20.12.2010 | 19:06
ESB, þar sem lýðræðið telst til trafala
Í Evrópusambandinu er lagasetning í höndum framkvæmdastjórnarinnar, sem er skipuð 27 fulltrúum sem eru ekki kosnir, heldur tilnefndir af aðildarríkjum. Framkvæmdastjórnin ein hefur vald til að leggja fram lagafrumvörp og hún hefur auk þess allt framkvæmdavald. Þrískipting valdsins er því ekki fyrir hendi í ESB.
Evrópuþingið hefur ekki vald til að leggja fram lagafrumvörp. Þingið hefur aðeins eftirlit með framkvæmdastjórninni og samþykkir lagafrumvörp hennar. Þingið getur ekki gert breytingar á lagafrumvörpum, og þarf hreinan meirihluta þingmanna til að stöðva frumvarp. Til að lýsa vantrausti á framkvæmdastjórnina þarf ⅔ þingsins.
Lýðræðishalli
Í Evrópusambandinu er sérstakt orð yfir þann áhrifamissi sem kjósendur mega þola þegar ákvarðanataka flyst frá þjóðþingum aðildarríkja Evrópusambandsins til Brussel. Orðið er lýðræðishalli.
Í Brussel eru flestar ákvarðanir teknar ef embættismönnum, en ekki af lýðræðislega kjörnum fulltrúum. Þróunin hefur frá upphafi verið sú að ákvarðanataka í sífellt fleiri málaflokkum færist frá lýðræðislega kjörnum þjóðþingum til embættismanna í Brussel. Lýðræðishallinn fer því vaxandi.
Niðurstöður könnunar meðal íbúa Evrópusambandsins (*1) virðast styðja þetta. Þannig töldu 56% svarenda rödd sína skipta máli í landsmálum, en hinsvegar töldu aðeins 34% rödd sína skipta máli í Evrópumálum.
Fjarlægð eykst milli kjósenda og fulltrúa
Þegar ákvarðanir flytjast frá þjóðþingum til Brussel, þá eykst um leið fjarlægð milli kjósenda og þeirra sem véla um ákvarðanir og löggjöf. Það verður því mun erfiðara fyrir kjósendur að ná sambandi við kjörna fulltrúa sína, eða safnast saman og mótmæla.
Einnig verður erfiðara fyrir fulltrúa sem lifir og hrærist í Brussel að setja sig í spor fjarlægra kjósenda.
Lýðræðið virðast vera til trafala
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur rekið sig á það að íbúum aðildarríkjanna er ekki fyllilega treystandi til að kjósa yfir sig meiri samruna og samþjöppun valds í Brussel. Það olli töfum á samrunanum, þegar ný stjórnarskrá Evrópusambandsins var felld í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi.
Í stað þess að taka mark á vilja kjósenda, lagði framkvæmdastjórnin fram nýjan sáttmála (Lissabon) sem fól í sér nánast sömu breytingar og stjórnarskráin sem kjósendur höfðu hafnað.
Lissabon sáttmálinn var hins vegar ekki settur í þjóðaratkvæði, heldur var hann samþykktur af þjóðþingum aðildarríkjanna. Aðeins Írland lagði hann í dóm kjósenda sem sögðu nei. Þar sem það var rangt svar, var fræðslan stórefld og Írar látnir kjósa aftur.
Minnkandi þátttaka í kosningum til Evrópuþings.
Þátttaka í kosningum til Evrópuþingsins hefur farið minnkandi frá upphafi og er nú komin niður í 43%. Áhugaleysi kjósenda skýrist kannski af því hve Evrópuþingið er áhrifalaust. Það er í raun framkvæmdastjórnin sem hefur löggjafarvaldið og kjósendur geta ekki kosið fulltrúa í hana.
Frumkvæðisréttur fólksins er til málamynda
Í Lissabon sáttmálanum kom inn ákvæði (*2) um að ein milljón íbúa Evrópusambandsins geti skorað á framkvæmdastjórnina að leggja fram frumvarp að lögum um tiltekið málefni.
Þess er krafist að undirskriftir safnist frá 0.5% kjósenda, sem koma frá að minnsta kosti þriðjungi aðildarríkja.
Vandinn er sá að það krefst mikilla fjármuna að safna milljón undirskriftum frá svo mörgum ríkjum og engir styrkir eru í boði til þess.
Jafnvel þótt takist að safna undirskriftum þá er samt erfiðasti hjallin eftir, því framkvæmdastjórnin hefur algert sjálfdæmi um hvort hún tekur málið á dagskrá eða ekki.
Þannig söfnuðust meira en 1,2 milljón undirskriftir til stuðnings þeirri tillögu að Evrópuþingið hætti sínu kostnaðarsama flakki milli Brussel og Strasburg. Forsetar Evrópuþingsins létu sér fátt um finnast og höfnuðu því að tillagan yrði rædd í þinginu.
Vaxandi gjá á milli leiðtoga og íbúa
Skoðanakannanir á vegum Evrópusambandsins (*1) sýna vaxandi andstöðu almennings við flutning ákvarðana frá aðildarríkjum til Brussel. Á sama tíma vinna leiðtogarnir að sífellt nánari samruna og miðstýringu. Þetta veit ekki á gott.
Kannanir staðfesta einnig að þeim fer fækkandi sem finnst sambandið standa fyrir lýðræði, hlutfallið lækkaði úr 26% í 19% milli árana 2009 og 2010. Aðeins 50% íbúa telja skilvirkni lýðræðis viðunandi í Evrópusambandinu, en það er lækkun úr 54% frá því ári áður. (*1)
Niðurstaða
Evrópusambandið er ekki lýðræðislegt, allavega ekki í þeim skilningi að þar sé farið að vilja íbúanna eða fylgt góðri venju um aðskilnað framkvæmda- og löggjafarvalds.
Þrátt fyrir fögur fyrirheit er staðreyndin sú að Evrópusambandið er ólýðræðislegt bákn sem þróast hröðum skrefum til meiri miðstýringar, þvert gegn vilja íbúanna.
Heimildir:
(*1) Könnun Eurobarometer frá því í Maí 2010, var birt í Nóv 2010
http://ec.europa.eu/public_opinion/archives/eb/eb73/eb73_vol1_fr.pdf
(*2) Frumkvæðisréttur:
http://ec.europa.eu/dgs/secretariat_general/citizens_initiative/index_en.htm
Athugasemdir
Lygar, þar sem stjórnarmenn Heimssýnar búa.
Jón Frímann Jónsson, 20.12.2010 kl. 19:59
Góðar greinar bæði ofan og neðan og tek undir. Hætta ESB Núna strax og ekki bíða það til allt er of seint. (Hvað er hann að segja þessi jón Fríman ??)
Valdimar Samúelsson, 20.12.2010 kl. 20:28
Góð og fróðleg samantekt hjá þér Frosti!
Jón Frímann er málefnalegur að vanda!!
Gunnar Heiðarsson, 20.12.2010 kl. 20:53
Gunnar, Grunnstaðreyndin hérna er sú að ESB er ekki ríki og hefur aldrei verið það. Hérna er um að ræða samband þjóða sem vinna saman að sameiginlegum málaflokkum.
Þeir sem tala hérna eins og Frosti eru því að biðja um ekkert annað en sambandsríki Evrópu þegar þeir tala fyrir því að Framkvæmdastjórn ESB sé kosin í beinni kosningu.
Svona málflutningur er ennfremur ekkert annað en tómt rugl og hefur alltaf verið það.
Jón Frímann Jónsson, 20.12.2010 kl. 23:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.