Er Íslendingum treystandi fyrir beinu lýðræði?

 

Stundum heyrast þau sjónarmið að það sé mjög varasamt að fela íslenskum kjósendum málskots- og frumkvæðisrétt. Þeir myndi þá bara hafna lögum um aukna skatta og heimta á sama tíma lög um aukna þjónustu og vera almennt óábyrgir í ákvörðunum. Ríkið færi fjótlega á hausinn.

 

Þessu til stuðnigs er vísað til Kaliforníu sem býr við einhverskonar beint lýðræði og rambar á barmi gjaldþrots. Ef vísað er til góðrar reynslu Svisslendinga af beinu lýðræði þá er hún skýrð í burtu með því að sú þjóð hafi meiri lýðræðisþroska en aðrar þjóðir. Íslendingar séu hinsvegar mjög vanþroska og vísir til að klúðra þessu eins og öllu öðru.

 

Rökin gegn þessari afstöðu eru tvenns konar. Í fyrsta lagi eru leikreglur beins lýðræðis ekki þær sömu í Kaliforníu og Sviss. Í öðru lagi hefur reynslan sýnt að kjósendur verða ábyrgari og sýna meiri skynsemi í ákvörðunum ef þeir fá meiri áhrif.

 

Stigsmunur á Kaliforníu og Sviss

Í Sviss er mikil áhersla lögð á að ná samkomulagi milli þings og þeirra kjósenda sem vilja þjóðaratkvæði um tiltekið mál. Þetta millistig virðist einmitt vanta í Kaliforníu og kannski liggur vandinn í því. 

Þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslunni hafa kjósendur í Sviss yfirleitt val um upprunalega tillögu þingsins og málamiðlunartillögu sem tekur þá mið af sjónarmiðum þeirra sem vildu stöðva lögin. Þjóðin getur hafnað báðum tillögum eða samþykkt aðra hvora. Oft er málamiðlunin valin og útkoman er þá sú að eitthvað tillit er tekið til sjónarmiða þings, minnihlutahópa og meirihluta kjósenda.

 

Hvernig varð þessi ólgandi suðupottur vagga nútímalýðræðis?

Áður en beint lýðræði var tekið upp í Sviss var landið ólgandi suðupottur ólíkra þjóðarbrota, tungumála og trúarbragða. Beint lýðræði var tekið upp í kjölfar borgarastríðs og síðan hefur Sviss verið til fyrirmyndar sem friðelskandi og farsæl þjóð. Í borgarastríðinu fyrir rúmum 130 árum hefðu fáir trúað því að æstur almúginn í Sviss hefði þroska hvað þá vilja til að taka ákvarðanir sem höfðu hag heildarinnar að leiðarljósi. 

 

Lýðræðisþroski og farsæld er bein afleiðing af beinu lýðræði

Í fyrstu gæti virst óábyrgt að fela kjósendum úrslitavald yfir störfum þingsins. En reynslan hefur sýnt hið gagnstæða, að kjósendur eru í eðli sínu varkárir, jafnvel varkárari en þingið. 

 

Það að kjósendur geti skotið öllum nýjum lögum til þjóðaratkvæðis setur jákvæða pressu á þingið að vanda sig og sú freisting að skara eld að köku sérhagsmunaafla hverfur. Enda myndi þjóðin stöðva slíka löggjöf.

 

Reynslan í Sviss hefur sýnt að kjósendur eru íhaldssamari í útgjöldum og ríkisrekstri en þingið. Einnig hefur komið í ljós að þeir kjósendur sem hafa vald til að hafna fjárlögum í sínu umdæmi eru 30% ólíklegri til að svíkja undan skatti en hinir. Kjósendur sem hafa raunveruleg áhrif axla sína ábyrgð frekar en aðrir.

 

Áhrifalausir kjósendur hafa hins vegar lítinn hvata til að setja sig inn í einstök mál á starfstíma þingsins. Valdið til að kjósa út þingmenn er ómarkvisst og gefur kjósendum falskt öryggi. Rödd kjósenda heyrist sjaldan nema þegar áföll dynja á landinu og jafnvel þá taka stjórnvöld lítið mark á kjósendum. 

 

En hafi kjósendur rétt til að skjóta málum til þjóðaratkvæðis, svo ekki sé minnst á frumkvæði að nýjum lögum, þá er vilji þjóðarinnar og ábyrgð alltaf til staðar. 

 

Sagan sýnir að aukin áhrif kjósenda leiða til meiri áhuga þeirra á málefnum og ákvörðunum ríkisvaldsins. Með því dregur úr valdi og áhrifum stjórnmálaflokka. Íbúarnir verða vakandi og upplýstir um eigin málefni og taka virkari þátt í að móta framtíð landsins.

 

Ekkert bendir til þess að Svisslendingar séu svo sérstakir að þeim einum sé treystandi til að ná árangri með beinu lýðræði. Það er orðið löngu tímabært að næsta þjóð taki það skref sem Sviss tók fyrir 130 árum: að treysta kjósendum.


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ekki gleyma þeim áhrifum að minnka pólit. spillingu. En, ef völd stjórnmála minnka, þá um leið minnkar áhugi hagsmuna-afla á því, að spilla þeim með stórum peningagjöfum þ.s. slíkt eftir allt saman skilar þá ekki lengur sama árangri en áður, ef þjóðin getur allt í einu slegið út breytinguna.

Smám saman læra stjórnmálin á þetta form, þ.e. þörfina fyrir það að sannfæra almenning. Ekki síst, hvenær mál eru umdeild og þörf til slíks til staðar.

Rökræða milli almennings og stjórnmála ætti að aukast.

Ég hugsa einnig, að þetta ætti að ala á áhuga meðal almennings á þjóðfélagsmálum. 

Að auki, þá eru áhugasamir líklegri til þátttöku í atvkæðagreiðslu en aðrir.

Til lengri tíma litið, ætti þetta að minnka deilur þ.s. samráð verður eina leiðin til að ná umdeildum málum fram.

Kv.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 14.11.2010 kl. 21:07

2 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Algjörlega sammála þér Frosti, og fólk er nú þegar orðið miklu upplýstari varðandi þessi Þjóðfélagsmál en hefur verið. Það er ekkert nema gott um það að segja myndi ég halda og gott er að vita af þér þarna innandyra núna...

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 15.11.2010 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband