12.6.2009 | 10:00
ICESAVE: Lögfræðingar skora á þingmenn
Eftirfarandi grein eftir lögfræðingana Lárus L. Blöndal og Stefán Má Stefánsson birtist í mbl í dag.
Lárus er hæstaréttarlögmaður og Stefán er prófessor í lagadeild Háskóla Íslands og höfundur margra viðamikilla fræðirita þar á meðal um Evrópurétt, réttarreglur og stofnanir Efnahagsbandalagsins. Skrifaði bók um EES samninginn. Grundvallarrannsóknir í Evrópurétti svo eitthvað sé nefnt.
Hér er svo greinin.
Áskorun til þingmanna
Við undirritaðir höfum ritað allmargar greinar þar sem við höfum fært lögfræðileg rök fyrir því að okkur sem þjóð beri ekki að endurgreiða þeim innist...Við undirritaðir höfum ritað allmargar greinar þar sem við höfum fært lögfræðileg rök fyrir því að okkur sem þjóð beri ekki að endurgreiða þeim innistæðueigendum sem lögðu inn hjá íslensku bönkunum erlendis fyrir hrunið.
Við höfum ekki fengið nein málefnaleg rök sem hnekkja okkar ályktunum.Ríkisábyrgð verður ekki til úr engu. Til að hún stofnist þarf afdráttarlausa lagaheimild sem ekki er til staðar í dag vegna innistæðutryggingasjóðs.
Við höfum verið þátttakendur í samstarfi ríkja í Evrópu þar sem við höfum tekið upp reglur sem samdar hafa verið af Evrópusambandinu. Ekkert í þeim reglum gerir íslenska ríkið ábyrgt fyrir starfsemi íslenskra einkabanka. Þær reglur hafa hins vegar ekki staðist þær væntingar sem ESB hefur byggt upp í kringum þær. Þær reyndust gallaðar og náðu ekki markmiðum sínum. Þeir ágallar geta hins vegar ekki verið á ábyrgð íslenskrar þjóðar að okkar mati.
Þeir samningar sem nú hafa verið kynntir þjóðinni eru tæpast ásættanlegir. Ekki er með góðu móti unnt að réttlæta að við tökum á okkur ábyrgð sem við höfum aldrei gengist undir eða berum ábyrgð á með öðrum hætti, hvað þá að það sé gert á þeim kjörum sem um hefur verið samið.Við köllum eftir lögfræðilegum rökstuðningi fyrir þeim samningum sem búið er að undirrita.
Ákvörðunin um undirritun samninganna er stór á alla mælikvarða. Hún er m.a. stór í því ljósi að ekki liggur fyrir hve mikill hluti heildarfjárhæðarinnar, 650 milljarða króna að viðbættum háum vöxtum, kemur í hlut Íslendinga að greiða eða hvort innistæður njóti forgangs fram yfir aðrar kröfur samkvæmt neyðarlögunum. Það er engan veginn hægt að ganga út frá því að það ákvæði neyðarlaganna standist. Það liggur hins vegar fyrir að kröfuhafar allra gömlu bankanna munu láta á þetta reyna og breytir umræddur samningur þar engu um. Ef þetta forgangsákvæði laganna stenst ekki verður greiðslubyrði íslenska ríkisins margfalt meiri en ætla mætti samkvæmt kynningu á samningnum.
Samninganefnd Íslands hefur skilað sínu verki. Forsendan í starfi hennar virðist hafa verið sú að okkur bæri skylda til að greiða og því ekki annað að gera en að semja um greiðslukjör. Þessi nálgun er ekki í samræmi við þá þingsályktun sem samþykkt var þann 5. desember sl. á Alþingi né þá kynningu sem fram fór á hlutverki samninganefndarinnar þegar hún var skipuð. Í þingsályktuninni ályktar Alþingi aðeins að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld á grundvelli tiltekinna viðmiða. Í þeim viðmiðunum er hins vegar ekkert að finna sem bendir til að Alþingi hafi litið svo á að íslenska ríkið væri greiðsluskylt.
Í kynningu nefndarinnar á samningnum kemur ekki fram hvers vegna rökum, sem leiddu til þess að íslenska ríkinu bæri ekki að greiða, hafi verið hafnað í samningaviðræðunum. Ekki liggur heldur fyrir hvers vegna alþjóðlegir dómstólar voru ekki fengnir til að skera úr um deiluna svo sem eðlilegt hefði verið í samskiptum ríkja. Hafi þau sjónarmið ekki verið höfð að leiðarljósi í samningaviðræðunum að Ísland væri ekki greiðsluskylt var fyrirfram lítil von til þess að ná viðunandi samningum.
Nú er komið að Alþingi Íslendinga að taka afstöðu til málsins. Ef til eru lögfræðileg rök fyrir þeim niðurstöðum sem samninganefndin hefur samið um, þá verður að kynna þau. Það er nauðsynlegt að um þau sé rætt og að skipst sé á skoðunum um þau. Jafnframt verður að greina frá því hvers vegna dómstólaleiðin var ekki valin. Hins vegar er ljóst að ef ekki er upplýst um röksemdir samninganefndarinnar eru þingmenn í jafnmikilli óvissu um það á hverju hún byggist og aðrir landsmenn. Á hverju eiga þeir þá að byggja sína afstöðu?
Séu niðurstöður samninganna byggðar á pólitískum sjónarmiðum, t.d. vegna mögulegrar aðildarumsóknar Íslands að ESB, eða beinum eða óbeinum þvingunum, verður að upplýsa það. Síðan verða þingmenn að taka upplýsta ákvörðun um hvort þau sjónarmið réttlæti skuldsetningu þjóðarinnar sem hljóða upp á óvissar en gríðarlegar fjárhæðir þrátt fyrir að lögfræðileg rök hnígi í aðra átt.
Það er algjörlega á valdi Alþingis að ákveða hvert framhald þessa máls verður óháð því hvað núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnir kunna að hafa sagt eða gert.
Við skorum á þingmenn á Alþingi Íslendinga að krefjast þess að öll rök fyrir þeim samningi sem gerður hefur verið, hvort sem þau eru lögfræðileg eða pólitísk, verði kynnt þingi og þjóð og að ákvörðun verði síðan tekin í framhaldi af því.
Þjóðin hlýtur að spyrja: treysta þingmenn sér til að taka ákvörðun um að skuldsetja hana um 650 milljarða kr. auk hárra vaxta, án þess að skýr og afdráttarlaus rökstuðningur liggi að baki?
Lárus Blöndal
Stefán Már Stefánsson,
Flokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Hárrétt hjá þessum heiðursmönnum. Við megum ekki láta það viðgangast að á okkur verði lögð þessi ógnarbirgði - aldrei. Það má ekki og getur ekki viðgengist að heillri þjóð sé refsað með þessum hætti fyrir glæfraskap nokkurra græðgiskarla og undirlægjuhátt samfylkingarinar.
Arinbjörn Kúld, 12.6.2009 kl. 10:43
Nú er mikilvægt að fólk sendi þingmönnum allra flokka bréf og lýsi hug sínum. Bréfin verða að vera kurteisleg og málefnaleg.
Þeir sem vilja fá að vita sannleikann í málinu, pólitískan og lagalegan, verða núna að standa með sjálfum sér og láta þingmenn vita af því.
Það eru enn margir þingmenn sem hafa ekki ákveðið hvort þeir greiða atkvæði með eða gegn ríkisábyrgðinni vegna samningsins. Þeir verða að finna og vita hver er hugur almennings.
Skrifið endilega bréf til þingmanna og verið málefnleg.
