8.5.2009 | 01:32
Óðagot veit ekki á gott
Hvers vegna allt þetta óðagot? Hvers vegna að þröngva þjóðinni í aðildarumsókn í stað þess að leggja fyrst málið upp, kynna staðreyndir, hvetja til skoðanaskipta? Hvað hafa ESB sinnar að óttast ef ESB er svona augljóslega besti kosturinn í stöðunni?
Hvers vegna þurfum við að taka ákvörðun í flaustri sem varðar alla framtíð og komandi kynslóðir?
Það er búið að telja þjóðinni trú um að ekkert komi í ljós fyrr en í aðildarviðræðum, en þá komi allt í ljós og þá geti menn gert upp hug sinn vel upplýstir.
Hið sanna er að aðildarviðræður hefjast aðeins með umsókn. Allar þjóðir sem hafa sótt um aðild, hafa náð samningi.
Náist samningur hlýtur hann að teljast ásættanlegur af þeim sem hafa umboð til samninga (ríkisstjórn og ESB). Hún mun því leggjast á árarnar með ESB að selja þjóðinni samninginn sem ásættanlega niðurstöðu.
Ríkisstjórnin, ESB og ESB sinnar munu reka áróður fyrir að samningurinn verði samþykktur í þjóðaratkvæði. Það verður ójafn leikur.
Aðeins ein þjóð, Norðmenn, hefur staðist slíkan þrýsting og það mjög naumlega. En Norðmenn voru ekki hnípin þjóð í vanda eins og Íslendingar er nú.
Ef við sækjum um núna verður aldrei hlutlaus umræða um kosti og galla aðildar.
Hlutlaus umræða getur aðeins átt sér stað ef fram fer tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla. Umræðan þarf að eiga sér stað áður en Ríkisstjórnin hefur sótt um og náð samningi. Þetta vita ESB sinnar og þess vegna vilja þeir sækja strax um. í óðagoti.
Munum að við erum að fjalla um eina stærstu ákvörðun í sögu þjóðarinnar. Við þurfum að vanda okkur, megum ekki stytta okkur leið um of - við berum ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum.