ICESAVE - Okkur ber ekki að borga - punktur

gordon-brownÍslenska ríkinu ber ekki að ábyrgjast tryggingasjóð innistæðna. Ríkið hefur rækt allar skyldur sínar af kostgæfni um að koma á fót slíkum sjóði í samræmi við lög ESB. Þau lög kalla hinsvegar hvergi á ríkisábyrgð á tryggingasjóðum innistæðna. Hefði verið um ríkisábyrgð að ræða hefði það að sjálfsögðu verið orðað þannig í lögum ESB.

Bretar og Hollendingar kusu að ábyrgjast innistæður

Bretum og Hollendingum bar heldur ekki að borga innistæðueigendum út trygginguna en þeir ákváðu samt að gera það. Með þessu vildu þeir draga úr líkum á áhlaupi á aðra banka enda var þetta í miðju hruninu. Þetta var þeirra val og gert til að verja aðra og stærri hagsmuni.

Þessi ákvörðun skuldbatt ekki íslenska ríkið

Hvorki Landsbankinn né tryggingasjóðurinn voru á ábyrgð ríkisins. Bretar og Hollendingar vissu það vel þegar þeir greiddu innistæðueigendum trygginguna. Þeir vilja samt knýja Íslendinga til að taka á sig trygginguna ef þess er nokkur kostur og þótt engin lög kveði á um að okkur beri að verða við því.

Bresk og Hollensk yfirvöld beita þrýstingi og hótunum til að knýja sitt fram. Þau reyna að spilla fyrir því að Ísland fái lán frá vinaþjóðum eða Alþjóðagjaldeyrissjóði. Þau róa gegn því að umsókn Íslands í ESB fái jákvæðar viðtökur. Þetta er ólíðandi framkoma og í raun ofbeldi.

gay_iceland_0130Hin duglausa ríkisstjórn Íslands gætir ekki réttar okkar

Í stað þess að taka til varna, kynna okkar málstað erlendis og láta reyna á lögmæti krafna hefur ríkisstjórn Íslands bara gefist upp og gengið að ýtrustu kröfum viðsemjenda.

Icesave samningurinn verður samninganefndinni og ríkisstjórn til ævarandi skammar og það er með ólíkindum að slíkt plagg sé lagt fyrir Alþingi. Enn verra er að ríkisstjórnin hefur leynt þing og þjóð ýmsum mikilvægum gögnum um málið. Það er grafalvarlegt mál sem umboðsmaður Alþingis ætti að taka til rannsóknar án tafar.

Hagsmunir Íslands og réttlætið kalla á að þessum samningi verði hafnað einróma af þingmönnum.

En hvað gerist þá?

Lífið heldur áfram sinn vanagang.

Yfirvofandi skuldsetningu þjóðarinnar um c.a. 700 milljarða í erlendum gjaldeyri er afstýrt. Krónan mun án efa styrkjast við það. Skatta þarf ekki að hækka eins mikið og á horfðist. Þetta tvennt mun bæta afkomuhorfur íslensks efnahagslífs verulega.

Erlendir fjölmiðlar munu hafa áhuga á deilunni og við munum því fá næg tækifæri til að kynna heiminum okkar málstað. Málstaður Íslands er réttlátur og allir munu geta séð að þær byrðar sem áformað var að leggja á íslensk heimili hefðu verið óbærilegar.

Ísland verður ekki sett í viðskiptabann enda höfum við ekki brotið nein lög. Það er almenn andstaða við slíkar aðgerðir enda bitna þær ávallt á þeim er síst skyldi. Ef svo ólíklega færi að Bretar og Hollendingar settu bann á viðskipti við Ísland mætti beina viðskiptum til annarra landa í Evrópu. Slíkt bann myndi á endanum bitna meira á Breskum og Hollenskum fyrirtækjum en Íslenskum.

Lán frá AGS og vinaþjóðum munu ekki stranda lengi á Icesave málinu. Kröfuhafar Íslands víða um heim munu þrýsta á AGS að lána Íslandi svo þeir geti fengið greitt.

Er íslenska ríkið þá orðið ómerkt orða sinna?

Því hefur verið haldið á lofti að íslenska ríkið (eða fulltrúar þess) hafi gefið breskum og hollenskum yfirvöldum loforð um að íslenska ríkið myndi standa á bak við innistæðutrygginguna. Hafi slík loforð verið gefin í raun og veru þá er spurning hvort þau voru gefin undir þrýstingi frá mótaðila. Einnig er spurning hvort mótaðili mátti vita að loforðið hlyti að vera með fyrirvara um samþykki Alþingis. Að lokum er spurning hvers vegna þurfti slíkt loforð yfirleitt ef íslenska ríkinu var skylt að lögum að standa á bak við tryggingasjóðinn.

Ég hef reyndar hitt kjósanda sem finnst rétt að staðið sé við öll loforð sem talsmenn þjóðarinnar gefa út jafnvel þótt talsmaðurinn hafi þar með farið langt út fyrir sitt umboð. Ef gengið sé á bak slíkum loforðum sé Ísland sem ríki búið að missa traust annarra þjóða.

Talsmaður, ráðherra eða forsætisráðherra sem gefur loforð án þess að hafa til þess nauðsynlegt umboð getur ekki skapað þjóðinni nokkra skyldu. Hér á ekki að skipta máli hvort mótaðilinn er erlent ríki eða innlendur aðili. Þetta skilja fulltrúar erlendra ríkja mætavel enda er sama fyrirkomulag hjá þeim.

Staðreyndin er sú að ef við öxlum þessa gríðarlegu og óréttmætu byrði þá aukast mjög líkur á að Ísland geti ekki staðið við fjölmargar aðrar skuldbindingar og skyldur sem við eigum með réttu að standa við. Þá verðum við örugglega ómerk orða okkar.

Íslendingar njóta trausts í útlöndum og munu gera það áfram þótt þeir neiti að láta undan þvingunum til að undirgangast óréttmætar og óbærilegar skuldbindingar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Langt síðan ég nefndi það við bloggvinkonu,að við myndum hafa næg tækifæri til að kynna heiminum okkar málstað,ef við samþykkjum ekki Icsavesamninginn eins og hann er í dag.        Fjölmiðlar um allan heim munu hafa áhuga á málinu og  næg tækifæri til að kynna okkar sjónarmið. Ætli dúkki þá ekki upp Vinsamlegar þjóðir sem sjá kúgunina. Annars þreytist ég ekki á að segja að Færeyingar eru okkar stærstu vinir,gleymum þeim ekki. kveðja.

Helga Kristjánsdóttir, 31.7.2009 kl. 01:59

2 Smámynd: Lýður Árnason

Rétt hjá þér, Frosti, segi hundur við mann að hann skuldi sér en maðurinn meinar að svo sé ekki og lokar á hundinn er það hundsins hvort hann gelti eða ekki.  Og þannig eigum við að tækla þetta icesave-mál.

Lýður Árnason, 31.7.2009 kl. 02:47

3 identicon

Já við skulum sko fara um heiminn og kynna málstað okkar. Fólk út um allt vorkennir Íslendingum einhver ósköp, enda voru þessir fjármálavíkingar eiginlega ekki Íslendingar. Fólk um allan heim skilur líka vel að þetta lið sem var svo vitlaust að trúa þessum bankamönnum og lagði fé í Icesave reikninga á ekki skilið fá eitt einasta sent. Það er ekki okkur að kenna að tryggingasjóðurinn var alltof lítill. Þetta liggur svo augljóst fyrir. Ég legg til að við kynnum þeim hvalveiðar í leiðinni, því að það er víst einhver leiðinda misskilngingur og vitleysa í gangi þarna í útlöndum -- þeir segja að það sé rangt að veiða hval en við vitum auðvitað að er bölvuð vitleysa. Sem sagt: við borgum ekki krónu vegna þess að við höfum alveg hreinan skjöld. Davíð sagði þetta svo flott hér um daginn -- hvað kom honum við þótt einhverjir einkabankar, sem hann kom ekki nálægt (þótt Kjartan vinur hans hafi setið í stjórn bankans og skammist út í varaformanninn á fundum Sjálfstæðisflokksins, þá er heldur ekki út í hann að sakast því hvað vissi hann), hann var jú bara seðlabankastjóri. Og þegar við erum búin að sannfæra útlendingana um hið rétta þá munu þeir auðvitað lána okkur böns af monney, eins Megas orðaði það hér um árið, því að við erum jú fræg fyrir heiðarleika í viðskiptum og fyrir að standa við okkar orð -- tja, a.m.k. orðin eins og okkur minnir að þau hafi verið. Þetta verður alveg pís of keik.

