í bið fyrir mörgum árum og hafa ekki einangrast mjög mikið frá umheiminum við það. Það er ótrúlega heimskulegt af Doktornum að halda því fram að Ísland muni einangrast við það að draga ESB umsóknina til baka. Hvað þá að stinga upp á því að Ísland gangi úr NATO eða sameinuðu þjóðunum. Lýsir bara rökþroti.

Fara að snúa sér aftur að því að lifa á harðfiski, hákarli, slátri og sviðakjömmum?

Harðfiskur, hákarl, slátur og svið er með því besta sem ég fæ og ég óttast ekki að borða meira af þessu í nokkur ár meðan réttmætar skuldir eru greiddar niður. 

Að lokum: Ein spurning til Dr. Gauta

Dr Gauti telur ógeðsdrykkinn Icesave greinilega girnilegri en harðfisk en væri hann þá kannski til í að flytja fljótlega heim frá New York og hefja skattgreiðslur á Íslandi með okkur hinum. Skuldirnar eru nægar til skiptana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Varðandi það að ríkisstjórnin falli verði ríkisábyrgðinni á Icesave hafnað, þá hafa fulltrúar allra þriggja stjórnarandstöðuflokkanna sagt ítrekað að þeir muni verja stjórnina falli.

Fullyrðing um að ríkisstjórnin falli er því ekkert annað en enn ein hótunin frá Samfylkingunni fái hún ekki öllu sínu framgengt.

Um birtingarmynd hótana samfylkingarráðherranna má lesa á bloggsíðum þriggja þingmanna Borgarahreyfingarinnar.

Helga (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 01:31

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þessi skrif sýna ljóslega hve átakanlega margir samfylkingarmenn skammast sín fyrir þjóðernið og hve heitt þeir þrá að kasta því fyrir róða og verða sannir Evrópumenn.  Til þess að það megi gerast er þeir tilbúnir að steypa komandi kynslóðum í skuldasúpu og sára fátækt.

Sigurður Þórðarson, 7.8.2009 kl. 01:41

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sókrates var neyddur til að drekka banvænan drykk.

Ef þeir bleiku og rauðu teyga þennan í sig, þá verður þeim ekki gott af honum. Samt finnst mér það of dýru verði keypt til að losna við áhrif flokka þeirra úr íslenzkri pólitík – að kaupa það þessu 4–600 milljarða verði ...

Nú væri gott að geta sagt 'hókus pókus' og fengið nýja menn inn í Stjórnarráðið.

Jón Valur Jensson, 7.8.2009 kl. 02:38

4 Smámynd: Þorri Almennings Forni Loftski

Það er mjög skiljanlegt að ærlegir menn skammist sín fyrir að vera Íslendingar. Ef þið hafið fylgst með, ættuð ykkur að vera kunnugt um að orðsporið er ekki glæsilegt

Þorri Almennings Forni Loftski, 7.8.2009 kl. 09:08

5 identicon

Ef Ísland stendur ekki við skuldbindingar um innstæðutryggingar þá er það brot á EES. Það er skilningur allra ESB og EES landa að ríkisábyrgð sé á innstæðutryggingasjóðnum þess vegna skiptir engu andskotans máli hverju tveir þrír íslenskir lögfræðingar halda fram.

Önnur ástæða til að sparka okkur út úr EES er að við erum að gróflega að brjóta fjórfrelsið með gjaldeyrishöftunum. Það er miklu grófara brot á EES samningnum en að standa ekki við skuldbindingar vegna innstæða.

Icesave samningurinn er forsenda þess að við getum byggt upp gjaldeyrisvarasjóð sem gerir okkur kleyft að fella niður gjaldeyrishöftin án þess að þurrka upp allan gjaldeyri í landinu.

Það sér hver maður sem getur stigið upp og horft á stóru myndina að það hangir allt á því að standa við og klára samkomulagið um Icesave burtséð frá því að bjáninn hann Svavar Gestsson hafi verið settur í samninganefndina.

Dude (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 09:20

6 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Dude,

Lög ESB um innistæðutrygginar eru skýr og það er ekki nein ríkisábyrgð í þeim. Það var hins vegar ákvörðun Breta og Hollendinga að veita slíka ábyrgð og þeir höfðu sínar ástæður til þess. Þeir geta ekki skuldbundið ísland með þeim hætti.

Í 43. gr. EES samningsins er veitt fullt svigrúm til að grípa til gengisvarna sé þess þörf. Við erum því ekki að brjóta á honum.

Sjá nánar hér http://vidhorf.blog.is/blog/vidhorf/entry/874586/

Icesave samningurinn mun valda gríðarlegum þrýstingi til lækkunar krónunnar enda þarf ríkið að selja krónur og kaupa gjaldeyri fyrir 700 milljarða til að standa skil á honum.

Stóra myndin er sú að við verðum að hafna þessum Iceasave samningi

Frosti Sigurjónsson, 7.8.2009 kl. 09:48

7 Smámynd: Haraldur Hansson

Auðvitað þarf að ljúka IceSave deilunni á einhvern hátt. Sá samningur sem gerður var getur aldrei talist ásættanlegur. 

Það er sorglegur vitnisburður um umræðuna þegar maður sem skreytir sig doktorsnafnbót grípur til "röksemda" af þessu tagi. Að leggja NATO og SÞ að jöfnu við ESB. Að grípa útjaskaða klisju um Bjart í Sumarhúsum. Og bæta síðan gráu ofan á svart með því að stilla harðfiski og slátri upp sem "hinum kostinum" á móti því að gangast undir IceSave.

