12.10.2010 | 19:52
Þróun stjórnarskrárinnar
Þróun stjórnarskrárinnar er afar forvitnileg en um hana má lesa í skýrslu sérfræðinefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar sem kom út árið 2005: "Ágrip af þróun stjórnarskrárinnar". Skýrslan er 30 blaðsíður en hér eru nokkrir punktar úr henni:
Ísland hefur þrisvar fengið stjórnarskrá. Sú fyrsta tók gildi árið 1874 og veitti Alþingi löggjafarvald. Önnur tók gildi árið 1920 í kjölfar fullveldisins árið 1918. Sú þriðja kom með stofnun lýðveldisins árið 1944.
Allar tóku þessar stjórnarskrár mið af þeirri dönsku. Í gegnum tíðina hafa komið fram fjöldi tillagna um breytingar á þessum stjórnarskrám en fæstar verið samþykktar. Allar tilraunir til heildarendurskoðunar á stjórnarskránni frá 1944 hafa mistekist en allmargar breytingar hafa náð í gegn.
Stjórnarskrá um sértæk málefni Íslands 1874
Í kjölfar stöðulaganna var Íslandi gefin stjórnarskrá um sérmálefni sín á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar, árið 1874. Með henni fékk Alþingi löggjafarvald í sérmálum Íslands, takmarkað af neitunarvaldi konungs (sem ráðherra fór með). Framkvæmdavaldið var hluti dönsku stjórnsýslunnar og yfir það settur Íslandsráðherra (dómsmálaráðherra Dana). Mikilvægar umbætur í dómsmálum sem komið höfðu inn í dönsku stjórnarskrána árið 1849 náðu ekki inn í þá Íslensku. Hæstiréttur Dana var æðsti dómstóll Íslands.
Árið 1903 voru gerðar nokkrar breytingar, þingmönnum fjölgað, kosningaréttur karla rýmkaður og sett inn ákvæði um ráðherra.
Árið 1915 komu meðal annars inn ákvæði um landsdóm og lagður niður réttur embættismanna til eftirlauna við brottvikningu eða flutning. Konungskjör þingmanna var afnumið, konur fengu kosningarétt og ákvæði um að enginn skyldi gjalda til annarar guðsdýrkunar en hann sjálfur aðhylltist.
Ný stjórnarskrá 1920
Ísland fékk fullveldi árið 1918 og árið 1919 lagði Jón Magnússon fram frumvarp að stjórnarskrá konungsríkisins Íslands sem innifól þær breytingar sem leiddi af fullveldi. Frumvarpið fór í gegn með minniháttar breytingum og stjórnarskráin var staðfest árið 1920. Eitt af því sem kom inn var réttur embættismanna til eftirlauna sem hafði verið felldur niður árið 1915.
Á árunum 1923 - 1942 komu fram margar tillögur að breytingum sem meðal annars lutu að fækkun ráðherra, fækkun þingmanna, þinghald annað hvert ár, landið eitt kjördæmi, þing ein málstofa, lækkun kosningaaldurs, ofl.
Árið 1934 var kjördæmaskipting fest í stjórnarskrá, þingmönnum fjölgað, landskjör afnumið og kosningaréttur lækkaður í 21 ár. Fjárlög skyldu lögð fyrir sameinað þing.
Árið 1942 var kosningafyrirkomulagi breytt og samþykkt frávik sem gerði landsmönnum kleyft að samþykkja breytingar á stjórnarskrá vegna sambandsslita við Dani í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Stjórnarskrá lýðveldisins 1944
Í upphafi árs 1940 var skipuð nefnd til að semja frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið sem menn sáu færast nær. Nefndin lauk frumvarpinu um mitt árið en það var ekki lagt fram á Alþingi. Kannski vegna þess að Ísland var hernumið af bretum í maí 1940.