Gylfi (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 08:37

4 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Guðjón,

Neyðarlögin voru sett til að afstýra því að allt efnahagslíf stöðvaðist hér á landi og ríkisstjórnin var þar í fullum rétti.

Innistæður hér á landi voru tryggðar hvort sem þær voru í eigu útlendinga eða Íslendinga. Það var ekki verið að mismuna eftir þjóðerni.

Gylfi,

Við getum ekki tapað á því að kynna okkar sjónarmið og hagsmuni erlendis.

Ef íslenskur almenningur ber einhverja ábyrgð á þeim göllum sem finnast í regluverki og eftirliti á Íslandi, þá hlýtur evrópskur almenningur með sömu rökum að vera meðábyrgur. Því þetta hefði aldrei gerst ef regluverk ESB væri ekki meingallað. Frelsi í fjármagnsflutningum er krafa ESB og það bauð hættuni heim.

Frosti Sigurjónsson, 31.7.2009 kl. 09:55

5 Smámynd: Púkinn

Það er bara sá galli að íslensk stjórnvöld ábyrgðust að fullu innistæður í útibúum Landsbankans hér á landi - að ætla sínan að neita að ábyrgjast innistæður í útibúum erlendis er mismunun sem gengur varla upp - hvorki siðferðislega né lagalega....

Púkinn, 31.7.2009 kl. 12:21

6 identicon

Blessaður Frosti,

Eftir að hafa lesið þessa grein var nú eina niðurstaðan mn að ekki myndi ég vilja eiga viðskipti við þig.  Að sjálfsögðu eigum við að borga okkar skuldir og Icesave er svo sannarlega okkar skuld.  Það var íslenskur banki sem stofnaði til þessara skuldbindinga og yfivöld á Íslandi höfðu öll tækifæri til að stjórna útþennslu bankans en kusu að gera slíkt ekki.  Í staðinn voru sendir ýmsir háttsettir aðilar frá Íslandi, jafnt embættismenn, ráðherra og seðlabankastjórar, til að sannfæra alla um að að sjálfsögðu ábyrgðumst við þessa banka.  Að reyna að halda því fram núna að þessir aðilar hefðu ekki verið að tala fyrir hönd íslensku þjóðarinnar er ótrúlegt yfirklór og eiginlega hrein ósvífni.  Ég hef ráðlagt þeim sem vilja ganga svona freklega á bak orða sinna að renna aðeins yfir Hávamál, sérstaklega þegar fjallað er um orðstý.

Auðvitað er súrt fyrir okkur að þurfa að borga þessar skuldir "óreiðumanna" en við kusum þessa ríkisstjórn sem að afhenti þessum mönnum bankana á silfurfati og lét svo alveg vera að hafa almennilegt eftirlit með gjörðum þeirra.  Í því fellst okkar ábyrgð og við eigum að axla þá ábyrgð eins og menn en ekki reyna að beita mjög svo vafasömum lagakrókum til þess að reyna að komast hjá því að greiða það sem við höfum alla tíð lofað að borga.