Haraldur Hansson, 7.8.2009 kl. 09:52

8 Smámynd: Þorri Almennings Forni Loftski

Harðfiskur og slátur er herramannsmatur. Ef til vill ekki búnir að uppgötva það í ,,gourmet" verslunum New York borgar.

Þorri Almennings Forni Loftski, 7.8.2009 kl. 10:10

9 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Það er með ólíkindum að Gauti og svo mjög margir aðrir hagfræðingar hafi ekki varað við þessu þegar þeir voru að dásama bankana og fjármálageirann í fræðigreinum sínum - fyrst þeir vissu þetta allan tímann. Af hverju sögðuð þið okkur ekki frá þessu þá?

En sannleikurinn er sá að hagfræðigar eru handónýtir spámenn sem lítið mark er á takandi á nema smá og örlítil handfylli þeirra sem sjálfstæðu manna sem þora. Flestir þeirra þora ekki að koma með sjálfstæðar skoðanir á neinu og syngja því alltaf hjarðarsönginn sinn við undirleik þeirrar flokkspólitísku söngva sem þeir ólust upp við sem börn. Þeir eru yfirleitt haldnir hjarðarhugsun til þess að aldrei muni sannast upp á þá að þeir hafi haft rangt fyrir sér. Næstum allt sem kemur frá þeim er hlaðið fyrirvörum í bak og fyrir svo aldrei muni sannast að það sem þeir sögðu var algert bull og fís í 98% tilfellanna. Ef þeir væru endurskoðendur þá væru þeir alltaf í fangelsi ásamt öllum viðskiptavinum sínum því:

  • kannski
  • ef til vill
  • hugsanlega
  • hætt er við
  • líkur eru á
  • væntanlega
  • mér sýnist

eru orð, gjörðir og skoðanir sem menn fara í fanglesi fyrir í þeirri atvinnugrein. Takið ykkur saman hagfræðingar og hættið að matreiða klessukássur ykkar ofaní okkur með eilífum útskýringum í dag um það af hverju það reyndist viltlaust sem þið sögðuð í gær. Ef þið væruð ekki svona miklar gungur, hörundsárir og spéhræddar persónur þá sætuð þið ekki með rauðu eyrun ykkar og reyndar hausinn allann fastann inni í rauða póstkassa kreppunnar núna.

Takið ykkur saman  

The psychology of economic forecasting - Credit Writedowns

 

Gunnar Rögnvaldsson, 7.8.2009 kl. 12:06

10 Smámynd: Þorri Almennings Forni Loftski

Rétt er það að fáir íslenskir ,,fræðimenn" eru marktækir því þeir dansa flestir eftir flokkspólitískum línum. Fyrir utan það gefa lögfræðingar út álit eftir því hver pantar það og borgar.

Þess vegna er nær ómögulegt að setja spilin á borðið til að almenningur skilji og geti myndað sér skoðun.

Þorri Almennings Forni Loftski, 7.8.2009 kl. 14:45

11 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Ég vil fyrir alla muni verja þessa ríkisstjórn falli (ef það væri yfirleitt í mínu valdi) en hún verður að standa og sitja með gerðum sínum. Stjórn sem stjórnarandstaðan heldur uppi verður magnlaus strengjabrúða án inntaks og vilja. Svoleiðis stjórn viljum við auðvitað ekki og þá verður að setja saman nýja stjórn.

Æ hvað það yrði nú tilgangslaust. IceSafe málin enn óleyst: tala við alla 'vinina' okkar aftur (einsog það hafi ekki verið gert sl haust) Menn ganga nefnilega að því vísu að stjórnmálamenn sem eitthvað er spunnið í á norðurlöndum viti ekki um hvað málin snúast! Þetta er regin misskilningur enda hafa þeir varðað þessa leið sem ríkisstjórnin nú fetar nauðug viljug. Nema menn ætli fyrst að snúa 'public opinion' í viðkomandi ríkjum. Sumir telja þetta mögulegt. Ég tel það stappa næst brjálæði að detta það í hug. Trúverðugleiki þess sem íslendingar standa fyrir er enginn í dag. Við fáum hann ekki nema 'the hard way': að viðurkenna, iðrast og breyta með yfirbót svo allir sjái að okkur sé alvara.

Svo eru þeir sem öðrum þræði vitna í lög og reglur ESB til að sanna það að ekkert sé okkur að kenna. Að við séum fórnarlömb gallaðra ákvæða í reglugerðum sambandsins. Hvernær var það svona göfugt hlutskifti að vera fórnarlamb. Það ver það ekki í mínu uppeldi.

Gísli Ingvarsson, 7.8.2009 kl. 20:31

12 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

en hún verður að standa og sitja með gerðum sínum

.

Þetta er nefnilega vandamálið. Hún gerir ekki neitt. Þetta er zombie ríkisstjórn. Í raun eins og dauður banki. Hún hvorki stendur né situr. Hún liggur bara

Gunnar Rögnvaldsson, 7.8.2009 kl. 20:56

13 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það er sem ég hef sagt áður Gunnar. Þú ert fjarri góðu gamni þarna í ESB landinu og veist ekki hvað þessi ríkisstjórn hefur þó áorkað. T.d. aðildarumsókn að ESB!!! : )

Gísli Ingvarsson, 8.8.2009 kl. 13:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband