22.4.2011 | 17:38
Icesave III kosningabaráttan og lærdómur af henni
Sunnudaginn 20. febrúar árið 2011 kynnti Forsetinn þá ákvörðun sína að þjóðin fengi sjálf að ákveða hvort lögin um Icesave III samningana myndu halda gildi. Þar með hófst kosningabarátta milli ríkisstjórnarinnar og þeirra sem vildu að lögunum yrði hafnað.
Samstaða þjóðar gegn Icesave, samtökin sem staðið höfðu að undirskriftasöfnun gegn Icesave III hófust strax handa en það var á brattann að sækja. Skoðanakönnun Capacent sem birt var 2. mars, sýndi að 65% hyggðust kjósa með samningunum.
Ríkisstjórnin lagði í öflugt kynningarátak. Rökin voru þau að Icesave III samningarnir væru skárri en fyrri samningar og höfnun þeirra gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar: Lánshæfi myndi versna, gjaldeyrishöft festast í sessi, endurreisn tefjast, fjármálamarkaðir lokast, Íslandi yrði stefnt fyrir dómstólum og að öllum líkindum tapa málinu og þá yrði að borga allt í topp með hærri vöxtum.Samninganefndarmenn, þar á meðal Bucheit og Blöndal sem áður höfðu gagnrýnt fyrri samninga, mæltu nú eindregið með Icesave III. Nefndarmenn voru óþreytandi við að koma þessari afstöðu á framfæri í fjölmiðlum og á kynningarfundum víða um land. Óhætt er að segja að kynning Icesave málsins hafi verið mjög einhliða.
Advice hópurinn steig fram til að tala fyrir því að hafna bæri samningunum. Advice boðaði til blaðamannafundar 14. mars til að kynna átakið og meginrök gegn Icesave III, en enginn fjölmiðill sá ástæðu til að senda fréttamann á þann fund.
Advice hóf kynningarátak, sett var upp vefsíða með upplýsingum og greinum eftir mikinn fjölda sérfræðinga. Talsmenn Advice komu fram í fjölmiðlum og héldu erindi á fundum.
Umræðan var mjög virk meðal almennings og mikill fjöldi greina birtist í prentmiðlum, bæði með og á móti. Lögfræðingar og hagfræðingar létu ekki sitt eftir liggja í greinaskrifum.
Þegar á leið bentu skoðanakannanir til þess að forskot Já-manna færi minnkandi.Þann 24. mars steig Áfram hópurinn fram á sviðið til að styðja baráttu ríkisstjórnarinnar fyrir því að fá lögin samþykkt. Viku síðar bentu skoðanakannanir til þess að sveiflan yfir á Nei hliðina hefði hægt mikið á sér.
Þegar tvær vikur voru til kosninga hófu fjölmiðlar að fjalla um samningana og dómstólaleiðina. Þrátt fyrir verulegt flækjustig virtust kjósendur staðráðnir í að komast til botns í málinu. Heimsóknir á vef Advice.is hlupu á þúsundum dag hvern og vinsælustu greinarnar voru lesnar af meira en tíu þúsund manns. Vel yfir tíu þúsund manns horfðu á myndskeið þar sem Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður útskýrir dómstólaleiðina.
Þegar tæp vika var til kosninga, bentu skoðanakannanir til þess að fólk væri aftur að færast yfir á Nei vænginn, munurinn var orðinn það lítill að allt gat gerst í kosningunum.
Bæklingur frá stjórnvöldum með hlutlausu kynningarefni um Icesave lögin var borinn í hús 4. apríl.Kosið var 9. apríl.
Fyrstu tölur komu klukkan 23 og bentu til þess að þjóðin hefði hafnað lögunum. Lokatölur reyndust afgerandi: lögin voru felld með 60% atkvæða og kosningaþátttaka var 75%.
Þegar niðurstaðan lá fyrir, reið á að koma réttum skilaboðum til fjölmiðla svo niðurstaðan yrði ekki rangtúlkuð. Ríkisstjórnin flaskaði á þessu. Viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra við úrslitunum endurómuðu í heimspressuni:
- "We must do all we can to prevent political and economic chaos as a result of this outcome - Guardian
- "The worst option was chosen and has split the country in two - BBC
- I fear a court case very much - Reuters
Nú eru liðnir tíu dagar frá því að lögunum var hafnað. Dómsdagsspár ríkisstjórnarinnar hafa ekki gengið eftir. Moodys hefur tilkynnt að lánshæfismat Íslands sé óbreytt. Krónan hefur styrkst og skuldatryggingaálag lækkað. Dómsdagsspár stórnvalda rættust ekki og nú keppast ráðherrar við að eigna sér heiðurinn af því. Nær væri að þeir bæðu þjóðina afsökunar á hræðsluáróðrinum.
En hvað má læra af þessu - hverju þarf að breyta?
1. Kynningarefni til kjósenda innihaldi rökin með og móti
Í aðdraganda þjóðaratkvæðis ber innanríkisráðuneyti að dreifa bæklingi með lögunum á öll heimili. Í þetta sinn ákvað Alþingi að ganga lengra og fól ráðuneytinu að útvega einnig í bæklinginn hlutlaust kynningarefni um málið.Advice hópurinn lagði til að báðum fylkingum yrði boðið tiltekið rými í bæklingnum svo kjósendur gætu kynnt sér með- og mótrök, eins og hefð er fyrir í Sviss. Því var hafnað.Advice lagði einnig til að báðar fylkingar fengju að rýna drög að kynningarefni til að ganga úr skugga um hlutleysi þess. Því var einnig hafnað.Það virðist nauðsynlegt að setja reglur um þessi atriði til að jafna aðstöðu beggja fylkinga til að kynna sinn málstað fyrir kjósendum og tryggja að kynningarefni sem kynnt er sem hlutlaust hafi verið rýnt með hliðsjón af því.
2. Tryggja þjóðinni frest til að mynda sér skoðun
Þjóðin á sinn rétt á því að kynna sér málavöxtu, skoða rökin með og móti og mynda sér upplýsta skoðun. Þetta tekur tíma og hér reyndust 48 dagar varla duga. Upplýsingabæklingur stjórnvalda kom ekki í hús fyrr en fimm dögum fyrir kosningar.Tveir mánuðir ættu að vera lágmarksfrestur og engin vanþörf á því að binda þann frest í lög til að halda ríkisstjórnum í skefjum. Athygli vekur að skv. 4. gr. laga nr. 91/2010 um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, skal halda þjóðaratkvæðagreiðslu innan 2 mánaða hafi Forseti beitt málskotsrétti. En hafi þingið sjálft vísað lögum til þjóðarinnar skal halda atkvæðagreiðsluna innan 3 til 12 mánaða. Hvers vegna er kjósendum ekki tryggður neinn lágmarks-umhugsunartími þegar Forsetinn vísar til hennar málum? Þetta er hneisa og þarf augljóslega að breyta. Þjóðin á alltaf að fá sinn tíma til að mynda sér upplýsta skoðun, ekki bara í þeim málum sem þinginu þóknast að leggja fyrir hana.
3. Gera þarf einhverja lágmarkskröfur til fjölmiðla um jafnvægi í miðlun
Fjölmiðlar léku stórt hlutverk í því að upplýsa kjósendur um Icesave III málið. Flestir miðlarnir tóku afstöðu með- eða á móti og hygluðu sínum málstað í hvívetna. Þrátt fyrir það, sáu þeir samt sóma sinn í því að loka ekki alveg á efni frá andstæðingum.En hvað ef miðlarnir hefðu lokað algerlega á andstæð sjónarmið? Hvað ef þeir hefðu allir haft sömu afstöðu til málsins? Hefðu kjósendur þá getað tekið upplýsta ákvörðun?Í nýjum og umdeildum fjölmiðlalögum stendur í 26. gr.: Fjölmiðlaveitu sem hefur þá yfirlýstu stefnu að beita sér fyrir tilteknum málstað skal vera óskylt að miðla efni sem gengur í berhögg við stefnu miðilsins. Ekki verður séð að þetta ákvæði stuðli að jafnvægi í miðlun.Vald fjölmiðla er mikið og það er sjálfsagt að því valdi fylgi lágmarkskrafa um jafnvægi í miðlun svo lýðræðið verði síður hneppt í fjötra þeirra valdablokka sem stjórna fjölmiðlum.
4. Auglýsingar - eiga þeir ríku bara að vinna þann slag?
Pólitískar auglýsingar virka misvel á fólk en á heildina litið þá geta þær samt skipt töluverðu máli. Í þetta sinn virtust báðar fylkingar hafa nægan aðgang að fjármagni til að auglýsa. En það má vel sjá fyrir sér kosningar þar sem aðgangur fylkinga að fjármagni væri mjög ójafn.Það hlýtur að vera æskilegt að úrslit kosninga ráðist fremur af eðli máls og skoðun kjósenda en því hversu vel fylkingar geta höfðað til fjármagnsins. Auglýsingabann er ekki góður kostur, en það mætti setja eitthvað þak á auglýsingamagnið til að jafna leikinn.Uppruni fjármagns getur skipt máli. Eðlilegt er einstaklingar njóti nafnleyndar, en spyrja má hvort fyrirtæki og samtök sem leggja fram fé eigi líka að njóta nafnleyndar. Setja mætti reglu um að enginn einn aðili útvegi meira en 10% af heildarfjármögnun. Eða að þeir aðilar sem greiða meira en 20% njóti ekki nafnleyndar. Viljum við að erlendir aðilar eins og t.d. ESB eða Kína geti tekið beinan þátt í kosningabaráttu eða fjármögnun fylkinga hér á landi í aðdraganda kosninga?