Í maí 1942 samþykkti Alþingi að kjósa fimm manna milliþinganefnd til að gera tillögur að breytingum á stjórnskipunarlögum í samræmi við vilja Alþingis um stofnun lýðveldis. Nefndinni vannst vel og nún skilaði uppkasti að nýrri stjórnarskrá í júlí sama ár. Í september 1942 var fjölgað í nefndinni um þrjá svo allir flokkar ættu fulltrúa hún skilaði áliti sínu í apríl 1943 en lagði til að gildistaka yrði miðuð við 17. júní 1944.
Nýja stjórnarskráin var að mestu óbreytt frá þeirri fyrri, nema að felld voru út ákvæði um konung og sett inn ákvæði um forseta. Enda má lesa úr áliti nefndarinnar að hún hafi gert ráð fyrir því að öllu víðtækari endurskoðun á stjórnarskránni myndi bíða betri tíma.
Árið 1945 ákvað Alþingi að skipa tólf manna stjórnarskrárnefnd til að vinna að heildurendurskoðun stjórnarskrárinnar en hún lognaðist út af. Árið 1947 var nefndin sett af stað aftur með sjö mönnum en árið 1955 hafði lítið miðað og lítið fundað þótt nefndin væri formlega til. Árið 1972 var kosin sjö manna nefnd til að vinna að heildarendurskoðun sem skilaði af sér 1983 en ekki náðist sátt um niðurstöðu.
Heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar frá 1944 hefur því aldrei verið lokið. Fjölmargar tillögur hafa komið fram um breytingar en fæstar náð í gegn. Allnokkrar breytingar hafa þó verið gerðar. Stjórnarskránni hefur verið breytt í sex skipti og alls 45 greinum verið breytt en 34 greinar eru ennþá óbreyttar.
Það verður fróðlegt að skoða öll þau frumvörp sem komið hafa fram um tillögur að endurbótum á stjórnarskránni. Meira um það síðar.
Heimild:
Ágrip af þróun stjórnarskrárinnar - sérfræðinefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar - Unnið að beiðni nefndar um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands - Desember 2005.
http://www.stjornarskra.is/media/stjr_itarefni/ST-N_(2005)_agrip_af_troun_stjskr.doc
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:33 | Facebook
Athugasemdir
nema að felld voru út ákvæði um konung og sett inn ákvæði um forseta
Enda sögðu samtíma menn mér að forseti hefði átti að koma inn í stað konungs en titillinn átti ekki að ganga í erfðir. Á að vera tákn gerfingur þjóðarinnar og þannig valdlaus nama hann gruni þingið um að svíkja hollustuna við almenning. Siðspilling getur ágerst einu sinn á öld.
Júlíus Björnsson, 13.10.2010 kl. 01:44
Þetta kalla ég að vinna heimavinnuna sína Frosti. Lofar góðu. Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja.
Háskóli Íslands stendur sig einmitt vel í fræðslu um stjórnarskrá Íslands í stjórnmálafræðináminu og er mér minnisstætt námskeið sem Svanur Kristjánsson kenndi af mikilli innlifun.
Stóra spurningin er þessi eins og ég vakti athygli á í pistli um daginn. Hvernig munu fulltrúar á stjórnlagaþinginu taka á þessu verkefni. Á að gera grundvallarbreytingar á stjórnarskrá Íslands, eða er bara ætlunin að gera minniháttarbreytingar? Er það tilgangur sumra að taka bara á þeim þætti í stjórnarskrá sem leyfir afsal á fullveldinu til annarra?
Það er mikilvægt að allt þetta komi skýrt fram í kynningu frambjóðenda til stjórnlagaþingsins.
Með baráttukveðju,
Jón Baldur
Jón Baldur Lorange, 13.10.2010 kl. 13:03
Íslenska stjórnarskráin, eru í grunni í samræmi við stjórnarskrár sem komu fram eftir upplýsinga öld. Heldur um gildi eins og frelsi, jafnrætti og bræðralag/systkynasamheldni.
Júlíus Björnsson, 13.10.2010 kl. 19:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.