30.12.2010 | 21:08
Evruvandinn: Ísland þarf viðbragðsáætlun
Á meðan ríkisstjórnin keppir að því að koma Íslandi í Evrópusambandið, svo hér megi taka upp evru, hrannast óveðursskýin upp yfir myntbandalaginu.
Líkur á endalokum evrusamstarfsins eru enn sem komið er taldar litlar, en kannski meiri líkur á að evrusvæðinu verði skipt í tvo hluta. Hvers kyns breytingar af þessu tagi myndu þó hafa víðtækar afleiðingar um allan heim og líka hér á Íslandi.
Árið 2007 skrifaði Barry Eichergreen, prófessor í hagfræði við Kaliforníuháskóla skýrslu fyrir hagfræðstofnun Bandaríkjanna, þar sem hann fjallar um endalok evrusvæðins og hverjar helstu pólitískar, efnahagslegar, lagalegar og tæknilegar afleiðingar gætu orðið.
Eichergreen færir rök fyrir því að útganga úr myntbandalaginu sé þyrnum stráð en þó líklega minnst verst fyrir Þýskaland.
Aðildarríki (annað en Þýskaland) sem tilkynnir áform um útgöngu úr myntbandalaginu skapar með því væntingar um gengisfellingu hins nýja gjaldmiðils. Allir sem geta, munu vilja flytja evrur sínar úr því landi fyrir myntbreytingu. Það myndi jafngilda áhlaupi á alla banka þess lands.
Öðru máli gegnir um Þýskaland, enda mætti reikna með að nýr gjaldmiðill þess myndi styrkjast gagnvart evru. Um leið og áform um endurkomu þýska marksins spyrðust út myndu evrur streyma hvaðanæva af evrusvæðinu og inn á Þýska bankareikninga.
Sumir telja líklegt að myntbandalagið skipst í tvo hluta þar sem Þýskaland og sterku hagkerfin yrðu í einum hluta en svonefnd PIIGS lönd í hinum.
Allir hljóta að vona að Evrópusambandinu takist að finna lausn á vanda myntbandalagsins. En hvað ef það tekst nú ekki? Hver yrðu þá áhrifin á eignir og skuldir Íslendinga í evrum? Hver yrðu áhrifin á Icesave samninginn? Hvað geta stjórnvöld og einkaaðilar gert núna til að takmarka tjón sitt af hugsanlegum endalokum / breytingum myntbandalagsins? Hvað yrði um umsóknina í Evrópusambandið?
Á meðan óvissa ríkir um afdrif evrunnar munu skynsamir fjárfestar kjósa að geyma evrueignir sínar í Þýskalandi, fremur en í öðrum evrulöndum. Heyrst hefur að þýskur almenningur hafi um nokkurt skeið hamstrað evruseðla sem útgefnir eru í Þýskalandi.
Svo má velta því fyrir sér hvað yrði um evrur í bönkum utan evrulanda. Varla breytast þær í þýsk mörk. Nei, þær verða líklega áfram evrur og falla því í verði ef Þýskaland tekur upp markið.
Þeir skuldarar sem hafa eitthvað val, munu kjósa að hafa evruskuldir sínar útgefnar í PIIGS löndunum, þá er möguleiki á að þeim verði sjálfkrafa breytt í veikari mynt.
Þegar land tekur upp nýjan gjaldmiðil er ekki bara skipt um seðla og mynt. Allar innistæður í evrum breytast, allar evrukröfur kreditkortafyrirtækja og öll skuldabréf í evrum sem útgefin eru í viðkomandi landi munu líklegast breytast í hina nýju mynt. Annars gengur dæmið varla upp.
Á meðan engin lausn er í sjónmáli á vanda myntbandalags Evrópusambandsins er ekki hægt að útiloka afdrifaríkar sviptingar. Íslensk stjórnvöld hljóta því að biðja Seðlabankann að undirbúa næmigreiningu og viðbragðsáætlun, enda er það skylda stjórnvalda að gæta þjóðarhagsmuna.
Heimildir:
NBER WORKING PAPER SERIES, THE BREAKUP OF THE EURO AREA, Barry Eichengreen, October 2007
http://www.carloscuerpo.com/wp-content/uploads/2010/05/eichengreen_1.pdf
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkur: Evrópumál | Facebook
Athugasemdir
Rétt að bæta þessu við:
http://www.dailymail.co.uk/news/article-1342828/Eurozone-80-chance-losing-single-currency-decade.html
Frosti Sigurjónsson, 30.12.2010 kl. 21:12
Eins og þeir vita sem fylgst hafa með skrifum mínum, hef ég sýnt hvers vegna hægt er að tala um Evru/Dollara-væðingu sem afbrigði af »fastgengi undir stjórn myntráðs«. Á sama hátt er nokkuð auðvelt að færa land frá Evru-notkun og yfir í myntráð.
Hér má sjá grein, sem ég ritaði fyrir tveimur árum og nefnist Myntráð eða full Dollaravæðing ? Ég sé ekki betur en hún hafi staðist tímans tönn:
http://altice.blogcentral.is/blog/15728409/
Loftur Altice Þorsteinsson, 30.12.2010 kl. 21:56
Hér er grein sem birtist í Viðskiptablaðinu, að nokkru leiti sama efni og ég nefndi fyrr:
http://altice.blogcentral.is/blog/2010/11/4/myntrad-og-einhlida-upptaka-bandarikjadals/
Loftur Altice Þorsteinsson, 30.12.2010 kl. 21:59
Verðgildi krónunar er mælieinig á hagstjórn. Að vera á móti krónunni er álíka gáfulegt eins og að vera á móti grammi og Celsíus. Málið snýst um góða eða lélega hagstjórn,það mælir krónan en stjórnar hvorugu.
Guðmundur Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 30.12.2010 kl. 23:07
Núna eru þrjár íslenskar krónur í notkun en tvær evrur eru ólíklegar. "Hrun" einstakra ríkja verður ekki samtímis og enginn vill binda trúss sitt við lélega hagstjórn með leyndum göllum. Ef PIIGS ráða ekki við evruskilmálana þá verður "veik" evra ekki stofnuð með trúverðugum hætti.
Þrátt fyrir ótraustar undirstöður evrunnar þá er hún og verður einn af top gjaldmiðlum heimsins sem bæði verðtryggða krónan og hagkerfið sveiflast með. Íslensk hagstjórn + króna mun næstu áratugina vera áfram í einu af botnsætunum. Þversögnin í evru umræðunni er að "sterka" verðtryggða krónan er mun vinsælli af heimamönnum heldur en tívolímiðarnir tveir vegna þess að hún er 70% tengd alvöru myntum og óháðari íslenskri hagstjórn.
Hagstjórnin er lykilatriði en með evru eða dollar þá verður minni freistniáhætta í íslenskum stjórnmálum. Vertryggða evru/dollars krónuna er þegar notuð til þess að varðveita verðmæti til lengri tíma. Óskiljanleg er sú afstaða að vilja ekki fá einn traustari gjaldmiðil í stað þrenskona tegunda af íslensku krónunni. Lággengis tívolíkrónan er búin að skila sínu. Nú er vænlegast að taka einhliða upp dollar eða evru.
Borgari, 31.12.2010 kl. 03:15
Fróðlegar athugsemdir, en ég fæ ekki séð að þær tengist efni færslunnar nema mjög óverulega.
Sjá menn kannski enga ástæðu til að hér sé gerð viðbragðsáætlun vegna mögulegs hruns evrusvæðisins?
Frosti Sigurjónsson, 31.12.2010 kl. 15:11
Frosti, ég þóttist vera að gefa þér svar við þeirri spurningu sem brennur á Evrópu-búum: Hvernig geta þeir komist frá Evrunni – án hruns nýgju gjaldmiðlanna ?
Lausnin er fólgin í að fara yfir í myntráð með sinn nýgja gjaldmiðil. Ef notast er við trausta stoðmynt, þá er ekki að óttast hrun. Jafnvel Grikkland hlýtur að eiga nægilegt magn af USD, til að mynda sjóð fyrir myntráðið.
Ég fæ ekki séð að það sé áhyggjuefni fyrir Íslendinga, þótt Evran hverfi úr umferð. Ef hún hrynur, þá hrynja líka skuldirnar sem skráðar eru í henni. Hinum vitiborna fjárfesti dettur ekki í hug að liggja á Evru-eignum.
Loftur Altice Þorsteinsson, 31.12.2010 kl. 18:03
Fín færsla hjá þér Frosti.
Það eru litlar sem engar líkur á því að evrusvæðið liðast í sundur eða að einstaka ríki hætti í því samstarfi.
Seðlabankinn þarf því ekki að hafa neinar áhyggjur eða viðbragðsáætlun. Bankinn er líklega með einhverja vakt hvort sem er á sveiflum erlendra gjaldmiðla.
Ég las ágætis grein í www.faz.net þar sem fjallað var um kostnaðinn af því að taka upp markið aftur. Það væri hægt að bjarga Grikklandi nokkrum sinnum fyrir þann kostnað. Ég get bara ekki fundið þessa grein.
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 2.1.2011 kl. 07:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.