Steini (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 12:27

7 Smámynd: Haraldur Hansson

Það voru gerð drög að samningi í haust á meðan það ríkti ringulreið í Evrópu og menn voru í losti hér á Íslandi eftir hrunið. En aðstæður breytast og menn reyndu að gera betur.

Núna hefur mesta rykið sest. Menn geta dregið andann og litið yfir sviðið. Jafnvel skoðað málið upp á nýtt með öðru hugarfari.

Þó að þetta séu drápsklyfjar fyrir okkur eru þetta því sem næst smáaurar fyrir Breta. Jafngildir því að Færeyingar skulduðu okkur 1,8 milljarða. Það gerir um tvö afskrifuð kúlulán hjá Kaupþingi. Myndum við innheimta slíka skuld af hörku en færeyskt efnahagkerfi væri í rúst?

Fyrir Breta, Hollendinga og ESB hlýtur þetta því að vera spurning um prinsipp en ekki peninga. Að verja kerfið sem fjármálastofnanir í Evrópu búa við. Ingibjörg Sólrún orðaði það þannig að ekki mætti setja bankastarfsemi í Frakklandi og á Spáni í uppnám með því að fara með IceSave fyrir dómstóla. Er það ekki mergurinn málsins?

Við skulum ekki ætla Bretum og Hollendingum að það sé þeim kappsmál að setja Ísland á hausinn. Frekar að þeir séu að leita að ásættanlegri niðurstöðu. Ekki hefnd. Ef Alþingi gerir fyrirvara við IceSave gefur þá öllum málsaðilum kost á að leita slíkrar niðurstöðu. 

Við eigum ekki að fjalla um IceSave eins og Bretar og Hollendingar séu villimenn sem við þurfum að óttast. Í vestrænum og siðmenntuðum ríkjum hljóta menn að leita sátta og fara að leikreglum réttarríkisins.

Haraldur Hansson, 31.7.2009 kl. 13:49

8 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Mér finnst óþolandi þegar poppúlistar skrifa þvælu sem þessa og reyna að koma því inn hjá fólki að við eigum ekki að borga þetta - það er þvættingur Frosti og þú veist það sjálfur. Pistlar þínir eru skrifaðir af heift gagnvart ríkjandi stjórnvöldum annars vegar og hins vegar öfga þjóðerniskennd.

Eggert Hjelm Herbertsson, 31.7.2009 kl. 14:55

9 Smámynd: Sjóveikur

ég vil bara lýsa yfir hrifningu minni á því hvernig Lýður Árna útsetur þetta  og get bara látið mig dreyma um að skrifa jafn skorinort  og innilega sammála er ég í ofanálag

Byltingin étur börnin sín, Lifi Byltingin !!!

www.icelandicfury.com er á leiðinni að verða virkandi og mun ausa úr viskubrunni reynslunnar þegar andinn kemur yfir  og náttúrulega mun fólk áfjáð í að styðja okkur í þeirri viðleitni

sjoveikur

Sjóveikur, 31.7.2009 kl. 15:40

10 Smámynd: Svavar Guðmundsson

Get ekki verið meira sammála þér Frosti.  Vel skrifuð grein.

Svavar Guðmundsson, 31.7.2009 kl. 17:16

11 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Eggert, og hvað viltu gera í því ef þér líkar ekki skrif annarra? Banna þeim að tjá sig? Hvernig væri bara að svara slíku efnislega fyrst þú telur þig hafa svona góðan málstað að verja?

Hjörtur J. Guðmundsson, 31.7.2009 kl. 17:48

12 identicon

Steini:

Fyrir það fyrsta þá getur þú sleppt því að vera með persónulegt níð á Frosta, hann hefur fært góð og gild rök fyrir sínum niðurstöðum.

Þú segir:

"Að sjálfsögðu eigum við að borga okkar skuldir og Icesave er svo sannarlega okkar skuld.  Það var íslenskur banki sem stofnaði til þessara skuldbindinga og yfivöld á Íslandi höfðu öll tækifæri til að stjórna útþennslu bankans en kusu að gera slíkt ekki."


Endemis vitleysa er þetta.  LB var einkabanki í eigu einkaaðila sem starfaði eftir reglum EES.  Þetta fyrirtæki kemur mér sem skattborgara ekki við.  Þó ég sé íslenskur ríkisborgari þá ber ég enga ábyrgð á íslenskum fyrirtækjum, nema þeim sem ég væri sjálfur í forsvari fyrir eða ætti hlut að. 

Svona skuld verður ekki til með því að segja að íslenska ríkið hefði átt að gera hitt eða þetta til að stoppa vöxt bankanna, eða með því að bresk og hollensk stjórnvöld hafi í hótunum við okkur. 

Við höfum uppfyllt okkar skyldur með tryggingasjóðnum og á honum er engin ríkisábyrgð. Þegar hann tæmist þá tæmist hann.  Enda er hann ekki til þess að taka á kerfishruni.

Íslenska ríkið leysti þetta fyrir innistæður innanlands og segist ætla að tryggja innistæður á Íslandi, en sá gjörningur skyldar það ekki að tryggja innistæður annars staðar. Hér var kerfishrun sem ríkið er að bregðast við og þvæla um mismunun kemur málinu hreinlega ekki við. 

Alister Darling segir sjálfur að hann ætli ekki að tryggja innistæður í Isle of Man vegna þess að íbúar þar borga ekki skatt í Bretlandi. Hvers vegna ættu Íslendingar að tryggja innistæður í Bretlandi?

Yfirlýsingar embættismanna í Október voru gefnar undir þrýstingi enda var allt bankakerfi heimsins að hrynja á þeim tíma og engin stemmning til að ræða þetta á vitrænum forsendum.  Slíkar yfirlýsingar eru ekki grundvöllur að því að skuldaviðurkenningu. 

Aðalatriði er þetta:  Ég hafði ekkert með Landsbankann að gera. Þetta var einkafyrirtæki sem átti í viðskiptum við aðila sem mér komu ekki við. Það er galið að ætla mér og öðrum skattgreiðendum að borga brúsann.  Þessar kröfur eiga bara að fara sína leið í kerfinu eins og aðrar kröfur og vonandi gengur þeim vel að endurheimta peningana sína. En ekki senda reikninginn á mig og aðra skattgreiðendur.

Annars er þessi umræða síðustu vikur búin að vera áhugaverð.

Allt sem hefur komið fram um Icesave samninginn að undanförnu eru röksemdir GEGN því að samþykkja hann. ALLT. Ekkert með, allt á móti.

Svo er annað.  Af hverju eruð þið "Icesave-sinnar" svona áfram með að halda fram málstað Breta og Hollendinga?  Af hverju er ríkisstjórnin ekki að berjast á hæl og hnakka fyrir hagsmunum Íslands með öllum tiltækum ráðum? Er ESB umsóknin virkilega þess virði að fórna öllum þessum hagsmunum fyrir hugsanlega aðild? 

Kristinn Þorleifsson (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 18:14

13 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Sumir vilja bara greinilega að ísland borgi allt uppí topp.

http://www.island.is/media/frettir/28.pdf

Og setja landið þar með lóðbeint á hausinn.  Það er sjálfsagt draumurinn hjá sumum.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 31.7.2009 kl. 18:24

14 Smámynd: Theódór Norðkvist

Sammála síðuhöfundi að þessu sinni. Algerlega siðlausum kröfum Breta og Hollendinga, í raun fjárkúgun, ber að hafna.

Við þetta má bæta að íslenska ríkið á ekki að niðurgreiða fjárglæpastarfsemi bankanna. Gildir það um Icesave og ekki síður innspýtinguna í svikasjóði bankanna, peningamarkaðssjóðina. Þar fóru litlir 200 milljarðar af almannafé. Gleymum því ekki.

Theódór Norðkvist, 31.7.2009 kl. 19:54

15 Smámynd: Snorri Magnússon

Góður pistill hjá þér Frosti og réttur. 

Því er nefnilega og einfaldlega þannig farið að í lögum um innstæðutryggingar nr. 98/1999, sem sett eru í samræmi við EES regluverk nr. 18/1994 og nr. 12/1997 einnig sbr. ákvarðanir Evrópuþingsins og ráðsins nr. 19 frá 1994 og nr. 9 frá 1997 um tryggingakerfi fyrir fjárfesta, er hvergi að finna nokkurn skapaðan hlut sem kveður á um ríkisábyrgð á innstæðustryggingasjóðnum - enda bankarnir allir einkabankar eins og fram kemur hér að ofan.  Þá er það afar skýrt í lögunum að sjóðurinn sjálfur er sjálfseignarstofnun og hvergi, í lögunum er fjallað um ríkisábyrgð á honum.  Reyndar sérstaklega tekið fram að ef hann getur ekki staðið undir skuldbindingum sínum þá geti hann (sjóðurinn) tekið lán fyrir þeim en það kemur ríkissjóði og þ.a.l. íslenskum skattgreiðendum nákvæmlega ekkert við!

Þá er heldur ekki nokkurn skapaðan hlut að finna, í títt nefndum neyðarlögum nr. 125/2008, sem sett voru 7. október 2008, er kveður á um að ríkisábyrgð verði á einhverjum innistæðum umfram aðrar.  Eina "verulega" breytingin, sem gerð var á lögunum um innstæðutryggingasjóðinn, með neyðarlögunum margfrægu er sú að honum er heimilað að greiða kröfur á hann í íslenskum krónum (sem kannski afar fáir vilja sjá um þessar mundir).

Orð og æði stjórnmálamanna og embættismanna okkar, á þeim dögum sem liðu í kjölfar fjármálahrunsins ber að túlka afar þröngt enda allt fjármálakerfi heimsins undir á þeim tíma.  Það er einmitt stærsti gallinn við þetta ICES(L)AVE dæmi allt saman að ef það "heldur" ekki er hætt við því að gert verði áhlaup innstæðueigenda um gervalla Evrópu - og þó víðar væri leitað - á alla banka, sem hefði í för með sér alheimsfjármálakerfishrun!!!  Það er einmitt þess vegna sem Bretar og Hollendingar - tel ég - leggja svo ríka áherslu á "lausn" þessa máls.  Hluti lausnarinnar er "sjö ára skjól" sem Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hefur margítrekað talað um en það er einmitt u.þ.b. sá tími sem tekur að "umskrifa" innstæðutryggingakerfið í Evrópu (og víðar) og koma því samþykktu í gegnum ESB báknið og þjóðþing viðkomandi landa.  Að þeim tíma liðnum verða allir búnir að gleyma "kreppunni miklu" árið 2008 - ???? og þar með líka ICES(L)AVE og þar skapast svigrúm til að "gleyma" líka að rukka inn klabbið??

Bara smá pæling......

Snorri Magnússon, 31.7.2009 kl. 21:44

16 Smámynd: Júlíus Björnsson

Svar EU við einkabanka væðingu 1994 vegna þess að  þetta tók nokkurn tíma þá vor tildæmis þjóðverjar órólegir.

Hversvegna ríkið ber ekki ábyrgð á innstæðum innlánara í fjármálastofnunum Meðlimaríkja EU eða aðildarríkja að EU efnahagsvæðinu? Tilskipun EU frá um 1994 svarar  undir hvaða kringumstæðum ríkinu ber slíkt ekki með Málsgrein tveggja "conditional" [skilyrði, aðstæður] setninga, sem hefjast á þar eð [= þar sem] og úr því að [= fyrst].