Helga (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 11:12
Þessi grein þeirra lögfræðiganna er vitaskuld alger þungaviktargrein, eins og ég var líka að skrifa um á mínum vef. Ég hygg hún slái algerlega út af laginu möguleikann á því að "Icesave-samkomulagið" nái fram að ganga á Alþingi. Ef Jóhönnu og Össuri (sem væru þá að láta þetta meðal helgast af sínum EBé-innlimunartilgangi) og Steingrími J. tækist að neyða þingmenn sína til að skrifa upp á þetta samkomulag Svavars stúdents hins (upp á síðkastið) princíplausa, þá er eitthvað meira en lítið rotið við stjórnmál á Íslandi. Hér er um framtíð þjóðarinnar að tefla. Og í reynd er Icesave-skuldbindingin þegar orðin um 733 milljarðar að sögn Sigmundar Davíðs, sbr. bls. 4 í Mbl. í dag, sem ég get líka um í pistli mínum.
Með baráttukveðju fyrir fullveldi Íslands,
Jón Valur Jensson, 12.6.2009 kl. 11:18
Bendi líka á stiklur Jóns Helga Egilssonar, Ellefu firrur um Icesave, sem áhugavert innlegg í umræðuna.
Haraldur Hansson, 12.6.2009 kl. 11:42
Því miður held ég að það sé þannig að Samfylkingin ætlar, hvað sem tautar eða raular, að skrifa undir þetta því Bretar og Þjóðverjar hóta að leggja stein í götu okkar hjá ESB ef við gerum það ekki.
Bendi á 91. grein almennra hegningalaga, sem tekur til landráða:
91. gr. Hver, sem kunngerir, skýrir frá eða lætur á annan hátt uppi við óviðkomandi menn leynilega samninga, ráðagerðir eða ályktanir ríkisins um málefni, sem heill þess eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin, eða hafa mikilvæga fjárhagsþýðingu eða viðskipta fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum, skal sæta fangelsi allt að 16 árum.
Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem falsar, ónýtir eða kemur undan skjali eða öðrum munum, sem heill ríkisins eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin.
Sömu refsingu skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri.
Dæmi nú hver fyrir sig um hvort þeir sem eru við það að ofurselja okkur þessum ógurlega skuldaklafa séu að brjóta þessi lög.
Staðreyndin er sú að okkur ber engin skylda til að ábyrgjast Icesave, nákvæmlega engin. Eina ástæðan, EINA ÁSTÆÐAN, að við erum að láta þvinga okkur inn í þetta eru hótanir erlendra ríkja og heigulsháttur núverandi ríkisstjórnar.
Og hvað með það þó innlánstryggingakerfi Evrópu hrynji? Ekki sömdum við það kerfi og við berum enga ábyrgð á lélegri lagasetningu innan ESB.
Og hvaða rugl er það að við getum ekki farið í mál út af þessu, því hinar þjóðirnar vilja það ekki? Síðan hvenær þarf maður samþykkir þess sem maður kærir til að fara í mál?
Nei, Samfylkingin ætlar að framselja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar í hendur erlendra ríkja sem geta í sjálfu sér gert það sem þeim sýnist, ef við látum undan núna munum við aldrei geta spyrnt við fótum framar, við verðum þrælar stóru ríkjanna í ESB.
Og að voga sér að halda því fram að þetta hafi engin áhrif á lánshæfismat ríkisins, er auðvitað fásinna.
Annars væri merkilegt að spyrja heilaga Jóhönnu (valdalausasta forsætisráðherra landsins) hvort það sé góð hugmynd að losa sig út úr þessar klemmu með því að taka erlent kúlulán og taka bettið að krónan styrkist og að við græðum þegar upp verður staðið. Erum við ekki í þessari klemmu einmitt út af nákvæmlega þessum hugsanahætti?
Við VERÐUM að koma í veg fyrir að þessi Icesave samningur verði samþykktur, það er skylda okkar sem þegnar þessa lands að hindra það. Við verðum búin að vera sem þjóðfélag ef þetta verður samþykkt.
Liberal, 12.6.2009 kl. 12:52
Leyfist mér að segja "AMEN" þetta getur bara ekki verið skírara, ég hef aldrei skilið hví við ættum að ábyrgjast Icesafe og því meira sem ég les, því meira skil ég og er fullviss um að mín fyrstu rök varðandi þetta mál, þó þau hafi verið einfaldari en þessi skrif (sem eru frábær) þá höfðu þau rétt fyrir sér. Ætla að deila þessu á fésinu.
Takk fyrir mig.
Linda, 12.6.2009 kl. 17:49
Mjög góð grein hjá Stefáni Má og Lárusi. Það er hárrétt hjá þeim að það verður að leggja allt á borðið í þessu máli. Allt sem ég hef kynnt mér um þetta mál, lagarök og pólitísk rök, bendir til þess að við séum að taka á okkur skuldbindingar sem okkur ber engin skylda til að taka á okkur.
Steingrímur og Jóhanna eru á annarri skoðun og virðast búa yfir einhverjum upplýsingum. Þessar upplýsingar verður að leggja á borðið. Ég vil fá að leggja mat á þær á eigin spýtur og draga mínar eigin ályktanir. Minni spuna, meiri staðreyndir.
Kristinn Þorleifsson (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 19:15
Það eru fleiri lög til í íslensku lagasafni sem segja sömu merkingu og var rædd hér að ofan. Það er er einnig til ennþá stjórnarskrá sem er í gildi fyrir vonandi alla íslendinga, sem tekur á þessari ríkisskulbindingu.
Við skulum borga þessar skuldir sem okkur bera, en við skulum borga þær á okkar skilmálum, en ekki skilmálum ESB ríkja.
Eggert Guðmundsson (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 22:46
Eggert, hvað áttu við?
Hjörtur J. Guðmundsson, 13.6.2009 kl. 00:19
Gott og vel...
En hvað ertu þá að segja ?
Ertu að segja að þær forsendur sem jóhanna og steingrímur hafa fyrir sér um að það sé ekki lagalegur möguleiki að vinna þetta mál fyrir rétti sé lygi af þeirra hálfu ?
Brynjar Jóhannsson, 13.6.2009 kl. 05:06
Brynjar þær forsendur, sem þau gefa eru byggðar á ógrunduum ályktunum, geðþótta og hafa aldrei verið rökstuddar. Lygi er ágætt lýsingaroð, blekking annað.
Þau hafa svo í ofanálag hafnað því a þjóðin hafi vit á að taka ákvörðun um samninginn og ætla sér að hafa vit fyrir hana að henni forspurðri. Einnig láta þau hjá liggja eða forast a upplýsa um þvinganir og hótanir frá títtnefndum þjóðum auk AGS og það allt fellur eins og flís við þær lagagreina, sem Liberal vitnar í hér að ofan. Á grunni þeirra getur hver sem er kært þau fyrir þau brot.
Það er svo væntanlega í hendi forseta Íslands að staðfesta þessa samþykkt ef hún gengur í gegn og ef hann treystir sér ekki til þess, getur hann vísað málinu til þjóarinnar. Nú er eins gott að minn maður læri af mistökum sínum varðandi fjölmiðlafrumvarpið og beri svona einu sinni framtíð og heill þjóðarinnar fyrir brjósti í stað þess að vera málpípa og bolabítur glæpahringja.
Geri hann það ekki, þá skal hann sæta dómi alþýðunnar, því ef þessi ósköp verða samþykkt þá mun fólki taka lögin í sínar hendur. Ég mun fyrstur gefa mig fram í það.
Jón Steinar Ragnarsson, 13.6.2009 kl. 07:06
Við eigum ekki að borga skuldir annarra.
Baldvin Baldvinsson (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 19:36
Hjörtur. Lestu lög UM RÍKISÁBYRGÐ nr. 121/ 1997
Eggert Guðmundsson (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 21:42
Legg til að ofangreind áskorun til þingmanna um að samþykkja ekki Icesavesamningana verði endursend á netið í dag á facebook grúppu og beint til forsetans líka. Það er kominn tími á "við mótmælum allir" momentið á Alþingi ellegar er fullveldið í hættu.
Nína Margrét Grímsdóttir (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 09:34
Eins og Davíð sagði við eigum ekki að borga krónu þarna út, enda stóð íslenska þjóðinn ekki á bak við þessa glæpamennsku Landsbankamanna.
Ómar Ingi, 20.6.2009 kl. 16:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.