5. Það þarf eftirlit með hlutleysi RÚV
Í lögum nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið stendur Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð. Í lögin vantar hins vegar ákvæði um hvernig eftirliti með óhlutdrægni skuli vera háttað og það eru engin viðurlög við misnotkun á RÚV hvað þetta varðar. Starfsfólki RÚV er því í raun gefið algert sjálfdæmi um það hvort það uppfylli kröfur um óhlutdrægni í sínum störfum. Þetta fyrirkomulag býður hættunni heim.Margir hafa bent á að umfjöllun RÚV hafi verið hlutdræg í Icesave málinu. Meðal þess sem bent hefur verið á er að: starfsmenn RÚV notuðu iðulega orðið skuld Íslands þegar kröfur Breta og Hollendinga bar á góma. Þegar fræðilegir álitsgjafar voru fengnir til viðtals gleymdist að fá einn frá hvorri fylkingu, og það gleymdist líka að geta þess að álitsgjafarnir voru hlutdrægir, voru jafnvel á kaupi við að halda fram sjónarmiðum stjórnvalda eða höfðu beina fjárhagslega hagsmuni af því að samningar tækjust. Þess var ekki heldur gætt að gefa talsmönnum beggja sjónarmiða jafn langan tíma. Það er augljóst að RÚV þarf aðhald og það þarf að setja lög um slíkt aðhald sem fyrst.
Enginn vill hafa reglur um alla skapaða hluti. En þegar kemur að lýðræðinu í landinu þá er nauðsynlegt að setja ríkisvaldinu, fjármagninu og fjölmiðlum skýrar reglur. Reynslan af Icesave III sýnir okkur að hér þarf að laga til og það er ekki eftir neinu að bíða. Skorum á Alþingi að gera úrbætur sem fyrst.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Frosti ég get fallist á að RÚV liðið hafi sýnt að það var með því að samþykkja Icesave III og að þáttakendur í umræðunum t.d. hjá Agli Helgasyni hafi verið flestir á skoðanasnúrunni milli VG og Samfylkingar..... að vanda.
.. en sjáðu nú Árna Pál og Steingrím þessir menn fara út og berjast fyrir málstaðnum. Taka matsfyrirtækin í nefið, matsfyrirtækin sem okkur var sagt að myndi fella Ísland í ruslflokk. Þessir menn eru snillingar. Ef þeir hefðu haft Jóhönnu með sér hefðum við fengið AAA+
Sigurður Þorsteinsson, 23.4.2011 kl. 08:30
flottur Sigurður ef jóka hefði farið með væri hún komin með vængi.
gisli (IP-tala skráð) 23.4.2011 kl. 08:40
Mér finnst það eiginlega barnalegt að þakka Steingrími og Árna Páli fyrir að hafa orði til þess að matsfyrirtækinn lækkuðu ekki lánshæfið. Ef menn hugsa nú aðeins fram yfir áróður stjórnvalda, þá er það nú svo að það er ekki hægt að taka mark á lánshæfisfyrirtæki sem lætur stjórna sér svo að það sé hægt að fara og biðja um niðurstöðu.
Þeir eru að skreyta sig með stolnum fjöðrum þessir tveir. Taka sigurinn af þjóðinni. Og telja fólki trú um að það hafi ekki verið NEIIÐ sem varð til góðs heldur þeir sjálfir sem tækluðu málin. Þetta er bara hallærisleg tilraun til að halda andlitinu.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.4.2011 kl. 11:08
Hvað ég get verið þér sammála Ásthildur. Það aumasta sem ég veit er að skreyta sig með annarra fjöðrum,og ekki nóg með það, ríkisstjórnin virðist ekki ætla að sjá sóma sinn í að fara fram á opinbera afsökun vegna ummæla um forsetann okkar í danska sjónvarpinu.
Sandy, 23.4.2011 kl. 12:46
Ráðherraráð ESB hefur sett fram ágæt tilmæli til aðildarríkja um fjölmiðla og kosningar.
Þau má finna hér:
http://www.coe.int/t/dghl/standardsetting/media/doc/cm/rec(1999)015&expmem_EN.asp
Við þurfum að nýta betur það sem vel er gert í ESB og annarstaðar.
Frosti Sigurjónsson, 24.4.2011 kl. 13:16
Tek undir það með þér Sandý, að skreyta sig með annarra fjöðrum er lítilmótlegt. Sammála því með ummælin um forsetann.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.4.2011 kl. 12:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.