16.4.2009 | 20:33
USD er bara ein af mörgum bandarískum myntum
Það kom mér á óvart að USD er alls ekki eini gjaldmiðillin í Bandaríkjunum. Þar eru í umferð tugir annara innlendra gjaldmiðla sem kallast aukagjaldmiðlar (e. complementary currencies, local currencies).
Eins og við er að búast endurspeglar gengi USD afkomu alls bandaríska hagkerfisins en ekki einstakra svæða. Bandaríkjadollar er því iðulega of sterkur fyrir sum héruð og á sama tíma of veikur fyrir önnur svæði. Afleiðing af of sterkum Dollar er aukið atvinnuleysi á viðkomandi svæði og fólksflótti til annarra svæða.
Við slíkar aðstæður getur aukagjaldmiðill örvað viðskipti á svæðinu, aukið hagvöxt og dregið úr atvinnuleysi.
Það eru til mismunandi tegundir af aukagjaldmiðlum, sumir eru gefnir út sem seðlar og mynt en aðrir eru bara til á rafrænu formi. Sumir eru ávísun á vinnutíma en aðrir á góðmálma.
Það er líka fullt af aukagjaldmiðlum í Evrópu, líklega eru 20 slíkir í Þýskalandi einu sér.
Maður veltir því fyrir sér ef Dollar hentar svona illa í Bandaríkjunum og Evra hentar ekki öllum í Evrópu, er þá hægt að reikna með að þessar stóru myntir henti hér á Íslandi?
Hér eru nokkrar krækjur á síður sem fjalla nánar um aukagjaldmiðla.
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkur: Evrópumál | Breytt s.d. kl. 21:00 | Facebook
Athugasemdir
Athyglisvert - mér hefur að vísu hvergi tekist að framvísa öðrum "legal tender" en USD í Bandaríkjunum ennþá og hafði ekki heyrt af þessum aukagjaldmiðlum fyrir utan inneignarmiða hjá local Co-Ops sem eru bara teknir gildir í kaupfélaginu.
Við gætum svosem alveg stofnað nýtt SíS og breytt Íslensku matador-krónunni í inneignarmiða hjá kaupfélaginu...og haldið verðtryggingunni - en hvaða alvöru gjaldmiðil leggur þú til að við notum í viðskiptum við útlönd - ef við eigum á annað borð að leyfa slík viðskipti?
Róbert Björnsson, 16.4.2009 kl. 21:26
Er eitthvað sérstakt að íslensku krónunni sem ekki lagast þegar búið er að vinda ofan af öllum þessum "carry trade" peningum? Það er ljóst að það verður gríðarlegur söluþrýstingur á krónuna þangað til allir erlendu áhættufjárfestarnir hafa náð að losa út sínar fjárfestingar í ISK (jöklabréfin og allt það), en eftir það er engin ástæða fyrir að gjaldmiðillinn ætti að vera "verðlaus" eins og margir hafa verið að tala um. Svo lengi sem Íslendingar hafa eitthvað að selja (fisk, ferðamennsku, hátækni, orku o.s.frv.) og þú þarft að skipta yfir í ISK áður en þú kaupir af Íslendingum, þá getur gjaldmiðillinn aldrei verið verðlaus frekar en þessir hlutir geta orðið einskis virði.
Hitt er annað mál hvernig er best að losa út carry trade peningana.
Ég er ekki viss um að gjaldeyrishaftaleiðin sem verið er að fara sé sú besta. Hvort er betra að Íslendingar þurfi að borga tvöfalt fleiri þorska (sem er ca. staðan núna) fyrir útlendar vörur í t.d. 12 mánuði á meðan carry trade peningarnir hverfa út úr hagkerfinu hægt og rólega, eða að þurfa að borga t.d. fjórfalt fleiri þorska fyrir erlendar vörur í 1 mánuð meðan carry trade peningarnir húrrast út eins hratt og fjárfestarnir ná að hringja í bankann sinn? Þetta síðarnefnda er sennilega það sem myndi gerast ef gjaldeyrishöftum væri aflétt, og það væri mjög sárt í svona einn mánuð fyrir heimili með erlend gjaldeyrislán, en miklu ódýrara fyrir þau ef maður lítur til 12 mánaða eða lengri tíma heldur en að halda í gjaldeyrishöftin.
Önnur leið sem hefur verið nefnd og væri kannski góð er sú að bjóða eigendum jöklabréfa að kaupa þá út með því að borga þeim, í USD (annaðhvort af gjaldeyrisvaraforða ríkisins, eða með skuldbreytingu yfir í skuldabréf í USD með miklu lægri vöxtum), t.d. 15% af því verðgildi sem bréfin höfðu í USD þann 1. október. Það tækju þessu ábyggilega margir erlendir fjárfestar, en þeir sem eftir yrðu væru þá að veðja með krónunni sem tæki þá sennilega minni dýfu þegar gjaldeyrishöft yrðu afnumin.
Jói Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 23:11
Góður punktur og þarft innlegg. Ef maður leitar til læknis vegna kvefs og lækninum tekst ekki betur til en svo að drepa manninn með "lækningu" sinni þá er spurning hvort maðurinn hafi verið handónýtur eða læknirinn. Seðlabankinn hefur með hávaxtastefnu sinni farið illa með krónuna og valdið miklum skaða. Ég segi: Það er mikilvægara að skipta út völdum hagfræðingum seðlabankans en að skipta út krónunni.
Jón Helgi Egilsson (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 15:04
ú veltir fyrir þér hvaða gjalmiðil skuli nota í viðskiptum við útlönd. Ég hef enga skoðun á því, held að það sé best að láta það ráðast af aðstæðum. Krónan á, líkt og íslenskan, lítið erindi út fyrir landsteinana. Það gerir hana samt ekkert verri sem gjalmiðil innanlands. Inn- og útflytjendur geta gert ýmsa framvirka samninga til að dreifa sinni áhættu ef þeir vilja.
Jói,
Sammála þér að við þurfum að hleypa þessum vansælu fjárfestum úr landi sem fyrst en ekki pína þá til að vera hér og blóðmjólka okkur með okurvöxtum á sama tíma.
Jón Helgi,
Þú átt heiður skilinn fyrir að benda á afleiðingar hávaxtastefnu Seðlabankans. Það liggur beinna við að skipta út ónýtum hagfræðingum en að kasta krónunni :)
Frosti Sigurjónsson, 17.4.2009 kl. 15:39
Ég hef lengi vitað um minni gjaldmiðla í Evrópu og Bandaríkjunum, en ekki rekist á þá í notkun. Það er ekkert sem mælir gegn aukagjaldmiðlum af þessu tagi. Þeir eru væntanlega gefnir úr undir einhvers konar Myntráðum. Þetta merkir að peningakerfi þeirra er lokað og að myntin er baktryggð með traustum gjaldmiðli eða góðmálmi.
Gengi US Dollar endurspeglar ekki afkomu Bandaríska hagkerfisins. Það er algjörlega rangt að taka svona til orða. Til skemmri tíma litið, er fjölmargt sem hefur áhrif á gengi gjaldmiðils, en til lengri tíma er það gjaldeyrissjóður útgefandans sem ræður úrslitum. Eru næg verðmæti í varasjóðnum til að baktryggja útgefinn gjaldmiðil ?
Við gætum hæglega komið á fót aukagjaldmiðli, við hlið Krónunnar. Þetta yrði að gerast undir stjórn Myntráðs, sem myndi halda föstu gengi gagnvart einhverri góðri stoðmynt. Krónan mætti fljóta áfram og vera handstýrt af Seðlabankanum. Peningakerfi Myntráðsins yrði lokað og eini möguleikinn til að fá þennan gjaldmiðil (seðla og mynt), væri að kaupa hann af Myntráðinu fyrir stoðmyntina (US Dollar væri bezt). Gengi Íslendska gjaldmiðilsins (Íslendsks Dollars) gagnvart Krónu myndi þá breytast eins og gagnvart US Dollar.
Loftur Altice Þorsteinsson, 17.4.2009 kl. 15:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.