Bein þýðing tekið tillit til setningafræði og lögfræði merkinga er að kröfu réttaríkisins Franska vel skilgreind og auðskiljanleg málsgrein:

Þar eð þessi tilskipun getur EKKI skuldbundið meðlimaríkin eða lögmæt yfirvöld þeirra hvað varðar innlánara,

úr því að þau hafa séð um stofnun eða opinbera viðurkenningu eins eða fleiri kerfa

sem ábyrgjast innistæðurnar eða lánastofnanirnar sjálfar

og

sem tryggja skaðabæturnar eða vernd innlánaranna

í aðstæðum sem þessi tilskipun skilgreinir;   

  

Samanber franska lagatextann:

Considérant que la présente directive NE peut avoir pour effet d'engager la responsabilité des États membres ou de leurs autorités compétentes à l'égard des déposants,

dès lors qu'ils ont veillé à l'instauration ou à la reconnaissance officielle d'un ou de plusieurs systèmes

garantissant les dépôts ou les établissements de crédit eux-mêmes

et

assurant l'indemnisation ou la protection des déposants dans les conditions définies par la présente directive;

Hver er ábyrgur á meintri þýðingu sem fylgir er stór spurning í ljós þess misskilnings hún hefur leitt til hjá miður lærðum. 

Tilskipun þessi getur EKKI gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.

Eva Joly er á face book og Ég er fan. Jón Baldvin hvernig túlkaði hann þetta?

Júlíus Björnsson, 1.8.2009 kl. 09:46

17 Smámynd: Júlíus Björnsson

Útþennsla er í fínu lagi ef hún skilar bullandi hagnaði og eftirsóknarverð í EU eis og USA.

Seðlabanki ber ábyrgð á því að vaxtamunur sé nógu mikill til að banka verða ekki uppskorpa með lausafé.

Kommústa eða ný-sósíalistarökin voru numin úr gildi í EU 1994. Moron!  

Júlíus Björnsson, 1.8.2009 kl. 09:53

18 Smámynd: Júlíus Björnsson

verði ekki uppiskorpa með lausafé. Útlánsvextir séu nógu háir. Lokun lánalína af hálfu EU varð aðalhvatinn  að reynt var að ná sér í lausa fé.

Þótt USA hafi benti á Bankarnair væru of stórir var það vegna þess að leyniþjónustur fylgjast með fjarmagnsflæði. Sterkar líkur voru á því að á Íslandi væru aðila sem skiptur á reiðufé og væntingarbréfum með engum eða phony veðum. Það er annað mál eða sameiginlegt alþjóðlegt glæpamál.  Mistökin voru að EU lokaði línum áður en sekt var sönnuð. 

Júlíus Björnsson, 1.8.2009 kl. 10:02

19 Smámynd: Theódór Norðkvist

Auðvitað er súrt fyrir okkur að þurfa að borga þessar skuldir "óreiðumanna" en við kusum þessa ríkisstjórn sem að afhenti þessum mönnum bankana á silfurfati og lét svo alveg vera að hafa almennilegt eftirlit með gjörðum þeirra.  Í því fellst okkar ábyrgð og við eigum að axla þá ábyrgð eins og menn en ekki reyna að beita mjög svo vafasömum lagakrókum til þess að reyna að komast hjá því að greiða það sem við höfum alla tíð lofað að borga.

Steini (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 12:27

Þeir sem kusu Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk eru sem sagt ábyrgir og eiga að borga. Hvað um þá sem kusu aldrei þessa flokka? Eru þeir þá ekki ábyrgir? Eiga þeir ekki að borga?

Samkvæmt því sem Steini segir eiga þeir sem ekki kusu Sjálfst. og Framsóknarflokk rétt á að borga lægri skattaprósentu en kjósendur þeirra flokka? Það kæmi sér vel fyrir þá í kreppunni.

Theódór Norðkvist, 1.8.2009 kl. 12:51

20 Smámynd: Júlíus Björnsson

Embættismenn sem uppfylla ekki skyldur sínar. Skylduverk þeirra eru skorðuð með lögum. Það er nú ekki einu búið að reka þá. EU tekur nú ekki svo létt á embættismönum.  Það borgar hver fyrir sig.  Auðvitað á taka þetta í réttri tímaröð og ábyrgðarröð.

Júlíus Björnsson, 1.8.2009 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband